Hæstiréttur íslands

Mál nr. 274/2003


Lykilorð

  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Umferðarlagabrot
  • Skilorð


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. október 2003.

Nr. 274/2003.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Óskari Marinó Sigurjónssyni

(Gísli M. Auðbergsson hdl.)

 

Líkamsmeiðing af gáleysi. Umferðarlagabrot. Skilorð.

Bifreiðarstjórarnir Ó og X voru í héraði sakfelldir fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot með því að hafa ekið of hratt miðað við aðstæður og án nægilegrar aðgæslu á miðju vegar yfir blindhæð, með þeim afleiðingum að bifreiðir þeirra skullu saman og hlaust af beinbrot eins farþega. Voru þeir báðir dæmdir í mánaðarlangt fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, auk sektargreiðslu. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóminn gagnvart Ó, sem stóð einn að áfrýjun.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. júní 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að hann verði sýknaður af broti gegn 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og sér verði að öðru leyti gerð vægasta refsing, sem lög leyfa.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Óskar Marinó Sigurjónsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Gísla M. Auðbergssonar héraðsdómslögmanns, 125.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Austurlands 7. maí 2003.

Mál þetta, sem dómtekið var 4. apríl sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Eskifirði, dagsettri 19. nóvember 2002 á hendur X […] og Óskari Marinó Sigurjónssyni, [ . . . ], “fyrir hegningar- og umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 10. maí 2002 ekið bifreiðum sínum í sunnanverðum Reyðarfirði, X í vesturátt og Óskar Marinó bifreiðinni MS-500 í austurátt, of hratt miðað við aðstæður og án nægilegrar aðgæslu með því að aka á miðju vegar yfir blindhæð á þjóðvegi nr. 96 skammt austan við Strandará, með þeim afleiðingum að bifreiðarnar skullu saman og við það kastaðist bifreiðin […] um sjö metra út af veginum í öfuga akstursstefnu, þrátt fyrir að ökumaður hennar reyndi að koma í veg fyrir árekstur með því að aka vinstra megin út af veginum, og hlaut farþegi í framsæti MS-500 við áreksturinn brot á úlnlið og eymsli á kvið.

Telst þetta varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 1. mgr. 14. gr., 1. mgr. 19. gr., 1. mgr. og e. lið 2. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57, 1997.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar”.

Af hálfu ákærða, X, er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds og málsvarnarlaun tildæmd úr ríkissjóði. Verði ákærða dæmd refsing er þess krafist að refsing verði felld niður eða ákærða dæmd vægasta refsing sem lög leyfa.

Af hálfu ákærða, Óskars Marinós, er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds og allur málskostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, greiðist úr ríkissjóði. Til vara er þess krafist að ákærða verði dæmd vægasta refsing fyrir umferðarlagabrotin og málskostnaður verði lagður á ríkissjóð.

 

I.

Föstudaginn 10. maí 2002 kl. 21:07 var lögreglu tilkynnt um árekstur milli bifreiðanna MS-500, af gerðinni Subaru Legacy, sem ákærði Óskar Marinó ók og [bifreiðar] af gerðinni […], sem ákærði X ók. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að bifreiðinni MS-500 hafi verið ekið austur Suðurfjarðarveg, yfir Strandarárbrú sem er einbreið og upp brekku, að því er virðist á miðju vegarins þar til henni var beygt yfir á hægri akrein á blindhæð ofan við brekkuna þar sem harður árekstur varð með henni og bifreiðinni […] sem ekið var úr gagnstæðri átt að því er virðist á öfugum vegarhelmingi. Við áreksturinn virðist aðalhöggið hafa komið á hægri framenda bifreiðarinnar MS-500 og miðjan framhluta bifreiðarinnar […]. Bifreiðin MS-500 hafi snúist við áreksturinn og stöðvaðast nánast þversum á veginum með afturendann til norðurs en bifreiðin […] hafi kastast 7 m aftur á bak og endaði út af veginum að sunnanverðu með framendann í norður aðeins upp á veginn. Heildarlengd bremsufara bifreiðarinnar MS-500 hafi mælst 38,4 m en engin bremsuför hafi verið sjáanleg eftir bifreiðina […] Hjólbarðar bifreiðarinnar MS-500 hafi virst vera í góðu lagi og nýir sumarhjólbarðar hafi verið undir bifreiðinni […]. Báðar bifreiðarnar hafi verið í óökuhæfu ástandi eftir áreksturinn.

