Hæstiréttur íslands
Mál nr. 169/2001
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Laun
- Aðild
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 15. nóvember 2001. |
|
Nr. 169/2001. |
Árni Samúelsson(Helgi Jóhannesson hrl.) gegn Rúnari Sigurbjartssyni (Örn Clausen hrl.) |
Ráðningarsamningur. Laun. Aðild. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Á réð R sem markaðs- og sölustjóra útvarpsstöðvar á árinu 1994. Samkvæmt ráðningarsamningi aðila skyldi R fá greidda 5% þóknun af allri sölu/kostun yfir 3.000.000 krónur. Á árinu 1997 sömu aðilar um að R léti af störfum og Á myndi gera upp við R samkvæmt ráðningarsamningnum fyrir tiltekinn tíma. Í kjölfarið reis ágreiningur um uppgjör þeirrar þóknunar sem Á bar að greiða R samkvæmt ráðningarsamningnum. Í máli sem R höfðaði af þessu tilefni krafði hann Á um greiðslu 956.219 króna. Á gagnstefndi aftur á móti R þar sem hann taldi R hafa fengið ofgreiddar 226.116 krónur. Í málinu krafðist Á sýknu á grundvelli aðildarskorts þar sem R hefði verið ráðinn til starfa hjá reksrarfélagi útvarpsstöðvarinnar, en ekki hjá sér, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hæstiréttur hafnaði þessari málsástæðu Á með vísan til þess að hann hefði gert ráðningarsamning við R í eigin nafni og væri þess í engu getið að umrætt félag væri aðili að samningnum eða að Á hafi undirritaði hann fyrir þess hönd. Þá væri samningurinn um starfslok R gerður við Á en ekki rekstrarfélag útvarpsstöðvarinnar. Í dómi Hæstaréttar segir að málatilbúnaður aðila verði vart skilin öðru vísi en á þann veg að þeir telji úrlausn málsins ráðast að mestu af því einu hvort R hafi átt rétt á að fá söluábata reiknaðan af tekjum rekstrarfélags útvarpsstöðvarinnar af auglýsingum frá S áður en frá þeim hafi verið dreginn sérstakur afsláttur, sem sá viðskiptamaður sé sagður hafa notið. Aftur á móti verði það, sem á milli aðilanna ber, um rétta fjárhæð söluábata R ekki nema að hluta rakið til þessa álitaefnis. Önnur atriði, sem þar komi við sögu, séu í litlu eða engu skýrð af aðilunum og liggi óveruleg gögn fyrir um þau. Þótt staðið hefði Á nær að bæta úr þeirri stórfelldu vanfreifun, sem sé á málinu að þessu leyti, og bera ella hallann af því við efnisúrlausn þess, verði ekki horft fram hjá því að í mörgum atriðum skorti á skýringar og röksemdafærslu af hálfu R. Þessu til viðbótar sé málatilbúnaður R um framangreint atriði í verulegum atriðum óskýr. Þá hafi hann að engu leyti útskýrt hvernig draga megi ályktanir um fjárhæð tekna, sem hann telji ekki hafa ratað inn í viðeigandi reikningsliði fjárhagsbókhalds félagsins, af færslum til inneignar á viðskiptareikningi áfrýjanda hjá því. Verður ekki séð að á þessu hefði fengist viðhlítandi bót með því einu að Á hefði orðið við áskorun, sem R beindi til hans í héraði, um að leggja fram bókhaldsgögn án nánari tilgreiningar. Að öllu þessu gættu sé ógerlegt að leggja efnisdóm á málið. Verði því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. maí 2001. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Jafnframt krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 226.115 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. janúar 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Ágreiningur aðila varðar greiðslur til stefnda vegna starfa hans sem markaðs- og sölustjóri útvarpsstöðvarinnar FM. Hlutafélagið Útvarp fm var stofnað 31. júlí 1994. Samkvæmt fundargerð stofnfundar félagsins skyldi áfrýjandi hafa með höndum „framkvæmdastjórn og prókúru“ fyrir það. Í stofnsamningi sama dag kemur fram að áfrýjandi hafi lagt fram 2.800.000 krónur af 3.000.000 króna hlutafé félagsins. Tilkynning um stofnun félagsins barst hlutafélagaskrá 9. ágúst 1994. Í kjölfar gildistöku laga nr. 128/1994 um einkahlutafélög og laga nr. 2/1995 um hlutafélög mun félagið hafa verið skráð sem einkahlutafélag frá 1. janúar 1996 að telja.
Þann 31. október 1994 undirrituðu aðilar svonefndan starfssamning. Aðfararorð samningsins voru svohljóðandi: „Árni Samúelsson (Bíóhöllin), kt. 120742-7799 Álfabakka 8, 108 Reykjavík og Rúnar Sigurbjartsson kt. 270664-7849, Víghólastíg 24, Kópavogi gera með sér svofelldan starfssamning.“ Var stefndi samkvæmt 1. gr. samningsins ráðinn „markaðs- og sölustjóri útvarpsstöðvarinnar FM.“ Í 2. gr samningsins var eftirfarandi ákvæði: „Rúnar er launþegi og eru laun kr. 200.000.- á mánuði. Þá fær Rúnar 5% af allri sölu/kostun deildarinnar sem er yfir kr. 3.000.000.- án vsk. Felur sú fjárhæð í sér allar greiðslur fyrir yfir- og aukavinnu.“
Stefndi ritaði bréf 14. mars 1997 og var viðtakandi þess „Sambíóin Bt. Árni Samúelson“. Með bréfi þessu sagði stefndi upp starfi „sem markaðs- og sölustjóri Útvarps FM ehf.“ með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Jafnframt óskaði hann að gert yrði upp við sig „samkvæmt starfssamningi fyrir 1. ágúst 1997.“ Meðal gagna málsins er svohljóðandi samkomulag aðila: „Árni Samúelsson kt. 120742-7799, hér eftir kallaður ÁS og Rúnar Sigurbjartsson kt. 270664-7849, hér eftir kallaður RS gera með sér svohljóðandi samkomulag. 1. RS lætur af störfum markaðs og sölustjóra Útvarps FM ehf., 30. júní 1997. Mánuði áður en getið er um í uppsagnarbréfi RS. 2. ÁS greiðir RS full laun fyrir júlí mánuð samkvæmt samningi dagsettum 31.10.1994 til mánaðarmóta júlí/ágúst (1. ágúst 1997). 3. ÁS gerir að fullu upp við RS samkvæmt samningi dagsettum 31.10.1994 fyrir 1. ágúst 1997.“ Samkomulag þetta var dagsett 27. júní 1997 og undirritað þá af stefnda, en Björn Á. Árnason undirritaði það fyrir hönd áfrýjanda 30. sama mánaðar.
Með bréfi 17. nóvember 1997 krafði þáverandi lögmaður stefnda áfrýjanda um 1.742.517 krónur vegna vangreiddrar þóknunar af sölu auglýsinga. Vísaði hann til þess að uppgjöri milli aðila skyldi samkvæmt nýnefndu samkomulagi hafa lokið 1. ágúst 1997, en af því hafi ekki orðið. Síðan segir: „Skv. uppgjöri yðar voru ógreiddar kr. 767.130.oo og voru þær greiddar inn á reikning umbjóðanda míns. Hinn 11.8. 1997 gerði umbjóðandi minn athugasemdir við uppkast yðar að uppgjöri en niðurstaða þess er dagsett 1.7. 1997.“ Í máli þessu hafa hvorki verið lögð fram drög áfrýjanda að uppgjöri né athugasemdir stefnda við þau drög, sem til er vitnað í bréfinu. Áfrýjandi hafnaði kröfu stefnda með bréfi 11. desember 1997. Taldi hann kröfu stefnda til söluábata á laun ekki í samræmi við bókhald Útvarps fm ehf. Rakti hann þær rauntekjur, sem hann taldi að félagið hefði haft af auglýsingasölu á starfstíma stefnda, og taldi að samkvæmt því hefði stefndi fengið ofgreiddan söluábata, sem næmi 226.116 krónum. Stefndi ritaði áfrýjanda innheimtubréf 2. júlí 1998. Því bréfi svaraði áfrýjandi með bréfi 10. ágúst sama árs, þar sem hann hafnaði kröfu stefnda. Enn krafði stefndi áfrýjanda um ógreiddan söluábata með bréfi 27. maí 1999 og enn hafnaði áfrýjandi kröfu hans 23. júní sama árs. Höfðaði stefndi mál þetta 22. nóvember 1999, en áfrýjandi höfðaði gagnsök 15. desember sama árs.
