Hæstiréttur íslands
Mál nr. 60/2015
Lykilorð
- Manndráp af gáleysi
- Ökutæki
- Refsiheimild
- Svipting ökuréttar
- Skilorð
- Sakarkostnaður
|
|
Fimmtudaginn 3. desember 2015. |
|
Nr. 60/2015.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn Guðmundi Sigurðssyni (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Manndráp af gáleysi. Ökutæki. Refsiheimild. Svipting ökuréttar. Skilorð. Sakarkostnaður.
G var gefið að sök manndráp af gáleysi, auk umferðarlagabrota, með því að hafa ekið dráttarvél með ámoksturstæki með áföstum baggaspjótum án nægilegrar aðgæslu og varúðar inn á bifreiðastæði, þvert í veg fyrir bifreið sem kom aðvífandi úr gagnstæðri átt, með þeim afleiðingum að ökumaður þeirrar bifreiðar lést við áreksturinn. Var þetta talið varða við 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr. og 6. mgr. 25. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að vegna krafna um skýrleika refsiheimilda yrði manni ekki gerð refsing fyrir brot á ákvæði 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga einu og sér, en aftur á móti bæri að líta til ákvæðisins við mat á því hvort ökumaður hefði sýnt af sér gáleysi í skilningi 215. gr. almennra hegningarlaga þegar ökutæki, sem hann hefði stjórnað, hefði orðið manni að bana. Talið var að þegar dráttarvél væri ekið eftir þjóðvegum bæri ökumanni hennar að sýna sérstaka varkárni og ætti það enn frekar við þegar dráttarvélin væri með fyrrgreindan aukabúnað. Með hliðsjón af skýrslum sérfróðra manna um tæknirannsókn á ökutækjunum tveimur og ætlaðan ökuhraða bifreiðarinnar var talið hafið yfir skynsamlegan vafa að bifreiðin hefði verið komin svo nálægt dráttarvélinni þegar henni var sveigt í veg fyrir bifreiðina að G hefði á þeirri stundu átt að sjá hana greinilega. Talið var að vegna hins mikla hraða bifreiðarinnar léki enginn vafi á að ökumaður hennar hefði átt þátt í því að valda slysinu. Það var á hinn bóginn ekki talið leysa G undan refsiábyrgð. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að G hefði ekki sætt refsingu áður og augljóst væri að hann hefði orðið fyrir miklu áfalli vegna slyssins. Var refsing hans ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 45 daga. Þá var hann sviptur ökurétti í þrjá mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. desember 2014 af hálfu ákæruvaldsins. Hann krefst þess aðallega að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur.
Ákærði krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.
I
Í máli þessu eru ákærða gefin að sök brot á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og umferðarlögum nr. 50/1987 „með því að hafa, um hádegisbil mánudaginn 25. mars 2013, ekið dráttarvélinni SY-346 með ámoksturstækjum með áföstum baggaspjótum í 93 cm hæð frá vegi; suður Skeiðaveg við Brautarholt á Skeiðum án nægilegrar aðgæslu og varúðar til vinstri inn á bifreiðastæði við Brautarholt, þvert í veg fyrir bifreiðina [...] sem kom aðvífandi úr gagnstæðri akstursátt, þannig að mjög harður árekstur varð með dráttarvélinni og framangreindri bifreið með þeim afleiðingum að A ... hlaut mikla fjöláverka og lést nær samstundis.“ Bifreiðin [...] var jeppabifreið af gerðinni [...] og var A ökumaður hennar.
Samkvæmt gögnum málsins var veður bjart þegar slysið átti sér stað, vegurinn þurr og aðstæður til aksturs hinar ákjósanlegustu. Skeiðavegur er þjóðvegur, lagður bundnu slitlagi, og skiptist þar sem slysið varð í tvær akbrautir sem hvor um sig er ætluð umferð ökutækja í gagnstæðar áttir. Sé ekið suður veginn eins og ákærði gerði umrætt sinn háttar þannig til að á vinstri hönd er bifreiðastæði við Brautarholt og er unnt að aka inn á það á tveimur stöðum. Nyrðri innkeyrslan, sem fyrst er komið að, er um 50 metrum frá þeirri syðri þar sem ákærði hugðist aka inn á stæðið. Sé horft suður eftir veginum sveigir hann til vinstri og trjágróður, sem þar er, byrgir ökumönnum sýn þannig að þeir geta vart komið auga á ökutæki, sem koma aðvífandi á móti, fyrr en þau koma úr hvarfi hjá trjánum. Vegna þess hve aðstæður eru taldar varasamar er leyfilegur hámarksökuhraði á þessum hluta Skeiðavegar 70 km á klukkustund.
Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna fyrir dómi, svo og skýrslum sérfróðra manna sem lagðar hafa verið fram í málinu. Meðal þeirra er skýrsla F prófessors um ætlaðan ökuhraða jeppabifreiðarinnar þegar hún lenti framan á dráttarvélinni og skýrslur, sem gerðar voru af E bifvélavirkjameistara, um tæknirannsókn á ökutækjunum tveimur. Hafa þeir F og E báðir komið fyrir héraðsdóm þar sem þeir staðfestu skýrslurnar og svöruðu spurningum um efni þeirra.
Ákærði var búsettur í nágrenni Brautarholts og þekkti því vel til aðstæðna þar sem slysið varð. Fyrir dómi sagði hann að beygja væri á veginum fram undan slysstaðnum og þar væri skjólbelti sem hindraði útsýni. Ákærði kvaðst hafa ætlað að aka að kertasmiðjunni við Brautarholt og áður en hann hefði tekið beygjuna hefði hann ekki orðið var við að neinn kæmi á móti „og svo birtist hann þarna bara rétt í þann mund sem ég er að taka beygjuna og við lendum saman ... Ég sé hann ... svona eins og svarta þúst augnablik áður en hann lendir á traktornum.“ Aðspurður sagði ákærði, sem er blindur á hægra auga, að hann hefði ekki orðið var við að blindan háði sér við akstur, en hann væri með ágætis sjón á því vinstra.
