Hæstiréttur íslands

Mál nr. 441/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ákæra
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


       

Fimmtudaginn 30. ágúst 2007

Nr. 441/2007.

Ákæruvaldið

(Gunnar Örn Jónsson, fulltrúi)

gegn

X

(Unnar Steinn Bjarndal hdl.)

 

Kærumál. Ákæra. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.

X var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 57. gr., sbr. 59. gr. vegalaga nr. 45/1994, með því að hafa grafið í sundur veg með þeim afleiðingum að engin leið var að komast eftir honum og samningsbundinn umferðarréttur eiganda landspildu er stóð innar við veginn skertist. Vísað var frá þeim þætti ákærunnar sem byggði á 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga þar sem skilyrði 4. mgr. sama ákvæðis, um að sá sem misgert var við hafi krafist málshöfðunar, var ekki uppfyllt. Lagt var fyrir héraðsdóm að taka til efnismeðferðar þann hluta ákærunnar sem varðaði brot gegn 1. mgr. 57. gr., sbr. 59. gr. vegalaga.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. ágúst 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 16. ágúst 2007, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hann krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I.

Eins og nánar er lýst í héraðsdómi er í málinu ákært fyrir brot gegn 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 59. gr. vegalaga nr. 45/1994, þar sem ákærða var gefið að sök að hafa látið grafa í sundur með skurði Rimamóaveg á landspildu milli Þórisstaða og Reykjaness í Grímsnes- og Grafningshreppi með þeim afleiðingum að engin leið hafi verið að komast eftir veginum og samningsbundinn umferðarréttur eiganda landspildu er stóð innar við veginn hafi skerst.

 

II.

A og B afsöluðu jörðinni Þórisstöðum II, Grímsneshreppi, til C 7. júlí 1999. Undanskilið sölunni voru meðal annars „a.m.k. 65 sumarhúsalóðir ásamt vegum sem eru fjórir, nánar tiltekið allar lóðir og vegir innan svæðis sem nú er í skipulagsvinnslu.” Í kaupsamningi 24. apríl 1999 á milli C, seljanda, og D, kæranda í málinu, E og F, kaupenda, segir meðal annars að kaupendur eigi rétt til umferðar eftir vegi þeim sem liggi frá þjóðvegi (Biskupstungnabraut nr. 35) að landspildunni, í gegnum hana að austanverðu og inn á land Reykjaness. Afsal var gefið út 4. september 1999. Umferðarréttar kaupenda um Rimamóaveg var ekki getið í afsalinu. Hins vegar segir að eigninni sé afsalað „samkvæmt kaupsamningi aðila, dags. 24. apríl 1999”.

Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða að ekki sé unnt af gögnum málsins að ráða með óvefengjanlegum hætti að D, kærandi í máli þessu, eigi eignar- eða lögbundinn umferðarrétt á umræddum vegi. Vegna réttaróvissu um eignarhald á veginum er því ekki uppfyllt það skilyrði 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga, að sá sem misgert var við hafi kært þann verknað sem ákært er fyrir. Verður því að vísa þeim þætti ákærunnar sem byggir á 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga frá héraðsdómi.

III.

Vegur sá sem ákæran lýtur að liggur frá þjóðvegi (Biskupstungnabraut nr. 35), um sumarhúsabyggð í Rimamóum og að landspildu D. Upplýst er í málinu að sumarhúsaeigendur í Rimamóum auk D nota veginn og er hann eina leið hans að landspildu sinni. Í lögregluskýrslu 12. nóvember 2005 kemur fram að A fyrrum eigandi Þórisstaða hafi lagt Rimamóaveg. Eftir að hann hóf vegagerðina hafi menn frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur komið að máli við hann og falast eftir því að fá að taka þátt í vegagerðinni. Er því ljóst að um er að ræða einkaveg í skilningi 9. gr. vegalaga.

