Hæstiréttur íslands
Mál nr. 455/2009
Lykilorð
- Skuldamál
- Sjálfskuldarábyrgð
- Skuldskeyting
|
|
Þriðjudaginn 30. mars 2010. |
|
Nr. 455/2009. |
Jóhannes Eggertsson og Eggert Skúli Jóhannesson (Ólafur Thóroddsen hrl.) gegn Sparisjóði Vestmannaeyja (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) |
Skuldamál. Sjálfskuldarábyrgð. Skuldskeyting.
SV krafði J og E um greiðslu samkvæmt skuldabréfi, útgefnu af S, sem þeir höfðu gengist í sjálfskuldarábyrgð á. Skuldskeyting fór fram í febrúar 2008 og var útbúið sérstakt skjal vegna hennar, sem ritað var undir af hálfu hins nýja skuldara, HG, og nýs sjálfskuldarábyrgðarmanns, H. Þá rituðu J og E undir textann: „Samþykki fyrri skuldara.“ Deilt var um hvort J og E hefðu losnað undan sjálfskuldarábyrgð sinni við skuldskeytinguna. Hvorki var talin þörf á undirritun S á skjalið, en J og E rituðu firmað, né undirritun J og E sjálfra ef hún átti að fela í sér lausn þeirra undan sjálfskuldarábyrgðinni. Á hinn bóginn var undirritunin talin nauðsynleg ef ábyrgð þeirra skyldi standa áfram þrátt fyrir skuldskeytinguna. Ekki var sannað, að þeir hefðu við skuldskeytinguna, óskað eftir því að vera leystir undan sjálfskuldarábyrgðinni, og var undirritun þeirra á skjalið skýrð svo að þeir væru áfram í sjálfskuldarábyrgð. Var krafa SV því tekin til greina að teknu tilliti til innborgunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 12. ágúst 2009. Þeir krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en því að tekið verði tillit til innborgunar 1.582.225 krónur á skuldina 25. júní 2009, sem ráðstafist „til lækkunar hennar miðað við stöðu á greiðsludegi, þannig að fyrst verði greiddur kostnaður og vextir af kostnaði, þá vextir og síðan höfuðstóll“. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í héraði var stefndi sagður vera Sparisjóður Suðurlands, sem mun vera útibú Sparisjóðs Vestmannaeyja, og sem getur því ekki verið aðili að dómsmáli í skilningi 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki hefur verið gerð athugasemd vegna þessa annmarka á málatilbúnaði stefnda og varðar hann ekki frávísun málsins án kröfu. Stefndi í málinu er því Sparisjóður Vestmannaeyja.
Nægilega er fram komið að máli þessu, sem upphaflega var höfðað samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991, hafi verið vikið til almennrar meðferðar fyrir héraðsdómi.
Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi deila málsaðilar ekki um að áfrýjendur hafi undirgengist sjálfskuldarábyrgð á skuld Skipamiðlunarinnar ehf. samkvæmt skuldabréfi 4. október 2007 að höfuðstól 5.000.000 krónur. Stefndi hafði einnig tryggingarbréf í vélbátnum Sigurvini skipaskrárnúmer 2293.
Áfrýjendur leituðu til stefnda í febrúar 2008 og óskuðu eftir samþykki hans fyrir skuldaraskiptum þannig að nýr skuldari, HG Fjárfestingar ehf., kæmi í stað Skipamiðlunarinnar ehf. Stefndi féllst á skuldskeytinguna og var útbúið sérstakt skjal vegna hennar, sem ber yfirskriftina: ,,Breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfs ásamt skuldskeytingu nr. 1169-74-010566.“ Texti skjalsins er tekinn orðrétt upp í héraðsdómi. Undir skjalið er ritað af hálfu hins nýja skuldara og nýs sjálfskuldarábyrgðarmanns, Heimis Arnar Gunnlaugssonar. Þá rita áfrýjendur nöfn sínu undir eftirfarandi texta: ,,Samþykki fyrri skuldara.“
Ágreiningur málsaðila snýst um, hvort áfrýjendur hafi losnað undan sjálfskuldarábyrgð sinni við skuldskeytinguna og hvort áritun þeirra, eins og að ofan greinir, renni stoðum undir það.