Í áðurgreindri skýrslu komst F að þeirri niðurstöðu að ætlaður hraði jeppabifreiðarinnar hafi verið 110 km á klukkustund þegar hún lenti framan á dráttarvélinni, en mögulegur hámarkshraði hennar 118 km á klukkustund. Á teikningu af vettvangi, sem sýnir ætlaða stöðu ökutækjanna á veginum einni sekúndu fyrir áreksturinn, er dráttarvélin að byrja að beygja en ekki komin yfir á hina akbrautina og jeppabifreiðin skammt undan án þess að ökumaður hennar virðist hafa áttað sig á að dráttarvélin væri í þann mund að sveigja í veg fyrir bifreiðina. Mældust hemlaför eftir hana 15,5 m. Aðspurður fyrir dómi taldi F að hefði jeppabifreiðinni verið ekið á 70 km hraða á klukkustund væri líklegt að hún hefði ekki lent á dráttarvélinni. Alla vega hefði áreksturinn orðið minni háttar.
Dráttarvélin sem ákærði ók var búin ámoksturstæki með bagga- eða rúllutínslu, en hún samanstóð af bakstykki 1,25 m breiðu, og tveimur bagga- eða rúlluspjótum, 1,09 m löngum, sem vissu fram hvort sínum megin á tínslunni og sneru líklega örlítið upp á við. Fyrir dómi kvaðst ákærði álíta að spjótin hefðu verið í 40-50 cm hæð frá jörðu þegar slysið varð. Af skemmdum, sem urðu á jeppabifreiðinni af völdum árekstrarins, dró E hins vegar þá ályktun í rannsókn sinni á ökutækjunum að fyrsta snerting vinstra spjótsins á dráttarvélinni við vinstra frambretti bifreiðarinnar hafi verið í 1,15 m hæð frá yfirborði vegar og hægra spjótið hafi gengið beint gegnum vinstri framhurð hennar í 1,095 m hæð. Fyrir dómi staðfesti E að samkvæmt þessu hafi baggaspjótin verið í liðlega 1 m hæð frá yfirborði vegarins þegar ökutækin rákust saman. Miðað við þetta var fjarlægðin frá fremsta hluta á framhjólbörðum dráttarvélarinnar og að enda spjótanna 2,67 m. Á ljósmyndum, sem teknar voru úr ökumannssæti dráttarvélarinnar á slysstað, sést að kjálkar á ámoksturstæki hennar hafa skert útsýnið þaðan fram á veginn.
Hinn 30. september 2014 mældi lögregla vegalengdina frá þeim stað þar sem jeppabifreiðin var þegar ákærði hafði fyrst möguleika á að sjá hana koma á móti sér og að þeim stað þar sem dráttarvélinni var beygt inn á bifreiðastæðið. Reyndist vegalengdin vera 235,5 m. Samkvæmt skýrslu lögreglu um þessa rannsókn hefði það tekið bifreiðina 7,18 sekúndur að fara vegalengdina miðað við að hraði hennar hefði verið 118 km á klukkustund. Séu ljósmyndir, sem teknar voru við þetta tækifæri, bornar saman við mynd, sem tekin var frá sama sjónarhorni á slysdegi, sést að trjágróður skyggir í báðum tilvikum á útsýnið fram eftir veginum. Þótt gróðurinn hafi verið grisjaður eftir slysið, svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi, er þess að gæta að það átti sér stað í lok mars þegar engin lauf voru á trjánum, eins og glöggt sést á myndinni sem þá var tekin. Í lok september þegar síðari myndirnar voru teknar voru trén hins vegar laufguð og byrgðu því frekar sýn en þau gerðu í fyrra skiptið. Að þessu gættu er engin ástæða til að ætla að útsýnið suður eftir veginum hafi verið takmarkaðra á slysdegi en það var þegar umrædd rannsókn lögreglu var gerð. Verður hún því lögð til grundvallar við úrlausn málsins.
II
Í ákæru er háttsemi ákærða, sem honum er gefin að sök, heimfærð til 215. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 4. gr. og 6. mgr. 25. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga. Samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 4. gr. síðarnefndu laganna skal vegfarandi sýna tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum, og þannig að eigi trufli eða tefji umferð að óþörfu. Vegna krafna um skýrleika refsiheimilda verður manni ekki gerð refsing fyrir brot á þessu ákvæði einu og sér, en aftur á móti ber að líta til þessarar meginreglu við mat á því hvort ökumaður hafi sýnt af sér gáleysi í skilningi 215. gr. almennra hegningarlaga þegar ökutæki, sem hann stjórnaði, hefur orðið manni að bana.
Þegar dráttarvél, sem ekki er hönnuð til aksturs á fjölförnum vegum, sbr. 2. gr. umferðarlaga, er ekið eftir þjóðvegum ber ökumanni hennar að sýna sérstaka varkárni. Það á enn frekar við þegar dráttarvélin er með aukabúnað eins og þann sem áður er lýst þar sem baggaspjót sköguðu svo langt fram úr henni að nam um tveimur og hálfum metra frá fremri hjólbörðum hennar. Af skýrslu E, sem staðfest hefur verið fyrir dómi, er sannað að ámoksturstæki dráttarvélarinnar, sem ákærði ók umrætt sinn, voru stillt þannig að spjótin voru í liðlega eins metra hæð frá yfirborði vegarins og varð það meðal annars til þess að kjálkarnir á ámoksturstækinu skyggðu á útsýni hans úr ökumannssæti vélarinnar. Með því að aka dráttarvélinni svo búinni stofnaði ákærði öðrum vegfarendum í hættu. Þá þekkti hann vel aðstæður á þeim stað, sem slysið varð, og átti að gera sér grein fyrir að það að aka inn á bifreiðastæðið um syðri innkeyrsluna gat verið varasamt vegna umferðar, sem á móti kynni að koma, því að útsýnið fram undan var þá enn takmarkaðra en ef nyrðri innkeyrslan hefði verið notuð.