Meistarafélag byggingarmanna á Suðurnesjum afsalaði ákærða, G og H, 9. maí 1989, sumarbústað í landi Þórisstaða, Grímsneshreppi, ásamt „öllu er sumarbústaðnum fylgir og fylgja ber, þar með talin tilheyrandi lóðarréttindi”. Ekki er í afsalinu getið um eignar- eða umferðarrétt að veginum. Í málinu liggur frammi óútfyllt eyðublað að kaupsamningi þar sem seljendur, A bóndi og B húsfrú Þórisstöðum, skuldbinda sig til að selja lóð undir sumarbústað úr landinu. Í skjalinu segir að seljendur skuli sjá um vegalagningu meðfram lóðarmörkum, en kaupandi um viðhald hans að sínum hluta. Bendir þetta ákvæði til þess að A og B hafi litið svo á að eignarréttur að hinum umrædda vegi yrði áfram í þeirra höndum. Engin frekari gögn liggja frammi í málinu sem staðfesta eignarrétt ákærða að Rimamóavegi.

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. vegalaga má enginn skemma eða aðhafast neitt sem leitt getur til skemmda á vegi eða mannvirki sem til vegarins telst. Kemur það til skoðunar við efnislega úrlausn málsins hvort Rimamóavegur fellur undir hugtakið vegur í skilningi ákvæðisins, sbr. 1. gr. vegalaga, og því hvort ætluð háttsemi ákærða falli undir lögin.

Samkvæmt 60. gr. vegalaga skal fara með brot gegn lögunum að hætti opinberra mála. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 19/1991 hafa lögreglustjórar ákæruvald vegna brota á sérrefsilögum. Það er ekki skilyrði málshöfðunar á grundvelli vegalaga að kæra liggi fyrir í málinu, enda engin krafa gerð um slíkt. Þá er enga þá annmarka að finna á ákærunni sem valdið gæti frávísun.

Með vísan til framanritaðs verður að leggja fyrir héraðsdóm að taka þann hluta ákærunnar sem varðar brot gegn 1. mgr. 57. gr. vegalaga, sbr. 1. mgr. 59. gr. laganna, til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

          Máli þessu er vísað frá héraðsdómi að því er varðar þann hluta ákærunnar sem fjallar um eignaspjöll samkvæmt 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

          Hinn kærði úrskurður er að öðru leyti felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því er varðar þann hluta ákærunnar sem fjallar um brot gegn 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 59. gr. vegalaga nr. 45/1994.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 16. ágúst 2007.

Mál þetta, sem þingfest var 14. júní sl. og tekið til úrskurðar 9. ágúst sl. er höfðað með ákæru sýslumannsins á Selfossi útgefinni 23. maí 2007 á hendur X, kt. [...], [...],

"fyrir eignaspjöll og brot á vegalögum

a. með því að hafa í lok október 2005 fengið I kt. [...] verktaka og gröfustjóra til að grafa í sundur með skurði "Rimamóaveg" á landspildu milli Þórisstaða og Reykjaness í Grímsnes- og Grafningshreppi og reka niður 3 járnrör ofan í skurðinn, með þeim afleiðingum að engin leið var að komast eftir veginum og samningsbundinn umferðarréttur eiganda landspildu er stóð innar við veginn skertist.

b.  með því að hafa 8. nóvember 2005 fengið sama verktaka og gröfumann til að grafa tvo skurði, 40 cm djúpa og 140 cm breiða og setja uppgröft úr skurðunum á veg þann er frá greinir í ákærulið a., við skurðbarmanna, með sömu afleiðingum og frá greinir í ákærulið a. Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19.1940, sbr. lög nr. 30. 1998 og lög nr. 82, 1998 og 1. mgr. 57. gr. sbr. 1. mgr. 59. gr. vegalaga nr. 45, 1994. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar."

                Ákærði krafðist þess þess við þingfestingu málsins að málinu yrði vísað frá dómi og fór munnlegur málflutningur fram þann 9. ágúst s.l. um þá kröfu.

