Hæstiréttur íslands
Mál nr. 157/2007
Lykilorð
- Nauðungarsala
- Vanefnd
- Skaðabætur
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 29. nóvember 2007. |
|
Nr. 157/2007. |
P. Jónsson ehf. (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Sýslumanninum í Hafnarfirði (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) |
Nauðungarsala. Vanefndir. Skaðabætur. Aðfinnslur.
P ehf. átti hæsta boð við nauðungarsölu á fasteign að Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði. Hann stóð ekki við boðið og var eignin seld þeim sem átti næsthæsta boð. S krafði P ehf. um bætur er námu mismuni á boði félagsins og því sem fékkst fyrir eignina. P ehf. hafnaði bótaskyldu og vísaði m.a. til þess að S hefði ekki gætt leiðbeiningarskyldu sinnar við uppboðið og því hefði fyrirsvarsmaður félagsins ekki gert sér grein fyrir að það yrði bundið við boð sitt og að mögulegt væri að krefja það bóta ef það stæði ekki við það. Ekki var talið sannað að kynning fyrir viðstöddum á almennum uppboðsskilmálum hefði farið fram eins og kveðið væri á um í 1. tölul. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 90/1991. Þar sem þær reglur, sem P ehf. tilgreindi sérstaklega, komu jafnframt fram í lögum, sbr. 2. og 5. tölul. 1. mgr. 28. gr. og 4. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1991, og að teknu tilliti til þess að um almennt þekktar meginreglur fjármunaréttar væri að ræða, var talið að P ehf. gæti ekki borið fyrir sig vanþekkingu á þeim. Þá var ekki fallist á að sú skylda hefði hvílt á S að leiðbeina P ehf. um að sýna aðgæslu þegar boð þess í eignina voru komin yfir 20 milljónir. Aðrar málsástæður P ehf. fyrir Hæstarétti þóttu of seint fram komnar og komu því ekki til álita. Með vísan til fyrrgreindra ákvæða laga nr. 90/1991 var fallist á kröfu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 2007. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Endanleg krafa stefnda er að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, þó þannig að dæmdir verði dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 250.000 krónum frá 14. mars til 22. mars 2006, af 500.000 krónum frá þeim degi til 22. maí 2006 en af 1.000.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Við nauðungarsölu 1. febrúar 2006 á fasteigninni Hvaleyrarbraut 22, eignarhluta 0102, í Hafnarfirði, var áfrýjandi hæstbjóðandi. Þar sem hann stóð ekki við boð sitt var eignin seld þeim er átti næsthæsta boð. Í máli þessu er áfrýjandi krafinn bóta er nemur mismuni á boði hans og því sem fékkst endanlega fyrir eignina.
Nauðungarsölu fasteignarinnar hefur ekki verið hnekkt með úrlausn á grundvelli XIV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Verður því lagt til grundvallar að nauðungarsalan sé gild. Áfrýjanda er eftir sem áður unnt að bera fyrir sig málsástæður er lúta að framkvæmd nauðungarsölunnar til stuðnings því að hann sé óbundinn af boði sínu og beri af þeim sökum ekki að greiða umkrafðar bætur fyrir að hafa ekki staðið við það.
Í fyrsta lagi telur áfrýjandi sig óbundinn af boði sínu þar sem uppboðsskilmálar hafi ekki verið kynntir á uppboðinu. Af þeim sökum hafi hann ekki gert sér grein fyrir því að hann yrði bundinn við boð sitt og að mögulegt væri að krefja hann bóta er næmu mismuni á boði hans og því sem fékkst endanlega fyrir eignina samkvæmt 5. mgr. 4. gr. auglýsingar nr. 41/1992 um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á fasteignum o.fl.
Áður en boða er leitað í eign á uppboði skal eintak almennra skilmála að jafnaði liggja fyrir og meginefni þeirra kynnt viðstöddum ef þeim má ekki vera það kunnugt að fyrra bragði, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 90/1991. Skal þessa einnig gætt við framhaldsuppboð eftir því sem við á, sbr. 1. mgr. 36. gr. sömu laga, en hér var um slíkt uppboð að ræða. Í málinu er ekki sannað að þess háttar kynning hafi farið fram á hinum almennu skilmálum áður en boða var leitað.