Ekki liggur fyrir að áfrýjendur hafi, er þeir leituðu samþykkis stefnda fyrir skuldaraskiptum að skuldinni, óskað eftir því að þeir yrðu jafnframt lausir undan sjálfskuldarábyrgðinni. Ekki var þörf á samþykki fyrri skuldara fyrir skuldskeytingunni. Ekki var þörf á undirritun áfrýjenda á skjalið, ef það átti að fela í sér lausn þeirra undan sjálfskuldarábyrgðinni. Á hinn bóginn var undirritunin nauðsynleg ef ábyrgð þeirra skyldi standa áfram þrátt fyrir skuldskeytinguna og tilkomu nýs ábyrgðarmanns. Verður samkvæmt þessu ekki talið sannað, að áfrýjendur hafi verið leystir undan sjálfskuldarábyrgð sinni. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur að því er þá varðar með þeirri breytingu að tekið verður tillit til innborgunar á skuldina 1.582.225 krónur 25. júní 2009.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað að því er áfrýjendur varðar.
Áfrýjendur greiði sameiginlega málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Jóhannes Eggertsson og Eggert Skúli Jóhannesson, greiði stefnda, Sparisjóði Vestmannaeyja, 5.681.064 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2008 til greiðsludags, allt að frádregnum 1.582.225 krónum sem stefndi fékk greiddar 25. júní 2009.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað áfrýjenda skal vera óraskað.
Áfrýjendur greiði stefnda sameiginlega málskostnað fyrir Hæstarétti, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 14. maí 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. maí sl., er höfðað með stefnu birtri 9. febrúar sl. á hendur stefnda Heimi, 11. febrúar sl. á hendur stefnda Jóhannesi og 17. febrúar sl. á hendur stefnda Eggerti Skúla.
Stefnandi er Sparisjóðurinn á Suðurlandi, kt. 450600-2610, Austurvegi 6, Selfossi.
Stefndu eru Jóhannes Eggertsson, kt. 030545-7619, Lyngheiði 10, Hveragerði, Eggert Skúli Jóhannesson, kt. 220368-4329, Baugstjörn 28, Selfossi, og Heimir Örn Gunnlaugsson, kt. 190885-3569, Snægili 4, Akureyri.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 5.681.064 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 1. maí 2008 til greiðsludags. Þá er krafist þess að stefndu greiði stefnanda bankakostnað að fjárhæð 8.020 krónur. Auk þess er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefndu eru að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda í málinu. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins auk virðisaukaskatts á málskostnað.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að 4. október 2007 gaf Skipamiðlunin ehf., kt. 511104-3190, Síðumúla 13, Reykjavík, út verðtryggt skuldabréf til Sparisjóðs Suðurlands. Var bréfið undirritað fyrir hönd greiðanda af Eggerti Skúla Jóhannessyni. Bréfið skyldi greiða á átta árum og var fyrsti gjalddagi 1. maí 2008. Skuldabréfið var verðtryggt og var grunnvísitala 273,10 stig og bar breytilega vexti, þá 10,90%. Stefndu Jóhannes Eggertsson og Eggert Skúli Jóhannesson tóku á sig sjálfskuldarábyrgð og undirrituðu skuldabréfið þar um. Þann 22. febrúar 2008 var gerð breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfsins ásamt skuldskeytingu þannig að í stað Skipamiðlunar ehf. kom nýr greiðandi, HG Fjárfestingar ehf., kt. 410807-0680, til heimilis að Snægili 4, Akureyri. Þá segir einnig í skilmálabreytingunni að Sparisjóður Suðurlands samþykki eftirfarandi breytingar á sjálfskuldarábyrgð skuldabréfsins:
- „Skilmálabreyting nr. 1.
