Hæstiréttur íslands
Mál nr. 120/2007
Lykilorð
- Ómerking
- Heimvísun
- Líkamsárás
- Sératkvæði
|
|
Mánudaginn 18. júní 2007. |
|
Nr. 120/2007. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Ómerking. Heimvísun. Líkamsárás. Sératkvæði.
X var gefið að sök að hafa ráðist á fyrrum unnustu sína með nánar tilgreindum hætti á göngustíg í Víðidal í Reykjavík. Í dómi Hæstaréttar var rakinn framburður stúlkunnar, X og vitna, fyrir lögreglu og dómi, um aðdraganda hinnar ætluðu árásar, hana sjálfa og eftirmála hennar. Þá var vikið að mati héraðsdóms á trúðverðugleika stúlkunnar og því sem fram kom í gögnum málsins, svo sem læknisvottorði. Talið var óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný. Þá þótti rétt að héraðsdómarinn neytti heimildar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að kveðja tvo aðra héraðsdómara til setu með sér í dómi við nýja meðferð málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 29. janúar 2007. Ákæruvaldið krefst sakfellingar samkvæmt ákæru og refsiákvörðunar, en til vara ómerkingar á héraðsdómi og heimvísunar málsins.
Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.
Í málinu er ákærða gefin að sök líkamsárás aðfaranótt sunnudagsins 23. október 2005 á hendur fyrrum unnustu sinni með því að hafa ráðist á hana á þann hátt sem nánar er lýst í ákæru og með þeim afleiðingum sem þar greinir. Er brot hans talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Ljóst er af gögnum málsins að unnusta ákærða hafi fyrr þessa nótt farið heim með honum en þeim hafi sinnast og hún ákveðið að fara heim til sín. Hafi hún gengið áleiðis að göngustíg sem liggur að Breiðholtsbraut. Ákærða og stúlkunni ber ekki saman um atburði eftir að hún fór frá heimili ákærða. Stúlkan sagði hjá lögreglu daginn eftir atburðinn að eftir að þeim sinnaðist hafi hún tekið bakpoka sinn og farið út, en ákærði hafi komið hlaupandi á eftir henni. Hann hafi verið mjög ölvaður og hún óttast hann. Hafi hún því tekið til fótanna en hann náð henni og kastað í jörðina, gripið hana föstu hálstaki og hafi hún haldið að hann væri að reyna að kyrkja hana. Einnig hafi hann gripið um hár hennar og slegið höfði hennar margsinnis við jörðina. Þegar hann hafi byrjað að kasta í hana steinum hafi hún náð að hlaupa burtu. Hún kvaðst ekki muna hvort hann hafi náð henni í annað sinn á hlaupunum. Kona og maður hafi tekið hana upp í bifreið þeirra við Breiðholtsbraut. Fyrir dómi lýsti hún á sama veg för sinni úr húsinu og aðdraganda þess að hún tók til fótanna. Lýsti hún atlögu ákærða á þann veg að hann hafi „kippt“ henni niður með því að grípa í bakpokann sem hún var með. Þegar hún ætlaði að hringja hafi hann tekið síma hennar og „smallað“ hann, tekið í höfuð hennar og „smallað ... í jörðina og sparkaði í magann á mér og dró mig á hárinu ... og byrjaði að kirkja mig þarna,- hélt í hálsinn á mér.“ Hún hafi svo staðið upp og hlaupið af stað og losað sig á hlaupunum við dótið sitt en hann hafi kastað í sig grjóti. Taldi hún að á meðan á atlögunni stóð hafi ákærði að minnsta kosti tvisvar fellt hana í jörðina. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa dottið nema þegar ákærði hafi rifið hana niður. Ákærði hefur staðfastlega neitað sakargiftum. Lýsti hann fyrir dómi að stúlkan hafi farið út í bræðiskasti eftir að hafa séð númer vinstúlkna hans í farsíma hans. Hún hafi farið út með símann og hann farið á eftir henni í því skyni að ná símanum. Hann hafi náð að hrifsa af henni símann og ætlað á eftir henni þar sem hún hafi verið ölvuð og hún hafi átt það til að „hætta lífinu sínu ... undir áhrifum ef ég fer svona frá henni.“ Stúlkan hefur alfarið neitað að hafa tekið síma ákærða með sér. Framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi er nánar lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram hafa tvö vitni borið að stúlkan hafi stöðvað akstur bifreiðar þeirra á Breiðholtsbraut umrætt sinn. Kemur fram í vætti þeirra að nokkuð myrkur hafi verið og stúlkan hafi stokkið fyrir bifreiðina til að stöðva hana. Lýsa þau bæði ástandi hennar svo að hún hafi verið illa til reika og með áverka. Hún hafi verið mjög hrædd og sagt að „hann“ hafi ætlað að drepa sig. Er ljóst af framburði vitnanna að þau telja að ekki hafi farið á milli mála að geðshræring stúlkunnar hafi stafað af ofsahræðslu hennar en ekki áfengisneyslu eða öðrum orsökum. Daði Guðmundsson lögreglumaður sem kom á vettvang bar efnislega á sama veg um ástand stúlkunnar. Sagði hann að hún hafi verið í „rosalegu uppnámi“, grátið og með mikinn ekka. Nánar spurður um ástand hennar sagði hann: „Þetta er svona annarlegt ástand eins og kom fyrir mér-, nánast ólýsanlegt ástand, bara mikið hræðsluástand ... “. Kvaðst hann ekki hafa áður séð ástand þessu líkt áður.
Í héraðsdómi er ranglega við mat á trúverðugleika stúlkunnar byggt á því sem eftir henni er haft í frumskýrslu og læknisvottorði. Þá hafi hún ekki með staðföstum hætti greint frá hversu oft ákærði hafi „náð henni niður“. Hún hafi einnig neitað að hafa dottið, en bæði vitnin sem tóku hana upp í bíl sinn hafi borðið að hún hafi tjáð þeim að svo hafi verið. Eins og fram kemur í héraðsdómi bera gögn málsins með sér að stúlkan hafi verið í gríðarlegu uppnámi greint sinn. Er því vart við því að búast að hún hafi munað atburðarásina í smáatriðum. Framburður hennar um að hún hafi dottið af völdum ákærða hefur frá upphafi verið staðfastur svo og um að ákærði hafi tekið hana hálstaki og eru áverkar á hálsi hennar samkvæmt læknisvottorði og vætti þess læknis sem það gaf út í samræmi við þann framburð hennar. Þá hafði stúlkan kúlu ofan á höfði sem ólíklegt er að hún hafi fengið af því að detta á hlaupum undan ákærða auk margvíslegra annarra áverka. Þó að stúlkan hafi dregið kæru sína á hendur ákærða til baka hélt hún henni til streitu tæpum þremur mánuðum síðar og gaf hún þá sennilegar skýringar á því. Lögreglan hafðist ekkert að í málinu þá átta mánuði sem liðu frá því að kæran kom fram og uns hún var afturkölluð. Er það aðfinnsluvert.