Samkvæmt 28. gr. laga nr. 90/1991 setur dómsmálaráðherra almenna skilmála fyrir uppboðssölu á fasteignum. Samkvæmt 2. og 5. tölul. 1. mgr. 28. gr. skal í þeim meðal annars kveðið á um að þeir sem geri boð í eign séu bundnir við þau um tiltekinn tíma frá því uppboði lýkur og að verði vanefndir af hendi kaupanda geti sýslumaður haldið kaupunum upp á hann eða rift þeim og skuli kaupandi ábyrgjast allt tjón sem hlýst af vanefndum. Í 4. mgr. 39. gr. laganna er þessi regla áréttuð en þar er mælt svo fyrir að krefja megi þann sem vanefnir boð sitt um mismuninn á boðinu og því sem fæst endanlega fyrir eignina. Almennir skilmálar fyrir uppboðssölu á fasteignum o.fl. voru birtir í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 41/1992 sem fyrr var nefnd.
Þær reglur skilmálanna, sem áfrýjandi tilgreinir sérstaklega að hann hafi ekki þekkt, koma jafnframt fram í lögum nr. 90/1991. Að þessu athuguðu og með vísan til þess að um almennt þekktar meginreglur fjármunaréttar er að ræða getur áfrýjandi ekki borið fyrir sig vanþekkingu á þeim, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað. Verður því ekki fallist á málsástæðu áfrýjanda sem að þessu lýtur.
Í öðru lagi telur áfrýjandi sig óbundinn af boði sínu þar sem löglærður fulltrúi sýslumanns, sem fór með framkvæmd uppboðsins, hafi ekki að eigin frumkvæði veitt honum leiðbeiningar í samræmi við almennar reglur réttarfars og vísar hann í því efni til 4. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hafi fulltrúanum þannig borið að leiðbeina áfrýjanda um að sýna aðgæslu þegar boð hans í eignina voru komin yfir 20 milljón krónur.
Óumdeilt er í málinu að fyrirsvarsmaður áfrýjanda á uppboðinu leitaði ekki sérstaklega eftir leiðbeiningum hjá þeim fulltrúa sýslumanns, sem fór með framkvæmd nauðungarsölunnar, um reglur þær er gilda um hana. Verður skylda til leiðbeininga um framangreind atriði því ekki reist á 2. mgr. 14. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Almennar reglur rétttarfars gilda ekki um framkvæmd nauðungarsölu nema sérstaklega sé til þeirra vísað í lögum. Mælt er fyrir um leiðbeiningarskyldu sýslumanns við nauðungarsölu í 2. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1991. Þar kemur fram að sýslumaður skuli, þegar hann tekur fyrir beiðni um nauðungarsölu, veita gerðaþola eða þeim sem mætir fyrir hans hönd, nauðsynlegar leiðbeiningar um réttarstöðu hans og kröfu gerðarbeiðanda á sama hátt og dómara í einkamáli ber að leiðbeina ólöglærðum málsaðila. Þar sem í lögunum er á hinn bóginn ekki mælt fyrir um samsvarandi leiðbeiningarskyldu gagnvart ólöglærðum bjóðendum eða öðrum þeim, sem viðstaddir eru uppboð, verður hún ekki talin vera fyrir hendi. Ekki verður því heldur fallist á þessa málsástæðu áfrýjanda.
