Hæstiréttur íslands
Mál nr. 199/2000
Lykilorð
- Leigusamningur
- Kaupréttur
- Tómlæti
- Riftun
|
|
Fimmtudaginn 16. nóvember 2000. |
|
Nr. 199/2000. |
Litróf ehf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn H. Pálssyni ehf. (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Leigusamningur. Kaupréttur. Tómlæti. Riftun.
L og H gerðu tvo leigusamninga með kauprétti um viðskipti með tæki og efni til myndvinnslu. Samningarnir kváðu m.a. á um að í lok leigutíma, 31. desember 1995, ætti L að geta keypt tækin af H fyrir 1% af upphaflegu stofnverði tækjanna. Með bréfi, sem L sendi H í byrjun nóvember 1995, lýsti hann því yfir að hann hyggðist nýta kaupsrétt sinn. Engin athugasemd var gerð af hálfu H. Á þessum tíma var L í vanskilum með leigugreiðslur og aðrar greiðslur til H. Uppgjör þessara skulda fór fram vorið 1996. Í kjölfar ósættis milli málsaðila, einkum um efniskaup samkvæmt samningunum, rifti H samningnum 1998 og höfðaði mál til öflunar umráða tækjanna. Héraðsdómur féllst á kröfur H, enda ósannað að í uppgjörinu hefði falist greiðsla á kaupverði tækjanna. Taldi héraðsdómur H ekki hafa glatað rétti fyrir tómlæti þó hann hefði ekki hafist handa um öflun tækjanna fyrr en í desember 1997. Hæstiréttur taldi það ekki stutt neinum haldbærum gögnum að greiðsla kaupverðisins hefði farið fram, en þar sem kaupverðið hefði verið svo óverulegur hluti greiðslna í viðskiptum málsaðila með tækin væri ekki hægt að fallast á kröfu H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 2000. Hann krefst sýknu af öllum kröfum stefnda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá gerir hann kröfu um málskostnað fyrir Hæstarétti.
I.
Ágreiningur málsaðila á rætur að rekja til þess að 5. nóvember 1993 og 1. apríl 1994 gerðu þeir tvo nær samhljóða samninga um viðskipti með tæki og efni til myndvinnslu. Bera þeir báðir fyrirsögnina „Leigusamningur með forkaupsrétti“, en með þeim tók áfrýjandi á leigu nánar tilgreind tæki. Segir í 2. gr. samninganna að leigutíminn sé 24 mánuðir. Hluti leiguverðsins skyldi greiddur strax við undirritun þeirra, en að öðru leyti skyldi það greitt í upphafi hvers mánaðar leigutímans. Í 8. gr. samninganna segir að í lok leigutímans, 31. desember 1995, sé leigutaka heimilt að kaupa tækin fyrir 1% af upphaflega stofnverðinu. Skyldi þá miða við gengisskráningu Seðlabanka Íslands þann dag, sem tilkynnt væri um kaup. Síðan segir í sömu grein fyrri samningsins: „Hafi leigutaki eigi gefið leigusala skriflegt svar hvað varðar kaup, innan 30 (þrjátíu) daga, skal leigusali vera laus frá forkaupsrétti leigutaka. Tilkynningar hvað varðar grein þessa skulu vera gefnar skriflega og á sannanlegan hátt“. Nær samhljóða ákvæði er í síðari samnignum. Þá er í 9. grein samninganna ákvæði, er skuldbindur leigutaka til að kaupa hjá leigusala nánar tilgreint efni til framleiðslu sinnar „á samkeppnisfærum verðum fyrir allt að kr. 2.000.000,oo á ári á meðan þessi samningur er í gildi“. Málavextir eru að öðru leyti nánar raktir í héraðsdómi.
II.
Hinn 10. nóvember 1995 sendi áfrýjandi stefnda bréf þar sem lýst var yfir að hann ætli að nýta sér forkaupsrétt að þeim tækjum, sem tekin voru á leigu með áðurnefndum samningum. Var jafnframt vakin athygli á því í bréfinu að síðasta greiðsla af fyrri samningnum sé 1. desember 1995 og 1. mars 1996 af hinum síðari. Bréfið ber áritun stefnda um móttöku. Ekki liggur fyrir að brugðist hafi verið við þessari yfirlýsingu af hans hálfu á nokkurn hátt fyrr en með bréfi lögmanns hans 1. júlí 1998 þegar vefengt var að áfrýjandi ætti þann rétt, sem í yfirlýsingunni fólst. Hafði áfrýjandi tækin áfram í vörslum sínum eftir lok leigutímans.
Þegar áðurnefnd yfirlýsing var gefin var áfrýjandi í vanskilum með leigugreiðslur af umræddum tækjum og greiðslur vegna efniskaupa af stefnda. Uppgjör þessara skulda áfrýjanda fór hins vegar fram í mars og maí 1996 með útgáfu þriggja víxla og skuldabréfs til stefnda. Með útgáfu skuldabréfsins var nær öll skuld áfrýjanda á viðskiptamannareikningi hjá stefnda gerð upp.
