Hæstiréttur íslands
Mál nr. 237/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Föstudaginn 2. maí 2014. |
|
Nr. 237/2014. |
Íslenska
ríkið (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) gegn Dagrúnu
Jónsdóttur (Daníel Isebarn Ágústsson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
Felldur var úr gildi
úrskurður héraðsdóms þar sem tekin hafði verið til greina beiðni D um
dómkvaðningu matsmanns í máli sem hún hafði höfðað á hendur Í til heimtu bóta
og viðurkenningar á nánar tilgreindum rétti hennar, en kröfur sínar reisti D á
1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Hæstiréttur taldi að í matsbeiðni D fælist
að sérfróðum matsmanni væri í raun ætlað að leysa úr því álitaefni hvernig
skýra bæri tilvitnað ákvæði stjórnarskrárinnar í því skyni að ákveða
lágmarksfjárhagsaðstoð til D frá Í. Var matsbeiðninni hafnað með vísan til 2.
mgr. 60. gr. og 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. apríl 2014 sem barst héraðsdómi samdægurs og réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2014 þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns í máli sem hún hefur höfðað á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Varnaraðili er öryrki sem rekja má til slyss er hún varð fyrir árið 1993 og þiggur bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Hefur varnaraðili höfðað mál á hendur sóknaraðila þar sem hún krefst þess að sér verði greiddar 2.135.080 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. janúar 2013 til greiðsludags. Jafnframt hefur varnaraðili uppi viðurkenningarkröfur, þar á meðal að viðurkennt verði að réttur sinn til bóta almannatrygginga árið 2012 skuli felast í mánaðarlegum greiðslum til sín að fjárhæð 399.482 krónum.
Af stefnu verður ráðið að fyrrgreindar kröfur varnaraðila taka mið af upplýsingum úr skýrslu sérfræðingahóps um neysluviðmið fyrir heimili á Íslandi, en skýrslan, sem gefin var út af velferðarráðuneyti árið 2011, var lögð fram af varnaraðila við þingfestingu málsins. Samkvæmt stefnunni reisir varnaraðili kröfurnar fyrst og fremst á þeirri málsástæðu að hún eigi rétt til þess samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, að fá aðstoð vegna sjúkleika og örorku sinnar. Telur varnaraðili „að í þessum rétti felist að hún eigi að geta lifað mannsæmandi lífi, með mannlegri reisn og virðingu.“ Til þess að svo megi verða þurfi aðstoð sóknaraðila að vera nægjanlega mikil til þess að varnaraðili „geti staðið undir eðlilegum útgjöldum í íslensku samfélagi.“ Í stefnunni er tekið fram að Alþingi fari með fjárstjórnarvaldið og sé það verkefni löggjafans að ákveða þá aðstoð sem varnaraðila og öðrum öryrkjum sé látin í té. Svigrúmi löggjafans í þessu efni séu þó sett þau takmörk að dómstólar séu bærir til að meta hvort lagasetning um þau málefni samrýmist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar.
Í fyrrgreindri matsbeiðni varnaraðila er þess farið á leit að dómkvaddur verði hæfur og óvilhallur maður „til að meta hvort tekjur [hennar] eru fullnægjandi.“ Er þess óskað að matsmaður láti í ljós álit á eftirfarandi: „1. Hver eru eðlileg mánaðarleg útgjöld [varnaraðila] til þess að hún geti framfleytt sér og lifað venjulegu, mannsæmandi lífi? 2. Hver voru eðlileg mánaðarleg útgjöld [varnaraðila] til þess að hún gæti framfleytt sér og lifað venjulegu, mannsæmandi lífi á árinu 2012?“ Í svari við fyrri spurningunni „er óskað eftir umfjöllun um dæmigerð útgjöld fyrir manneskju í þeirri fjölskyldustöðu“ sem varnaraðili sé í. „Útgjöld skulu miðast við eðlilegt, mannsæmandi líf með lífsfyllingu.“ Eigi útgjöld ekki að miðast við að varnaraðili „lifi lúxuslífi en heldur ekki fátæktarlífi.“ Í dæmaskyni eru greind í beiðninni nokkur „hefðbundin mánaðarleg útgjöld“ og „tilfallandi árleg útgjöld“. Þrátt fyrir mótmæli sóknaraðila var í hinum kærða úrskurði fallist á beiðni varnaraðila um að dómkvaðning matsmanns skyldi fara fram á grundvelli hennar.