Ekki verður séð að áfrýjandi hafi borið fyrir sig í héraði að hann væri óbundinn af boði sínu í eignina þar sem skilyrði fyrir samþykki sýslumanns á boðinu, um að greiðsla bærist fyrir tiltekinn tíma, hafi ekki verið fullnægt af hálfu áfrýjanda. Þá var þar ekki hreyft þeirri málsástæðu að sýslumaður hefði látið hjá liða að fara að fyrirmælum 2. mgr. 47. gr. laga nr. 90/1991 um að boða áfrýjanda til fyrirtöku þar sem ákveða átti hvort kaupunum yrði rift. Loks verður ekki séð að áfrýjandi hafi borið fyrir sig í héraði að ákvörðun um að krefja hann um bætur fyrir að standa ekki við boð sitt hafi ekki verið löglega tekin. Teljast þessar málsástæður of seint fram komnar, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991, og koma því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest að öðru leyti en um vexti sem dæmdir verða í samræmi við breytta kröfu stefnda.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Áfrýjandi lagði fram greinargerð sína í héraði 5. júlí 2006. Þegar málið var tekið fyrir 27. september 2006 lagði stefndi fram bréf sitt til lögmanns síns sem hafði inni að halda „umsögn sýslumannsins í Hafnarfirði vegna máls E-942/2006“ eins og það var nefnt í bréfinu sjálfu. Bréf þetta hafði að geyma skrifleg andsvör við greinargerð áfrýjanda. Lög nr. 91/1991 leyfa ekki að lögð séu fram í einkamálum málflutningsskjöl af þessum toga, nema þingsókn stefnda hafi fallið niður, sbr. 3. mgr. 96. gr. laganna. Var framlagning skjalsins aðfinnsluverð.
Dómsorð:
Áfrýjandi, P. Jónsson ehf., greiði stefnda, sýslumanninum í Hafnarfirði, 1.000.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 250.000 krónum frá 14. mars til 22. mars 2006, af 500.000 krónum frá þeim degi til 22. maí 2006 en af 1.000.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er óraskað.
Áfrýjandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. desember 2006.
Mál þetta var dómtekið 15. nóvember s.l. að loknum munnlegum málflutningi.
Stefnandi er Sýslumaðurinn í Hafnarfirði, kt. 490169-5559, Bæjarhrauni 18, Hafnarfirði, en stefndi er P. Jónsson ehf., kt. 711297-2789, Þúfukoti, Mosfellsbæ.
Lögmaður stefnanda er Leifur Árnason, hdl. en lögmaður stefnda er Magnús B. Brynjólfsson, hdl.
I. Dómkröfur.
Stefnandi krefst þess, að stefndi greiði sér skuld að fjárhæð 1.000.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 37/2001 af kr. 1.000.000 frá 14.03.2006 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda auk þess sem hann krefst málskostnaðar sér að skaðlausu.
II. Málsástæður og lagarök.
Stefnandi kveður málsatvik hafa verið með þeim hætti að þann 1. febrúar 2006 hafi fasteignin Hvaleyrarbraut 22, 0102, Hafnarfirði verið seld nauðungarsölu. Hæstbjóðandi hafi verið stefndi, P. Jónsson ehf. og hafi hæsta boð verið 27.000.000 krónur. Kveður stefnandi að stefndi hafi ekki staðið við boð sitt og hafi sýslumaður þurft að taka boði næst hæstbjóðanda, Einarhaldsfélagsins Hvaleyrarholts ehf., sem var 26.000.000 krónur. Stefnandi hafi rift kaupum stefnda á eigninni. Með innheimtuumboði dagsettu 23. mars 2006 hafi sýslumaður veitt lögmanni stefnanda umboð til þess að innheimta skaðabætur, mismuninn á boði stefnda og næst hæstbjóðanda vegna riftunarinnar með vísun til VII. kafla laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, einkum 47. grein þeirra laga.
Stefnandi byggir kröfu sína á meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en að regla sú fái meðal annars lagastoð í 45. gr. og 51. gr. laga nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar sé einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga. Kröfu um dráttarvexti þ.m.t. vaxtavexti styðji stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þeim úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing er vísað til 34. gr. laga nr. 91/1991. Að auki vísi stefnandi til almennra skaðabótareglna og ákvæða laga um nauðungarsölu, einkum 7. kafla laganna.
