Hæstiréttur íslands
Mál nr. 182/2006
Lykilorð
- Sjómaður
- Veikindaforföll
- Laun
- Tómlæti
|
|
Fimmtudaginn 9. nóvember 2006. |
|
Nr. 182/2006. |
Festarfell ehf. (Garðar Garðarsson hrl.) gegn Ísak Valdimarssyni (Jónas Haraldsson hrl.) |
Sjómenn. Veikindaforföll. Laun. Tómlæti.
Í var ráðinn til starfa hjá F frá 16. ágúst 2001 sem skipstjóri á skipinu E og gegndi hann þeirri stöðu í annarri hvorri veiðiferð á móti S. Eftir lok loðnuvertíðar í mars 2002 var gert hlé á útgerð skipsins fram yfir miðjan júní á sama ári. Meðan á því stóð veiktist Í alvarlega og var frá vinnu þar til í desember sama ár, en á því tímabili gegndi S einn stöðu skipstjóra að því leyti sem skipinu var haldið til veiða. F viðurkenndi rétt Í til launa vegna veikindaforfalla í tvo mánuði og greiddi honum 2.592.729 krónur. Með bréfi 10. desember 2004 krafði Í F um mismuninn á þessari greiðslu og þeim fullu launum, sem S hafði borið úr býtum á fyrstu tveimur mánuðum veikindaforfalla Í, auk kauptryggingar vegna hluta þessa tímabils. Ekki lá annað fyrir en að Í hefði tekið við uppgjöri veikindalauna á árinu 2002 án nokkurs fyrirvara eða athugasemdar. Að loknu veikindaleyfi í desember 2002 tók hann aftur við fyrra starfi hjá F, sem hann gegndi þar til tæpum mánuði áður en hann hreyfði 10. desember 2004 í fyrsta sinn kröfu um greiðslu frekari launa í veikindaforföllum sínum. Með þessu var talið að Í hefði sýnt af sér stórfellt tómlæti um að halda fram ætluðum rétti sínum í þessum efnum. Þegar af þeirri ástæðu var F sýknaður af kröfu Í.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. apríl 2006. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins var stefndi ráðinn til starfa hjá áfrýjanda frá 16. ágúst 2001 sem skipstjóri á nótaveiðiskipinu Erni KE 13, en á þeim tíma bar áfrýjandi heitið Festi hf. Frá því í september 2001 gerði áfrýjandi skipið út til síldveiða, sem virðist hafa lokið í desember á sama ári, en til loðnuveiða frá janúar til mars 2002. Fyrir liggur að á sama tímabili starfaði jafnframt hjá áfrýjanda Sævar B. Þórarinsson, sem gegndi stöðu skipstjóra í annarri hvorri veiðiferð á móti stefnda. Eftir lok loðnuvertíðar í mars 2002 var gert hlé á útgerð skipsins fram yfir miðjan júní á sama ári. Meðan á því stóð veiktist stefndi alvarlega 4. júní 2002 og var frá vinnu af þeim sökum þar til í desember sama ár, en á því tímabili gegndi Sævar einn stöðu skipstjóra að því leyti, sem skipinu var haldið til veiða. Áfrýjandi viðurkenndi rétt stefnda samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 til launa vegna þessara veikindaforfalla í tvo mánuði og greiddi honum af þeim sökum samtals 2.592.729 krónur. Áfrýjandi kveður þetta vera helming fjárhæðarinnar, sem Sævar fékk vegna starfa sinna á því tímabili, og þar með sem næst þau laun, sem stefndi hefði fengið ef veikindi hans hefðu ekki borið að höndum. Með bréfi 10. desember 2004 krafði stefndi áfrýjanda um mismuninn á þessari greiðslu og þeim fullu launum, sem Sævar hafði borið úr býtum á fyrstu tveimur mánuðum veikindaforfalla stefnda, auk kauptryggingar vegna hluta þessa tímabils, allt með nánar tilgreindum fjárhæðum. Mál þetta var síðan höfðað með stefnu 3. janúar 2005.