II.
Áfrýjandi krefst sýknu af kröfum stefnda á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda sé málsókninni ranglega beint að sér. Telur hann sig hafa undirritað ráðningarsamninginn við stefnda 31. október 1994 sem framkvæmdastjóri Útvarps fm hf. og hafi stefndi verið ráðinn til starfa hjá félaginu, en ekki áfrýjanda. Hafi hann verið titlaður sölu- og markaðsstjóri félagsins og þegið laun frá því allan starfstíma sinn, sem að hluta hafi tekið mið af sölutekjum félagsins fyrir auglýsingar.
Áfrýjandi gerði ráðningarsamning við stefnda í eigin nafni og er þess í engu getið að Útvarp fm hf. sé aðili að samningnum eða að áfrýjandi undirriti hann fyrir þess hönd, en félagið hafði verið stofnað og skráð áður en samningurinn var gerður. Bar stefndi fyrir héraðsdómi að hann hafi viljað tryggja efndir samningsins með því að semja við áfrýjanda sjálfan, enda hafi hann og einkafyrirtæki hans Sambíóin verið mun „stöndugri“ en félagið, sem rak útvarpsstöðina, en rekstur hennar hefði fram að því gengið illa og hún verið „fræg fyrir það að vera að skipta um kennitölu“. Stefndi beindi uppsögn sinni á ráðningarsamningnum að áfrýjanda. Þá var samningur um starfslok stefnda, þar sem meðal annars voru ákvæði um uppgjör á launum hans, gerður við áfrýjanda en ekki einkahlutafélagið, sem stóð að rekstri útvarpsstöðvarinnar. Í ljósi þessa verður að telja að stefndi hafi verið ráðinn til starfa hjá áfrýjanda, þótt starfsvettvangur hans hafi verið hjá hlutafélagi því og síðar einkahlutafélagi, sem rak útvarpsstöðina og launagreiðslur hans hafi í framkvæmd komið frá félaginu. Er kröfu stefnda um vangoldinn launaauka því réttilega beint að áfrýjanda.
III.
Samkvæmt ráðningarsamningi stefnda, svonefndun starfssamningi, 31. október 1994 skyldi stefndi auk fastra launa fá söluábata á laun, sem næmi 5% af „allri sölu/kostun“ útvarpsstöðvarinnar, sem væri umfram 3.000.000 krónur. Stefndi krefur áfrýjanda um greiðslu vangreidds söluábata vegna sölu auglýsinga á öllum ráðningartíma sínum frá nóvember 1994 til júlí 1997. Áfrýjandi byggir gagnkröfu sína á því að hann hafi ofgreitt stefnda söluábata á þessu tímabili. Þegar litið er til málatilbúnaðar aðila og gagna málsins virðist munur á niðurstöðu þeirra varðandi útreikning söluábata fyrir einstök tímabil verða rakinn til eftirfarandi atriða:
Í fyrsta lagi vegna nóvember 1994. Aðilum ber saman um að auglýsingasala í mánuðinum hafi verið 4.342.867 krónur ef frá er talið að áfrýjandi byggir á því að til frádráttar skuli koma 35.623 krónur, sem í framlögðum gögnum eru nefnd „þjónustulaun“. Um slíkan frádrátt er ekkert að finna í starfssamningi stefnda, engin nánari bókhaldsskjöl hafa verið lögð fram um þennan frádráttarlið og hvergi er vikið að honum í málatilbúnaði aðila.
Í öðru lagi vegna desember 1994. Stefndi miðar við að auglýsingasala í þessum mánuði hafi verið 8.636.480 krónur og reisir þessa fjárhæð á útskrift úr sjóðbókarfærslum mánaðarins í bókhaldi Útvarps fm hf. Í greinargerð sinni í héraði kvað áfrýjandi auglýsingasöluna í mánuðinum hafa numið 443.742 krónum. Þá fjárhæð hefur hann í engu skýrt út og styðst hún ekki við nein framlögð gögn.
Í þriðja lagi vegna ársins 1995.
1. Aðilum ber saman um að sala auglýsinga á árinu til Sambíóanna hafi numið 19.440.514 krónum og er sú fjárhæð í samræmi við rekstrarreikning Útvarps fm hf. fyrir þetta ár.
2. Stefndi reisir kröfu sína meðal annars á því að heildarsala auglýsinga til annarra en Sambíóanna hafi á árinu 1995 numið 37.963.605 krónum. Sú fjárhæð er í samræmi við útskrift úr fjárhagsbókhaldi Útvarps fm hf., er geymir sundurliðaðar niðurstöðutölur um söluna í einstökum mánuðum á því ári. Áfrýjandi leggur á hinn bóginn til grundvallar færslur heildartekna á árinu í rekstrarreikning félagsins. Samkvæmt honum voru seldar auglýsingar til annarra en Sambíóanna fyrir 46.078.876 krónur eða 8.115.271 krónu meira en stefndi miðar kröfu sína við. Á þessum mun milli rekstrarreiknings félagsins og útskriftar úr fjárhagsbókhaldi þess verður engin skýring fundin í gögnum málsins og er hvergi að honum vikið í málatilbúnaði aðila.
3. Stefndi telur að við útreikning á söluábata sér til handa skuli telja með sölu auglýsinga til birtingar hjá Íslenska sjónvarpinu hf. (Stöð 3), sem hann telur hafa numið 1.847.337 krónum í desember 1995. Samkvæmt útskrift úr fjárhagsbókhaldi Útvarps fm ehf. fyrir árið 1996 voru umboðslaun vegna sölu auglýsinga samsvarandi þessari fjárhæð færð til tekna hjá félaginu í janúar 1996 með þeirri skýringu að þau stöfuðu frá nóvember og desember 1995. Stefndi hefur ekkert lagt fram í málinu til stuðnings því að honum beri söluábati vegna sölu Útvarps fm ehf. á auglýsingum til birtingar hjá Íslenska sjónvarpinu hf. og ekki stutt það neinum rökum. Áfrýjandi hefur hins vegar í engu vikið að þessu í málatilbúnaði sínum.
4. Af málatilbúnaði stefnda virðist mega ráða að hann telji að til viðbótar við framangreindar tekjur af sölu auglýsinga, sem styðjast beint eða óbeint við fjárhagsbókhald Útvarps fm hf., hafi félagið birt auglýsingar fyrir Sambíóin á árinu 1995 fyrir 2.066.984 krónur, sem hvergi hafi verið færðar til tekna í viðeigandi liðum fjárhagsbókhaldsins. Verði ályktanir um þær tekjur dregnar af færslum til inneignar á persónulegum viðskiptareikningi áfrýjanda hjá félaginu. Stefndi hefur þó engin gögn lagt fram um tengsl slíkra inneignarfærslna við aðrar færslur í bókhaldi félagsins til tekna eða gjalda. Efnislega hefur áfrýjandi svarað þessu þannig að Sambíóin hafi notið sérstakra kjara við birtingu auglýsinga í útvarpsstöðinni, svo sem eðlilegt sé að teknu tilliti til þess að þau voru stærsti viðskiptavinur Útvarps fm hf. og bæði fyrirtækin að auki að mestu í eigu sama manns. Áfrýjandi hefur á hinn bóginn í engu svarað því hvort eða hvernig viðskiptareikningsfærslurnar, sem stefndi dregur framangreindar ályktanir af, tengist sérstökum kjörum Sambíóanna.
