Hæstiréttur íslands
Mál nr. 169/2017
Lykilorð
- Lax- og silungsveiði
- Veiðiréttur
- Kaupsamningur
- Fasteign
- Jörð
- Málsástæða
- Aðild
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari, Eggert Óskarsson fyrrverandi héraðsdómari og Eyvindur G. Gunnarsson prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. mars 2017 þar sem áfrýjað var héraðsdómi ásamt úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 15. júlí 2016. Áfrýjandi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara sýknu af kröfum stefnda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Að því frágengnu krefst áfrýjandi þess að málskostnaður í héraði verði látinn niður falla.
Stefndi krefst þess að hafnað verði kröfu áfrýjanda um að vísa málinu frá héraðsdómi. Jafnframt krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða úrskurðar er hafnað kröfu áfrýjanda um að vísa viðurkenningarkröfu stefnda frá héraðsdómi.
Áfrýjandi afsalaði jörðinni Efra-Nesi til Camp2 ehf. 10. ágúst 2016. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að stefnda hafi þrátt fyrir þetta afsal verið heimilt að halda málinu áfram gagnvart áfrýjanda sem upphaflegum varnaraðila.
II
Í forsendum hins áfrýjaða dóms er þess getið að fram hafi komið hjá lögmanni áfrýjanda við aðalmeðferð málsins í héraði að jörðin Efra-Nes væri í Borgarbyggð sem teldist kaupstaður eða löggiltur verslunarstaður í skilningi þágildandi 1. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Ekki verður séð af greinargerð stefnda í héraði og endurritum úr þingbók héraðsdóms að áfrýjandi hafi reist varnir sínar í málinu á þessum grunni. Þótt þessi málsástæða kunni að einhverju leyti að hafa verið höfð uppi við munnlegan flutning málsins í héraði, svo sem áfrýjandi hefur haldið fram fyrir Hæstarétti, hefði það verið um seinan án tillits til þess hvort stefndi hefði mótmælt henni af þeirri ástæðu, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. og 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þessari málsástæðu verður heldur ekki komið að fyrir Hæstarétti samkvæmt 2. mgr. 187. gr. sömu laga, áður 2. mgr. 163. gr. laganna, sbr. og dóm Hæstaréttar 27. janúar 2011 í máli nr. 145/2010.
III
Áfrýjandi eignaðist jörðina Efra-Nes með afsali 8. september 1998. Sagði þar að jörðinni væri afsalað „ásamt öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber, þ.m.t. hlunnindi.“ Ágreiningslaust er að jörðinni fylgdu við söluna veiðiréttindi í Þverá í Borgarfirði. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir skiptingu jarðarinnar árið 2003 í Efra-Nes annars vegar og Efra-Nesland hins vegar sem árið 2008 hlaut heitið Skógarnes og var sama ár gert að lögbýli. Báðar eiga jarðirnar land að Þverá í Borgarfirði.
Áfrýjandi var upphaflegur eigandi Skógarness en afsalaði jörðinni til Íslandsbanka hf. 23. september 2004. Sagði í afsalinu að jörðinni væri afsalað „ásamt með öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber þ.m.t. hlunnindi.“ Eftir þetta gekk Skógarnes kaupum og sölum nokkrum sinnum eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Stefndi eignaðist jörðina fyrst 3. maí 2005 og aftur 16. desember 2014. Í öllum afsölum um jörðina var tekið fram að hún væri seld ásamt öllu því sem fylgdi og fylgja bæri. Þá var í öllum afsölunum, nema afsali stefnda til Íslenska skipafélagsins ehf. 30. desember 2010, tekið fram að með í sölunni væru hlunnindi. Eins og greinir í héraðsdómi var þess ekki getið í skjölum er varða skiptingu jarðarinnar Efra-Ness árið 2003 hvort Skógarnesi fylgdi veiðiréttur í Þverá og í afsölum fyrir jörðinni eftir það var heldur ekki tekið fram hvaða hlunnindi fylgdu henni.