- Sjálfskuldaráb. verður Heimir Örn Gunnlaugsson kt. 190885-3569.
- Ofangreint tryggingarbréf verði áfram til tryggingar ofanrituðu.
Að öðru leyti haldast ákvæði bréfsins óbreytt.“
Stefndi Heimir Gunnlaugsson undirritar skilmálabreytinguna fyrir hönd nýs greiðanda auk þess að samþykkja framangreinda breytingu sem sjálfskuldarábyrgðaraðili. Vitundarvottur að báðum undirritunum er Ólafur Thóroddsen hæstaréttarlögmaður. Þá kemur fram á skjalinu: „Samþykki fyrri skuldara.“ Undir þá klásúlu rita stefndu Eggert og Jóhannes. Ofangreint skuldabréf fór í vanskil og var innheimtubréf sent HG fjárfestingum ehf., þann 6. janúar 2009, auk stefndu Jóhannesi, Eggerti og Heimi.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir kröfugerð sína á ofangreindu skuldabréfi og skilmálabreytingu og kveður deilur aðila snúast um það hvort stefndu Jóhannes og Eggert hafi verið leystir undan sjálfskuldarábyrgð sinni með skuldskeytingunni og skilmálabreytingunni eða ekki. Kvað hann ætlun stefnanda með skilmálabreytingunni hafa verið þá að krefjast viðbótarsjálfskuldarábyrgðar þar sem stefnandi ætlaði að samþykkja að nýr greiðandi kæmi í stað fyrri greiðanda. Hafi stefndu verið gerð grein fyrir því í upphafi að það væri forsenda fyrir því að stefnandi samþykkti skuldskeytingu. Kvað stefnandi að ef leysa ætti sjálfskuldarábyrgðaraðilana undan ábyrgð sinni hefði þurft að kveða á um það með skýrum hætti. Svo hafi ekki verið gert og því beri stefndu ábyrgð samkvæmt efni skuldabréfsins. Kvað stefnandi stefndu Jóhannes og Eggert hafa verið eigendur fyrri greiðanda skuldabréfsins, Skipamiðlunar ehf., og því hafi þeir þurft að samþykkja breyttan greiðanda á bréfinu og skilmála. Því hefði klásúlan „samþykki fyrri skuldara“ staðið á skjalinu. Bankinn hafi ekki gert athugasemdir við það að forsvarsmenn Skipamiðlunar ehf. hefðu undirritað persónulega og látið svo að fyrri greiðandi bréfsins hefði með þessari áritun samþykkt skuldskeytinguna og skilmálabreytinguna. Kvað hann sjálfskuldaraðila einnig hafa þurft að samþykkja nýja greiðendur og það hefðu þeir einnig gert með þessari áritun. Þeir hefðu hins vegar ekki þurft að samþykkja það sérstaklega þótt nýr sjálfskuldaraðili hafi bæst á bréfið og hefði undirritun þeirra ekki falið í sér samþykki fyrir ábyrgðaryfirlýsingu stefnda Heimis. Pétur Hjaltason, útibússtjóri stefnanda, kom fyrir dóminn og kvað það hafa verið ljóst í sínum huga að áritun stefnda Heimis hafi verið aukin trygging fyrir stefnanda en stefnandi hafi ekki verið að fallast á að leysa stefndu Jóhannes og Eggert undan sjálfskuldarábyrgð sinni, enda væri tekið fram í skjalinu að ákvæði bréfsins héldust að öðru leyti óbreytt. Í stefnu kemur fram að félagið HG Fjárfestingar ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota þann 17. október 2008. Upplýsti Pétur Hjaltason að það hefði fyrirfarist að lýsa kröfu vegna skuldabréfsins í þrotabúið. Stefnandi kveður ofangreint skuldabréf hafa farið í vanskil þann 1. maí 2008 og hafi verið gjaldfellt miðað við þann gjalddaga. Skuldin hafi þá sundurliðast nánar þannig: Eftirstöðvar þess, er bréfið var gjaldfellt þann 1. maí 2008, hafi verið 5.316.734 krónur. Áfallnir samningsvextir hafi þann dag verið 364.330 krónur eða samtals stefnufjárhæðin.