Stefndi kveður málsatvik hafa verið með þeim hætti að fyrirsvarsmaður stefnda, Höskuldur Pétur Jónsson, sem sé ólöglærður, hafi mætt á hið opinbera uppboð á eigninni Hvaleyrarbraut 22, 0102, Hafnarfirði sem haldið hafi verið á eigninni sjálfri sem framhaldsuppboð þann 1. febrúar 2006. Að sögn stefnda var ýmsu ábótavant við uppboðið. Telur stefndi að stefnandi hafi brotið 31. gr. uppboðslaganna nr. 90/1991, sem skyldar hann til að kynna uppboðsskilmála með þeim hætti að ólöglærðir aðilar eins og stefndi hefði getað gert sér grein fyrir afleiðingum þess að bjóða svo hátt í eignina en hæsti munur boða var kr. 1.000.000. Stefndi hafi ekki gert sér grein fyrir því hverju það varðaði að standa ekki við hæsta boð eða að það skipti máli að hafa muninn svo háan milli boða enda hafi þess hvergi verið getið að uppboðsskilmálar hefðu verið kynntir eða hver væri minnsti munur boða. Kveður stefndi að telja verði nauðsynlegt að stefnandi, sem sé sýslumaður, hafi átt að gæta þess að kynna hina almennu skilmála fyrir uppboðssölu á fasteignum samkvæmt auglýsingu í stjórnartíðindum nr. 41/1992.
Hvergi hafi komið fram í framlögðum gögnum að almennir uppboðsskilmálar hafi verið kynntir. Á framlögðu skjali sem sé sé afrit úr uppboðsbók sýlsumanns megi greina að byrjað hafi verið að bjóða í eignina með kr. 5.000.000 og síðan hafi boðin gengið 22 sinnum með einni milljón á milli boða í öll skiptin þar til stefndi hafi boðið kr. 27.000.000 sem lokaboð.
Ekki hafi stefnandi gert tilraun til að spyrja stefnda um tryggingu fyrir boðinu né hafi hann reynt að verja uppboðsþola fyrir hugsanlegu málamyndaboði eins og boðið sé í 6. mgr. 31. gr. NSL. Kveður stefndi að telja verði að það hafi verið mikil óvarkárni að hafa ekki farið að lögum varðandi kynningu uppboðsskilmála skv. 31. gr. laga nr. 90/1991 og verði stefndi, sem sé ólöglærður, ekki bundinn við boð sitt. Sýslumaður hefði átt að gæta leiðbeiningaskyldu sinnar og benda stefnda á það að réttara væri að fara varlega þegar komið væri boð yfir 20 milljónir. Honum hefði borið að leiðbeina bjóðanda sérstaklega að gæta sín þegar hér var komið við sögu. Ef sýslumaður hefði kynnt stefnda ákvæði 5. mgr. 4. gr. auglýsingar nr. 41/1992 um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á fasteignum ofl., sem mælir fyrir um heimild til að krefja bjóðanda um greiðslu mismunar á boði sínu og þeirri fjárhæð, sem að endingu fæst fyrir eignina, vanefni hann boð sitt, hefði stefndi hagað boðum sínum í eignina með allt öðrum hætti. Sýslumaður hafi ekki upplýst um eða gert stefnda ljóst hver væri minnsti munur boða og að stefnda væri heimilt að bjóða lægri fjárhæðir sbr.1. mgr. 33. gr. NSL. Sýslumaður hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart hinum ólöglærða aðila eftir því sem sýslumanni hafi borið skylda til að gera en leiðbeiningarregla sé meginregla í íslensku réttarfari, sem sýslumaður hefði átt að gæta að ex officio með hliðsjón af 4. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem gildi jafnt um opinbera sýslunarmenn sem dómara. Af framangreindum ástæðum beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.
Stefnandi beri sönnunarfærslu fyrir því að hafa kynnt fyrir stefnda söluskilmála sem lutu að því að gera honum grein fyrir ábyrgð sinni sem bjóðanda og hvað það gilti að standa ekki við boð sitt. Hvergi sé þess getið í framlögðum gögnum eða skrá stefnanda að kynntir hafi verið söluskilmálar með sérstakri bókun stefnanda þar um. Stefnanda hafi borið að lesa söluskilmála upp í heyranda hljóði á uppboðinu. Ekki hefði verið nægilegt að geta þess á uppboðinu að þeir hefðu legið frammi og menn gætu lesið þá ef þeir kærðu sig um. Slíkum vinnubrögðum sé harðlega mótmælt enda gangi það ekki upp að ólöglærðir væntanlegir uppboðskaupendur standi í að stauta sig fram úr umræddri auglýsingu, sem telur 11 greinar rétt fyrir uppboð eða jafnvel eftir að sýslumaður er byrjaður að leita boða í fasteignina.