Af hálfu áfrýjanda var því lýst yfir við flutning málsins fyrir Hæstarétti að þegar Efra-Nesi var skipt árið 2003 var þar ekki stundaður búskapur og er það í samræmi við önnur gögn málsins eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Taldist jörðin því ekki landareign í skilningi 4. mgr. 2. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði sem í gildi voru á þeim tíma. Stóð að lögum á þeim tíma ekkert því í vegi að unnt væri að skipta Efra-Nesi ásamt tilheyrandi veiðirétti í Þverá, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 28. apríl 1994 í máli nr. 169/1990, sem birtur er í dómsafni réttarins það ár á bls. 924, og dóma réttarins 15. október 2009 í málum nr. 552 og 553/2008. Var það og er í samræmi við þá fornu meginreglu íslensks réttar að hver maður eigi vatn og veiði fyrir sínu landi, sbr. áðurgreinda dóma. Regla þess efnis kom á þeim tíma sem hér skiptir máli fram í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 76/1970, þar sem sagði að landeiganda væri einum heimil veiði í vatni á landi sínu enda væri ekki á annan veg mælt í lögum. Þar sem réttur til veiða í Þverá var ekki sérstaklega undanskilin, hvorki þegar Efra-Nesi var skipt árið 2003 né í afsölum um Skógarnes eftir það, verður að leggja til grundvallar að sá réttur hafi fylgt jörðinni allt frá upphafi. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að stefndi sem eigandi jarðarinnar Skógarness eigi fyrir landi sínu veiðirétt í Þverá í Borgarfirði.
Eftir framangreindum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Hólsfell ehf., greiði stefnda, J. Brynjólfssyni ehf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 6. febrúar 2017.
Mál þetta, sem höfðað var 12. desember 2015 með áritun lögmanns stefnda um birtingu, var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 9. janúar sl.
Málið er höfðað af J. Brynjólfssyni ehf., Laugavegi 7, Reykjavík gegn Hólsfelli ehf., Efra-Nesi, Borgarbyggð, með stefnu sem þingfest var 15. desember 2015.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að hann eigi sem eigandi jarðarinnar Skógarness, landnr. 194315, veiðirétt í Þverá í Borgarfirði. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnda að skaðlausu.
Stefndi krefst sýknu. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Upphaflega krafðist stefndi frávísunar málsins. Með úrskurði dómsins 15. júlí 2016 var vísað frá dómi kröfu stefnanda um að stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnanda 50.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, til greiðsludags, en að öðru leyti var frávísunarkröfu stefnda hafnað.
I.
Málavextir eru þeir að árið 1998 keypti stefndi jörðina Efra-Nes, landnr. 134858, í Borgarfirði. Tekið er fram í framlögðu afsali, dags. 8. september 1998, að seljendur afsali stefnda umræddri jörð ,,ásamt öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber þ.m.t. hlunnindi“.
Með bréfi, dags. 10. febrúar 2003, óskaði stefndi eftir því að Landbúnaðarráðuneytið myndi staðfesta landskipti á jörðinni Efra-Nesi í samræmi við uppdrátt sem var gerður í október 2002. Með bréfi, dags. 8. apríl 2003, staðfesti ráðuneytið skiptingu jarðarinnar með vísan til 12. gr. þágildandi jarðalaga nr. 65/1976, samþykkis bæjarstjórnar Borgarbyggðar frá 29. janúar 2003 og jarðanefndar Mýrasýslu frá 22. desember 2002 og að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands frá 1. apríl 2003. Hinn 17. nóvember 2003 gaf stefndi út stofnskjal fyrir nýrri jörð sem fékk heitið Efra-Nesland, landnr. 194315. Samkvæmt stofnskjalinu er jörðin Efra-Nesland 176,86 hektarar og er vísað til fyrrnefnds uppdráttar.
Stefndi afsalaði jörðinni Efra-Neslandi til Íslandsbanka hf. með afsali, dags. 23. september 2004. Hinn 6. janúar 2005 afsalaði bankinn jörðinni til Jóns Árna Vignissonar. Hinn 24. janúar 2005 afsalaði Jón Árni jörðinni til Fossmanna ehf. Fossmenn ehf. afsöluðu jörðinni til stefnanda með afsali, dags. 3. maí 2005. Hinn 14. mars 2008 var nafni Efra-Neslands breytt í Skógarnes og jörðin var gerð að lögbýli. Stefnandi afsalaði jörðinni til Íslenska skipafélagsins ehf. með afsali, dags. 30. desember 2010. Hinn 16. desember 2014 afsalaði Íslenska skipafélagið ehf. jörðinni aftur til stefnanda. Í öllum þessum afsölum er tekið fram að jörðin sé seld ásamt öllu því er henni fylgi og fylgja beri. Í öllum afsölunum, nema afsali stefnanda til Íslenska skipafélagins ehf., er þar að auki tekið fram að þar með séu talin hlunnindi.