Í málinu liggur ekki annað fyrir en að stefndi hafi tekið við uppgjöri veikindalauna á árinu 2002 án nokkurs fyrirvara eða athugasemdar. Að loknu veikindaleyfi í desember 2002 tók stefndi aftur við fyrra starfi hjá áfrýjanda, sem hann gegndi samkvæmt gögnum málsins þar til tæpum mánuði áður en hann hreyfði 10. desember 2004 í fyrsta sinn kröfu um greiðslu frekari launa í veikindaforföllum sínum. Með þessu hefur stefndi sýnt af sér stórfellt tómlæti um að halda fram ætluðum rétti sínum í þessum efnum. Þegar af þeirri ástæðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu hans, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 24. janúar 1991 í máli nr. 370/1989, sem birtur er í dómasafni 1991, bls. 70.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Festarfell ehf., er sýkn af kröfu stefnda, Ísaks Valdimarssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 18. janúar 2006.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 21. desember sl., er höfðað af Ísak Valdimarssyni, kt. 190840-4929, Borgarlandi 9, Víðimýri 11, Neskaupsstað með stefnu birtri 6. janúar 2005 á hendur Festarfelli ehf. (áður Festi ehf.), kt. 590371-0769, Krossey, Höfn í Hornafirði.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, Festarfell ehf., verði dæmt til að greiða stefnanda 2.738.976 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. janúar 2005 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu og að tekið verði tillit til þess að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins, hver sem úrslit málsins verða.
II.
Málavextir.
Stefnandi kveðst hafa gegnt stöðu skipstjóra á Erni KE-13, skipaskrárnúmer 1012, 566 brúttórúmlesta nóta- og togveiðiskipi, sem hafi verið í eigu og útgerð stefnda er atvik gerðust. Kveðst hann hafa hafið störf á skipinu 24. maí 2001 og verið fastráðinn í stöðu skipstjóra þegar hann forfallaðist frá vinnu vegna alvarlegra veikinda 4. júní 2002. Þann dag hafi stefnandi greinst með krabbamein í ristli og að mati lækna hafi meinið verið komið á mjög alvarlegt stig. Stefnandi hafi verið forfallaður frá vinnu vegna veikinda sinna til mánaðamóta nóvember/desember 2002.
Ekki hafi verið gerður við stefnanda skriflegur ráðningarsamningur, skiprúmssamningur, við upphaf ráðningar hans til skipstjórnarstarfa á Erni KE-13, þrátt fyrir skyldu stefnda til þess samkvæmt 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Stefnandi hafi þó verið ráðinn ótímabundið til starfa sem annar tveggja skipstjóra Arnar KE. Að jafnaði hafi hann róið 10 daga í senn og síðan verið í 10 daga fríi. Hann hafi með öðrum orðum verið í svokölluðu skiptimannakerfi og skipstjórinn Sævar Þórarinsson, kt. 210650-7689, hafi gegnt skipstjórastöðunni á móti honum.
Stefnandi hafi átt rétt á staðgengilslaunum í veikindaforföllum sínum að hámarki í tvo mánuði samkvæmt 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Stefndi hafi hins vegar greitt stefnanda laun með vísan til fyrrgreinds skiptimannakerfis í tvo mánuði og hafi stefnandi þar af leiðandi einungis fengið greiddan helminginn af staðgengilslaunum skipstjóra á hinu tveggja mánaða tímabili. Hafi stefnandi talið að stefndi hefði gert laun í veikindaforföllunum upp með réttum hætti enda talið fyrirsvarsmenn stefnda hafa vitað hvað þeir væru að gera. Það hafi ekki verið fyrr en hann frétti af dómi Hæstaréttar í máli nr. 210/2004, sem kveðinn hafi verið upp 28. október 2004, að hann hafi farið að kynna sér réttarstöðu sína í veikindaforföllunum og komist að hinu sanna.
Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 10. desember 2004, sé stefndi krafinn um mismun greiddra og vangreiddra launa í veikindaforföllunum. Stefnda hafi verið gefinn kostur á að leiðrétta launauppgjör stefnda fyrir 22. desember 2004. Að öðrum kosti hafi verið áskilinn réttur til að höfða má1 á hendur stefnda án frekari fyrirvara. Innheimtubréfi þessu hafi í engu verið sinnt af hálfu stefnda og sé málshöfðun þessi því nauðsynleg.
Stefndi kveður það rétt vra að stefnandi hafi verið starfsmaður hans á árinu 2002. Hafi hann verið í hálfu starfi sem skipstjóri á loðnuvertíð á mb. Erni KE á móti Sævari Þórarinssyni, en verið afskráður af því skipi í lok vertíðar eða þann 26. mars og þá farið í launalaust leyfi. Eftir það hafi stefnandi verið skráður skipstjóri á mb. Þórshamri GK frá 4. til 8. maí 2002. Þann 4. júní 2002 hafi stefnandi greinst með sjúkdóm, sem valdið hafi óvinnufærni hans fram í desember það ár.