5. Samkvæmt starfssamningi aðila skyldi reikna söluábata stefnda af „allri sölu/kostun deildarinnar sem er yfir kr. 3.000.000.- án vsk.“ Stefndi hefur á grundvelli þessa ákvæðis reiknað söluábata sjálfstætt fyrir hvern mánuð ársins 1995, þó þannig að febrúarmánuður, þar sem heildarsalan hafi numið 2.776.941 krónu, gefi ekki af sér söluábata en skerði hann hins vegar ekki vegna annarra mánaða ársins. Áfrýjandi hefur á hinn bóginn reiknað söluábata af heildartekjum Útvarps fm hf. fyrir auglýsingar á árinu samkvæmt rekstrarreikningi félagsins og hefur með því skert heildarlaunauppbót ársins vegna þeirrar fjárhæðar, sem á vantaði að tekjur febrúarmánaðar næðu 3.000.000 krónum. Veldur þetta því að stefndi telur sig eiga rétt á 11.153 krónum meira í söluábata vegna ársins 1995 en reikningsaðferð áfrýjanda gefur af sér.
Í fjórða lagi vegna ársins 1996. Áfrýjandi miðar við að söluábati stefnda skuli reiknast í einu lagi af samanlögðum tekjum af sölu auglýsinga á því ári samkvæmt rekstrarreikningi Útvarps fm ehf. Þær hafi numið 67.138.318 krónum, en samkvæmt því eigi söluábati stefnda að vera 1.556.916 krónur á árinu. Stefndi miðar á hinn bóginn við eftirfarandi forsendur vegna útreiknings á söluábata ársins:
1. Stefndi leggur til grundvallar niðurstöðutölur samkvæmt útskrift úr fjárhagsbókhaldi Útvarps fm ehf., þar sem tekjur vegna auglýsinga eru sundurliðaðar á einstaka mánuði ársins. Samkvæmt þeirri útskrift voru tekjurnar 76.589.987 krónur. Munurinn á þeirri tölu og ársreikningstölunni liggur að stærstum hluta í því að á fyrrgreindri útskrift úr fjárhagsbókhaldi félagsins verður séð að 30. október 1996 voru færðar til gjalda á tekjureikning fyrir auglýsingar 8.342.178 krónur án frekari skýringa. Engin gögn hafa verið lögð fram vegna þessarar færslu og hefur hún enga umfjöllun fengið í málatilbúnaði aðila. Stendur þá eftir 1.109.491 krónu munur milli sundurliðara talna úr fjárhagsbókhaldi félagsins og ársreiknings þess. Engin skýring er fram komin á þessum mun í málinu og um hann hafa aðilar ekki fjallað í málatilbúnaði sínum.
2. Þá telur stefndi sig eiga að njóta söluábata vegna söluverðs auglýsinga til birtingar hjá Íslenska sjónvarpinu hf. í janúar til apríl 1996, sem verið hafi samtals 2.743.075 krónur. Samkvæmt útskrift úr fjárhagsbókhaldi Útvarps fm ehf. 1996 hafa umboðslaun samsvarandi þessari sölu verið færð því til tekna í þessum mánuðum. Um þennan lið vísast hvað varðar skort á gögnum og umfjöllun í málatilbúnaði aðila til þess, sem áður segir um sambærilegan lið vegna desembermánaðar 1995.
3. Á sama hátt og varðandi árið 1995 telur stefndi að draga megi ályktanir um birtingu Útvarps fm ehf. á auglýsingum fyrir Sambíóin af inneignarfærslum á persónulegan viðskiptareikning áfrýjanda, þótt þess sjái hvergi stað að tekjur því samsvarandi hafi verið færðar í viðeigandi liðum fjárhagsbókhalds einkahlutafélagsins. Telur stefndi að á árinu 1996 sýni inneignarfærslurnar að birtar hafi verið auglýsingar með þessum hætti fyrir 8.216.665 krónur. Hvað varðar umfjöllun aðila um þennan lið vísast til þess, sem að framan segir um hliðstæðan lið varðandi árið 1995.
Í fimmta lagi vegna mánaðanna janúar til júní 1997. Stefndi telur sig eiga rétt til söluábata vegna þessara mánaða, sem reiknaður verði af samanlögðum auglýsingatekjum Útvarps fm ehf. á tímabilinu, sem hann telur hafa numið 31.144.801 krónu. Af hans hendi er sú fjárhæð studd við yfirlit byggt á fjárhagsbókhaldi félagsins, þar sem tekjurnar eru sundurliðaðar niður á einstaka mánuði tímabilsins og taldar nema 31.144.543 krónum. Í gagnsök í héraði miðaði áfrýjandi við að tekjur félagsins vegna sölu auglýsinga á þessu tímabili hefðu verið nálega þær sömu eða 31.144.540 krónur. Við þá fjárhæð hafði hann áður miðað tilsvör sín við þremur innheimtubréfum stefnda á árunum 1997, 1998 og 1999. Í greinargerð í aðalsök í héraði taldi áfrýjandi tekjur félagsins hins vegar aðeins hafa numið 19.715.215 krónum á þessu tímabili. Þá fjárhæð studdi hann við rekstrarreikning félagsins fyrir árið 1997, en svo virðist af gögnum málsins að félagið hafi látið af rekstri útvarpsstöðvar sinnar 30. júní á því ári. Engar viðhlítandi skýringar hafa komið fram af hendi áfrýjanda á þeim gífurlega mun, sem er að þessu leyti milli ársreiknings félagsins og gagna úr fjárhagsbókhaldi þess.
Í sjötta lagi vegna júlí 1997. Stefndi telur að sér beri söluábati vegna auglýsingatekna Útvarps fm ehf. í júlímánuði 1997 og leggur til grundvallar að þær hafi numið 3.921.930 krónum. Þá fjárhæð virðist hann styðja við gögn úr svonefndu birtingarkerfi félagsins. Reiknar hann sér til söluábata 46.097 krónur vegna þessa. Stefndi hefur ekki skýrt frekar á hvaða grunni þessi krafa er reist þegar litið er til þess, sem áður segir, að félagið virðist hafa látið af starfrækslu útvarpsstöðvar sinnar í lok næsta mánaðar á undan.
IV.
Svo sem í héraðsdómi greinir reisir áfrýjandi varnir sínar gegn kröfu stefnda aðallega á þeirri röksemd að söluábata handa honum eigi að reikna á grundvelli tekna Útvarps fm hf. og síðar samnefnds einkahlutafélags af auglýsingum, eins og tekjurnar komi fram í ársreikningum félagsins á hverjum tíma. Hér að framan er rakið í einstökum atriðum hvernig stefndi hefur reiknað dómkröfu sína eftir upplýsingum, sem hann hefur að talsverðu leyti tekið upp úr fjárhagsbókhaldi félagsins, en eins og þar er rakið er í mörgum atriðum munur, sem ekki hefur fengist skýrður í málinu, á þessum upplýsingum og því, sem fram kom í óendurskoðuðum ársreikningum félagsins. Með því að áfrýjandi hefur látið hjá líða að skýra nánar út tengslin milli þeirra upplýsinga og niðurstaðna um tekjur félagsins í ársreikningum þess er ekki fært að reisa niðurstöðu málsins á þeim grunni, sem að framan greinir.