Af skemmdum, sem urðu á jeppabifreiðinni þegar áreksturinn varð, er ljóst að vinstra baggaspjótið, fremst á dráttarvélinni, var að líkindum vart komið að miðlínu akbrautarinnar, sem bifreiðinni var ekið eftir í gagnstæða átt, vegna þess að spjótið snerti fyrst vinstra frambretti bifreiðarinnar og hægra baggaspjótið stakkst gegnum vinstri framhurð hennar. Samkvæmt því var dráttarvélin nýbyrjuð að beygja í átt að bifreiðastæðinu þegar áreksturinn varð. Sé miðað við að bifreiðinni hefði verið ekið á mögulegum hámarkshraða, 118 km á klukkustund, í aðdraganda árekstrarins samkvæmt útreikningi F, sem rétt er að leggja til grundvallar með hliðsjón af 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, hefði það tekið bifreiðina liðlega sjö sekúndur samkvæmt framangreindri rannsókn lögreglu að fara frá þeim stað þar sem ákærði hefði fyrst átt að koma auga á hana og að slysstaðnum. Af þeim sökum er útilokað að dráttarvélin hafi verið komin jafn skammt í veg fyrir bifreiðina og raunin sannar ef bifreiðin hefði verið utan sjónsviðs ákærða í þann mund sem hann beygði í átt að bifreiðastæðinu. Samkvæmt því er hafið yfir skynsamlegan vafa að jeppabifreiðin var komin svo nálægt dráttarvélinni þegar henni var sveigt í veg fyrir bifreiðina að ákærði hefði á þeirri stundu átt að sjá hana greinilega.
Ekki er dregið í efa að ákærði hafi skýrt frá eftir bestu vitund þegar hann kvaðst ekki hafa orðið var við jeppabifreiðina í þann mund sem hann tók beygjuna. Það getur skýrst af því að kjálkar á ámoksturstæki dráttarvélarinnar hafi sem fyrr segir skyggt á útsýnið fram á veginn auk þess sem ákærði er blindur á hægra auga, en það vissi einmitt að veginum fram undan þegar vélin tók að beygja. Loks kann skorti á aðgæslu hjá ákærða að vera um að kenna.
Vegna hins mikla hraða jeppabifreiðarinnar leikur enginn vafi á að ökumaður hennar átti þátt í að valda því slysi sem hér um ræðir. Það leysir ákærða á hinn bóginn ekki undan refsiábyrgð.
Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, verður ákærði sakfelldur fyrir brot á 215. gr. almennra hegningarlaga og 6. mgr. 25. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Ákærði hefur ekki sætt refsingu áður og augljóst er að hann hefur orðið fyrir miklu áfalli vegna þessa hörmulega slyss. Refsing hans er því ákveðin fangelsi í 45 daga og verður hún bundin skilorði eins og í dómsorði greinir.
Vegna eðlis þeirra brota, sem ákærði hefur gerst sekur um, verður hann sviptur ökurétti í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga.
Í samræmi við þessi málsúrslit verður ákærða gert að greiða málsvarnarlaun og ferðakostnað skipaðs verjanda síns í héraði, en rétt er að kostnaður vegna hinnar umfangsmiklu rannsóknar málsins greiðist úr ríkissjóði. Þá verður ákærða gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins í dómsorði segir.
Dómsorð:
Ákærði, Guðmundur Sigurðsson, sæti fangelsi í 45 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að tveimur árum liðnum frá uppsögu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði er sviptur ökurétti í þrjá mánuði.
Ákærði greiði málsvarnarlaun og ferðakostnað verjanda síns í héraði eins og ákveðið var í héraðsdómi, en annar sakarkostnaður í héraði greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 966.336 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 868.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 8. desember 2015.
Mál þetta, sem tekið var til dóms þann 12. nóvember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi dagsettri 2. maí 2014 á hendur ákærða, Guðmundi Sigurðssyni, kt. [...], til heimilis að Reykhóli 2, Skeiða- og Gnúpverjahreppi,
„fyrir hegningar- og umferðarlagabrot:
með því að hafa, um hádegisbil mánudaginn 25. mars 2013, ekið dráttarvélinni SY-346 með ámoksturstækjum með áföstum baggaspjótum í 93 cm hæð frá vegi; suður Skeiðaveg við Brautarholt á Skeiðum án nægilegrar aðgæslu og varúðar til vinstri inn á bifreiðastæði við Brautarholt, þvert í veg fyrir bifreiðina [...] sem kom aðvífandi úr gagnstæðri akstursátt, þannig að mjög harður árekstur varð með dráttarvélinni og framangreindri bifreið með þeim afleiðingum að A, kt. [...] hlaut mikla fjöláverka og lést nær samstundis.
Teljast brot ákærða varða við 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, 1. og 2. mgr. 4. gr. og 6. mgr. 25. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til sviptingar ökuréttar samkvæmt 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkröfur:
Í málinu gerir Lárus Blöndal hrl. kröfu f.h. B kt. [...] um að ákærða verði með dómi gert að greiða miskabætur að fjárhæð kr. 5.000.000 auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. mars 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, og svo skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu skv. mati dómsins komi til málflutnings af hálfu lögmanns kæranda við aðalmeðferð málsins.
Í málinu gerir Lárus Blöndal hrl. kröfu f.h. C kt. [...] um að ákærða verði með dómi gert að greiða miskabætur að fjárhæð kr. 5.000.000 auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. mars 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, og svo skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu skv. mati dómsins komi til málflutnings af hálfu lögmanns kæranda við aðalmeðferð málsins.
Í málinu gerir Lárus Blöndal hrl. kröfu f.h. D kt. [...] um að ákærða verði með dómi gert að greiða miskabætur að fjárhæð kr. 5.000.000 auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. mars 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, og svo skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu skv. mati dómsins komi til málflutnings af hálfu lögmanns kæranda við aðalmeðferð málsins.“
Við meðferð málsins var af hálfu ákæruvalds fallið frá tilvísun í ákæru til 2. mgr. 4. gr. umferðarlaga.
Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins í málinu en til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er aðallega krafist frávísunar á bótakröfum en til vara lækkunar. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda.
Farið var á vettvang þann 3. október sl.
Málavextir.
