Hæstiréttur íslands

Mál nr. 595/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


                                                         

Föstudaginn 12. september 2014.

Nr. 595/2014.

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um að dómkvaddur yrði matsmaður til að gera sálfræðimat á brotaþola þar sem skilyrði 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála voru ekki talin uppfyllt. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. september 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 5. september 2014, þar sem hafnað var kröfu lögreglustjórans á Vestfjörðum um að matsmaður yrði dómkvaddur til að gera sálfræðimat á brotaþola. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að „brotaþoli ... sæti sálfræðimati og að dómkvaddur verði sérfræðingur á sviði sálfræði, með sérþekkingu á einkennum áfallastreituröskunar, til að framkvæma matið“.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að ekki sé þörf umbeðinnar matsgerðar í máli þessu, sbr. 1. málslið 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008.  Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 5. september 2014.

I

Með matsbeiðni, dagsettri 18. ágúst 2014, sem barst héraðsdómi sama dag, krafðist lögreglustjórinn á Vestfjörðum þess, með vísan til 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008, að A, kennitala [...], yrði gert að sæta sálfræðimati og að dómkvaddur verði sérfræðingur á sviði sálfræði, með sérþekkingu á einkennum áfallastreituröskunar, til að framkvæma matið. Þess er krafist að lagt verði fyrir matsmann að yfirfara rannsóknargögn og rannsaka matsþola, og leggja í kjölfarið faglegt mat m.a. á eftirfarandi:

  1. Hvort brotaþoli hafi einkenni áfallastreituröskunar, og ef svo er hvaða einkenni og hversu mikil.
  2. Hvort og hversu líklegt sé að einkenni áfallastreituröskunar hjá brotaþola skýrist af meintu kynferðisbroti kærða aðfaranótt föstudagsins 24. maí 2013 sem verið hefur til rannsóknar, eða hvort aðrar skýringar geti átt við.

Af hálfu kærða, X, er þess krafist þess að kröfu lögreglustjórans verði hafnað.

Af hálfu réttargæslumanns brotaþola er ekki gerð athugasemd við kröfuna.

Málið var flutt 27. ágúst sl. og tekið til úrskurðar að málflutningi loknum.

II

Samkvæmt framlögðum gögnum er lögreglan á Vestfjörðum með til rannsóknar mál nr. 018-2013-[...], er varðar ætlað brot kærða gegn brotaþola, A. Er brotið talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt framlögðum gögnum er ætlað brot talið hafa gerst á milli klukkan 3.00 og 4.00 aðfararnótt föstudagsins 24. maí 2013 og leitaði brotaþoli til neyðarmóttöku vegna kynferðisbrota daginn eftir, laugardaginn 25. maí. Í greinargerð lögreglu með kröfunni er því lýst að ætlað brot sé talið hafa átt sér stað á [...], í íbúð kærða og að brotaþoli hafi lýst atvikum á þann veg hjá lögreglu að kærði hafi neytt hana til munnmaka með því að þrýsta höfði hennar að kynfærum hans. Svo hafi kærði lagst ofan á hana og stungið fingrum inn í leggöng hennar. Þá hafi hann sett getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar og tekið hana hálstaki á sama tíma. Hún hafi legið föst undir kærða og litla mótspyrnu getað veitt. Hún sagðist hafa frosið og ekki getað kallað eftir hjálp. Þá kemur fram í greinargerð að kærði hafi borið um það í framburði sínum hjá lögreglu að hann hafi haft samfarir við brotaþola með samþykki hennar.

Fyrir liggur heimild brotaþola til að veita lögreglu aðgang að læknisfræðilegum upplýsingum og yfirlýsing hennar um að hún sé tilbúin að gangast undir sálfræðirannsókn vegna málsins.

Lögreglustjóri telur, með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að nauðsynlegt sé að afla mats dómkvadds matsmanns á ástandi brotaþola, til að meta hvort hún þjáist af áfallastreituröskun, hversu mikilli og líklegum orsökum.

III

Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu um dómkvaðningu matsmanns verði synjað. Verði fallist á dómkvaðningu krefst hann þess að spurningum til matsmanns verði breytt til samræmis við athugasemdir hans en hann telur að orðalag spurningar 2 beini athygli matsmanns um of að ætluðu kynferðisbroti sem orsakavaldi einkenna áfallastreituröskunar. Þá telur kærði að með matinu sé nánast verið að biðja matsmann að meta hvort brot hafi átt sér stað og með því sé farið inn á það svið sem dómara sé ætlað að meta, þ.e. sök kærða, og því beri að hafna kröfunni.

IV

Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal lögregla rannsaka og afla allra tiltækra gagna um verknað þann sem um er að ræða, svo sem stað og stund og öll nánari atvik, sem ætla má að skipt geti máli. Í 3. mgr. 110. gr. sömu laga segir að ef dómari telur bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar geti hann meinað aðila um sönnunarfærslu. Samkvæmt 1. mgr. 128. gr. sömu laga getur dómari dómkvatt matsmann til að framkvæma mat ef hann telur þörf á. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 88/2008 kemur fram að dómari skuli ekki verða við beiðni um dómkvaðningu nema að hann telji þörf á að afla slíks mats til að dómur verði lagður á málið. Í lögum um meðferð sakamála er ekki að þessu leyti gerður greinarmunur á því hvort matsgerðar er aflað á meðan á lögreglurannsókn stendur eða síðar, sbr. 2. málsliður 1. mgr. 86. gr. laganna.

Eins og hér að ofan er rakið hefur lögregla til rannsóknar ætlað kynferðisbrot kærða. Í máli þessu liggur fyrir vottorð sálfræðings þar sem fram kemur að niðurstöður endurtekins greiningarmats sýni að brotaþoli þjáðist af áfallastreituröskun. Í vottorðinu segir m.a.: „Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvöruðu einkennum sem eru þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir.“ Matsspurningar varða atriði sem að mestu leyti koma fram í vottorðinu og ætla verður að ákæruvald muni byggja á þeim til sönnunar um ætlað brot verði ákært í málinu. Enn liggur þó ekki fyrir hvort ákæra verður gefin út. Engu að síður verður þegar á þessu stigi málsmeðferðar, með hliðsjón af því sem liggur fyrir um málsatvik, ekki talið að slík þörf sé á matinu að væri það ekki fyrir hendi yrði dómur ekki lagður á málið. Með vísan til alls framangreinds er það því mat dómsins að skilyrði 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála séu ekki uppfyllt og er því kröfu lögreglustjórans hafnað.

Úrskurð þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                   Kröfu lögreglustjórans á Vestfjörðum um að dómkvaddur verði matsmaður til að gera sálfræðimat á brotaþola, A, er hafnað.