Málavextir:

Þann 27. oktbóber 2005 hafði D, kt. [...], [...], Kópavogi, samband við lögregluna á Selfossi og greindi frá því að búið væri að grafa skurð þvert yfir veg sem væri á landspildu á milli Þórisstaða og Reykjaness en vegur þessi væri á sumarbústaðalandi sem væri merkt Rimamóar. Þá kvað D að búið væri að reka niður þrjú járnrör yfir veginn ofan í skurðinum. Kvaðst D gruna að J, sem þarna ætti bústað, hefði gert þetta. Þá hafði D aftur samband við lögregluna á Selfossi þann 10. nóvember 2005 og greindi frá því að búið væri að grafa tvo skurði yfir veg sem lægi um sumarhúsabyggð í Rimamóum og lands hans og fleiri, Ásgarðs á Þórisstöðum í Grímsnesi. Tjáði D lögreglunni að þess væri getið í 5. gr. kaupsamnings aðila um spildu þá er hann ætti, að hann ætti rétt til umferðar eftir vegi þeim sem lægi frá þjóðvegi að landspildunni, í gegnum hana að austanverður og inn á land Reykjaness. Þá lýsti D því yfir hjá lögreglu að hann gruni félag sumarbústaðaeigenda í Rimamóum að standa að lokun vegarins og þar með aðgengi hans að landi sínu.

                Með kaupsamningi dagsettum 24. apríl 1999 festu D, E og F kaup á spildu úr landi jarðarinnar Þórisstaða í Grímsnes- og Grafningshreppi, Árnessýslu sem samkvæmt mælingur var um 15,47 hektarar að stærð. Seljandi spildunnar var C, kt. [...], Þórisstöðum, Grímsnes- og Grafningshreppi. Eru mörk spildunnar sögð afmörkuðu á loftljósmynd og lína hennar skýrð á milli punkta merktum frá A til og með F. Í 5. grein kaupsamningisins segir að kaupendur eigi rétt til umferðar eftir vegi þeim sem liggi frá þjóðvegi (Biskupstungnabraut nr. 35) að landspildunni, í gegnum hana að austanverðu og inn á land Reykjaness. Undir kaupsamninginn rita seljandi og kaupendur ásamt Jóni H. Bjarnasyni sem á þeim tímapunkti var þinglýstur eigandi spildunnar. Jón H. Bjarnason undirritaði síðan afsal til C þann 7. júlí 1999. Í því afsali er hið afsalaða sagt vera landspilda úr jörðinni Þórisstöðum II, Grímsneshreppi ásamt öllu því sem eigninni fylgi og fylgja ber. Nánar tiltekið sé um að ræða spildu úr Tjarnholti á milli Biskupstungnabrautar og skurðar og heimreiðar að Þórisstöðum og að skipulögðu sumarhúsasvæði og spilda norðan Biskupstungnabrautar sem markist af Biskupstungnabraut að sunnan og mörkum Minna-Mosfells að austan, Mosfellsgils að norðan og skurði á móts við heimreið að Þórisstöðum samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti dagsettum 29. júlí 1998. Segir svo að spildu þessari hafi verið haldið eftir við sölu jarðarinnar Þórisstaða samkvæmt kaupsamningi dagsettum 29. júlí 1998. Engu er getið um umferðarrétt í afsali þessu. A, eignaðist jörðina Þórisstaði með húsum, girðingum og öðrum mannvirkjum með afsali þann 31. ágúst 1975.  Er í því afsali tekið fram að undanskilið sé í kaupunum, íbúðarhús það sem seljandi búi í og tveir hektarar lands í kringum það og mest sunnan við það. Ennfremur sé undanskildin fimmtán hektara landspilda úr landi jarðarinnar sem liggi að landi Reykjaness og hafi henni verið afsalaði til Íþróttabandalags Reykjavíkur og er vísað til þess afsals með nánari skilgreiningar á legu hennar. Í afsali þessu er engu getið um neins konar umferðarrétt. Kaupendur  fengu síðan afsal fyrir spildunni þann 4. september 1999. Í afsalinu eru mörk spildunnar tilgreind nákvæmlega eins og í kaupsamningi en engu getið um umferðarrétt. Var afsalinu þinglýst þann 14. september 1999. Þá liggur í gögnum málsins afrit af afsali dagsettu 9. maí 1989 þar sem Meistarafélag byggingarmanna á Suðurnesjum seldi X, G og H, sumarbústað í landi Þórisstaða, Grímsneshreppi. Kemur fram í afsalinu að kaupendur samþykki aðild sína að félagi sumarbústaðaeigenda í Þórisstaðalandi. Að lokum er að finna í gögnum málsins afrit af afsali  dagsettu 24. júlí 1975 þar sem Ingvar Þorkelsson, Þórisstöðum, Grímsneshreppi selur Íþróttabandalagi Reykjavíkur fimmtán hektara landsspildu úr landi Þórisstaða í Grímsneshreppi og liggi landsspilan að landi Reykjaness sem sé eign kaupanda. Í því afsali er tekið fram að ef Íþróttabandalagið láti leggja akfæran veg um land sitt að Brúará, þá sé eiganda og ábúanda Þórisstaða frjáls afnot af veginum án endurgjalds.

