Hæstiréttur íslands
Mál nr. 232/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Þriðjudaginn 14. júní 2005. |
|
Nr. 232/2005. |
Íslenska ríkið og (Sigurður G. Gíslason hdl.) Haukur Hjaltason (Sigurður B. Halldórsson hrl.) gegn Söru Rafaelsdóttur (Helgi Birgisson hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að S væri heimilt að leiða tvö nafngreind vitni við aðalmeðferð í máli sem hún hafði höfðað gegn Í og H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 26. maí 2005, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2005, þar sem fallist var á að varnaraðila væri heimilt að leiða tvö nafngreind vitni við aðalmeðferð í máli sem hún hefur höfðað gegn sóknaraðilum. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og synjað verði um heimild varnaraðila til að leiða umrædd vitni fyrir dóm.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, íslenska ríkið og Haukur Hjaltason, greiði varnaraðila, Söru Rafaelsdóttur, samtals 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2005.
Í þinghaldi í máli þessu 9. maí sl. lýsti lögmaður stefnanda því, sem áður hafði komið fram í málinu, að hann hefði í hyggju að leiða sem vitni Gunnlaug Geirsson lækni og Guðmund Þór Guðmundsson lögmann. Lögmaðurinn lagði fram sem dskj. nr. 51 spurningar sem hann kvaðst vilja bera upp við vitnin. Lögmaðurinn telur að bæði vitnin geti upplýst um atvik málsins af eigin raun og sér sé við sönnunarfærslu í málinu nauðsyn á að þessi vitni gefi skýrslu.
Lögmenn stefndu andmæltu því báðir að þessi vitni fái að koma fyrir dóminn og verði spurð þeirra spurninga sem fram koma á dskj. nr. 51. Þeir halda því fram að vitnin geti ekkert um málsatvik borið af eigin raun og því sé vitnisburður þeirra bæði óþarfur og óheimill, enda geti þeir ekki borið um annað en það sem þeim hafi verið sagt.
Dómari gaf lögmönnum aðila kost á því að tjá sig um þetta deiluefni og gerði lögmaður stefnda ríkisins það fyrir hönd beggja stefndu. Að svo búnu var ágreiningsefnið tekið til úrskurðar að kröfu lögmanna aðila.
Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 er vitni sem orðið er 15 ára skylt að koma og svara spurningum um málsatvik. Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. sömu laga er það á valdi dómara hverjar spurningar verða lagðar fyrir vitni og getur hann svipt aðila rétti til að spyrja, t.d. ef spurningar hans til vitna eru sýnilega tilgangslausar, auk þess að geta umorðað, lagað og skýrt spurningar aðila áður en vitni svarar þeim. Þessar heimildir fela það í sér að dómari getur synjað um að spurning verði lögð fyrir vitni. Mat á því fyrir fram hvort spurning skuli heimiluð eða ekki er ýmsum vandkvæðum bundið því að undir rekstri málsins geta komið fram upplýsingar sem réttlætanlegt er að spyrja vitni um án þess að það liggi ljóst fyrir í upphafi aðalmeðferðar. Það er ljóst að sumar þeirra spurninga sem lögmaður stefnanda hefur í hyggju að leggja fyrir vitnin tvö, sbr. dskj. nr. 51, varða atvik málsins. Eins og málið horfir við nú eiga aðrar þeirra tæpast við málsatvik og gætu leitt til þess að vitnin yrðu spurð álits án þess að slíkt varðaði málsatvik að neinu leyti. Þótt svo sé þykir engu að síður rétt að lögmaður stefnanda fái að leiða vitnin tvö án þess að í því felist heimild til þess að bera megi undir þau allar spurningarnar sem er að finna á dskj. nr. 51. Það verður að meta þegar til yfirheyrslu kemur.
Friðgeir Björnsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð.
Stefnanda, Söru Medina, er heimilt að leiða vitnin Gunnlaug Geirsson lækni og Guðmund Þór Guðmundsson lögmann við aðalmeðferð málsins 19. september nk.