Eins og aðilarnir hafa lagt málið fyrir dómstóla verður málatilbúnaður þeirra vart skilinn öðru vísi en á þann veg, sem héraðsdómari virðist hafa lagt til grundvallar, að þeir telji úrlausn þess ráðast að mestu af því einu hvort stefndi hafi átt rétt á að fá söluábata reiknaðan af tekjum Útvarps fm hf. og síðar samnefnds einkahlutafélags af auglýsingum frá Sambíóunum áður en frá þeim hafi verið dreginn sérstakur afsláttur, sem sá viðskiptamaður er sagður hafa notið. Svo sem ráðið verður af því, sem að framan er rakið, verður það, sem á milli aðilanna ber, um rétta fjárhæð söluábata stefnda ekki nema að hluta rakið til þessa álitaefnis. Önnur atriði, sem þar koma við sögu, eru í litlu eða engu skýrð af aðilunum og liggja óveruleg gögn fyrir um þau. Þótt staðið hefði áfrýjanda nær að bæta úr þeirri stórfelldu vanfreifun, sem er á málinu að þessu leyti, og bera ella hallann af því við efnisúrlausn þess, verður ekki horft fram hjá því að í mörgum atriðum, sem áður eru rakin, skortir á skýringar og röksemdafærslu af hálfu stefnda. Þessu til viðbótar er málatilbúnaður stefnda um framangreint atriði, sem aðilarnir hafa þó lagt upp sem kjarna ágreinings síns, það er hvort og þá hvernig reikna hafi átt söluábata stefnda af tekjum vegna auglýsinga frá Sambíóunum, í verulegum atriðum óskýr. Eins og áður greinir hefur hann að engu leyti útskýrt hvernig draga megi ályktanir um fjárhæð tekna, sem hann telur ekki hafa ratað inn í viðeigandi reikningsliði fjárhagsbókhalds félagsins, af færslum til inneignar á viðskiptareikningi áfrýjanda hjá því. Verður ekki séð að á þessu hefði fengist viðhlítandi bót með því einu að áfrýjandi hefði orðið við áskorun, sem stefndi beindi til hans í héraði, um að leggja fram bókhaldsgögn án nánari tilgreiningar.
Að öllu þessu gættu er ógerlegt að leggja efnisdóm á málið. Verður því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Aðilar skulu bera hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2001.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 15. janúar sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Rúnari Sigurbjartssyni, kt. 270664-7849, Sjávargötu 26, Bessastaðahreppi á hendur Árna Samúelssyni, kt. 120742-7799, Starrahólum 5, Reykjavík, með stefnu þingfestri 25. nóvember 1999. Hinn 16. desember 1999 var þingfest gagnsakarstefna.
Dómkröfur í aðalsök.
Dómkröfur aðalstefnanda eru þær, að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða aðalstefnanda 956.219 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 1.024.537 krónum frá 1. nóvember 1995 til 1. desember 1995, en af 709.622 krónum frá þeim degi til 1. janúar 1996, en af 536.042 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 11996, en af 576.359 krónum frá þeim degi til 1. mars 1996, en af 716.675 krónum frá þeim degi til 1. apríl 1996, en af 827.188 krónum frá þeim degi til 1. maí 1996, en af 861.347 krónum frá þeim degi til 1. júní 1996, en af 847.145 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1996, en af 858.680 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1996, en af 1.088.486 krónum frá þeim degi til 1. september 1996, en af 1.103.237 krónum frá þeim degi til 1. október 1996, en af 1.149.596 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 1996, en af 1.286.300 krónum frá þeim degi til 1. desember 1996, en af 1.496.574 krónum frá þeim degi til 1. janúar 1997, en af 1.560.120 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 1997, en af 1.558.320 krónum frá þeim degi til 1. mars 1997, en af 1.581.151 krónu frá þeim degi til 1. apríl 1997, en af 1.614.459 krónum frá þeim degi til 1. maí 1997, en af 1.662.369 krónum frá þeim degi til 1. júní 1997, en af 1.660.188 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1997, en af 1.677.252 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1997, en af 1.723.349 krónum frá þeim degi til 5. ágúst 1997, en af 956.219 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 5. ágúst 1997, en síðan árlega þann dag.
Aðalstefnandi krefst og málskostnaðar úr hendi aðalstefnda, að skaðlausu, auk vaxta á málskostnað, samkvæmt III. kafla vaxtalaga, frá uppkvaðningu dóms til greiðsludags. Einnig krefst aðalstefnandi virðisaukaskatts á málskostnað, þar sem aðalstefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
Aðalstefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum aðalstefnanda, en til vara að fram komnar stefnukröfur aðalstefnanda verði verulega lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst aðalstefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi aðalstefnanda, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti, en aðalstefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
Dómkröfur í gagnsök.
Dómkröfur gagnstefnanda eru þær, að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða gagnstefnanda 226.115,35 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 1. janúar 1998 til greiðsludags. Þá krefst gagnstefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi gagnstefnda, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatt á málskostnaðarfjárhæðina, en gagnstefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
Gagnstefndi krefst sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda og málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda, að skaðlausu, að viðbættum virðisaukaskatti, þar sem gagnstefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
II.
Aðalstefnandi hóf störf hjá Útvarpsstöðinni FM 957, sem markaðs- og sölustjóri, hinn 1. nóvember 1994. Gagnstefnandi er eigandi þeirrar útvarpsstöðvar. Aðilar gerðu með sér ráðningarsamning hinn 31. október 1994. Samkvæmt samningnum voru laun aðalstefnanda ákveðin 200.000 krónur á mánuði og 5% af allri sölu/kostun yfir 3.000.000 króna, án virðisaukaskatts á mánuði. Greiðsla þessi var ætluð fyrir alla yfirvinnu aðalstefnanda.
Hinn 27. júní 1997 gerðu málsaðilar með sér starfslokasamning. Samkvæmt þeim samningi átti aðalstefnandi að hætta vinnu sinni fyrir gagnstefnanda hinn 30. júní 1997. Skyldi gagnstefnandi greiða aðalstefnanda laun fyrir júlímánuð auk þess að gera upp launaskuld sína við aðalstefnanda fyrir 1. ágúst 1997.
Sölulaun aðalstefnanda voru reiknuð af allri sölu söludeildar Útvarps FM. Söludeildin tók að sér að selja auglýsingar til Sambíóanna, sem gagnstefnandi var eigandi að og til Íslenska sjónvarpsins hf. Stofn til útreiknings söluábata aðalstefnanda var fundinn með því að leggja saman sölu Útvarps FM til Sambíóanna og Íslenska sjónvarpsins hf.
Aðalstefnandi telur að gagnstefnandi hafi ekki greitt honum fyrir raunverulegan söluábata.
III.
Aðalstefnandi byggir kröfur sínar í aðalsök á því að aðalstefndi hafi ekki greitt allan söluábata, sem aðalstefnanda hafi borið að fá greitt fyrir. Heildarsölulaun miðist við seldar auglýsingar samkvæmt sölubókhaldi. Vangreitt sé fyrir sölu auglýsinga fyrir Sambíóin. Sölulaun hafi miðast við seldar auglýsingar, sem birst hafi í útvarpinu og hafi aðrir sölumenn hjá aðalstefnda fengið uppgert miðað við heildarsölu að meðtöldum auglýsingum Sambíóanna. Sá háttur hafi verið hafður á að reikningar á hendur Sambíóunum vegna auglýsinga í Útvarpi FM hafi verið lækkaðar um um það bil 90%. Ástæður lækkunarinnar séu aðalstefnanda óljósar. Aðalstefnandi byggir á því að forsvarsmenn gagnstefnanda hafi ekki getað lækkað sölulaun hans með því, einhliða og án skýringa, að lækka reikninga vegna auglýsingasölu til Sambíóanna. Stefnandi kveðst hafa þurft að hafa jafnmikið fyrir því að selja auglýsingar til Sambíóanna og til annarra fyrirtækja. Uppgjör til aðalstefnanda hafi farið fram eftir á, en þá hafi verið búið að kreditfæra reikninga og því hafi aðalstefnandi ekki fengið uppgert miðað við heildarsölu.
