Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-117

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Sigurjóni Þórissyni Fjeldsted (Björgvin Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Húsbrot
  • Líkamsárás
  • Börn
  • Skilorðsrof
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 27. febrúar 2019 leitar Sigurjón Þórisson Fjeldsted eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 1. sama mánaðar í málinu nr. 150/2018: Ákæruvaldið gegn Sigurjóni Þórissyni Fjeldsted, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.

Með framangreindum dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms frá 21. nóvember 2017 um að sakfella leyfisbeiðanda fyrir að hafa brotið gegn 231. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ruðst heimildarlaust inn í íbúð og veist þar að nafngreindum manni með nánar tilgreindum afleiðingum. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með því að hafa sýnt af sér ógnandi og vanvirðandi háttsemi gagnvart tveimur börnum umrætt sinn. Með háttseminni rauf leyfisbeiðandi skilorð og var refsing hans ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Þá var honum gert að greiða brotaþolum skaðabætur.

Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Byggir hann á því að meðferð málsins í héraði hafi verið stórlega ábótavant þar sem dómur hefði átt að vera fjölskipaður, en fyrir hafi legið að niðurstaða þess myndi að verulega leyti ráðast af mati á munnlegum framburði fyrir dómi, sbr. þágildandi 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008. Hafi þessi annmarki jafnframt leitt til rangs sönnunarmats á munnlegum framburði. Þá telur hann að samningu héraðsdóms hafi verið stórlega ábótavant. Um dóm Landsréttar ber leyfisbeiðandi því við að réttur hans til réttlátrar og milliliðalausrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu, hafi verið virtur að vettugi. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að dómur Landsréttar sé rangur að efni til að því er varðar sönnunarmat og ákvörðun refsingar.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða af öðrum ástæðum sé mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðninni því hafnað.