Hæstiréttur íslands
Mál nr. 159/2001
Lykilorð
- Ómerking
- Heimvísun
- Börn
- Kynferðisbrot
|
|
Fimmtudaginn 27. september 2001. |
|
Nr. 159/2001.
|
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn X (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Ómerking. Heimvísun. Börn. Kynferðisbrot.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart dóttur sambýliskonu sinnar. Fallist var á það með X að ákæra hefði mátt vera nokkru skýrari, en ekki var þó talið að vörn málsins þyrfti að vera áfátt af þeim sökum. Hins vegar þótti á það skorta, að héraðsdómur hafi fjallað nægilega um dómskýrslur málsins, auk þess sem niðurstaða hans um sönnunargildi munnlegs framburðar þótti ekki nægilega skýr og ótvíræð og var samningu dómsins áfátt að þessu leyti, sbr. 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 5. gr. laga nr. 37/1994. Að öllu þessu virtu þótti óhjákvæmilegt að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. apríl 2001. Ákæruvaldið krefst sakfellingar ákærða samkvæmt ákæru og að refsing hans verði þyngd. Þá verði hann dæmdur til greiðslu skaðabóta að kröfu brotaþola.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og að málinu verði vísað til dómsmeðferðar að nýju í héraðsdómi. Til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og til þrautavara að refsing verði milduð og dæmd skilorðsbundin að öllu leyti. Jafnframt verði bótakröfu vísað frá dómi.
Brotaþoli krefst miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 400.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. nóvember 2000 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð skýrsla Barnahúss 11. júní 2001 vegna greiningar og meðferðar brotaþola. Skýrslan er undirrituð af Vigdísi Erlendsdóttur forstöðumanni. Er þar greint frá högum brotaþola og látið í ljósi álit á líðan hennar.
Ákærði hefur haldið því fram að ákæran sé mjög óljós og opin og ekki megi sjá hvort verið sé að fjalla um eitt eða fleiri atvik eða hversu alvarleg þau voru. Á það má fallast að ákæran sé nokkuð ómarkviss að þessu leyti, en framburður brotaþola hefur frá upphafi verið skýr um í hvaða röð atburðir gerðust og hvar hún, móðir hennar og systkini svo og ákærði bjuggu á þeim tíma. Á ákærði að hafa í eitt skipti káfað á kynfærum stúlkunnar innan og utan klæða og í annað skipti fengið hana til að taka um getnaðarlim hans. Í ákæru er þessu athæfi í raun lýst. Þarf vörn málsins því ekki að vera áfátt þótt ákæran hefði mátt vera nokkru skýrari. Í röksemdir héraðsdómara hefur þó ratað sú villa að síðara skiptið, sem talið er í ákæru, er þar nefnt fyrra skiptið.
Ómerkingarkrafa ákærða er reist á því að héraðsdómi sé verulega áfátt að því er varðar lýsingu málsatvika og einnig sé hann óskýr um þau atriði sem dómarar leggi til grundvallar sakfellingu. Á það verður ekki fallist að lýsing málavaxta í héraðsdómi sé ekki nægileg, svo langt sem hún nær, en hitt er rétt að með öllu skortir lýsingu á því hvers vegna aðalmeðferð var frestað 18. desember 2000 og á þeirri gagnaöflun sem fram fór í framhaldi af því. Jafnframt er röksemdafærslu héraðsdóms áfátt þar sem ekkert er fjallað um mótmæli ákærða gegn sakarefnum þeim sem á hann eru borin og því engin afstaða tekin til framburðar hans. Sama gildir um síðasta framburð brotaþola. Á skortir jafnframt að afstaða sé tekin til trúverðugleika framburðar almennt. Þá brestur á um rökstuðning fyrir sýknu ákærða af síðari verknaðinum sem á hann er borinn.
Samkvæmt 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Í máli þessu ræðst sök mjög af heildarmati á sönnunargildi skýrslna ákærða og vitna og af gögnum þeim sem um þessar skýrslur fjalla. Á skortir, svo sem að framan greinir, að héraðsdómur hafi fjallað nægilega um dómskýrslurnar. Er niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar ekki nægilega skýr og ótvíræð og er samningu dómsins áfátt að þessu leyti, sbr. 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 5. gr. laga nr. 37/1994. Að öllu þessu virtu er óhjákvæmilegt að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju. Það athugast jafnframt að fyrir Hæstarétt hefur verið lögð skýrsla sem héraðsdómarar hafa ekki haft tækifæri til að taka afstöðu til.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.
Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Áfrýjunarkostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. mars 2001
Mál þetta sem dómtekið var mánudaginn 19. febrúar sl., er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara, út gefnu 17. október 2000, á hendur X [. . . ], „fyrir kynferðisbrot gagnvart dóttur sambýliskonu hans, Z fæddri 1989, með því að hafa á heimili þeirra að [ . . . ] á árinu 1999 og fram til maímánaðar 2000, káfað á kynfærum stúlkunnar innan og utan klæða og fengið hana til að taka um getnaðarlim hans.
Telst þetta varða við 2. mgr. sbr. 1. mgr. 201. gr. og síðari málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr 9. og 10. gr. laga nr. 40/1992.
Þess er krafist að ákærði verð dæmdur til refsingar”.
Af hálfu Z gerir Þórdís Bjarnadóttir hdl., skipaður réttargæslumaður brotaþola, þær dómkröfur að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð krónur 1.000.000 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. nóvember 1999 til greiðsludags og málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara skilorðsbindingar vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst ákærði málsvarnarlauna er greiðist úr ríkissjóði skv. fram lögðum málskostnaðarreikningi. Ákærði krefst þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara lækkunar á henni eða sýknu.
I.
Samkvæmt framburði móður meints brotaþola sleit hún samvistum við kynföður stúlkunnar árið 1998 og hóf sambúð með ákærða á haustmánuðum það ár. Hélt hún heimili með ákærða að [ . . . ] þar í bæ frá janúar 1999 til 18. maí 2000. Í heimili voru auk ákærða og meints brotaþola, móðir stúlkunnar, önnur dóttir hennar fædd [ . . . ], og sonur hennar, fæddur [ . . . ]. Ekkert barnanna er kynbarn ákærða. Stúlkan Z greindi í upphafi maí 2000 frá meintri háttsemi ákærða og barst tilkynning til formanns barnaverndarnefndar [ . . . ] frá félagsráðgjafa Félagsþjónustunnar í [ . . . ] þann 7. maí, en stúlkan skýrði föður sínum fyrst frá meintri hegðun ákærða á meðan á umgengni við hann stóð. Var málið kært þann 8. maí til rannsóknarlögreglunnar í [ . . . ].
Í skýrslu sem tekin er af Z í barnahúsi þann 18. maí 2000, og tekinn var upp á myndband, gefur hún lýsingu á þeirri háttsemi sem ákærði er ákærður fyrir. Áreitni ákærða lýsir hún á þá leið, að ákærði hafi beðið systur hennar Y að færa sér Coke á meðan hann lá í sófa fyrir framn sjónvarpið og hafi hann jafnframt beðið sig að leggjast við hlið sér í sófann, undir teppi. Orðrétt segir hún þannig frá, „að þá fór hann inn á brækurnar á mér og káfaði á píkunni á mér og fór að nudda hana. Svo sagði ég að ég þyrfti að fara á klósettið og þá reimdi ég fastar og þá reyndi hann að losa um hnútinn og hérna reyndi að gera þetta aftur”. Kom fram hjá stúlkunni að ákærða hafi tekist að koma hönd sinni undir buxur hennar þrátt fyrir að hún hafi reynt að herða fastar að buxum sínum. Kom og fram hjá stúlkunni að ákærði hefði reynt að koma við sig aftur á þennan hátt, en þá hefði hún verið í buxum og hefði hún staðið upp og farið til herbergis síns. Greindi Z einnig frá því, að í eitt sinn, er hún fékk að sofa uppi í rúmi hjá móður sinni og ákærða, hafi ákærði tekið hendina á sér, þegar hún var sofandi, og hafi hann látið hana nudda kynfæri hans, en hún hafi kippt hendinni í burtu.
