Hæstiréttur íslands

Mál nr. 823/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Slit
  • Kröfulýsing
  • Afleiðusamningur
  • Sértökuréttur
  • Búskrafa


                               

Föstudaginn 30. janúar 2015.

Nr. 823/2014.

Perú ehf.

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Glitni hf.

(Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.)

Kærumál. Slit. Kröfulýsing. Afleiðusamningur. Sértökuréttur. Búskrafa.

Í upphafi árs 2008 gengu P ehf. og G hf. til viðskipta. Um var að ræða gjaldmiðlaskiptasamninga til tveggja ára sem fólust einkum í því að P ehf. lagði fram í upphafi 416.144.000 krónur en G hf. 6.200.000 bandaríkjadali, en við samningslok skyldu félögin endurgreiða þessar upphæðir. Vexti skyldi gera upp á nánar tilgreindum vaxtagjalddögum fjórum sinnum á ári. Grundvöllur viðskiptanna voru kaup P ehf. með framvirkum samningi á skuldabréfi útgefnu af K hf. að fjárhæð 6.200.000 bandaríkjadalir. P ehf. mun hafa fengið lán hjá G hf. til að fjármagna framangreind kaup gegn 25.000.000 króna tryggingu sem var lögð inn á tvo bankareikninga og handveðsett G hf. Vegna falls K hf. tilkynnti G hf. P ehf. í október 2008 um lokun samninganna. G hf. leysti í apríl 2011 til sín hina handveðsettu fjármuni á bankareikningum P ehf. hjá Í hf. og með bréfi G hf. 25. september 2012 var P ehf. tilkynnt formlega um innlausn veðsins. Með kröfulýsingum 31. október 2012 og 16. desember sama ár krafðist P ehf. viðurkenningar á annars vegar sértökukröfu sinni vegna hina handveðsettu fjármuna, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og hins vegar búskröfu sinni samkvæmt 110. gr. sömu laga. Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms var kröfum P ehf. hafnað. Í dómi Hæstaréttar var niðurstaða úrskurðarins staðfest um höfnun á sértökukröfu P ehf. þar sem fjármunirnir hefðu ekki verið sérgreindir í vörslum G hf. Hins vegar var ekki fallist á með héraðsdómi að búskröfu P ehf. hefði ekki verið lýst án ástæðulausra tafa í skilningi 5. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991. Kom því til úrlausnar dómsins hvort komist hefði á samningur milli P ehf. og G hf. sem heimilað hefði G hf. að leysa til sín hina handveðsettu fjármuni, en fyrir lá að P ehf. undirritaði aldrei samningana sem lágu til grundvallar viðskiptunum. Með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, skilmála um markaðsviðskipti sem P ehf. gekkst undir, samskiptum starfsmanna G hf. við fyrirsvarsmann P ehf. og atvikum málsins að öðru leyti, var ekki fallist á með P ehf. að úrlausn málsins réðist af því einu að hann hefði ekki undirritað samningana. Var talið að G hf. hefði sýnt fram á að samningar hefðu komist á milli aðila með lögmætum hætti og var hinn kærði úrskurður því einnig staðfestur um höfnun búskröfu P ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2014, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfur sem sóknaraðili hafði lýst við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að við slitin verði viðurkennd sértökukrafa sín, annars vegar að fjárhæð 16.679.321 króna og hins vegar að fjárhæð 150.219,84 evrur, með stöðu í réttindaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, en til vara að viðurkennd verði búskrafa sín, annars vegar að fjárhæð 30.027.728 krónur og hins vegar að fjárhæð 190.505,90 evrur, með stöðu í réttindaröð samkvæmt 110. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Helstu málavöxtum, málsástæðum og lagarökum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar segir kynnti starfsmaður markaðsviðskipta varnaraðila fyrir Axel Jónssyni, fyrirsvarsmanni sóknaraðila, fjárfestingartækifæri í skuldabréfum sem útgefin voru af Kaupþingi banka hf. Af gögnum málsins verður ráðið að það hafi verið í janúar 2008. Axel Jónsson og varnaraðili höfðu átt um árabil talsverð viðskipti með fjármálagerninga, meðal annars í gegnum einkahlutafélag hans Hríshól. Í því skyni að ganga til þeirra viðskipta sem um ræðir í málinu festi Axel kaup á sóknaraðila sem ekki hafði áður verið í rekstri. Þá voru 15. febrúar 2008 undirrituð ýmis skjöl til að koma á viðskiptasambandi milli sóknar- og varnaraðila, þar á meðal handveðsyfirlýsingar vegna tveggja reikninga sem stofnaðir voru í nafni sóknaraðila, almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti við varnaraðila jafnframt því sem sóknaraðili gaf upplýsingar til mats á hæfi fjárfestingarþjónustu og fjármálagerninga. Flokkaði varnaraðili sóknaraðila sem fagfjárfesti þennan dag og tilgreindi Axel Jónsson að hann myndi koma fram fyrir hönd sóknaraðila í viðskiptum við varnaraðila. Einnig ráðstafaði Axel Jónsson andvirði 25.000.000 króna inn á framangreinda bankareikninga. Með tölvubréfi 25. mars 2008 sendi varnaraðili sóknaraðila tvo samninga til undirritunar. Fyrir liggur að sóknaraðili gerði það ekki og deilt er um ástæður og afleiðingar þess.

Helstu efnisatriðum samninga er lýst í hinum kærða úrskurði en að meginstefnu fólst í þeim að sóknaraðili legði fram í upphafi 416.144.000 krónur en varnaraðili 6.200.000 bandaríkjadali. Við samningslok 15. janúar 2010 skyldi sóknaraðili greiða varnaraðila 6.200.000 bandaríkjadali en varnaraðili greiða sóknaraðila 416.144.000 krónur. Vexti skyldi gera upp á nánar tilgreindum vaxtagjalddögum fjórum sinnum á ári í fyrsta sinn 21. febrúar 2008. Grundvöllur viðskiptanna voru kaup sóknaraðila með framvirkum samningi á skuldabréfi útgefnu af Kaupþingi banka hf. að fjárhæð 6.200.000 bandaríkjadalir, en greiða átti vexti af skuldabréfinu fjórum sinnum á ári og gjalddagi þess var 15. janúar 2010. Sóknaraðili mun hafa fengið lán hjá varnaraðila til að fjármagna framangreind kaup gegn framangreindri 25.000.000 króna tryggingu. Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að vaxtagjalddagar 15. apríl og 15. júlí 2008 voru gerðir upp milli aðila með hagnaði fyrir sóknaraðila. Vegna falls Kaupþings banka hf. tilkynnti varnaraðili sóknaraðila 7. október 2008 um lokun afleiðusamninganna vegna skuldabréfsins miðað við 13. þess mánaðar.

Í hinum kærða úrskurði er rakin forsaga þess að varnaraðila var skipuð slitastjórn sem gaf út innköllun til skuldheimtumanna 25. maí 2009, er birtist fyrst í Lögbirtingablaðinu degi síðar. Kröfulýsingarfresti lauk 26. nóvember 2009. Færðust bankainnstæður er sóknaraðili hafði sett að handveði fyrir viðskiptum málsaðila yfir til nýs banka er nú ber heitið Íslandsbanki hf.

Varnaraðili leysti 15. apríl 2011 til sín hina handveðsettu fjármuni á bankareikningum sóknaraðila hjá Íslandsbanka hf., eða 16.679.321 krónu og 150.219, 84 evrur. Áður hafði sóknaraðili höfðað mál gegn Íslandsbanka hf. vegna höfnunar bankans á að heimila honum úttekt af reikningunum. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2011 var málinu vísað frá dómi vegna vanreifunar. Með dómi Hæstaréttar 2. september 2011 í máli nr. 377/2011 var málinu vísað frá Hæstarétti á grundvelli ágalla í kæru sóknaraðila til réttarins. Með bréfi varnaraðila 25. september 2012 var sóknaraðila tilkynnt formlega um innlausn veðsins. Hann lýsti aðalkröfu sinni í bú varnaraðila 31. október 2012, en varakröfu 16. desember sama ár. Slitastjórn varnaraðila hafnaði báðum kröfunum og þar sem ekki tókst að jafna ágreining aðila var honum skotið til héraðsdóms.

II

Efniságreiningur aðila snýst um hvort komist hafi á samningar milli þeirra sem heimilað hafi varnaraðila að leysa til sín hina handveðsettu fjármuni af bankareikningunum hjá Íslandsbanka hf. 15. apríl 2011. Eiga báðar kröfur sóknaraðila rót sína að rekja til þessa atviks. Sóknaraðili reisir aðalkröfu sína á því að um sérgreinda fjármuni sé að ræða og eigi hann því rétt til þeirra við slit varnaraðila samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, en til vara að varnaraðili hafi án heimildar eftir frestdag ráðstafað fjármununum af reikningunum og því eigi hann búskröfu á hendur varnaraðila samkvæmt 110. gr. laganna.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um aðalkröfu sóknaraðila.