Kærandi máls þessa, D, fékk afsal fyrir spildunni ásamt öðrum kaupendum, þann 4. september 1999. Er þar engu getið um umferðarrétt en vísað til kaupsamnings aðila dagsettum 24. apríl 1999 þar sem getið er um umferðarrétt eftir vegi þeim sem liggur frá þjóðvegi (Biskupstungnaraut nr. 35) að landspildunni, í gegnum hana að austanverðu og inn á land Reykjaness.

Í gögnum málsins liggja fyrir miklar bréfaskriftir milli D, félags sumarhúsaeigenda í landi Þórisstaða, lögreglustjórans í Árnessýslu og eigenda sumarbústaða við Rimamóa frá árinu 2000 til ársins 2006 þar sem deilt er um umferðarrétt D um umþrættan veg. Þá liggur fyrir í gögnum málsins yfirlýsing frá Jóni Hauki Bjarnasyni dagsett 1. september 2006 þess efnis að undirritun hans á kaupsamning milli C, D, E og F, um sölu á spildu úr landi Þórisstaða,  hafi verið í þeim tilgangi að heimila C að selja umrædda spildu þar sem C hafði ekki fengið afsal fyrir spildunni. Samþykki hans fyrir sölunni hafi ekki náð til efnisinnihalds 2. til 9. gr. kaupsamningsins en umþrættur umferðarréttur er tilgreindur í 5. gr. samningsins.  

Málsástæður og lagarök ákærða.

Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins. Kvaðst hann vera einn eigenda umrædds vegar ásamt öðrum sumarhúsaeigendum á svæðinu. Kvað hann atvikalýsingu nokkuð rétta að því leyti að hann hefði látið grafa umrædda skurði en það hafi verið gert með samþykki annarra eigenda vegarins og í þeim tilgangi að setja niður hlið á veginn.

