Hæstiréttur íslands
Mál nr. 188/1998
Lykilorð
- Tryggingarbréf
- Víxill
- Bankaábyrgð
- Útivist
- Varnir
|
|
Fimmtudaginn 20. maí 1999. |
|
Nr. 188/1998. |
Þuríður Vilhelmsdóttir (Róbert Árni Hreiðarsson hdl.) gegn Íslandsbanka hf. (Bjarni Ásgeirsson hrl.) |
Tryggingarbréf. Víxill. Bankaábyrgð. Útivist. Varnir.
Bankinn Í höfðaði mál gegn félaginu A til greiðslu skuldar og gegn Þ til að þola staðfestingu á 6. veðrétti og uppfærslurétti í fasteign hennar á grundvelli tryggingabréfs sem A gaf út til Í. Ekki var sótt þing fyrir hönd A í héraði og var félagið dæmt til greiðslu skuldarinnar og veðréttur í fasteign Þ staðfestur. Þ áfrýjaði málinu til Hæstaréttar og krafðist aðallega ómerkingar og heimvísunar þar sem héraðsdómari hefði ekki gætt réttra málsmeðferðarreglna, þar sem farið hafi verið með kröfur Í á hendur A eftir reglum 1. mgr. 96. gr. laga um meðferð einkamála og dæmt um þær kröfur án þess að taka tillit til varna sem Þ hafði uppi í málinu. Kröfum Þ um ómerkingu var hafnað á grundvelli þess að málsmeðferð héraðsdómara hefði verið í samræmi við lög og tekin hefði verið afstaða til allra varnarástæðna Þ, þar á meðal þeirra sem gátu verið til varnar A. Var héraðsdómur staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. maí 1998. Krefst hún þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu að nýju. Til vara krefst hún sýknu af kröfum stefnda, en til þrautavara að hinum áfrýjaða dómi verði breytt á þá leið að hún verði ekki dæmd til greiðslu málskostnaðar eða til að þola staðfestingu veðréttar fyrir tildæmdum dráttarvöxtum og málskostnaði. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Kröfu sína um ómerkingu og heimvísun styður áfrýjandi með því að héraðsdómari hafi ekki gætt réttra málsmeðferðarreglna. Hann hafi farið með kröfur stefnda á hendur þeim, sem hafi verið stefnt samhliða áfrýjanda í héraði, Atlantis ehf., eftir reglum 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og dæmt um þær kröfur, án þess að taka tillit til allra varna, sem áfrýjandi hafi haft uppi í málinu. Þessi málsmeðferð sé andstæð meginreglu réttarfars um að beita skuli sömu reglum um kröfur á hendur öllum sem sóttir séu saman í máli. Einnig sé hún andstæð þeirri grunnreglu að verði útivist af hálfu eins stefnda en annar sæki þing beri að dæma málið á grundvelli allra framlagðra gagna í málinu, að teknu tilliti til þeirra málsástæðna sem sá er sótti þing færði fram. Þannig hafi héraðsdómari ekki tekið tillit til varna áfrýjanda, Atlantis ehf. til hagsbóta, varðandi það hvort samningsbundnum skilyrðum fyrir greiðslu stefnda á 5.000 bandaríkjadölum til félagsins JC Penney samkvæmt bankaábyrgð hafi verið fullnægt. Einnig hafi héraðsdómari beitt ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um víxilkröfu stefnda á hendur Atlantis ehf., en ekki tekið tillit til varna áfrýjanda er vörðuðu heimild stefnda til útfyllingar víxilsins.
Svo sem greinir í héraðsdómi sótti stefndi Atlantis ehf. ekki þing. Eftir 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 varð málið þá dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda í héraði á hendur honum að því leyti sem samrýmanlegt væri framkomnum gögnum nema gallar væru á málinu sem varði frávísun þess án kröfu. Héraðsdómari tók afstöðu til allra varnarástæðna áfrýjanda, þar á meðal þeirra sem gátu verið til varnar meðstefnda hefðu þær reynst á rökum reistar, en hafnaði þeim öllum. Þegar af þessari ástæðu verður krafa áfrýjanda um ómerkingu og heimvísun ekki tekin til greina.