Tilkynning áfrýjanda 10. nóvember 1995 fól í sér ákvöð gagnvart stefnda um að hinn fyrrnefndi nýtti sér samningsbundinn kauprétt sinn. Hafi stefndi talið að áfrýjandi hafi glatað þessum rétti vegna vanskila sinna bar honum að gera viðvart um það innan hæfilegs tíma frá móttöku yfirlýsingarinnar. Með því að engin athugasemd var gerð fyrr en löngu síðar og vanskil áfrýjanda voru gerð upp í kjölfar yfirlýsingar hans hefur stefndi firrt sig rétti til að bera fyrir sig þau vanskil áfrýjanda, sem að framan er getið. Engu máli getur heldur skipt að leigutíminn var ekki alveg liðinn þegar yfirlýsingin var gefin. Hafði áfrýjandi réttmæta ástæðu til að ætla stefnda vera samþykkan kaupunum.
Stefndi vefengir einnig rétt áfrýjanda til að neyta kaupréttarins með vísan til þess að hinn síðarnefndi hafi vanefnt skyldur samkvæmt 9. gr. samninganna um að kaupa efni til framleiðslu sinnar af stefnda. Samningarnir hafi kveðið á um skyldu áfrýjanda til að kaupa efni fyrir samtals allt að 8.000.000 krónur á samningstímanum. Viðskiptin hafi hins vegar einungis orðið fyrir 2.509.430 krónur og í því felist veruleg vanefnd. Áfrýjandi mótmælir að í samningunum hafi falist skylda til að kaupa fyrir tiltekna fjárhæð, heldur beri að skýra 9. gr. þeirra sem stefnuyfirlýsingu án beinnar skuldbindingar. Að auki hafi áfrýjandi átt kost á að kaupa sams konar vöru annars staðar fyrir lægra verð en stefndi bauð. Einnig af þeirri ástæðu geti ekki falist vanefnd í því af hans hálfu að viðskipti með efni til framleiðslu urðu ekki meiri en raun varð á.
Samningarnir bera ekki með sér að kaup áfrýjanda á efni samkvæmt 9. gr. þeirra feli í sér greiðslu á hluta leiguverðs fyrir tæki, sem um er fjallað í 2. gr. samninganna og að framan er getið. Ekki hefur heldur verið skotið neinum stoðum undir að leiguverðið hafi orðið lægra en vænta mátti eða eðlilegt gat talist sakir þess að hluti endurgjalds til stefnda fyrir tækin skyldi koma með efniskaupum samkvæmt 9. gr. samninganna. Með því að ekki er sýnt fram á þau tengsl milli leigufjárhæðar fyrir tækin og efniskaupa, sem stefndi heldur fram, er þessi málsástæða hans haldlaus. Reynir þá ekki sérstaklega á hvernig skýra skuli nánar hvað felist í orðum 9. gr. samninganna um kaup á „samkeppnisfærum verðum“ fyrir „allt að“ 2.000.000 krónur á ári.
III.
Af hálfu áfrýjanda er á því byggt að tækin séu þegar greidd. Hann hafi óskað eftir upplýsingum frá stefnda um heildarskuld sína og á grundvelli slíkra upplýsinga hafi málsaðilar gengið til þess skuldauppgjörs á árinu 1996, sem getið er í II. kafla að framan. Kveðst áfrýjandi hafa talið að í því uppgjöri hafi falist greiðsla samningsbundins kaupverðs tækjanna, enda hafi hann óskað eftir upplýsingum um heildarskuld sína. Í bréfi lögmanns stefnda 8. júlí 1998 til lögmanns áfrýjanda var bent á að kaupverð tækjanna hafi ekki verið gert upp. Var jafnframt tekið fram að þrátt fyrir að áfrýjandi ætti ekki kauprétt á tækjunum væri stefndi reiðubúinn að gefa honum kost á að kaupa tækin, sem eldri samningurin næði til, enda yrði greitt innan tilsetts tíma. Með bréfi lögmanns áfrýjanda 28. júlí 1998 var hafnað með öllu að greiða, enda hafi allar eftirstöðvar beggja leigusamninganna verið gerðar upp í maí 1996, þar með talið kaupverð tækjanna. Hvað sem öðru líði sé krafa um greiðslu fallin niður fyrir tómlæti auk þess sem ekki hafi borist reikningur frá stefnda fyrir þessum greiðslum.
Meðal málsgagna er yfirlit yfir viðskipti áfrýjanda hjá stefnda á árinu 1995 og fram til þess tíma er skuldauppgjör fór fram 1996. Hefur því ekki verið mótmælt sem röngu. Kaupverðs tækjanna er ekki getið þar og áfrýjanda var ekki gerður sérstakur reikningur fyrir þau. Hefur áfrýjandi ekki stutt neinum haldbærum gögnum að hann hafi greitt fyrir umrædd tæki og var synjun hans um greiðslu óréttmæt. Kaupverð þeirra telst hins vegar vera óverulegur hluti greiðslna í viðskiptum málsaðila með tækin og gat yfirlýsing stefnda um riftun í kjölfar synjunar áfrýjanda því ekki veitt honum þann rétt, sem hann krefst í málinu.
Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða málsins sú að krafa stefnda verður ekki tekin til greina. Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Litróf ehf., er sýkn af kröfum stefnda, H. Pálssonar ehf.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2000.
Má þetta, sem dómtekið var 6. janúar sl., ef höfðað af H. Pálssyni ehf., Bolholti 6, Reykjavík gegn Litrófi hf., Sóltúni 24, Reykjavík.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda félag verði dæmt til þess að veita stefnanda umráð tækja framleidd af Crosfield Electronics, tengibúnaður við litgreiningarskanna, MagnaLink2 raðnúmer framleiðanda EUIS04312 annars vegar og uppfærsla á tengibúnaði við litgreiningarskanna til útkeyrslu, MagnaLink2 to MagnaRIP Plus Upgrade raðnúmer framleiðanda EUSI05028/1 04716 hins vegar.
Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Málavextir
Málavextir eru þeir að aðilar málsins hafa um nokkurt skeið átt í viðskiptum með tæki og efni til myndvinnslu. Þann 13. október 1993 sendi fyrirsvarsmaður stefnda bréf til stefnanda þar sem tillaga var gerð að samningi milli þeirra og Crosfield Electronics um kaup á ákveðnum tækjum. Tækin skyldu að hluta greidd með skuldabréfi til þriggja ára en einnig myndi stefndi fá tæki á kaupleigu frá stefnanda og skyldi sá samningur tengdur efniskaupum stefnda af stefnanda, þ.e. kaupum á skannerfilmu. Einnig voru lagðar til lausnir á eldri ágreiningi aðila og tekið fram að ef sátt næðist myndi stefndi styðja stefnanda við efnissölu með því að miðla jákvæðum upplýsingum til samstarfsaðila sinna um vörur frá stefnanda. Ekki tókust samningar um þau tæki sem rætt var um í þessu bréfi.
Aðilar málsins gerðu síðar með sér tvo nær samhljóða samninga, sá fyrri er undirritaður þann 5. nóvember 1993 en hinn síðari þann 1. apríl 1994 og bera þeir báðir fyrirsögnina “Leigusamningur með forkaupsrétti.”
Með samningunum leigir stefnandi stefnda hin umdeildu tæki, MagnaLink 2 og MagnaLink 2 to MagnaRIP Plus Upgrade frá Crosfield Electronics. Í 2. gr. samningana segir að við samningsgerðina greiðist ákveðin föst tala, 29.000 sterlingspund í öðru tilvikinu en 10.000 sterlingspund í hinu. Eftirstöðvar skulu greiddar með jöfnum, mánaðarlegum leigugreiðslum í 24 mánuði, frá 1. janúar 1994 samkvæmt fyrri samningnum en frá 1. apríl 1994 samkvæmt síðari samningnum.
Í 4. mgr. 2. gr. samninganna eru ákvæði um skyldu leigutaka til útgáfu tryggingarbréfs fyrir heildarupphæð samninganna, til tryggingar áfallalausum og samfelldum greiðslum til fullnaðarefnda þeirra, tryggðu með 1. veðrétti í tækjum í eigu stefnda. Umrædd tryggingabréf liggja frammi í málinu, hið fyrra þinglýst þ. 12. janúar 1994 og hið síðara þinglýst þ. 4. október 1994. Fram er komið í málinu að fjárhæð hvors bréfs fyrir sig er í samræmi við ákvæði viðeigandi samnings um stofnverð. Í næstu málsgrein eru síðan ákvæði um rétt leigusala, sem jafnframt er tilgreindur eigandi hinna leigðu tækja, til að taka þau til sín auk þess að ganga að áðurnefndum greiðslutryggingum komi til riftunar eða ógildingar samninganna vegna greiðslufalls eða annarra vanefnda stefnda sem leigutaka.
Í 8. gr. samninganna er kveðið á um heimild leigutaka til að kaupa hin leigðu tæki að samningstíma loknum fyrir 1% af upphaflegu stofnverði sem var í fyrri samningnum 24.000 sterlingspund en 29.000 sterlingspund í hinum síðari, eins og áður segir. Í seinni málsgrein sömu greinar er sagt að hafi leigutaki ekki gefið leigusala skriflegt svar um kaup innan 30 daga þá skuli leigusali vera laus frá forkaupsrétti leigutaka. Tilkynningar varðandi greinina skyldu gefnar skriflega og á sannanlegan hátt.
Í 9. gr. beggja samninganna er síðan ákvæði þar sem leigutaki, stefndi í máli þessu, skuldbindur sig til að kaupa ákveðnar rekstrarvörur hjá stefnanda á samningstímanum á samkeppnisfærum verðum fyrir allt að 2.000.000 króna á ári meðan samningarnir eru í gildi.