Aðalstefnandi kveðst byggja kröfu sína á hendur aðalstefnda á starfssamningi aðila og starfslokasamningi, sem kveði skýrt á um útreikning launa. Í samningi aðila sé kveðið á um það að reikna skuli söluábata af heildarsölu hvers mánaðar fyrir sig.
Aðalstefnandi hefur sundurliðað söluábata, sem honum hafi borið, með eftirfarandi hætti í stefnu. Við útreikning kveðst hann miða við tölur úr bókhaldi Útvarps FM ehf., en ekki sé hægt að miða einungis við heildarsölutölur og þær tölur, sem fram komi í ársreikningi, þar sem hluti af kröfum aðalstefnda á hendur Sambíóunum vegna auglýsingasölu sé kreditfærður í bókhaldi. Samkvæmt því greiði Sambíóin ekki að fullu fyrir vöru og þjónustu aðalstefnda.
„Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir nóvember 1994 var 4.272.933 krónur vegna FM 957 og 69.934 krónur vegna Sambíóanna.
Samtals sala 4.342.867 krónur. 5% söluábati til stefnanda 67.143 krónur.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir desember 1994 var 1.046.995 krónur og 7.589.485 krónur vegna Sambíóanna.
Samtals sala 8.636.480 krónur. 5% söluábati til stefnanda 281.824 krónur.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir janúar 1995 var 2.700.848 krónur vegna FM 957 og kr. 315.168 vegna Sambíóanna. Samtals sala 3.016.016 krónur. 5% söluábati til stefnanda 801 króna.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir febrúar 1995 var 608.032 krónur vegna FM 957 og 2.168.909 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 2.776.941 króna. 5% söluábati til stefnanda var 0 krónur.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir mars 1995 var 882.888 krónur vegna FM 957 og 4.461.552 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 5.344.440 krónur. 5% söluábati til stefnanda 117.222 krónur.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir apríl 1995 var 3.608.892 vegna FM 957 og 1.496.502 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 5.105.394 krónur. 5% söluábati til stefnanda 105.270 krónur.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir maí 1995 var 2.980.999 krónur vegna FM 957 og 789.118 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 3.770.117 krónur. 5% söluábati til stefnanda 281.824 krónur.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir júní 1995 var 4.040.058 krónur vegna FM 957 og 1.371.672 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 5.398.514 krónur. 5% söluábati til stefnanda 120.587 krónur.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir júlí 1995 var 3.274.241 króna vegna FM 957 og 1.896.920 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 5.138.393 krónur. 5% söluábati til stefnanda 108.558 krónur.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir ágúst 1995 var 3.101.192 krónur vegna FM 957 og 2.571.184 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 5.672.376 krónur. 5% söluábati til stefnanda 133.619.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir september 1995 var 3.709.298 krónur vegna FM 957 og 963.341 króna vegna Sambíóanna. Samtals sala 4.672.639 krónur. 5% söluábati til stefnanda 83.632 krónur.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir október 1995 var 4.239.813 krónur vegna FM 957 og 907.699 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 5.147.512 krónur. 5% söluábati til stefnanda 107.376 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 140.000 krónur vegna söluábata.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir nóvember 1995 var 4.585.413 krónur vegna FM 957 og 1.116.304 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 5.707.717 krónur. 5% söluábati til stefnanda 135.086 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 450.000 krónur vegna söluábata.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir desember 1995 var 4.231.931 króna vegna FM 957 og 1.382.145 krónur vegna Sambíóanna og 1.847.337 krónur vegna Íslenska sjónvarpsins hf. fyrir nóvember og desember 1995. Samtals sala 7.461.414 krónur. Kreditfært úr bókhaldi skuld Sambíóanna við Útvarp FM ehf. 2.066.984 krónur. Samtals sala fyrir desember 1995 er því 9.528.398 krónur. 5% söluábati til stefnanda 326.420 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 500.000 krónur vegna söluábata.
Söluábati samtals fyrir árin 1994 og 1995 1.626.042 krónur. Stefnandi fékk greitt fyrir sama tímabil 1.090.000 vegna söluábata. Vangreiddur söluábati fyrir 1994 og 1995 536.042 krónur.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir janúar 1996 var 2.535.441 króna vegna FM 957, 1.655.388 krónur vegna Sambíóanna og 480.909 krónur vegna Íslenska sjónvarpsins hf. Samtals sala 4.671.737 krónur. Kreditfært úr bókhaldi skuld Sambíóanna við Útvarp FM ehf. 334.601 króna. Samtals sala fyrir janúar 1996 5.006.337 krónur. 5% söluábati til stefnanda 100.317 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 60.000 krónur vegna söluábata.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild útvarps fm ehf. fyrir febrúar 1996 4.201.272 krónur vegna FM 957, 634.234 krónur vegna Sambíóanna og 511.549 krónur vegna Íslenska sjónvarpsins hf. Kreditfært úr bókhaldi skuld Sambíóanna við Útvarp FM ehf. 459.263 krónur. Samtals sala fyrir febrúar 1996 5.806.317 krónur. 5% söluábati til stefnanda 140.316 krónur.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir mars 1996 var 6.221.516 krónur vegna FM 957, 4.182.596 vegna Sambíóanna og 1.596.617 krónur vegna Íslenska sjónvarpsins hf. Samtals sala 12.000.729 krónur. Kreditfært úr bókhaldi skuld Sambíóanna við Útvarp FM ehf. 841.273 krónur. Samtals sala fyrir mars 1996 12.842.002 krónur. 5% söluábati til stefnanda 492.100 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 381.587 krónur vegna söluábata.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir apríl 1996 var 2.458.251 króna vegna FM 957, 945.053 krónur vegna Sambíóanna og 154.000 krónur vegna Íslenska sjónvarpsins hf. Samtals sala 3.557.304 krónur. Kreditfært úr bókhaldi skuld Sambíóanna við Útvarp FM ehf. 777.135 krónur. Samtals sala fyrir apríl 1996 4.334.439 krónur. 5% söluábati til stefnanda 66.722 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 32.563 krónur vegna söluábata.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir maí 1996 var 4.279.498 krónur vegna FM 957 og 535.469 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 4.814.967 krónur. 5% söluábati til stefnanda 90.748 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 104.950 krónur.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir júní 1996 var 7.949.662 krónur vegna FM 957 og 1.071.006 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 9.020.668 krónur. 5% söluábati til stefnanda var 301.033 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 289.499 krónur vegna söluábata.
Sla án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir júlí 1996 var 4.644.198 krónur vegna FM 957 og 1.879.585 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 6.523.783 krónur. Kreditfært úr bókhaldi skuld Sambíóanna við Útvarp FM ehf. 1.072.329 krónur. Samtals sala fyrir júlí 1996 7.596.112 krónur. 5% söluábati til stefnanda var 229.806 krónur.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir ágúst 1996 var 3.801.788 krónur vegna FM 957 og 1.674.882 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 5.476.670 krónur. 5% söluábati til stefnanda var 123.834 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 109.082 krónur vegna söluábata.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir september 1996 var 2.902.931 króna vegna Útvarps FM 957 og 2.304.793 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 5.207.724 krónur. 5% söluábati til stefnanda var 110.386 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 64.027 krónur vegna söluábata.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir október 1996 var 4.226.378 krónur vegna FM 957 og 3.484.974 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 7.350.421 króna. Kreditfært úr bókhaldi skuld Sambíóanna við Útvarp FM ehf. 2.639.069 krónur. Samtals sala 2.008.243 krónur. 5% söluábati til stefnanda var 367.521 króna. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 230.817 krónur vegna söluábata.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir nóvember 1996 var 4.621.096 krónur vegna FM 957 og 2.584.382 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 7.205.478. 5% söluábati til stefnanda var 210.274 krónur.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir desember 1996 var 6.007.281 króna vegna FM 957 og 1.788.314 krónur vegna Sambíóanna. Samtals sala 7.795.595 krónur. Kreditfært úr bókhaldi skuld Sambíóanna við Útvarp FM ehf. 2.092.995 krónur. Samtals sala fyrir desember 1996 var 9.888.590 krónur. 5% söluábati til stefnanda var 344.430 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 280.844 krónur vegna söluábata.