Að þessu athuguðu verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans um annað en málskostnað, en samkvæmt skriflegri kröfugerð stefnda, sem hann lagði fram við aðalmeðferð málsins í héraði, gerði hann ekki kröfu á hendur áfrýjanda um greiðslu málskostnaðar.
Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður fellur niður milli aðila máls þessa í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. febrúar 1998.
I.
Mál þetta var tekið til dóms í dag að loknum munnlegum málflutningi. Er það höfðað af stefnanda Íslandsbanka hf., kt. 421289-5069, Kirkjusandi í Reykjavík, vegna útibús nr. 545, Strandgötu 1 í Hafnarfirði, á hendur stefndu, Atlantis ehf., kt. 630793-2469, Faxafeni 10 í Reykjavík og Þuríði Vilhelmsdóttur, kt. 160837-3309, til heimilis að Bragagötu 38 í Reykjavík, með tveimur stefnum, birtum fyrirsvarsmanni stefnda, Atlantis ehf., þann 30. 1997 og stefndu, Þuríði, þann 31. janúar sama ár.
Með heimild í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991, að ósk stefnanda og með samþykki stefndu, Þuríðar, var mál nr. E-306/1997 sameinað máli þessu með ákvörðun dómara.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda, Atlantis ehf., verði gert að greiða kr. 2.328.506, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum af kr. 321.600, frá 8.6.95 til 10.10.95, en af kr. 6.770.175, frá 10.10.1995 til 24.12.1995, en af kr. 6.420.175, frá þeim degi til 1.2.1996, en af kr. 3.555.592, frá þeim degi til 6.5.1996, en af kr. 2.328.506, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn þann 6.5.1997 en síðan árlega þann dag. Krafist er málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá Lögmanna Hafnarfirði ehf., að viðbættum virðisaukaskatti.
Að lokum er þess krafist að stefndu, Þuríði Vilhelmsdóttur, verði gert að þola staðfestingu á 6. veðrétti og uppfærslurétti í fasteigninni Bragagötu 38, íbúð 0101 í Reykjavík, sem þinglýstur eigandi þeirrar eignar, fyrir kr. 700.000, auk dráttarvaxta af kr. 321.600 frá 8.6.95 til 6.5.96, en af kr. 700.000 frá 6.5.96 til greiðsludags, auk alls kostnaðar við innheimtu ofangreindrar fjárhæðar og eftirfarandi uppboðs ef til kemur.
Af hálfu stefnda, Atlantis ehf., hefur þing eigi verið sótt í málinu.
Af hálfu stefndu, Þuríðar Vilhelmsdóttur, er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti. Til vara er þess krafist að stefnda, Þuríður, verði sýknuð af dráttarvaxtakröfum stefnanda. Stefnda, Þuríður, hafði uppi aðalkröfu um frávísun krafna stefnanda í öðru málinu, en féll frá þeirri kröfu og voru málin sameinuð.
Stefnandi greinir þannig frá málsatvikum í stefnu að nefnd skuld stefnda, Atlantis ehf., sé annars vegar vegna víxils, upphaflega að fjárhæð kr. 6.448.575, samþykktum til greiðslu í útibúi stefnanda í Hafnarfirði, með óútfylltum gjalddaga. Hafi víxillinn verið útgefinn í Hafnarfirði þann 26. september 1995 af Hilmari H. Eiríkssyni og ábektur af sama aðila „án afsagnar”. Samþykkjandi á víxlinum hafi verið stefndi, Atlantis hf., nú ehf. Ennfremur hafi víxillinn verið ábektur af stefndu, Þuríði Vilhelmsdóttur. Víxillinn hafi verið sýndur til greiðslu í Íslandsbanka í Hafnarfirði þann 10. október 1995 og verið afsagður af lögbókandanum í Hafnarfirði þann 12. október 1995 vegna greiðslufalls.
