Hæstiréttur íslands
Mál nr. 592/2014
Lykilorð
- Veitingaleyfi
- Stjórnsýsla
- Sveitarfélög
- Andmælaréttur
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 19. mars 2015. |
|
Nr. 592/2014.
|
Sextán ehf. og Casino ehf. (Auður Björg Jónsdóttir hrl.) gegn Reykjavíkurborg (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Veitingaleyfi. Stjórnsýsla. Sveitarfélag. Andmælaréttur. Skaðabætur.
S ehf. og C ehf., eigendur tveggja veitingahúsa í Reykjavík, höfðuðu skaðabótamál á hendur sveitarfélaginu R og báru því við að R hefði annars vegar með umsögnum sínum samkvæmt 1. tölul. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og hins vegar með ólögmætri málsmeðferð valdið félögunum fjárhagstjóni með saknæmum og ólögmætum hætti sem R bæri bótaábyrgð á. Í héraðsdómi, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna hans, var vísað til þess R gæfi umsögn samkvæmt áðurgreindu lagaákvæði, en lögreglustjóri færi með leyfisveitingarvald og yrði ákvörðunum hans skotið til innanríkisráðuneytisins, en í þeim tilvikum sem málið varðaði hefði ráðuneytið fellt úr gildi ákvarðanir lögreglustjóra meðal annars með skírskotun til annmarka á umsögnum og málsmeðferð R. Talið var að R hefði verið heimilt að líta til löggæslusjónarmiða í umsögnum sínum, svo og að slík sjónarmið væru meðal þeirra sem líta bæri til við veitingu leyfa á grundvelli laga nr. 85/2007. Voru S ehf. og C ehf. ekki talin hafa sýnt fram á að afgreiðsla lögreglustjóra hefði orðið með öðrum hætti þótt allar umsagnir R hefðu verið jákvæðar. Þá var ekki talið sýnt að málsmeðferð R við veitingu umsagna hefði brotið í bága við reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ. á m. 13. gr. þeirra um andmælarétt. S ehf. og C ehf. voru því hvorki talin hafa sýnt fram á að saknæm og ólögmæt háttsemi R hefði bakað sveitarfélaginu bótaskyldu, né heldur að skilyrði um orsakasamband og sennilega afleiðingu væru uppfyllt. Var R því sýknað af kröfum félaganna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 8. september 2014. Áfrýjandinn Sextán ehf. krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.517.883 krónur og áfrýjandinn Casino ehf. 3.754.633 krónur, í báðum tilvikum með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. október 2007 til 27. júlí 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi hvors áfrýjanda fyrir sig.
Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga kost á að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því. Skýra verður þetta ákvæði svo að aðili eigi að jafnaði ekki sjálfstæðan rétt til að tjá sig um efni máls hjá þeim, sem veitir stjórnvaldi umsögn um það. Ekki var ástæða til að víkja frá þeirri meginreglu þegar lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu leitaði umsagnar meðal annarra frá stefnda um umsóknir áfrýjenda á grundvelli 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Með þessari athugasemd verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Sextán ehf. og Casino ehf., greiði hvor fyrir sig stefnda, Reykjavíkurborg, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2014.
I.
Mál þetta sem dómtekið var þann 15. apríl 2014 var höfðað með stefnu útgefinni 22. júní 2013 af Sextán ehf., Stapaseli 7,109 Reykjavík, og Casino ehf., Stapaseli 7, 109 Reykjavík, á hendur Reykjavíkurborg, Tjarnargötu 11, 101 Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda, Sextán ehf., eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnda 6.149.963 krónur í skaðabætur með vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af fyrrgreindri fjárhæð frá 10. október 2007 til þess dags þegar mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var kynnt stefnda, en dráttarvaxta eftir þann dag skv. 1. ml. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, auk málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda skv. framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.
Dómkröfur stefnanda, Casino ehf., eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 8.377.133 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af fyrrgreindri fjárhæð frá 10. október 2007 til þess dags þegar mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var kynnt stefnda, en dráttarvaxta eftir þann dag skv. 1. ml. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, auk málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda skv. framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.
Stefndi, Reykjavíkurborg, gerir þá kröfu að verða sýknaður af öllum dómkröfum stefnenda.
Þá krefst stefndi þess að stefnendum, hvorum fyrir sig, verði gert að greiða stefnda málkostnað að mati dómsins.
Upphafleg fjárhæð dómkröfu Sextán ehf. í stefnu var að honum yrðu greiddar 6.272.074 kr. í skaðabætur, en með sókn framlagðri 15. apríl 2014 af lögmanni stefnanda er gerð leiðrétting á fjárhæðinni og gerð grein fyrir því að tveir framlagðir reikningar frá Lögfræðiskrifstofu Reykjavíkur hafi verið framlagðir tvisvar og verði dregnir frá stefnufjárhæðinni, nánar tiltekið reikningar nr. T05067 og T05177, dsk. 44., og lækki stefnufjárhæð sem því nemur.
Í framlagðri sókn kemur jafnframt fram að reikningur nr. 243 á dskj. 46 vegna vinnu vegna málsins fyrir stefnendur komi fram að hann hafi einnig verið vegna vinnu óviðkomandi máli þessu og því sé fallið frá kröfu vegna þessa reiknings og lækki fjárhæð dómkröfu sem því nemi. Fjárhæð dómkröfu stefnanda Casino ehf. verði því 8.387.133 kr.
Í sókn kemur fram breyting á upphafstíma dráttavaxta í 27. júlí 2013 þegar mánuður hafi verið liðinn frá stefnu, en þessari breytingu var mótmælt af hálfu stefnda og er henni hafnað sem of seint fram kominni.
II.
Málsatvik
Stefnendur máls þessa eru eigendur og rekstraraðilar að veitingastöðunum Monte Carlo (Sextán ehf.) og Mónakó (Casino ehf.) sem báðir eru á Laugaveginum.
Þann 5. júlí 2007 sótti fyrirsvarsmaður veitingastaðanna um rekstrarleyfi, sbr. III. kafli laga 85/2007, til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Um var að ræða hefðbundna umsókn um endurnýjun rekstrarleyfis sem sækja þarf um á fjögurra ára fresti. Með bréfum, dags. 19. júlí 2007, óskaði lögreglustjórinn eftir umsögnum frá lögboðnum umsagnaraðilum, sbr. 4. mgr. 10. gr. áðurgreindra laga, þ. á m. frá stefnda. Umsagnir umsagnaraðila, umhverfissviðs stefnda, Vinnueftirlitsins, Heilbrigðiseftirlitsins og Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, voru allar jákvæðar. Umsögn stefnda, dags. 20. ágúst 2007, var jákvæð, en í henni voru tilmæli til Lögreglustjórans höfuðborgarsvæðisins um „að hann (lögreglustjóri) kanni ítarlega hvort hafna beri leyfisveitingu með tilvísun til þess fjölda kvartana sem borist hafa til embættis lögreglustjóra vegna ónæðis sem hlotist hefur af rekstri veitingastaðarins“.
Í framhaldi af þessu sendi lögreglustjórinn yfirlit yfir mál sem voru skv. dagbókum lögreglunnar skráð tengd veitingastöðunum og meðfylgjandi bréf, dags. 13 september 2007, þar sem óskað var eftir nýrri umsögn frá stefnda. Í framhaldi af þessu bréfi gaf stefndi út nýja umsögn, dags. 10.október 2007, þar sem vísað var til ummæla lögreglustjóra, til rökstuðnings tillögu um takmörkun á áfengisveitingartíma.
Lögreglustjóri gaf í kjölfarið þann 27. febrúar 2008 út leyfi til beggja veitingastaðanna með takmörkuðum veitingartíma, frá kl. 19:00 öll kvöld, til kl. 01:00 virka daga, en til kl. 03:00 um helgar. Þessa ákvörðun kærðu stefnendur til dómsmálaráðuneytisins með bréfi, dags. 6 mars 2008, og gerð var krafa um að felld yrði úr gildi ákvörðun lögreglustjórans og enn fremur að kæra frestaði réttaráhrifum. Afrit af kærunni var sent til borgarráðs og lögreglustjóra.
Daginn fyrir skírdag sama ár, um kl 16:00, bannaði lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu sölu á áfengi frá kl 11:00 til kl. 19:00 yfir páskahátíðina á veitingastöðum stefnenda. Strax eftir páska, með úrskurði 31. mars 2008, frestaði dómsmálaráðherra réttaráhrifum ákvörðunarinnar og heimilaði stefnendum að veita áfengi eins og áður ,,með tilliti til réttaröryggissjónarmiða og í ljósi þess að hér er um verulega íþyngjandi ákvörðun að ræða sem er til þess fallið að valda kæranda tjóni“.
Með úrskurði þann 20 október 2008 felldi dómsmálaráðherra ákvörðunina úr gildi vegna annmarka á málsmeðferð og fyrirskipaði Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að taka umsókn veitingahúsanna til meðferðar á ný að fenginni nýrri umsögn borgarráðs. Í úrskurðinum var tekið fram að lögreglustjóraembættinu bæri að taka málið til meðferðar að nýju og í framhaldinu óskaði lögregluembættið eftir nýrri umsögn Reykjavíkurborgar.
Umsagnarbeiðni lögreglustjórans var dags. 30.11.2008 og henni fylgdu að frumkvæði lögregluembættisins yfirlit úr málaskrá lögreglu fyrir tímabilið frá október 2007 til 27 október 2008. Stefndi sendi hina nýju umsögn með bréfi þann 4. september 2009 til stefnenda þar sem fram kom að umsögnin væri jákvæð með því skilyrði að opnunartími yrði takmarkaður, enn fremur að leyfið yrði gefið út til eins árs til reynslu og ef sú takmörkun reynist ekki „duga til að draga úr ónæði af veitingastaðnum“ mætti búast við því að borgarráð myndi gefa neikvæða umsögn að þeim tíma liðnum. Afgreiðslu málsins var frestað og stefnendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum eigi síðar en 16. september 2009.