Fyrir Hæstarétti er því haldið fram af sóknaraðila að áðurgreindar matsspurningar séu óljósar og lítt fallnar til að þjóna sakarefni málsins. Um sé að tefla lagaatriði og mat á fjárhæðum sem eigi undir löggjafann. Því sé um að ræða atriði sem dómari verði að leysa úr, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Í greinargerð varnaraðila hér fyrir dómi segir að matsbeiðnin sé í fullu samræmi við málatilbúnað hennar. Hvað varnaraðili telji að felist í mannsæmandi lífi sé ítarlega útlistað í stefnu og matsbeiðni. Þá komi hugtakið „mannsæmandi“ auk þess fram í greinargerð með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 þar sem segi að auknar kröfur til mannréttinda eigi meðal annars að tryggja að einstaklingur „geti lifað mannsæmandi lífi í þjóðfélaginu“.
II
Í einkamáli
lýtur sönnun einkum að því að leiða í ljós hvort staðhæfing um umdeild atvik
teljist sönnuð, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Ef dómari telur
bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða gagn sé
tilgangslaust til sönnunar getur hann meinað aðila um sönnunarfærslu samkvæmt
3. mgr. 46. gr. laganna. Í IX. kafla sömu laga er fjallað um matsgerðir.
Samkvæmt 2. mgr. 60. gr. leggur dómari sjálfur mat á atriði sem krefjast
almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Ef ekki verður farið svo að
kveður dómari eftir 1. mgr. 61. gr. einn eða tvo matsmenn til að framkvæma mat
eftir skriflegri beiðni aðila. Í beiðni skal koma skýrlega fram hvað eigi að
meta, hvað það er sem meta á og hvað aðili hyggist sanna með mati.
Aðili að einkamáli á að meginstefnu rétt á því að afla og leggja fram þau
sönnunargögn sem hann telur þörf á. Það er því hvorki á valdi gagnaðila né
dómstóla að aftra því nema með stoð í lögum. Af þeim sökum ber dómara að verða
við beiðni málsaðila um að dómkveðja matsmann samkvæmt IX. kafla laga nr.
91/1991 nema formskilyrði síðari málsliðar 1. mgr. 61. gr. séu ekki fyrir
hendi, leitað sé mats um atriði, sem dómari telur bersýnilegt að ekki skipti
máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, eða að matsbeiðnin lúti einvörðungu að
atriðum, sem dómara ber að leggja sjálfur mat á en ekki sérfróðum matsmönnum,
sbr. 2. mgr. 60. gr. og fyrri málslið 1. mgr. 61. gr. Í síðastnefnda tilvikinu
yrði matsgerð ávallt tilgangslaus til sönnunar í skilningi 3. mgr. 46. gr.
Svo sem áður greinir eru kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila sem hér skipta máli reistar á þeirri málsástæðu að hún eigi rétt til þess samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, vegna sjúkleika og örorku sinnar, að fá aðstoð sóknaraðila til að geta lifað mannsæmandi lífi og þar með staðið undir eðlilegum útgjöldum. Með matsbeiðni varnaraðila er leitað svara við því annars vegar hver séu eðlileg útgjöld til þess að hún geti framfleytt sér og lifað venjulegu, mannsæmandi lífi og hins vegar hver þau útgjöld hafi verið á árinu 2012. Í greinargerð varnaraðila hér fyrir dómi kemur sem áður segir fram að skírskotunin til mannsæmandi lífs eigi sér stoð í greinargerð með frumvarpi til stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 sem breyttu 76. gr. stjórnarskrárinnar í núverandi horf. Samkvæmt því og eins og málatilbúnaður varnaraðila er úr garði gerður að öðru leyti er sérfróðum matsmanni í raun ætlað að skýra ákvæði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem mælt er fyrir um að öllum sem þess þurfa skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar, meðal annars vegna sjúkleika og örorku, í því skyni að ákveða lágmarksfjárhagsaðstoð til handa varnaraðila frá sóknaraðila. Sökum þess að kveðið er á um það í 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 að dómari leggi sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og lagaþekkingar yrði hin umbeðna matsgerð samkvæmt framansögðu tilgangslaus til sönnunar. Með vísan til 3. mgr. 46. gr. laganna ber því að hafna matsbeiðni varnaraðila og fella hinn kærða úrskurð úr gildi.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr
gildi.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20.
mars 2014.