Þegar allt framangreint er virt er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný. Eins og málinu er nú komið þykir rétt að héraðsdómarinn neyti heimildar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að kveðja tvo aðra héraðsdómara til setu með sér í dómi við nýja meðferð málsins. Rétt er að ákvörðun um sakarkostnað í héraði bíði þess að efnisdómur gangi þar á ný, en allur áfrýjunarkostnaður málsins skal greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
I.
Í máli þessu er ákærða gefin að sök líkamsárás með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 23. október 2005 á göngustíg í Víðidal ráðist á fyrrum unnustu sína og veitt henni ýmsa áverka. Fyrir Hæstarétti hefur ákæruvaldið aðallega krafist sakfellingar ákærða, en til vara ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins og hefur meirihluti dómenda fallist á varakröfu ákæruvaldsins. Þrátt fyrir að kröfugerð ákæruvalds sé hagað með framangreindum hætti er rétt að fjalla fyrst um kröfu þess um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins áður en tekin er afstaða til kröfu um sakfellingu ákærða.
Sú krafa er í fyrsta lagi reist á því að héraðsdómur hafi átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ákvæðið felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skipi dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Nauðsyn þessa úrræðis ræðst af aðstæðum hverju sinni og eins og sönnunargögnum í málinu er háttað er ekki tilefni til að hnekkja mati héraðsdómara að þessu leyti.
II.
Í öðru lagi reisir ákæruvaldið kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms á því að niðurstöður héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar séu rangar í verulegum atriðum. Þessu til stuðnings hefur ákæruvaldið einkum bent á að vitni hafi borið að kærandi hafi verið ofsahrædd umrædda nótt og að hún hafi þurft að fá róandi lyf á bráðamóttöku. Hafi frásögn kæranda borið þess merki, auk þess sem kærandi hafi sagt við A og C, vitni sem komu að henni þá um nóttina við Breiðholtsbraut, að „hann“ væri að reyna eða ætlaði að drepa sig. Þá hafi kærandi gefið eðlilegar skýringar á því hvers vegna hún afturkallaði kæru sína hjá lögreglu. Læknisvottorð hafi samræmst lýsingum kæranda á atvikum og hafi læknir borið um það atriði fyrir dómi. Kærandi hafi meðal annars verið með mar á hálsi og gagnauga, en læknirinn nefnt að yfirleitt beri menn fyrir sig hendur þegar þeir detti. Þá hafi kærandi ekki kannast við að hafa verið með belti þessa nótt, eins og ákærði hafi lýst, og hafi vitnin A og C ekki munað til þess að kærandi hafi verið með belti. Einnig sé lýsing ákærða af atvikum knöpp og í raun hafi héraðsdómari metið hana ótrúverðuga. Að lokum vísar ákæruvaldið til þess að eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms hafi kærandi afhent lögreglu bréf sem hún hafi fengið sent frá ákærða eftir hina ætluðu líkamsárás og af því tilefni hafi lögregla tekið skýrslur af ákærða, kæranda, móður hennar og ömmu.
Ákæruvaldið nefnir réttilega að kærandi hafi verið í afar miklu ójafnvægi umrædda nótt og hafa vitni borið að hún hafi virst mjög hrædd og sagt að „hann“ hafi ætlað að drepa sig. Eins og tíundað er í héraðsdómi er framburður kæranda fyrir dómi hins vegar nokkuð á annan veg um málsatvik en við skýrslugjöf hennar hjá lögreglu. Héraðsdómur byggir meðal annars á því að framburður hennar samræmist ekki framburði ákærða er fái nokkurn stuðning í framburði vitnanna A og C um að kærandi hafi nokkrum sinnum dottið á jörðina á þeirri leið er hún fór umrætt sinn, sem virðist hafa legið um göngustíg og móa. Ekki verður séð að sakflytjendur í héraði hafi óskað eftir að vettvangur yrði skoðaður.
Auk þess sem rakið er í héraðsdómi um misvísandi framburð kæranda er þá lýsingu að finna í frumskýrslu lögreglumanns og einnig í vottorði læknis að ákærði hafi dregið kæranda eftir jörðinni. Er sú lýsing hluti af ákæruatriðum, þrátt fyrir að hana sé ekki að finna við skýrslugjöf kæranda sjálfrar hjá lögreglu daginn eftir atvik, heldur einungis í framburði hennar fyrir dómi. Þá fær sú fullyrðing ákærða um að kærandi hafi átt það til að missa stjórn á sér við neyslu áfengis nokkra stoð í framburði föður ákærða. Áverkar á kæranda, einkum á hálsi, eru til stuðnings framburði hennar. Hins vegar verður ekki vefengt mat héraðsdómara um að framburður þess læknis sem skoðaði áverka kæranda sé þess eðlis að ekki verði dregnar af honum ályktanir er styðji með öruggum hætti sakfellingu ákærða. Er læknirinn var spurður fyrir dómi um hvort áverkar kæranda gætu samrýmst sögu hennar var svar hans svofellt: „Já, það getur alveg verið. Þetta er nú svona, hún náttúrulega lýsir þarna ýmsum átökum eða hvernig hafi verið tekið á henni sko. ... Og síðan eru þetta svolítið dreifðir, svona dreifðir yfirborðsáverkar sem hún er með við skoðun.“ Aðspurður um hvort áverkar hafi „komið eftir fall eða með því að hún hafi dottið nokkrum sinnum“ sagði hann: „Það er, skal ég nú ekki segja, því það er bæði til dæmis á hálsi rauðir marblettir. Það er mar á gagnauga. Það getur kannski staðist sem að, endilega, gæti ekki við að fá högg á sig við svona byltur.“ Að lokum sagði læknirinn aðspurður um hvort útilokað væri að áverkarnir hefðu allir komið eftir að kærandi hafi dottið: „Nei, í sjálfu sér ekki, en það verður að vera auðvitað ansi, ansi svona illa til að geta fengið kannski högg á ... það er auðvitað svæði sem er nokkuð svona í skjóli. Það eru svona aðrir staðir sem standa meira út og menn fá þá frekar högg þar heldur en á framlíkamshluta.“
Þrátt fyrir að sú skýring kæranda á því hvers vegna hún dró kæru sína til baka 29. júlí 2006, en bað svo um að málið héldi áfram tveimur mánuðum síðar, sé ekki ótrúverðug mátti héraðsdómari eigi að síður líta til þessa í niðurstöðum sínum. Þá verður hvorki fallist á með ákæruvaldinu að lýsing ákærða á málsatvikum sé svo knöpp að einhver ályktun verði af því dregin né að héraðsdómari hafi í raun metið framburð hans ótrúverðugan um atriði er máli skiptir. Hafa ber í huga að atvik gerðust í lok október 2005, en lögreglurannsókn tók langan tíma og voru ákærði og önnur vitni en kærandi fyrst yfirheyrð hjá lögreglu vegna málsins í september ári síðar. Framangreint ódagsett bréf, sem kærandi kom fyrst fram með að lokinni meðferð málsins í héraði og ákærði hefur gefið sínar skýringar á hjá lögreglu, hefur heldur ekki áhrif á niðurstöðu málsins. Að lokum ber að hafa í huga að kærandi og ákærði eru ein til frásagnar um það sem ákært er fyrir.
