Hæstiréttur íslands

Mál nr. 398/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


Miðvikudaginn 26

 

Miðvikudaginn 26. júlí 2006.

Nr. 398/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

Ekki var talið að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991væru uppfyllt þannig að A yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júlí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júlí 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. september 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Af gögnum málsins verður ekki ráðið, að sterkur grunur leiki á, að brot varnaraðila sé þess eðlis að fyrir hendi séu skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að honum verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júlí 2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi, frá lokum þess gæsluvarðhalds sem hann nú sætir, þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 1. september 2006, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglunnar segir að laugardagskvöldið 15. júlí sl. hafi verið framið rán í verslun A. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum lögreglu hafi ránið verið framið af manni vopnuðum hnífi, sem hafi dulið andlit sitt með trefli fyrir nefi og munni, sólgleraugum og hettu.  Maðurinn hafi otað hnífi að afgreiðslustúlku verslunarinnar með ógnandi hætti og hafa sagt henni að setja peninga í plastpoka sem hann rétti henni.  Eftir að stúlkan hafði sett peninga í pokann hélt maðurinn á brott.

Kærði hafi játað að hafa framið rán þetta en viðurkenni þó ekki að hafa gert það vopnaður hnífi.  Með hliðsjón af játningu kærða og öðrum gögnum málins liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið rán sl. laugardagskvöld, þar sem vopn var notað.  Samkvæmt framburði vitna hafi kærði hulið andlit sitt við ránið og beitt hnífi sem hann hafi notað í því skyni að ógna afgreiðslustúlku verslunarinnar.  Megi því augljóst vera að brotavilji hans hafi verið sterkur og einbeittur.  Á myndbandsupptöku úr öryggismyndavélakerfi verslunarinnar sjáist vel hversu ógnandi kærði var er hann framdi ránið.

Þeim sem ógnað sé með hnífi vegna ráns telji eðlilega lífi sínu og limum vera ógnað og því megi gera ráð fyrir að hann upplifi atburðinn sem sterkt og mikið áfall.  Þannig hafi því og verið farið í máli þessu hjá afgreiðslustúlku þeirri sem hafi orðið fyrir því að verða í miðri þeirri atburðarrás sem að framan sé lýst og liggi nú fyrir vottorð slysa- og bráðasviðs Landspítala-háskólasjúkrahúss þess efnis.

Rán sé með alvarlegustu brotum í íslenskri refsilöggjöf og geti varðað allt að 10 ára fangelsi og hafi mjög mikil hætta verið samfara því allt að 16 ára fangelsi, sbr. ákvæði 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Rán sé ekki aðeins með alvarlegustu brotum í íslenskri refsilöggjöf heldur megi og ætla að svo sé einnig í réttarvitund almennings, einkum þó þegar um vopnað rán sé að ræða.

Kærði, sem sé ungur að árum, hafi áður verið sakfelldur fyrir rán, þar sem hnífi var beitt.  En með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. maí 2004 hafi hann hlotið 7 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár fyrir slíkt rán.  Ljóst sé að kærði hafi nú rofið skilorð þess dóms.  Þá hafi hann og hlotið skilorðsbundna dóma fyrir þjófnaði, önnur brot sem varði fjárréttindi og fíkniefnabrot.  Hann hafi nýlega verið ákærður fyrir fíkniefnabrot og sæti einnig rannsókn hjá embættinu vegna meints brots gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í íslensku samfélagi hafi það aukist mjög á síðustu árum að rán séu framin í verslunum, þar sem afgreiðslufólki og viðskiptavinum sé ógnað með vopnum. Samfélagið sé ekki reiðubúið að líða slík rán og geri almenningur þá kröfu að tekið sé af festu á slíkum málum og að reynt verði að sporna gegn þeim eins og kostur sé.  Lögregla telji að sé maður, sem framið hafi vopnað rán tvívegis og sýni sterkan brotavilja, látinn laus eftir að rannsókn slíks máls ljúki og áður en dómur fellur, muni það valda hneykslun í samfélaginu og særa réttarvitund almennings. Um þessi sjónarmið vísist til rits Evu Smith, Straffeprocess, 1999.  Einnig sé vísað til dóma Hæstaréttar nr. 494/2003 og 377/2004 þar sem sakborningum var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 vegna meints brots gegn 252. gr. almennra hegningarlaga.  Þyki staða kærða vera sambærileg við stöðu sakborninga í tilvísuðum málum.

Sakarefni málsins sé talið varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu geti varðað allt að 10 ára fangelsi og hafi mjög mikil hætta verið samfara því allt að 16 ára fangelsi.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið rán í verslun og beitt við það hnífi sem hann ógnaði afgreiðslustúlku með. Huldi hann andlit sitt við ránið og virðist því um undirbúið rán að ræða. Ætlað brot kærða varðar við 252. gr. almennra hegningarlaga og getur varðað allt að 10 ára fangelsi. Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af alvarleika brotsins teljast uppfyllt skilyrði til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ber því að taka kröfuna til greina.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi, þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 1. september 2006, kl. 16:00.