Mál
þetta var höfðað 26. nóvember 2012. Þann 12. mars sl. var það tekið til
úrskurðar vegna ágreinings um dómkvaðningu matsmanns eftir að munnlegur
málflutningur hafði farið fram.
Í
þinghaldi þann 11. desember sl. lagði lögmaður stefnanda fram beiðni um
dómkvaðningu matsmanns. Lögmaður stefnda fékk frest til þess að taka afstöðu
til fram kominnar beiðni. Í þinghaldi þann 19. desember sl. lagði lögmaður
stefndu fram bókun þar sem fram kemur að matsbeiðni stefnanda sé mótmælt.
Lögmaðurinn krafðist úrskurðar skv. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991.
Við
munnlegan málflutning þann 12. mars sl. var þess krafist af hálfu stefndu,
sóknaraðilum í þessum þætti málsins, að hafnað yrði beiðni stefnanda, varnaraðila
í þessum þætti málsins, um dómkvaðningu matsmanns. Sóknaraðilar telja að ekki
sé á færi matsmanna að leggja mat á þau atriði sem óskað er eftir í
matsbeiðninni. Fyrir það fyrsta séu matsspurningar óljósar og feli í sér
umdeilanleg atriði sem vart verði lagt mat á. Í annan stað sé um tilgangslausar
matsspurningar að ræða enda snúist ágreiningur málsins um lagaatriði og
heimildir löggjafans og vísist í þessu sambandi til 3. mgr. 46. gr. laga nr.
91/1991.
Af
hálfu varnaraðila var þess krafist að beiðni um mat næði fram að ganga og að
kröfu sóknaraðila yrði hafnað. Telur varnaraðili matsspurningar það ljósar að
ekki fari milli mála hvers óskað er og að það sé á færi hagfræðinga að leggja
mat á þau atriði sem þar er beiðst. Þá telur varnaraðili matsspurningar ekki
vera tilgangslausar og séu þær í augljósu samhengi við sakarefnið. Sönnunarmat
dómara sé frjálst og leggi hann hann því mat á sönnunargildi matsgerðarinnar.
Málavextir
eru í stuttu máli þeir að varnaraðili var metin til 75% örorku þann 1. júní
2000 af stefnda Tryggingastofnun ríkisins. Fram kemur í örorkumati frá 1.
febrúar 2011 að læknisfræðileg skilyrði hæsta örorkustigs séu uppfyllt en
gildistími örorkumatsins sé frá 1. júní 2000 til 31. maí 2016 en þá fer
endurmat fram. Varnaraðili hefur þegið greiðslur á grundvelli laga nr. 100/2007
um almannatryggingar og reglugerða sem settar eru með stoð í lögum um
félagslega aðstoð nr. 99/2007. Samkvæmt greiðsluáætlun Tryggingastofnunar
ríkisins fyrir árið 2012 námu mánaðarlegar greiðslur til stefnanda 202.956
krónum. Nánar tiltekið er um að ræða örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr.
100/2007 um almannatryggingar, aldurstengda örorkuuppbót samkvæmt 21. gr.
laganna og sérstaka uppbót til framfærslu samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um
félagslega aðstoð. Persónulegar aðstæður stefnanda eru þær að hún er einstæð,
barnlaus og býr í eigin húsnæði.
Varnaraðili byggir málatilbúnað sinn í meginatriðum
á því að greiðslur til
hennar nægi ekki til framfærslu. Hún telur bætur frá Tryggingastofnun ríkisins
ekki nægja sér til lífsviðurværis en hún eigi rétt á því að bætur geri henni
kleift að lifa mannsæmandi lífi. Sú skylda hvíli því á íslenska ríkinu að
tryggja henni slíkar bætur frá almannatryggingum enda hafi það sjálft
skilgreint þann mánaðarlega kostnað sem einstaklingar og fjölskyldur þurfi að
greiða til að lifa eðlilegu lífi. Varnaraðili byggir á því að hún eigi
stjórnarskrárvarinn rétt á framfærslu sem uppfylli kröfur um mannsæmandi líf.
Gerir hún kröfu um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar úr hendi sóknaraðila sem taki
mið af raunverulegri fjárþörf hennar til þess að geta lifað því lifi sem að
ofan er lýst.