Að öllu framanrituðu virtu verður ekki fallist á með ákæruvaldinu að meðferð héraðsdómara á málinu hafi verið haldin slíkum annmörkum að heimvísun varði, sbr. 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991. Tel ég að staðfesta verði ályktun héraðsdóms um að slíkur vafi sé uppi um sekt ákærða, samkvæmt 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991, að sýkna beri hann af kröfu ákæruvaldsins.
Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og er ég er sammála meirihluta dómenda um áfrýjunarkostnað.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 4. desember 2006, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 24. október 2006, á hendur X [kennitala] [heimilisfang], fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 23. október 2005, á göngustíg í Víðidal í Reykjavík, ráðist á fyrrum unnustu sína, Y [kennitala], tekið hana hálstaki, hrint henni í jörðina, rifið í hár hennar og dregið hana eftir jörðinni, slegið höfði hennar nokkrum sinnum í jörðina og kastað í hana steinum, með þeim afleiðingum að Y hlaut kúlu á höfði, mar á hægra gagnauga og glóðarauga, marbletti á hálsi, hruflsár á olnboga, roða á báðum síðum og hruflsár á vinstra hné.
Er þetta talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu, en til vara að ákærða verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er krafist málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.
I.
Aðfaranótt 23. október 2005 var óskað aðstoðar lögreglu að [...], Reykjavík, þar sem þar væri æst kona, sem ekki væri hægt að ræða við, en hún væri með áverka í andliti. Í frumskýrslu lögreglu, sem staðfest var fyrir dómi, kemur fram að er lögreglumenn fóru á vettvang, ásamt sjúkraflutningamönnum, hittu þeir þar Y, sem hafi verið í mjög annarlegu ástandi. Þegar reynt hafi verið að ræða við hana hafi hún andað mjög hratt og hátt og kallaði upphátt. Þar sem lítið hafi gengið að róa hana hafi verið ákveðið að flytja hana með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Var henni gefið róandi lyf á slysadeild og eftir nokkra stund reyndist unnt að tala við hana. Kvaðst hún hafa farið ásamt kærasta sínum í leigubifreið úr miðbænum heim til hans að [...]. Þegar þangað hafi verið komið hafi þeim sinnast og hún hafi því ákveðið að fara heim. Þegar hún hafi verið að ganga út hafi hún séð að ákærði veitti henni eftirför. Hafi hún gengið út og stefnt að Breiðholtsbraut eftir göngustíg sem liggi á bak við [...]. Þar hafi ákærði ráðist á hana og náð henni niður. Hann hafi rifið í hár hennar og dregið hana eftir jörðinni. Einnig hefði hann tekið síma hennar og kastað honum í stein og skemmt hann. Hann hafi rifið bakpoka af henni og tekið af henni veskið. Kvaðst hún hafa náð að standa upp en þá hafi hann hlaupið á eftir henni og náð henni aftur niður og haldið henni og sagt eitthvað við hana sem hún mundi ekki hvað var. Hún hafi náð að standa upp aftur og haldið áfram að hlaupa, en hann hafi náð henni aftur og skellt henni í jörðina. Hafi hann hrækt á hana og rifið í hárið á henni. Kvaðst hún svo hafa náð að koma sér frá honum og hlaupið út á Breiðholtsbraut, stöðvað þar bifreið og fengið far með henni heim að [...]. Hafi hún fengið nafn eins í bifreiðinni, A.
Degi síðar lagði Y fram kæru hjá lögreglu á hendur ákærða vegna líkamsárásar. Greindi hún svo frá að umrædda nótt hafi hún verið í miðbænum ásamt fyrrverandi unnusta sínum. Þau hefðu síðan farið heim til hans að [...], og orðið þar ósátt. Hún hafi þá ákveðið að taka dótið sitt og fara heim til sín að [...]. Hafi hún orðið vör við að ákærði hafi komið hlaupandi á eftir henni. Kvaðst hún hafa óttast hann þar sem hann hafi verið mjög ölvaður og hún því tekið til fótanna. Ákærði hafi náð henni með því að grípa í bakpoka hennar og kasta henni í jörðina. Þar hafi hann gripið hana föstu taki þannig að hálsfesti hennar hafi losnað. Hafi hún haldið að hann ætlaði að kyrkja sig. Hún hafi reynt að hringja í 112, en ákærði hafi tekið af henni farsímann og fleygt honum til hliðar. Hann hafi gripið í hár hennar og slegið höfði hennar margsinnis við jörðina. Hafi hann svo skyndilega farið ofan af henni og farið að grýta í hana steinum. Hún hafi þá notað tækifærið, losað sig við bakpokann og hlaupið í burtu. Ákærði hafi haldið áfram að elta hana og kastað í hana steinum. Kvaðst hún ekki muna fullkomlega hvort ákærði hafi náð henni í annað sinn, en það hafi hann líklega gert þar sem ókunnugt fólk hafi séð hana nærri Breiðholtsbraut og hafi ákærði þá verið að hlaupa frá henni. Fólkið hafi tekið hana upp í bifreið sína og farið með hana heim að [...]. Um hafi verið að ræða tvö pör og hafi hún fengið nafn eins aðila, A. Lögreglan hafi verið kölluð heim til hennar, ásamt sjúkrabíl. Hún hafi verið flutt á slysadeild og verið skoðuð af lækni. Hafi hún m.a. haft kúlur á höfði, mar á hálsi, glóðarauga, rispur í andliti og sár á hnjám og hægri síðu.
Hinn 29. júní 2006 dró Y kæru sína til baka. Kvað hún þau ákærða hafa gert málið upp sín á milli. Hinn 12. september 2006 lýsti hún því hins vegar yfir að hún væri hætt við að draga kæru sína til baka. Ákærði hafi aftur beitt sig ofbeldi og þess vegna hafi hún ákveðið að falla ekki frá kærunni.