Þann 18. maí 2000 var einnig tekin skýrsla í barnahúsi af Y, systur meints brotaþola. Í framburð hennar kemur fram að hún var viðstödd meinta háttsemi ákærða sem greint er frá hér að ofan og átti sér stað uppi í sófa og lýsir hún því sem hún sá og upplifði og því sem eldri systir hennar greindi henni frá síðar. Greindi hún einnig frá því að systir hennar hefði einhverju sinni sagt henni frá síðara tilvikinu sem á að hafa átt sér stað uppi í rúmi hjá ákærða og móður stúlknanna.
Ákærði hefur við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi alfarið neitað öllum sakargiftum í máli þessu. Kom fram hjá ákærða fyrir dómi, að hann teldi sakir þær sem hann er borinn vera komnar frá föður stúlkunnar, en faðirinn hafi tekið skilnaði móður stúlkunnar við hann afar illa.
Faðir stúlkunnar hefur borið að hann tali ekki vel um ákærða við fólk en þó tali hann ekki að fyrra bragði um hann við dætur sínar. Greindi hann frá því fyrir dómi, að áður en þetta mál kom upp hafi hann séð lögregluskýrslur sem hefðu gefið honum tilefni til að óttast um öryggi dætra hans í návist ákærða, þar sem ákærði væri ofbeldismaður.
Móðir stúlkunnar kom fyrir dóminn. Kom fram hjá henni að dætur hennar hefðu aldrei sofið uppi í rúmi hjá henni og ákærða, þær hefðu þó stundum sofnað þar eða komið þangað á morgnanna. Greindi hún frá því að dætur hennar hefðu verið hræddar við ákærða þegar þær komu úr umgengni við föður þeirra og hefðu þær sagt sér að hann talaði illa um ákærða við þær. Gefur hún þá skýringu á framkomnun ásökunum á hendur ákærða að faðir stúlkunnar hafi haft áhrif á hana, annaðhvort með loforðum eða með hótunum.
Einar Ingi Magnússon, sálfræðingur, starfsmaður barnaverndarnefndar Gerðahrepps bar fyrir dómi að hann hafi rætt við systurnar Z og Y, en hann hafi ekki rætt einstök atvik máls þessa við þær sérstaklega. Í skýrslu vitnisins sem staðfest er fyrri dómi eru ítarlega raktar lýsingar á heimilislífinu að [ . . . ], eftir frásögn telpnanna. Þar kemur fram að mikið hafi verið um rifrildi á heimilinu á milli ákærða og móður stúlknanna og finnist þeim að móðir þeirra megi aldrei gera neitt, því ákærði ráði öllu. Hafi ákærði oft ekki unnið neitt og verið mikið heima virka daga sem um helgar, en móðir þeirra hafi unnið mikið og hafi ekki vitað um það sem væri að gerast á heimilinu. Greina þær frá því að þeim finnist ákærði vera strangur og öskri oft á þær og sé hann óútreiknanlegur, leyfi þeim að gera hluti en banni þeim það stuttu seinna. Ákærði hafi verið góður við þær í fyrstu en framkoma hans gagnvart þeim hafi versnað. Hann hafi hins vegar ýmist alltaf verið vondur við bróður þeirra eða tali ekkert við hann. Í skýrslu vitnisins er einnig lýst samtali hans við bróður stúlknanna og lýsir hann heimilislífinu á svipaðan hátt og að framan er greint frá.
Vitnið Vigdís Erlendsdóttir hjúkrunarfræðingur og sálfræðingur, forstöðumaður barnahúss, bar fyrir dómi að hún hafi haft Z til meðferðar og hafi hún rætt við hana 4. og 11. desember 2000. Í framburði hennar kemur fram að Z greindi henni óspurð frá því atviki sem á að hafa átt sér stað uppi í sófa, strax á fyrsta fundi þeirra. Í samtölum þeirra hafi og komið fram að Z hafi reynt að vera ekki ein heima með ákærða, þar sem hún hafi átt von á áreitni í orðum og gerðum af hans hálfu. Kemur fram hjá vitninu að það telur Z vel máli farna og skynsama og ekkert bendi til þess að hún sé líkleg til að segja það sem henni sé sagt að segja, Einnig renni það stoðum undir frásögn hennar að hún segist hafa forðast að vera ein heima með ákærða.
II.
Í máli þessu er ákærði sakaður um kynferðislega áreitni við dóttur konu sem hann bjó með í óvígðri sambúð. Eru þau talin hafa átt sér stað í 3 skipti þegar telpan var 10 ára gömul.