Mánudaginn 25. mars 2013 kl. 12:34 barst lögreglu tilkynning um að umferðarslys hefði orðið á Skeiðavegi við Brautarholt í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Er lögreglumenn voru á leið á vettvang barst tilkynning um að sennilega væri um banaslys að ræða og væri endurlífgun hafin á vettvangi. Er þangað var komið mátti sjá dráttarvélina SY-346 þar sem hún hafði staðnæmst milli innkeyrslna að Kertasmiðjunni Brautarholti, þvert yfir akrein til norðurs og vísaði framendi hennar að Kertasmiðjunni. Framan á dráttarvélinni var ámoksturstæki og höfðu teinar þess stungist inn í vinstri hlið jeppabifreiðarinnar [...]. Bifreiðin var fyrir utan veginn, milli akbrautarinnar og bílastæðis við Kertasmiðjuna og vísaði til norðurs. Léttskýjað var og sólskin og var akbrautin með bundnu slitlagi, auð og þurr. Á þessum vegarkafla er hámarkshraði 70 km/klst. Ákærði hafði ekið dráttarvélinni en ökumaður jeppabifreiðarinnar var A. Lögreglumenn fóru að hægri afturhlið jeppabifreiðarinnar og kom þá ljós að hann lá aftur með farþegarými bifreiðarinnar. Fætur hans voru skorðaðir í braki framan við ökumannssæti en það var brotið og gengið aftur að aftursæti og lá efri hluti líkama ökumanns aftur með framsætinu og með höfuðið í aftursæti hægra megin. Miklir áverkar voru á höfði ökumanns, höfuðkúpan greinilega brotin og gengin til og blætt hafði úr höfði. Þá hafði einnig blætt út um munn, nef og eyru. Engin lífsmörk reyndust með ökumanni og þar sem hann hafi bersýnilega verið látinn hafi endurlífgun ekki verið reynd. Engin vitni voru að slysinu en haft var eftir ákærða á vettvangi að hann hafi ekið suður Skeiðaveg og ætlað inn að Kertasmiðjunni. Kvaðst hann hafa tekið beygjuna og aldrei séð bifreiðina sem ekið hafi verið á móti í norður, nema rétt á þeirri sekúndu sem ökutækin skullu saman. Haft var samband við E, bíltæknisérfræðing, F, prófessor í hreyfiaflfræði, G mælingamann og H frá rannsóknarnefnd umferðarslysa og komu þeir á vettvang og aðstoðuðu við vettvangsrannsókn.
Lagðar hafa verið fram í málinu ljósmyndir sem teknar voru á vettvangi og sýna aðstæður þar. Á myndum sem teknar voru og sýna akstursstefnu dráttarvélarinnar kemur fram að útsýni suður akbrautina er mjög takmarkað vegna hávaxins gróðurs og beygju á akbrautinni rétt sunnan afleggjarans til vinstri að Kertasmiðjunni. Myndir sýna einnig akstursstefnu jeppabifreiðarinnar og af þeim sést að skömmu áður en komið er að skilti sem sýnir hámarkshraðann 70 km/klst. sést slysstaðurinn við Kertasmiðjuna ekki vegna beygjunnar til hægri og hins hávaxna gróðurs. Önnur mynd sem tekin er þegar ekið er fram hjá hraðaskiltinu sýnir að slysstaðurinn sést ekki heldur þá vegna gróðursins og beygjunnar. Af öðrum myndum að dæma virðist slysstaðurinn ekki sjást fyrr en komið er að upphafi beygjunnar en þá skyggir gróðurinn ekki lengur á. Þá sýna myndir af vettvangi að dráttarvélin er komin vel yfir miðlínu akbrautarinnar en jeppabifreiðin hefur lent utan hennar. Á vettvangsuppdrætti sjást hjólför eða hemlaför jeppabifreiðarinnar og mælast þau 15,5 metrar og sjást þau fyrst við syðsta enda syðri innkeyrslunnar að Kertasmiðjunni, en virðast leita til hægri og enda við slysstaðinn við nyrsta enda syðri innkeyrslunnar.
Fyrir liggur í málinu skýrsla tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu dagsett 12. apríl 2013 sem gerð er af I rannsóknarlögreglumanni og J, sérfræðingi á líftæknisviði. Í skýrslunni segir að bifreiðin [...] sé [...], fimm dyra jeppabifreið en SY-346 sé New Holland TL100A dráttarvél. Ámoksturstæki sé á framhlið dráttarvélarinnar með teinum, ýmist nefnd heygreip eða rúllubaggagreip. Lengd teina hafi mælst 110 cm og þá hafi verið bakstykki úr stáli ofan við teinana og hafi þykkt þess mælst 4 mm. Ljóst sé af ummerkjum að teinar dráttarvélarinnar hafi gengið inn í ökumannsrými bifreiðarinnar og að bakstykkið hafi einnig gengið inn í sama rými. Leitað hafi verið að blóði á teinunum en engir blóðblettir hafi fundist á þeim. Blóðbletti hafi verið að finna í hægra aftursæti bifreiðarinnar og á innanverðri hægri afturhurð en hinn látni hafi legið með efri hluta líkamans í aftursætinu. Þá hafi verið blóðblettir í og við vinstra framsætið. Bakstykki rúllubaggagreipanna hafi verið skoðað, sérstaklega hægri framhliðin en ljóst hafi verið á ummerkjum að stykkið hefði gengið inn í ökumannsrýmið. Ekkert blóð hafi fundist við skoðun á framhlið stykkisins. Réttarkrufning hafi farið fram á líki A þann 4. apríl 2013 og hafi K framkvæmt hana og komist að þeirri niðurstöðu að banamein hans hafi verið háhraðafjöláverkar. Höfuðkúpa hans hafi verið margbrotin og hafi hinn látni verið með L-laga sár á höfði, ofan við vinstra auga. Það var niðurstaða rannsakenda að teinar dráttarvélarinnar hafi ekki átt þátt í andláti A en ekki sé hægt að útiloka að L-laga áverkinn sé eftir bakstykki dráttarvélarinnar.
Í krufningarskýrslu K kemur fram að krufningin, CT og taugameinafræðirannsókn hafi leitt í ljós mörg merki um höggáverka, aðallega á höfði og brjósti og að mestu vinstra megin. Það gefi til kynna að hitt ökutækið hafi lent á manninum vinstra megin. Áverkar hafi verið alvarlegir, t.d. rifinn heilavefur, rofin holæð, mörg rof á rishluta ósæðar og hefði hver og einn áverkanna getað leitt til dauða. Ekki sé hægt að úrskurða hver áverkanna hafi leitt til dauða, líklegt sé að þeir hafi allir stuðlað að dauða. Rof nýrnaæðar og smáblæðingar á því svæði gefi til kynna að það hafi orðið eftir andlátið, blóðstreymið hafi næstum ekkert verið. Eiturefnarannsókn hafi verið neikvæð og hafi ökumaðurinn ekki verið undir áhrifum neinna kannaðra efna.