Ekki er um það deilt að báðar jarðirnar, Efra-Nes og Skógarnes, eiga land að Þverá í Borgarfirði. Þá er ágreiningslaust að jörðin Efra-Nes á veiðirétt í ánni. Í fyrrnefndum bréfum stefnda og ráðuneytisins, uppdrætti og stofnskjali er ekki minnst á hvort jörðinni Skógarnesi fylgi veiðiréttur í Þverá. Þá er í afsölum jarðarinnar ekki tekið fram hvaða hlunnindi fylgi henni.
Samkvæmt 3. gr. samþykktar fyrir veiðifélag Þverár í Borgarfirði eru félagsmenn allir þeir sem eiga rétt til veiði í Þverá og öðrum ám sem þar eru tilgreindar. Í ákvæðinu eru taldar upp þær jarðir sem eigi veiðirétt og er jörðin Efra-Nes þar talin, en ekki Skógarnes.
Á árunum 2011 til 2013 vann matsnefnd samkvæmt lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, að arðskrá fyrir veiðifélag Þverár í Borgarfirði. Í tengslum við þá vinnu kom þáverandi eigandi jarðarinnar Skógarness því á framfæri við nefndina að hann teldi að jörðinni fylgdi veiðiréttur, en stefndi mótmælti því að slíkur réttur væri til staðar. Í úrskurði matsnefndar 23. ágúst 2013 fékk ,,Efranes/Skógarnes ágreiningsland“ úthlutað tilteknum veiðirétti. Arðskrá fyrir veiðifélag Þverár í Borgarfirði var síðan birt í Lögbirtingablaði 18. september 2013. Bréfaskipti áttu sér stað milli lögmanna aðila í ágúst og september 2015, þar sem ítrekuð var sú afstaða stefnanda að jörðinni Skógarnesi fylgdi veiðiréttur en stefndi endurtók mótmæli sín. Eins og fyrr greinir var mál þetta síðan höfðað með stefnu sem var þingfest 15. desember 2015. Hinn 10. ágúst 2016 afsalaði stefndi jörðinni Efra-Nesi til þriðja aðila. Afsalið var móttekið til þinglýsingar 15. september 2016 og innfært daginn eftir.
II.
Stefnandi byggir á því að veiðiréttur í Þverá hafi fylgt með við afsal jarðarinnar Skógarness til hans frá Íslenska skipafélaginu ehf. Slíkur réttur hafi fylgt jörðinni frá stofnun hennar og aldrei verið sérstaklega skilinn frá henni. Í afsölum hafi þess ávallt verið getið að jörðinni væri afsalað ,,ásamt öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber“, þar með talin hlunnindi og/eða lóðarréttindi. Ljóst sé að veiðiréttindi teljist til hlunninda og lóðarréttinda.
Það sé forn og rótgróin regla að eignarhaldi á landi fylgi veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi. Í Landabrigðaþætti Grágásar hafi verið kveðið á um að þar sem menn ættu merkivötn saman ætti hver að veiða fyrir sínu landi. Í 56. kapítula Landleigubálks Jónsbókar hafi sagt að hver maður ætti vatn og veiðistöð fyrir sinni jörðu sem að fornu hafi verið, nema með lögum væri frá komið. Í 1. mgr. 121. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, hafi komið fram að landeiganda, og þeim sem hann veitti heimild til, væri einum heimil veiði í vatni á landi sínu. Í 2. mgr. sömu greinar hafi komið fram það nýmæli að ekki mætti skilja veiðirétt að nokkru leyti eða öllu við landareign nema um tiltekið árabil, ekki lengra en tíu ár í senn, og þyrfti þá leyfi ráðherra eða að önnur hlunnindi kæmu á móti sem ekki væru minna virði. Eftir afnám 121. gr. vatnalaga hafi efnislega sömu reglur gilt áfram samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, sbr. 1. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 61/1932, 1. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 112/1941, 1. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 76/1970 og nú 5. og 9. gr. laga nr. 61/2006. Af þessari reglu leiði að séu ekki skýr gögn til um annað eigi hver vatn og veiði fyrir sínu landi. Þá liggi fyrir að jörðin Efra-Nes sé eyðijörð. Ekkert að lögum takmarki því að veiðiréttur fylgi bæði jörð stefnanda og jörð stefnda.