Lögmaður stefnenda fundaði með nefnd/stýrihópi stefnda sem fjallar um veitingahúsarekstur í Reykjavík, fulltrúum í borgarráði stefnda og enn fremur Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu til að koma á framfæri mótmælum og athugasemdum við umsögn og meðferð málsins. Niðurstaða málsins var síðan að Reykjavíkurborg gaf skilyrta umsögn og á grundvelli hennar gaf Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu út bráðabirgðaleyfi til eins árs til reynslu. Var gildistíminn frá 2. mars 2010 til 2 mars 2011.
Stefnendur sóttu um endurnýjun á rekstrarleyfi veitingastaðanna með umsóknum í janúar. Með bréfum í febrúar 2011 óskaði Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu eftir umsögnum frá lögboðnum umsagnaraðilum, sbr. 4. mgr. 10. gr. áðurgreindra laga þ. á m. frá Reykjavíkurborg. Í kjölfarið bárust Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu umsagnir stefnda, Vinnueftirlitsins, Heilbrigðiseftirlitsins og Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu og voru allar umsagnirnar jákvæðar að frátalinni umsögn borgarráðs stefnda.
Þann 21. mars 2011 lagði skrifstofustjóri stefnda fyrir borgarráð tillögu að umsögn. Vísað var til þess að samkvæmt gögnum frá lögreglustjóranum væri ekki unnt að sjá að dregið hefði úr ónæði af stöðunum eða kvörtunum vegna ónæðis á reynslutímanum og hefðu fjölmargar kvartanir vegna ónæðis borist frá ýmsum tilgreindum aðilum. Af þeim sökum mælt með neikvæðri umsögn. Lögmaður stefnenda ítrekaði áður gerðar athugasemdir, dags. 20.4.2011, fyrir hönd rekstraraðilans vegna gagna frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og meintra brota stjórnvalda á stjórnsýslulögum, tölfræði sem var fyrirliggjandi ásamt því að gera athugasemdir við meint brot stjórnvalda á stjórnsýslulögum. Vísað var til þess að í gögnum frá lögreglustjóra væri um að ræða skýrslur sem hefðu ekkert með veitingarekstur stefnenda að gera.
Stefnendur óskuðu eftir frekari gögnum og nánari upplýsingum um þýðingu mála ásamt samanburði við aðra veitingastaði og var málinu frestað meðan gagna var beðið. Skýrslur bárust síðan í byrjun september með sömu upplýsingum og áður en tímabils sem náði yfir eitt ár. Ekki var í þeim gögnum samanburður við aðra veitingastaði og ekki var greint í sundur hvað væru eðlileg verkefni eða hvað teldist brot rekstraraðilans.
Vegna langs málsmeðferðartíma óskuðu stefnendur eftir endurnýjun leyfisins þann 11. febrúar 2011 þrátt fyrir að umsögn borgarráðs lægi ekki fyrir. Umsókn þessari var hafnað af hálfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu með bréfi þann 3. júní 2011.
Þann 16. nóvember 2011 var lögð fram ný tillaga að umsögn stefnda sem var síðan samþykkt 1. desember 2011. Stefnendum var veittur frestur til andmæla. Fyrir liggur ódagsett bréf stefnenda til stefnda þar sem fram koma athugasemdir hans.
Á fundinum þann 16. nóvember var ákveðið að fresta málinu og óska eftir frekari upplýsingum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna athugasemda lögmanns stefnenda varðandi skráningarkerfi lögreglunnar á málum/verkefnum sem skráð væru á veitingastaði stefnenda.
Í umsögninni sem samþykkt var á fundinum þann 1. desember kemur síðan fram að Reykjavíkurborg hafi einnig óskað eftir frekari gögnum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu varðandi mála- og verkefnaskrá fyrir tímabilið 2.3.2011 til nóvember 2011. Í umsögnum kemur fram að það sé niðurstaða skrifstofu borgarstjórnar að ekki verði á nokkurn hátt séð að rekstraraðilar veitingastaðanna Monte Carlo og Mónakó hafi uppfyllt þau skilyrði sem borgarráð hafi sett fyrir áframhaldandi rekstri veitingastaðanna. Að sama skapi hafi ekkert nýtt komið fram í fyrirliggjandi gögnum, þ.m.t. greinagerð lögmanns rekstraraðila sem hafi nokkur áhrif á málsmeðferðina og sé því mælt með því við borgarráð að veita neikvæða umsögn um endurnýjun rekstrarleyfisins með vísan til ofangreindra raka.
Með bréfum dags. 2. desember voru stefnendum sendar umsagnir Reykjavíkurborgar, dags. 1. desember og í framhaldinu veitti Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu stefnendum frest til andmæla til 3. janúar 2012. Andmæli voru send af hálfu lögmanns stefnenda til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu með bréfi, dags. 3. janúar 2012.
Á grundvelli fyrirliggjandi umsagna tók Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu málið til afgreiðslu og var ákvörðun tilkynnt með bréfi dagsettu 18 janúar 2012. Ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var að hafna endurnýjun rekstrarleyfis veitingastaðarins með vísan til neikvæðrar umsagnar Reykjavíkurborgar.
Í kjölfarið kærðu stefnendur ákvörðun lögreglustjóra til innanríkisráðuneytisins auk þess sem gerð var krafa um frestun réttaráhrifa. Í kærunni var jafnframt fjallað um annmarka á málsmeðferð borgarráðs.
Með bréfi dags. 20. janúar 2012 lagði innanríkisráðuneytið fyrir embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að gefa út nýtt bráðabirgðaleyfi fyrir veitingastaðina skv. 2. mgr. 13. gr. nr. 85/2007 með gildistíma miðað við þann tíma er ráðuneytið hefði kæruna til meðferðar en þó ekki lengur en til 20. apríl 2012.
Með úrskurði innanríkisráðuneytisins, dags. 11. maí 2012, var ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 18 janúar 2012, um að synja stefnendum um endurnýjun rekstrarleyfa fyrir veitingastaðina Monte Carlo og Mónakó, felld úr gildi og lagt fyrir lögreglustjóra að taka málið til nýrrar meðferðar. Niðurstaða ráðuneytisins grundvallaðist á því að þeir annmarkar væru á málsmeðferð stefnda að hún hefði ekki verið í samræmi við 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 og 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga.
III.
Málsástæður og lagarök stefnenda
Stefnendur reka mál þetta á grundvelli 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, þar sem dómkröfur þeirra eigi rætur að rekja til sömu atvika og aðstöðu skv. 19. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála. Kröfurnar séu jafnframt rökstuddar með sömu málsástæðum og byggðar á sömu lagareglum.
Stefnendur byggja dómkröfur sínar um skaðabætur á því að þeir hafi orðið fyrir fjártjóni vegna ólögmætrar málsmeðferðar af hálfu starfsmanna Reykjavíkurborgar, sem hafi verið viðvarandi frá árinu 2007. Við meðferð málsins hafi stefnendur orðið að ráða lögmenn til að halda uppi vörnum gegn ólögmætri málsmeðferð stefnda og sé það hluti skaðabótakröfunnar.
Af hálfu stefnenda er á því byggt að stefndi hafi með umsögnum sínum og ólögmætri málsmeðferð valdið stefnendum fjárhagstjóni með saknæmum og ólögmætum hætti, sem stefndi beri bótaábyrgð á samkvæmt almennum reglum íslensks skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð og sjónarmiðum sakareglunnar.
Stefnendur málsins byggja á því að stefndi hafi við málsmeðferðina, í tengslum við umsóknarferli stefnenda og umsögn sveitarfélagsins, brotið gegn lögum nr. 85/2007, einkum með því að hafa farið út fyrir valdsvið sitt og enn fremur með ómálefnalegri og ólögmætri umsögn um veitingastaði stefnenda.
Um leyfisveitingar sé fjallað í III. kafla laga nr. 85/2007 um veitinga- og gististaði. Í 1. mgr. 7. gr. segi að hver sá sem hyggist stunda starfsemi sem falli undir lögin skuli hafa til þess rekstrarleyfi útgefið af leyfisveitanda. Leyfi séu veitt til fjögurra ára í senn og þurfi rekstraraðili að sækja um endurnýjun að þeim tíma liðnum. Leyfisveitendur skv. lögunum séu sýslumenn að undanskildum Sýslumanninum í Reykjavík en Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefi út leyfi í umdæmi hans. Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laganna skuli leyfisveitandi leita umsagna sveitarstjórnar, heilbrigðisnefndar, slökkviliðs, vinnueftirlits, byggingarfulltrúa og lögreglu í því umdæmi þar sem starfsemi sé fyrirhuguð og skulu umsagnir vera skýrar og rökstuddar.
Sveitarstjórn beri að staðfesta að afgreiðslutími og staðsetning veitingastaðar sem umsókn lúti að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um skv. 1. tl. 4. mgr. 10. gr. lgvs. Í 7. mgr. sömu laga sé svo heimilt með reglugerð að kveða nánar á um umsóknarleyfi vegna rekstrarleyfa, þar á meðal útgáfu leiðbeininga fyrir umsagnaraðila um þau atriði sem umsögn skal lúta að og tímafresti. Slík ákvæði sé nú að finna í 24. gr. reglugerðar nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, en í 2. mgr. ákvæðisins segi ,,sveitarstjórn skal veita umsögn um fyrirhugaðan afgreiðslutíma staðar, þ.e. á hvaða tíma heimilt er að hafa hann opinn. Einnig staðfestir sveitarstjórn að staðsetning staðar sé innan þeirra marka se reglur og skipulag sveitarfélags kveður á um.“
Hlutverk umsagnaraðila og þar með talið stefnda sé afmarkað að því er varðar umsagnarsvið. Umsögn stefnda eigi skv. lögunum einungis að fjalla efnislega um ákveðinn afmarkaðan þátt sem í máli þessu snúi að skipulagi sveitarfélagsins að því er varði opnunartíma og staðsetningu.