F, prófessor í vélaverkfræði, var fenginn til þess að reikna út ætlaðan ökuhraða bifreiðarinnar [...] áður en hún hemlaði og lenti í árekstrinum. Hann athugaði eftirfarandi atriði: Hver væri ætlaður hraði bifreiðarinnar áður en hún hemlaði og lenti í árekstri við dráttarvélina; hver væri minnsti mögulegi hraði hennar og hver væri mesti mögulegi hraði hennar. Skýrsla prófessorsins er dagsett 12. desember 2013 og kemur þar fram að hraði ökutækja fyrir árekstur sé fundinn með aðferð sem sett hafi verið fram í ritum frá SAE (Society of Automotive Engineers). Forsenda útreikninga sé að hreyfiorka ökutækis sem sé með tiltekinn massa og tiltekinn hraða breytist í vinnu núningskraftsins þegar það hemli og síðan í formbreytingarorku þegar ökutæki beyglist við árekstur. Með þessum aðferðum komst prófessorinn að þeirri niðurstöðu að ætlaður hraði bifreiðarinnar hafi verið 110 km/klst., mögulegur lágmarkshraði 100 km/klst. og mögulegur hámarkshraði 118 km/klst. Þá segir að samanburður við hraðarita sem skrái hraðabreytingar eftir áreksturinn og þar til rafmagn er rofið, en þá hafi hraðamælirinn stöðvast á 62 km/klst hraða, gefi að hraðinn hafi verið 110 km/klst. og sé þá einnig tekið tillit til hemlunar, 15,5 metra fyrir áreksturinn.
E bifvélavirki framkvæmdi tæknirannsókn á báðum ökutækjunum og í skýrslu hans varðandi dráttarvélina dagsettri 10. september 2013 segir að gafflar á ámoksturstækinu og bakstykki gafflanna hafi gengið inn í jeppann. Hjólbarðinn vinstra megin á dráttarvélinni hafi verið loftlaus og felgan aflöguð. Miðað við skemmdir á búnaði vinstra framhjóls bifreiðarinnar hafi vinstri framhjól ökutækjanna skollið saman í fyrstu snertingu í árekstri. Vinstra megin hafi fremsti hluti ámoksturstækisins verið í 1110 mm hæð frá jörðu en hægra megin hafi hæðin verið 920 mm. Með mælingum á stungugötum á vinstra frambretti og vinstri framhurð bifreiðarinnar og yfirfærslu þeirra mælinga á viðkomandi staði á óskemmdu ökutæki sömu gerðar hafi komið í ljós að fyrsta snerting vinstri gaffals við frambrettið hafi verið í 1150 mm hæð frá yfirborði vegar en gaffallinn hægra megin hafi gengið í gegnum vinstri framhurðina í 1095 mm hæð frá yfirborði vegar. Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að enga ágalla hafi verið að finna sem hafi getað komið í veg fyrir eða hindrað ökumann dráttarvélarinnar í að hafa fulla stjórn á vélinni í aðdraganda slyssins. Veruleg óhreinindi hafi verið á framrúðunni að utanverðu eftir slysið en um hafi verið að ræða sambland af rafgeymasýru frá öðrum rafgeymi bifreiðarinnar sem sprungið hafi í árekstrinum og fíngerðum jarðefnum sem borist hafi á rúðuna fyrir slysið. Séu verulegar líkur á að útsýni ökumanns í gegnum framrúðuna á þurrkusvæðinu hafi verið óhindrað í aðdraganda slyssins.
Í niðurstöðu skýrslu E dagsettri sama dag varðandi bifreiðina [...] segir að verulegar líkur séu á að ökutækið hafi ekki haft fulla hemlagetu í aðdraganda slyssins. Efri og innri stimpillinn í hemladælunni vinstra megin hafi verið fastur. Báðir innri stimplarnir í hemladælunni hægra megin að framan hafi verið fastir. Stimpillinn í dælunni hægra megin að aftan hafi verið stirður. Hemladiskarnir í afturhjólum hafi báðir verið þynnri en öryggismörk segi til um og allir hemlaklossar í afturhjólum hafi verið verulega slitnir. Að teknu tilliti til þessa verði að áætla að hemlageta ökutækisins hafi verið verulega skert í aðdraganda slyssins. Séu verulegar líkur á að nauðsynlegt hafi verið að margstíga á hemlafetilinn, pumpa, til að ná fullum vökvaþrýstingi í hemladælunum í afturhjólum. Þrátt fyrir þetta ástand hemlabúnaðarins séu verulegar líkur á að hemlagetan hafi ekki verið undir þeim mörkum sem gert sé ráð fyrir í reglum.