Stefnandi hafi verið ráðinn í hálft starf. Starfskyldur sínar hafi hann innt af hendi í samráði við nefndan Sævar, sem einnig hafi verið í hálfu starfi, á móti stefnanda. Muni þeir hafa skipt starfinu þannig að þeir hafi tekið við hvor af öðrum á u.þ.b. 10 daga fresti, eftir því hvernig stóð á löndun. Þeir stefnandi og Sævar hafi verið lögskráðir á skipið þegar þeir, hvor fyrir sig, tóku við stjórn og voru afskráðir eftir u.þ.b. 10 daga, í lok viðkomandi veiðiferðar. Uppgjöri við þá muni hafa verið hagað eftir því hvert aflaverðmæti skipsins var þá veiðiferð/ þær veiðiferðir sem viðkomandi aðili stjórnaði skipinu, en að jafnaði muni það hafa verið nokkuð jöfn skipting.
Vegna veikinda stefnanda hafi nefndur Sævar verið ráðinn sem skipstjóri í fullt starf, þ.e. hann hafi bætt starfi stefnanda við sitt starf. Skipið hafi haldið til loðnuveiða þann 16. júní 2002 og verið að veiðum til 26. júlí, en þá hafi sumarloðnuúthaldinu lokið. Sævari hafi verið greiddur fullur skipstjórahlutur fyrir þetta úthald, þ.e, hann hafi einnig fengið þau laun, sem stefnandi hefði fengið ef hann hefði ekki veikst.
Þótt stefnandi hafi verið skipstjóri á Þórshamri GK, næst áður en hann veiktist, hafi hann gert kröfu til þess að hann fengi greidd laun þau, sem hann hefði haft sem skipstjóri á Erni KE í tvo mánuði í samræmi við 36. gr. sjómannalaga. Stefndi hafi orðið við þessu og greitt honum helming þess, sem Sævar hefði fengið fyrir fullt starf á umræddu tímabili. Stefnandi hafi að fullu verið samþykkur þessari aðferð við uppgjör við hann og hafi ekki hreyft þessu máli í tæp þrjú ár fyrr en nú.
III.
Málsástæður
Málsástæður stefnanda.
Stefnandi hafi gegnt stöðu skipstjóra á nóta- og togveiðiskipinu Erni KE-13, skipaskrárnúmer 1012, og hafi hann hafið störf á skipinu 24. maí 2001. Hafi hann því öðlast rétt til staðgengilslauna í veikindaforföllum samkvæmt 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, að hámarki í tvo mánuði, er hann forfallaðist frá vinnu vegna alvarlegra veikinda 4. júní 2002. Forföllin vegna veikindanna hafi staðið yfir til 1. desember 2002, sbr. læknisvottorð á dskj. nr. 5, en samkvæmt vottorðinu hafi stefnandi verið frá vinnu á þessu tímabili vegna alvarlegra veikinda.
Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 skuli skipverji, sem verði óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla á ráðningartíma, eigi missa neins af í launum sínum í hverju sem þau séu greidd, svo lengi sem hann sé óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en tvo mánuði. Skipverji sem forfallist vegna veikinda eigi þó ekki rétt til launa í fleiri daga en hann hefur verið í þjónustu útgerðarmanns. Stefnandi hefði verið í þjónustu stefnda frá 24. maí 2001 er hann hafi forfallast frá vinnu vegna veikinda 4. júní 2002, sbr. lögskráningarvottorð stefnanda á dskj. nr. 6. Ráðningardagar stefnanda frá því að hann hóf störf á Erni KE og þar til hann forfallaðist vegna veikindanna hafi verið 376 en lögskráðir dagar samkvæmt fyrr nefndu lögskráningarvottorði hafi verið 113. Megi því slá því föstu að stefnandi hafi verið búinn að öðlast rétt til fullra tveggja mánaða staðgengilslauna úr hendi stefnda er hann forfallaðist frá vinnu sinni 4. júní 2002.
Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, taki skipverji, sem sé í launalausu fríi er hann forfallast frá vinnu vegna slysa eða veikinda, laun frá þeim tíma er hann skyldi hefja störf að nýju. Samkvæmt lögskráningarvottorði fyrir Örn KE-13, tímabilið 01.01.2002 til 08.12.2004, sbr. dskj. nr. 7, hafi stefnandi verið lögskráður úr skiprúmi 26. mars 2002 og þá hafi launalaust frí hans frá störfum hafist á milli veiðitímabila. Aftur hafi verið lögskráð í stöðu skipstjóra 18. júní 2002, en þá hafi Sævar B. Þórarinsson gegnt stöðunni, sbr. fyrr nefnt lögskráningarvottorð. Upphaf starfa stefnanda að afloknu launalausu leyfi miðist því við 18. jún 2002 og staðgengilslaunaréttur hans í veikindaforföllunum frá 18. júní til 18. ágúst 2002.
Samkvæmt launaseðli dags. 17. desember 2002, sbr. dskj. nr. 8, hafi heildarlaun stefnanda í veikindaforföllunum frá 4. júní til 1. desember 2002 numið 2.592.729 krónum. Inn á launaseðilinn hafi verið ritað Júní og Júlí veikindalaun og við innáskriftina hafi verið stimplað Festi hf Kt. 590371-0769.
Samkvæmt launaseðlum skipstjórans á Erni KE-13, Sævars Þórarinssonar, kt. 210650-7689, fyrir tímabilið 18. júní til 26. júlí 2002, hafi heildarlaun hans á tímabilinu numið 5.185.459 krónum, sbr. dskj. nr. 9 og 10. Heildarlaun stefnanda í veikindaforfölluntun hefðu því átt að nema sömu fjárhæð með þeirri undantekningu þó að starfsaldursálag hans samkvæmt ákvæði greinar 1.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sbr. dskj. nr. 11, hafi átt að nema lægri fjárhæð en í hlut skipstjórans Sævars B. Þórarinssonar hafi komið. Sævar hafi fengið greitt starfsaldursálag að fjárhæð 11.058 krónur eða 12.183 krónur með orlofi. Stefnandi hafi hins vegar einungis átt rétt á 4.915 kr. (3.686/30*40=4.915) eða 5.414 kr. með orlofi á þessu 40 daga tímabili, sbr. launatöflu fiskimanna nr. 2/2002 með gildistíma frá 1. janúar 2002 á dskj. nr. 12. Skýrist þetta af því að Sævar hafði starfað lengur en 3 ár í þjónustu stefnda en stefnandi hafði unnið lengur en 2 ár hjá útgerðum innan Landssambands íslenskra útvegsmanna. Mismunurinn nemi hér 6.769 kr. að teknu tilliti til orlofs, 10,17%, ofan á starfsaldursálagið. Staðgengilslaun stefnanda á umræddu tímabili hafi því átt að nema 5.178.690 kr.
Samkvæmt framansögðu hafi staðgengilslaun stefnanda tímabilið 18. júní til 26. júlí 2002 átt að nema 5.178.690 kr. Stefnandi hafi hins vegar fengið greiddar 2.592.729 kr. eða mismun að fjárhæð 2.585.961 kr. Hafi þá ekki verið tekið tillit til launaréttar stefnanda í veikindaforföllunum frá 26. júlí til 18. ágúst 2002. Veiðum Arnar KE-13 hafi tímabundið verið hætt 26. júlí 2002, sbr. staðfestingu frá Fiskistofu um landanir skipsins fiskveiðiárið 1. september 2001 til 31. ágúst 2002 á dskj. nr. 13. Eigi stefnandi því rétt á tímakaupi frá 26. júlí til 18. ágúst 2002 enda engum aflahlut til að dreifa. Um sé að ræða 23 daga og fari um launarétt stefnanda á því tímabili samkvæmt ákvæðum kjarasamningsins á dskj. nr. 11 og launatöflunnar á dskj. nr. 12. Á fyrr nefndu tímabili hafi 16 virkir dagar fallið til og reiknist því laun stefnanda sem hér segir (endanlegar dómkröfur):
Dagvinnukaup skipstjóra (1.063 x 8 x 16) 136.064 kr.
Starfsaldursálag (2.916 / 30 x 23) 2.826 kr.
Orlof 10,17% 14.125 kr.
Samtals 153.015 kr.