Gera megi þá kröfu til stefnanda að hann hefði átt standa fyrir skýrri og greinargóðri kynningu á uppboðsskilmálum og sé það ætíð á hendi og ábyrgð sýslumanns í hvert sinn.
Þá telur stefndi að ólöglega hafi verið staðið að uppboðinu þar sem brotin hafi verið 20. gr. laga nr. 90/1991, sem mæli fyrir um að auglýsa hefði átt nauðungarsölu einu sinni í Lögbirtingarblaði minnst fjórum vikum áður en fyrsta beiðni var tekin fyrir skv. 21. gr. sömu laga. Þar sem auglýsing hafi farist fyrir í Lögbirtingarblaði sé uppboðið ónýtt og verði stefndi ekki sóttur um stefnufjárhæðina þar sem ranglega hafi verið staðið að fyrstu auglýsingu fyrir uppboðið. Það sé stefnanda að færa lögfullar sönnur á að hann hafi staðið lögformlega að uppboðinu þannig að skuldbindandi sér fyrir stefnda. Hafi hann ekki gert það geti hann ekki gengið að stefnda fyrir mismun á hæsta og lægsta boði á uppboði.
Þá hafi auglýsing í Lögbirtingarblaði ekki gildi gangvart stefnda, þar sem hún hafi verið birt of seint eða hinn 12. október 2005. Stefndi hafi ekki aðgang að tölvu eða tölvunettengingu og hafi hvorki þekkingu né hafi átt þess kost að fylgjast með rafrænum upplýsingum, sem kunni að hafa birtst með rafrænum hætti á vef Lögbirtingarblaðsins. Stefndi telji að þess verði ekki krafist að almennir borgarar eða lögaðilar hafi aðgang að tölvum eða netmiðlum (tölvunetinu) enda brjóti það í bága við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með hliðsjón af þjóðfélagsstöðu, efnahag eða öðrum sambærilegum ástæðum. Þá sé vísað til 15. gr. sömu laga um upplýsingarétt aðila, sem felist í því að aðili máls eigi rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er mál hans varða. Það hafi hann ekki getað þar sem aðgangi að tölvu og þekkingu þar að lútandi hafi ekki verið til að dreifa. Af þessu leiði að stefndi verði ekki bundinn við rafræna útgáfu á vef Lögbirtingarblaðsins. Grundvallarregla 27. gr. stjórnarskárinnar um birtingu um íþyngjandi ákvarðana svo sem nauðungarsöluauglýsingar hafi því verið brotin á stefnda.
Þá telur stefndi að þar sem ljóst sé að prentun Lögbirtingarblaðsins hafi komið of seint fram vegna uppboðsins 28. október 2005 (sem nemur 14 dögum) sé uppboðsmeðferðin ónýt og hafi ekkert gildi gagnvart stefnda. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Kveðst stefndi skora á stefnanda að leggja fram afrit tveggja auglýsinga í dagblaði, annars vegar vegna byrjunarsölu hinn 10 janúar 2006 og hins vegar fyrir framhaldssöluna 1. febrúar 2006. Stefndi haldi því fram að stefnandi hafi ekki auglýst byrjunarsölu og framhaldssölu innan tilskilins frests og beri því að sýkna hann.
Þá kveður stefndi að sýkna beri hann á þeim grunni að reglugerð nr. 623/2005 eigi ekki stoð í lögum nr. 15/2005 um stjórnartíðindi og lögbirtingarblað. Fyrirmæli 1. gr. reglugerðar um réttaráhrif auglýsinga á þann veg að þau séu bundin við rafræna útgáfu hafi ekki beina stoð í lögum. Þar sem breyta átti út af fyrri venju og lögum um réttaráhrif útgáfu Lögbirtingarblaðsins hafi verið nauðsynlegt að geta þess sérstaklega í lögum nr. 15/2005 að réttaráhrifin væru bundin við rafræna útgáfu á vef lögbirtingarblaðsins. Svo hafi ekki verið og því hafi auglýsing um nauðungarsöluna á Hvaleyrarbraut 22 verið of seint fram komin. Fyrirmæli reglugerðarinnar eins og að framan greinir gangi út fyrir ramma laganna. Lögin beri að skýra þröngt og sé nauðsynlegt að reglugerðin eigi beina lagastoð enda um mikla hagsmuni þegnanna að ræða, sem lúti að því að ráðstafa eignum með nauðungarsölumeðferð. Beri dómnum að virða þá meginreglu að reglugerðin víki fyrir lögunum þannig að ekki verði lagðar íþyngjandi byrðar á þegnana með reglugerð umfram það sem greini í lögum. M.ö.o. þar sem upphafs réttaráhrifa auglýsinga sé ekki getið með beinum hætti í lögum nr. 15/2005 verði stefndi eingungis bundinn við útgáfudag Lögbirtingarblaðsins er það kom frá prentsmiðju. Uppboðsmeðferðin sé því ónýt og beri að sýkna stefnda. Þá sé ljóst að þeir sem tilgreindir hafi verið mættir fyrir hönd gerðarbeiðanda hinn 28. október 2005 og 10. janúar 2006, hafi ekki ritað undir söluna, þrátt fyrir að í seinna skiptið (10. 01. 2006) hafi verið boðið í fasteignina kr. 400.000. Þá hafi fulltrúinn sem stýrði fyrstu fyrirtöku (28.10.2005) og byrjunarsölu (10.01.2006) í hvorugt skiptið undirritað uppboðsgerðirnar. Telur stefndi slíka bókun ógilda þar sem hvorki gerðarbeiðandi, gerðarþoli eða sýslumaður hafi ritað undir uppboðsgerðirnar. Verði stefndi ekki bundinn við slíka formleysu sem leiði til sýknu stefnda. Um þetta vísi stefndi til 1.tl. 2. mgr. 15. gr. NSL, þar sem telja verði að ekki hafi verið mætt af hálfu gerðarbeiðanda þar sem enginn hafi ritað undir bókun sýslumanns í umræddum tilvikum.
Þá sé krafist sýknu á þeim grunni að gerðarbeiðendur hafi ekki afhent sýslumanni frumrit veðskuldabréfa til stuðnings beiðnum sínum skv. 2. tl.2. mgr. 15. gr. nauðungarsölulaga sbr. 3. mgr. 11. gr. nauðungarsölulaga, en þar segi að sýslumaður skuli krefja um frumrit veðskuldabréfs ekki síðar en þegar sala fari fram. Hvergi hafi þess verið getið í bókunum sýslumanns að gerðarbeiðendur hafi afhent frumrit veðskuldabréfa við byrjunarsöluna eða í síðasta lagi við framhaldssöluna og því sé engin vissa fyrir því að bréfin hafi verið ófölsuð. Upphaf sölumeðferðar sýslumanns hafi verið við byrjunarsölu þann 10. janúar 2006 og þá hafi honum borið skv. 2. tl. 2. mgr. 15. gr. nauðungarsölulaganna skylda til að krefjast frumrits veðskuldabréfs af þeim er var uppboðsbeiðandi í málinu. Þetta þýði til að mynda að þegar á byrjunarsölu, er boðnar voru kr. 400.000 í eignina, hefði sýslumaður átt að krefja uppboðsbeiðanda, Gilda-lífeyrissjóðinn, um frumrit veðskuldabréfs, enda hann fyrsti uppboðsbeiðandi í málinu. Með því að hafa sniðgengið fyrirmæli 15. gr. og 11. gr. nauðungarsölulaga nr. 90/1991 hafi stefnandi póstitíft brotið lagaboð um framkvæmd uppboðsins fyrir utan það að brjóta á rétti stefnda. Sönnunarfærsla um framlagningartíma frumrita veðskuldabréfa, sem eru grundvöllur uppboðsins, hvíli alfarið á stefnanda. Uppboðsmeðferðin sé af þessum sökum ógild og ónýt og verði að sýkna stefnda af kröfum stefnanda af þessum sökum.
Stefndi bendir á 31. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölur sbr. 4. gr. auglýsingar nr. 41/1992, 20. gr., 21. gr., 15. gr. og 11. gr. laga um nauðungarsölu. Einnig sé bent á 11. gr. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, lög nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað, reglugerð nr. 623/2005 og 27. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944. Um málskostnað vísist til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í málinu gaf fyrirsvarsmaður stefnda, Höskuldur Pétur Jónsson, skýrslu fyrir dóminum og Hlöðver Örn Vilhjálmsson vitni sem var viðstaddur umrætt uppboð.
IV. Niðurstöður.
Í XIV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu eru sérreglur um hvernig hægt er að leita til dómstóla og fá úrlausn um gildi nauðungarsölu eftir að eign hefur verið komið í verð. Heimild til að leita úrlausnar eftir reglum XIV. kafla laganna kemur fyrst til samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laganna þegar uppboði á eign er lokið, tilboði hefur verið tekið í eign við sölu á almennum markaði eða andvirði eignar eða réttinda hefur greiðst sýslumanni við nauðungarsölu að hætti XII. kafla laga um nauðungarsölu. Frá þessum tímamörkum er heimilt að leita úrlausnar héraðsdóms um gildi nauðungarsölunnar í fjórar vikur og verður tilkynning að hætti 81. gr. laganna að berast héraðsdómi innan þess frests. Óumdeilt er að þann 1. febrúar 2006 var fasteignin Hvaleyrarbraut 22, 0102, í Hafnarfirði seld nauðungarsölu. Stefndi, P. Jónsson ehf. var hæstbjóðandi við uppboðið og bauð 27.000.000 krónur. Stefnandi, Sýslumaðurinn í Hafnarfirði, tók því boði stefnda með ritun í gerðarbók þar að lútandi. Í bókun kemur fram að hæstbjóðanda sé greint frá því að boð hans í eignina verði samþykkt ef greiðsla berst samkvæmt því í samræmi við uppboðsskilmála. Uppboðsskilmálar lágu frammi og var aðilum gefinn kostur á því að kynna sér þá áður en leitað var boða í eignina. Greiðslan átti að berast miðvikudaginn 22. febrúar 2006 klukkan 12:00. Greiðslan barst ekki á umræddum tíma. Að sögn stefnanda var haft samband við Höskuld Pétur Jónsson, fyrirsvarsmann stefnda þann 23. febrúar 2006 vegna uppboðsins og kom þá fram að stefndi hygðist ekki standa við boð sitt. Stefndi staðfesti þetta fyrir dómi. Þá var haft samband við næsthæstbjóðanda sem var fyrirsvarsmaður Eignarhaldsfélagsins Hvaleyrarholts ehf., og var félagið tilbúið til að standa við boð sitt að fjárhæð 26.000.000 krónur. Ekki verður annað séð en að framkvæmd uppboðsins hafi verið með venjubundnum hætti.
Ef heimild til að fá úrlausn um nauðungarsölu eftir reglum XIV. kafla laganna um nauðungarsölu er ekki nýtt, verður nauðungarsölunni sem slíkri ekki hnekkt. Aðilar eru því bundnir af gerðinni eins og hún liggur fyrir. Dómsmál varðandi þau atriði sem reglur XIV. kafla laga um nauðungarsölu taka til, verða því ekki rekin í búningi einkamáls eftir almennum reglum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 heldur er ófrávíkjanlegt að þau fari eftir þessum sérreglum.
Krafa stefnanda í þessu máli byggir á nauðungarsölu sem ekki hefur verið ógilt á grundvelli XIV. kafla laga um nauðungarsölu og er hún því bindandi fyrir aðila málsins. Í 3. mgr. 80. gr. laganna er áréttað að ákvæði 1. og 2. mgr. breyti því ekki að annars megi hafa uppi kröfu um skaðabætur eða aðra peningagreiðslu sem byggist á því að ekki hafi verið skilyrði fyrir nauðungarsölu eða að ranglega hafi verið að henni staðið. Sú leið hefur ekki verið farin hér. Stefnandi krefst skaðabóta á grundvelli 5. mgr. 47. gr. laga um nauðungarsölu um skaðabótaskyldu upphaflegs kaupanda. Sá réttur stefnanda er skýr og verður því að fallast á kröfur hans um að stefnda verði gert að greiða 1.000.000 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14.03.2006 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað að virðisaukaskatti meðtöldum.
Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari.
DÓMSORÐ
Stefndi, P. Jónsson ehf. greiði stefnanda 1.000.000 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 14. mars 2006 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað að virðisaukaskatti meðtöldum.