Stefnandi heldur því fram að fyrstu mánuði samningstímans hafi stefndi keypt lítið sem ekkert af filmum, framköllunarefni og plötum. Hafi stefnandi kvartað yfir þessu og hafi nokkrir fundir verið haldnir vegna þessa og bréf sent 2. nóvember 1994 þar sem hótað var riftun samninga ef ekki yrði bætt úr vanefndunum. Stefndi hafi upp úr þessu farið að kaupa vörur af stefnanda um nokkurt skeið. Viðskiptin hafi verið í reikning og hafi veruleg skuld hlaðist upp bæði vegna kaupa á rekstrarvörum og einnig vegna vangreidds leigugjalds af tækjum.
Með bréfi 10. nóvember 1995 tilkynnti stefndi að hann ætlaði að nýta samningsbundinn rétt sinn til kaupa á tækjunum. Tekið var fram í bréfinu að síðasta greiðsla vegna fyrri samningsins skyldi fara fram 1. desember 1995 og vegna síðari samningsins 1. mars 1996. Stefndi kveður engin skrifleg svör hafa borist vegna tilkynningar hans, þrátt fyrir samningsbundin ákvæði þar að lútandi. Þá hafi stefnda aldrei verið sendur reikningur vegna kaupa hans.
Stefnandi heldur því hins vegar fram í þessu sambandi að þegar tilkynning stefnda var send hafi leigugreiðslum ekki verið lokið og hún því ekki tímabær. Jafnframt að eftir að leigugreiðslum var lokið hafi stefndi ekkert aðhafst til þess að kaupa tækin. Stefnandi hafi auk þess ekki talið sig skuldbundinn að selja tækin fyrr en önnur ákvæði samninganna hefðu verið uppfyllt
Á vormánuðum 1996 hafði stefndi safnað upp skuld hjá stefnanda vegna vöruúttekta og leigugreiðslna og í maí 1996 fór fram uppgjör milli aðilanna. Var skuldin gerð upp með þremur víxlum og VISA skuldabréfi. Stefnandi kveður viðskiptabréf þessi ekki hafa verið greiðslu á kaupverði tækjanna enda hafi stefnandi ekki gefið út reikning fyrir kaupverðinu. Stefndi heldur því hins vegar fram að uppgjörið hafi náð til eftirstöðva af leigugreiðslum, reikningsskulda vegna vörukaupa sem og til greiðslu á 1% af stofnverði tengibúnaðarins í samræmi við tilkynningu stefnda um kaup hans á tækinu.
Á skuldabréfið var ritað til skýringar að það væri gefið út vegna efniskaupa. Greinir aðila á um þýðingu þessa. Stefndi heldur því fram að þessi skýring hafi ekki haft neina sérstaka þýðingu í samskipum aðila en stefnandi heldur því fram að þetta hafi haft beina þýðingu.
Með bréfi, dags. 29. október 1997 ítrekaði stefnandi að stefndi hefði ekki uppfyllt samningsskyldur sínar um kaup á rekstrarvörum. Í bréfinu segir einnig: ”Samkvæmt ábendingu frá endurskoðendum okkar eru tæki, sem að þið leigið af okkur samkvæmt samningi gerðum 5. nóvember 1993, enn í bókum okkar.”
Með bréfi, dags. 24. nóvember 1997 lagði stefnandi fram tillögu að lausn málsins.
Með bréfi, dags. 1. desember 1997 mótmælti stefndi fullyrðingum stefnanda um vanefndir af hálfu stefnda og setti fram þá athugasemd að verð stefnanda hefðu verið verulega hærri en hjá samkeppnisaðilum hans., sbr. ákvæði samninganna um skyldu stefnda til að kaupa vörur af stefnanda á samkeppnishæfum verðum.
Með bréfi, dags.11. desember 1997, vísar stefnandi til fundar aðila og fer fram á að sér verði send gögn um áætlaða vörunotkun stefnda og þau verð sem honum bjóðist hjá öðrum en stefnanda miðað við magn og gæði, til þess að geta skoðað sína stöðu og séð hvort hann geti boðið samkeppnishæf verð.
Bréfaskipti aðila eftir þetta fara í gegnum lögmenn þeirra. Þann 28. maí 1998 sendir lögmaður stefnanda stefnda bréf þar sem hann mótmælir fullyrðingum stefnda um að honum hafi ekki boðist vörur á samkeppnishæfu verði. Þessu bréfi er svarað af hálfu stefnda með bréfi lögmanns hans, dags. 23. júní 1998, þar sem ítrekað er að stefnandi hafi ekki boðið samkeppnishæf verð og lagðir fram reikningar frá samkeppnisaðilum stefnanda sem sýna eiga fram á það. Í bréfi lögmanns stefnanda frá 1. júlí 1998 er krafist afhendingar hinna umdeildu tækja þar sem stefndi hafi ekki keypt þau í samræmi við tilkynningu sína. Þessu mótmælir lögmaður stefnda með bréfi 3. júlí 1998 og segir kaup hafa farið fram á sínum tíma í samræmi við tilkynningu.