                Verjandi ákærða byggir á því að um einkaréttarlegar deilur sé að ræða varðandi umferðarrétt um Rimaveg og snúist um það hvort kærandi hafi eignast umferðarrétt eða ekki. Vísar verjandi til þess að kærandi hafi ekki eignast umferðarrétt um umþrættan veg en seljandi eignarinnar til D, C hafi ekki haft heimild til að selja umferðarrétt sem hún ekki hafði öðlast sjálf. Því telur verjandi ákærða að þar sem kærandinn í máli þessu, D eigi ekki skýran umferðarrétt geti hann ekki átt aðild að máli þessu með vísan til 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Verjandi ákærða byggir einnig á því að samkvæmt 1. mgr. 257. gr. hegningarlaga verði einhver að skemma eigur annars manns þannig að eignarspjöllin þurfi að bitna á ákveðnum tjónþola. Í dag verði að telja ákærða tjónþola en hann hafi verið að lagfæra veg sem hann eigi í sameign með öðrum sumarhúsaeigendum á svæðinu. Þá telur verjandi ákærða að 57. og 59. gr. vegalaga ekki eiga við í þessu tilviki þar sem umþrættur vegur sé í einkaeign. Engin refsikrafa sé af hálfu Vegagerðarinnar og því 4. mgr. 257. gr. hegningarlaga ekki uppfyllt.

                Þá kveður verjandi ákærða að rangur maður sé ákærður í máli þessu. I hafi framið brotið og því gæti ákærði lengst af verið samverkamaður samanber 22. gr. hegningarlaga. Þá byggir hann á að 27. gr. hegningarlaga sé ekki fullnægt þar sem ljóst sé að um tvo verknaðaraðila sé að ræða en einungis annar þeirra ákærður. Þá telur verjandi ákærða helst geta orðið hlutdeildarmann.

                Þá byggir verjandi á því að ákæran sé óskýr og ruglingsleg og uppfylli því ekki c lið 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð opinberra mála. Kveður hann að ekki sé ljóst hvert hið raunverulega brot ákærða sé, hvort það felist í ákærunni að hafa haft samband við I eða að hafa framið brotið. Að lokum telur verjandi að 31. gr. laga um meðferð opinberra mála hafi ekki verið uppfyllt við rannsókn málsins en svo virðist sem ákæruvaldið hafi ekki kynnt sér gögn málsins með hliðsjón af sekt eða sýknu ákærða. Fyrir liggi í málinu gögn sem upplýsa um að kærandi eigi í deilum við eigendur sumarbústaða við Rimamóa og því sé uppi slíkur vafi um aðild kæranda að refsimáli að borið hafi að fella málið niður.

                Málsástæður og lagasök sækjanda:

                Ákæruvaldið krefst þess að frávísunarkröfu verjanda verði hafnað og málið tekið til efnismeðferðar.

                Byggir ákæruvaldið á að lögreglustjóri hafi metið gögn málsins svo að þau dygðu til útgáfu ákæru.  Þá skipti engu máli hvort aðilar deili um umferðarrétt eða ekki en þær málsástæður beri verjanda að hafa uppi við aðalmeðferð málsins þegar tekist verði efnislega á um málið. Telur ákæruvaldið að skilyrði 257. gr. almennra hegningarlaga séu uppfyllt en hægt sé að skemma eigur á ýmsan hátt, gerendur þurfi ekki að mæta í eigin persónu til skemmdarverkanna. Eingöngu sá sem hafði huglægan ásetning til að brjóta af sér sé gerandinn. Því geti I í þessu máli ekki verið samverkamaður. Þá kveður ákæruvaldið það hafa verið mat lögreglustjóra að kærandi í máli þessu eigi umferðarrétt og sé því réttur aðili að kæru í máli þessu. Þá kveður hann brot á vegalögum sæta opinberri rannsókn og þurfi refsikrafa ekki að koma sérstaklega þar fram. Umþrættur vegur sé vegur í skilningi umferðar- og vegalaga.

                Niðurstöður.