Ákærði, X, var fluttur á sjúkrahús eftir áreksturinn ásamt E sem var með honum í bifreiðinni en hvorugt þeirra hlaut teljandi meiðsli. Þá var R, dóttir ákærða Óskars Marinós sem var farþegi í bifreið hans, flutt á sjúkrahús. Við læknisskoðun kom í ljós að hún var með töluverð eymsli í úlnlið vinstra megin og dálítið mar þar í kring. Þá var hún með far eftir öryggisbelti um neðanverðan kvið og talsvert aum þar í kring. Röntgenmynd staðfesti að hún var úlnliðsbrotin. Þá var hún talin með “mjúkpartaákverka” á neðanverðum kvið. 

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var skýjað og rökkur þegar slysið varð. Laust malarslitlag var á veginum og var það óslétt. Vegurinn var þurr.  Hámarkshraði á vegi var 80 km/klst.

Fyrir dóminn hafa verið lagðar myndir teknar af lögreglu af vettvangi og afstöðuteikning gerð af lögreglu. Á ljósmynd tekinni frá Strandarárbrú, í austur í akstursstefnu bifreiðarinnar MS-500, sést brekka sem sveigir til hægri og endar á blindhæðinni þar sem áreksturinn varð. Af afstöðuteikningu sést að bundið slitlag er í framhaldi af brúnni og um hálfa leiðina að slysstaðnum en malarslitlag eftir það. Bremsuför bifreiðarinnar MS-500, sem mældust 38,4 m, byrja skömmu eftir að hún er komin inn á malarslitlagið. Bremsuförin eru á ljósmynd auðkennd með keilum. Um helming hemlunarvegalengdarinnar er einungis bremsufar eftir hægri hjól en síðan taka við bremsuför beggja megin og eru þau vel greinanleg. Af bremsuförum má ráða að bifreiðinni MS-500 hafi verið ekið vinstra megin við miðju vegarins þegar byrjað var að bremsa en eftir það stefnir hún í átt að hægri akrein þangað sem hún er komin rétt áður en áreksturinn verður.

Af ljósmyndum sem teknar eru í vestur í akstursstefnu bifreiðarinnar […] sést að rétt fyrir áreksturinn hefur henni verið ekið fram hjá viðvörunarmerkjum sem staðsett eru beggja megin vegarins og gefa til kynna hættu vegna þess að einbreið brú er framundan. Jafnframt má greina að vegurinn er ekki beinn og útsýni framundan takmarkað. Ekki greindust hemlaför eftir bifreiðina […] sem búin var svokölluðu ABS hemlakerfi en hún staðnæmdist eftir áreksturinn vinstra megin vegar.

Ljósmyndir sýna að bifreiðarnar eru báðar mikið skemmdar að framan og virðist aðalhöggið hafa komið á hægri framenda bifreiðarinnar MS-500 og miðjan framhluta bifreiðarinnar […] þó meira hægra megin. Þá snerist bifreiðin MS-500 við áreksturinn og stöðvaðist nánast þversum á veginum með afturendann til norðurs en bifreiðin […] þeyttist við áreksturinn 7 m aftur á bak samkvæmt því sem greinir í lögregluskýrslu og endaði út af veginum að sunnanverðu með framendann í norður aðeins upp á veginn. Samkvæmt þessu hefur árekstur bifreiðanna, sem varð á hægri akrein bifreiðarinnar MS-500, verið mjög harður.

Dómari skoðaði vettvang ásamt sakarflytjendum og ákærðu áður en aðalmeðferð málsins hófst. Á veginum þar sem slysið varð skiptast á blindhæðir og beygjur. Útsýn fram á veginn er takmörkuð beggja megin við slysstaðinn.

Ekki eru aðrir til frásagnar um tildrög slyssins en ákærðu sjálfir og vitnið E sem var farþegi í bifreiðinni […] en R, dóttir ákærða, Óskars Marinós sem var farþegi í bifreið hans mun hafa legið út af í farþegasætinu þegar áreksturinn varð og því ekki séð aðdraganda hans.

Ákærði, X, sem var á leiðinni frá Fáskrúðsfirði á bifreiðinni […] kveðst ef til vill hafa ekið þessa leið einu sinni áður. Hann kveðst hafa ekið með um 80 km hraða á klukkustund en verið búinn að draga eitthvað úr hraðanum og ekið á miðjum vegi þegar hann kom á blindhæðina. Hann hafi skyndilega séð bifreiðina MS-500 koma á móti og hafi hann talið að honum myndi ekki vinnast tími til að fara yfir á hægri vegkant og hægja nægjanlega á hraða bifreiðar sinnar til að hann gæti mætt bifreiðinni MS-500. Hann hafi því stigið á bremsurnar og reynt að forða árekstri með því að aka út af veginum vinstra megin en ekki hafi verið árennilegt að fara út af hægra megin þar sem þverhnýpt sé niður að sjó.