Fleiri bréf á svipuðum nótum ganga milli aðila og með bréfi þann 12. janúar lýsir stefnandi yfir riftun á kaupum á hinum umdeildu tækjum og vísað til brostinna forsendna vegna vanefnda stefnda á greiðslu skv. 8. gr. samninganna og kaupum skv. 9. gr. Riftun stefnanda er mótmælt með bréfi stefnda frá 13. janúar 1999.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar um umráð MagnaLink2 og MagnaLink2 to MagnaRIP Plus Upgrade á því að hann sé eigandi tækjanna. Tækin hafi verið leigð stefnda með forkaupsrétti, með samningum dagsettum 5. nóvember 1993 og 1. apríl 1994, en stefndi hafi ekki nýtt sér forkaupsréttinn né stefnandi afsalað sér tækjunum. Krafa stefnanda um endurheimtu tækjanna byggist því á beinum eignarétti. Tímabundinn réttur stefnanda til að hafa tækin í sínum vörslum sé fallinn niður.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki uppfyllt ákvæði greinar 8 í samningunum með því að greiða 1% af upphaflegu stofnverði tækjanna. Stefndi hafi lýst því yfir að hann hygðist nýta sér forkaupsréttinn áður en réttur tími slíkrar yfirlýsingar væri kominn. Þegar samningstíminn hafi verið liðinn hafi stefndi ekki aðhafst neitt og sýnt af sér algert tómlæti. Öll uppgjör sem hafi átt sér stað milli stefnanda og stefnda, eftir að samningstímanum lauk, hafi varðað ógreiddar rekstrarvörur eingöngu eins og reikningsyfirlit beri með sér.
Séu fullyrðingar stefnda því rangar sem gangi í þá átt að kaupverð tækjanna hafi verið innifalið í skuldabréfi útgefnu 9. apríl 1996. Bent sé á að á skuldabréfið sé ritað "Efniskaup".
Sökum þessa tómlætis stefnda hafi hann glatað rétti sínum til að nýta sér forkaupsrétt greinar 8 í samningunum.
Stefnandi byggir og á því að stefndi hafi vanefnt grein 9 í umræddum samningum.
Samkvæmt ákvæðunum skyldi stefndi kaupa filmur, framköllunarefni og plötur af stefnanda fyrir 4.000.000 krónur á ári í tvö ár eða samtals fyrir 8.000.000 krónur. Stefndi hafi einungis keypt umræddar vörur fyrir 2.509.430 krónur á samningstímanum og sé því um verulega vanefnd að ræða. Óumdeilt sé að stefndi hafi beint viðskiptum sínum að mestu leyti til keppinauta stefnanda.
Stefnandi hafi boðið stefnda verð sem fyllilega hafi verið samkeppnisfær við þau verð sem viðgengust á markaðnum á þessum tíma, sé tekið mið af gæðum varanna og að um reikningsviðskipti var að ræða og staðgreiðsluafsláttur ekki veittur. Stefndi hafi gengist undir þá skyldu að beina viðskiptum sínum til stefnanda og beri honum að sanna að verð stefnanda séu ekki samkeppnisfær, vilji hann hliðra sér undan þeirri skyldu. Hafi stefndi talið að verð stefnanda væru ekki samkeppnisfær, hafi hann sýnt af sér gríðarlegt tómlæti í að koma kvörtunum sínum á framfæri. Ekki hafi verið kvartað undan verðum stefnanda fyrr en í bréfi l. desember 1997.
Stefnandi telur stefnda ekki hafa lagt fram fullnægjandi gögn til stuðnings fullyrðingum sínum um of há verð stefnanda og því verði að líta á þær sem ósannaðar.
Sökum vanefnda stefnda á grein 9 í samningunum hafi stefnanda ekki verið skylt að selja honum hin leigðu tæki í lok samningstímans. Stefnandi hafi því verið laus undan greinum 8 í samningunum. Að svo miklu leyti sem stefndi hefði getað byggt einhvern rétt á samningunum hafi sá réttur fallið niður með riftun stefnanda þann 12. janúar 1999.
Samkvæmt samningunum hafi stefndi leigt umrædd tæki af stefnanda um tiltekinn tíma. Þar sem samningarnir séu útrunnir og fallnir niður fyrir vanefndir og riftun sé afnotaréttur stefnda einnig niður fallinn. Um leið og afnotarétturinn hafri fallið niður hafi stofnast réttur eiganda til endurheimtu (vindicatio) tækjanna. Auk þess sé skýrt kveðið á um það í lokamálsgrein 2. gr. samninganna að komi til riftunar eða ógildingar samninganna vegna greiðslufalls eða annarra vanefnda af hálfu stefnda, viðurkenni hann rétt stefnanda til að taka tækin, hvar sem þau séu niðurkomin, án innsetningargerðar. Eigi réttur stefnanda til umráða tækjanna sér því bæði stoð í reglum eignaréttar um lögvernd eignaréttinda og í samningi aðila.