Í öðru lagi greinir stefnandi frá því að hið stefnda félag hafi útfyllt ábyrgðarumsókn hjá stefnanda þann 7. nóvember 1994 að fjárhæð $8.000 vegna viðskipta stefnda, Atlantis ehf. við JC Penney Co. Inc. í Texas, Bandaríkjunum. Sama dag hafi stefnandi samþykkt umsókn hins stefnda félags. Hafi stefnandi gefið út ábyrgðaryfirlýsingu, dagsetta 10. nóvember 1994, til JC Penney Co. Inc. fyrir téðri fjárhæð $8.000. Hinn 29. maí 1995 hafi stefnandi síðan sent bréf til JC Penney Co. Inc. og óskað eftir því að fyrirtækið sendi til baka frumrit ábyrgðarbréfsins, þar sem hið stefnda félag væri hætt viðskiptum hjá stefnanda. Hinn 30. maí 1995 gerði JC Penney Co. Inc. kröfu á hendur stefnanda um greiðslu á $5.000 á grundvelli ábyrgðarinnar. Stefnandi hafi þann 8. júní 1995 greitt hinu bandaríska félagi upphæð þessa, sem samsvaraði kr. 321.600 með millifærslu til banka JC Penney Co. Inc. Hafi stefnandi þá skuldfært hlaupareikning nr. 243 í eigu hins stefnda félags hjá stefnanda fyrir fjárhæð þessari sama dag. Hafi það verið gert samkvæmt munnlegum fyrirmælum Hilmars Eiríkssonar, þáverandi framkvæmdarstjóra og varamanns í stjórn hjá stefnda, Atlantis ehf. Umboðsmaður stefndu, Þuríðar, hafi þann 6. nóvember 1995 kært meðferð stefnanda á tryggingarvíxli í eigu stefnanda og greinda skuldfærslu til Bankaeftirlits Seðlabanka Íslands. Með bréfi Seðlabanka Íslands, dagsettu 20. desember 1995, hafi verið kveðið á um að stefnanda hafi ekki verið heimilt að skuldfæra téða millifærslu á hlaupareiknings hins stefnda félags með þessum hætti, þrátt fyrir munnleg fyrirmæli fyrirsvarsmanns stefnda, Atlantis ehf. Hafi stefnandi því bakfært greiðsluna með innborgun á útgefinn tryggingarvíxil hins stefnda félags þann 29. desember 1995 með greiðslu kr. 350.000 og var víxillinn ritaður um ofangreinda innborgun af hálfu stefnanda.
Til tryggingar skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum sínum hafi stefnda, Atlantis ehf., gefið út þann 29. mars 1994 tryggingarbréf til stefnanda að fjárhæð kr. 700.000, tryggt með 6. veðrétti og uppfærslurétti í fasteigninni Bragagötu 38, íbúð 0101 í Reykjavík. Um sé að ræða svonefnt allsherjarveð. Í tryggingarbréfinu sé meðal annars greint frá þeim atriðum, sem tryggt er fyrir. Stefnda, Þuríður, áritaði tryggingarbréfið um veðleyfi, sem þinglýstur eigandi íbúðarinnar nr. 0101 við Bragagötu 38. Tryggingarbréfið hafi síðan verið móttekið til þinglýsingar hjá Sýslumanninum í Reykjavík þann 29. mars 1994 og innfært í veðmálabækur þann 2. apríl 1994, sem skjal nr. 6688.
Stefnandi vísar almennra reglna kröfuréttarins svo og ákvæða í ofangreindri umsókn. Þá reisir stefnandi mál þetta á ákvæðum XVII. kafla einkamálalaga nr. 91/1991 og ákvæðum víxillaga nr. 93/1933, einkum 7. kafla laganna. Þá vísar hann til 10. greinar víxillaga varðandi heimild stefnanda til útfyllingar víxils. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 25/1987. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt er reist á lögum nr. 50/1988.
II.