Samkvæmt lögunum beri leyfisveitanda að gefa út rekstrarleyfi ef allar umsagnir eru jákvæðar en hafna útgáfu ef einhver umsögnin er neikvæð. Vegna þessa og eðli málsins samkvæmt, sé það mikilvægt og skipti í raun sköpum hvort umsögn sé jákvæð eða neikvæð, en neikvæð umsögn feli þannig í sér mjög íþyngjandi ákvörðun fyrir rekstraraðila sem sæki um endurnýjun.
Við mat á því hvort ákvörðun teljist íþyngjandi sé litið til þess hvaða réttindi hún skerði auk umfangs og eðlis skerðingarinnar. Ljóst sé að neikvæð umsögn sé verulega íþyngjandi þar sem leyfisveitanda sé óheimilt skv. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 að gefa út rekstrarleyfi ef einhver umsagnaraðila leggst gegn útgáfu leyfisins, sbr. einnig 2. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 585/2007. Því beri að gera ríkar kröfur til umsagnaraðila um að þeir vandi úrlausn umsagnar og geri það á lögboðnum vettvangi, sérstaklega ef hún leiðir af sér neikvæða umsögn sem leiði til þess að rekstrarleyfi viðkomandi veitingastaðar verði ekki endurnýjað. Þetta sé áréttað í athugasemdum við 10. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 85/2007.
Stefnendur byggja á því að í umsóknarferlinu frá 2007 og í umsögn stefnda árið 2008 hafi starfsmenn stefnda brotið gegn lögum nr. 585/2007 við meðferð málsins. Það verði séð af tillögum borgarráðs og skrifstofustjóra stefnda að um ómálefnalega meðferð málsins hafi verið að ræða. Borgarráð stefnda hafi byggt umsögn sína árið 2008 og 2011 á upplýsingum úr málaskrá Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Umsögnin hafi grundvallast á því að mörg „brot/verkefni“ mætti rekja til veitingastaða stefnenda. Jafnframt hafi umsögnin byggst á því að veitingastaðirnir yllu óásættanlegu ónæði í umhverfi sínu án þess að fram hafi komið frekari rökstuðningur. Umsagnirnar hafi jafnframt byggt á meintri tíðni afskipta lögreglu af veitingastöðunum eða gestum þeirra en eðli málsins skv. heyri slíkt mat undir Lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Þannig hafi umsagnir stefnda byggst á röngum upplýsingum og órökstuddum og ómálefnalegum fullyrðingum þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um rangfærslur. Skilyrt leyfi veitingastaðanna hafi enn fremur falið í sér brot á lögunum nr. 85/2007, sbr. niðurstöðu ráðuneytisins árið 2012. Samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 eigi borgarráð stefnda einungis að gefa umsögn um að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lúti að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segi til um. Því hafi stefndi farið út fyrir valdsvið sitt við meðferð málsins og í umsögnum sínum.
Þessi háttsemi stefnda sé brot á meginreglunni um lögbundna stjórnsýslu, en í 1. tl. 4. mgr. 10. gr. sé sveitarstjórn ætlað að fjalla um tiltekin sjónarmið og eigi umsögnin að byggjast á þeim sjónarmiðum sem mælt sé um í ákvæðinu. Í umsögn stefnda vegna umsókna stefnenda um endurnýjun rekstrarleyfis fyrir veitingastaðina Monte Carlo og Mónakó sé í engu getið um þau atriði sem sveitarfélaginu sé lögskylt skv. fyrrgreindu ákvæði að fjalla um í umsögn sinni. Stefndi hafi þar með ekki aðeins farið út fyrir valdsvið sitt og fjallaði um sjónarmið sem lögreglustjórinn átti að meta heldur hafi hann ekki byggt umsögn sína á lögskyldum sjónarmiðum sem felist í 1. tl. 4. mgr.10. gr. laga nr. 585/2007. Þannig hafi stefndi byggt umsögn sína á ómálefnalegum sjónarmiðum. Ofangreindar málsástæður stefnenda hafi síðan verið staðfestar með úrskurðum ráðuneytisins árið 2008 og 2012.
Stefnendur byggja á því að við meðferð mála veitingahúsa stefnenda hafi verið brotið gegn rétti þeirra á margvíslegan hátt. Ákvarðanir stefnda hafi falið í sér ákvarðanir um rétt og skyldu stefnenda og hafi þar af leiðandi verið stjórnvaldsákvarðanir. Þetta sé áréttað í 16. gr. málsmeðferðarreglna borgarráðs um veitingastaði og gististaði frá 16. júlí 2009 en þar segi: „Gætt skal viðeigandi ákvæða stjórnsýslulaga við afgreiðslu umsagna. Skal þess m.a. gætt að umsagnir séu byggðar á fullnægjandi upplýsingum.“
Stefnendur byggja á því að brotið hafi verið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttar í máli þessu. Í réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins felist að ávallt þurfi að byggja stjórnvaldsákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. Því hefði stefnda borið að leggja frekara mat á gögn og skýrslur lögreglu áður en hann gaf neikvæða umsögn árið 2008 og 2012. Ekkert komi fram í gögnum málsins um fjölda kvartana eða hvort tilefni hafi verið til afskipta o.s.frv. Auk þess hafi stefndi átt að byggja umsögn sína sem fyrr greinir á lögskyldum sjónarmiðum en ekki á sjónarmiðum sem voru á valdsviði lögreglu eða annarra umsagnaraðila. Af þeim sökum hafi umsögnin ekki verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum.
Stefnendur byggja á því að stefndi hafi við málsmeðferðina brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga. Kröfur og sjónarmið 10. gr. stjórnsýslulaga um rannsóknarskyldu stjórnvalds hafi ekki verið höfð að leiðarljósi við afgreiðslu umsagna stefnda árið 2008 og 2012. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun sé, þeim mun strangari kröfur verði að gera til sönnunar á nauðsyn ákvörðunar. Eins og fyrr greini sé umsögn stefnda bindandi og því hafi borið að gera ríkari kröfur til málsmeðferðarinnar. Í tilfelli stefnenda hafi ákvörðunin varðað atvinnuréttindi og mikilvæg fjárhagsleg réttindi. Á starfsmönnum stefnda hafi því hvílt rík skylda til þess að málið væri nægilega upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin og stefndi hafi átt að staðreyna þær upplýsingar sem byggt hafi verið á. Umsögnin hafi verið byggð á mjög íþyngjandi og neikvæðum upplýsingum um stefnendur úr málaskrá lögreglu. Í ljósi þess hafi verið ríkari ástæða fyrir stefnda að ganga úr skugga um að upplýsingarnar sem voru ákvörðunarástæða umsagnarinnar væru sannar og réttar. Engin rannsókn hafi farið fram af hálfu starfsmanna stefnda og tekið hafi verið fram í umsögninni að hún væri algjörlega byggð á gögnum lögreglunnar. Þá hafi ekki farið fram rannsókn á lögskyldum sjónarmiðum sem starfsmönnum stefnda hafi borið að styðjast við í umsögn sinni og sé það jafnframt brot á 2. ml. 16. gr. málsmeðferðarreglna um veitingastaði og gististaði dags. 16. júlí 2009 þar sem umsagnirnar séu ekki byggðar á fullnægjandi upplýsingum, sbr. úrskurði innanríkisráðuneytisins.
Stefnendur byggja á því að brotið hafi verið á rétti þeirra til andmæla. Rannsóknarreglan sé nátengd andmælarétti samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga, en mál verði ekki nægilega upplýst nema aðila hafi verið gefinn kostur á að kynna sér gögn máls svo og að koma að frekari upplýsingum um málsatvik. Jafnframt sé kveðið á um þetta í 2. ml. 16. gr. málsmeðferðarreglna um veitingastaði og gististaði dags. 16.7.2009, en skv. honum skuli aðilum gefinn kostur á að tjá sig um umsagnir áður en þær eru afgreiddar. Það sé sérstaklega brýnt þar sem umsagnirnar séu bindandi, sbr. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 og 2. mgr. 23. reglugerðar nr. 585/2007.
Forsvarsmanni stefnenda hafi hins vegar ekki verið gefinn kostur á að neyta andmælaréttar áður en borgarráð Reykjavíkurborgar veitti umsagnir sínar árið 2008 og 2012. Auk þess hafi hann ekki fengið að kynna sér gögn máls, tjá sig um fram komnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stefndi tók ákvörðun í málinu. Í umsögn borgarráðs Reykjavíkur komi fram að því hafi borist ályktun stjórnar Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkurborgar, þar sem skorað sé á borgaryfirvöld að mæla gegn endurnýjun rekstrarleyfis fyrir veitingarstaðinn Monte Carlo og þar sé m.a. vísað til ítrekaðra kvartana íbúa og verslunareigenda í nágrenni staðarins. Þá hafi borgarráði borist upplýsingar frá félaginu Miðborgin okkar um að málefni veitingastaðarins hefðu ítrekað borist inn á borð félagsins undanfarin ár og séu þar nefndar kvartanir vegna ónæðis af gestum veitingastaðarins og óþrifnaðar. Þá hafi borgaryfirvöldum borist fjölmargar munnlegar kvartanir vegna rekstrar veitingastaðarins og hafi síst dregið úr þeim. Stefnendur vísa í þessu sambandi til niðurstöðu úrskurðar innanríkisráðuneytisins frá árinu 2008 sem staðfesti að brotið hafi verið gegn andmælarétti stefnenda. Ekkert komi hins vegar fram í gögnum málsins um fjölda kvartana, hver hafi kvartað eða hvenær, hvort farið hafi verið á staðinn, hvort tilefni hafi verið til afskipta o.s.frv. Stefnendur hafi þar af leiðandi ekki getað gætt andmælaréttar síns, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, enda hafi málsatvik verið næsta óljós, sbr. úrskurð innanríkisráðuneytisins frá 11 maí 2012. Ótækt hafi því verið að leggja þessar upplýsingar til grundvallar ákvörðun sem voru stefnendum í óhag án þess að þeim gæfist tækifæri til að tjá sig um þær og koma að athugasemdum.