Um afleiðingar tómlætis á forkaupsrétt er vísað til almennra reglna kröfuréttar um tómlæti. Um riftunarheimild seljanda vegna greiðsludráttar kaupanda er vísað til reglna kauparéttar og laga um lausafjárkaup nr. 39/1922, einkum 28. gr. Um riftunarheimild vegna vanefnda á rekstrarvörukaupum er vísað til almennra reglna kröfuréttar um riftun. Um endurheimtu (vindicatio) lausafjár er vísað til reglna eignaréttar um lögvernd eignarréttinda. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991
Málsástæður stefnda og lagarök
Sýknukrafa stefnda byggist á því að stefnandi hafi ekki lögvarinn rétt til að krefjast umráða yfir tækjunum.
Í fyrsta lagi er sýknukrafan reist á því, að stefndi hafi þegar efnt samninga við stefnanda, dags. 5. nóvember 1993 og 1. apríl 1994, bæði hvað varðar 2. gr. samninganna um greiðslur fyrir tækin, 8. gr. samninganna um greiðslur vegna tilkynningar um kaup á tækjunum, sem og 9. gr. samninganna um kaup á vörum á samkeppnishæfu verði. Óumdeilt sé að greiðsluskylda samkvæmt 2. gr. samninganna hafi verið efnd að fullu. Þá hafi greiðslur vegna tilkynningar um kaup á tækjunum farið fram með heildaruppgjöri aðila vegna beggja samninga með skuldabréfi, dags. 22. maí 1996. Stefnandi hafi fyrst sett fram fullyrðingar um annað með bréfi, dags. l. júlí 1998, þegar ljóst mátti vera að ekki yrði leyst úr ágreiningi aðila um skyldu stefnda til vörukaupa eftir samningunum. Fullyrðingar stefnanda nú um að ekki hafi farið fram heildaruppgjör vegna samninganna með útgáfu skuldabréfs, dags. 22. maí 1996, styðjist ekki við gögn málsins og þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á hvernig skuldabréfinu var ráðstafað.
Þegar stefnandi setti fram þá fullyrðingu, að kaup hefðu ekki tekist á tækjunum og að greiðslur hefðu ekki farið fram vegna þessa, 2 árum og 1 mánuði eftir uppgjör aðila, hafi hún komið stefnda í opna skjöldu. Fram til þess tíma og til þess dags, hafi enginn reikningur verið sendur stefnda vegna þessara lokagreiðslna, þá hafi verið um óverulegan hluta af heildarfjárhæð samningsins að ræða og því alls engin ástæða til að gera sérstakan samning um lokagreiðslur þegar heildaruppgjör aðila fór fram í maí 1996.
Hafi stefnandi talið að kaup hefðu ekki tekist og að greiðslur hefðu ekki verið inntar af hendi á þeim tíma sem heildaruppgjör fór fram, hafi honum boriðað aðhafast í málinu án ástæðulauss dráttar í samræmi við reglur laga um lausafjárkaup nr. 39/1922 um verslunarkaup, sem mæli endurtekið fyrir um skyldu viðskiptaaðila til að bregðast við drætti án óþarfa tafa, að viðlögðum missi réttinda.
Fullyrðingar stefnanda þess efnis að stefnda hafi verið skylt að kaupa vörur fyrir 4 milljónir á ári á gildistíma samningsins séu rangar svo sem ákvæði samninganna þar að lútandi beri með sér, sbr. sérstaklega tryggingarbréf sem gefið var út 7. apríl 1994 til tryggingar heildarfjárhæð síðari samningsins samkvæmt skýrum ákvæðum samninganna þar að lútandi. Þá sé kaupskylda stefnanda einungis bundin við að kaupa vörur á samkeppnisfærum verðum. Gögn málsins sýni að vöruverð hjá stefnanda hafi ekki verið samkeppnisfær. Stefnda hafi ekki borið að grípa til neinna aðgerða þegar ljóst var að vörur hjá stefnda hafi ekki verið á samkeppnisfæru verði, enda kveði ákvæði samningsins ekki á um það. Óumdeilt sé að stefndi hafi keypt vörur af stefnanda á gildistíma samninganna, samtals fyrir 2.509.430 krónur og því hafi hann efnt samningana réttilega.
Stefndi hafi lýst því yfir með sannanlegum hætti að hann hefði ákveðið að kaupa tækin í samræmi við samningsbundinn rétt sinn, sbr. bréf hans dags. 10. nóvember 1995.