Málsástæður og lagarök stefndu, Þuríðar
Stefnda, Þuríður, reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að umræddur víxill hafi ekki verið sýndur á greiðslustað á tilgreindum tíma þann 10. - 12. október 1995. Dagsetning stimpils um stimpilgjald, en víxillinn hafi verið stimplaður af stefnanda, segi til um að víxillinn hafi fyrst komið á afgreiðslustað stefnanda þann 16. nóvember 1995. Víxillinn hafi því eigi verið sýndur lögum samkvæmt. Með hliðsjón af þessu telur stefnda, Þuríður, að sönnunarbyrðin fyrir því að notarialgerðin sé rétt hvað greiðslustað og sýningartíma varðar hvíli á stefnanda. Notarialgerðinni og áritun þar um á víxlinum er af hálfu stefndu, Þuríðar, mótmælt sem rangri og óstaðfestri.
Í öðru lagi er sýknukrafan studd þeim rökum að ekki hafi verið sýnt fram á né rökstutt að umræddur víxill falli efnislega undir þær kröfur, sem tryggingarbréfið á að tryggja.
Í þriðja lagi byggir stefnda, Þuríður, á því að í framlögðum skjölum stefnanda sé ekki að finna sönnun þess að innfærð fjárhæð á umræddan tryggingarvíxil sé tilkomin vegna yfirdráttar stefnda, Atlantis ehf., á tékkareikningi félagsins nr. 243.
Í fjórða lagi er sýknukrafan á því reist að ósannað sé að meintur yfirdráttur á tékkareikningi stefnanda, Atlantis ehf., sé til komin vegna reksturs félagsins. Stefnda, Þuríður, hafi rökstuddan grun um að stór hluti þeirrar fjárhæðar sé tilkomin vegna einkaeyðslu fyrrum stjórnarmanna Hilmars H. Eiríkssonar og Gísla Eiríkssonar og að stefnanda hafi verið ljós misnotkun þeirra á tékkareikningi stefnda, Atlantis ehf.
Í fimmta lagi er sýknukrafan studd þeim rökum að stefnandi hafi hækkað yfirdráttarheimild á reikning stefnda, Atlantis ehf., fram úr öllu hófi þess vitandi að félagið á engar eignir. Ekki sé rétt eða sanngjarnt að stefnda, Þuríður, beri fjárhagslegan skaða af fjármálaóstjórn Hilmars og Gísla í Atlantis ehf. og aðhaldsleysi stefnanda varðandi fjármál félagsins. Stefnda, Þuríður, telur að stefnandi hafi í besta falli sýnt af sér vítavert gáleysi í viðskiptum sínum við stefnda, Atlantis ehf. Með hliðsjón af því telur stefnda, Þuríður, að víkja megi veðsamningi aðila til hliðar m.a. með vísun til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Stefnda, Þuríður, byggir sýknukröfu sína sjötta lagi á því að stefnanda hafi verið óheimilt að fylla út umræddan tryggingarvíxil með þessum hætti án þess að leita samþykkis allra víxilskuldara fyrir því að víxillinn tryggði umsamda hækkun yfirdráttaheimildarinnar hverju sinni. Telur stefnda, Þuríður, þessa útfyllingu víxilsins ólögmæta þar sem hún nái langt út fyrir það umboð sem stefnandi fékk til útfyllingar víxilsins, auk þess sem útfylling hans þverbrjóti viðteknar venjur við útfyllingu slíkra tryggingarskjala.
Í sjöunda lagi er sýknukrafa stefndu, Þuríðar, studd þeim rökum að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hið stefnda félag skuldi stefnanda vegna greiðslu hins síðarnefnda á $5.000 til JC Penney Co. Inc.
Stefnda, Þuríður, byggir sýknukröfu sína að lokum á því að meint skuld stefnda, Atlantis ehf., vegna ábyrgðaryfirlýsingar stefnanda hafi verið greidd með meintri skuldfærslu stefnanda af reikningi hins stefnda félags þann 8. júní 1996. Því sé stefnanda ekki rétt að heimta skuld þessa á grundvelli bankaábyrgðarinnar.