Það hafi bersýnilega verið ætlun stefnda við landskiptin árið 2003 að hlunnindi jarðarinnar, þar á meðal veiðiréttindi, skyldu skiptast á milli jarðanna Efra-Ness og Efra-Neslands. Samkvæmt þágildandi 3. mgr. 12. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, hafi þurft samþykki jarðanefnda og sveitarstjórna og staðfestingu landbúnaðarráðuneytisins, að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands, til að skipta landi jarða. Í erindi stefnda til landbúnaðarráðuneytisins, dags. 10. febrúar 2003, sé þess farið á leit að ráðuneytið staðfesti landskipti á jörðinni Efra-Nesi samkvæmt uppdrætti gerðum í október 2002. Samþykki Borgarbyggðar, dags. 29. janúar 2003, hafi fylgt erindinu og þar hafi komið fram að sveitarfélagið gerði ekki athugasemd við skiptingu ,,jarðar og hlunninda“, sbr. einnig fundargerð bæjarráðs Borgarbyggðar frá 9. janúar 2003, þar sem fram komi að samþykkt sé skipting ,,á jörðinni Efra-Nesi og þeim hlunnindum sem jörðinni fylgja“. Þetta styðjist einnig við bréf stefnda til jarðanefndar Mýrasýslu, þar sem stefndi hafi farið þess á leit að nefndin myndi samþykkja skiptingu ,,á jörðinni og hlunnindum“. Samkvæmt þessu sé ljóst að landskiptin hafi jafnframt falið í sér skiptingu á hlunnindum jarðarinnar Efra-Ness. Hlunnindi og lóðarréttindi hafi allar götur síðan verið tilgreind sem meðfylgjandi við afsal Skógarness.
Fram kom hjá lögmanni stefnanda við aðalmeðferð málsins að stefndi hefði afsalað jörðinni Efra-Nesi til þriðja aðila hinn 10. ágúst 2016. Með vísan til 1. mgr. 23. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, héldi stefnandi málinu þó áfram gagnvart stefnda.
Stefnandi vísar um lagarök til 72. gr. stjórnarskrárinnar. nr. 33/1944, sbr. 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Þá vísar stefnandi til laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, einkum II. og VI. kafla, og þágildandi laga nr. 76/1970 um sama efni, einkum II. og IX. kafla. Þá vísar stefnandi til laga nr. 46/1941, um landskipti, og jarðalaga, nr. 65/1976. Krafa um málskostnað byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
III.
Stefndi vísar til þess að jörðinni Efra-Nesi hafi verið skipt á árinu 2004 og hin nýja jörð, sem þá hafi heitið Efra-Nesland, hafi orðið eign Íslandsbanka hf. með afsali 23. september 2004. Í afsalinu segi að jörðinni sé afsalað ,,ásamt með öllu sem eigninni fylgir og fylgja ber, þ.m.t. hlunnindi“. Eftir þetta hafi jörðin Efra-Nesland nokkrum sinnum gengið kaupum og sölum, allt þar til stefnandi hafi eignast hana. Í afsölum frá einum kaupanda til annars hafi sama orðalag verið notað.