Söluábati er samtals fyrir 1996 2.577.486 krónur. Stefnandi fékk greitt frá stefnda fyrir sama tímabil 1.553.409 krónur vegna söluábata. Vangreiddur söluábati fyrir 1996 er 1.024.077 krónur.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir janúar 1997 var 4.691.720 krónur. Söluábati til stefnanda var 84.586 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 86.386 krónur vegna söluábata.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir febrúar 1997 var 5.918.219 krónur. 5% söluábati til stefnanda var 145.911 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 123.080 krónur vegna söluábata.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir mars 1997 var 5.662.207 krónur. Kreditfært úr bókhaldi skuld Sambíóanna við Útvarp FM ehf. 618.889 krónur. Samtals sala fyrir mars 1997 er 6.281.318 krónur. 5% söluábati til stefnanda var 164.055 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 130.746 krónur vegna söluábata.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir apríl 1997 var 4.958.182 krónur. 5% söluábati til stefnanda var 97.909 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 50.000 krónur vegna söluábata.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir maí 1997 var 4.956.398 krónur. 5% söluábati til stefnanda var 97.820 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 100.000 krónur.
Sala án virðisaukaskatts í söludeild Útvarps FM ehf. fyrir júní 1997 var 4.958.076 krónur. 5% söluábati til stefnanda var 97.904 krónur. Stefnandi fær greiðslu frá stefnda 80.840 krónur vegna söluábata.
Söluábati frá 1. janúar 1997 til 1. júlí 1997 var samtals 734.281 króna. Stefnandi fékk greitt frá stefnda 571.052 krónur vegna söluábata. Vangreiddur söluábati fyrir 1997 er 163.229 krónur.
Samkvæmt birtingarkerfi Útvarps FM ehf. var heildarsala söludeildar Útvarps FM ehf. 3.921.930 krónur fyrir júlí 1997. 5% söluábati stefnanda ætti að vera 46.097 krónur.”
Þann 5. ágúst 1997 hafi aðalstefndi greitt aðalstefnanda 767.130 krónur vegna söluábata.
Söluábati frá 1. nóvember 1994 til 31. júlí 1997 hafi átt að vera 4.937.193 krónur. Aðalstefnandi hafi fengið greitt frá aðalstefnda vegna söluábata 3.981.591 krónu. Samtals sé vangreiddur söluábati 956.219 krónur fyrir ofangreint tímabil, sem sé stefnufjárhæð málsins.
Aðalstefnandi hefur sundurliðað ofangreinda kröfu sína með eftirfarandi hætti í stefnu: „
Dráttarvaxtakröfu sína byggir aðalstefnandi á mismun umsamdra sölulauna og greiddra launa á hverju ári fyrir sig.
Um lagarök vísar stefnandi til samningalaga nr. 7/1936 og 28/1930 um greiðslu verkkaups auk almennra reglna vinnuréttarins.
Kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti byggir aðalstefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Kröfu um málskostnað byggir aðalstefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 129. gr. sömu laga.
IV.
Aðalstefndi byggir aðalkröfu sína á því, að hann sé ekki réttur aðili málsins. Fyrir liggi að stefnukrafan byggi á upplýsingum fengnum úr bókhaldi Útvarps FM ehf. Samkvæmt því megi ljóst vera að raunverulegur launagreiðandi samkvæmt starfssamningi frá 31. október 1994, sé Útvarp FM ehf., en ekki aðalstefnandi.
Einkahlutafélagið Útvarp FM hafi upphaflega verið stofnað hinn 31. júlí 1994 og þá sem hlutafélag, en tilkynning um stofnun félagsins hafi verið undirrituð og send Hlutafélagaskrá þann sama dag. Hlutafélagið hafi fengið eigin kennitölu hinn 9. ágúst 1994, er það hafi formlega verið skráð hjá Hlutafélagaskrá. Á stofnfundi félagsins hafi aðalstefnda verið fengin framkvæmdastjórn þess og prókúra fyrir það.
Í kjölfar gildistöku laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994 hinn 1. janúar 1995, hafi sú breyting orðið að hlutafélagið Útvarp FM hf. hafi breyst í einkahlutafélagið Útvarp FM ehf., þar sem félagið hafi ekki lengur uppfyllt skilyrði laga um hlutafélög.
Starfssamningur, sem aðalstefnandi byggi dómkröfur sínar á, hafi verið undirritaður u.þ.b. þremur mánuðum eftir stofnun félagsins. Því hafi aðalstefnanda borið að beina kröfum sínum að félaginu, þar sem aðalstefndi hafi einungis komið fram fyrir hönd félagsins, sem framkvæmdastjóri þess. Aðalstefnandi eigi því ekki lögvarða kröfu á hendur aðalstefnda og því beri að sýkna hann á grundvelli aðildarskorts.
Þá byggir aðalstefndi sýknukröfu sína á því, að starfssamningurinn frá 31. október 1994 hafi að öllu leyti verið efndur. Einsýnt sé að dómkrafa aðalstefnanda fari ekki saman við endurskoðað bókhald Útvarps FM ehf.
Samkvæmt bókhaldi Útvarps FM ehf. hafi rauntekjur félagsins í nóvember og desember 1994 numið eftirfarandi fjárhæð:
Tímabil Fjárhæð án vsk. Söluþóknun Þóknun stefnanda
Nóv. 1994 kr. 4.307.244 5% af mism. kr. 65.362,20
Des. 1994 kr. 443.742 5% af mism. kr. 0
Heildartekjur Útvarps FM ehf. fyrir árið 1995:
Heildartekjur kr. 65.519.390 5% af mism. kr. 1.475.969,50
Aðalstefndi reiknar söluþóknun aðalstefnanda með því að draga frá 36 milljónir af heildartekjum samkvæmt staðfestum ársreikningum Útvarps FM ehf.
Heildartekjur samkvæmt staðfestum ársreikningi Útvarps FM ehf. fyrir árið 1996:
Heildartekjur kr. 67.138.318 5% af mism. kr. 1.556.915,90
Árið 1997 hafi útreikningur á söluþóknun fyrirtækisins til aðalstefnanda miðast við þær forsendur, að heildarsala fyrirtækisins til loka júnímánaðar hefði numið 31.144.540 krónum. Heildarsala fyrirtækisins vegna auglýsingasölu, án virðisaukaskatts, hafi hins vegar orðið, samkvæmt staðfestum ársreikningum Útvarps FM ehf. fyrir árið 1997:
Heildartekjur
jan.-júní.´97 kr. 19.715.215 5% af mism. kr. 85.760,75
Heildarþóknun kr. 3.183.308
Greiðslur Útvarps FM ehf. til aðalstefnanda hafi numið alls 3.981.591 krónu fyrir það tímabil er samningurinn taki til.
Aðalstefndi byggir á því, að frá og með þeim tíma er aðalstefnandi hafi látið af störfum hafi öll réttindi hans samkvæmt starfssamningnum frá 31. október 1994 fallið niður. Krafa aðalstefnanda vegna sölu frá þeim tíma eigi því ekki rétt á sér, enda hvergi að slíkri þóknun vikið í samkomulaginu frá 27. júní 1997, um starfslok aðalstefnanda.
Þá telur aðalstefndi að krafa aðalstefnanda um þóknun vegna kreditreikninga eigi sér enga stoð í starfssamningi hans. Umræddur starfssamningur tryggi einungis rétt aðalstefnanda til þóknunar vegna sölu, þ.e.a.s. hlutdeild í raunverulegum tekjum félagsins, enda ekki um annað samið.