Lögð hefur verið fram í máli þessu lögregluskýrsla dagsett 1. október sl. þar sem fram kemur að lögreglumenn hafi farið til að skoða og meta vegalengdina frá þeim stað þar sem ökumaður dráttarvélarinnar hefði fyrst haft möguleika á því að sjá bifreiðina koma þar sem henni var ekið að Brautarholti. Hafi staðsetningin verið fundin út með því að stilla upp manni á þeirri akrein sem dráttarvélinni hafi verið beygt til vinstri inn að Brautarholti og hafi lögreglubifreið verið ekið í átt að Brautarholti þar til maðurinn hafi gefið merki um að stöðva þar sem bifreiðin hafi fyrst komið í sjónlínu. Hafi vegalengdin verið mæld og hafi hún reynst vera 235,5 m. Segir í skýrslunni að til þess að fara þá vegalengd hafi það tekið 12,11 sekúndur á 70 km/klst., 7,71 sekúndu á 110 km/klst. og 7,18 sekúndur á 118 km/klst.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi ekið dráttarvélinni yfir Brautarholtið og ætlað að Kertasmiðjunni. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neina umferð á móti og því hafi hann tekið beygjuna á mjög rólegri ferð. Hann hafi verið kominn yfir miðlínu vegarins og þá fyrst áttað sig á að hin bifreiðin væri að koma og séð hana sem þúst augnabliki áður en hún hafi lent á baggagreip á gálganum á dráttarvélinni. Birtan hafi verið ágæt, vegurinn þurr og góður og ágætis veður. Hins vegar hindri blindhæð, beygja á veginum og skjólbelti útsýni þegar beygjan sé tekin þannig að ekki sjáist nema einhverja tugi metra vegarins framundan. Ákærði kvaðst ekkert hafa verið að flýta sér og ekkert í umhverfinu sem hafi haft áhrif á athygli hans. Hann kvaðst ekki átta sig á því hvort hann hefði haft eitthvert ráðrúm til þess að hemla, þetta hafi gerst svo snöggt. Ákærða fannst að á þessu augnabliki sem hann hafi séð ökumanninn hafi honum fundist eins og hann hafi verið að reisa sig upp, hann hafi ekki setið beinn í bílnum, svona út á hlið. Hann kvaðst ekki átta sig á því hvort um einhver varnarviðbrögð hefði verið að ræða eða hvort hann hefði misst eitthvað í gólfið. Ákærði taldi að hann hefði ekið með tinda baggagreiparinnar í um 40 cm hæð frá jörðu en efri brún á öllu baggagreiparkerfinu gæti hafa verið í 80 cm hæð. Ákærði kvaðst vera blindur á hægra auga og hafa verið það í 25-30 ár en hann væri með ágætis sjón á því vinstra. Hann kvað þetta aðeins trufla sig við smíðar, hann eigi erfitt með að saga hornrétt. Hann kvað þetta ekkert hafa truflað akstur sinn í þessu tilfelli. Ákærði kvaðst viss um að hann hefði gefið stefnuljós umrætt sinn. Ákærði taldi að þar sem mikið pláss væri á þessum gatnamótum hefði ökumaður bifreiðarinnar átt að hafa möguleika á því að fara afturfyrir eða framfyrir dráttarvélina. Ákærði kvað að eftir slysið hefðu verið gerðar miklar lagfæringar á þessum stað, búið væri að höggva tré, málaðar hafi verið merkingar um hámarkshraða á veginn og sett upp ljós sem sýni hve hratt sé ekið og sýni rautt ljós sé ekið yfir leyfðum hámarkshraða.
Vitnið L lögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að borist hafi tilkynning um alvarlegt slys eða árekstur við Brautarholt og hafi síðar komið tilkynning að um banaslys hefði líklega verið að ræða. Hefði verið farið á vettvang og fljótlega komið í ljós að ökumaður bifreiðarinnar væri látinn. Vitnið kvað akstursaðstæður hafa verið ágætar, þurrt veður, sólin svolítið lágt á lofti en nokkuð sterk í suðaustri. Hann kvað tré sem tilheyra tjaldsvæðinu skyggja á umferð sem komi á móti.
Vitnið M skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi veitt aðstoð á vettvangi en hann hafi ekki séð atvikið. Hann taldi að hann hefði verið kominn á vettvang u.þ.b. einni mínútu eftir slysið og þá hafi ákærði verið þar einn. Hann kvað að reynt hafi verið að blása lífi í ökumann bifreiðarinnar en því hafi verið hætt fljótlega þar sem í ljós hafi komið að hann væri látinn. Vitnið taldi að enginn hefði orðið vitni að slysinu. Vitnið kvaðst oft hafa ekið þarna um starfs síns vegna og hafi hann oft orðið var við hraðan akstur á þessum vegarkafla, en þar sé 70 km hámarkshraði.
Vitnið N skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið búinn að mæla sér mót við ákærða við Kertasmiðjuna sem vitnið kvaðst reka. Vitnið kvað að gæta hafi þurft sérstakrar varúðar við akstur á þessu svæði. Þarna séu tré sem skyggi mikið á og blindi sýn á veginn og blindhæð aðeins austar og hafi oft legið við slysi á þessum stað, bílar hafi þurft að nauðhemla. Vitnið kvað nú eitthvað búið að grisja trén en þau séu að stærstum hluta enn þarna. Vitnið gat ekki merkt að útsýnið væri betra núna af þessum sökum.
Vitnið O rannsóknarlögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi farið á vettvang og séð um að taka ljósmyndir þar. Vitnið kvað lækkaðan hámarkshraða á þessu svæði, þarna séu sundlaug og skóli, íbúðarbyggð og verslun og þá sé blint þarna vegna trjágróðurs. Þegar komið sé neðan eða ofanað sé útsýni skert vegna trjágróðurs og byrgi alveg sýn á veginn á ákveðnum kafla. Vitnið kvaðst þann 30. september sl., rétt eftir hádegi, hafa farið ásamt P sem hafi stillt sér upp á veginn á akrein þeirri sem dráttarvélin hefði ekið á móts við Kertasmiðjuna en vitnið hafi ekið í gagnstæða átt að Brautarholti. Þegar P hafi séð bílinn hafi hann stöðvað og mælt vegalengdina. Hafi hann ekið fyrst á 70 km/klst, síðan á 110 km/klst og að lokum á 118 km/klst. Hafi vegalengdin verið 235,5 metrar og hafi verið mælt hve lengi hann hafi verið að fara þessa vegalengd á áðurgreindum hraðatölum. Vitnið kvað merkingar á þessu svæði hafa verið auknar, merkið um hámarkshraða sé komið neðar á veginn og komið sé stærra skilti sem vari við aðstæðum. Vitnið veitti því ekki athygli hvort trjágróður á svæðinu væri á einhvern hátt frábrugðinn því sem var þegar slysið varð.
Vitnið I rannsóknarlögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið viðstaddur krufningu á líki A og hafi komi í ljós að engir áverkar hafi verið á honum eftir teinana þrátt fyrir að ummerki væru í bifreiðinni að þeir hefðu farið inn í hana en ekki lent á hinum látna.
Vitnið J, sérfræðingur í tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið viðstaddur réttarkrufningu á hinum látna. Hann kvað ekki hafa komið fram við rannsókn málsins hvernig höfuðáverkarnir komu til. Ekkert blóð hafi fundist á teinunum, plötunni eða bakstykkinu sem teinarnir hafi verið fastir á.