Í afsali stefnda til Íslandsbanka hf. hafi ekkert verið minnst á veiðiréttindi. Stefndi telur að veiðiréttindin sem fylgdu eignarrétti hans á jörðinni Efra-Nesi hafi áfram fylgt þeirri jörð þrátt fyrir skiptingu jarðarinnar, því stefnda hafi verið óskylt að láta veiðiréttindi fylgja hinni nýju jörð. Veiðiréttindi séu ekki hlunnindi, heldur hluti eignarréttar sem fylgi jörð. Þannig sé óheimilt að selja veiðiréttindi sérstaklega frá jörð, en engin skylda sé að láta veiðiréttindi af hendi við sölu á hluta úr jörð. Þess vegna hefði tvímælalaust verið nauðsynlegt að geta sérstaklega um veiðiréttindi, hefði ætlunin verið sú að hluti þeirra ætti að tilheyra hinni nýju jörð. Engar fyrirætlanir um slíkt hafi komið fram þegar samþykkis jarðanefndar hafi verið aflað fyrir skiptingu jarðarinnar.
Viðsemjandi stefnda um hina nýju jörð hafi aldrei gefið til kynna að hann hafi eignast veiðiréttindi í Þverá. Síðari eigendur jarðarinnar hafi heldur aldrei gefið slíkt til kynna, allt þar til slík sjónarmið hafi komið fram af hálfu stefnanda. Stefnandi hafi ekki getað eignast ríkari rétt en þeir aðilar höfðu sem hann leiðir rétt sinn frá.
Við aðalmeðferð málsins lýsti lögmaður stefnda því yfir að vísa ætti málinu frá dómi með vísan til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þar sem stefnandi hefði ekki lengur lögvarðra hagsmuna að gæta gagnvart stefnda. Vísaði lögmaðurinn til þess að stefndi hefði afsalað jörðinni Efra-Nesi til þriðja aðila hinn 10. ágúst 2016. Ákvæði 1. mgr. 23. gr. laga nr. 91/1991 giltu aðeins um mál þar sem stefndi væri krafinn um afhendingu á hlut eða réttindum, en þetta mál væri viðurkenningarmál og engin krafa gerð um afhendingu réttinda. Því bæri að vísa málinu frá dómi.
Einnig kom fram hjá lögmanninum að stefndi nytjaði jörðina Efra-Nes. Jörðin væri í Borgarbyggð sem teldist vera kaupstaður í skilningi þágildandi 1. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Jörðin teldist því vera landareign í kaupstað og því væri óheimilt að skilja veiðirétt frá henni, sbr. 4. mgr. 2. gr. þágildandi laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði.
IV.
Við aðalmeðferð málsins gaf Tómas Sigurðsson, fyrrverandi yfirmaður lögfræðisviðs Íslandsbanka hf., skýrslu sem vitni. Verður vitnað til framburðar hans eftir því sem þörf þykir.
Við aðalmeðferð málsins lýsti lögmaður stefnda því sjónarmiði að dómurinn ætti að vísa málinu frá án kröfu með vísan til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þar sem stefndi hefði afsalað jörðinni Efra-Nesi hinn 10. ágúst 2016 til þriðja aðila. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. sömu laga má sóknaraðili allt að einu halda máli sínu áfram gegn upphaflegum varnaraðila sem hefur, eftir að mál er höfðað, afhent hlut eða réttindi sem hann er sóttur til að láta af hendi. Verður sá sem leiðir rétt sinn frá varnaraðila þá bundinn af dómi í málinu nema hann hafi eignast hlut eða réttindi með þeim hætti að réttur annarra glatist gagnvart honum. Við skýringu þessa ákvæðis er, að mati dómsins, óhjákvæmilegt að horfa til þess tilgangs þess að augljós hætta væri á misferli ef stefndi hefði það í hendi sér að komast undan dómsmáli með því einu að láta af hendi hlut eða réttindi sem mál hefur verið höfðað um. Verður því að skýra ákvæðið á þann veg að það gildi einnig um viðurkenningarmál. Jafnframt má líta svo á að með dómkröfu sinni sé stefnandi í raun að sækja á um að fá afhent réttindi úr hendi stefnda. Verður málinu því ekki vísað frá dómi ex officio á þessum grundvelli.