Tilkynningin hafi verið send í samræmi við ákvæði samninganna, bæði hvað varðar þann tíma sem hún var send og form. Engar athugasemdir hafi borist vegna tilkynningarinnar, eða vegna greiðslna skv. 8. gr. samninganna, fyrr en með bréfi stefnanda, dags. l. júlí 1998, um 2 árum og 8 mánuðum eftir dags. tilkynningar og rúmlega 2 árum og 1 mánuði eftir uppgjör aðila vegna samninganna. Þar sem stefnandi hreyfði ekki andmælum vegna tilkynningarinnar hafi stefndi mátt treysta því að stefnandi væri samþykkur því að hann keypti tækin. Þá mátti stefndi treysta því að heildaruppgjöri aðila vegna 8. gr. samninganna væri lokið þar sem stefnandi gerði engar athugasemdir við þann þátt eða sendi stefnda sérstakan reikning vegna þessara greiðslna. Svo sem ákvæði 2. og 8. gr. samninganna bera með sér hafði stefnandi með greiðslum sínum vegna þeirra ákvæða greitt fyrir tækin að fullu.
Samkvæmt framansögðu megi ljóst vera að stefndi hefur staðið við sinn hluta samninga hans við stefnda. Hann hafi greitt kaupverð tækjanna að fullu og þá hafi hann neytt kaupréttar síns með réttum hætti. Hann sé því réttur eigandi þeirra tækja sem stefnandi krefjist umráðaréttar yfir og því geti ekki verið um brigðarétt stefnanda að ræða.
Verði eigi talið, að stefndi hafi efnt greiðsluskyldu samkvæmt ákvæðum samninganna, byggist sýknukrafan í öðru lagi á því, að stefnandi hafi með tómlæti sínu fyrirgert rétti sínum til að krefjast umráða yfir tækjunum, enda hafi liðið rúmlega 2 ár og 1 mánuður frá því að heildaruppgjöri vegna samninganna lauk og þar til stefnandi setti fram þá fullyrðingu að greiðsla hefði ekki farið fram á grundvelli 8. gr. samninganna. Þá hafi liðið um l ár og 5 mánuðir frá því að uppgjöri aðila lauk og þar til stefnandi krafðist þess að stefndi keypti vörur af fyrirtækinu í samræmi við fullyrðingar stefnanda um efni samningsins. Hér sé um verulegt tómlæti að ræða af hálfu stefnanda sem leiði til þess að sá réttur sem hann kunni að hafa átt sé nú niður fallinn í samræmi við ákvæði 32. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922, sbr. enn fremur það sem fram komi hér að ofan um skyldu stefnanda til að bregðast við án óþarfa tafa vegna hvers kyns dráttar.
Verði eigi talið að stefnandi hafi glatað rétti sínum til að krefjast umráða yfir tækjunum vegna tómlætis byggir stefndi í þriðja lagi á því að brigðakrafa stefnanda verði ekki viðurkennd, þar sem stefndi hafi efnt samninga við stefnanda að verulegu leyti. Krafa stefnanda um umráð yfir tækjunum geti einungis komið í kjölfar réttmætrar riftunar eða ógildingar samninganna. Almennt skilyrði riftunar er að um verulegar vanefndir sé að ræða. Það skilyrði sé ekki uppfyllt.
Hér beri að hafa í huga að greiðslur vegna tilkynningar um kaup á tækjunum skulu einungis nema jafnvirði 240 sterlingspunda miðað við gengisskráningu Seðlabanka Íslands á dags. tilkynningar, sbr. ákvæði 8. gr. samninganna. Heildarfjárhæðin vegna beggja samninga sé því einungis 48.792 krónur og sé aðeins um lítið brot að ræða af heildarfjárhæðum samningana eða 1 % af stofnverði tengibúnaðarins vegna hvors samnings um sig. Þá hafi stefndi greitt verð tækjanna að fullu, sbr. umsamið verð þeirra í 2. gr. samninganna. Allar fullyrðingar stefnanda um að hér sé einungis um leiguverð að ræða séu rangar. Verði því ekki talið að skilyrði riftunar og þar af leiðandi brigðaréttar séu fyrir hendi.
Stefndi, Litróf ehf., byggir mál sitt á meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og almennum reglum kröfuréttar um tómlætisáhrif og skilyrði riftunar. Þá er vísað til almennra reglna eignaréttar um brigðakröfur og meginreglna kauparéttar. Enn fremur er vísað til 3. mgr. 21. gr., 26. gr. og 27. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922 með lögjöfnun, sem og 32. gr. sömu laga. Málskostnaðarkrafan styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Niðurstaða
Samkvæmt efni sínu voru samningar þeir er málsaðilar gerðu með sér 5. nóvember 1993 og 1. apríl 1994 ekki kaupsamningar heldur leigusamningar með forkaupsrétti. Er stefnandi í samningunum tilgreindur sem leigusali en stefndi leigutaki. Ljóst er af skýru orðalagi í samningum aðila að stefnandi er eigandi hinna umdeildu tækja við samningsgerð og á samningstímanum. Í 8. gr. samninganna er hins vegar ákvæði er heimilar leigutaka, stefnda, að kaupa tækin sem nefnd eru í 1. gr. samninganna á 1% af upphaflegu stofnverði. Innan 30 daga frá lokum samningstíma skyldi leigutaki gefa leigusala skriflegt svar hvað varðar kaup. Ef hann gerði það ekki skyldi leigusali vera laus frá forkaupsrétti leigutaka.