Varnaraðili gekk ekki að handveðinu fyrr en með bréfi til Íslandsbanka hf. 15. apríl 2011, en eins og áður greinir hafði sóknaraðili höfðað mál gegn bankanum til heimtu þeirrar fjárhæðar sem á reikningunum voru. Lauk því máli ekki fyrr en með framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 377/2011. Varnaraðili hefur ekki lagt fram gögn sem sýna að sóknaraðila hafi verið kunnugt um ráðstöfun veðsins, önnur en bréf hans þar um til sóknaraðila 25. september 2012, og lýsti sóknaraðili búskröfu sinni 16. desember það ár. Að framangreindu virtu verður við það að miða að sóknaraðila hafi ekki fyrr en 25. september 2012 verið tilkynnt um þessa ráðstöfun. Eins og atvikum málsins er háttað verður ekki talið að varakrafa sóknaraðila sé fallin niður fyrir vanlýsingu, sbr. 5. tölulið 118. gr. laga nr. 21/1991. Kemur því til úrlausnar hvort komist hafi á samningar milli aðila sem heimilað hafi varnaraðila að ganga að umræddu veði til fullnustu kröfu vegna þeirra.

III

 Í skilmálum þeim um markaðsviðskipti sem sóknaraðili gekkst undir kom fram að þeir tækju til allra markaðsviðskipta aðilanna, meðal annars með gjaldeyri og afleiður. Um framkvæmd einstakra viðskipta á grundvelli skilmálanna skyldu gerðir skriflegir samningar með nánari ákvæðum um sérgreinda skilmála, lánskjör og endurgreiðslu. Beiðni um viðskipti skyldi komið á framfæri við varnaraðila með símbréfi, tölvupósti eða símtali, en staðfesta bæri alla samninga skriflega nema um væri að ræða svokölluð stundarviðskipti með gjaldeyri eða verðbréf. Átti varnaraðili að koma skriflegum samningum í hendur viðskiptamanns, sem bæri að undirrita þá og skila þeim aftur til varnaraðila innan þriggja daga. Um þörf á tryggingum við upphaf viðskiptanna skyldi farið eftir mati varnaraðila, en tekið var fram að honum væri heimilt að krefjast viðbótartrygginga færi tap viðskiptamanns yfir helming af andvirði trygginga og bæri þeim síðarnefnda að meginreglu að verða við slíkri kröfu innan sjö daga. Sérstök fyrirmæli voru um vanefndir og þess meðal annars getið að yrðu þær verulegar af hendi viðskiptamanns væri varnaraðila heimilt en þó aldrei skylt að „gjaldfella eða loka samningi.“ Til verulegra vanefnda í þessum skilningi teldust nánar tilgreind atvik, þar á meðal ef viðskiptavinur legði ekki fram tryggingar innan tilskilins frests, að tap viðskiptamanns færi yfir 80% af andvirði trygginga eða frumrit samnings bærist ekki varnaraðila undirritað innan sjö daga frá því að þau bærust viðskiptamanni. Varnaraðila bæri að tilkynna viðskiptamanni um gjaldfellingu skuldbindingar eða lokun samnings af slíkum ástæðum og myndi þá annast útreikning á hagnaði eða tapi af samningi og markaðsverðmæti trygginga. Skyldi slíkur útreikningur sendur viðskiptamanni innan fimmtán daga. Með undirritun skilmálanna lýsti viðskiptamaður því yfir að sér væri ljóst að markaðsviðskiptin gætu verið „sérstaklega áhættusöm“, auk þess sem eftirfarandi var tekið fram: „Viðskiptamaður gerir sér grein fyrir því að í markaðsviðskiptum bankans felst ekki viðskiptavakt. Af því leiðir að bankinn ábyrgist ekki tilkynningar til viðskiptamanns um stöðu samninga eða lokun þeirra við ákveðin mörk. Það er því á ábyrgð viðskiptamanns að fylgjast með stöðu og þróun þeirra samninga sem hann hefur gert við bankann.“ Þá sagði að kröfur um tryggingar yrðu settar fram í síma, með tölvupósti eða símbréfi. Tilkynning skuli talin send á réttan stað, hafi hún verið send á netfang eða símbréfsnúmer sem viðskiptavinur gæfi upp, nema sendanda væri greinilega ljóst að sendingin hefði ekki skilað sér. Einnig var þess getið í skilmálunum að varnaraðili kynni að taka upp símtöl við viðskiptamann, sem væri því samþykkur að slíkar hljóðritanir yrðu lagðar fram í dómsmáli kæmi til ágreinings um viðskipti þeirra.

Í framangreindu skjali, er sóknaraðili gaf til mats á hæfi lögaðila til fjárfestingaþjónustu og fjármálagerninga, kom fram það markmið hans að auka skyldi verðgildi þeirra til langs tíma, en gera yrði um leið ráð fyrir „miklum líkum á flökti.“ Vildi hann stunda „spákaupmennsku“, þar sem markmið hans væri að „gera ráð fyrir auknum líkum á tapi í von um hærri ávöxtun en gengur og gerist með því að nýta sér væntar verðbreytingar.“

IV

Auk tölvubréfa um samskipti aðila eru meðal gagna, sem varnaraðili hefur lagt fram í málinu, endurrit af hljóðupptökum símtala starfsmanna hans við Axel Jónsson. Hinn 20. febrúar 2008 um klukkan 11 sendi Helgi Ingólfur Eysteinsson, þáverandi starfsmaður hjá verðbréfamiðlun varnaraðila, tölvubréf til Axels Ómarssonar, sem einnig barst Þórunni Stellu Hermannsdóttur, en þau voru starfsmenn hjá einkabankaþjónustu varnaraðila. Í bréfinu sagði: „Axel Jónsson hafði samband við mig í síðustu viku og keypti skuldabréf á Kaupþing framvirkt, sbr. vöru sem við höfum verið að bjóða upp á síðkastið. Hann talaði um að það væru tryggingar hjá Hríshól í EUR og USD upp á 15 millj og svo áttu að vera 10 millj á sjóði 9 á hans eigin kennitölu. Þórunn Stella hefur verið að skoða þetta og þetta stemmir ekki. Ertu til í að setja þig í samband við hana og vera henni innan handar við að útvega þær tryggingar sem þarf í þetta. Alls 25 millj.“ Laust fyrir klukkan 12 sama dag hringdi Axel Ómarsson í Axel Jónsson, sem þá var staddur erlendis. Sá síðarnefndi talaði um að hann hafi gengið að viðskiptum með því að kaupa bankavíxla útgefna af Kaupþingi banka hf. Axel Ómarsson hváði, en áttaði sig svo á hvað Axel Jónsson var að fara og sagði: „Ég þekki þetta, ég hefði nú ekki boðið þér þetta. Þetta er dálítið áhættusamt en ert þá að taka þetta gírað?“ Axel Jónsson svaraði því játandi. Axel Ómarsson sagði þá: „Þú ert að fara í ansi mikla áhættu.“ Axel Jónsson svaraði: „Yes sir.“ Axel Ómarsson spurði þá og hlær við: „Ég hélt, ég hélt að við værum að draga úr áhættu?“ Axel Jónsson hváði og endurtók þá Axel Ómarsson spurninguna. Henni svaraði Axel Jónsson svo: „Já, við vorum að gera það. Við tókum hana út og fórum inn í aðra.“ Bað hann Axel Ómarsson um að annast færslu af reikningum sem næmi 25.000.000 krónum til tryggingar viðskiptunum með þessum orðum: „Ég ... ætlaði að taka 15 út úr hérna Hríshól ... og svo krónuna þarna, við eigum 19 milljónir í krónubréfum ... og ætluðum að taka 10 af því.“ Þá sagði Axel Ómarsson: „Ókey, hvað hérna, ætlar þú að gera þetta í þínu nafni?“ Svaraði Axel Jónsson þá: „Nei. Ég stofnaði nýtt félag ... sem heitir Perú ... og setjum það inn í það.“ Þá sagði Axel Ómarsson: „En það á enga reikninga.“ Sagði Axel Jónsson að stofnaður hefði verið reikningur á nafni sóknaraðila til færslu fjárins þangað og bætti við: „Þannig að áhættan er bara inn í félaginu.“ Sagði þá Axel Ómarsson: „Já ókey, þannig að ...“ Greip þá Axel Jónsson fram í: „Þú mátt ekki segja þetta, en það er þannig.“ Axel Ómarsson sagði þá.: „Ókey, þannig að 10 milljónir frá þér til Perú og 15 frá Hríshól?“ og samsinnti Axel Jónsson því en sagði jafnframt aðspurður að varnaraðili vildi að gengið yrði frá tryggingum fyrir viðskiptunum í samræmi við þau skjöl sem hann hefði undirritað, en hann hefði ekki tölvu sína meðferðis. Þá kvaðst Axel Jónsson þekkja Óttar Má Ingvason, fjármálastjóra Brims hf. og sagði: „Hann kom með mér, hann tók líka slatta af þessu.“ Fékk Axel Jónsson þá viðvörun um að hann yrði „að passa sig“ og að hann „gæti lent í því að tvöfalda trygginguna ... jafnvel meira, þetta er óendanlegt það er áhætta af því að þetta er gírað.“ Svaraði Axel Jónsson þessu játandi, en fjallaði um þýðingu hækkunar á vaxtaálagi. Ítrekaði Axel Ómarsson þá viðvörun sína og kom fram í máli hans að gengi krónunnar hefði lækkað.