Þegar jörðinni Efra-Nesi var skipt í tvo hluta á árinu 2003 voru í gildi lög nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna var landeiganda einum heimil veiði í vatni á landi sínu, nema mælt væri fyrir um annað í lögunum. Var þessi regla í samræmi við þá fornu reglu íslensks réttar að eignarhaldi á landi fylgi veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 530/2015, sbr. einnig dóma réttarins í málum nr. 552/2008, 553/2008, 26/1995 og 169/1990. Samkvæmt 4. mgr. sömu greinar mátti eigi skilja veiðirétt að nokkru eða öllu leyti við landareign, hvorki fyrir fullt og allt né um tiltekinn tíma, nema stangarveiðirétt og þá að nánar tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í lögum nr. 76/1970 var hugtakið landareign ekki sérstaklega skilgreint. Stefndi byggir á því að í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í málinu nr. 530/2015 hafi því hins vegar verið slegið föstu að hugtakið landareign skyldi skýra til samræmis við sama hugtak í vatnalögum, nr. 15/1923, en í 1. gr. laganna, áður en henni var breytt með 1. gr. laga nr. 132/2011, var hugtakið landareign skilgreint sem ,,land lögbýlis og lóð og lönd innan takmarka kaupstaða og löggiltra verslunarstaða“.
Stefnandi byggir á því að jörðin Efra-Nes sé eyðijörð. Við munnlegan flutning málsins kom hins vegar fram hjá lögmanni stefnda að stefndi nytjaði jörðina. Í veðbókarvottorði fyrir jörðina Efra-Nes er jörðinni lýst sem ,,Eyðijörð, nytjað“. Jörðinni er lýst með sama hætti í framlögðu útprenti úr Fasteignaskrá. Í útprentinu eru einnig tilgreind ýmis mannvirki sem á jörðinni standa og eru skráð byggð á árunum 1912 til 1975, þar á meðal íbúðarhús, fjós, gripahús, tvær hlöður og mjólkurhús. Þá kemur meðal annars fram í útprentinu að á jörðinni sé ræktað land að stærð 33,7 hektarar. Í útprenti úr Lögbýlaskrá, dags. 31. desember 2015, er jörðinni Efra-Nesi lýst sem eyðibýli. Í Morgunblaðinu 23. júní 1998 var jörðin Efra-Nes, sem þar er kölluð Efranes, auglýst til sölu og er tekið fram að jörðin sé ,,án bústofns, véla og framleiðsluréttar“. Með vísan til opinberra skráninga á jörðinni Efra-Nesi sem eyðibýli, og þar sem ekki liggja fyrir nein gögn um hvað felist í meintum nytjum stefnda nú, verður að fallast á það með stefnanda að jörðin sé ekki lögbýli og hafi ekki verið það síðan að minnsta kosti 1998, jafnframt að búskapur á jörðinni hafi lagst af.
Fram kom hjá lögmanni stefnda við aðalmeðferð málsins að jörðin Efra-Nes væri í Borgarbyggð sem teldist vera kaupstaður eða löggiltur verslunarstaður í skilningi þágildandi 1. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Þessari málsástæðu sér ekki stað í greinargerð stefnda en henni var ekki mótmælt sem of seint fram kominni og verður því leyst úr henni. Eins og fyrr greinir töldust lóðir og lönd innan takmarka kaupstaða og löggiltra verslunarstaða vera landareign, auk lands lögbýla. Í vatnalögum var hugtakið kaupstaður og löggiltur verslunarstaður ekki skilgreint. Er jörðinni Efra-Nesi var skipt upp árið 2003 var jörðin í sveitarfélaginu Borgarbyggð. Dómurinn telur að það hefði að ósekju mátt reifa þessa málsástæðu nokkuð betur, til að mynda leggja fram gögn til staðfestingar því að kaupstaður eða löggiltur verslunarstaður hafi verið innan marka sveitarfélagsins árið 2003, þótt vissulega verði leiddar að því líkur. Verður samkvæmt þessu lagt til grundvallar við úrlausn málsins að jörðin Efra-Nes teljist ekki vera lóð eða land innan takmarka kaupstaðar, burtséð frá þýðingu þess fyrir úrlausn málsins, en dómurinn telur að stefndi dragi of miklar ályktanir um fordæmisgildi framangreinds dóms Hæstaréttar fyrir þann ágreining sem hér er til úrlausnar. Jafnframt að sú skilgreining sem stefndi byggir á og telur að leiða eigi til þess að kröfum stefnanda verði hafnað geti ekki orðið til þess að jörðinni verði neitað um veiðirétt andspænis mjög skýrum og afdráttarlausum fordæmum Hæstaréttar sbr. neðangreint.