Samkvæmt gögnum málsins ræddi lögregla ekki við ákærða fyrr en 25. september 2006 er hann gaf skýrslu, að viðstöddum verjanda sínum, eftir að Y var búin að draga kæru sína til baka og síðan hætta við það. Kvaðst hann hafa verið í miðbæ Reykjavíkur þessa nótt að skemmta sér ásamt fyrrverandi kærustu sinni, Y. Þau hafi verið að drekka áfengi. Kvaðst hann sjálfur hafa verið orðinn töluvert ölvaður, en Y hafi verið orðin mjög ölvuð. Kvað hann Y hafa átt það til að vera mjög erfiða viðureignar þegar hún hafi drukkið áfengi. Hún hafi átt það til að komast í mikið uppnám við eitthvað sem engu máli skipti og hafi þá verið mjög erfitt að róa hana niður aftur. Svo hafi verið þetta kvöld. Þau hafi ákveðið að taka leigubíl heim til hans að [...]. Þegar þangað hafi verið komið hafi hann farið á baðherbergið til þess að gera sig kláran fyrir háttinn, en Y hafi farið inn í svefnherbergið. Þegar hann hafi komið inn í svefnherbergið hafi hún staðið og haldið á farsíma hans og verið að skoða hann, en hún hafi átt það til að fá afbrýðisemisköst og það hafi einmitt gerst þarna. Hún hafi farið að spyrja hver þessi og hin stúlkan úr símanum væri og síðan sakað hann um að halda fram hjá sér. Hún hafi því næst rokið af stað út úr húsinu og klárað að fara í skóna sína úti. Hann hafi farið á eftir henni, en ekki náð henni fyrr en um 500 metra frá húsinu. Þau hefðu gengið rösklega, en ekki hlaupið. Hann mundi ekki eftir því að hún hafi verið með tösku meðferðis, en taldi hana líklega hafa verið með veski. Ákærði kvaðst hafa sagt við Y að hún ætti ekkert með að vera að skoða síma hans og hvað þá að taka hann. Hafi hann tekið símann af henni. Hún hafi reynt að halda símanum þannig að hann myndi ekki ná honum. Þegar hún hafi neitað að láta hann hafa símann hafi hann tosað í hönd hennar og slitið símann úr höndunum á henni. Hann hafi þá ætlað heim aftur, en farið að hugsa og minnst þess að hún ætti það til að vera erfið undir áhrifum áfengis, auk þess sem hún hafi átt það til að hóta að skaða sjálfa sig. Hann hafi þá ákveðið að fara á eftir henni til að gæta þess að allt væri í lagi með hana. Kvaðst hann hafa reynt að ræða við Y en hún hafi verið gríðarlega æst og erfið viðureignar, hafi öskrað á hann að hann væri fífl og asni og slíkt. Hann hafi reynt að segja henni að best væri fyrir hana að koma bara heim, þetta væri bara fyllerís vesen og leiðindi. Þar sem lítið hafi gengið að ræða við hana hafi hann snúið til baka og farið heim. Ákærði kvaðst vilja taka það fram að þau Y hafi verið saman í ár eftir að þetta átti sér stað en hún hafi átt það til að ýja að því að hún myndi kæra hann. Eftir að þau hafi hætt saman hafi hann svo verið boðaður til skýrslutökunnar. Þá tók hann það fram að þegar þetta hafi átt sér stað hafi verið dimmt. Y hafi hlaupið frá húsinu að móum sem þar séu og þar hafi hann séð hana detta nokkrum sinnum. Þegar framburður Y úr kæruskýrslu hennar var borinn undir ákærða kvað hann ekki allt rétt sem þar kæmi fram. Hann hefði ekki hlaupið á eftir henni, heldur gengið. Þá hefði hann ekki ráðist á hana, heldur gripið í hana til að ná símanum sínum. Hann hefði ekki rifið í hár hennar né hrækt á hana. Hann mundi ekki til þess að hún hefði verið með bakpoka. Þá hafi hún verið með símann hans, en ekki hennar. Rétt væri að hann hefði farið og komið aftur, en það hafi verið vegna þess að hann hafi óttast um öryggi hennar. Þegar áverkavottorð frá slysadeild var borið undir ákærða sagði hann eina áverkann sem gæti verið af hans völdum vera eymsli í handlegg frá því að hann hafi tekið símann af henni.
II.
Í málinu liggur fyrir læknisvottorð Hlyns Þorsteinssonar, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi, frá 7. nóvember 2005. Þar segir að Y hafi leitað á slysadeild 23. október 2005. Hún hafi komið með sjúkrabifreið, en verið tekin upp í bíl í Víðidal. Við komu á slysadeild hafi engar upplýsingar fengist hjá henni þar sem hún hafi verið í uppnámi. Hún hafi því fengið róandi lyf í æð og þá slaknað á henni. Hún hefði þá skýrt svo frá að hún hafi orðið fyrir líkamsárás af hendi kærasta síns. Hafi þau verið í matarboði, farið síðan niður í bæ og eftir það heim til kærasta hennar. Eftir einhverjar deilur hafi hún tekið dótið sitt saman og ætlað heim. Kærastinn hafi þá hlaupið á eftir henni, hrint henni í jörðina, skellt höfðinu á henni í jörðina, rifið í hár hennar og dregið hana eftir jörðinni. Þá hafi hann reynt að handleggsbrjóta hana á vinstri handlegg og kastað í hana grjóti. Hún hafi að lokum náð að komast burt og hlaupið fram á bifreið sem hún hafi verið tekin upp í. Við skoðun hafi verið aumur blettur ofan á höfði og svolítil kúla þar. Hún hafi kvartað undan höfuðverk. Á hægra gagnauga hafi verið mar og niður að því byrjandi glóðarauga sem lá þar í áttina niður undir augað. Á hálsi hafi verið rauðleitir marblettir og á hægri olnboga hruflsár. Hún hafi kvartað um eymsli ofarlega í vinstri framhandlegg rétt niður af olnboganum, ekki hafi þó verið að sjá ytri áverka, en eymsli í vöðvum við þreifingar. Hún hafi verið með roðasvæði, eins og eftir núning, á báðum síðum. Hafi hún sagt það vera eftir að hafa verið dregin með jörðinni. Greining slysadeildar voru yfirborðsáverkar víðs vegar og sár á vinstra hné. Y fékk Parkodin verkjatöflur vegna höfuðverkjar. Fyllt var út beiðni um áfallahjálp sem send var til viðeigandi aðila á spítalanum. Þá kemur fram að um yfirborðsáverka hafi verið að ræða að mestu, en hugsanlegt var talið að einhverjar tognanir í vöðvum ættu eftir að koma fram. Fékk Y ráðleggingar um liðkun á þeim vöðvum og var loks bent á að leita aftur til slysadeildar yrði hún frekari einkenna vör. Y leitaði ekki aftur til slysadeildar vegna þessa máls.