Stefnendur byggja á því að aðgangur að gögnum málsins og annars varðandi meðferð málsins hafi verið takmarkaður. Forsenda þess að aðili geti gætt hagsmuna sinna og tjáð sig um mál sé að hann hafi aðgang að gögnum máls. Í stjórnsýslulögum sé mælt fyrir um rétt aðila máls til að kynna sér gögn er mál hans varði, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga. Í því felist ekki eingöngu réttur til að kynna sér gögn málsins, heldur að jafnaði einnig réttur til að fá afrit eða ljósrit af málsskjölum. Stefnanda hafi verið veittur andmælaréttur þegar lögð var fram tillaga í mars 2011 og í því sambandi hafi hann fengið afrit af þeirri tillögu sem lögð var fram. Þegar málið var aftur lagt fram fyrir nýtt borgarráð með nýrri tillögu í nóvembermánuði 2011 hafi stefnandi ekki verið upplýstur um innihald tillögunnar sem leggja átti fyrir borgarráð og var neitað um þær upplýsingar. Enn fremur hafi verið óskað eftir gögnum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nóvembermánuði sem stefnandi fékk ekki að sjá en vísað sé til í umsögn stefnda sem bréfs frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með yfirliti yfir mál/verkefni fyrir tímabil á árinu 2011. Með þessu hafi þar fyrir utan verið brotið gegn 15. gr. stjórnsýslulaga varðandi upplýsingarrétt.
Stefnendur byggja á því að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins. Jafnræðisreglan sé lögfest í 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga og í henni felist að stjórnvöldum beri að gæta samræmis og jafnræðis við töku stjórnvaldsákvarðana. Reglan skiptist í tvo þætti, þ.e. samræmisþátt og jafnræðisþátt. Í samræmisþætti jafnræðisreglunnar felist að efnisreglur tveggja eða fleiri stjórnvaldsákvarðana séu bornar saman. Því hafi verið haldið fram að þegar stjórnvald hafi byggt matskennda stjórnvaldsákvörðun á tilteknum sjónarmiðum og lagt áherslu á ákveðin sjónarmið leiði þessi samræmisregla til þess að þegar sambærilegt mál komi aftur til úrlausnar stjórnvalds á grundvelli sama lagaákvæðis beri almennt að leysa úr því á grundvelli sömu sjónarmiða og með sömu áherslu og gert hafi verið við úrlausn eldri sambærilegra mála.
Ljóst sé að umsögn borgarráðs hafi ekki verið í samræmi við 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 og jafnframt hafi í umsögninni ekki verið getið um þau atriði sem borgarráði hafi verið lögskylt að fjalla um í umsögn sinni sbr. úrskurði ráðuneytisins frá 11 maí 2012. Telja verði því að stefndi hafi gerst brotlegur við 11. gr. stjórnsýslulaga þar sem samræmis hafi ekki verið gætt gagnvart stefnendum við veitingu vínveitingarleyfa til stefnenda og annarra vínveitingastaða með tilliti til fyrrgreindra laga.
Stefnendur byggja á því enn fremur að brotið hafi verið gegn rétti þeirra með óeðlilegum málsmeðferðartíma. Í 9. gr. stjórnsýslulaga sé kveðið á um að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt sé. Þá segi eftirfarandi í 2 mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 585/2007: „Umsagnir framangreindra aðila eru bindandi og skulu að jafnaði veittar eigi síðar en 45 dögum frá móttöku erindis leyfisveitanda þar að lútandi. Berist umsagnir ekki innan þess frests sem leyfisveitandi tilgreinir er leyfisveitanda heimilt að gefa út leyfi.“
Svipuð sjónarmið séu uppi í 2 .mgr. 16. gr. málsmeðferðarreglna borgarráðs um veitingastaði og gististaði, þar segi:
„Almennt skal málsmeðferðartími ekki fara yfir 3 vikur frá því umsagnarbeiðni hefur borist“.
Málsmeðferðartími í málum stefnenda feli í sér ótvírætt brot á fyrrgreindum lagagreinum hvað þetta varðar að ótöldum þeim tíma sem meðferð veitingastaðanna hafi hlotið allt frá 2007. Fundargerðir borgarráðs og önnur dómskjöl sem fylgi stefnu staðfesti ofangreint. Með tilliti til úrskurðarins og fyrrgreindra lagaákvæða sé ljóst að drátturinn í þessu máli sé verulegur, en 14 mánuðir hafi liðið frá því sótt var um endurnýjun á vínveitingarleyfi uns tilkynnt var um synjun á útgáfu leyfisins.
Með tilliti til þess og ofangreindra raka sé ljóst að háttsemi starfsmanna stefnda hafi verið ólögmæt og saknæm sem leitt til þess að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni. Háttsemi þessi og meðferð málsins sé andstæð lögum og meginreglum stjórnsýsluréttar og lögum nr. 85/2007 og beri stefndi skaðabótaábyrgð á því tjóni skv. reglum um vinnuveitendaábyrgð. Reglan sé ekki lögfest en hún sé óumdeild í skaðabótarétti og feli í sér að vinnuveitandi geti orðið skaðabótaskyldur vegna tjóns sem starfsmaður hans hafi valdið með saknæmum hætti.
Stefnendur sundurliða skaðabótakröfur sínar þannig:
1. Almennt fjártjón Sextán ehf. (Monte Carlo)
a. Rekstarstöðvun - missir hagnaðar kr. 532.080,-
b. Viðskiptavild töpuð kr. 3.000.000,-
2. Lögmannskostnaður. kr. 820.399,-
3. Vinnutap félagsins (fyrirsvarsmaður) kr. 1.632.000,-
Samtals kr. kr. 6.149.963
1. Almennt fjártjón Casino ehf. (Mónakó)
a. Rekstarstöðvun - missir hagnaðar kr. 617.500,-
b. Viðskiptavild töpuð kr. 3.000.000,-
2. Lögmannskostnaður. kr. 3.137.633,-
3. Vinnutap félagsins (fyrirsvarsmaður) kr. 1.632.000,-
Samtals kr. Kr. 8.387.133-
Stefnendur gera kröfu um bætur vegna taps við rekstrarstöðvun veitingastaða stefnenda. Með rekstrarstöðvun sé ekki eingöngu átt við tilvik þar sem reksturinn stöðvist í eiginlegri merkingu, heldur einnig tilvik þar sem truflanir verði á rekstri eða hann verði dýrari vegna skaðabótaskyldrar háttsemi. Tjón vegna rekstrarstöðvunar eigi að bæta eins og annað tjón og hið sama eigi við um missi hagnaðar. Krafan sé reiknuð út frá gögnum frá endurskoðanda stefnanda. Þegar mismunur á heildarsölutekjum um páskana 2007-2008 sé skoðaður sé ljóst að missir hagnaðar árið 2008 vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda sé 617.000 krónur vegna Mónakó (Casino ehf.) og 532.080 krónur vegna Monte Carlo (Sextán ehf.). Ljóst sé að orsakatengsl séu á milli hinnar ólögmætu háttsemi starfsmanna stefnda og tjóns stefnenda. Fyrrgreindur missir hagnaðar sé bein afleiðing af neikvæðri umsögn borgarráðs árið 2008, sem leitt hafi til þess að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi gefið út takmarkað vínveitingaleyfi sem leiddi til fyrrgreinds missir hagnaðar.
Stefnendur byggja á því að hin ólögmæta og saknæma háttsemi hafi valdið stefnendum tjóni á viðskiptavild staðanna. Við mat á verðmæti fyrirtækja séu fjármundir ávallt metnir skv. kostnaðar- eða markaðsverði. Hins vegar felist oft verðmæti, umfram raunvirði fjármuna fyrirtækisins, í viðskiptavild. Viðskiptavild vísi til óefnislegra verðmæta fyrirtækis, þ.e. fjárhagslegra verðmæta sem felist í því að eiga hóp fastra viðskiptavina, gott orðspor fyrirtækisins, þekkt vörumerki, vel uppbyggt innra skipulag, góð sambönd við birgja og aðra aðila, gott lánstraust og viðskiptasambönd. Ljóst sé að viðskiptavild stefnenda hafi skaðast verulega við þessa ólögmætu málsmeðferð og þeirra afleiðinga sem neikvæðu umsagnirnar leiddu af sér árin 2008 og 2012. Sem dæmi megi nefna að viðskiptasamband stefnenda við birgja skertist, orðspor beið hnekki, sbr. neikvæða umfjöllun í dagblöðum, færra fólk hafi komið á staðina og viðskiptasambönd hafi skerst. Með tilliti til þessa er krafist skaðabóta vegna tapaðrar viðskiptavildar fyrir hönd Casino ehf. sem metnar séu á 3.000.000 króna.
Jafnframt er krafist skaðabóta vegna tapaðrar viðskiptavildar fyrir hönd Sextán ehf. sem metnar eru á 3.000.000 kr. Ljóst sé að orsakatengsl séu á milli hinnar ólögmætu háttsemi stefnda og tjóns stefnenda vegna viðskiptavildarinnar, en fyrrgreindur missir hagnaðar er bein afleiðing af ólögmætri meðferð málsins og tapaðrar viðskiptavildar.