Stefnandi byggir kröfur sínar á reglum samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum númer 7 frá 1936. Einnig vísar hann til vanefndarákvæða skuldabréfsins sjálfs. Þá sé málið rekið skv. 17. kafla laga nr. 91 frá 1991 um meðferð einkamála. Kröfur um dráttarvexti, þar með talda vaxtavexti, styður stefnandi við reglur vaxtalaga nr. 38/2001 og krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafan um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum númer 50/1988 en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Stefnandi vísar til 42. gr. laga nr. 91/1991 um varnarþing.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefndu Jóhannes og Eggert krefjast í fyrsta lagi sýknu á grundvelli aðildarskorts. Þeir hafi verið sjálfskuldaraðilar en sjálfskuldarábyrgð þeirra hafi fallið niður er þeir undirrituðu skuldskeytinguna og skilmálabreytinguna en þar hafi þeir undirritað sem „fyrri skuldarar“. Í dskj. 4 hafi verið kveðið á um breytingu á sjálfskuldarábyrgð og tekið fram að sjálfskuldarábyrgðarmaður verði Heimir Örn Gunnlaugsson. Ekki sé ótvírætt að það sé réttur skilningur stefnanda að Heimir Örn Gunnlaugsson hafi einnig tekið á sig sjálfskuldarábyrgð ásamt stefndu Jóhannesi og Eggerti með undirritun sinni. Kveðast stefndu Jóhannes og Eggert hafa verið lausir við ábyrgð sína eftir að þeir undirrituðu skilmálabreytinguna og hafi stefnandi staðfest það með áritun sinni. Vísa stefnendur í dóm Hæstaréttar nr. 400/2004.
Í öðru lagi er krafist sýknu á þeim grundvelli að stefnandi hafi ekki lýst kröfu í þrotabú núverandi greiðanda skuldabréfsins og hafi kröfuhafi með því glatað rétti sínum gagnvart sjálfskuldarábyrgðarmanni með því að halda ekki fram rétti sínum að skuldara.
Stefndu vísa til 118. gr. 1. mgr. a-liðar laga nr. 91/1991. Krafan um málskostnað er studd við 130., sbr. 129., gr. sömu laga og krafan um virðisaukaskatt á málskostnað er studd við lög nr. 50/1988 en stefndu séu ekki virðisaukaskattsskyldir.
Niðurstaða.
Stefndi Heimir Örn Gunnlaugsson, kt. 190885-3569, hefur ekki látið málið til sín taka fyrir dóminum þrátt fyrir löglega birta stefnu. Verður málið því dómtekið á hann samkvæmt framlögðum gögnum og hann dæmdur til að greiða stefnanda stefnufjárhæð eins og í dómsorði greinir.
Ekki er deilt um efni dskj. 3, skuldabréfsins né stefnufjárhæðina. Þá er því ekki mótmælt af hálfu stefnanda að stefndu Jóhannes og Eggert komi að vörnum í máli þessu og verður það því dæmt að efni til.