Samkvæmt framansögðu hafi vangreidd laun stefnanda í veikindaforföllunum numið 2.738.976 kr. (2.585.961+153.015). Launaréttur stefnanda á milli veiðitímabila sé varinn af ákvæði 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, þar sem segi orðrétt:
“Skipverji tekur kaup frá og með þeim degi sem hann kemur til vinnu á skipinu. Þurfi hann að ferðast frá ráðningarstað til skips tekur hann kaup frá og með þeim degi er sú ferð hefst. - Skipverji tekur kaup til þess dags og að honum meðtöldum er ráðningu hans lýkur samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi og skiptir þá ekki máli þótt hann hafi áður verið afskráður. Um vinnu skipverja fer sem segir í kjarasamningum og lögum þessum. - Skipverji á ekki rétt á kaupi fyrir þann tíma sem hann hliðrar sér hjá að vinna án þess að næg ástæða sé til.”
Þá sæki réttur stefnanda til launa á milli veiðitímabila stoð í ákvæðum kjarasamnings milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, 3. mgr. greinar 1.32.:
“Vinni yfirmaður við bát á milli veiðitímabila, sé skipstjóri bundinn við það eða hafi yfirmaður eftirlit með því, skuli hann fá greidd laun samkvæmt tímakaupstöflu í 8 klst. á dag. Vinnutími í dagvinnu er 40 klst. á viku.”
Á hinu tveggja mánaða tímabili hafi stefnanda borið að fá öll þau laun greidd, sem fylgt hafi stöðu skipstjóra á Emi KE-13 og breyti engu um þá niðurstöðu að umrætt skiptimannakerfi hafi verið í gildi um borð í skipinu. Vísar stefnandi hér til niðurstöðu Hrd. 1985:1360.
Stefnandi hafi fengið uppgerð laun vegna veikindaforfalla sinna, í júní og júlí 2002, hjá stefnda, 17. desember 2002, þ.e. þann hluta sem stefndi hafi talið sig með réttu þurfa að gera upp, sbr. launaseðil á dskj. nr. 8. Þyki því rétt að vangreidd laun stefnanda í veikindaforföllunum beri dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi byggir kröfur sínar aðallega á 6. og 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og Hrd. 1985:1360. Þá er byggt á ákvæðum í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Um dráttarvexti vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um málskostnað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
Málsástæður stefnda.
Stefndi kveður að þegar lagaákvæði eins og 1. mgr. 36. gr. sjómannalaganna séu skýrð, sé ávallt nauðsynlegt að hafa í huga grundvallarrök sem að baki reglunum búa. Reglur um að launþegar skuli í ákveðinn tíma njóta fullra launa í forföllum vegna veikinda eða slysa, byggi á sjónarmiðum um samhjálp og séu gerðar til að tryggja betur en ella fjárhagslegt öryggi starfsmanna. Alltaf megi deila um það hversu háar slíkar bætur skuli vera eða hversu lengi starfsmaður skuli njóta þeirra. Sú niðurstaða sem komist hafi verið að varðandi þessi réttindi verkamanna og sjómanna með lögum frá 1979 og 1980 hafi byggt á þeim grunni að fyrst um sinn skyldu þessir aðilar „eigi missa neins í launum sínum í hverju sem þau eru greidd", þ.e. landverkamenn í einn mánuð, en sjómenn í tvo mánuði. Hafi þessi regla um ákvörðun launa verið nefnd „staðgengilsreglan" og bæturnar „staðgengilslaun". Þetta heiti á reglunni eigi að vísa til efnis hennar en sé ekki fyllilega nákvæmt, enda ráðist réttur viðkomandi til launa ekki af launum „staðgengils", hvort sem hann er ímyndaður eða ekki, heldur eigi sjómaðurinn rétt á að fá þau laun, sem hann hefði fengið ef veikindi eða slys hefðu ekki komið í veg fyrir að hann gæti gengt starfi sínu áfram, sbr. Hrd. 1994:2514, en þar segi Hæstiréttur um ákvæði 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga:
„ Lagaákvæðið er svo afdráttarlaust, að það verður eigi skilið öðruvísi en svo, í því samhengi, sem hér reynir á, að stefndi eigi rétt til þeirra launa, sem hann hefði fengið greidd fyrir að gegna starfi sínu áfram, ef veikindi hefðu ekki gert hann ófæran til þess. "
Ofangreint ákvæði hafi komið inn sem breyting á 18. gr. sjómannalaga nr. 67/1963, með lögum nr. 49/1980 og hafi tilgangurinn með þeim lögum verið sá, að veita sjómönnum sama rétt til uppsagnarfrests og launa vegna sjúkdóms og slysaforfalla og landverkafólk hafði fengið árinu á undan með l. nr. 19/1979.