Stefnendur gera kröfu um greiðslu lögmannskostnaðar þar sem eðlilegt hafi verið að stefnendur leituðu sér lögmannsaðstoðar til að verjast hinni ólögmætu meðferð sem stefendur hafi þurft að þola. Krafa skv. þessum kröfulið sé byggð á reikningum lögmanna er unnu í máli þessu fyrir stefnendur. Reikningar vegna lögmannskostnaðar í málunum hafi ýmist verið í nafni Casino ehf. eða Sextán ehf., en um sé að ræða lögfræðivinnu sem hafi verið algjörlega hliðstæð og unnin fyrir báða staðina hverju sinni að jöfnu. Ljóst sé af ofangreindu að útlagður kostnaður ónýttist stefnendum vegna annmarka á málsmeðferð og fyrri niðurstöðum varnaraðila. Skilyrði þess að unnt sé að líta svo á að um tjón sé að ræða, sem stefnendur eigi rétt á að fá bætt á grundvelli reglna skaðabótaréttar, sé að orsakatengsl séu á milli saknæmrar og ólögmætrar háttsemi varnaraðila og þess að hinn útlagði kostnaður ónýttist.
Stefnendur byggja á því að hér að framan hafi verið lýst veigamiklum annmörkum á málsmeðferð stefnda á erindi stefnenda, meðal annars hafi meðferð málsins verið andstæð málshraðareglu 9. gr. laga nr. 37/1993, ásamt brotum á rannsóknar- og andmælareglu sömu laga sbr. 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga, sbr. úrskurð innanríkisráðuneytisins í máli IRR 12010331, dags. 11 maí 2012, og úrskurð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 20. október 2008 og 15. gr. stjórnsýslulaga. Jafnframt hafi bindandi umsögn borgarráðs ekki verið í samræmi við 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 og 2. ml. 16. gr. málsmeðferðarreglna um veitingastaði og gististaði, dags. 16.7.2009. Málsmeðferðin hafi því verið ólögmæt. Málsmeðferð og umsögn af hálfu starfsmanna stefnda hafi verið haldin slíkum annmörkum að skilyrðinu um saknæmi sé fullnægt og því sé stefndi skaðabótaskyldur vegna tjóns stefnenda, sem hafi falist í því að útlagður kostnaður þeirra hafi ónýst þeim, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 70/2008.
Samkvæmt framansögðu verði að líta svo á að sannanlegur lögmannskostnaður stefnanda við að ná fram rétti sínum vegna ólögmætrar málsmeðferðar sé tjón sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á og orðið hafi á fyrrgreindu tímabili frá 2007 til 2012.
Stefndu byggja á því að ólögmæt málsmeðferð af hálfu starfsmanna stefnda hafi enn fremur valdið tjóni með þeim hætti að starfsmenn veitingastaðanna hafa óhjákvæmilega orðið að nota vinnutíma til að vinna í þessu máli og aukið við vinnutíma vegna þessa. Þetta eigi sérstaklega við um fyrirsvarsmann veitingastaðanna, sem hafi þurft að eyða hundruðum tíma vegna meðferðar málsins sl. sex ár og hafi vinna hans falist í fundum með lögmönnum stefnenda, gagnaöflun og fundum með stefnda. Öll þessi vinna hafi leitt til þess að ráða hafi þurft starfsmann til að leysa hann af að hluta til við vinnu á veitingastöðunum.
Samtals gera stefnendur kröfu um vinnutap sem nemur alls 3.000 vinnustundum á tímabilinu sem sé um sex ár í heild. Miðað sé við tímakaup skv. launaflokki 1 miðað við starfsmann á veitingahúsi skv. kaupgjaldaskrá 15 frá Samtökum atvinnulífsins sem gilti frá 1.2.2012 og sé 1.088 krónur. Samtals sé tjónið því 3.000 x 1.088 = 3.264.000 sem skiptist til helminga á veitingastaðina, eða 1.632.000 krónur fyrir hvorn stefnenda. Ljóst sé að orsakatengsl séu á milli hinnar ólögmætu háttsemi stefnda og tjóns stefnenda vegna aukins launakostnaðar og fyrrgreindur launakostnaður sé bein afleiðing af ólögmætri meðferð málsins hjá stefnda.
Um lagarök vísa stefnendur einkum til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, aðallega 9., 10., 13. og 15 gr. laga nr. 85/2007 um veitingahús og gististaði, einkum 10. gr. Þá vísa stefnendur til almennra reglna skaðabótaréttarins, einkum sakarreglunnar. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðja stefnendur við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum.
Um varnarþing vísa stefnendur til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 og um samlagsaðild til 19. gr. laga nr. 91/1991. Kröfu um málskostnað styðja stefnendur við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. XXI kafli laganna.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi vísar til þess að stefnendur geri hvor um sig kröfu um greiðslu skaðabóta vegna meintrar saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda sem, eins og segi í stefnu, hafi verið viðvarandi frá árinu 2007. Kröfurnar séu settar fram í þremur liðum hvað hvorn stefnanda varði og lúti að meintu almennu fjártjóni, sem skiptist í rekstrarstöðvun (missi hagnaðar) og tapaða viðskiptavild, lögmannskostnað á stjórnsýslustigi og vinnutap fyrirsvarsmanns félaganna. Stefndi byggir á því að ekki sé fyrir hendi saknæm og ólögmæt háttsemi stefnda, sem gæti hafa leitt til tjóns fyrir stefnendur og að meint tjón stefnenda sé ósannað og ekki hafi verið sýnt fram á orsakatengsl eða hvernig skilyrði um sennilega afleiðingu séu óuppfyllt.
Í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald komi fram að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefi út leyfi á grundvelli laganna. Stefndi sé á grundvelli 1. töluliðs 4. mgr. 10. gr. laganna einn sex umsagnaraðila um rekstrarleyfi. Mál þetta virðist lúta að því að með umsögnum sínum um endurnýjun rekstrarleyfa vegna veitingastaða, sem stefnendur reki, hafi stefndi bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnendum með saknæmri og ólögmætri háttsemi. Stefnendur hafi lagt fram á dskj. nr. 3, 5, 12 og 28 umsagnir stefnda sem leyfisveitandi, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, aflaði á grundvelli tilvitnaðs lagaákvæðis. Stefnendur haldi því fram að með umsögnum sínum hafi stefndi farið út fyrir valdsvið sitt og fjallað um sjónarmið, sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi átti að veita umsögn um sem einn umsagnaraðilanna sex og hafi umsögn stefnda því ekki byggst á lögskyldum sjónarmiðum eins og þau komi fram í lagaákvæðinu. Í stefnu á bls. 12-17 á dskj. nr. 1 sé fjallað í löngu máli um hvaða réttarreglur stefndi á að hafa brotið með veitingu umsagna sinna og að það sé sennileg afleiðing meints tjóns stefnenda.
Stefnendur haldi því annars vegar fram að stefndi hafi ekki mátt byggja á löggæslusjónarmiðum í umsögnum sínum, heldur hafi það verið hlutverk lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar byggi stefnendur á því að stefndi hafi brotið ýmsar réttarreglur við umfjöllun um þetta sama sjónarmið.
Stefndi hafnar því að hann hafi í umsögnum sínum byggt á sjónarmiðum sem honum hafi verið óheimilt að vísa til. Stefndi bendir á að ekki sé um tæmandi upptalningu að ræða í 1. tölul. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 á þeim atriðum sem umsögn sveitarstjórnar eigi að taka til, heldur segi að í umsögn sveitarstjórnar eigi sveitarstjórnin m.a. að staðfesta að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lúti að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segi til um. Til samanburðar segir í 6. tölul. sama ákvæðis að í umsögn lögreglu skuli m.a. kveðið á um nauðsyn til dyravörslu. Það sé langt í frá að umsögn lögreglustjóra verði bundin við þörf á dyravörslu. Með sama hætti hljóti sveitarstjórn að vera heimilt að leggjast gegn rekstrarleyfi ef reynslan af rekstri staðarins hefur verið með þeim hætti að ekki þyki verjandi miðað við staðsetningu viðkomandi veitingastaðar í sveitarfélaginu.
Verði það þó niðurstaðan að stefndi teljist hafa farið út fyrir valdsvið sitt og byggt á sjónarmiðum sem honum hafi verið óheimilt að byggja á, bendir stefndi á að löggæslusjónarmið er eitt þeirra sjónarmiða sem nauðsynlegt er eðli máls samkvæmt að horfa til við veitingu leyfa á grundvelli tilvísaðra laga nr. 85/2007, sbr. einnig 24. gr. reglugerðar nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Í úrskurðum innanríkisráðuneytisins sem liggi fyrir í málinu komi fram að það sé afstaða ráðuneytisins að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sé umsagnaraðili um löggæsluatriði en ekki stefndi. Eftirfarandi kemur m.a. fram á bls. 22 beggja úrskurða: „Með öðrum orðum getur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu enn synjað um leyfi þrátt fyrir að aðrar umsagnir séu allar jákvæðar telji hann að þau atriði er honum ber að líta til skuli leiða til þess.“
Framangreint sýnir að þrátt fyrir að litið yrði svo á að stefndi hafi farið út fyrir valdsvið sitt við gerð umsagna og byggt á sjónarmiðum, sem öðru stjórnvaldi hafi verið rétt að leggja mat á, þá sé um að ræða sjónarmið sem hafi borið að horfa til við veitingu leyfisins. Stefnendur hafi ekki sýnt fram á að leyfisveitandi hefði afgreitt mál þeirra með öðrum hætti þótt legið hefðu fyrir jákvæðar umsagnir stefnda, sem hefðu ekki byggt á sjónarmiðum um löggæslu. Það sé því ekkert komið fram um að orsakasamband sé á milli þess að stefndi veitti neikvæðar umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir stefnenda og meints tjóns stefnenda, hvað þá að um sennilega afleiðingu sé að ræða sem stefndi beri ábyrgð á. Þá vekur stefndi athygli á því að ef stefndi hefur farið út fyrir valdsvið sitt með því að byggja umsagnir sínar á ólögmætum sjónarmiðum, þá hefur leyfisveitandanum, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, væntanlega verið skylt að líta fram hjá slíkri umsögn.