Vitnið F, prófessor í vélaverkfræði, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið beðinn um að reikna út eða meta hraðann á bifreiðinni. Hann kvaðst hafa farið á vettvang eftir slysið og skoðað þar aðstæður og það sem liggi til grundvallar útreikningum sé sú orkulosun sem verði og sé hraðinn metinn út frá henni. Um sé að ræða hemla- eða skriðför eftir bifreiðina, snúning bæði á dráttarvélinni og bifreiðinni og steyptan klossa aftan á dráttarvélinni sem hafi kastast til. Þá séu skoðaðar beyglur á ökutækjunum, bæði á gálganum og bifreiðinni. Þá sé tekið tillit til formbreytinga, en öll þessi atriði séu orkulosun sem verði og sé hún notuð til að reikna út hraðann. Sé ætlaður hraði áður en hemlun hefst talinn vera 110 km/klst., lágmarkshraði 100 km/klst og hámarkshraði 118 km/klst. Ef einhver orkulosun verði sem ekki sé tekið tillit til, t.d. ef það hefði verið hemlað sem ekki sjáist för eftir eða ef það eru einhver atriði sem ekki séu metin, þá valdi það því að að reiknaður hraði verður lægri. Vitnið taldi ólíklegt að bifreiðin hafi verið á minni hraða en 100 km/klst. og einnig ólíklegt að hraðinn hafi verið meiri en 118 km/klst. Vitnið kvað geta verið að bifreiðinni hefði verið hemlað fyrr án þess að mynda skriðför en í því tilviki hefði útreikningurinn gefið meiri hraða. Vitnið miðaði útreikninga sína við að dráttarvélin hefði verið komin það langt inn í beygjuna að hraði hennar hefði haft hverfandi áhrif. Vitnið taldi að hefði bifreiðinni verið ekið á 70 km hraða miðað við klst. væri líklegt að hún hefði ekki lent á dráttarvélinni, alla vega hefði orðið minni háttar árekstur.
Vitnið Q lögreglufulltrúi skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði farið á vettvang og stjórnað rannsókn málsins og kallað til E bíltæknisérfræðing og F prófessor til hraðaútreikninga. Þá hafi mælingamaður verið fenginn á staðinn sem hafi notað GPS tæki til þess að mælingin yrði sem nákvæmust. Vitnið kvað það hafa vakið athygli sína að ballest aftan á dráttarvélinni hefði hrokkið af. Hefði F verið látinn vita af því og hefði hann tekið það inn í útreikninga sína. Vitnið kvað að ákveðið hefði verið að kanna ekkert með hagi hins látna, hvert hann hefði verið að fara eða andlegt ástand hans þar sem hann taldi það ekki myndu varpa ljósi á þann hraða sem hann hefði verið á.
Vitnið G skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hefði verið kallaður á vettvang til þess að mæla hann með GPS tæki og teikna.
Vitnið E bifvélavirkjameistari skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið kallaður á vettvang og hafi hann rannsakað bæði ökutækin og búnað þeirra og safnað saman þeim gögnum sem skipt gætu máli. Hann hafi síðan rannsakað ökutækin á Selfossi. Mæld hafi verið hæð gafflanna og ummerki á bifreiðinni, m.a. á frambrettinu, hafi sýnt fyrstu snertingu gafflanna við hana. Hafi sést að gaffall hefði farið inn í frambrettið vinstra megin. Vitnið taldi að framendi gafflanna hefði vísað aðeins upp en hann gat ekki tekið undir að þeir hefðu verið í 30-40 cm hæð frá jörðu, þeir hefðu verið í liðlega eins metra hæð. Vitnið kvað bakstykki gafflanna hafa tekið öryggisbeltið í sundur. Hann kvaðst ekki hafa fundið neitt athugavert við ástand dráttarvélarinnar, óhreinindi hafi verið á framrúðunni en skýringin hafi verið sú að rafgeymir bifreiðarinnar hafi sprungið og geymasýran dreifst mjög víða, m.a. á framrúðuna. Hann gat ekki séð nein merki þess að neitt hafi hindrað útsýn ökumanns dráttarvélarinnar út um framrúðuna. Hann kvað erfitt að áætla hversu langt inn í beygjuna dráttarvélin hafi verið komin þegar áreksturinn varð, en hún hafi að minnsta kosti verið komin með ámoksturstækin inn á þá akrein sem bifreiðin hafi verið á þegar ökutækin skullu saman því bifreiðin hafi leitað aðeins til hliðar, þ.e. til hægri miðað við akstursstefnu hennar. Vitnið kvað 70 km hámarkshraða þarna á veginum vera hálfgert glapræði miðað við hve stuttan tíma maður hefði ef maður ætlaði að beygja inn á bílastæðið. Hafi svo þunglamalegt tæki eins og dráttarvélin afskaplega lítið svigrúm til þess að beygja vegna þess hve þetta sé þröngt og blint. Vitnið kvaðst ekkert hafa fundið að bifreiðinni nema að hemlarnir hafi verið talsvert slitnir og hemladiskarnir að framan verið komnir undir svokölluð öryggismörk, en þau séu sett til þess að diskarnir verði endurnýjaðir. Geti heitur hemlabúnaður valdið því að ökutækið missi alveg hemlana. Þá hafi klossarnir í afturhjólum verið orðnir dálítið þunnir en það þýði að þeir séu enn viðkvæmari fyrir hitamyndun. Þá hafi hemlafetillinn tekið frekar seint í, hluti af stimplum, þessum hreyfanlega hluta hemladælanna hafi verið fastur og hafi þetta skekkt hemlagetuna. Hafi þurft að pumpa, eða tví- eða þrístíga á hemlapedalann til þess að hann komi ofar og taki fyrr. Vitnið taldi að þrátt fyrir þetta ástand hemlabúnaðar séu verulegar líkur á að hemlagetan hafi ekki verið undir þeim mörkum sem gert sé ráð fyrir í reglum og taldi hann líklegt að bifreiðin hefði fengið athugasemdalausa skoðun þrátt fyrir þetta ástand hemlanna. Vitnið taldi að þessi skerta hemlageta hefði lengt þá vegalengd sem bifreiðin hefði farið eftir að hún byrjaði að hemla.
Vitnið R skýrði svo frá fyrir dómi að hinn látni hefði verið á leið til hans í [...] og hafi hann hringt í vitnið skömmu fyrir slysið og sagt að hann væri á leiðinni og myndi verða kominn eftir 5-10 mínútur. Hann minnti að hann hefði talað um að hann væri að koma að Brautarholti, en þaðan að heimili vitnisins væru rúmir 8 kílómetrar. Hann kvað erindið ekki hafa verið brýnt, ekkert sem bráðlegið hafi á.
Vitnið S, deildarstjóri vinnuvéladeildar Vinnueftirlits ríkisins, skýrði svo frá fyrir dómi að lögð sé áhersla á það á vinnuvélanámskeiðum að aka með ámoksturstæki í sem lægstri stöðu frá jörðu.