Í greinargerð með frumvarpi því, sem orðið hafi að lögum nr. 49/1980, svo og í umræðum um frumvarpið á Alþingi komi skýrt fram að ofangreint ákvæði, sem nú sé 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga, beri að skýra svo að ekki sé beinlínis ætlast til þess að menn græði fjárhagslega á veikindum, heldur að þeir verði ekki fyrir tapi.
Stefndi kveður það grundvallaratriði að launþegi eigi ekki að hagnast á slysi eða veikindum á kostnað vinnuveitanda síns. Í þessu sambandi megi einnig taka fram að vafasamt verði að telja að löggjafinn hafi heimild til þess að kveða á um skyldu vinnuveitanda til að greiða starfsmanni sínum bætur umfram tjón eða laun í veikindaforföllum, sem séu hærri en umsamin laun, og enn vafasamara verði að telja heimild löggjafans til þess að mismuna vinnuveitendum að þessu leyti. Í öllu falli verði að ætla að slíkt frávik frá meginreglunni yrði að koma fram með skýrum hætti í texta laganna og að færð væru fram gild rök fyrir slíku fráviki í greinargerð. Hvorugu hafi verið fyrir að fara við setningu laga nr. 49/1980.
Í texta 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga sé ekki að finna ákvæði þess efnis að sjómenn skuli fá slysa- eða veikindalaun, sem séu hærri en þau laun, sem þeir hefðu notið óforfallaðir og engin rök séu færð fyrir því í greinargerð að vikið sé frá hinni mikilvægu meginreglu um að launþegi eigi ekki að hagnast á veikindum sínum.
Í málinu liggi fyrir að stefnandi hafi verið í hálfu starfi. Hann hafi fengið greidd laun í veikindum sínum miðað við þau laun, sem ætla mætti að hann hefði fengið ef hann hefði ekki veikst. Launin hafi verið miðuð við hálfan aflahlut skipstjóra fyrir loðnuúthaldið, enda hafi það verið í samræmi við starfshlutfall hans og ráðningarkjör. Hann eigi ekki rétt á frekari launum og því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda um frekari laun á úthaldstímanum.
Eðlileg
skýring á orðum “eigi missa neins í af launum sínum”, sé sú að sjómaður á leið í frí, sem forfallast, skuli halda fullum
rétti til 2ja mánaða staðgengilslauna burt séð frá væntanlegu launalausu leyfi,
þannig að sá tími, sem hann er í launalausu leyfi, dragist ekki frá umræddum
2ja mánaða staðgengilslaunarétti hans, en á móti fái hann ekki forfallalaun
þann tíma, sem hann hefði sannanlega átt að vera í launalausu leyfi, en það
eigi einmitt við um þá kröfu sem stefnandi
geri um "dagvinnulaun" eftir að úthaldi Arnar KE lauk. Um þá kröfu
megi annars segja það, að kjarasamningar geri ekki ráð fyrir að slík laun séu
greidd milli úthalda nema viðkomandi vinni við skip sitt eða hafi eftirlit með
því milli veiðitímabila. Slík krafa hafi af eðlilegum ástæðum ekki verið gerð
til stefnanda og heldur ekki til Sævars, sem tekið hafi yfir vinnuskyldur
stefnanda. Hafi ekki verið venja að krefjast slíks vinnuframlags af stefnanda
og hafi veikindi hans ekki breytt réttarstöðu hans í þessu efni; hvorki til
hins verra né betra. Milli úthalda hafi stefnandi verið í launalausu leyfi.
Í annan stað sé bent á það, að föst dómvenja sé fyrir því í svona málum að sjómenn krefjist bóta fyrir missi kauptryggingar (eins og stefnandi hafi raunar gert í upphafi), en ekki tímakaups eins og stefnandi gerir nú. Stefnandi hafi í stefnu ekki krafist bóta á grundvelli kauptryggingar og leiði réttarfarsreglur til þess að hann geti ekki breytt kröfugerð sinni nú í það horf. Þegar af þessum sökum beri að sýkna stefnda af öllum kröfum vegna þessa þáttar málsins.