Af hálfu stefndu, Þuríðar, er mótmælt sérstaklega dráttarvaxta og málskostnaðar-kröfum stefnanda.
Stefnda, Þuríður, vísar til almennra reglna samninga- og veðréttar kröfum sínum til stuðnings. Þá vísar hún til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 og 34. gr. víxillaga nr. 93/1933. Krafan um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 130. gr. laganna. Þá er krafan um virðisaukaskatt reist á lögum nr. 50/1988.
III.
Niðurstaða dómsins
Af hálfu stefnda, Atlantis ehf., hefur eigi verið sótt þing í máli þessu og verður málið því dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda á hendur félaginu að því leyti, sem er samrýmanlegt framkomnum gögnum nema gallar séu á málinu, sem varða frávísun þess ex officio, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991. Að virtri útivist af hálfu hins stefnda félags og skjallegum málatilbúnaði stefnanda verður krafa hins síðarnefnda á hendur stefnda, Atlantis ehf., tekin til greina.
Stefnandi reisir dómkröfur sínar í máli þessu á ákvæðum VII. kafla laga nr. 91/1991. Krafa stefnanda á hendur stefndu, Þuríði, grundvallast á umþrættu tryggingarbréfi. Verður því eigi beitt réttarfarsákvæðum téðs kafla laga nr. 91/1991 á hendur henni í máli þessu.
Stefnda, Þuríður, heldur því fram að sýning umþrætts víxils hafi eigi verið lögmæt. Dagsetning stimpils um stimpilgjald, það er 16. nóvember 1995, bendi ótvírætt til þess að víxillinn hafi eigi verið á afgreiðslustað stefnanda þann 10. október 1995, er sýningin átti að eiga sér stað, sbr. tilkynningu stefnanda til stefndu, Atlantis ehf. og Þuríðar Vilhelmsdóttur, dagsettrar 26. september 1995. Afsögn víxilsins, sem staðfest sé með nafni og embættistimpli notarius publicus í Hafnarfirði, þann 12. október 1995, sé því röng og beri stefnandi hallann af skorti á sönnun um réttmæti afsagnarinnar. Á þessa málsástæðu stefndu, Þuríðar, er eigi hægt að fallast. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. víxillaga nr. 93/1993 skal sanna greiðslufall víxils með opinberri gerð, það er afsagnargerð vegna greiðslufalls. Með vísan til meginreglu 3. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991 ber þannig að telja téða afsögn rétta hvað varðar þau atvik, sem greind eru í afsögninni, þar til annað er sannað, enda um opinbert skjal að ræða. Víxlar þeir, sem samþykktir eru eða greiddir hér á landi, eru ávallt stimpilskyldir hér á landi, sbr. 3. tl. 3. gr. laga nr. 36/1978. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. sömu laga ber að stimpla stimpilskyld skjöl, sem gefin eru út hér á landi, áður en tveir mánuðir eru liðnir frá útgáfudegi, nema eindagi sé fyrr og þá fyrir eindaga. Víxill sá, sem um er þrætt í máli þessu, var afhentur stefnanda, sem tryggingarvíxill og var hann þannig óútfylltur hvað varðar útgáfudag, gjalddaga og fjárhæð. Vegna yfirdráttarskuldar stefnda, Atlantis ehf., nýtti stefnandi sér rétt sinn samkvæmt greindum tryggingarvíxli og gaf hann út þann 26. september 1995. Með vísan til skilyrði áðurgreinds ákvæðis 1. mgr. 11. gr. laga nr. 36/1978 bar stefnanda að greiða stimpilgjöld innan tveggja mánaða frá útgáfudegi víxilsins og var það gert þann 16. nóvember 1995, eins og stimplun víxilsins gefur til kynna. Hefur þannig stefnda, Þuríður, eigi sýnt fram að efni títtnefndrar víxilafsagnar sé rangt og ber því að leggja til grundvallar að greiðslufall hafi orðið á víxlinum.