Í
matsbeiðninni er málavöxtum lýst stuttlega og óskað skriflegs og rökstudds
álits á eftirfarandi spurningum:
1.
Hver eru eðlileg mánaðarleg útgjöld stefnanda til þess að hún geti framfleytt
sér og lifað venjulegu, mannsæmandi lífi?
2.
Hver voru eðlileg mánaðarleg útgjöld stefnanda til þess að hún gæti framfleytt
sér og lifað venjulegu, mannsæmandi lífi á árinu 2012?
Þá
segir í matsgerðinni að í svari við spurningu 1 sé óskað eftir umfjöllun um
dæmigerð útgjöld fyrir manneskju í þeirri fjölskyldustöðu þar sem stefnandi er.
Útgjöld skulu miðast við eðlilegt, mannsæmandi líf með lífsfyllingu. Miðist
útgjöld ekki við það að stefnandi lifi lúxuslífi en heldur ekki fátæktarlífi.
Sé
þannig einnig óskað eftir því að matsmaður meti hvað eðlilegt sé að stefnandi
þurfi mikið fé til að greiða fyrir húsnæði sitt (afborganir af lánum,
tryggingar, skatta, hita, rafmagn, viðhald o.s.frv.) og öll önnur hefðbundin
mánaðarleg útgjöld: mat, heimilisvörur, snyrtivörur, fatnað, samgöngur,
sjónvarp, síma, internet, afþreyingu, læknis- og lyfjakostnað, sjúkraþjálfun
og/eða nudd, ferðir í klippingu o.s.frv.
Þá
sé einnig óskað eftir því að tilfallandi árlegum útgjöldum (útgjöldum sem falli
til suma mánuði ársins) verði jafnað niður á hvern mánuð ársins og bætt við
mánaðarleg útgjöld. Sé hér átt við gjafir, viðhald á ökutæki (viðgerðir,
dekkjaskipti, smurningu, skoðun), ferðir til tannlæknis eða annarra
heilbrigðisstarfsmanna, kostnað við sumarfrí o.s.frv.
Svarið
skuli gefið upp með og án skatts, þ.e. tilgreina þurfi hversu mikil mánaðarleg
útgjöld séu eðlileg og hversu miklar tekjur þurfi að hafa til þess að standa
eftir með nægjanlegt fé eftir greiðslu skatta.
Spurning
nr. 2 sé sama spurning og nr. 1 nema hún miðist við verðlag ársins 2012.
Niðurstaða
Ágreiningurinn
lýtur að því hvort matsgerð sú, að virtum þeim matsspurningum sem þar eru
tilgreindar, sé tilgangslaus til sönnunar þegar virt er sakarefni málsins. Í 1.
mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 kemur fram sú meginregla
einkamálaréttarfars að aðilar fari með forræði fyrir sakarefni. Til
undantekninga heyrir að aðilum sé meinuð sönnunarfærsla með framlagningu gagna
sem þeir telja að renni stoðum undir málsástæður sínar. Í 3. mgr. 46. gr.
laganna er að finna undantekningu í þessa veru en skilyrði er að dómari telji
bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé
tilgangslaust til sönnunar. Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að strangar kröfur
eru gerðar til mats á þessum atriðum eins og staðfest er í allnokkrum í dómum
Hæstaréttar.
Fallast
má á það með sóknaraðilum að matsspurningar varnaraðila séu þess eðlis að óskað
er mats á atriðum sem almennt eru talin matskennd og háð atriðum, atvikum og
aðstæðum sem eru breytilegar frá manni til manns. Hins vegar eru spurningarnar
í sjálfu sér ekki óljósar og fer ekki milli mála hvers óskað er. Að mati
dómsins er þó ljóst að það er fyrst og fremst á færi þeirra sem hafa
sérþekkingu að leggja mat á eða gera tilraun til að leggja mat á þessi atriði.
Verður varnaraðila ekki meinað að láta reyna á dómkvaðningu matsmanns í þessu
skyni enda ljóst að hann ber hallann af því ef sönnunargildi matsins reynist
takmarkað eða ef því er af öðrum ástæðum ábótavant. Ber því að fallast á kröfu
varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns á grundvelli matsbeiðni þeirrar sem lögð
var fram í þinghaldi 11. desember sl. Ekki var gerð krafa um málskostnað vegna
þessa þáttar málsins.
Sigríður
Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Umbeðin
dómkvaðning matsmanns skal fara fram.