Tæpri klukkustund eftir símtalið sendi Axel Ómarsson tölvupóst til sóknaraðila þar sem hann vísaði til framangreinds símtals og sagðist myndu færa: „10M af Sjóð 9 hjá þér og 15M af EUR sjóð hjá Hríshól yfir á vörslureikning Perú til tryggingar viðskiptunum með Kaupþings skuldabréfin.“ Um klukkan hálf fjögur  sama dag sendi Helgi Ingólfur Eysteinsson tölvubréf til Axels Ómarssonar þar sem sagði: „Það situr svolítið í mér það sem þú varst að segja mér með Axel Jónsson fyrr í dag varðandi það að hann átti sig ekki á því að hann þurfi að koma með meiri tryggingar. Ég fór í gegnum þetta með honum á tveimur fundum og hann flautaði Óttar Ingvason félaga sinn inn á fundinn til þess að fara yfir málið. Óttar keypti sjálfur hjá okkur og svo fylgdi Axel í kjölfarið. Allar umræðurnar undir það síðasta snérust um það hvað hann ætti mikið laust fé því að við vildum ekki setja nema helminginn af þeirri fjárhæð undir svo hann hefði borð fyrir báru ef til tryggingakalls kæmi. Ég fullvissaði hann um það margoft að hann gæti ekki tapað peningum á þessu nema Kaupþing yrði gjaldþrota og ef að Glitnir gæti ekki haft milligöngu um fjármögnun. Ef til hvorugs kæmi gæti hann ekki tapað en aftur á móti gæti ávöxtun hans á bundið fé breyst ef hann þyrfti að koma með meiri tryggingar. Hér að neðan eru töflurnar sem við sýndum honum til að sýna fram á hver tryggingaþörfin gæti orðið.“ Þessu tölvubréfi svaraði Axel Ómarsson svo rúmri klukkustund síðar: „Þetta er greinilega í fínu lagi miðað við neðangreint. Eins og ég sagði þér í símann þá vildi ég bara vera viss um að hann áttaði sig fyllilega á þessu.“

Eins og áður greinir var sóknaraðila sendur tölvupóstur 25. mars 2008 til undirritunar samningunum og 19. maí sama ár sendi Axel Jónsson tölvubréf til Axels Ómarssonar og spurði hvað væri „að frétta af skuldabréfinu“ og Axel Ómarsson svaraði síðar sama dag: „SWAP samningurinn er kominn í gang, ég er bara að bíða eftir gögnunum sem ég sendi þér.“ Því svaraði Axel Jónsson svo: „Gott að það er kominn jákvæður vaxtamunur á þetta.“ Bera gögn málsins með sér að þá hafi sóknaraðila verið sendar upplýsingar um að jákvæður vaxtamunur væri á vaxtaskiptasamningnum.

Í málinu liggur fyrir endurrit af símtölum 18. júní 2008 milli Axels Ómarssonar og Axels Jónssonar um ýmis viðskipti hins síðarnefnda við varnaraðila. Kom þá meðal annars fram í máli Axels Jónssonar að varnaraðili hefði handveð „í þessum 10 og í þessum 19.“ Jafnframt spurði hann: „En segðu mér eitt, hérna í Perú, ef díllinn þar gengur upp ... sem sagt 2010 ... verða þá 79 milljónirnar þar?“ Svaraði Axel Ómarsson þeirri spurningu og sagði jafnframt: „Skuldbindingin er þá ... hvernig var þetta fjármagnað, ég er búinn að gleyma því?“ Nefndi þá Axel Jónsson töluna 728 og er þá spurður að því hvort að þetta hefði verið „fjármagnað í evrum“, en fékk þá eftirfarandi svar: „Nei þetta er í dollurum. En gengisáhættan hún var læst inni.“ Síðan ræddu þeir um að skuldatryggingarálag á Kaupþing banka hf. hafi lækkað frá því að umrædd kaup voru gerð og þar með hafi kaupin orðið hagstæðari sóknaraðila. Lét fyrirsvarsmaður sóknaraðila þá á sér skilja að hann væri ánægður með viðskiptin.

Loks eru í gögnum málsins yfirlit og önnur gögn sem send voru sóknaraðila með rafrænum hætti, meðal annars um þróun þeirra atriða sem áhrif höfðu á niðurstöðu viðskiptanna á tímabilinu frá ágúst 2008 allt þar til samningunum var sagt upp í október það ár.

V

Við meðferð málsins í héraði gáfu skýrslu Axel Jónsson, Helgi Ingólfur Eysteinsson og Axel Ómarsson. Lýstu tveir fyrstnefndu þeim fundum sem haldnir voru um viðskiptin í starfstöðvum bankans og greint hefur verið frá hér að framan. Staðfesti Helgi þá fullyrðingu Axels Jónssonar að þeir hafi einnig talast við í farsíma og þau símtöl því ekki tekin upp, en bæði Helgi og Axel Ómarsson andmæltu þeirri fullyrðingu sóknaraðila að gildi samninganna hafi verið andmælt. Fram kom í máli Helga að sóknaraðila hafi verið í lófa lagið að kaupa einvörðungu skuldabréfið, sem gefið hafi af sér vexti, en láta hjá líða að gera gjaldmiðlaskiptasamning til að draga úr gengisáhættunni við kaupin.

VI

Eins og áður greinir flokkaði varnaraðili sóknaraðila sem fagfjárfesti. Á hinn bóginn uppfyllti sóknaraðili ekki skilyrði a. til d. liða 9. töluliðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti til þess. Þá varð slík heimild til flokkunar hans ekki sótt til e. liðar töluliðarins, sbr. 24. gr. laganna. Var varnaraðila því óheimilt að flokka hann sem fagfjárfesti. Verður að líta til þessarar röngu flokkunar á sóknaraðila við mat á því hvort varnaraðili hafi þannig reynt að komast hjá því að veita honum jafn ítarlegar upplýsingar og hann hefði ella notið til að geta sjálfur tekið upplýstar fjárfestingarákvarðanir.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 108/2007 ber fjármálafyrirtæki, er tekur að sér þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta fyrir almennan fjárfesti, að gera skriflegan samning við hann þar sem meðal annars skal kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila. Í ákvæðinu er ekki mælt fyrir um skyldu til að gera skriflegan samning um hver einstök viðskipti og var þeim áskilnaði sem þar er gerður þannig fullnægt með því að sóknaraðili gekkst 15. febrúar 2008 undir fyrrgreinda almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti við varnaraðila. Eins og áður er getið kváðu þeir á um hvernig viðskiptamaður ætti að koma á framfæri við varnaraðila beiðni um viðskipti og því bætt við að „allir samningar skulu staðfestir skriflega“ nema um væri að ræða stundarviðskipti með gjaldeyri eða verðbréf. Þá var einnig tekið fram að varnaraðila bæri að senda frumrit allra samninga, sem samkvæmt þessu ætti að gera skriflega, til viðskiptamanns, sem væri skylt að koma þeim undirrituðum til sóknaraðila innan þriggja daga frá samningsgerð. Í ákvæðum um vanefndir og heimildir varnaraðila til að gjaldfella skuldbindingar viðskiptamanns sagði á hinn bóginn að honum væri „heimilt, en undir engum kringumstæðum skylt, að gjaldfella eða loka samningi“ meðal annars ef „frumrit samninga hafa ekki borist bankanum undirrituð innan sjö daga frá því þau bárust viðskiptamanni.“

Samkvæmt meginreglum fjármunaréttar er gildi samnings ekki háð því að hann sé gerður í tilteknu formi nema slíkan áskilnað leiði af lögum eða aðilar hans hafi gengist undir að hlíta þeim skilmála í lögskiptum sínum. Sem fyrr segir leiða lög nr. 108/2007 ekki til þess að málsaðilum hafi fortakslaust borið að gera skriflega samninga um einstök viðskipti sín. Það ósamræmi, sem var innbyrðis milli framangreindra ákvæða skilmálanna sem sóknaraðili undirritaði 15. febrúar 2008 og varða túlkun og gildi samninga, verður óhjákvæmilega að valda því að þar teljist ekki hafa verið kveðið skýrt á um skyldu til að gera einstaka viðskiptasamninga milli aðilanna skriflega svo að skilyrðislausar afleiðingar hefði fyrir gildi þeirra. Að þessu virtu verður ekki fallist á með sóknaraðila að úrlausn málsins ráðist af því einu að hann hafi ekki undirritað samning um þau viðskipti, sem aðilarnir deila um hvort komist hafi á. Niðurstaða viðskipta þeirra sem um ræðir í málinu var og háð ytri aðstæðum og byggðist á að sóknaraðili tæki áhættu í þeim efnum. Samkvæmt lýsingum Axels Jónssonar var þó í raun um að ræða hans viðskipti þótt sóknaraðili hafi verið skráður fyrir þeim. Keypti hann sóknaraðila, sem ekki hafði verið með starfsemi áður, beinlínis til að draga úr áhættu vegna viðskiptanna, en hún fólst eins og áður greinir einkum í því að Kaupþing banki hf. yrði ekki gjaldþrota. Þá verður heldur ekki séð af gögnum málsins að tryggingar þær sem Axel Jónsson lagði fram hafi numið óvenjulegum fjárhæðum miðað við það sem tíðkast hafði í viðskiptum hans við varnaraðila.