Stefnda, Þuríður, reisir sýknukröfu sína jafnframt á því að stefnandi hafi eigi sýnt fram á né rökstutt að krafa stefnanda á grundvelli áðurgreinds víxils falli undir umþrætt tryggingarbréf. Á þessa málsástæðu verður heldur eigi fallist af hálfu réttarins. Af tilurð, efni og orðalagi tryggingarbréfsins verður að telja sannað að tryggingarbréfið hafi meðal annars verið gefið út, sem trygging fyrir víxilkröfum stefnanda á hendur hinu stefnda félagi.
Sýknukrafa stefndu, Þuríðar, er ennfremur á því byggð að stefnandi hafi sýnt af sér aðhaldsleysi varðandi fjármál hins stefnda félags, Atlantis ehf. Hafi stefnandi þannig hækkað yfirdráttarheimild félagsins fram úr öllu hófi, þess vitandi að félagið væri með öllu ófært að standa í skilum við stefnanda. Hafi stefnandi þannig í besta falli sýnt af sér vítavert gáleysi í viðskiptum sínum við hið stefnda félag. Með hliðsjón af þessu telur stefnda, Þuríður, að víkja megi veðsamningi hennar samkvæmt greindu tryggingarbréfi til hliðar meðal annars með tilvísun til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Um starfsemi hins stefnda félags, Atlantis ehf. (áður hf.), við stofnun þess giltu eldri lög um hlutafélög nr. 32/1978. sbr. nú lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Um eftirlit og skyldur stjórnarmanna í hlutafélögum giltu ákvæði IX. kafla eldri hlutafélagalaga, sbr. einkum 52. gr. laganna. Í 1. mgr. 52. gr. laga nr. 32/1978, sagði að stjórn félags færi með málefni félagsins og skyldi annast um að skipulag félags og starfsemi væri jafnan í réttu og góðu horfi. Þá var svo kveðið á í 3. mgr. 52. gr. laganna að stjórn hlutafélags skyldi annast um að nægilegt eftirlit væri haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Efnislega samhljóða ákvæði eru nú að finna í 44. gr. gildandi einkahlutafélagalaga nr. 138/1994. Af ákvæðum þessum má ráða að stjórn hlutafélaga er ábyrg fyrir rekstri þeirra og starfsemi. Telja verður að er hlutafélag ratar í greiðsluerfiðleika verði eftirlitsskylda stjórnarmeðlima enn ríkari. Verður þá jafnvel að gera þá kröfu til stjórnarmanna að þeir geri virkar ráðstafanir til að afstýra tjóni. Stefnda, Þuríður, var ein af stofnendum hins stefnda félags, Atlantis ehf., og var stjórnarmaður í félaginu allan þann tíma, sem viðskipti milli stefnanda og hins stefnda félags áttu sér stað og allt til 30. maí 1995. Af framangreindum lagaákvæðum virtum og stöðu stefndu, Þuríðar, sem stjórnarmanns í hinu stefnda félagi, verður eigi talið að stefnda geti nú vikist undan skuldbindingum sínum gagnvart stefnanda, með skírskotun til samskipta hins síðarnefnda í viðskiptalegu sambandi við hið stefnda félag, Atlantis ehf. Verður því eigi heldur fallist á síðastgreinda málsástæðu stefndu, Þuríðar, í máli þessu.