Í gögnum málsins liggur fyrir skuldabréf, undirritað af Eggerti Skúla Jóhannessyni fyrir hönd Skipamiðlunar ehf. Upplýst er í málinu og enginn ágreiningur um að stefndu Jóhannes og Eggert áttu og voru forsvarsmenn Skipamiðlunar ehf., þótt engin gögn hafi verið lögð fram þar um. Umrætt skuldabréf er einnig undirritað af stefndu Jóhannesi og Eggerti sem sjálfskuldarábyrgðaraðilum og er ekki ágreiningur um ábyrgð þeirra samkvæmt skuldabréfinu. Ágreiningur aðila snýst í máli þessu um dskj. 4, breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfs ásamt skuldskeytingu nr. 1169-74-010566. Upplýst var fyrir dóminum að stefnandi lét útbúa skjalið. Lögmaður stefndu upplýsti fyrir dóminum að skjalið hefði verið sent sem viðhengi í tölvupósti til stefndu og það undirritað af þeim ásamt stefnda Heimi. Lögmaður stefndu Jóhannesar og Eggerts hafi vottað undirritun aðila og skjalið síðan afhent stefnanda. Í texta skjalsins segir: „Undirritaður HG Fjárfestingar ehf kt. 410807-0680, til heimilis að Snægili 4, 603 Akureyri, lýsi því hér með yfir að ég tek að mér sem nýr skuldari, greiðslu á skuldabréfi útg. 25.09.2007, nr. 1169-74-010566, upphaflega að fjárhæð kr. 5.000.000,- með sjálfskuldaráb. Jóhannesar Eggertssonar kt. 030545-7619 og Eggerts Skúla Jóhannessonar kt. 220368-4329. Einnig heldur Sparisjóðurinn tryggingabréf í Sigurvin skipaskrárnúmer 2293 að fjárhæð upphaflega 7.000.000.- nú 7.243.501.- í uppreikning neysluvísitölu sem tryggingu fyrir láni þessu.
Sparisjóðurinn Suðurlandi samþykkir eftirfarandi breytingar á sjálfskuldaráb. skuldabréfsins sem Skipamiðlun ehf. kt 511104-3190 gaf út hinn 25.09.2007 til Sparisjóðsins, upphaflega að fjárhæð 5.000.000,- ofangreind
· Skilmálabreyting nr. 1.
· Sjálfskuldaráb. verður Heimir Örn Gunnlaugsson kt. 190885-3569.
· Ofangreint tryggingarbréf verði áfram til tryggingar ofanrituðu.
Að öðru leyti haldast ákvæði bréfsins óbreytt.“
Bréfið undirritaði stefndi Heimir Gunnlaugsson „í stjórn“ og einnig sem samþykkur framangreindri breytingu sem sjálfskuldarábyrgðaraðili. Báðar undirritanirnar eru vottaðar af Ólafi Thóroddsen hæstaréttarlögmanni. Þá undirrita stefndu Eggert Skúli Jóhannesson og Jóhannes Eggertsson undir sem samþykkir fyrri skuldarar en Ólafur Thóroddsen rekur mál þetta fyrir þeirra hönd.