Af þeim gögnum sem að framan eru rakin um aðdraganda viðskiptanna verður ekki annað ráðið en að sóknaraðili hafi fengið fullnægjandi upplýsingar um þá áhættu sem hann gekkst undir. Þannig voru haldnir fundir þar sem farið var yfir efni viðskiptanna og naut sóknaraðili á einum þeirra aðstoðar fjármálastjóra stórs útgerðarfyrirtækis. Óumdeilt er að sóknaraðili fékk yfirlit og tilkynningar frá varnaraðila um þá þætti sem áhrif gátu haft á uppgjörsákvæði afleiðusamninganna og um uppgjör á vaxtagjalddögum og voru tveir slíkir gerðir upp milli aðila með niðurstöðu sóknaraðila í hag. Þá verður af gögnum málsins ekki séð að sóknaraðili hafi gert athugasemdir við þær tilkynningar er honum voru sendar um framgang viðskiptanna, heldur bera samtímagögn þvert á móti með sér að hann hafi talið viðskiptin hafa komist á. Er raunar ekkert í gögnum málsins um að hann hafi hreyft athugasemdum við varnaraðila vegna viðskiptanna fyrr en með kröfulýsingum í lok árs 2012.

Samkvæmt öllu framansögðu hefur varnaraðili sýnt fram á að samningar hafi komist á milli aðila með lögmætum hætti. Varnaraðila var af þeim sökum heimilt að ganga að veði því sem um ræðir til tryggingar efndum á samningunum í samræmi við veðsamning þar um. Verður hinn kærði úrskurður því einnig staðfestur um höfnun varakröfu sóknaraðila.

Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2014.

                Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 7. júní 2013. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 27. september 2013 og tekið til úrskurðar föstudaginn 3. október 2014.

                Sóknaraðili er Perú ehf., Vesturbraut 15, Höfn, en varnaraðili er Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennd verði sértökukrafa hans, við slitameðferð varnaraðila, skv. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., dags. 31. október 2012, að fjárhæð 16.679.321 króna, annars vegar og 150.219,84 evrur hins vegar. Til vara að viðurkennd verði búskrafa sóknaraðila, við slitameðferð varnaraðila, skv. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., dags. 16. desember 2012, að fjárhæð 30.027.728 krónur og 190.505,90 evrur. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

                Varnaraðili krefst þess aðallega að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar hans að hafna kröfum sóknaraðila en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar.

I

                Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Hinn 15. október 2008 var Nýi Glitnir banki hf. (nú Íslandsbanki hf.) stofnaður um innlenda bankastarfsemi varnaraðila í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að færa hluta af starfsemi varnaraðila til nýs banka sem stofnaður hafði verið og var að fullu í eigu íslenska ríkisins. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 sem standa átti til 13. febrúar 2009. Var greiðslustöðvunin framlengd hinn 19. febrúar 2009 til 13. nóvember 2009. Áður en sá tími var á enda, 12. maí 2009, var varnaraðila skipuð slitastjórn samkvæmt ákvæðum 4. tl. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt lögum nr. 44/2009, en viðkomandi lagareglur er nú að finna í XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, gilda í meginatriðum reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um slitameðferð fjármálafyrirtækja, þ.á m. um meðferð krafna á hendur slíku fyrirtæki. Slitastjórn varnaraðila gaf út innköllun til skuldheimtumanna varnaraðila, 25. maí 2009, og birtist hún fyrst í Lögbirtingarblaðinu, 26. maí 2009. Kröfulýsingarfrestur var ákveðinn sex mánuðir og lauk honum því 26. nóvember 2009. Slitameðferð varnaraðila stendur enn yfir. Sóknaraðili lýsti þeirri kröfu sem hann heldur uppi sem aðalkröfu í málinu með kröfulýsingu 31. október 2012. Krafðist hann þess að krafan nyti stöðu skv. 1. mgr. 109. gr við slitameðferðina og vísaði til 4. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 til stuðnings heimild sinni til að lýsa kröfu eftir lok kröfulýsingarfrests. Með kröfulýsingu 16. desember 2012 lýsti sóknaraðili þeirri kröfu sem hann heldur fram til vara í máli þessu og krafðist þess að krafan nyti stöðu skv. 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Ekki var í kröfulýsingu vísað til viðeigandi lagaákvæðis um heimild til að lýsa kröfu eftir lok kröfulýsingarfrests. Báðar framangreindar kröfur áttu rætur að rekja til sama atburðar 15. apríl 2011 en þá leysti varnaraðili til sín handveðsetta fjármuni á bankareikningum hjá Íslandsbanka hf. í eigu sóknaraðila eða nánar tiltekið 16.679.321 krónur og 150.219,84 evrur. Felur aðalkrafa sóknaraðila í sér að umræddir fjármunir verði afhentir en varakrafan að greiddar verði skaðabætur sem nemi framangreindum fjármunum auk nánar tilgreindra dráttarvaxta og innheimtuþóknunar. Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunum með bréfum 21. janúar og 4. febrúar 2013. Var þar m.a. fjallað um að kröfulýsingarfresti við slitameðferð varnaraðila væri lokið en kröfunum hafnað þar sem þær ættu ekki rétt á sér. Kom fram með sama hætti í báðum framangreindum bréfum að umræddir fjármunir hafi verið teknir á grundvelli handveðsyfirlýsinga sem gefnar hafi verið til tryggingar á efndum samkvæmt nánar tilgreindum afleiðusamningum en heildarskuld vegna samninganna hafi numið 673.022.291 krónu.

                Sóknaraðili mótmælti framangreindri afstöðu slitastjórnar varnaraðila innan réttra tímamarka. Var haldinn fundur 31. maí 2013 til að freista þess að leysa ágreining aðila en fundurinn reyndist árangurslaus og var málinu í kjölfarið vísað til úrlausnar dómsins. 

II

                Málavextir eru þeir helstir að starfsmaður markaðsviðskipta varnaraðila kynnti fyrir Axel Jónssyni, fyrirsvarsmanni sóknaraðila, fjárfestingartækifæri í skuldabréfum sem útgefin voru af Kaupþingi banka hf. Kveður sóknaraðili að honum hafi fyrst verið kynnt hugmyndin í boðsferð til Noregs þar sem áfengi hafi verið haft um hönd, en síðar hafi hann átt fundi í bankanum í tvö eða þrjú skipti vegna þessa. Hann kvaðst hafa ákveðið að eiga þessi viðskipti með því fororði að eina áhætta hans af viðskiptunum fælist í hættu á því að Kaupþing banki hf. yrði gjaldþrota. Axel lýsti því svo fyrir dómi að þegar hann hefði fengið senda samninga til undirritunar þá hafi ekki aðeins verið um að ræða kaup á skuldabréfi útgefnu af Kaupþingi hf. heldur hafi einnig verið um að ræða samning um gjaldmiðlaskipti. Hann hafi því ekki skrifað undir samningana og hafi hafnað viðskiptunum þar sem hann hafi talið að í samningunum fælist gengisáhætta sem hann hafi ekki verið tilbúinn að taka.

                Þáverandi starfsmaður varnaraðila, Helgi Eysteinsson, lýsti því í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi átt fundi með Axel Jónssyni og kynnt honum umræddan fjárfestingarkost, sem hafi falist í kaupum á skuldabréfum útgefnum af Kaupþingi banka hf. sem hafi á þeim tíma fengist á lágu verði. Hafi falist mikil hagnaðarvon í kaupum á bréfunum, að því gefnu að Kaupþing hf. yrði ekki gjaldþrota. Hann lýsti því að þar sem viðskiptamaðurinn hafi lagt fram íslenskar krónur gegn skuldabréfi í bandaríkjadölum þá hafi jafnframt verið gerður vaxtaskiptasamningur sem gera hafi átt upp á þriggja mánaða fresti. Hafi tilgangur þess samnings verið að draga úr gengisáhættu viðskiptavinarins.

                Í því skyni að ganga til umræddra viðskipta festi Axel Jónsson kaup á sóknaraðila, sem ekki hafði verið í rekstri áður. Undirritaðir voru skilmálar varnaraðila um markaðsviðskipti 15. febrúar 2008 og önnur skjöl til að koma á viðskiptasambandi milli sóknar- og varnaraðila, þ.á.m. handveðsyfirlýsingar vegna tveggja reikninga sem stofnaðir voru í nafni sóknaraðila. Þá veitti Axel Jónsson upplýsingar til að meta hæfi fjárfestingarþjónustu og fjármálagerninga fyrir sóknaraðila og liggur fyrir í gögnum málsins að varnaraðili flokkaði sóknaraðila sem fagfjárfesti þennan sama dag. Einnig liggur fyrir að Axel Jónsson ráðstafaði andvirði 25.000.000 króna inn á framangreinda bankareikninga sem settir voru að handveði vegna viðskiptanna

                Varnaraðili sendi sóknaraðila tvo samninga með tölvubréfi 25. mars 2008 og óskaði eftir að þeir yrðu sendir honum til baka undirritaðir. Fyrir liggur að fyrirsvarsmaður sóknaraðila gerði þetta ekki, en deilt er um ástæður þess. Var um að ræða samninga með auðkennin GS08022106 og CIRS 3293. Að meginstefnu fólst í samningunum að sóknaraðili lagði fram í upphafi 416.144.000 krónur en varnaraðili 6.200.000 bandaríkjadali. Við samningslok 15. janúar 2010 skyldi sóknaraðili greiða varnaraðila 6.200.000 bandaríkjadali en varnaraðili greiða sóknaraðila 416.144.000 krónur. Vexti skyldi gera upp á vaxtagjalddögum á nánar tilgreindum dögum fjórum sinnum á ári. Grundvöllur umræddra viðskipta voru kaup sóknaraðila, með framvirkum samningi á skuldabréfi útgefnu af Kaupþingi hf. að fjárhæð 6.200.000 bandaríkjadalir en greiða átti vexti af skuldabréfinu fjórum sinnum á ári og gjalddagi þess var 15. janúar 2010. Sóknaraðili mun hafa fengið lán hjá varnaraðila til að fjármagna framangreind kaup gegn framlagningu þeirrar 25.000.000 króna tryggingar sem að framan er getið.