Fyrir liggur að stefndi tilkynnti með bréfi, dags. 10. nóvember 1995, að hann hygðist nýta sér forkaupsrétt á tækjunum, eða áður en samningstíma lauk, samkvæmt 8. gr. samninganna, en samningstíma samninganna beggja skyldi lokið 31. desember 1995. Hins vegar var þessari yfirlýsingu ekki fylgt eftir af hálfu stefnda á þeim tíma og engin tilraun gerð af hans hálfu til þess að greiða kaupverð tækjanna, eða 1% upphafslegs stofnverðs, eða fá kaupin skjalfest með einhverjum hætti. Fyrir liggur einnig að á þessum tíma var stefndi í skuld við stefnanda bæði vegna leigugreiðslna og kaupa á vörum hjá stefnanda en telja verður, eðli máls samkvæmt, að slíkur kaupréttur, sem hér um ræðir, verði ekki virkur nema samningur sé efndur af leigutaka.
Stefndi heldur því fram að hann hafi efnt umrædda samninga hvað varðar greiðslur fyrir tækin og 9. gr. samninganna um kaup á vörum á samkeppnishæfu verði.
Fram er komið að uppgjör fór fram milli aðila vorið 1996, m.a. með VISA skuldabréfi, eins og áður er rakið. Engin gögn liggja fyrir í málinu er sýni fram á að í þessu uppgjöri hafi falist greiðsla vegna kaupverðs tækjanna, eða greiðsla á svonefndu hrakvirði. Samkvæmt framburði Ernu Arnar og Sigdísar Sigmundsdóttur, starfsmanna stefnanda, var hrakvirðið ekki greitt og enginn reikningur gefinn út vegna þessa. Þá kom fram í framburði Aðalsteins Örnólfssonar, sem á þessum tíma sá um fjármál í fyrirtæki stefnda, að hann teldi sig hafa verið að gera upp allar skuldir stefnda, hann hefði beðið stefnanda um upplýsingar um þær. Hins vegar kom fram að honum var ekki kunnugt um umdeilda leigusamninga.
Samkvæmt framansögðu telst ósannað að hrakvirði tækjanna hafi verið greitt og eignaréttur yfir þeim hafi færst yfir til stefnda.
Samkvæmt 9. gr. samninganna skuldbatt leigutaki sig til þess að kaupa filmu-, framköllunarefni og plötur hjá leigusala á samningstímanum á samkeppnisfærum verðum fyrir allt að 2.000.0000 króna á ári meðan samningur væri í gildi, eða fyrir allt að 4.000.000 króna samkvæmt báðum samningunum.
Þegar litið er til orðalags samninganna um að leigutaki skuldbindi sig til þess að kaupa vörur fyrir allt að tveimur milljónum króna verður, samkvæmt orðanna hljóðan, að líta svo á stefndi hafi skuldbundið sig til þess að kaupa vörur af stefnanda fyrir fjárhæð sem geti numið allt að tveimur milljónum króna, samkvæmt hvorum samningi. Hins vegar verður ekki litið svo að þarna sé tilgreind einhver lágmarksfjárhæð og geti umsamin vörukaup því numið frá einni krónu allt að fjórum milljónum. Er því ekki fallist á að stefndi hafi vanefnt þetta ákvæði samningsins, en fram er komið að stefndi keypti vörur af stefnanda fyrir um það bil tvær og hálfa milljón.
Eins og að framan er getið var, samkvæmt 8. gr. samninganna, samningstíma lokið 31. desember 1995. Verður því að líta svo á að réttindi og skyldur samkvæmt fyrri samningnum hafi verið niður fallin eftir þann tíma og seinni samningsins a.m.k eftir 1. apríl 1996, en síðustu leigugreiðslu samkvæmt seinni samningnum skyldi greiða 1. mars 1996. Var því engin þörf á því að lýsa yfir riftun í byrjun árs 1999, þar sem samningurinn var í raun úr gildi fallinn.
Eins og að framan er rakið hefur stefndi ekki sýnt fram á að eignaréttur tækjanna hafi flust yfir til hans. Stefnandi telst því eigandi hinna umdeildu tækja. Enda þótt langur tími hafi liðið frá því að samningstíma lauk þar til stefnandi setti fram kröfu um afhendingu tækjanna verður ekki litið svo á að eignaréttur hans að tækjunum sé fallinn niður fyrir tómlæti. Verða kröfur hans í málinu því teknar til greina.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 200.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Litróf hf., veiti stefnanda, H. Pálssyni ehf., umráð tækja framleidd af Crosfield Electronics, tengibúnaður við litgreiningarskanna, MagnaLink2 raðnúmer framleiðanda EUIS04312 annars vegar og uppfærsla á tengibúnaði við litgreiningarskanna til útkeyrslu, MagnaLink2 to MagnaRIP Plus Upgrade raðnúmer framleiðanda EUSI05028/1 04716 hins vegar.
Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.