Þá vísi stefnendur til brots á rannsóknarreglu, andmælareglu og reglu um aðgang að gögnum. Stefndi mótmælir því að hann hafi brotið framangreindar reglur en bendir jafnframt á þá þversögn sem fellist í málatilbúnaði stefnenda. Ef stefnda var óheimilt að byggja umsagnir sínar á tilteknu sjónarmiði þá hafi stefnda vart verið skylt að rannsaka það, veita andmælarétt og afhenda gögn í tengslum við það. Þá byggi stefnendur á því að brotið hafi verið gegn réttmætisreglu og jafnræðisreglu en færi engin haldbær rök fyrir ætluðum brotum á þeim reglum. Stefnendur vísi til þess að samræmis hafi ekki gætt hjá stefnda við veitingu leyfa en styðja þá fullyrðingu sína hvorki með gögnum né dæmum. Stefndi minnir á að það sé ekki hlutverk stefnda að veita umrætt leyfi. Enn fremur byggi stefnendur á því að málsmeðferðartími hafi verið of langur og vísa í því sambandi til þess að fjórtán mánuðir hafi liðið frá því að sótt hafi verið um endurnýjun á leyfi þar til tilkynnt hafi verið um synjun á útgáfu leyfisins. Ekki fæst séð hvernig umsagnaraðili líkt og stefndi geti borið ábyrgð á málsmeðferðartíma við útgáfu leyfis nema hvað varðar þann tíma sem tekur að veita umsögn. Stefndi sé ekki leyfisveitandi og stefndi hafi þ.a.l. ekki forræði fyrir málsmeðferðinni og þeim tíma sem hún taki.
Í tengslum við þær fullyrðingar stefnenda að með tilvitnuðum úrskurðum innanríkisráðuneytisins hafi verið staðfest að stefndi hafi brotið framangreindar réttarreglur, áréttar stefndi að ekki hafi verið kvartað yfir háttsemi stefnda í þeim málum heldur leyfisveitandanum, Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Úrskurðirnir geti því ekki með nokkrum hætti staðfest meint brot stefnda.
Að ofangreindu virtu telur stefndi ljóst að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að stefndi hafi brotið lög eða með öðrum hætti sýnt af sér saknæma eða ólögmæta háttsemi sem kynni að baka stefnda bótaábyrgð. Þá hafi stefnendur því síður sýnt fram á að orsakasamhengi sé milli ætlaðra brota stefnda og ætlaðs tjóns stefnenda. Stefndi bendir á að stefnendur beri alla sönnunarbyrði í málinu. Þegar af þessum ástæðum verði að sýkna stefnda af öllum dómkröfum í málinu. Verði af einhverjum ástæðum ekki fallist á sýknu á þessum grundvelli vísar stefndi til eftirfarandi umfjöllunar um kröfuliði stefnenda.
Varðandi fjárkröfur vegna almenns fjártjóns stefnenda, annars vegar vegna rekstrarstöðvunar (missis hagnaðar) og hins vegar vegna tapaðrar viðskiptavildar, byggir stefndi á því að þær séu órökstuddar.
Kröfur stefnenda vegna rekstrarstöðvunar (missis hagnaðar) séu grundvallaðar á gögnum endurskoðenda stefnenda og þá útreikninga sé að finna í dskj. nr. 9. Samkvæmt útreikningum í dskj. nr. 9 sé tap stefnanda Sextán ehf. sagt vera 532.080 kr. og tap stefnanda Casino ehf. 617.500 kr. eða samtals 1.149.580 kr. Umræddar tölur séu fengnar með því að bera saman heildarsölutölur frá tilteknu tímabili í kringum páska annars vegar árið 2007 og hins vegar árið 2008. Um sé að ræða 10 daga tímabil frá miðvikudegi fyrir skírdag og til föstudags næstu viku. Stefnendur telja að meint saknæm og ólögmæt háttsemi hafi leitt til sölutaps milli ára.
Vegna þessa vekur stefndi athygli á að þar sem páskadagur er haldinn fyrsta sunnudag eftir fyrsta fulla tungl frá og með 21. mars ber páskana ekki upp á sama mánaðardag ár hvert. Bornar séu saman sölutölur á 10 daga tímabili í kringum páskahátíðina. Tímabilið hafi staðið frá 4.-13. apríl árið 2007 en frá 19.-28. mars árið 2008. Ef sölutölur áranna 2007 og 2009 eru hins vegar bornar saman megi sjá að þær séu keimlíkar en viðmiðunartímabil ársins 2009 stóð frá 8.-17. mars. Viðmiðunartímabil áranna 2007 og 2009 eigi það sameiginlegt að vera mun fyrr í mánuðinum en tímabil ársins 2008. Stefnda þykir augljóst að meginskýring á minni sölu páskavikuna 2007 en sögð sé reyndin 2008, sé hversu langt hafi verið liðið frá mánaðamótum þegar páskavikuna bar upp á árinu 2007. Stefnendur beri því saman ósambærileg tímabil. Þá þyki rétt að benda á að sölutekjur endurspegla ekki hagnað fyrirtækjanna heldur rekstrarafkoman í heild sinni. Mörg fyrirtæki með miklar sölutekjur séu engu að síður rekin með miklum halla og eigendur væru betur settir í stöðvun rekstrar áður en hallarekstur hefur étið upp allt eigið fé. Stefnendur hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýna hver var hagnaður þeirra umrætt tímabil og til samanburðar á sama tímabili árið áður og næstu ár á eftir. Þá hafi ekki verið lagt fram fram endurskoðað uppgjör félaganna kröfunum til staðfestingar.
Stefndi byggir á því að ekki hafa verið færðar sönnur fyrir því að meint tjón stefnenda megi reka til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda. Jafnvel þótt litið yrði svo á að einhver háttsemi stefnda hafi verið saknæm og ólögmæt sé með öllu ósannað eitthvert orsakasamhengi milli háttsemi stefnda og meints tjóns stefnenda eða að það hafi verið sennileg afleiðing þeirrar háttsemi. Kröfum stefnenda sé því mótmælt þar sem tjón stefnenda sé ósannað, ekki hafi verið sýnt fram á orsakatengsl við meinta saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda og skilyrði um sennilega afleiðingu séu ekki uppfyllt.
Þá byggir stefndi á því að skaðabótakröfur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Stefndi telur að upphaf fyrningarfrests krafnanna sé 19.-28. mars 2008. Verði ekki séð að þeirri fyrningu hafi verið slitið fyrr en með birtingu stefnu 26. júní sl. Meintar kröfur um skaðabætur eru því fyrndar.
Stefnendur gera hvor um sig kröfu um greiðslu 3.000.000 kr. vegna tapaðrar viðskiptavildar eða samtals 6.000.000 kr. Kröfurnar séu settar fram sem almennar fjárkröfur utan samninga en rökstuddar í stefnu eins og um væri að ræða kröfur um greiðslu fyrir ófjárhagslegt tjón en slíkar bætur geti augljóslega ekki komið til greina.
Stefndi tekur fram að viðskiptavild megi skipta annars vegar í keypta viðskiptavild og hins vegar viðskiptavild sem nefna má innbyggða viðskiptavild. Keypt viðskiptavild sé mismunur á kaupverði fyrirtækis og verðmæti eigna þess. Slíka viðskiptavild sé aðeins hægt að bókfæra sem óefnislega eign í efnahag ef fyrirtæki er keypt í heilu lagi. Hún myndist því ekki við kaup á einstökum rekstrarfjármunum, við sameiningu tveggja félaga eða við endurmat eigna í félagi. Innbyggða viðskiptavild megi skýra sem kostnað sem sé til þess fallinn að auka hag viðkomandi fyrirtækis til framtíðar án þess að til verði óefnisleg eign. Innbyggð viðskiptavild geti m.a. verið fólgin í því að hópur viðskiptamanna kjósi að skipta við fyrirtæki vegna einhverra sérstakra kosta þess. Ekki sé hægt að setja mælistiku á innbyggða viðskiptavild og geti hún því ekki talist eign í bókhaldslegum skilningi. Hana sé því ekki hægt að bókfæra. Í stefnunni sé ekki getið um hvort hin meinta tapaða viðskiptavild sé keypt eða innbyggð. Jafnframt sé engin tilraun gerð til þess að styðja kröfurnar með neinum gögnum. Fjárkröfur um bætur vegna tapaðrar viðskiptavildar séu því með öllu órökstuddar og því eigi stefndi erfitt með að átta sig á því hvort og hvenær hið meinta tjón hafi átt sér stað og hvernig rekja megi það til meintrar saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda. Meint tjón stefnenda sé ósannað, ekki hefur verið sýnt fram á orsakatengsl við meinta saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda og skilyrði um sennilega afleiðingu sé ekki uppfyllt.
Þá er á því byggt að kröfur um skaðabætur vegna meintrar tapaðrar viðskiptavildar séu fyrndar, að hluta eða öllu leyti, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.
