Hæstiréttur íslands

Mál nr. 575/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Föstudaginn 29. ágúst 2014.

Nr. 575/2014.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Hafnað var kröfu ákæruvaldsins um að X yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. ágúst 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. ágúst 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 24. september 2014.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Að virtum gögnum málsins verður fallist á það með héraðsdómi að sóknaraðili hafi ekki leitt í ljós að fullnægt sé skilyrðum til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. ágúst 2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að kærða, X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 24. september 2014, kl. 16:00.

Kærði hefur mótmælt kröfu lögreglustjóra og krefst þess að henni verði hafnað.

I

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að embættið hafi nú til rannsóknar mál er varði meinta frelsissviptingu, ólögmæta nauðung, hótanir og líkamsmeiðingar gegn brotaþola, A. Brotaþoli hafi 6. ágúst sl. komið á lögreglustöðina í [...] og tilkynnt lögreglu að hann hefði orðið fyrir líkamsárás af hendi kærða. Brotaþoli hafi verið í mikilli geðshræringu og ekki verið skýrsluhæfur að mati lögreglu. Lögregla hafi flutt hann á slysadeild þar sem læknir hafi tekið á móti honum. Hefur lögreglustjóri eftir lækninum að brotaþoli hafi greint honum svo frá að hann hefði verið tekinn af nokkrum mönnum og honum haldið föngnum í sex til átta klukkustundir. Mennirnir hefðu síðan beitt brotaþola margháttuðu ofbeldi. Að sögn læknisins hafi brotaþoli verið með litla rauða bletti á líkamanum sem komið geti saman við frásögn hans um að beitt hafi verið rafbyssu. Þá hafi hann verið með marblett við vinstri auga, roða yfir andliti, rauða dökka rák á hálsi og marga blóðbletti. Þá hafi hann einnig verið með margar rauðar rákir víða um bakið eftir högg eða núning.

Hinn 11. ágúst hafi brotaþoli komið til skýrslutöku hjá lögreglu og lagt fram kæru í málinu. Hann hafi greint svo frá að aðili að nafni Y hefði tekið hann upp í leigubíl og síðan látið aka með hann suður í [...] á [...] til að ræða við kærða. Er brotaþoli hefði gengið inn í húsið í [...] hefði hann strax verið kýldur nokkrum sinnum í andlitið. Í kjölfarið hefði hann verið pyntaður í marga klukkutíma. Er í kröfu lögreglustjóra lýst margháttuðu ofbeldi sem brotaþoli hafi greint lögreglu frá að hann hefði sætt. Þá hefði kærði greint brotaþola frá atburði sem hann hefði sagt hafa leitt til þess að brotaþola bæri að greiða honum hálfa milljón króna, sem væri ástæða frelsissviptingarinnar og líkamsmeiðinganna. Tveir aðrir viðstaddra hefðu jafnframt krafið brotaþola um fé. Að barsmíðunum loknum hafi einn gerendanna farið með brotaþola til Reykjavíkur til að tryggja að hann myndi greiða meintar skuldir. Er þangað var komið hefði brotaþoli hins vegar náð að flýja úr bifreiðinni.

Lögregla hafi 12. ágúst sl. farið að [...] í [...]. Þar hafi kærði þá verið staddur ásamt þremur öðrum aðilum. Hafi þeir allir verið handteknir. Við húsleit hafi fundist eitthvað af fíkniefnum, ætluð smjörsýra, haglabyssa, rafbyssa, meint þýfi, sprautunálar og úlpa, eins og brotaþoli mun hafa lýst fyrir lögreglu að tekin hefði verið af honum. Í húsinu hafi jafnframt mátt sjá blóðdropa á gólfi. Lögregla hafi lýst eftir fimmta aðilanum og hafi hann verið handtekinn nokkrum dögum síðar. Fjórum af hinum fimm handteknu aðilum hafi síðan verið gert að sæta gæsluvarðhaldi.

Lögreglustjóri vísar til þess að kærði hafi í fyrstu neitað sök við skýrslutöku hjá lögreglu. Hann hafi síðar játað að brotaþoli hafi komið í fyrrgreint húsnæði að kvöldi 6. ágúst sl. Kærði hafi sagst hafa skammað brotaþola fyrir að nota nafn hans og kýlt brotaþola einu sinni. Kærði hafi síðar heyrt það útundan sér að rafbyssa hefði verið notuð en ekki getað upplýst hver það hefði verið sem beitt rafbyssunni.

Lögreglustjóri segir kærða einnig vera undir sterkum grun um eftirgreind ofbeldisbrot:

Mál lögreglu nr. 007-2014-[...] Líkamsárás og hættubrot, laugardaginn 15. mars 2014, í strætisvagni sem ekið var eftir Kringlumýrabraut í Reykjavík. Í því máli sé kærði grunaður um að hafa veist að tilefnislausu að strætisvagnabílstjóra með hnefahöggum. Strætisvagninn hafi verið í akstri með farþega og hafi skapast töluverð hætta af þeim sökum. Bifreiðarstjórinn hafi hlotið áverka og vitni séð kærða slá bílstjórann tveimur hnefahöggum. Teljist þetta brot kærða varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærði neiti sök. Ákæra hafi verið gefin út 19. ágúst sl.