Aðalstefndi byggir einnig sýknukröfu sína á því, að skilyrði bótaskyldu hans séu ekki fyrir hendi. Skilyrði bótaskyldu séu ekki fyrir hendi þar sem aðalstefndi hafi ekki vanrækt skyldur sínar gagnvart aðalstefnanda, enda hafi aðalstefnandi ekki sýnt fram á saknæma eða gáleysislega hegðun aðalstefnda.
Varakröfu sína byggir aðalstefndi á því, að verulegur hluti krafna aðalstefnanda sé fallinn niður fyrir fyrningu. Samkvæmt 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda séu kröfur aðalstefnanda vegna meintra vanefnda aðalstefnda á greiðslu söluábata frá nóvember 1994 til nóvembermánaðar 1995, fallnar niður fyrir fyrningu. Gerir aðalstefndi þá kröfu að dómkröfur aðalstefnanda verði lækkaðar sem því nemi auk þess að dráttarvextir verði ekki reiknaðir fyrir það tímabil, sem fyrning kröfunnar taki til.
Aðalstefndi krefst þess og til vara, að upphafsdagur dráttarvaxta verði ákveðinn 22. nóvember 1999, er málið hafi verið höfðað með birtingu stefnu.
Aðalstefndi gerir og athugasemdir við málatilbúnað og sönnunarfærslu aðalstefnanda og telur hana ekki nægilega skýra og greinilega. Þá hafnar aðalstefndi þeirri fullyrðingu aðalstefnanda, að sá háttur hafi verið hafður á í rekstri Útvarps FM ehf., að auglýsingareikningar vegna Sambíóanna, þ.e.a.s. auglýsingar fyrir Sambíóin í Útvarpi FM ehf. hafi verið lækkaðir um ca. 90% þrátt fyrir að auglýsingarnar birtust í miðlinum. Starfssamningur, dagsettur 31. október 1994, kveði einungis á um greiðslu 5% af söluábata eða hagnaði fyrirtækisins til aðalstefnanda vegna raunverulegrar sölu á auglýsingum til þriðja aðila. Í samningi aðila sé hvergi getið um staðlaðar eða fyrir fram ákveðnar samningsupphæðir heldur bersýnilega gert ráð fyrir að sala á auglýsingum til birtingar í miðlum félagsins séu samningsatriði milli þess og þriðja aðila. Aðalstefnandi geti því ekki gert kröfu um greiðslu söluábata umfram raunverulega sölu Útvarps FM ehf. til þriðja aðila, á grundvelli fyrrgreinds samnings.
Aðalstefndi kveður fullyrðingu aðalstefnanda um að aðalstefnandi hafi ekki setið við sama borð og aðrir starfsmenn Útvarps FM ehf., þegar kom að útreikningi á söluábata vegna sölu á auglýsingum, ranga. Þvert á móti hafi aðalstefndi efnt í einu og öllu ákvæði starfsamningsins frá 30. október 1994, enda byggi útreikningar á söluábata til aðalstefnanda á upplýsingum úr endurskoðuðu bókhaldi Útvarps FM ehf. og hafi miðast við heildarsölu.
Aðalstefndi mótmælir og efni dómskjala, sem aðalstefnandi hafur lagt fram og sögð eru vera úr bókhaldi Útvarps FM ehf. frá árunum 1994 til 1997, ásamt upplýsingum um sölu á auglýsingum frá sama tímabili. Áðurnefnd dómsskjöl séu í senn bæði óskýr og villandi, en um sé að ræða ýmist óendurskoðaðar upphæðir, sem fengnar séu úr fjárhagsreikningi Útvarps FM ehf. eða heimatilbúin uppgjörsyfirlit aðalstefnanda. Eðlilegt og sanngjarnt sé að miða útreikning söluábata við raunverulega auglýsingasölu aðalstefnanda, sem fram komi með staðfestingu löggilts endurskoðanda á ársreikningum félagsins.
Um lagarök vísar aðalstefndi til 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Einnig vísar aðalstefndi til meginreglna kröfu- og samningaréttar og meginreglna skaðabótaréttarins.
Aðalstefndi vísar og til laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, einkum 3. gr. þeirra laga.
Kröfu um útreikning dráttarvaxta byggir aðalstefndi á vaxtalögum nr. 25/1987, ásamt síðari breytingum, einkum 14. gr. þeirra laga.
Kröfu um málskostnað byggir aðalstefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 130. gr. þeirra laga.
V.
Málsástæður í gagnsök.
Kröfur sínar í gagnsök byggir gagnstefnandi á því, að gagnstefndi hafi fengið ofgreidd laun frá gagnstefnanda fyrir áðurgreint tímabil. Samkvæmt sölutölum, sem fengnar séu úr endurskoðuðum ársreikningum einkafirma gagnstefnanda, hafi gagnstefndi fengið greiddar 226.116,35 krónur umfram umsamdar launagreiðslur. Óumdeilt sé í málinu, að gagnstefndi hafi fengið greiddar 3.841.591 krónu á grundvelli starfssamnings frá 31. október 1994. Einnig hafi gagnstefnda verið greiddar 140.000 krónur þann 9. október 1995 með innborgun inn á kortareikning hans hjá Vísa. Greiðslur til gagnstefnda hafi því alls numið 3.981.591 krónu, fyrir það tímabil, sem samningurinn taki til. Þar sem heildarsöluþóknun til handa gagnstefnda á grundvelli samningsins hafi átt að nema 3.755.474,65 krónum samkvæmt endurskoðuðu bókhaldi Útvarps FM ehf. fyrir árið 1994 og staðfestum ársreikningum þess árin 1995 og 1996 auk sölutalna úr bókhaldi ársins 1997, hafi gagnstefnda verið ofgreiddar 226.116,35 krónur, að viðbættum vöxtum.
Upphafsdagur dráttarvaxta sé 11. janúar 1998, en þann dag hafi verið liðinn mánuður frá því að gagnstefnandi krafði gagnstefnda um endurgreiðslu hinna ofgreiddu launa.
Gagnstefnandi kveðst falla frá kröfu sinni í gagnsök, ef fallist verði á sýknukröfu hans í aðalsök.
Gagnstefndi byggir kröfu sína um sýknu í gagnsök á því, að hann eigi kröfu á hendur gagnstefnanda vegna ógreiddra launa að fjárhæð 956.219 krónur, sem sé stefnukrafa í aðalsök.
Þá byggir gagnstefndi sýknukröfu sína í gagnsök á því, að samkvæmt meginreglum kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár, séu ofgreidd laun ekki endurkræf nema um augljós mistök sé að ræða af hálfu launagreiðanda, sem launþega hafi mátt vera ljós strax við móttöku launanna.
Um lagarök vísar gagnstefndi til meginreglna kröfu- og samningsréttar, samningalaga og laga um greiðslu verkkaups.
Kröfu um málskostnað byggir gagnstefndi á XXI kafla. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 130. gr. þeirra laga.
VI.
Fjallað verður um aðalsök og gagnsök í einu lagi, þar sem kröfur eru svo samofnar.
Eins og áður greinir hóf aðalstefnandi störf hjá Útvarpsstöðinni FM 957 hinn 1. nóvember 1994. Útvarpsstöðin FM var hlutafélag, stofnað hinn 31. júlí 1994, en var breytt í einkahlutafélag á árinu 1995. Starfsamningur um störf aðalstefnanda hjá gagnstefnanda var undirritaður hinn 31. október 1994. Starfssamningur þessi hefur verið lagður fram í málinu og hljóðar svo: „Árni Samúelsson (Bíóhöllin), kt. 120742-7799 Álfabakka 8, 108 Reykjavík og Rúnar Sigurbjartsson kt. 270664-7849, Víghólastíg 24, Kópavogi gera með sér svohljóðandi
starfssamning
1.gr.