Stefndi bendir á að stefnendur geri kröfu um greiðslu lögmannskostnaðar á stjórnsýslustigi og séu kröfurnar grundvallaðar á reikningum á dskj. nr. 44, 45 og 46. Í stefnu séu færð rök fyrir kröfunni og m.a. vísað til þess að útlagður kostnaður hafi ónýst stefnendum vegna þeirra annmarka sem voru á málsmeðferð og niðurstöðu stefnda. Í þessu sambandi áréttar stefndi sérstaklega að annars vegar sé það Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sem gefi út leyfi á grundvelli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. 3. mgr. 7. gr. laganna eins og fram hafi komið. Hins vegar gildir sú meginregla í íslenskum rétti að borgararnir verði sjálfir að bera þann kostnað sem þeir hafi af erindum sínum til stjórnvalda og málarekstri fyrir þeim, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands frá 30. október 2008, nr. 70/2008. Kjósi þeir að nota aðstoð sérfræðinga við slík erindi og hafi af því kostnað geti þeir ekki krafist þess að sá kostnaður verði þeim bættur, þótt erindið eða málareksturinn verði árangurslaus.
Stefnandi Sextán ehf. gerir kröfu um greiðslu 820.399 kr. vegna lögmannskostnaðar. Við yfirferð framlagðra reikning sem allir eru undir dskj. nr. 44 fæst séð að þeir nema alls fjárhæð 1.273.478 kr. en reikningar T05067 að fjárhæð 164.340 kr. og T05177 að fjárhæð 123.255 kr. séu tvívegis lagðir fram. Af því er virðist hefði krafa vegna allra framlagðra reikninga því hæst átt að vera 985.833 kr.
Stefndi byggir á því að krafa um greiðslu lögmannskostnaðar sem grundvölluð sé á reikningum sem greiddir hafi verið fyrir 26. júní 2009 sé fyrnd, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Samkvæmt viðskiptayfirliti sem er ónúmeruð bls. 1 á dskj. nr. 44 á það við eftirtalda reikninga:; T03639 að fjárhæð 153.446 kr., T04032 að fjárhæð 147.533 kr., T05067 að fjárhæð 164.340 kr., T05177 að fjárhæð 123.255 kr., T06110 að fjárhæð 57.581 kr. og T06293 að fjárhæð 63.339 kr.
Þá gerir stefndi athugasemdir við eftirfarandi reikninga, enda ekki á þeim að sjá að þeir hafi nokkur tengsl við sakarefnið eins og stefnandi Sextán ehf. hafi markað því farveg: Reikningur T03639 að fjárhæð 153.446 kr., texti á reikningi beri ekki með sér að hann sé tilkominn vegna vinnu vegna sakarefnisins, að auki sé hann tilkominn vegna vinnu Sveins Andra Sveinssonar hrl. en aðrir reikningar séu sagðir vegna vinnu Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl.
Reikningar T06110 að fjárhæð 57.581 kr., T06293 að fjárhæð 63.339 kr., T06398 að fjárhæð 109.404 kr., T06499 að fjárhæð 92.130 kr. og T06675 að fjárhæð 195.776 kr. beri það ekki með sér að þeir séu tilkomnir vegna vinnu í tengslum við sakarefnið. Þá vísi þeir til vinnuskýrslna sem ekki séu meðal dómskjala málsins.
Krafa stefnanda Sextán ehf. vegna lögmannskostnaðar sé því órökstudd, ósönnuð og án tengsla við sakarefnið eins og stefnandi hafi markað því farveg og sé henni því mótmælt. Meint tjón stefnanda sé ósannað, ekki hafi verið sýnt fram á orsakatengsl við meinta saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda og skilyrði um sennilega afleiðingu séu ekki uppfyllt.
Stefnandi Casino ehf. gerir kröfu um greiðslu 3.237.633 kr. vegna lögmannskostnaðar. Krafan grundvallist á reikningum sem annars vegar eru á dskj. nr. 45 sem séu samtals 1.212.755 kr. og á dskj. nr. 46 sem séu samtals 2.689.389 kr. Framlagðir reikningar hljóði því upp á 3.902.144 kr., sem samrýmist ekki þeirri fjárkröfu sem höfð sé uppi í málinu.
Allir reikningar á dskj. nr. 45, að frátöldum T040310, eru lagðir fram tvisvar. Reikningar T04718 og T04719, sem hvor um sig eru lagðir fram tvisvar, séu gefnir út sama dag með sama texta og beri þeir með sér að um sé að ræða rukkun tvívegis fyrir sömu vinnuna. Á viðskiptayfirliti sem sé ónúmerað bls. 1 á dskj. nr. 45 sé ekki að sjá bakfærslu á öðrum reikningnum. Krafa vegna reikninga á dskj. nr. 45 ætti því hæst að vera 557.636 kr. m.v. að hver reikningur sé lagður fram einu sinni og að reikningar T04718 og T04719 feli í raun í sér tvírukkun fyrir sömu vinnu.
Þá eru gerðar eftirfarandi athugasemdir við reikninga á dskj. nr. 46 sem fæst ekki séð að hafi nokkur tengsl við sakarefnið eins og stefnandi Casino ehf. hefur markað því farveg: Reikningar nr. 87 að fjárhæð 526.287 kr., nr. 203 að fjárhæð 298.445 kr., nr. 282 að fjárhæð 158.722 kr., nr. 277 að fjárhæð 175.213 kr., nr. 265 að fjárhæð 175.2013 kr. og nr. 247 að fjárhæð 206.134 kr. beri ekki með sér að þeir séu tilkomnir vegna vinnu í tengslum við sakarefnið, heldur sé almennt vísað til lögfræðilegrar ráðgjafar.
Fyrir utan þær athugasemdir sem gerðar hafa verið við framlagða reikninga á dskj. nr. 45 og 46 byggir stefndi á því að krafa um greiðslu lögmannskostnaðar sem grundvölluð sé á reikningum sem greiddir hafi verið fyrir 26. júní 2009 sé fyrnd, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Samkvæmt viðskiptayfirliti, sem sé ónúmeruð bls. 1 á dskj. nr. 45, eigi það við um alla reikninga á dskj. nr. 45.
Krafa stefnanda Casino ehf. vegna lögmannskostnaðar sé því órökstudd, ósönnuð og án tengsla við sakarefnið eins og stefnandi hafi markað því farveg og sé henni því mótmælt. Meint tjón stefnanda sé ósannað, ekki hafi verið sýnt fram á orsakatengsl við meinta saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda og skilyrði um sennilega afleiðingu séu ekki uppfyllt.
Stefndi vísar til þess að stefnendur geri hvor um sig kröfu um greiðslu 1.632.000 kr. eða samtals 3.264.000 kr. vegna vinnutaps starfsmanna félaganna. Í stefnu sé því haldið fram að vinnutap starfsmanna félaganna, einkum fyrirsvarsmanns þeirra, hafi numið um 3.000 vinnustundum á sex ára tímabili, einkum vegna samskipta fyrirsvarsmanns stefnenda við stefnda og vegna samskipta við lögmann vegna háttsemi stefnda.
Hvorki í stefnunni sjálfri né í gögnum málsins geri stefnendur tilraun til þess að sýna fram á hvernig skert vinnuframlag sé fundið út. Þá séu ekki lögð fram gögn sem sýnt geti fram á að launakostnaður félaganna hafi aukist. Kröfurnar séu því að öllu leyti órökstuddar og ósannaðar. Í þessu sambandi bendir stefndi á að á umræddu tímabili keyptu stefnendur lögmannsþjónustu til þess að vinna í málum félaganna og sé í stefnu krafist samtals 4.477.527 kr. vegna þess. Ef fjöldi tíma samkvæmt framlögðum reikningum sé lagður saman sé um að ræða 286,25 klst. Hvað tilvitnaða fjárhæð og fjölda tíma varðar sé vísað til þess sem fram komi í umfjöllun um kröfur vegna lögmannskostnaðar. Í keyptri lögmannsþjónustu hafi falist m.a. fundarseta með fyrirsvarsmanni stefnenda, fundir lögmanna með borgarfulltrúum og fundir lögmanna með starfsmönnum ráðuneyta. Er því dregið í efa að tapaðar vinnustundir fyrirsvarsmanns stefnenda séu 3.000 klst. Ef gert er ráð fyrir því að fyrirsvarsmaðurinn hafi setið með lögmönnum sínum allan þann fjölda stunda sem kröfur vegna lögmannskostnaðar grundvallist á standi eftir ríflega 2.700 vinnustundir sem fyrirsvarsmaður stefnenda eigi að hafa unnið að málinu án atbeina lögmanna. Ef unnin er 40 klst. vinnuvika er um að ræða 67,5 vikna vinnutap eða sem nemur tæplega einu og hálfu ári. Blasi því við að það fái ekki staðist.
Í tengslum við kröfur stefnenda er vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá árinu 2002, bls. 4363 er laut að kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi íslenska ríkisins vegna þess að vinna starfsmanna stefnanda við að fá ólögmæt gjöld felld niður hafi skert vinnuframlag þeirra í hans þágu. Í niðurstöðu Hæstaréttar Íslands komi eftirfarandi m.a. fram: „Af framlögðum gögnum verður ekki annað ráðið en að gagnaöflun hans og bréfaskriftir hafi verið eins og hver annar þáttur í starfsemi hans. Fyrirtæki sem þetta þurfa jafnan að eiga samskipti við stjórnvöld, þar á meðal til þess að fá leiðréttingar sinna mála.“ Íslenska ríkið hafi verið sýknað af bótakröfunni. Fyrirtæki í leyfisskyldum rekstri líkt og stefnendur þurfi að vera í samskiptum við stjórnvöld, m.a. til þess að afla tilskilinna leyfa. Draga verði þá ályktun af tilvísuðum dómi að vinna fyrirsvarsmanns stefnenda vegna fundahalda og gagnaöflunar hafi verið eins og hver annar þáttur í starfsemi félaganna.