                Sóknaraðili lýsir því að hann hafi talið sig hafa verið að kaupa skuldabréf en hafi ekki kært sig um að taka gengisáhættu og því hafi hann ekki skrifað undir samningana þegar þeir hafi verið sendir honum. Kvaðst hann hafa látið bankann vita af því að hann hygðist ekki ganga að samningunum. Varnaraðili telur engin mótmæli hafa komið fram og að sóknaraðili hafi ekki í samskiptum sínum við starfsmenn bankans haft uppi athugasemdir við framangreinda samninga. 

                Í gögnum málsins liggur fyrir að vaxtagjalddagar 15. apríl og 15. júlí voru gerðir upp milli aðila, en samningnum var sagt upp í kjölfar falls Kaupþings hf. í október 2008. Af gögnum málsins má sjá að varnaraðili telur að heildarskuld vegna umrædds samnings nemi 673.022.291 krónu. Eins og fyrr greinir leysti varnaraðili til sín innstæður á tveimur handveðsettum reikningum í eigu sóknaraðila, sem í kjölfar falls sóknaraðila höfðu verið fluttir til Íslandsbanka hf. Fór innlausnin fram 15. apríl 2011 eins og áður er fram komið.

III

                Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að hann byggi á því að aðgerðir varnaraðila 15. apríl 2011 varði hann ábyrgð á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttarins. Ennfremur byggi hann á reglum um vinnuveitendaábyrgð og sérfræðiábyrgð. Samningar, GS08022106 og CIRS3293, sem verið hafi að baki því að varnaraðili hafi leyst til sín handveð, hafi aldrei komist á og ekki hafi verið fylgt skýrri framkvæmd hinna almennu skilmála sem sóknaraðili hafi undirritað. Ekki hafi verið um svokölluð stundarviðskipti að ræða og enn strangari kröfur séu gerðar til samninga eins og þeirra sem um ræði í málinu. Þá hafi sóknaraðili hafnað samningunum frá öndverðu, ekki undirritað þá, og afstaða hans verið varnaraðila kunn. Varnaraðili hafi samþykkt hana í verki, enda hafi hann ekki innheimt kröfu  á skráðum lokadegi samnings GS08022106 þann 15. apríl 2008. Þá hafi hann heldur ekki rift samningi við sóknaraðila um markaðsviðskipti, þrátt fyrir að háttsemi sóknaraðila hefði þá skoðast sem veruleg vanefnd. Ennfremur hafi varnaraðili hvorki gert kröfu um frekari tryggingar né hafi hann gengið að handveðsettum tryggingum. Varnaraðili geti ekki síðar reist kröfur á efni samninganna, hvort heldur sé vegna tilurðar þeirra eða fyrir samþykki hans í verki. Þá hafi sú ákvörðun varnaraðila að leysa til sín handveð 15. apríl 2011 valdið sóknaraðila fjártjóni.

                Um viðskiptin hafi gilt lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti sem tekið hafi gildi 1. nóvember 2007. Þá hafi gilt lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki um starfsemi varnaraðila og reglugerð nr. 995/2007. Óumdeilt hljóti að vera að sóknaraðila hafi borið að flokka sem almennan fjárfesti og hafi verið um fyrstu markaðsviðskipti sóknaraðila að ræða. Þá hafi varnaraðili átt frumkvæði að viðskiptum við sóknaraðila og hafi m.a. boðið fyrirsvarsmönnum hans utanlandsferðir og kynnt viðskiptakosti í ferð þar sem ótæpilega hafi verið drukkið. Verði að telja aðdragandann allan mjög óhefðbundinn og ósamrýmanlegan almennu hegðunarreglunni í 5. gr. laga nr. 108/2007 um góðar viðskiptavenjur og eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, þar sem hagsmunir viðskiptavina séu hafðir að leiðarljósi.

                Framvirkir gjaldmiðlasamningar teljist til svokallaðra afleiðusamninga og teljist flóknir fjármálagerningar. Byggi sóknaraðili á því að hann hafi aldrei ætlað til slíkra samninga að ganga, þó hann hafi haft áhættusækin hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi í viðskiptum sínum. Byggi sóknaraðili á því að það hafi ekki samræmst stöðu hans sem almenns fjárfestis að eiga í slíkum viðskiptum og hefði borið að ráða honum frá þeim, eða leiðbeina sérstaklega, hefði hann borið sig eftir þeim. Byggi sóknaraðili á því að fjárfestingar þessar hafi ekki verið í samræmi við starfsreglur varnaraðila, eins og þær hafi verið kynntar Fjármálaeftirlitinu á þeim tíma. Þá hafi varnaraðili ekki unnið að hagsmunum sóknaraðila eftir fjárfestingarstefnu þeirra í millum.

                Sóknaraðili byggi kröfur sínar báðar á því að ekki hafi stofnast til greiðsluskyldu skv. samningunum. Þeir séu efnislega ósamhljóða þeim viðskiptum sem sóknaraðila hafi verið kynnt og hann hafi frá upphafi hafnað greiðsluskyldu. Til samninga hafi ekki verið stofnað með þeim hætti sem kveðið sé á um í almennum markaðsskilmálum varnaraðila. Þá hafi varnaraðili samþykkt afstöðu sóknaraðila og þekkst mistök sín og sé slitastjórn varnaraðila bundin af ákvörðuninni. Þá hafi slitastjórn ennfremur sýnt tómlæti um að halda fram rétti sínum og hafi sóknaraðili mátt ætla að slitastjórn stæði við fyrri afstöðu. Málsástæður sínar byggi sóknaraðili annars vegar á sjónarmiðum skiptaréttar um séreignakröfur og hins vegar skiptaréttar um búskröfur. Málsástæður og málsatvik séu hin sömu og því verði sérstaklega gerð grein fyrir sjónarmiðum að baki hvorri kröfu hér á eftir.

                Um sértökukröfu segir að krafa sé gerð um afhendingu fjármuna, enda teljist þeir nægjanlega sérgreindir í kröfulýsingu svo að verða megi við henni. Sé henni lýst sem sértökukröfu á grundvelli 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. PM-innlán sóknaraðila teljist til hans eignar og séu sérgreind í fórum varnaraðila.

                Að þeirri rétthæð kröfu frágenginni sé krafist úrskurðar þess efnis að fjárkrafan verði viðurkennd sem búskrafa á grundvelli 3. tl. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991. Byggi krafan á því að aðgerðir slitastjórnar leiði til skaðabótaskyldu á grundvelli hinnar almennu sakarreglu, með sérstakri hliðsjón af sjónarmiðum skaðabótaréttarins um sérfræðiábyrgð.

                Í greinargerð kemur og fram að sóknaraðili vísi að öðru leyti til kröfulýsinga sinna.

                Krafa er gerð um málskostnað að skaðlausu og vísað til þess að sóknaraðili sé ekki með virðisaukaskattskylda starsemi og því beri að taka tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.

                Sóknaraðili vísar um lagarök til almennra reglna skaðabótaréttar, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

                Við munnlegan málflutning lagði sóknaraðili og áherslu á að sú vara sem honum hefði verið kynnt hefði verið önnur en samningar sem varnaraðili byggða á fælu í sér. Vísaði hann einkum til þess að hann hefði samþykkt að kaupa skuldabréf en hefði ekki samþykkt að gangast undir þá gengisáhættu sem hann telji að felist í samningunum. Af þeim sökum hafi hann ekki skrifað undir umrædda samninga og telji sig óbundinn af efni þeirra.

IV

                Varnaraðili kveðst byggja á því að krafa sóknaraðila sé vanreifuð og skuli hafna henni á þeim grunni. Ekki sé gerð viðhlítandi grein fyrir því hver grundvöllur kröfunnar sé, í hverju hið bótaskylda athæfi sé fólgið, viðhlítandi gögn lögð fram til stuðnings kröfunni eða að öðru leyti gerð grein fyrir henni skilmerkilega í kröfulýsingu eða greinargerð svo til fullnægjandi andsvara sé hægt að taka.

                Þá kveðst varnaraðili gera athugasemd við að sóknaraðili geri hærri varakröfu en aðalkröfu í málinu en slíkt sé ekki heimilt skv. meginreglum einkamálaréttarfars og gjaldþrotaskiptaréttar. Þá sé ekki útskýrt í greinargerð hvernig eða hvers vegna þessi munur sé og sé því einnig um vanreifun að ræða.