Ákærði, Óskar Marinó, kveðst vera mjög vanur að aka veginn en hann var á leiðinni til Fáskrúðsfjarðar þar sem hann býr. Hann hafi ekið yfir Strandarárbrú með 60 km hraða á klukkustund en síðan aukið hraðann upp brekkuna og telja að hann hafi náð 70 km hraða á klukkustund. Hann hafi verið að komast út úr beygju og ekið á miðjum veginum. Þegar hann hafi komið á blindhæðina hafi hann orðið var við bifreiðina […], sem hafi verið að skera beygjur, koma á móti á öfugum vegarhelmingi. Um leið og hann hafi séð bifreiðna […] hafi hann byrjað að bremsa og færa sig yfir á réttan vegarhelming. Hann hafi ætlað að koma í veg fyrir árekstur með því að stöðva bifreiðina en nægjanlegt pláss hafi verið fyrir bifreiðarnar til að mætast. Hann hafi verið kominn alveg út í hægri kant þegar áreksturinn varð og hann haldi að hann hafi nánast verið stöðvaður.

Vitnið,E, sem var farþegi í bifreið ákærða, […], kveður hann hafa ekið upp brekkuna nærri miðju vegar. Kveður hún ákærða, sem hafi ekið varlega, hafa dregið verulega úr ökuhraðanum og verið í mesta lagi á 70 til 80 km hraða á klukkustund. Þegar þau hafi verið komin upp brekkuna hafi þau skyndilega séð bifreiðina MS-500 koma á móti á miðjum veginum og hafi ákærði reynt að forða árekstri með því bremsa og beygja til vinstri en það ekki tekist.

Vitnið, Þórhallur Árnason lögregluvarðstjóri, kveður akstur um veginn á slysstað krefjast sérstakrar varúðar enda séu varúðarskilti beggja megin við hann. Varúðarskiltið sem staðsett sé vestan við brúnna yfir Strandará vari við einbreiðri brú, blindhæð og kröppum beygjum. Sérstök ástæða sé fyrir þá sem séu á austurleið að draga úr hraða því nokkuð ofan við brúna sé blindhæð og beygja síðan strax á eftir en þar rétt innan við hafi slysið orðið. Hæfilegur hámarkshraði á veginum sé að hans áliti í mesta lagi 50 til 60 km/klst.

 

II.

Vegurinn þar sem áreksturinn varð er með lausu malarslitlagi sem var þurrt og óslétt. Á veginum skiptast á blindhæðir og beygjur.Fyrir liggur að vestan við árekstursstaðinn voru skilti beggja megin vegar sem vöruðu við einbreiðri brú. Hins liggur ekkert annað fyrir í málinu en framburður vitnisins Þórhalls Árnasonar lögregluvarðstjóri, um að beggja vegna slysstaðarins hafi verið varúðarskilti sem vöruðu við blindhæð og kröppum beygjum en sá framburður hans hefur hins vegar ekki verið dreginn í efa.

Fyrir liggur að árekstur með bifreiðum ákærða X og ákærða Óskars Marinós varð á hægri akrein þess síðarnefnda og vinstri akrein þess fyrrnefnda en hann hefur borið að hann hafi ætlað að forða árekstri með því að aka út af veginum vinstra megin. 

Ákærði, […], hefur viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni […] á miðjum vegi þegar hann sá bifreiðina MS-500 rétt áður en áreksturinn varð. Fær sá framburður hans stoð í framburði vitnisins E sem hefur borið að hann hafi ekið nær miðju vegar. Ákærði Óskar Marinó hefur hins vegar haldið því fram að bifreiðin […] hafi komið á móti honum á öfugum vegarhelmingi. Þar sem sýnilegra sönnunargagna nýtur ekki við um staðsetningu bifreiðarinnar […] á veginum fyrir áreksturinn verður að byggja á framburði ákærða sjálfs þar um sem studdur er framburði vitnisins E.

Ákærði Óskar Marinó hefur viðurkennt að þegar hann kom auga á bifreiðina […] á blindhæðinni hafi bifreið hans verið á miðjum vegi en eftir það hafi hann beygt til hægri. Vitnið E hefur borið að bifreiðin MS-500 hafi komið á móti þeim á miðjum vegi. Af myndum af vettvangi þykir ljóst að þegar ákærði Óskar Marinó byrjar að bremsa bifreiðinni MS-500 hefur hún verið staðsett örlítið til vinstri við miðju vegar en eftir það stefnir hún á hægri vegarhelming þangað sem hún er öll komin þegar áreksturinn varð. Er það í samræmi við það sem ákærði hefur sjálfur borið um akstur sinn.