Stefndi telur því að kröfur stefnenda um greiðslu kostnaðar vegna vinnutaps starfsmanna séu órökstuddar og ósannaðar og mótmælir þeim. Meint tjón stefnenda sé ósannað, ekki hefur verið sýnt fram á orsakatengsl við meinta saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda og skilyrði um sennilega afleiðingu séu ekki uppfyllt.
Kröfum stefnenda um greiðslu vaxta, dráttarvaxta og vaxtavaxta er mótmælt sérstaklega af stefnda. Í því sambandi er bent á að upphafstími vaxta sé sagður vera 10. október 2007 en hluti krafna byggi á gögnum og atvikum eftir þann dag. Dráttarvaxtakröfurnar séu ódómtækar þar sem upphafstími dráttarvaxta er ekki tilgreindur og því ekki unnt að taka dómkröfurnar upp í dómsorð. Stefndi mótmælir kröfum stefnenda um greiðslu vaxta sem eru eldri en fjögurra ára frá málshöfðunardegi sérstaklega sem fyrndum, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Hvað sem öðru líður er þess krafist af stefnda að upphafstími vaxta verði ekki fyrr en við dómsuppsögu.
Með vísan til alls framangreinds er sýknukrafa ítrekuð enda með öllu órökstutt og ósannað að stefndi hafi með saknæmri og ólögmætri háttsemi valdið stefnendum tjóni sem honum beri að bæta.
Stefndi byggir málatilbúnað sinn á réttarreglum skaðabótaréttar utan samninga. Þá byggir stefndi á ákvæðum laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og reglugerð nr. 858/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Enn fremur byggir stefndi á ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæðum stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 auk almennra ólögfestra réttarreglna stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar og meginreglum sveitarstjórnarréttar.
Jafnframt byggir stefndi á ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ákvæðum laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Niðurstaða
Stefnendur byggja á því í máli þessu að stefndi hafi með umsögnum sínum samkvæmt 1. tölulið 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og ólögmætri málsmeðferð valdið stefnendum fjárhagstjóni með saknæmum og ólögmætum hætti sem stefndi beri bótaábyrgð á samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð og sjónarmiðum sakarreglunnar. Eins og rakið hefur verið er öllum málsástæðum stefnenda mótmælt af hálfu stefnda og á því byggt að ekki sé fyrir hendi saknæm og ólögmæt háttsemi stefnda sem leitt hafi til tjóns fyrir stefnendur. Þá sé ætlað tjón stefnenda ósannað og ekki sé af hálfu stefnenda sýnt fram á orsakatengsl eða hvernig skilyrði um sennilega afleiðingu séu uppfyllt.
Við aðalmeðferð gáfu skýrslu Margrét Jóna Margeirsdóttir, rekstrarstjóri Mónakó og Monte Carlo og Margeir Margeirsson, starfsmaður og eigandi stefnenda. Margrét kvaðst hafa starfað við rekstur og afgreiðslu á stöðunum frá því í maí 2005. Hún kvað staðina frá því á árinu 2007 hafa verið rekna á bráðabirgðarekstarleyfum og allt fram til ársins 2012. Hún kvað föður sinn hafa annast samskipti varðandi umsóknir um rekstrarleyfi og mikill tími hafi farið í það vegna þess óöryggis sem leitt hafi af því að staðirnir hafi verið reknir á bráðabirgðaleyfum. Þá hafi afskipti lögreglu af veitingastöðunum verið mikil. Um páska 2008 hafi lögregla komið á skírdag og bannað sölu á áfengi frá kl. 11.00 til kl. 19.00 yfir páskahátíðina og komið ítrekað að fylgjast með því hvort áfengi væri selt þrátt fyrir bannið. Þetta hafi valdið óþægindum og rekstrartapi.
Margeir kvað ómældan tíma hafa farið í snúninga sína og erindrekstur vegna umsókna og endurnýjunar á rekstarleyfa vegna tregðu yfirvalda við að veita leyfi í samræmi við það sem þeim hafi borið. Fjölmiðlaumfjöllun hafa verið mjög neikvæð vegna þess að staðirnir hafi ekki fengið leyfi til 4 ára eins og venjan sé og þetta hafi skaðað verulega allt rekstarumhverfi staðanna og leitt til tekjutaps.
Varðandi mat á því hvort stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti bakað stefnendum tjón eins og byggt er á af hálfu stefnenda verður að líta til þess að stefndi var umsagnaraðili samkvæmt 1. tölulið 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 og Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fór með leyfisveitingar, sbr. 3. mgr. 7. gr. laganna. Úrskurðir innanríkisráðuneytisins, sem byggt er á af hálfu stefnenda, beinast ekki að stefnda í máli þessu sem kærða þó að í þeim sé byggt á því að annmarkar hafi verið á umsögnum og málsmeðferð stefnda. Þeir fella þannig úr gildi ákvarðanir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á þeim forsendum að annmarkar hafi verið á umsögnum stefnda.
Varðandi það að stefndi hafi ekki í umsögnum sínum mátt byggja á löggæslusjónarmiðum er til þess að líta að fram kemur í 24. gr. reglugerðar nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þar sem fjallað er um það hvað skuli koma fram í umsögnum umsagnaraðila, sé upptalning ekki tæmandi. Í 1. tölulið 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 segir að það séu sveitarstjórnir sem m.a. staðfesti að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins kveða á um. Í málsmeðferðarreglum stefnda varðandi veitinga- og gististaði segir að borgarráð skuli horfa til reynslu sem fengist hafi af rekstri viðkomandi veitingastaðar sem sækir um leyfi. Telja verður eðlilegt að stefndi taki í umsögnum sínum mið af því hver reynslan hafi verið af rekstri viðkomandi staðar og hvernig hann fellur inn í umhverfið. Varðandi veitingastaði stefnenda lágu fyrir fjölmargar kvartanir vegna ónæðis af völdum gesta staðanna, bæði kvartanir frá rekstraraðilum og ályktanir Íbúasamtaka miðborgar Reykjavík þegar umsögn var samþykkt 1. desember 2011. Þegar leyfi hafði verið veitt þann 2. mars 2010 til eins árs voru sett skilyrði sem byggðust á umsögn borgarráðs stefnda með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga um að veitt yrði óbreytt rekstrarleyfi til eins árs til reynslu með hefðbundnum skilyrðum. Með þessu móti gaf stefndi stefnendum möguleika á að sýna fram á bætt umhverfi veitingastaðanna og þannig var gætt meðalhófs. Í umsögn stefnda kom fram að á reynslutímanum yrði af hálfu lögreglu fylgst grannt með þróun mála og reyndist það ónæði sem reksturinn ylli ekki minnka svo að unandi væri við, mætti búast við því að gefin yrði neikvæð umsögn þegar endurnýjun rekstrarleyfis kæmi til meðferðar í borgarráði að ári liðnu. Eðli máls samkvæmt eru löggæslusjónarmið eitt þeirra sjónarmiða sem líta ber til við veitingu leyfa á grundvelli laga nr. 85/2007. Samkvæmt 6. tl. 4. mgr. 10. gr. laganna veitir lögregla m.a. umsögn um nauðsyn á dyravörslu. Hafi stefnda verið óheimilt að vísa til þeirra atriða sem stefndi byggði á í umsögnum sínum hefði leyfisveitandi, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, væntanlega átt að líta fram hjá umsögnum stefnda. Það breytir því ekki að leyfisveitanda hefði borið að horfa til þessara atriða á grundvelli löggæslusjónarmiða. Stefnendur hafa ekki sýnt fram á að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefði afgreitt mál þeirra með öðrum hætti þótt allar umsagnir væru jákvæðar þar sem hann gat synjað um leyfi þrátt fyrir að aðrar umsóknir væru jákvæðar teldi hann það þau atriði sem honum bar að líta til leiddu til þess.
Varðandi vísan stefnenda til rannsóknarreglu og andmælareglu stjórnsýslulaga og reglur um aðgang að gögnum liggur fyrir í gögnum málsins að stefnendum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og andmælum en stefndi var ekki leyfisveitandi eins og áður er rakið. Ekki verður annað ráðið af gögnum en stefnendur hafi haft vitneskju um þær kvartanir sem lágu til grundvallar umsögnum stefnda. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að stefndi hafi ekki gætt jafnræðis varðandi umsagnir sínar skv. 1. tl. 4. mgr. 10. gr. l. 85/2007. Þá verður ekki litið svo á að stefndi sem umsagnaraðili geti borið ábyrgð á málsmeðferðartíma við útgáfu leyfis þar sem hann hafði ekki forræði fyrir leyfisveitingunni, heldur Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafa stefnendur ekki sýnt fram að leyfisveitandi hefði afgreitt mál þeirra með öðrum hætti hefðu umsagnir stefnda verið jákvæðar.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið hafa stefnendur ekki sýnt fram á að stefndi hafi með umsögnum sínum sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem bakað hafi stefnda bótaábyrgð. Þá hafa stefnendur ekki sýnt fram á orsakasamband milli umsagna og málsmeðferðar stefnda og ætlaðs tjóns stefnenda og skilyrði um sennilega afleiðingu eru ekki uppfyllt. Þegar af þessum ástæðum verður að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda í málinu.
Að fenginni þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnendum, hvorum um sig, gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins eins og kveðið er á um í dómsorði.
Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Dómari og lögmenn aðila eru sammála um að ekki sé þörf á endurflutningi.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Reykjavíkurborg, er sýkn af öllum dómkröfum stefnenda, Sextán ehf. og Casino ehf.
Stefnendur greiði stefnda hvor um sig 250.000 krónur í málskostnað.