                Varnaraðili vísar til þess að í 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé mælt fyrir um að sá sem vilji halda uppi kröfu á hendur þrotabúi skuli lýsa henni fyrir skiptastjóra. Í 118. gr. sömu laga segi að ef kröfu á hendur þrotabúi sé ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en fresti lýkur skv. 2. mgr. 85. gr. og ekki sé unnt að fylgja henni fram gagnvart því skv. 116. gr., þá falli hún niður gagnvart búinu nema ef tilteknar undantekningar eigi við, sem tilgreindar séu í 1. til 6. tl. 118. gr. sömu laga.

                Varnaraðili kveðst telja að engu af tilgreindum skilyrðum sé fullnægt þannig að sóknaraðili geti lýst kröfu sinni svo löngu eftir kröfulýsingarfrest en honum hafi lokið 26. nóvember 2009. Varnaraðili vísi jafnframt til þess að það sé ekki útskýrt eða rökstutt með neinum hætti á hvaða undantekningu 118. gr. sóknaraðili byggi heimild sína til að krafa hans komist að eftir kröfulýsingarfrest. Sé krafan því vanreifuð hvað það varði.

                Ef varnaraðili reyni að geta í eyðurnar þá hafi sóknaraðili væntanlega uppi kröfur á grundvelli 4. eða 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 þar sem kröfunni sé lýst sem sértökukröfu skv. 109. gr. þeirra laga, en til vara sem búskröfu skv. 110. gr. sömu laga. Á það sé bent að engan rökstuðning sé að finna í kröfulýsingum sóknaraðila um hvers vegna telja beri kröfu hans sem sértökukröfu eða búskröfu og því um vanreifun að ræða.

                Úr þeim rökstuðning sé bætt að litlu leyti í greinargerð sóknaraðila þar sem fram komi að „krafa [sé] gerð um afhendingu fjármuna, enda teljist þeir nægilega sérgreindir í kröfulýsingu svo að verða megi við henni. [Sé] henni lýst sem sértökukröfu á grundvelli 1. mgr. 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. PM-innlán sóknaraðila [teljist] til hans eignar, og [séu] sérgreindar í fórum varnaraðila.“

                Þá segir í greinargerð um búskröfuna: „Að þeirri rétthæð kröfu frágenginni, er krafist úrskurðar þess efnis að fjárkrafan verði viðurkennd sem búskrafa á grundvelli 3. tl. 1. mgr. 110. gr. sömu laga. Byggir krafan á því að aðgerðir slitastjórnar, séu skaðabótaskyldar á grundvelli hinnar almennu sakarreglu, með sérstakri hliðsjón af sjónarmiðum skaðabótaréttarins um sérfræðiábyrgð.“

                Varnaraðili kveðst byggja á því að krafan sé vanreifuð í kröfulýsingu og viðbót sú sem fram komi í greinargerð sé of seint fram komin og í andstöðu við 116. – 120. gr. laga nr. 21/1991.

                Varnaraðili hafni því að krafa sóknaraðila sé fyrir hendi, en þó svo að hún væri fyrir hendi þá gæti hún aldrei talist til sértökukröfu skv. 109. gr. eða búskröfu skv. 110. gr. laga nr. 21/1991.

                Til að krafa um peningaeign geti talist til sértökukröfu skv. 109. gr. laga nr. 21/1991 þurfi tvö skilyrði að vera uppfyllt. Annars vegar þurfi sá sem krefst peningafjárhæðarinnar að sýna fram á eignarrétt sinn að henni. Hins vegar þurfi féð að liggja sérgreint í vörslum búsins. Hvorugt þessara skilyrða sé uppfyllt hvað kröfu sóknaraðila varði og hafi sóknaraðili heldur ekki sýnt fram á það. Fjármunirnir séu ekki eign sóknaraðila, þar sem gengið hafi verið að þeim vegna uppgjörs á samningum. Þá liggi þeir heldur ekki sérgreindir í vörslum varnaraðila.

                Sóknaraðili byggi á því í greinargerð sinni að „aðgerðir varnaraðila 15. apríl 2012, varði hann ábyrgð á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttarins. Ennfremur [byggi] hann á reglum um vinnuveitendaábyrgð og sérfræðiábyrgð. Samningar, GS08022106 og CIRS3293, sem [verið hafi] að baki því að varnaraðili leysti til sín handveð [hafi] aldrei [komist] á, og ekki [hafi verið] fylgt skýrri framkvæmd hinna almennu skilmála sem sóknaraðili [hafi undirritað]“. Sé því krafa sóknaraðila skaðabótakrafa. Krafa sóknaraðila byggi á viðskiptum sem hafi átt sér stað í febrúar 2008. Það hafi ekki verið sýnt fram á að sú athöfn varnaraðila að ganga að veði, sem varnaraðila hafi skýrlega verið heimilt skv. handveðssamningum, hafi verið saknæm eða ólögmæt eða önnur skilyrði skaðabótaréttar uppfyllt enda enginn reki gerður að því að útskýra slíkt. Slíkur hafi þó verið skýrleiki handveðsins, sem varnaraðili hafi tekið til sín, að starfsmaður Íslandsbanka hafi sagt í bréfi til lögmanns sóknaraðila að „Samkvæmt veðyfirlýsingunni [hafi] Glitnir [haft] skilyrðislausa heimild til að ráðstafa veðinu, án fyrirvara eða aðvörunar“. Þá séu heldur ekki uppfyllt önnur skilyrði um orsakatengsl eða sennilega afleiðingu. Sóknaraðili haldi því fram að „samningarnir séu efnislega ósamhljóða þeim viðskiptum sem honum [hafi verið] kynnt og þá hafi sóknaraðili frá öndverðu hafnað greiðsluskyldu“. Hið hugsanlega bótaskylda atvik sem kæmi til greina gæti verið hvort að sóknaraðila hafi verið kynnt önnur fjárfesting en hann hafi keypt. Slík krafa, hvort sem hún yrði byggð upp sem skaðabótakrafa eða ógildingarkrafa, hefði talist stofnast í febrúar 2008, og hefði í öllum tilvikum átt að lýsa fyrir lok kröfulýsingarfrests. Þá sé á það bent að varnaraðili hafi gengið að veðinu 15. apríl 2011 en sóknaraðili hafi ekki lýst kröfu sinni fyrr en 31. október 2012 og 16. desember 2012, eða um einu og hálfu ári síðar. Hið bótaskylda atvik sem sóknaraðili byggi kröfu sína á séu „aðgerðir varnaraðila þann 15. apríl 2012“. Þær „aðgerðir“ hafi einfaldlega falist í því að ganga að samningsbundnu veði sem varnaraðili hafi skýrlega átt rétt á samkvæmt samningi og sé erfitt að sjá hvernig slíkt geti falið í sér bótaskylda háttsemi.

                Varnaraðili kveðst hafna því að aðdragandi viðskiptanna hafi verið andstæður „hegðunarreglu“ 5. gr. laga nr. 108/2007 eins og sóknaraðili haldi fram. Því sé jafnframt hafnað að sóknaraðili hafi aldrei ætlað að ganga til framvirkra gjaldmiðlasamninga eða að samningarnir séu „efnislega ósamhljóða þeim viðskiptum sem honum [hafi verið] kynnt“ eins og haldið sé fram í greinargerð sóknaraðila.

                Á því sé byggt af hálfu varnaraðila að sóknaraðila hafi verið kynnt efni þeirrar fjárfestingar sem deilt sé um í máli þessu. Það liggi fyrir að sóknaraðili hafi átt símtal við Helga Eysteinsson, starfsmann markaðsviðskipta varnaraðila, 13. febrúar 2005 þar sem þeir hafi ákveðið að hittast sama dag til að ræða þessa fjárfestingu. Í símtalinu sé forsvarsmaður sóknaraðila spurður hvort hann vilji gíra fjárfestinguna en hann svari því til að þeir þurfi bara að ræða það. Á fundinn mæti forsvarsmaðurinn með annan mann með sér sem gegnt hafi stöðu fjármálastjóra hjá stóru íslensku fyrirtæki og ákveði þeir í kjölfarið báðir að fara í fjárfestinguna.

                Nokkrum dögum seinna sendi Helgi tölvupóst á Axel Ómarsson, tengilið forsvarsmanns sóknaraðila, og biðji um tryggingar. Strax í kjölfarið hringi Axel Ómarsson í forsvarsmann sóknaraðila og ræði við hann um fjárfestinguna og fái heimild frá honum til að færa eignir til að tryggja viðskiptin. Seinna sama dag sendi Helgi tölvupóst til Axels Ómarssonar og segi að það sitji svolítið í honum það sem hann hafi verið að segja honum um Axel Jónsson fyrr um daginn varðandi það að hann átti sig ekki á því að hann þurfi að koma með meiri tryggingar. Helgi segir að hann hafi farið í gegn um þetta með Axel Jónssyni á tveimur fundum og hann hafi svo flautað Óttar Ingvason félaga sinn inn á fundinn. Allar umræðurnar undir það síðasta hafi snúist um það hvað hann ætti mikið laust fé því þeir hafi ekki viljað setja nema helminginn af þeirri fjárhæð undir svo hann hefði borð fyrir báru ef til tryggingakalls kæmi. Telji Helgi að það geti ekki staðist að hann hafi ekki áttað sig á þessu.