Í þessu þætti málsins er tekist á um hvort skilyrði 1. sbr. 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 séu uppfyllt. Eins og rakið er í kaflanum um málavexti er ágreiningur um það hvort D, kærandi í máli þessu eigi eignar- eða umferðarrétt um umþrættan veg og hvort aðild hans að málinu uppfylli skilyrði 4. mgr. 257. gr. Í 4. mgr. 257. gr.  segir að mál út af brotum, sem um getur í 1. og 3. mgr. skuli aðeins höfða, að sá krefjist sem misgert er við. Af gögnum málsins er ekki hægt að ráða að D, kærandi í máli þessu, eigi skýlausan eignar- eða lögbundinn umferðarrétt á vegi þeim sem ákært er fyrir eignaspjöll á. Verður sá vafi sem uppi er í máli þessu um eignar- eða umráðarétt kæranda yfir vegi þeim sem ákært er fyrir að grafa í sundur, metinn ákærða í vil. Er því 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga, um að sá sem misgert var við hafi kært þann verknað sem ákært er fyrir í umrætt sinn, ekki uppfyllt.

Þá kveður sækjandi ákærða hafa brotið gegn 57. sbr. 1. mgr. 59. gr. vegalaga nr. 45/1994. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en um einkaveg sé að ræða sem deilan snýst um.  Í 9. gr. laganna segir að almennir vegir séu þeir vegir sem ekki teljast þjóðvegir en eru í eigu opinberra aðila og eru ætlaðir almenningi til frjálsrar umferðar. Einkavegir séu þeir vegir sem ekki teljast þjóðvegir og eru kostaðir af einstaklingum, fyrirtækjum eða opinberum aðilum. Þá segir í 10. gr. laganna að eigendur almennra vega og einkavega hafi veghald þeirra. Á einkavegum, sem opnir séu fyrir almennri umferð, geti viðkomandi lögreglustjóri skyldað eiganda að gera úrbætur og stöðvað vegagerð eða bannað umferð um veginn þar til bót hefur verið á ráðin ef hann telji veghaldi svo áfátt að hætta geti stafað af. Af þessu má ráða að séu skemmdir unnar á einkavegi sé það veghaldarinn sem leggi fram kæru vegna þeirra. Slík kæra liggur ekki fyrir í máli þessu en ekki liggur annað fyrir en að umþrættur vegur sé einkavegur í skilningi vega- og umferðarlaga. Verður því að líta svo á að veghaldari verði að kæra skemmdir á veginum til að ákært verði fyrir þann verknað. Því er að þessu leyti skilyrði 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga ekki uppfyllt.

Þá kemur til úrlausnar hvort ákæran uppfylli skilyrði c-liðar 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð opinberra mála. Í ákæru segir í a-lið: "með því að hafa í lok október 2005 fengið I, kt. [...] verktaka og gröfustjóra til að grafa í sundur með skurði "Rimamóaveg" á landspildu milli Þórisstaða og Reykjaness í Grímsnes-og Grafningshreppi og reka niður 3 járnrör ofan í skurðinn, með þeim afleiðingum að engin leið var að komast eftir veginum og samningsbundinn umferðarréttur eiganda landspildu er stóð innar við veginn skertist."  Ekki er getið um það í ákæru hver eigandinn sem í ákæru greinir sé né að hvaða landspildu var ekki hægt að komast að. Ekkert liggur fyrir í málinu hvort fleiri en ein landspilda sé innar við veginn eða ekki. Í b. lið ákærunnar er vísað til sama vegar og í ákærulið a. svo og vísað til sömu afleiðinga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið um hina einstöku liði ákærunnar þykir hún í heild ónákvæm og óskýr. Uppfyllir ákæran þannig ekki áskilnað c. liðar 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, um glögga skilgreiningu á sakarefni.

 Telja verður slíka anmarka svo á ákæru í máli þessu, sem ekki verður úr bætt undir rekstri málsins, að dómur verði ekki kveðinn upp um efni þess. Ber því að vísa málinu frá dómi.

Þá eru skilyrði 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ekki uppfyllt og ber einnig að vísa málinu frá dómi af þeim sökum.

Allur sakarkostnaður í máli þessu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Unnars Steins Bjarndals Björnssonar, héraðsdómslögmanns, 110.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Unnars Steins Bjarndals Björnssonar, héraðsdómslögmanns, 110.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.