Samkvæmt framanröktu þykir sannað að ákærðu hafi báðir ekið á miðjum vegi þegar þeir verða varir við bifreiðar hvors annars rétt áður en áreksturinn verður.

Af lengd bremsufara bifreiðarinnar MS-500 þykir ekki unnt að álykta um hraða hennar þar sem þau eru á lausum malarvegi. Þá liggur fyrir að engin bremsuför voru sýnileg eftir bifreiðina […] þrátt fyrir að ákærði, E, haldi því fram að hann hafi bremsað er hann varð bifreiðarinnar MS-500 var og vitnið E staðfesti það. Um ökuhraða ákærðu þykir ekki vera á öðru að byggja en framburði þeirra sjálfra og framburði vitnisins Eyglóar.

Með hliðsjón af því sem fyrir liggur um aðstæður á slysstað var sérstök ástæða til mikillrar varúðar við akstur á veginum. Þá liggur fyrir að rétt áður en slysið varð hafði ákærði […] ekið fram hjá aðvörunarskyltum með áletrun um einbreiða brú. Ákærði […] kveðst hafa ekið með 80 km hraða en eitthvað dregið úr honum upp brekkuna að árekstursstaðnum. Vitnið E hefur staðfest að ökuhraði ákærða hafi verið í mesta lagi 70 til 80 km/klst. Samkvæmt því sem fyrir þykir liggja samkvæmt framangreindu um ökuhraða ákærða, sem ekki þekkti veginn, er það álit dómsins að ákærði hafi í umrætt sinn ekið of hratt miðað við aðstæður. Einnig þykir ákærði hafa sýnt af sér alvarlegt aðgæsluleysi með því að aka á miðju vegarins.

Af ljósmyndum af vettvangi sést greinilega að eftir að einbreiðri brúnni á Strandará sleppir tekur við brekka sem sveigir til hægri og endar á blindhæð. Ákærði Óskar Marinó, sem þekkir veginn vel, kveðst hafa ekið yfir brúnna á 60 km hraða og aukið hraðann upp í 70 km/klst upp brekkuna að blindhæðinni. Það er álit dómsins að miðað við akstursaðstæður á veginum hafi ákærði ekið of hratt miðað við aðstæður. Þá þykir ákærði hafa sýnt af sér alvarlegt aðgæsluleysi með því að aka á miðju vegarins.

Það að ákærðu óku báðir of hratt miðað við aðstæður og á miðjum vegi verður talin megin orsök árekstursins. Það að ákærða Óskari Marinó tókst að komast yfir á hægri vegarhelming rétt áður en áreksturinn varð og það að ákærði X hefði getað afstýrt árekstri með því að beygja til hægri leysir ákærða Óskar Marinó ekki undan sök.

Afleiðingar áreksturssins urðu þær sem greinir í ákæru. Verða ákærðu báðir sakfelldir fyrir þá háttsemi sem að þeim er gefin að sök í ákæru. Telst háttsemi ákærða X varða við þau ákvæði umferðar- og hegningarlaga er greinir í ákæru, en háttsemi ákærða Óskars Marinós við þargreind ákvæði umferðar- og hegningarlaga að undanskildu ákvæði 1. mgr. 19. gr. umferðarlaga. Hafa ákærðu unnið sér til refsingar samkvæmt 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Verður refsing ákærðu ákveðin með hliðsjón af  77. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði X hefur ekki áður svo kunnugt sé gerst sekur um refsiverða háttsemi. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í einn mánuð, en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá skal ákærði greiða 60.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæta ella fangelsi í 14 daga.

Ákærði Óskar Marinó hefur ekki sætt refsingu frá árinu 1994 en þá gekkst hann undir greiðslu sektar með sátt fyrir brot gegn 1. mgr. 4. og 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga og sviptingu ökuréttar í 1 ár. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í einn mánuð, en fresta skal fullnustu þeirrar refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá skal ákærði greiða 60.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæta ella fangelsi í 14 daga.

Dæma ber ákærða X til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Gunnlaugssonar hdl., 100.000 krónur og ákærða Óskar Marinó til að greiða málsvarnarlaun skipaðs vejanda síns Gísla M. Auðbergssonar, hdl., 100.000 krónur. Annan sakarkostnað verða ákærðu dæmdir til að greiða óskipt.

Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri kvað upp dóminn. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómara.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í einn mánuð, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, X, greiði 60.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í 14 daga.

Ákærði, Óskar Marinó, sæti fangelsi í einn mánuð, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, Óskar Marinó, greiði 60.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í 14 daga.

Ákærði, X, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Gunnlaugssonar hdl., 100.000 krónur.

Ákærði, Óskar Marinó, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar, hdl., 100.000 krónur.

Annan sakarkostnað greiði ákærðu sameiginlega.