K réttarmeinafræðingur kom fyrir dóm og staðfesti krufningarskýrslu sína. Hún kvað líkið hafa verið með fjölmarga áverka á líkamanum. m.a. á höfði, rifjum, hrygg, hjarta og lungum sem samrýmdust því að eitthvað hefði skollið með miklu afli vinstra megin á líkamann. Hefði nánast hver einasti áverki dugað til þess að leiða til dauða mannsins en mikinn kraft hefði þurft til þess að valda áverkunum á höfðinu og höfuðkúpunni.
Niðurstaða.
Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa brotið gegn 215. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 4. gr. og 6. mgr. 25. gr. umferðarlaga með því að aka dráttarvél með ámoksturstækjum með áföstum baggaspjótum í 93 cm hæð frá vegi án nægilegrar aðgæslu og varúðar til vinstri inn á bifreiðastæði við Brautarholt, þvert í veg fyrir bifreið sem kom aðvífandi úr gagnstæðri akstursátt þannig að mjög harður árekstur varð með ökutækjunum með þeim afleiðingum að ökumaður bifreiðarinnar lést. Ákærði er einn til frásagnar um það sem gerðist en fyrir liggja ljósmyndir og teikningar af vettvangi og ítarlegar rannsóknir á ökutækjunum og þá liggur fyrir mat F, prófessors í vélaverkfræði, um það á hvaða hraða líklegast sé að bifreiðinni hafi verið ekið og er ljóst að henni var ekið langt yfir leyfðum hámarkshraða sem í þessu tilviki var 70 km/klst. Telur hann líklegast að bifreiðinni hafi verið ekið á 110 km hraða miðað við klst. Þá liggur fyrir það álit E bifvélavirkjameistara að ástand hemlabúnaðar bifreiðarinnar hafi verið með þeim hætti að hemlageta hennar var skert og að mati vitnisins F er mögulegt að bifreiðinni hefði verið hemlað fyrr án þess að mynda skriðför en í því tilviki hefði útreikningurinn gefið meiri hraða.
Ákærða er m.a. gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga en með vísan til dóma Hæstaréttar í málum nr. 33/2012, 104/2013 og 625/2013 verður að telja það lagaákvæði svo almennt orðað að það geti ekki talist viðhlítandi refsiheimild, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Kemur því ekki til álita að refsa ákærða fyrir hugsanlegt brot á því ákvæði. Þá er engum sérreglum til að dreifa um það hvernig haga skuli akstri dráttarvéla með ámoksturstækjum með áföstum baggaspjótum og hefur það því enga þýðingu við úrlausn máls þessa í hvaða hæð frá vegi baggaspjótin voru þegar ákærði ók dráttarvélinni umrætt sinn. Kemur þá til skoðunar hvort ákærði hafi með akstri sínum brotið gegn 6. mgr. 25. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga en samkvæmt því ákvæði skal ökumaður, þegar hann ætlar að beygja á vegamótum, veita forgang þeirri umferð sem á móti kemur, svo og gangandi vegfarendum og hjólreiðamönnum sem fara þvert yfir akbraut þá, sem hann ætlar að fara á. Sama á við um akstur yfir eða af akbraut þar sem eigi eru vegamót.
Ákærði hefur lýst því við meðferð málsins að hann hafi ekki orðið var við neina umferð á móti er hann hugðist beygja til vinstri við Kertasmiðjuna. Hann hafi verið kominn yfir miðlínu vegarins þegar hann hafi fyrst áttað sig á því að bifreiðin væri að koma og hefði hann séð hana sem þúst augnabliki áður en hún lenti á dráttarvélinni. Samkvæmt ljósmyndum sem liggja fyrir í málinu hindrar blindhæð, beygja á veginum og hávaxinn gróður útsýni þegar beygjan er tekin til vinstri að Kertasmiðjunni og sést ekki nema hluti vegarins í suðurátt framundan. Af myndum sem sýna akstursstefnu jeppabifreiðarinnar má ráða að skömmu áður en komið er að skilti sem sýnir hámarkshraðann 70 km/klst. sést slysstaðurinn við Kertasmiðjuna ekki vegna beygjunnar til hægri og hins hávaxna gróðurs. Af öðrum myndum að dæma virðist slysstaðurinn ekki sjást fyrr en komið er að upphafi beygjunnar en þá skyggir gróðurinn ekki lengur á. Þá sýna myndir af vettvangi að dráttarvélin er komin vel yfir miðlínu akbrautarinnar þegar jeppabifreiðin lendir á henni og hafnar hún utan vegar. Dómarinn skoðaði aðstæður á vettvangi ásamt málflytjendum en fram hefur komið að gróðurinn hefur verið grisjaður eftir slysið. Af þeim sökum verður ekki byggt á vettvangsrannsókn sem fram fór þann 30. september sl.
Þegar virtar eru þær aðstæður á vettvangi sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan, svo og framburður ákærða, sem ekki hefur verið hnekkt, verður við það að miða að í þann mund sem ákærði beygði til vinstri í átt að Kertasmiðjunni hafi hann gengið úr skugga um það, eins og honum var frekast unnt og aðstæður leyfðu, að umferð á móti kæmi ekki í veg fyrir að hann gæti beygt og jafnframt verður að telja sannað að ákærði hafi ekki séð til jeppabifreiðarinnar fyrr en hann var kominn vel yfir miðlínu vegarins og miðað við þann hraða sem var á henni og ástand hemlabúnaðar hennar hafði ákærði engin tök á því að afstýra árekstrinum. Er því ósannað að ákærði hafi með akstri sínum gerst sekur um brot gegn 6. mgr. 25. gr. umferðarlaga. Með sömu rökum er því einnig ósannað að ákærði hafi með akstri sínum valdið mannsbana af gáleysi og verður hann því einnig sýknaður af ákæru fyrir brot gegn 215. gr. almennra hegningarlaga.
Með vísan til 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 ber að vísa öllum bótakröfum frá dómi.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 ber að fella allan sakarkostnað á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., 700.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 6.669 krónur.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, Guðmundur Sigurðsson, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Bótakröfum Lárusar Blöndal hrl., f.h. B, C og D er vísað frá dómi.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., 700.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 6.669 krónur.