Eins og skýrt hafi verið hér framar, þá hafi stefndi gert að fullu upp við stefnanda þegar á árinu 2002 og hafi fullt samkomulag verið um það uppgjör með aðilum. Hefði stefnandi talið sig eiga aðrar og frekari kröfur á hendur stefnda hefði honum borið að gera þær strax í upphafi. Með tómlæti sínu hafi hann firrt sig rétti til frekari greiðslna, hafi sá réttur yfirhöfuð verið til staðar, sem hér hafi verið mótmælt.
Af hálfu stefnda er bent á að í máli nr. 210/2004 séu atvik ekki með þeim hætti að þau eigi við hér. Þar hefði veikum sjómanni verið sagt upp störfum, en Hæstiréttur talið að ekki mætti breyta ráðningarsamningi sjómannsins við þær aðstæður. Stefnanda hafi ekki verið sagt upp; þvert á móti hafi stefndi efnt lagaskyldur sínar og ráðningarsamning sinn við stefnanda að fullu.
Af hálfu stefnda er vaxtakröfu stefnanda, bæði vaxtafæti og upphafsdegi vaxta, mótmælt sérstaklega. Vexti, ef þeir komi til, ætti í fyrsta falli að dæma frá dómsuppsögudegi.
IV.
Niðurstaða
Stefnandi var forfallaður frá vinnu vegna alvarlegra veikinda frá 4. júní til 1. desember 2002. Uppgjör launa í veikindaforföllum fór fram 17. desember 2002, sbr. launaseðil á dskj. nr. 8. Tæpum 24 mánuðum síðar krafðist stefnandi fullra laun í veikindaforföllum, sbr. bréf lögmanns hans til stefnda dags. 10. desember 2004. Ekki verður talið að stefnandi hafi sýnt slíkt tómlæti um að hafa uppi kröfur sínar gagnvart stefnda, að hann hafi af þeim ástæðum firrt sig rétti í málinu.
Í 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 segir að verði skipverji óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla á meðan á ráðningartíma stendur, skuli hann ekki missa neins af í launum sínum í hverju sem þau séu greidd svo lengi sem hann sé óvinnufær, þó ekki lengur en tvo mánuði. Óumdeilt er að stefnandi var búinn að öðlast rétt til fullra tveggja mánaða veikindalauna samkvæmt 36. gr. sjómannalaga úr hendi stefnda er hann forfallaðist frá vinnu sinni 4. júní 2002.
Með skírskotun til dómafordæma, sérstaklega dóms Hæstaréttar í málinu nr. 207/2005, á stefnandi rétt á veikindalaunum í fulla tvo mánuði , þrátt fyrir að svokallað skiptimannakerfi hafi gilt um borð og að annar skipstjóri hafi gegnt stöðunni á móti honum. Sömu sjónarmið koma einnig fram í H. 1990.1246, H. 1994.2514 og málum nr. 210/2004 og 202/2004.
Samkvæmt framansögðu á stefnandi rétt á staðgengilslaunum fyrir tímabilið 18. júní 2002, þegar stefnandi skyldi koma aftur til starfa að loknu launalausu leyfi, til 26. júlí sama ár, þegar veiðum skipsins var hætt tímabundið. Er krafa stefnanda að fjárhæð 2.585.961 króna vegna þessa tímabils tekin til greina að fullu, en um hana er ekki tölulegur ágreiningur.
Með vísan til 27. gr. sjómannalaga og með stoð í ákvæðum kjarasamnings milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, 3. mgr. greinar 1.32, er einnig fallist á að stefnandi eigi rétt á tímakaupi frá því veiðum lauk 26. júlí 2002 til 18. ágúst sama ár, en samkvæmt endanlegri kröfugerð stefnanda nemur sú krafa samtals 153.015 krónum. Kröfu þessari hefur ekki verið mótmælt tölulega af hálfu stefnda.
Samtals ber stefnda því að greiða stefnanda 2.738.976 krónur frá 10. janúar 2005 eins og krafist er, en þá var liðinn mánuður frá því að stefnandi sendi stefnda kröfubréf sitt, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Með hliðsjón af málsúrslitum þykir rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 249.000. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Einnig hefur verið tekið tillit til þess að lögmaður stefnanda þingfesti og flutti mál nr. E-30 og 31/2005, á hendur stefnda á sama á sama tíma og mál það, sem hér um ræðir.
Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri.
Dómsorð:
Stefnda, Festarfell ehf., greiði stefnanda, Ísak Valdimarssyni, 2.738.976 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. janúar 2005 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 249.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskatt.