Hæstiréttur íslands

Mál nr. 531/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. september 2009.

Nr. 531/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. september 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 24. september 2009 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Það athugast að í hinum kærða úrskurði var varnaraðila gert að sæta takmörkunum samkvæmt c., d. og e. liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Um þetta var ekki gerð krafa af hálfu sóknaraðila en einangrunarvist felur í sér þau atriði sem tilgreind eru í þessum stafliðum.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 24. september 2009 klukkan 16 og sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. september 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 24. september 2009, kl. 16:00.  Þess er krafist að X verði látinn vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar mál er varði ætlaðan innflutning á töluverðu magni af amfetamíni. Þann 12. ágúst sl. hafi lögreglan í Árósum í Danmörku lagt hald á pakka er hafi innihaldið rúmlega 4 kg af amfetamíni. Fíkniefnin hafi verið falin í hólki sem var í pakkanum. Pakkann hafi átt að flytja með skipinu Arnarfelli, fraktskipi Samskipa, til Íslands. Lögreglan í Árósum hafi lagt hald á fíkniefnin sem voru í pakkanum og skipt þeim út fyrir lögleg efni. Pakkinn hafi síðan verið sendur undir eftirliti lögreglu hingað til lands, en hann komið með skipinu Arnarfelli, til Reykjavíkur þann 18. ágúst sl. Á pakkann hafi verið skráður móttakandi A, [...], kt. [...], Y, [...], 202 Kópavogur. Samkvæmt upplýsingum sem lögregla hafi aflað sé íbúðin að Y orlofsíbúð félagsmanna [...]félagsins, og sé skráður eigandi hennar Z. Lögreglu hafi borist ljósmyndir frá dönskum lögregluyfirvöldum, af aðila er sést afhenda ofangreindan pakka í Danmörku og hafi rannsókn lögreglu leitt í ljós að þessi aðili heiti B.

Þann 1. september sl. hafi komið aðili inn á skrifstofu fyrirtækisins Jónar Transport og spurst fyrir um ofangreindan pakka. Þessi aðili hafi kveðist heita A og hafi  hann óskað eftir því að kennitölu móttakanda pakkans yrði breytt þannig að í stað kennitölu A yrði sett kennitala Z. Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að þessi aðili heiti X. Við rannsókn málsins hafi verið fengnir úrskurðir héraðsdóms varðandi síma þá sem B sé með og bankaviðskipti. Við skoðun þeirra gagna hafi komið í ljós að ákveðin tengsl séu á milli X og B, en X hafi millifært ákveðnar fjárhæðir inn á bankareikning B og þeir hafi verið í símasambandi.

Þann 4. september hafi X farið í vöruhús Samskipa og borgað inn á sendingarkostnað pakkans. Eitthvað hafi vantað upp á til að X gæti leyst pakkann út. Þann 7. september hafi X komið aftur í vöruhús Samskipa og sótt pakkann. X hafi verið fylgt eftir þar sem hann hafi ekið sem leið lá upp í Mosfellsbæ og skilið pakkann þar eftir í runna við Skarhólabraut. Þann 9. september hafi X, ásamt tveimur aðilum, C og D komið á bifreið og hafi X sýnt þeim hvar pakkann væri að finna. Því næst hafi þeir ekið inn í Mosfellsbæ og hafi X skilið þar við þá. D og C hafi þá farið inn í Hafnarfjörð og sótt tösku. Eftir það hafi þeir farið aftur að þeim stað sem pakkinn var geymdur og tekið pakkann þá með sér. Þeir hafi þá ekið að Þ en þar hafi C farið með pakkann út úr bílnum. D hafi  ekið í burtu en C hafi hringt á leigubifreið. D hafi verið fylgt eftir af lögreglu eftir að hann hafi farið frá Þ, en hann hafi horfið sjónum og enn ekki fundist. Í kjölfar handtöku C hafi kærði X verið handtekinn og yfirheyrður. Að sögn X hafi B beðið hann um að sækja pakkann en í stað hafi X átt að fá fellda niður skuld. X kvað B hafa látið sig fá pening og blað til að leysa pakkann út, ásamt þeim fyrirmælum að fela pakkann út í móa og bíða síðan frekari fyrirmæla. X hafi sagst hafa fylgt þessum fyrirmælum eftir og síðar farið ásamt þeim C og D og sýnt þeim hvar pakkann væri að finna.

Rannsókn lögreglu snýr að þáttum er varða aðdraganda brotsins, skipulagningu og fjármögnun. Framundan eru frekari yfirheyrslur af kærða og öðrum samverkamönnum, frekari gagnaöflun og gagnaúrvinnsla sem skýrt getur frekar meðal annars aðdraganda brotsins og samskipti kærða við aðra samverkamenn sem kunna að tengjast málinu.

Rökstuddur grunur sé um stórfellt fíkniefnabrot X. Nauðsynlegt sé talið að hann sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins, svo honum sé fyrirmunað að setja sig í samband við ætlaða vitorðsmenn og/eða vitni og/eða að hann geti komið undan gögnum sem sönnunargildi hafa í málinu og hafa ekki verið haldlögð.  Þykir þannig nauðsynlegt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins með því að X sæti gæsluvarðhaldi og að hann verði látinn vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Til rannsóknar sé ætlað brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til b liðar 1. mgr. 99. gr.  sömu laga hvað varðar kröfu um einangrun.

Niðurstaða:

Til rannsóknar er ætlað brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til b liðar 1. mgr. 99. gr.  sömu laga hvað varðar kröfu um einangrun. Þá er þess jafnframt krafist að kærða verði gert að sæta takmörkunum sbr. a- til f-liða 1. mgr. sömu greinar. Rannsókn málsins er ekki lokið og haldi kærði óskertu frelsi sínu þykir einsýnt að hann  gæti torveldað rannsóknina og haft áhrif á vitorðsmenn. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og fyrirliggjandi rannsóknargagna er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett. Þá verður með sömu rökum og rakin eru hér að framan og vísan til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sakamálalaga fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun á meðan hann sætir gæsluvarðhaldinu stendur. Þá er kærða gert að sæta takmörkunum sbr. c, d og e liða 1. mgr. sömu greinar..

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 24. september 2009, kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu. Þá er kærða gert að sæta takmörkunum samkvæmt. c, d og e liða 1. mgr. 99. gr. laga nr. nr. 88/2008.