Hæstiréttur íslands
Mál nr. 18/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 13. janúar 2005. |
|
Nr. 18/2005. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. janúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 15. febrúar 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2005.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, óstaðsettur í hús í Garðabæ, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 15. febrúar 2005 kl. 16:00
Í greinargerð lögreglu kemur fram að ákærði hafi verið úrskurðaður af Héraðsdómi Reykjavíkur 30. nóvember sl. til að sæta gæsluvarðhaldi til kl. 16:00 í dag á grundvelli c-liðar 103. gr. laga nr. 19, 1991 að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík. Hafi úrskurðurinn þá þegar verið kærður til Hæstaréttar sem hafi staðfest úrskurð héraðsdóms með dómi í máli nr. 478/2004
Þegar ákærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald hafi sakamálið s-1826/2004 á hendur honum verið rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Á gæsluvarðhaldstímanum hafi verið gefin út önnur ákæra á hendur X og hún sameinuð máli s-1826/2004. Hann sé því skv. ákærunum tveimur ákærður fyrir 11 tilvik þjófnaða eða tilrauna til þjófnaða, í öllum tilvikum sé um innbrotsþjófnaði að ræða og í 5 tilvikum í íbúðarhúsnæði. Þá sé hann ákærður fyrir 6 tilvik nytjastuldar og eina tilraun til nytjastuldar, fjársvik, skjalafals, 2 fíkniefnalagabrot, 6 tilvik aksturs sviptur ökurétti, ölvunarakstur og fyrir að hafa ekið óvarlega. Aðalmeðferð í framangreindu máli hafi hafist þann 4. janúar sl. og verði framhaldið þann 27. janúar nk.
Lögreglustjórinn í Reykjavík telji yfirgnæfandi líkur á, með vísan til hegðunar ákærða undanfarna mánuði, að hann muni halda brotastarfseminni áfram gangi hann laus. Því sé talið mikilvægt að orðið verði við kröfu embættisins.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 30. nóvember sl., sem staðfestur hafi verið af Hæstarétti, hafi verið fallist á að skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. l. nr. 19/1991 væru fyrir hendi og því verði að telja að enn séu lagaskilyrði til áframhaldandi gæsluvarðhalds þar til dómur falli í máli ákærða.
Ákærði sé grunaður um og hafi játað brot gegn 244. gr., 248. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og umferðalögum.
Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19, 1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún er fram sett.
Með vísan til framlagðra rannsóknargagna er fallist á að fyrir hendi séu skilyrði þess að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 þar til dómur gengur í málum hans og með vísan til þess að aðalmeðferð verður ekki framhaldið fyrr en 27. janúar nk., þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldstímanum skemmri tíma. Ber því að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X, sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 15. febrúar 2005 kl. 16:00.