Stefnandi féllst á að gangast í ábyrgð fyrir vörukaupum stefnda, Atlantis ehf., hjá hinu bandaríska fyrirtæki JC Penney Co. Inc., á grundvelli ábyrgðarumsóknar hins stefnda félags, með ábyrgðaryfirlýsingu, dagsettri þann 7. nóvember 1994. Stefnandi greiddi hinu bandaríska félagi $5.000, sem samsvarar kr. 321.600, þann 30. maí 1995 á grundvelli téðrar ábyrgðar fyrir hið stefnda félag, Atlantis ehf., og skuldfærði umrædda greiðslu af reikningi hins stefnda félags sama dag. Þar sem bankaeftirlit Seðlabanka Íslands taldi þessa skuldfærslu stefnanda óeðlilega, sbr. bréf Seðlabanka Íslands, dagsett 20. desember 1995, endurgreiddi stefnandi hinu stefnda félagi kr. 350.000, þann 29. desember 1995. Með því telur dómurinn einsýnt að stefnandi hafi öðlast endurgreiðslukröfu á hendur stefnda, Atlantis ehf. Með undirritun sinni á títtnefnt tryggingarbréf tók stefnda, Þuríður, að sér að veita veðleyfi til tryggingar kröfum stefnanda, sem meðal annars ættu sér stoð í hvers konar ábyrgðum stefnanda til handa stefnda, Atlantis ehf. Krafa stefnanda á hendur hinu stefnda félagi fellur því undir þær tryggingarráðstafanir, sem greint tryggingarbréf ber með sér. Dómurinn telur þó rétt að miða upphafsdag dráttarvaxta á kröfum stefnanda, sem byggðar eru á framangreindri endurgreiðslukröfu stefnanda, við þann dag er stefnandi bakfærði áðurgreinda skuldfærslu af reikningi stefnda, Atlantis ehf., með vísan til tilmæla bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, þ.e. þann 29. desember 1995.
Að þessu röktu telur dómurinn að stefnda, Þuríður, hafi eigi fært fram nein þau rök, sem leiði til þeirrar niðurstöðu að sýkna beri hana af kröfum stefnanda í máli þessu. Verður því jafnframt staðfestur 6. veðréttur og uppfærsluréttur stefnanda í fasteigninni, Bragagata 38, 0101 fyrir téðri fjárhæð, samkvæmt greindu tryggingarbréfi, eins og nánar greinir í dómsorði.
Með vísan til greindra málaloka verður stefndi, Atlantis ehf., dæmdur til að greiða stefnanda kr. 200.000 í málskostnað og þar af verður stefnda Þuríður dæmd til að greiða in solidum með stefnda Atlantis ehf. kr. 100.000. Ekki er tekið tillit til virðisaukaskatts við málskostnaðarákvörðun
Mál þetta var áður munnlega flutt og dómtekið 17. desember 1997 en vegna embættisanna og jólaleyfis dróst dómsuppsaga. Í þinghaldi 27. janúar síðast liðinn, er fyrirhugað var eftir atvikum að kveða dóm upp í málinu, voru dómari og lögmaður stefnanda sammála um að eigi væri þörf endurflutnings. Löglærður fulltrúi lögmanns stefndu Þuríðar, sem sótti þing, krafðist hins vegar endurflutnings málsins í umboði lögmannsins. Endurflutningi varð þó eigi við komið þann dag vegna dvalar lögmanns stefndu Þuríðar erlendis.
Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari, kveður dóm þennan upp.
Dómsorð:
Stefnda, Atlantis ehf., greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., kr. 2.328.506, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum af kr. 6.770.175, frá 10.10.1995 til 24.12.1995, en af kr. 6.420.175, frá þeim degi til 29.12.1995, en af kr. 6.741.775 frá þeim degi til 1.2.1996, en af kr. 3.555.592, frá þeim degi til 6.5.1996, og af kr. 2.328.506, frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnda, Atlantis ehf., greiði stefnanda kr. 200.000 í málskostnað og þar af greiði stefndu, Atlantis ehf. og Þuríður Vilhelmsdóttir, in solidum, kr. 100.000.
Staðfestur er 6. veðréttur og uppfærsluréttur stefnanda í fasteign stefndu, Þuríðar Vilhelmsdóttur, Bragagötu 38, íbúð 0101 í Reykjavík, fyrir kr. 700.000, auk dráttarvaxta af kr. 321.600 frá 29.12.95 til 6.5.96, en af kr. 700.000 frá 6.5.96 til greiðsludags, auk tildæmds málskostnaðar kr. 100.000 og annars kostnaðar, sem síðar kann að falla til að tiltölu.