Hæstiréttur íslands
Mál nr. 542/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Erfðaskrá
- Arfleiðsluhæfi
- Lögbókandi
- Arfleiðsluvottorð
- Vitni
|
|
Miðvikudaginn 21. nóvember 2007. |
|
Nr. 542/2007. |
C(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn A og B (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Erfðaskrá. Arfleiðsluhæfi. Lögbókandi. Arfleiðsluvottorð. Vitni.
C kærði úrskurð héraðsdóms sem tekið hafði til greina kröfu A og B um að sameiginleg erfðaskrá E og D 17. desember 2001 yrði metin ógild, þar sem D hafi skort andlegt hæfi til að gera umrædda erfðaskrá, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Erfðaskráin var vottuð af lögbókanda en arfleiðsluvottorð lögbókandans uppfyllti ekki formkröfur 2. mgr. 42. gr. og 1. mgr. 43. gr. erfðalaga. Hvíldi sönnunarbyrði fyrir því að D hefði fullnægt hæfisskilyrði 2. mgr. 34. gr. erfðalaga því á C, sbr. 2. mgr. 45. gr. sömu laga. Í dómi Hæstaréttar sagði að vilji arfleifenda vægi þungt við mat á því hvort ógilda ætti erfðaskrá á grundvelli 2. mgr. 34. gr. erfðalaga. Mörg vitni hefðu borið um náin tengsl C við arfleifendur og renndi framburður vitnanna eindregnum stoðum undir það að erfðagerningurinn 17. desember 2001 hafi verið í samræmi við vilja, sem systurnar lýstu meðan þær voru báðar enn heilar heilsu. Við úrlausn um andlegt hæfi D var litið heildstætt á öll þau gögn sem fyrir lágu og framburð vitna. Framburður R öldrunarlæknis skipti mestu máli og benti hann frekar til þess að D hefði gert sér grein fyrir því sem hún var að gera við undirritun erfðaskrárinnar 17. desember 2001. Samkvæmt öllu framansögðu var krafa C tekin til greina og erfðaskráin 17. desember 2001 metin gild.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2007, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að sameiginleg erfðaskrá E og D 17. desember 2001 yrði metin ógild. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að nefnd erfðaskrá verði metin gild. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I.
Systurnar E og D, sem báðar voru ógiftar og barnlausar, gerðu sameiginlega erfðaskrá 11. ágúst 1977 sem kvað á um að sú þeirra, sem lengur lifði, skyldi erfa hina. Samkvæmt annarri sameiginlegri erfðaskrá þeirra 17. desember 2001 skyldi sóknaraðili erfa allar eigur systranna eftir lát þeirrar, sem lifði lengur. E lést [...] 2003, en D [...] 2005.
F var systir E og D, en hún lést í ágúst 2005. Meðal sex barna hennar eru aðilar þessa máls, en við skipti á dánarbúi F, lögerfingja systranna, reis ágreiningur um gildi áðurnefndrar erfðaskrár E og D 17. desember 2001. Telja varnaraðilar að D hafi skort andlegt hæfi til að gera umrædda erfðaskrá sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Hún hafi ekki verið svo heil heilsu að hún hafi verið fær um að gera erfðaskrána á skynsamlegan hátt og því sé hún ógild. Sóknaraðili byggir á því að D hafi verið svo heil heilsu andlega að erfðaskráin sé gild. Þá sé hún vottuð af lögbókanda sem hafi staðfest með vottorði sínu að erfðaskráin sé formlega gild og þar með að systurnar hafi verið hæfar til að gera hana. Einnig er á því byggt að ljóst sé af gögnum málsins að erfðaskráin hafi verið í samræmi við vilja systranna. Málavöxtum og málsástæðum aðilanna er nánar lýst í hinum kærða úrskurði.
Fyrir héraðsdómi gáfu skýrslu sóknaraðili og varnaraðilinn A, en auk þeirra tíu vitni. Eftir kæru úrskurðar héraðsdóms til Hæstaréttar hafa enn verið teknar skýrslur af sex vitnum, ýmist að tilhlutan sóknar- eða varnaraðila. Hafa endurrit þeirra verið lögð fyrir Hæstarétt.
II.
Meginmál erfðaskrárinnar 17. desember 2001 hljóðar svo: „Að okkur báðum látnum skulu allar eigur okkar ganga að öllu leyti til systursonar okkar, C, ... Að öðru leyti gildir erfðaskrá okkar dagsett 11. ágúst 1977.“ Erfðaskráin er vottuð 17. desember 2001 af lögbókanda, M, fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík, sbr. 1. mgr. 40. gr. og 43. gr. erfðalaga. Nafnritun hennar er undir arfleiðsluvottorði, sem hefur verið stimplað á erfðaskrána. Á þeim staðlaða texta hefur lögbókandinn gert handritaðar breytingar í samræmi við það að arfleifendur voru tveir en ekki einn og að vottun fór fram á heimili þeirra en ekki í starfstöð lögbókanda. Fram kemur í vottorðinu að arfleifendur hafi áðurnefndan dag komið fyrir lögbókanda, sagt á sér deili, lagt fram nefnda erfðaskrá og undirritað hana í viðurvist lögbókanda. Hafi þær gert það af fúsum og frjálsum vilja og kveðið erfðaskrána hafa að geyma hinsta vilja þeirra.