III.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði gaf skýrslu í upphafi aðalmeðferðar málsins og síðan þegar vitni höfðu gefið skýrslur sínar. Ákærði skýrði svo frá að hann hefði umrædda nótt verið „úti á lífinu“ með fyrrverandi kærustu sinni, Y. Þau hafi síðan haldið heim til hans í leigubifreið. Hún hafi verið í sínu „gamla vanalega ástandi“. Hann hafi farið á baðherbergið og gert sig kláran fyrir háttinn. Þegar hann hafi komið til baka hafi hún verið með síma hans í hendinni, ekki í fyrsta skipti. Hún hafi farið í gegnum síma hans og spurt hann út í nöfn stúlkna sem þar voru. Hann hafi sagt henni að þetta væru vinkonur hans og hún hefði hitt helming þeirra. Allt í einu hafi hún rokið út í einhverju „bræðiskasti“. Hann hefði farið á eftir henni þar sem hún hafi verið með síma hans enn þá og hann hafi viljað fá hann aftur. Þegar hann hafi komið til hennar hafi hún ekki viljað afhenda símann þannig að hann hrifsaði hann af henni. Þegar hann hafi haldið heim á leið hafi hann hugsað með sér að það væri ekki sniðugt að skilja hana eftir. Þetta hafi ekki verið í fyrsta sinn sem hún hefði strunsað út af heimilinu og hún ætti það til að hætta lífi sínu þegar hún væri undir áhrifum og hann færi svona frá henni. Hann hafi því ákveðið að fara til baka og athuga með hana, en ekki hafi verið hægt að ræða við hana. Hann hafi því ákveðið að fara aftur heim. Aðspurður um ástand hennar þá sagði hann að hún hefði verið frekar drukkin. Neitaði hann því að hafa tekið hana hálstaki, hrint henni í jörðina, rifið í hár hennar og dregið hana, slegið höfði hennar nokkrum sinnu í jörðina eða kastað í hana steinum. Eina skiptið sem hann hefði komið við hana hafi verið þegar hann tók símann af henni. Þegar borið var undir hann, hvort áverkar sem hún hafði við koma á slysadeild umrædda nótt væru af hans völdum, sagði hann að það hafi verið beltinu hennar að kenna. Hún ætti „gervibelti“ eins og flestallar stúlkur ættu og þegar þær löbbuðu áfram dyttu þær um það. Y hefði dottið um beltið. Nánar aðspurður um beltið sagði hann það fremur skartgrip með stórri sylgju og þegar maður dillaði sér eitthvað áfram smokraðist það niður. Hefði hún væntanlega ekki tekið eftir að það væri alltaf að síga niður, vegna ölvunar. Þetta yrði eins og reipi þegar það væri komið utan um lappirnar. Um það hvernig hún hefði fengið kúlu á höfuðið sagði hann það væntanlega vegna þess að hún hafi dottið. Kvaðst hann hafa séð hana detta nokkrum sinnum er hann labbaði á eftir henni. Um marblett á gagnauga og glóðarauga taldi ákærði líklegast að hún hefði valdið sér þeim áverka sjálf. Henni gæti dottið hvað eina í hug. Það sama ætti við um ástæðu fyrir marbletti á hálsi hennar og hrufli á hné. Þegar hann var inntur eftir því hvort hann hafi verið undir áhrifum áfengis sagði hann svo hafa verið en hann hefði verið í fínu ástandi, hann myndi alveg eftir kvöldinu. Y hafi verið frekar drukkin og áfengi færi ekki vel í hana. Hún drykki illa og í fjölskyldu hennar væri áfengisvandamál. Sagði hann að áfengi færi verr í hana en aðrar manneskjur. Aðspurður hvort hann hafi talið óhætt að skilja hana eftir sagði hann að það kæmi að því að maður gæfist upp á að ræða við svona aðila. Þetta hafi verið svona hótanir út í bláinn. Þá sagði ákærði aðspurður um ástæðu þess að hún beri hann sökum í þessu máli að það væri vegna þess að hann hefði hætt með henni. Um framburð sinn hjá lögreglu um að Y hafi hótað að kæra hann nokkrum sinnum meðan þau voru saman sagði hann að þegar þau hafi rifist hafi hún átt til að segja að hún myndi kæra hann ef hann hætti með henni. Um leið og hann hafi látið verða af því í byrjun ágúst sl. hafi hún látið verða af því. Nánar aðspurður um hvar og hversu oft hún hefði dottið sagði hann það hafa verið þrisvar eða fjórum sinnum svo hann sæi til. Líklega tvisvar sinnum í mólendi sem væri við húsið og tvisvar á umræddum gangstíg sem væri frekar gata sem lægi að hesthúsunum og væri hún malbikuð.
Vitnið Y lýsti atvikum svo að hún og ákærði hefðu farið heim til hans umrædda nótt í leigubifreið. Hann hefði gleymt símanum í leigubílnum og hún tekið hann. Hún hefði séð sms skilaboð í símanum og hann hafi farið inn. Hún hefði elt hann inn. Hún hefði ekki verið ánægð með það sem hún hefði séð í símanum og farið upp. Aðspurð hvernig skilaboð þetta voru sagði hún að þetta hefðu verið gróf skilaboð sem hann hafi sent og fengið send frá ýmsum stúlkum. Hún hefði tekið dótið sitt saman og farið niður þar sem hann hafi legið í sófanum. Hún hefði sagst ætla heim og þau væru hætt saman. Aðspurð sagði hún að þau hefðu ekki farið að rífast. Foreldrar hans hefðu verið sofandi uppi og bróðir hans. Hún hafi ekki talið rétt að vera að rífast á heimili hans þannig að ekki hafi farið mikið á milli þeirra. Hún hafi farið út og byrjað að labba heim á leið. Er hún hafi verið komin áleiðis hafi hún heyrt og séð að ákærði kom á eftir henni. Hún hafi vitað að hann hafi ekki komið á eftir sér til að sættast eða biðjast fyrirgefningar og hún byrjað að hlaupa í burtu. Ákærði hafi náð henni og tekið í tösku hennar, eða bakpoka sem hún var með, og hann hefði kippt henni niður. Hún hafi ætlað að hringja og hann þá tekið síma hennar og „smallað“ honum. Þá hefði hann tekið hálsfesti sem hún var með, tekið í höfuð hennar og „smallað“ því í jörðina, sparkað í maga hennar og dregið hana á hárinu. Þá hefði hann tekið hana kverkataki þar til hún hafi lokað augum og þóst vera hreyfingarlaust. Hann hefði þá sagt við hana: „Ertu að þykjast eða ertu dauð?“. Síðan hafi hann staðið upp. Þegar hún hafi séð að hann var kominn nokkuð áleiðis hafi hún staðið upp og byrjað að hlaupa í burtu og losað um dótið sitt. Síðan hélt hún að hann hefði náð henni aftur niður. Einnig sagði hún að ákærði hefði kastað steinum í hana. Eftir nokkra umhugsun sagði hún að ákærði hefði tvisvar náð henni niður. Það hafi verið í síðara skiptið sem ákærði hafi haldið henni og hún þóttist vera hreyfingarlaus. Þá hafi hún byrjað að hlaupa í burtu. Hún hefði veifað bíl og fólk stöðvað fyrir henni. Fólkið hefði þá séð ákærði hlaupa í burtu. Aðspurð hvort hún hefði verið ölvuð sagði hún að ákærði hefði verið ölvaðri en hún. Kvaðst hún hafa verið í „sjokki“ eftir þetta og ekki getað talað. Hún hafi bent eða sagt hvar hún byggi, þarna rétt hjá. Þegar hún hafi komið heim hafi verið kallað á sjúkrabíl og lögreglu. Heima hjá henni hafi verið móðir hennar og systir móður hennar. Kvaðst hún í kjölfar þessa atburður hafa fengið martraðir. Hún hefði farið í Kvennaathvarfið og gengist undir sálfræðimeðferð. Þá hefði hún fengið áfallahjálp eftir þetta. Aðspurð hvort hún hefði áður leitað til sálfræðings eða geðlæknis sagðist hún hafa gert það vegna þunglyndis og kvíða. Kvaðst hún hafa jafnað sig líkamlega eftir þetta. Sagði hún að ákærði hefði ekki beitt sig ofbeldi fyrr en þarna. Hins vegar hefði hann gert það í nokkur skipti eftir þetta. Þegar hún var innt eftir því hvort hún hefði verið með belti umrædda nótt kvaðst hún ekki muna eftir að hafa verið með belti. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa dottið. Einungis hafi verið um það að ræða að ákærði hafi rifið hana niður. Um ástæðu þess að hún hefði dregið kæruna til baka á sínum tíma sagði hún það hafa verið vegna þess að þau hafi byrjað aftur saman og ákærði hefði leitað til sálfræðings. Hann hafi farið í 1-2 skipti og hún hefði trúið því að hann myndi breytast og þetta myndi lagast. Fyrir þennan atburð hefði ákærði beitt hana andlegu ofbeldi og kvaðst hún ekki hafa verið í góðu andlegu jafnvægi. Neitaði hún því að hafa tekið síma ákærða eins og hann heldur fram. Hún hefði skilið símann eftir hjá honum. Nánar um hvar hún gekk frá heimili ákærða þar til hún fór upp í bifreið sagðist hún hafa farið þar sem Reiðhöllin er og niður brekku þar. Aðspurð hvort hún hefði allan tímann verið á göngustíg eða farið um móa kvaðst hún hafa farið yfir einhvern móa, farið niður brekku og gengið út göngustíginn. Þá kvaðst hún hafa slitið sambandinu við ákærða.
Vitnið, B, faðir ákærða, kvaðst muna óljóst eftir umræddu tilviki, en um mörg tilvik hafi verið að ræða. Taldi hann að í umrætt sinn hafi vitnið og kona hans verið komin upp í rúm er þau heyrðu hávaða og læti í herbergi ákærða sem væri á sömu hæð. Y hefði hlaupið út með einhverjum látum, en ekki meiri en venjulega. Ákærði hefði fljótlega á eftir farið inn í herbergi til vitnisins og talað um einhvern síma. Allt hafi verið í belg og biðu. Vitnið hefði beðið ákærða um að fara á eftir henni. Hún hafi verið illa klædd. Þetta hafi verið um miðja nótt og kalt í veðri. Ákærði hafi farið á eftir henni en vitnið mundi ekki hvort það hefði verið að tilstuðlan þess eða vegna símans. Vitnið sagðist hafa beðið ákærða áður í tvö eða þrjú skipti að fara á eftir henni. Vitnið kvaðst hafa haft áhyggjur af andlegri heilsu hennar, en hún hefði hótað að skaða sjálfa sig þegar hún væri í þessum ham og Elliðaáin væri á milli heimilis ákærða og hennar. Ákærði hafi farið á eftir henni en ekki til að skaða hana. Þegar ákærði hafi komið aftur hafi hann greint frá því að ekki hafi verið hægt að róa hana. Nefndi vitnið að hún hefði dottið um belti sem hafi verið um hana miðja í þessum geðshræringum sem hafi verið „allsvakalegar“ þegar hún hafi talið sér misboðið. Aðspurt af hverju vitnið hefði ekki sjálft farið á eftir Y sagðist hann hafa verið uppi í rúmi. Þetta hafi ekki verið í fyrsta skipti sem hún hafi tekið á rás út af heimilinu og hafi vitnið treyst ákærða til þess að fara á eftir henni. Yfirleitt hafi hún verið fyrir utan heimilið í mikilli geðshræringu og móðir hennar sótt hana.
Er ákærði gaf skýrslu í seinna skiptið við aðalmeðferð kannaðist hann ekki við að hafa rætt við föður sinn áður en hann fór á eftir Y umrædda nótt. Um skýringu á frásögn föður hans þess efnis sagði ákærði að faðir hans hljóti að hafa ruglað saman öðrum atburðum, en þetta hafi ekki verið í fyrsta sinn sem hún hafi rokið út. Þá sagði ákærði að það væri ekki rétt sem Y hélt fram um að hann hefði leitað til sálfræðings í kjölfar meintrar líkamsárásar.
Vitnið, A, greindi frá atburðum með sama hætti og hann hafði gert í gegnum síma fyrir lögreglu 15. september 2006, en þó með ítarlegri hætti. Kvaðst vitnið hafa verið í bíl, ásamt konu sinni C, er stúlka hafi stokkið fyrir bílinn. Þau hefðu stöðvað bílinn og hafi stúlkan verið í algjöru „sjokki“. Hún hafi verið illa út leikin, skítug og rispuð eða hrufluð í andliti. Þau hefðu reynt að ræða við stúlkuna og fá upp úr henni hvað hefði gerst. Eftir smástund hafi þau fengið upp úr henni hvar hún eigi heima og boðist til að keyra hana heim. Þau hafi gert það og hitt móður hennar fyrir. Það hafi tekið um 45 mínútur að róa hana niður og hún þá lýst atvikum nánar. Það fyrsta sem hafi komið upp úr henni hafi verið: „Hann er að reyna að drepa mig“ og nefnt í því sambandi kærasta hennar eða fyrrverandi kærasta. Þegar hún hafi róast niður hefði hún sagt frá aðdragandanum. Hún hafi verið í partýi þarna og hafi ætlað að gista hjá vinkonu sinni. Þar hafi komið þessi drengur og hún hefði farið út fyrir og spjallað við hann og það hefði endað með handalögmálum eða einhverju slíku. Hún hafi reynt að rífa sig lausa frá honum. Hann hafi kastað steinum á eftir henni og hún hafi hlaupið eitthvað út í myrkrið. Hún hefði hent öllu lausu frá sér, bakpoka og einhverju. Þegar vitninu var bent á misræmi í lýsingu Y fyrir vitninu um að hún hafi verið að koma úr partýi og því að hún hafi verið að koma frá heimili ákærða sagði vitnið að lögregla hefði rætt við hann ári eftir þennan atburð og það væri erfitt að rifja upp atburði með mjög ítarlegum hætti eftir svo langan tíma. Þegar vitnið var spurt hvort það gæti verið að hún hafi átt erfitt með að tala vegna ölvunar taldi vitnið útilokað að það hafi verið ástæðan. Sagði vitnið að þetta hafi verið lygilegt og þau hafi verið hrædd um hana því hún hafi verið við það að ofanda. Þetta hafi eingöngu verið af hræðslu, eitthvað hefði gerst. Vitnið gat ekki lýst klæðaburði Y að öðru leyti en því að hún hafi verið dökkklædd og í brúnum jakka. Mundi vitnið ekki eftir að hún hafi verið með belti. Vitnið kvaðst að mestu hafa dregið sig til hlés og kona hans hafi huggað Y. Þegar vitnið var innt eftir framburði þess hjá lögreglu um það hvernig Y hafi verið í framan sagði vitnið að hún hafi verið moldug á öðrum hvorum vanganum eins og hún hefði dottið fram fyrir sig eða eitthvað slíkt. Þegar vitnið var spurt hvort hún hefði sagt vitninu af hverju hún hefði dottið fram fyrir sig sagði vitnið að hún hafi verið að hlaupa og hann hefði kastað steinum eða eitthvað slíkt á eftir henni. Þá hefði hún dottið.
Jafnframt lýsti vitnið, C, atburðum á sama veg og hún hafði gert í gegnum síma fyrir lögreglu 19. september 2006, en með ítarlegri hætti. Lýsti hún því hvernig stúlka hefði stokkið fram á veginn og að litlu mátti muna að hún hefði orðið fyrir bílnum. Þau hafi jafnvel talið að bílslys hefði orðið því stúlkan hafi ekki náð að tala heldur öskrað. Þau hafi reynt að róa hana niður og hún hafi illa getað greint frá nafni og heimilisfangi sínu. Vitnið hafi í fyrstu talið að stúlkan væri undir áhrifum eiturlyfja, hræðslan hafi verið rosaleg og augun titrað. Stúlkan hafi ekki leyft neinum að koma nálægt henni og ekki hafi mátt halda í hönd hennar. Svo hefði vitnið áttað sig á því að þetta hafi verið hræðsla. Vitnið kvaðst ekki hafa fundið áfengislykt af stúlkunni. Stúlkan hefði verið blóðug og sagt endurtekið: „Hann ætlar að drepa mig.“ Stúlkan hefði síðan greint frá heimilisfangi sínu. Hún hafi haldið áfram í hræðsluöskrum. Þau hefðu haldið áfram að róa hana og hringt á sjúkrabíl. Þá hefði móðir stúlkunnar reynt að róa hana. Vitnið sagði að stúlkan hefði litið illa út. Hún hafi verið búin að henda öllu af sér, myndavél og veski. Hún virtist hafa hlaupið í einhverjum loftköstum yfir Víðidalinn. Þegar vitnið var innt eftir því hvernig stúlkan hefði verið klædd lýsti vitnið því að hún hefði verið í gallabuxum sem hafi verið rifnar og blóðugar. Hún hefði verið í kúrekaskóm sem hafi verið illa útleiknir eftir þessi hlaup. Hún hafi verið í rifnum jakka og verið blóðug í framan. Hún hefði greinilega verið búin að klæða sig upp. Aðspurð mundi vitnið ekki eftir því að stúlkan hefði verið með belti. Borinn var undir vitnið framburður hennar hjá lögreglu um að Y hafi kastað öllu frá sér til að komast frá ákærða og hún hefði dottið nokkrum sinnum á leiðinni. Vitnið greindi frá því að mikið myrkur hafi verið úti og ekkert sést. Y hefði bent á sár á enni sér og talað um að ákærði hefði hent í hana steini og sagt: „Hann reyndi að grýta mig“ og „drepa mig.“ Taldi vitnið að blóð á hné hafi komið í þessum hlaupum. Nánar aðspurð hvort Y hefði lýst því fyrir vitninu að hún hefði dottið nokkrum sinnum sagði vitnið að hún hefði sagt svo frá. Þá kvaðst vitnið ekki hafa séð til árásarmannsins.
Vitnið, Daði Gunnarsson rannsóknarlögreglumaður, greindi frá því að lögregla hefði verið kölluð að [...] vegna konu sem væri í miklu uppnámi. Lítið samband hafi náðst við konuna sem hafi verið í rosalegu uppnámi og grátið og grátið. Hún hafi verið með mikinn ekka og ekki hægt að skilja hana. Hún hafi verið flutt á slysadeild. Þegar náðst hafi að róa hana hafi hún skýrt svo frá að ráðist hafi verið á hana á göngustíg af fyrrverandi kærasta hennar. Hann hafi hlaupið á eftir henni og náð henni niður. Hann hefði hrækt á hana. Hún hafi sagst vera logandi hrædd við hann. Hún hafi greint frá því hvar hann byggi og lögreglumenn farið á heimili hans, en þar hafi enginn svarað. Aðspurð mundi vitnið ekki eftir því að hún hafi verið með áverka. Þegar vitnið var innt eftir því sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu, þess efnis að Y hafi verið í mjög annarlegu ástandi, kvaðst vitnið aldrei hafa séð svona ástand áður. Hún hafi verið með mikinn ekka og grátið og grátið. Hún hafi hálföskrað upp fyrir sig stundum. Um hafi verið að ræða mikið hræðsluástand. Kvaðst vitnið ekki hafa séð svona ástand áður.
Vitnið, Hlynur Þorsteinsson læknir, sagði að Y hefði verið gefið róandi og þá hafi verið hægt að ræða við hana. Hún hafi ekki haft mjög mikla áverka, heldur hafi hún meira verið með yfirborðsáverka og tognanir. Aðspurður hvort ástand hennar hafi verið metið sem hræðsla sagði vitnið að svo hafi verið, hún hafi verið í uppnámi vegna þess áfalls sem hún hefði orðið fyrir. Þá sagði vitnið að það kæmi fyrir að gefa þyrfti fórnarlömbum líkamsárása lyf í æð. Vitnið taldi að áverkar sem lýst er í vottorðinu geti samrýmst frásögn hennar. Þegar vitnið var innt eftir því hvort mögulegt væri að áverkar sem lýst væri í vottorðinu gætu verið vegna þess að Y hefði dottið í móa þar sem hafi verið grjót og sandur og einnig á malbikuðum göngustíg sagði vitnið að það kunni að vera. Oftast væri um áverka að ræða á höndum þegar fólk dettur. Hún hafi verið með „hrufl“ á olnbogum og á hné, en tók fram að það væri allur gangur á því hvernig fólk dettur. Nánar aðspurður hvort mögulegt væri að allir áverkar hafi komið við fall, eða hvort hún hefði dottið nokkrum sinnum, gat vitnið ekki sagt til um það en benti á að áverkar á hálsi og á gagnauga væru staðir sem erfitt væri að fá þannig högg á. Það væri ekki hægt að útiloka að allir áverkar hefðu komið við fall, það væri í sjálfu sér hægt.
IV.
Ákærði hefur frá upphafi neitað því að hafa ráðist á Y með þeim hætti og afleiðingum sem í ákæru greinir. Ákærði og Y eru tvö til frásagnar um sakarefni ákærunnar. Mikið ber á milli í framburði ákærða og Y.
Ákærði hefur verið stöðugur í þeim framburði sínum að Y hafi farið af heimili hans, í kjölfar þess að þau höfðu verið að skemmta sér, eftir að hún komst í uppnám við að skoða síma hans. Hún hafi tekið síma hans og hann því haldið á eftir henni. Hún hafi ekki viljað afhenda símann og hann hrifsað hann af henni og haldið aftur heim. Síðan hafi hann fengið bakþanka og snúið aftur því hann hafi haft áhyggjur af henni vegna ölvunar hennar og óttast að hún gæti farið sér að voða. Ekki hafi verið unnt að ræða við hana og hann þá snúið aftur heim. Þótt útskýringar hans um það hvernig áverkar hennar séu til komnir séu um sumt undarlegar, að hún hafi dottið um belti og að hún hafi valdið sér áverkum sjálf, hefur framburður hans verið staðfastur.
Framburður Y um það hvernig ákærði hafi ráðist á hana hefur ekki verið á einn veg. Í frumskýrslu lögreglu kemur ekkert fram um að ákærði hafi tekið hana kverkataki, slegið höfði hennar nokkrum sinnum í jörðina eða að hann hafi kastað í hana steinum, eins og ákært er fyrir. Þá virðist hún hafa greint frá því að ákærði hefði þrisvar náð henni niður. Í kæru sem hún lagði fram hjá lögreglu degi síðar kemur fyrst fram að hann hafi slegið höfði hennar í jörðina og grýtt í hana steinum. Þá kemur þar fram að hún „hélt að hann væri að reyna að kyrkja hana“. Þá kvaðst hún ekki muna fullkomlega hvort ákærði hefði náð henni í annað sinn, en hann hefði „líklega“ gert það. Í læknisvottorði er m.a. haft eftir henni að ákærði hafi reynt að handleggsbrjóta hana, en ekkert hafði komið fram um það hjá henni áður eða á síðara stigi málsins. Frásögn hennar um atvik fyrir dómi var einnig á nokkuð annan veg en fyrir lögreglu. Þannig sagði hún m.a. að ákærði hefði sparkað í maga hennar og hún hafi þóst vera hreyfingarlaus. Þá hefði ákærði sagt við hana: „Ertu að þykjast eða ertu dauð.“ Hins vegar sagði hún hjá lögreglu að hún myndi ekki hvað ákærði hefði sagt við hana. Þá gat hún ekki með staðföstum hætti greint frá því hversu oft hann hefði náð henni niður. Enn fremur er framburður hennar um að hafa ekki dottið ekki í samræmi við framburð þeirra vitna sem tóku hana upp í bílinn. Jafnframt er misræmi í framburði hennar og því sem vitni hefur borið að hún hafi lýst fyrir því hvaðan hún var að koma og hvað hefði gerst. Þá er til þess að líta að Y dró kæru sína til baka um tíma.
Vitni hafa borið að Y hafi verið í gríðarlegu uppnámi. Ekkert verður hins vegar fullyrt um það hvort það verði rakið til ætlaðrar háttsemi ákærða eða hvort aðrar ástæður liggi þar að baki, eins og sambandsslit þeirra, eða hvort áfengi sé um að kenna. Óljós frásögn hennar og misræmi í framburði þykir draga úr trúverðugleika vitnisburður hennar.
Þá er til þess að líta að læknir hefur borið fyrir dómi að ekki sé unnt að útiloka að áverkar hennar séu til komnir vegna þess að hún hafi dottið á göngustígnum og er hún fór um móa. Með vísan til frásagnar ákærða, sem fær stoð í framburði vitna, um að Y hafi ítrekað dottið, og með hliðsjón af þeim áverkum sem lýst er í ákæru og fyrirliggjandi læknisvottorði, er ekki unnt að útiloka að áverkar hennar séu tilkomnir er hún hafi dottið á göngustígnum og er hún hljóp yfir móa í myrkrinu.
Að öllu því virtu sem rakið hefur verið og gegn eindreginni neitun ákærða hefur ákæruvaldinu að mati dómsins ekki tekist að færa fram nægilega sönnun um sök ákærða sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Er ósannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir. Samkvæmt þessu ber að sýkna ákærða af kröfu ákæruvaldsins.
V.
Með vísan til 1. mgr. 166. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að fella allan sakarkostnað á ríkissjóð, alls 347.569 krónur. Annars vegar er þar um að ræða kostnað vegna læknisvottorðs, 25.700 krónur, og hins vegar þóknun verjanda ákærða við rannsókn málsins og fyrir dómi, Gríms Sigurðarsonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 321.869 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Hilmarsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X, er sýkn af ákæru í málinu.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, 347.569 krónur, þar með talin 321.869 króna þóknun skipaðs verjanda ákærða, Gríms Sigurðarsonar héraðsdómslögmanns.