Taka verður undir það með stefndu að orðalag skilmálabreytingarinnar, dskj. 4, er óskýrt. Stefndu byggja sýknukröfu sína á að með undirritun sinni á skilmálabreytinguna hafi greiðsluskylda þeirra fallið niður. Stefndu mættu ekki fyrir dóminn né gáfu skýrslu fyrir dóminum. Verður dómurinn því byggður á framkomnum gögnum og vitnisburði stefnanda. Samkvæmt reglum kröfuréttar og viðskiptabréfareglum felur skuldskeyting í sér að nýr skuldari kemur í stað eldri skuldara. Til þess að aðrar ábyrgðir, svo sem ábyrgð sjálfskuldarábyrgðaraðila, gildi áfram þurfa þeir að samþykkja þá breytingu. Í því tilfelli sem hér um ræðir þurfti fyrri greiðandi, Skipamiðlunin ehf., að samþykkja nýjan greiðanda með því að undirrita skuldskeytinguna. Því hefur ekki verið borið við í máli þessu að undirritanir stefndu Jóhannesar og Eggerts, sem fyrri skuldara, hafi ekki verið ígildi undirritunar félagsins en þeir voru báðir í stjórn félagsins og eigendur þess. Stefnandi hefur heldur ekki haldið því fram að skuldskeytingin hafi ekki tekið gildi vegna þessa ágalla. Þá gilda einnig þær reglur um sjálfskuldarábyrgð að ábyrgðaraðilar þurfa að samþykkja að taka á sig áframhaldandi ábyrgð gagnvart nýjum skuldara, eigi ábyrgð þeirra að haldast áfram óbreytt. Verður að líta svo á að með undirritun stefndu Jóhannesar og Eggerts hafi þeir verið að samþykkja nýjan skuldara sem sjálfskuldarábyrgðarmenn. Hafi ábyrgð þeirra átt að falla niður við skuldskeytinguna og skilmálabreytinguna hefði þeirra persónulegu undirritun ekki þurft til. Þá verður að túlka skilmálabreytinguna svo, þar sem annað er ekki tekið fram, að stefndi Heimir Örn Gunnlaugsson hafi einnig tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á fyrrnefndu skuldabréfi. Sá gjörningur leysir aðra sjálfskuldarábyrgðarmenn ekki sjálfkrafa undan ábyrgð þeirra. Hvergi er tekið fram í skilmálabreytingunni að ábyrgð fyrri sjálfskuldarábyrgðarmanna falli niður. Þrátt fyrir að skilmálabreytingin sé óskýr verður, m.a. með vísan til vitnisins Péturs Hjaltasonar, að telja það sannað að ábyrgð stefndu hafi átt að haldast áfram óbreytt. Verður kröfu stefndu Jóhannesar og Eggerts um sýknu á þeim forsendum að þeir séu ekki lengur sjálfskuldaraðilar að ofangreindu skuldabréfi því hafnað. Stefndu byggja sýknukröfu sína einnig á því að ábyrgð þeirra hafi fallið niður þar sem stefnandi hafi ekki lýst kröfu í þrotabú HG fjárfestinga ehf. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar hvílir ekki sérstök tilkynningarskylda á kröfueiganda gagnvart sjálfskuldarábyrgðarmanni, verði vanskil á greiðslu aðalkröfu. Þá tapar kröfueigandi ekki rétti gagnvart sjálfskuldarábyrgðarmanni, þótt hann hafist ekkert að gagnvart aðalskuldara, svo framarlega sem aðalkrafan glatast ekki, s.s. með fyrningu eða tómlæti. Þá tekur dómurinn ekki undir þá málsástæðu stefndu að stefnandi hafi glatað rétti sínum gagnvart stefndu með því að lýsa ekki kröfu í þrotabú greiðanda skuldabréfsins, sbr. dómur Hæstaréttar í málinu nr. 56/1993. Verður kröfu stefndu um sýknu á þeirri forsendu því hafnað.
Stefnandi gerir í stefnu kröfu um að stefndu greiði stefnanda 8.020 krónur í bankakostnað sem sundurliðast þannig: Vanskilakostnaður 7.530 krónur og greiðsluseðlagjald vegna gjalddaga 1. maí 2008 490 krónur. Engin gögn styðja þessa kröfu og verður því ekki dæmt um hana að efni til þar sem hún er vanreifuð. Ber því að vísa henni frá dómi. Að þessum niðurstöðum fengnum verða stefndu allir dæmdir til að greiða stefnanda 5.681.064 krónur auk dráttarvaxta eins og í dómsorði segir. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilegur 255.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Jóhannes Eggertsson, Eggert Skúli Jóhannesson og Heimir Örn Gunnlaugsson, greiði stefnanda, Sparisjóðnum á Suðurlandi, 5.681.064 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. maí 2008 til greiðsludags. Kröfu stefnanda um að stefndu verði gert að greiða honum 8.020 krónur í bankakostnað er vísað frá dómi.
Stefndu greiði stefnanda málskostnað, 255.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.