                Í þessum efnum bendi varnaraðili á að Axel Ómarsson hafi spurt forsvarsmann sóknaraðila í símtali um tryggingar vegna kaupanna 20. febrúar 2008, en endurrit símtalsins liggi fyrir í málinu.

Axel Ómarsson: „Ég þekki þetta, ég hefði nú ekki boðið þér þetta. Þetta er dálítið áhættusamt en ert þá að taka þetta gírað?

Axel Jónsson: „

Axel Ómarsson: „Já, já, já, já. Þú ert að fara í ansi mikla áhættu.“

Axel Jónsson: „Yes sir“.

Axel Ómarsson: „Ég hélt, ég hélt að við værum að draga úr áhættu?“

Axel Jónsson: „Ha?

Axel Ómarsson: „Ég hélt, ég hélt að við værum að draga úr áhættu?“

Axel Jónsson: „Já, við vorum að gera það. Við tókum hana út og fórum inn í aðra.“

Axel Ómarsson: „Já, okei. Hvað, hvað tókstu mikið hérna....“

Axel Jónsson: „... í tryggingu?“

Axel Ómarsson: „Hvað tókstu mikið, hvað ertu að tryggja mikið?“

Axel Jónsson: „25 milljónir

                Af þessu símtali sé ljóst að forsvarsmanni sóknaraðila hafi verið kunnugt um að hann væri að taka mikla áhættu, hann væri að gíra fjárfestinguna og að hann þyrfti að leggja fram tryggingar vegna hennar.

                Í sama símtali segi forsvarsmaður sóknaraðila að hann hafi tekið með sér á fundinn nafngreindan fjármálastjóra hjá stóru íslensku sjávarútvegsfyrirtæki og að hann hafi einnig tekið „slatta af þessu“.

                Þá hafi sóknaraðili fengið samningana, sem hann hafi gengist undir á fundinum í febrúar, senda til sín í tölvupósti 25. mars 2008. Ef sóknaraðili hafi verið í einhverjum vafa um hvað hafi falist í viðskiptunum þá hefði það átt að skýrast í síðasta lagi við móttöku þessa tölvupósts.

                Í kjölfar þessara viðskipta hafi hann gert annan gjaldmiðlaskiptasamning 23. maí 2008, hafi verið upplýstur um tryggingaþörf hins umþrætta samnings, hafi verið töluvert í gjaldmiðlaviðskiptum og vangaveltum tengdum slíkum viðskiptum og hafi beinlínís átt í samskiptum vegna þessa samnings eins og sjáist af endurritum af hljóðritunum símtala sem liggi fyrir í málinu. Þá hafi sóknaraðili sóst eftir framvirkum viðskiptum tengdum gjaldeyri og hafi sjálfur sagst hafa „staðgóða þekkingu á gjaldeyrisviðskiptum“.

                Það geti því ekki staðist að sóknaraðili hafi ekki gert sér grein fyrir í hverju viðskiptin hafi átt að felast. Þar sem sóknaraðila hafi verið viðskiptin kunn og hann hafi verið þeim samþykkur geti hann ekki komið með andmæli eftir að ljóst sé að tap hafi orðið af fjárfestingunni. Hefði hann enda átt að koma með slík mótmæli eins fljótt og auðið hafi verið.

                Sóknaraðili hafi skrifað undir almenna skilmála vegna markaðsviðskipta hjá varnaraðila 15. febrúar 2008. Á forsíðu segi að skilmálunum væri ætlað að undirstrika að viðskiptamaður hafi gert sér grein fyrir eðli þeirra samninga sem falli undir skilmálana og þeirri áhættu sem þeim fylgi.

                Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. skilmálanna skyldu stundarviðskipti með gjaldeyri staðfest af hálfu bankans einhliða með símbréfi, og ef um væri að ræða stundarviðskipti með verðbréf skyldi varnaraðili staðfesta viðskiptin einhliða með bréfi sem sent yrði með pósti til viðskiptamanns. Viðskiptamaður teldist hafa samþykkt slík viðskipti, ef hann gerði ekki athugasemd innan þriggja daga frá því bankinn sendi bréf til hans. Í 4. mgr. 2. gr. samningsins kom fram að varnaraðili sendi frumrit allra samninga (nema um stundarviðskipti með gjaldeyri og verðbréf) til viðskiptamanns. Viðskiptamaður hafi skuldbundið sig til að senda undirrituð frumrit til varnaraðila á tryggilegan hátt innan þriggja daga frá því honum bærust þeir samningar sem yrðu gerðir.

                Sóknaraðili hafi staðfest umrædd kaup á fundi og honum hafi svo í kjölfarið verið sendir samningarnir í tölvupósti 25. mars 2008 og hann beðinn um að senda undirrituð eintök á neðangreint heimilisfang eða faxnúmer. Það skipti því ekki máli hvort viðskiptin hafi verið stundarviðskipti eður ei hvað samþykki varði. Sóknaraðili hafi orðið bundinn við viðskiptin með samþykki þeirra á fundi í febrúar 2008, en þó ekki teldist sýnt fram á slíkt þá hafi hann orðið bundinn við þau í síðasta lagi þremur dögum eftir að honum hafi borist staðfesting viðskiptanna í tölvupósti 25. mars 2008. Varnaraðili telji þó að um stundarviðskipti hafi verið að ræða og því hafi ekki einu sinni þurft staðfestingu viðskiptamanns. Kaupin hafi því sannarlega komist á með lögformlegum hætti og hafi orðið bindandi fyrir bæði sóknaraðila og varnaraðila, enda hafi sóknaraðili fengið vaxtagreiðslur a.m.k. tvisvar áður en samningnum hafi verið lokað og hafi engar athugasemdir gert.

                Þá komi það fram í 8. gr. skilmálanna að með undirritun sinni á þá lýsi viðskiptamaður því yfir að honum sé ljóst að þau viðskipti sem hann kunni að eiga við markaðsviðskipti varnaraðila geti verið sérstaklega áhættusöm. Viðskiptamanni beri að afla sér ráðgjafar utanaðkomandi sérfræðinga telji hann þess þörf.

                Jafnframt sé því hafnað að varnaraðili hafi ekki mátt flokka sóknaraðila sem fagfjárfesti. Sóknaraðili hafi óskað eftir að vera flokkaður sem slíkur. Sé enda ekki að sjá hvaða áhrif það eigi að hafa þótt svo sóknaraðili hafi verið almennur fjárfestir. Sé í það minnsta ekki byggt á því frekar hvaða áhrif það hafi átt að hafa fyrir utan að borið hefði að ráða honum frá viðskiptunum eða leiðbeina honum sérstaklega. Það liggi fyrir að sóknaraðili hafi sótt í þessa fjárfestingu og hafi fengið leiðbeiningar vegna hennar og hafi ákveðið kaup í framhaldinu. Hann hafi einnig fengið viðvörun frá starfsmanni varnaraðila um að þetta væri áhættusamt en þó hafi hann kosið að halda sig við viðskiptin. Engar mótbárur sé að finna í samskiptum varnaraðila og forsvarsmanns sóknaraðila vegna viðskiptanna í tölvupóstsamskiptum eða símtölum eins og framlögð dómskjöl beri með sér.

                Varnaraðili telji einsýnt að sóknaraðili geti ekki löngu eftir umþrætt viðskipti, komið fram eins og grandlaus aðili, og borið það fyrir sig að hafa ekki haft neina vitneskju eða þekkingu um þau. Bendi varnaraðili á í því sambandi að sóknaraðili hafi haft mikla reynslu af fjármálamarkaði og hafi fjárfest töluvert á gjaldeyrismarkaði áður. Hann hafi fengið upplýsingar um viðskiptin á fundi, hafi fengið upplýsingar sendar í tölvupósti og hafi átt í samskiptum við starfsmann varnaraðila um þau símleiðis.

                Varnaraðili bendi á að engar athugasemdir hafi verið gerðar þá og í raun hafi engar athugasemdir verið settar fram af hálfu sóknaraðila fyrr en með kröfulýsingu, 31. október 2012 eða um fjórum og hálfu ári eftir að viðskiptin sem mál þetta taki til hafi átt sér stað. Sóknaraðili hafi á öllum þessum tíma haft tækifæri á að koma að athugasemdum þess efnis að ráðgjöf hafi verið ábótavant. Sér í lagi eftir að hann hafi fengið senda samningana 25. mars 2008. Vísi varnaraðili meðal annars til þeirrar meginreglu í viðskiptum af þessu tagi, sem sé áréttuð í 3. gr. frumvarps þess er orðið hafi að lögum nr. 33/2003, um að viðskiptavinur hafi almennt skamman frest til að gera athugasemdir. Komi þar einnig fram að tómlæti viðskiptavina geti haft meiri áhrif í verðbréfaviðskiptum en ella, enda geti hver dagur skipt máli og að rúmir frestir til athugasemda geti opnað fyrir að viðskiptavinum verði unnt að taka ekki einungis mið af þeim upplýsingum sem legið hafi fyrir við kaupin, heldur einnig upplýsingum sem síðar hafi komið til.  Varnaraðili vísi hér til dóms Hæstaréttar í máli nr. 16/2001, þar sem niðurstaða hafi orðið sú að viðskiptamaður yrði bundinn af viðskiptum sínum vegna athafnaleysis en þar hafi legið fyrir að hann hafi ekki gert athugasemdir við viðskiptin fyrr en rúmum tveimur árum eftir að til þeirra hafi verið stofnað. Verði að telja með vísan til alls framangreinds að sóknaraðili hafi sýnt af sér slíkt aðgerðarleysi við gæslu þess skaðabótaréttar sem hann sækir sér til handa í þessu máli, að hann hafi með því fyrirgert honum. Jafnframt sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 719/2013.