Mál lögreglu nr. 007-2014-[...]: Frelsissvipting, ólögmæt nauðung og líkamsárás 24. febrúar 2014. Í málinu sé kærði undir sterkum grun um að hafa frelsissvipt ásamt fleiri aðilum B, mánudaginn 24. feb. sl., að [...],  með því að halda brotaþola nauðugum á heimili hans og beita hann grófu ofbeldi, með því slá hann hnefahöggum í andlitið, herða að hálsi hans þannig að honum hafi legið við köfnun og stinga hann ítrekað, en kærandi hafi verið með stungusár á yfirborði líkamans og lemstraður í andliti, sbr. áverkavottorð sem fyrir liggi í málinu. Þá hafi brotaþoli greint frá því að þeir hefði tekið frá honum ýmsa fjármuni. Kærði neiti aðild sinni að þessu broti. Samkvæmt frásögn brotaþola hafi honum verið haldið í allt að tvær klukkustundir og hann beittur grófu ofbeldi. Kærði hafi setið í gæsluvarðhaldi vegna þessa brots í tíu daga frá 25. febrúar til 6. mars sl. á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Brotaþoli hafi lýst árásinni og frelsissviptingunni og hafi kært árásina, en hann hafi leitað á slysadeild eftir hana. Teljist lýst brot kærða varða við 2. mgr. 218. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en málið hafi verið sent ríkissaksóknara til meðferðar.

Mál lögreglu nr. 007-2014-[...]: Í málinu sé kærði undir sterkum grun um að hafa 19. febrúar sl., að [...], [...] veist að C með því að slá hann nokkur hnefahögg í andlitið, með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið glóðarauga á hægra auga, yfirborðsáverka á nefi, mar á augnloki og augnsvæði, yfirborðsáverka á öðrum hlutum höfuðs, hrufl á úlnlið og hendi og mar á læri og olnboga. Teljist þetta brot kærða varða við 217. gr. almennra hegningarlaga.

Önnur brot sem kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið séu á umferðarlögum, sbr. mál nr. 007-[...], -[...], -[...], -[...] og [...], og á fíkniefna-og vopnalögum, mál nr.  007-2014-[...] og [...]. Þá sé kærði grunaður um þjófnað í verslun ÁTVR 19. og 20. febrúar sl., sbr. mál nr. 007-2014-[...], -[...], -[...], og þjófnað, sbr. mál nr. 007-2014-[...]. Lögreglustjóri hafi gefið út ákæru 19. ágúst sl. í framangreindum málum.

II

Lögreglustjóri segir kærða undir sterkum grun um alvarlegar líkamsárásir, frelsissviptingu og/eða ólögmæta nauðung, fíkniefna- og vopnalagbrot. Liggi fangelsisrefsing við brotunum, eða allt að sextán ára fangelsi. Lögregla telji að brotin séu þess eðlis að nauðsynlegt sé að ljúka rannsókn og gefa út ákæru á næstu dögum og muni kærði fá fangelsisrefsingu, eins og atvikum sé háttað. Kærði hafi sýnt af sér einbeittan brotavilja og sé í mikilli neyslu eins og dómur  í máli nr. S-[...] frá [...] sl. beri með sér, en þar hafi kærði verið sakfelldur fyrir umferðalagabrot þar sem mikið magn fíkniefna hafi mælst í blóði hans.

Með vísan til brotaferils kærða, sem nú sé undir sterkum grun um líkamsárásir og frelsissviptingu, sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi, fari hann frjáls ferða sinna. Brýnt sé að kærði sæti gæsluvarðhaldi uns málum hans sé lokið en ákæra verði gefin út á næstu vikum og send héraðsdómi. Þá liggi fyrir að kærði hafi áður hlotið dóma fyrir ofbeldisbrot. Síðast hafi kærði hlotið dóm 19. febrúar sl., vegna umferðarlagabrota, meðal annars vegna fíkniefnaaksturs.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála krefjist lögreglustjóri þess að krafa embættisins nái fram að ganga.

III

Með vísan alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við.

Krafa lögreglustjóra byggir eingöngu á c-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt því er það mat lögreglustjóra að í málinu séu hvorki uppfyllt lagaskilyrði fyrir því að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a-lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga, né á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laganna.

Fyrir dómi greindi kærði frá því að hann væri alkóhólisti og hefði hann fallið í upphafi þessa árs í kjölfar sambandsslita. Hefði kærði á því tímabili upplifað algert tilgangsleysi. Hann hefði hins vegar verið búinn að ná tökum á því ástandi er hann var handtekinn 12. ágúst sl. Þá fullyrti kærði að hann hefði verið í vinnu á þeim tíma er hann var handtekinn og átt fastan dvalarstað. Þessum lýsingum kærða á aðstæðum hans var í engu andmælt af hálfu lögreglustjóra fyrir dómi.

Skilyrði er skv. c-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, svo manni verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið. Í kröfu lögreglustjóra eru sérstaklega reifuð fjögur ofbeldisbrot sem kærði er grunaður um að hafa framið. Umrædd atvik, að því atviki undanskildu sem var tilefni gæsluvarðhalds þess sem kærða var gert að sæta 13. ágúst sl., áttu sér stað í febrúar og mars á þessu ári.

Samkvæmt framansögðu og að gögnum málsins virtum verður ekki séð að með handtöku kærða 12. ágúst sl. hafi verið stöðvuð yfirstandandi hrina meintra refsiverðra brota hans. Þá verður ekki framhjá því litið að við afskipti lögreglu af meintum umferðarlagabrotum kærða í vor kom ekkert haldbært fram um fíkniefnaneyslu kærða, sbr. ákæru dagsetta 19. ágúst sl., gagnstætt því sem haldið er fram í kröfu lögreglustjóra. Að þessu og öðru framangreindu gættu þykir lögreglustjóra ekki nægjanlega hafa tekist að sýna fram á að efni séu til þess nú að úrskurða kærða til að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Kröfu lögreglustjóra er því hafnað.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærða, X, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi er hafnað.