Rúnar er ráðinn markaðs- og sölustjóri útvarpsstöðvarinnar FM. Í starfinu felst yfirstjórn sölu auglýsinga, kostunar og kynningarmála allt að því leyti sem tengist markaðs og sölumálum útvarpsstöðvarinnar.
2.gr.
Rúnar er launþegi og eru laun kr. 200.000.- á mánuði. Þá fær Rúnar 5% af allri sölu/kostun deildarinnar sem er yfir kr. 3.000.000.- án vsk. Felur sú fjárhæð í sér allar greiðslur fyrir yfir- og aukavinnu.
3.gr.
Laun taka hækkunum skv. efsta flokki Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Önnur starfskjör fara einnig skv. kjarasamningum sama félags.
4.gr.
Rúnari er óheimilt að taka að sér störf hjá samkeppnisaðila.
5.gr.
Samningur þessi er til 12 mánaða frá dagsetningu og óuppsegjanlegur á þeim tíma. Að þeim tíma liðnum framlengist hann ótímabundið með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti.
6.gr.
Ágreiningsmál vegna samnings þessa skal reka fyrir bæjarþingi Reykjavíkur.
Samningur þessi er gerður í tveimur samhljóða eintökum og heldur hvor aðili sínu.
Reykjavík, 31.10.´94” Undir samninginn rituðu aðalstefnandi og gagnstefnandi.
Gagnstefnandi, Árni Samúelsson, var framkvæmdastjóri hlutafélagsins FM þegar samningur þessi var undirritaður. Í samningnum er þess hvergi getið að gagnstefnandi undirriti samninginn fh. félagsins og verður því að líta svo á að með gerð samningsins og undirritun, hafi gagnstefnandi tekið á sig skyldur samkvæmt samningnum, að greiða aðalstefnanda laun, eins og samningurinn kveður á um. Er því launakröfum aðalstefnanda réttilega beint að gagnstefnanda.
Aðalstefnandi heldur því fram og byggir kröfur sínar á hendur gagnstefnanda á því, að hann eigi inni laun hjá gagnstefnanda, sem sé vangreidd söluþóknun honum til handa allt frá því að hann hóf störf hjá Útvarpi FM í nóvember 1994 fram til 1. ágúst 1997.
Eins og í fyrrgreindum samningi greinir skyldi hluti af launum aðalstefnanda vera 5% af allri sölu auglýsinga, yfir 3.000.000 króna og skyldi sú þóknun gagnstefnanda vera greiðsla fyrir alla yfir- og aukavinnu hans.
Í málinu liggur frammi samkomulag, dagsett 27. júní 1997, sem aðalstefnandi og gagnstefnandi gerðu með sér í tilefni af starfslokum aðalstefnanda, en þar segir: „Árni Samúelsson kt. 120742-7799, hér eftir kallaður ÁS og Rúnar Sigurbjartsson kt. 270664-7849, hér eftir kallaður RS gera með sér svohljóðandi samkomulag
1. RS lætur af störfum markaðs og sölustjóra Útvarps FM ehf., 30. júní 1997. Mánuði áður en getið er um í uppsagnarbréfi RS.
2. ÁS greiðir RS full laun fyrir júlí mánuð samkvæmt samningi dagsettum 31.10.1994 til mánaðamóta júlí/ágúst (1. ágúst 1997).
3. ÁS gerir að fullu upp við RS samkvæmt samningi dagsettum 31.10.1994 fyrir 1. ágúst 1997.”
Í samkomulaginu er ekki getið um fjárhæð vangreiddrar þóknunar til aðalstefnanda, en fyrir liggur að gagnstefnandi greiddi aðalstefnanda 767.130 krónur í samræmi við fyrrgreint samkomulag. Með fyrrgreindu samkomulagi og greiðslu í kjölfar þess verður að telja, að gagnstefnandi hafi viðurkennt að aðalstefnandi hafi átt inni vangoldna þóknun vegna söluábata, sem greiða hafi átt fyrir. Verður því ekki fallist á að krafa aðalstefnanda sé fallin niður fyrir fyrningu.
Ber þá að taka til athugunar hvort gagnstefnandi hafi með áðurgreindri greiðslu greitt að fullu þau vangreiddu laun, sem honum bar að greiða aðalstefnanda samkvæmt starfssamningi og samkomulagi um starfslok.
Ágreiningur er með aðilum hvort reikna hafi átt söluþóknun til handa aðalstefnanda vegna auglýsingasölu til Sambíóanna, samkvæmt upphaflegum reikningum vegna þeirrar sölu, eða eftir að kreditfærðir höfðu verið í bókhaldi Útvarps FM reikningar á Sambíóin, þannig að tekjur af auglýsingasölu Útvarps FM ehf. lækkuðu til muna og allt að 90%. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki séð að með því hafi Útvarp FM ehf. verið að veita Sambíóunum afslátt af auglýsingum, sem nemur reikningum þessum. Hefur gagnstefnandi ekki sýnt fram á hver var ástæða þessara færslna í bókhaldinu. Þar sem um svo mikla lækkun á auglýsingareikningum var að ræða og þar sem ekki verður ráðið af gögnum málsins hvers vegna kreditfærslur þessar voru framkvæmdar verður að telja að reikna hafi átt þóknun til handa aðalstefnanda vegna auglýsingasölu eins og aðalstefnandi heldur fram. Við yfirheyrslur fyrir dómi kom fram, að aðalstefnandi sá um útreikning þessara launa sinna. Hefur verið staðfest af starfsmönnum Útvarps FM ehf. að gögn sem aðalstefnandi byggir kröfur sínar á eru úr bókhaldi fyrirtækisins. Þar sem gagnstefnandi hefur ekki sýnt fram á að þessi útreikningur aðalstefnanda sé rangur ber að leggja þá til grundvallar útreikningi launa hans vegna söluþóknunar.
Samkvæmt gagnsök liggur fyrir að gagnstefnandi hefur greitt gagnstefnda 140.000 krónur inn á Vísa reikning gagnstefnda hinn 9. október 1995. Gagnstefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann eigi endurkröfu á þeirri greiðslu. Hins vegar liggur fyrir að þessi fjárhæð var greidd inn á laun. Krafa aðalstefnanda er um vangreidd laun frá því í nóvember 1994 og fram til ágúst 1997. Eins og krafa aðalstefnanda er sett fram getur aðalstefnandi ekki gert kröfu um greiðslu hærri fjárhæðar en sannanlega er vangreidd honum. Þó svo ekki sé gerð lækkunarkrafa í aðalsök vegna þessarar greiðslu þykir rétt og eðlilegt að sú fjárhæð komi til frádráttar launakröfu stefnanda, en samkvæmt framansögðu hefur gagnstefnandi ekki sýnt fram á að lækka beri kröfur aðalstefna um aðra og hærri fjárhæð. Ber því að taka til greina kröfu aðalstefnanda með krónum 816.219. Með hliðsjón af atvikum málsins þykir rétt að dæma dráttarvexti af þeirri kröfu frá 25. desember 1999, eða mánuði frá því að mál þetta var þingfest.
Eftir úrslitum málsins ber að dæma aðalstefnda til að greiða aðalstefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskattskyldu aðalstefnanda.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna gagnstefnda af kröfum gagnstefnanda í gagnsök.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í gagnsök.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan, en uppkvaðning hans hefur dregist nokkuð vegna embættisanna dómarans.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Aðalstefndi Árni Samúelsson, greiði aðalstefnanda, Rúnari Sigurbjartssyni 816.219 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. desember 1999 til greiðsludags.
Gagnstefndi, Rúnar Sigurbjartsson, skal vera sýkn af kröfum gagnstefnanda, Árna Samúelssonar, í gagnsök.
Málskostnaður í gagnsök fellur niður.
Aðalstefndi greiði aðalstefnanda 250.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskatt.