Hæstiréttur íslands

Mál nr. 209/2017

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Mateusz Strózyk (Bjarki Þór Sveinsson hrl.)

Lykilorð

  • Fíkniefnalagabrot
  • Upptaka
  • Skriflegur málflutningur

Reifun

M var sakfelldur í héraði fyrir brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa flutt inn samtals 878,95 grömm af kókaíni. Við þingfestingu málsins játaði M skýlaust þá háttsemi sem honum var gefin að sök og var refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Einungis var deilt um refsiákvörðun héraðsdóms fyrir Hæstarétti, sem staðfesti héraðsdóm.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. mars 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og að niðurstaða héraðsdóms um upptöku fíkniefna verði staðfest.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Málið var flutt skriflega eftir ákvörðun Hæstaréttar samkvæmt 1. mgr. 205. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur að öðru leyti en því að gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 13. janúar 2017 til uppkvaðningar dóms þessa skal koma til frádráttar refsingu hans, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að gæsluvarðhaldsvist ákærða, Mateusz Strózyk, frá 13. janúar 2017 til uppkvaðningar dóms þessa skal koma til frádráttar refsingu hans.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 447.135 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Bjarka Þórs Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 434.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. mars 2017.

Mál þetta, sem var dómtekið 20. febrúar síðastliðinn, er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 17. febrúar síðastliðinn, á hendur Mateusz Strózyk, fæddum [...], pólskum ríkisborgara, fyrir „stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 12. janúar 2017 staðið að innflutningi á samtals 878,95 [ g ] af kókaíni, sem hafði að meðaltali 76-78% styrkleika, sem samsvarar 85-87% af kókaínklóríði, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin flutti ákærði til landsins sem farþegi með flutti FI-555 frá Brussel, Belgíu, falin í líkama sínum í 90 pakkningum.“

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. með síðari breytingum.

Í ákæru er þess krafist að ákærði verið dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að framangreind fíkniefni, 878,95 g af kókaíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað brot sitt og var því farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjandi og verjandi ákærða höfðu tjáð sig stuttlega um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Við ákvörðun refsingar ákærða samkvæmt 173. gr. a. almennra hegningarlaga er lögð til grundvallar sú staðhæfing ákærða að hann hafi ekki verið eigandi fíkniefnanna og að hann hafi einvörðungu tekið að sér flytja þau hingað til lands gegn þóknun. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af ákvæðum 1., 3., 5. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, dómaframkvæmd og magni og styrkleika þeirra efna sem brot ákærða tekur til þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 13. janúar 2017 að fullri dagatölu.

Fallist er á kröfu ákæruvalds um upptöku fíkniefna.

Ákærði verður dæmdur til að greiða 645.836 krónur í sakarkostnað samkvæmt yfirliti sækjanda. Þá verður honum gert að greiða þóknun til verjanda síns á rannsóknarstigi og fyrir dómi auk aksturskostnaðar, svo sem í dómsorði greinir. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. 

                Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

                                                                                  D ó m s o r ð:

                 Ákærði, Mateusz Strózyk, sæti fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 13. janúar 2017 að fullri dagatölu.  

                Ákærði sæti upptöku á 878,95 g af kókaíni.

                Ákærði greiði 1.154.608 krónur í sakarkostnað, þar af 463.760 krónur í þóknun til verjanda síns, Bjarka Þórs Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, og 45.012 krónur vegna aksturskostnaðar hans.