                Í kröfulýsingu sóknaraðila 16. desember 2012 sé gerð krafa um dráttarvexti frá 17. september 2009 með þeim rökstuðningi að „Umb. minn beindi fyrst kröfum að þrotabúi að leysa reikninga undan veði 17.09.2009. Ekki var orðið við því.“ Ekki sé þetta útskýrt frekar eða umrædd krafa eða bréf lagt fram með kröfulýsingunni. Sé því um vanreifun að ræða hvað þennan þátt varði. Þar sem krafan geti ekki talist til sértökukröfu, búskröfu eða forgangskröfu þá séu dráttarvextir eftirstæð krafa ef fallist yrði á að krafan nyti stöðu almennrar kröfu.

                Einnig sé hafnað kröfu um innheimtuþóknun sem krafist sé í kröfulýsingu 16. desember 2012. Engin gögn fylgi sem styðji þá kröfu og sé hún þar af leiðandi vanreifuð. Einnig vanti lagaskilyrði til þess að fallast á slíka kröfu. Ef fallist yrði á kröfu um kostnað við innheimtu þá væri það jafnframt eftirstæð krafa skv. 114. gr. laga nr. 21/1991.

                Varnaraðili byggi á því að sönnunarbyrðin um að krafa sóknaraðila sé fyrir hendi hvíli á sóknaraðila. Vísist um þetta m.a. til þeirrar meginreglu sem búi að baki ákvæði 117. gr. laga nr. 21/1991, þ.e. varðandi form og efni kröfulýsinga og sönnunargagna sem kröfur séu studdar við. Þau gögn sem sóknaraðili hafi lagt fram kröfu sinni til stuðnings sýni að mati varnaraðila ekki fram á að krafan eigi rétt á sér.

Jafnframt vísist til þess að sönnunarbyrði um eðli kröfunnar og stöðu í skuldaröð hvíli óumdeilt á sóknaraðila.

                Varnaraðili kveðst vísa til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti (brottfallinna), laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, meginreglna samninga- og kröfuréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga, skuldbindingargildi samninga og samningsfrelsi og almennra reglna skaðabótaréttar um skilyrði skaðabótaábyrgðar.

                Kröfu um málskostnað byggi varnaraðili á 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að auki sé vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en varnaraðili stundi ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og því þurfi að taka tillit til skyldu hans til greiðslu slíks skatts af málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar honum til handa.

                Við munnlegan málflutning mótmælti varnaraðili nýjum málsástæðum sóknaraðila og hafnaði því að á þeim yrði byggt við úrlausn málsins.

V

                Sóknaraðili máls þessa byggir kröfur sínar á þeirri meginforsendu að varnaraðili hafi ekki átt réttmæta kröfu sem heimilað gæti innlausn handveðsettra fjármuna hans 15. apríl 2011. Telur hann að samningar þeir sem aðilar hugðust gera með sér hafi ekki orðið skuldbindandi fyrir hann og því sé ekki fyrir hendi lögmæt krafa varnaraðila á hendur honum sem heimilað gæti innlausn veðsins. Byggir aðalkrafa hans á því að skila eigi honum umræddum fjármunum, sbr. 109. gr. laga nr. 21/1991 og vísar hann til þess að slíka kröfu sé honum heimilt að hafa uppi eftir lok kröfulýsingarfrests, sbr. 4. tl. 118. gr. sömu laga. Varakrafa hans byggir á því að það varði slitastjórn varnaraðila skaðabótaskyldu að hafa leyst fjármunina til sín, sbr. 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, en slíka kröfu sé honum unnt að hafa uppi eftir lok kröfulýsingarfrests, sbr. 5. tl. 118. gr sömu laga. Vísar hann til þess að honum hafi fyrst orðið ljóst að varnaraðili hafi leyst til sín umrætt veð þegar lögmanni hans hafi borist bréf frá Íslandsbanka hf. dags. 25. september 2012 þar sem frá þessu hafi verið greint. Byggir sóknaraðili á því að það hafi því ekki verið of seint að lýsa umræddri búskröfu 16. desember 2012. 

                Varnaraðili byggir á því að framangreindum kröfum hefði átt að lýsa fyrir lok kröfulýsingarfrests og þær séu því fallnar niður fyrir vanlýsingu. Þá telur hann kröfurnar einnig vanreifaðar og gerir athugasemdir við að varakrafa sé að fjárhæð sem sé hærri en aðalkrafa og tilvísunum sóknaraðila til lagaheimilda, sem heimili kröfulýsingu eftir lok kröfulýsingarfrests, sé ábótavant. Þá hafi varakröfu ekki verið lýst án ástæðulausra tafa í skilningi 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 og hafnar varnaraðili því að sóknaraðili hafi fyrst mátt vita um innlausn veðsins þegar hann hafi móttekið fyrrnefnt bréf í september 2012.

                Sóknaraðili byggir kröfur sínar upp með einföldum hætti og er rökstuðningur ekki ítarlegur. Það er þó mat dómsins að grundvöllur fjárkröfu sóknaraðila sé að sínu leyti skýr og röksemdir hans séu það einnig þó fallast megi á með varnaraðila að þær geti vart talist ítarlegar. Er því ekki fallist á að fjárkröfur sóknaraðila séu vanreifaðar þannig að hafna beri þeim þegar af þeim sökum. Þá þykir það ekki varða sóknaraðila réttarspjöllum þó varakrafa hans sé um viðurkenningu hærri fjárhæðar heldur en aðalkrafa, enda kröfunum ekki ætluð sama staða í skuldaröð.

                Sóknaraðili vísar til þess að aðalkrafa hans eigi að njóta stöðu í skuldaröð skv. 109. gr. laga nr. 21/1991. Fyrir þessu færir sóknaraðili þær röksemdir í greinargerð að „[k]rafa sé gerð um afhendingu fjármuna, enda teljist þeir nægjanlega sérgreindir í kröfulýsingu svo verða megi við henni. […] PM-innlán sóknaraðila [teljist] til hans eignar og [séu] sérgreindar í fórum varnaraðila.“ Í kröfulýsingu kemur fram að gerð sé krafa um afhendingu fjármuna í eigu sóknaraðila sem „… [séu] tilgreindir og sérgreindir á reikningum Glitnis banka hf.“ Umræddar fjárhæðir og bankareikningar eru þá tilgreindir. Til að unnt sé að fallast á kröfu til afhendingar verðmæta sem aðili sannar eignarrétt sinn að er nauðsynlegt að umrædd réttindi séu sérgreind í vörslum þrotabús eða, eins og hér á við, fjármálafyrirtækis í slitameðferð. Felst ekki slík sérgreining í því að vísað sé til þess að fjármunirnir hafi verið lagðir inn á tilgreindan bankareikning í eigu varnaraðila. Eru þegar af framangreindri ástæðu ekki efni til að viðurkenna umrædda kröfu sóknaraðila sem  sértökukröfu skv. 109. gr. laga nr. 21/1991. Varð kröfunni því ekki réttilega lýst á þeim grundvelli eftir lok kröfulýsingarfrests og telst ætluð krafa því fallin niður gagnvart varnaraðila vegna vanlýsingar, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991. Er kröfunni því hafnað.

                Varakrafa sóknaraðila er skaðabótakrafa og er henni lýst sem búskröfu skv. 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Um heimild til að hafa kröfuna uppi eftir lok kröfulýsingarfrests var vísað í munnlegum málflutningi til 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991. Ætluð skaðabótaskyld háttsemi slitastjórnar varnaraðila átti sér stað með innlausn allrar innistæðu tveggja reikninga hjá Íslandsbanka hf. og munu fjármunirnir hafa verið færðir á bankareikninga í eigu varnaraðila. Þetta átti sér stað 15. apríl 2011. Varakröfu sóknaraðila var lýst fyrir slitastjórn varnaraðila 16. desember 2012. Var þá liðinn einn og hálfur mánuður frá því fyrri kröfulýsing sóknaraðila var sett fram og tveir og hálfur mánuður frá því sóknaraðili kveðst fyrst hafa fengið vitneskju um útgreiðslu af umræddum reikningum. Af hálfu sóknaraðila hafa ekki verið færðar fram fullnægjandi skýringar á því af hverju búskröfu hans var ekki lýst samtímis sértökukröfu hans. Það er því mat dómsins að eins og hér stendur á verði að fallast á með varnaraðila að kröfu sóknaraðila hafi ekki verið lýst án ástæðulausra tafa í skilningi 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991. Er hinni ætluðu kröfu því vanlýst, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991 og telst því niður fallin gagnvart varnaraðila. Verður varakröfu sóknaraðila því einnig hafnað.

                Í ljósi framangreindra málsúrslita verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði.

                Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                 Framangreindum kröfum sóknaraðila, Perú ehf., sem hann lýsti við slitameðferð varnaraðila, Glitnis hf., 31. október 2012 og 16. desember sama ár, er hafnað.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila 500.000 krónur í málskostnað.