Frásögn telpunnar um kæruefnið er greinargóð og nákvæm. Einnig hefur komið fram að telpan skýrði yngri systur sinni frá meintri hegðun ákærða strax eftir að hún á að hafa átt sér stað. Systirin gat staðfest í framburði sínum að ákærður og Z voru upp í sófa og undir teppi, er hún var send eftir kóki fram í eldhús. Það líða svo nokkrir mánuðir þar til telpan skýrir föður sínum frá atvikunum. Framburður Vigdísar Erlendsdóttur, sálfræðings, sem rakin er hér að framan er því til styrktar að treysta megi frásögn stúlkunnar. Þá bendir skýrsla og framburður Einars Inga Magnússonar, sálfræðings, um samskipti hans og telpunnar og systkina hennar þ.á.m. afstaða þeirra til ákærða til þess að hann gæti hafa framið þá verknaði, sem hann er sakaður um. Þegar allt þetta er virt, þykir komin næg sönnum um að ákærður hafi í síðara skiptið framið tvívegis kynferðisbrot gagnvart Z,svo sem hann er sakaður um. Hann hefur með því gerst brotlegur við þau refsiákvæði sem greind eru í ákæru.
Þegar tekið er mið af þeim framburði móðurinnar að dætur hennar hafi aldrei sofið um nótt í rúminu með henni og ákærða þykir bresta sönnun um að ákærður hafi í fyrra skiptið framið kynferðisbrot gagnvart stúlkunni Z og er hann sýknaður af því broti.
Ákærði hefur áður gengist undir sáttir og hlotið dóm vegna brota á umferðarlögum. Ákærði gekkst á árinu 1996 undir sátt hjá Sýslumanninum í Keflavík vegna brots á 217. gr. hegningarlaga. Þann 15. janúar 1999, dæmdi Héraðsómur Vesturlands ákærða í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur með brotum sínum nú rofið skilorð þess dóms.
Þegar litið er til þess að brot ákærða beindust að 10 ára gömlu fósturbarni hans og til þess að ákærði mátti gera sér grein fyrir því að háttsemi hans var til þess fallin að valda telpunnu andlegu tjóni, þykir refsing hans með hliðsjón af 77. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði, en eftir atvikum þykir rétt að fresta fullnustu á 4 mánuðum af refsingunni og falli hún niður að liðnum 3 árum haldi ákærður skilorð samkvæmt 57.gr. almennra hegningarlaga sbr. lög nr. 22/1955
Samkvæmt greindri niðurstöðu, sbr. og 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, skal ákærði greiða allan sakarkostnað. Ákærði greiði og laun skipaðs verjanda síns Viðars Lúðvíkssonar, hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 275.000 krónur. Ákærði greiði og laun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 80.000 krónur.
Í málinu þykir vanta gögn um hverjar afleiðingar brotsins kunna að verða fyrir brotaþola, en samt er ljóst, að slíkt brot við telpu á þessum aldri hefur í för með truflun á andlegu ástandi hennar og veldur sálarkvöl. Á grundvelli sakfellingar ákærða og með vísun til 26. gr. skaðabótalaga nr.50/1993 verður ákærður dæmdur til að greiða F vegna brotaþola miskabætur, sem ákveðast 150.000 krónur sem dráttarvextir leggist á frá þingfestingu máls þessa sbr. nánar í dómsorði.
Dóm þennan kveða upp Guðmundur L. Jóhannesson, Gunnar Aðalsteinsson og Sveinn Sigurkarlsson, héraðsdómarar.
Dráttur á dómsuppsögu er vegna frátafa dómsformanns við önnur störf.
D Ó M SO R Ð
Ákærði, X, sæti fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fullnustu á 4 mánuðum af refsingunni og niður skal hún falla að liðnum 3 árum haldi ákærði almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 sbr. lög nr. 22,1955.
Ákærði greiði F [ . . . ] vegna dóttur sinnar Z 150.000 krónur auk dráttavaxta skv. III.kafla vaxtalaga nr, 25/1987 frá 9. nóvember 2000 til greiðsludags,
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, hdl. Viðars Lúðvíkssonar 275.000 krónur og laun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, hdl. Þórdísar Bjarnadóttur 80.000 krónur.