Litið verður svo á að ef landspilda sem skilin er út úr landi jarðar, telst sjálf jörð í skilningi lax og silungsveiðilaga, sé ekki einungis heimilt heldur beinlínis skylt að láta lax- og silungsveiðiréttindi fylgja spildunni, þar sem meginreglan er sú að óheimilt sé að undanskilja slík réttindi frá jörð. Því fylgi veiðiréttindi afmarkaðri landspildu ef um stofnun jarðar er að ræða. að fengnu samþykki réttra yfirvalda eins og hér um ræðir. Styðst þetta við þau rök sem tilgreind hafa verið fyrir meginreglunni um að veiðiréttur fylgi jörð sbr. t.a.m. 9. gr. laga nr. 61/2006.
Dómurinn telur að jörðin Efra-Nes hafi ekki talist til landareignar í skilningi þágildandi 4. mgr. 2. gr. laga nr. 76/1970, árið 2003 þegar jörðinni Efra-Neslandi, nú Skógarnesi, var skipt út úr henni. Tók bann ákvæðisins við því að veiðiréttur væri skilinn að nokkru eða öllu leyti við landareign því ekki til jarðarinnar Efra-Ness, enda þeir hagsmunir sem ákvæðinu var ætlað að tryggja ekki fyrir hendi. Er jafnframt litið til þess að ákvæðið felur í sér skerðingu á eignarráðum eiganda jarðarinnar sem skýra verður þröngt. Fyrir liggur að eftir skiptinguna eiga báðar jarðirnar land að Þverá. Í bréfum stefnda og Landbúnaðarráðuneytisins, uppdrætti og stofnskjali er ekki minnst á hvort jörðinni Skógarnesi fylgi veiðiréttur í ánni. Sama gildir um afsöl jarðarinnar Skógarness. Íslandsbanki hf. eignaðist jörðina Efra-Nesland af stefnda með afsali, dags. 23. september 2004. Fram kom hjá Tómasi Sigurðssyni, þáverandi yfirmanni lögfræðisviðs bankans, að hann myndi ekki til þess að einstök hlunnindi hefðu komið til umræðu í tengslum við þau viðskipti. Þá kvaðst vitnið ekki vita hvort veiðihlunnindi hefðu verið kynnt sem hluti hins selda fyrir þeim sem keypti jörðina af bankanum. Þessi aðstaða er að öllu leyti sambærileg við þá aðstöðu sem var uppi í fyrrnefndum dómum Hæstaréttar í málum nr. 552/2008 og 553/2008. Hefur stefndi ekki fært fram nein haldbær rök fyrir því af hverju ekki verði fylgt þessum fordæmum Hæstaréttar. Í samræmi við þessa dóma og fyrrnefnt ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 76/1970 og þar sem réttur eiganda Efra-Neslands, nú Skógarness, til veiða í Þverá var ekki sérstaklega undanskilinn þegar þeirri jörð var skipt út úr landi Efra-Ness, verður því að telja að sá réttur hafi fylgt með við stofnun jarðarinnar. Þá verður ekki ráðið af framlögðum afsölum jarðarinnar að sá réttur hafi síðar verið löglega frá henni skilinn.
Samkvæmt þessu verður krafa stefnanda tekin til greina.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 900.000 króna. Er þá m.a. horft til þess að munnlegur málflutningur fór fram um frávísunarkröfu stefnda og fjölda þinghalda í málinu.
Guðjón Ármannsson hæstaréttarlögmaður flutti mál þetta fyrir hönd stefnanda og Ragnar Halldór Hall hæstaréttarlögmaður fyrir hönd stefnda.
Dómstjóri Héraðsdóms Vesturlands vék, með úrskurði 4. mars sl., sæti í máli þessu vegna setu í matsnefnd samkvæmt lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði. Dómstólaráð ákvað í kjölfarið að fela Lárentsínusi Kristjánssyni, héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, meðferð málsins, sem kveður nú upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Viðurkennt er að stefnandi, J. Brynjólfsson ehf., eigi sem eigandi jarðarinnar Skógarness, landnr. 194315, veiðirétt í Þverá í Borgarfirði.
Stefndi, Hólsfell ehf., greiði stefnanda 900.000 króna í málskostnað