Í arfleiðsluvottorði lögbókanda er hins vegar ekki vikið að því hvort arfleifendur hafi verið svo heilar heilsu andlega að þær hafi verið hæfar til að gera erfðaskrána. Þessa atriðis bar þó að gæta, sbr. 2. mgr. 42. gr. og 1. mgr. 43. gr. erfðalaga. Fullnægjandi arfleiðsluvottorð hefur því ekki verið fært á skjalið og uppfyllir erfðaskráin að þessu leyti ekki formskilyrði, sem erfðalög áskilja. Af því leiðir, sbr. 2. mgr. 45. gr. erfðalaga, að sönnunarbyrði hvílir á sóknaraðila fyrir því að D hafi fullnægt hæfisskilyrðum samkvæmt 2. mgr. 34. gr. laganna er hún undirritaði erfðaskrána 17. desember 2001.
III.
Í hinum kærða úrskurði er vikið að því, sem fram er komið um tengsl aðilanna við E og D, móðursystur þeirra. Þar kemur meðal annars fram að sóknaraðili hafi að verulegu leyti alist upp á heimili með þeim fram yfir fermingaraldur. Hafa vitni borið um þessi tengsl, svo og um ætlaðan vilja arfleifenda um ráðstöfun eigna eftir þeirra dag meðan þær voru báðar enn heilar heilsu andlega.
Systkin málsaðila, I og H, gáfu skýrslu fyrir dómi. Í framburði I kom meðal annars fram að tilfinningabönd milli arfleifenda og sóknaraðila hafi verið „miklu sterkari“ en tengsl arfleifenda við systkin hans. Sagði vitnið það alltaf hafa verið trú sína að sóknaraðili myndi erfa allar eigur þeirra. Það hafi hann ráðið af ýmsu, þar á meðal ummælum arfleifendanna sjálfra. Hafi enginn vafi verið í huga hans um þetta. H greindi svo frá að allt frá því hún var unglingur hafi verið „óbeint sem var gert ráð fyrir því svona innan fjölskyldunnar“ að sóknaraðili myndi erfa móðursystur þeirra. Þær hafi einnig talað sjálfar þannig í sín eyru. Kvaðst hún alltaf hafa vitað um þá fyrirætlun þeirra að gera erfðaskrá í samræmi við það. Bar vitnið jafnframt um náin tengsl sóknaraðila við arfleifendur.
M gaf skýrslu fyrir dómi, en hún bjó frá 1986 í sama stigagangi og arfleifendur í fjöleignarhúsinu [...] í Reykjavík. Vitnið staðfesti yfirlýsingu sína frá 8. október 2007, þar sem segir meðal annars: „ ... þær sögðu mér margsinnis frá því að þær væru búnar að ganga þannig frá sínum fjármálum að sú langlífari erfði allt og að þeirri langlífari látinni færu allar þeirra eigur til C, sem þær kölluðu [...] og vísuðu alltaf til sem sonar síns. ... Þannig töluðu þær um fjármál sín og þær ráðstafanir sem þær væru búnar að gera alveg frá okkar fyrstu kynnum í ársbyrjun 1986. Ég minnist þess ekki sérstaklega að þær hafi sagt mér frá því hvenær þær hefðu gert erfðaskrá um þetta en það var af öllu þeirra tali algerlega skýrt að þær töldu sig hafa gengið þannig frá sínum málum að svona yrði þetta.“ N hefur búið í sama stigagangi og arfleifendur frá 1999. Í yfirlýsingu hans 22. október 2007, sem hann staðfesti fyrir dómi, segir að systurnar hafi verið vel meðvitaðar um öll sín mál og hafi oft rætt um stjúpson sinn, sem væri læknir á [...], og talað um hann „á allan hátt eins og hann væri þeirra sonur.“ O var einnig nágranni arfleifenda í [...] og þekkti þær frá 1965. Hann staðfesti fyrir dómi yfirlýsingu sína frá október 2007, en þar getur hann þess að „veturinn 2001 2002“ hafi erfðamál borið á góma í spjalli hans við þær. Hann hafi þá spurt hvort þær hafi ráðstafað eigum sínum með erfðaskrá og þær svarað því játandi. Eftir lát þeirrar sem lengur lifði „væri það [...] “fóstursonur“ þeirra eins og þær kölluðu hann, sem myndi erfa hana. Þetta væri allt klárt og frágengið samkvæmt ákveðnum vilja beggja.“
P gaf skýrslu fyrir dómi, en hann starfaði í mörg ár með D hjá X ehf. þar til hún lét af störfum 1997. Staðfesti vitnið yfirlýsingu sína frá 21. október 2007, þar sem fram kemur að D hafi stundum rætt á vinnustaðnum um fjölskyldu sína. Segir þar meðal annars: „Síðan talaði hún um [...]. Hann hafði alist upp hjá þeim systrum og var þeim kærari en allt. Öll þau ár sem við unnum saman talaði hún um hann og enginn komst með tærnar þar sem [...] hafði hælana. ... Það er ekki neinn vafi í mínum huga að [...] var sá sem stóð D næst á eftir systur hennar, E. Hún minntist aðeins á syni hans, en aðra ættingja heyrði ég hana ekki nefna.“ Annar fyrrum samstarfsmaður D, Q, bar fyrir dómi að D hafi oft rætt um varnaraðilann A meðan þær störfuðu saman, en einnig um sóknaraðila.
IV.
Í málinu nýtur við ýmissa gagna um andlegt heilsufar D eins og það var fyrir og eftir að hún undirritaði áðurnefnda erfðaskrá 17. desember 2001. Er um að ræða bæði læknisfræðileg gögn og skýrslur vitna, sem áttu samskipti við hana bæði fyrir og eftir nefnt tímamark. Verður gerð grein fyrir þessum sönnunargögnum hér á eftir, að því leyti sem þýðingu getur haft fyrir úrslit málsins.
R öldrunarlæknir skoðaði D fyrst í mars 2001 þegar hún kom til hans fyrir tilstuðlan heimahjúkrunar að sögn vitnisins. Hann skoðaði hana aftur í maí og í ágúst sama ár. Fyrir dómi kvaðst hann hafa greint hana í mars 2001 með „byrjandi Alzheimersjúkdóm.“ Hún hafi verið með minnistap og skert innsæi á eigið ástand. Þá hafi hún haft dálitlar tortryggnishugmyndir og verið vör um sig. Þó hafi hún ekki verið verri en það að hún ók bíl sjálf og keypti inn. Hann treysti sér ekki til að segja til um hvort hún hafi á þessum tíma getað gert sér grein fyrir fjárskuldbindingum. „Eins og ég segi, það er ekki hægt að svara þessu af eða á. Að einhverju leyti held ég að hún hafi alveg getað gert það. ... Þannig að ég get alveg ímyndað mér það að hún gæti hafa ákveðið hluti sem eru henni að skapi og í samræmi við hennar hug. En ég er ekkert viss um að það hafi verið hægt að plata hana sem hún hefði ekki gert ef hún væri með fullu viti.“ Kvað vitnið sjúkdóm D hafa verið hæggengan, en hann hafi líklega byrjað nærri 1996. Hafi hann sett hana á Alzheimerlyf og hún svarað því nokkuð vel sem alls ekki allir með þann sjúkdóm geri. Við læknisskoðun í ágúst 2001 hafi ástand hennar verið orðið betra, „hún er bara með vægan Alzheimersjúkdóm þarna.“ Skráning R í skýrslur við læknisskoðanir á D á árinu 2001 er að öðru leyti rakin í úrskurði héraðsdóms, sem og framburður hans fyrir dómi. Hið sama á við um læknisvottorð og framburð S öldrunarlæknis fyrir dómi.
Áður er fram komið að M ritaði nafn sitt undir arfleiðsluvottorð á erfðaskrá E og D sem lögbókandi. Fyrir dómi var hún spurð um andlegt ástand D og svaraði því neitandi að hún hefði sýnt einhver merki þess að vera ekki andlega hæf til að gera erfðaskrá. Þær systur hefðu verið „bara afskaplega venjulegar fullorðnar konur“ og vitað að þær voru að fara að undirrita erfðaskrána og voru tilbúnar með skilríki. Viðdvöl hjá þeim hafi staðið yfir í sem næst hálfa klukkustund og sitthvað fleira en erfðagerningurinn borið á góma í spjalli við þær.
Mörg önnur vitni hafa gefið skýrslu fyrir dómi og greint frá samskiptum sínum við D og hvað af þeim megi ráða um andlegt heilsufar hennar. H kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir að D væri veik fyrr en eftir að E var flutt á sjúkrahús og D hafði búið lengi ein. M kvaðst ekki hafa orðið vör við neitt sérstakt eða óeðlilegt í framkomu D fyrr en nærri 2003. O svaraði því játandi að í áðurnefndu samtali hans við systurnar um erfðamál hafi þær virst algerlega klárar á hvað þær hafi gert í þeim efnum. Honum hafi fundist andlegt ástand D þá vera gott og ekki unnt að merkja byrjandi Alzheimersjúkdóm hjá henni eða elliglöp. Síðar hafi hann orðið þessa var hjá henni og sjúkdómurinn ágerst nokkuð hratt eftir það. N taldi sig ekki merkja breytingu á ástandi D, „það var eins og að tala við hverja aðra persónu“. Hann hafi ekki fundið fyrir neinu hjá henni fyrr en eftir að hún var farin að búa ein. T var framkvæmdastjóri X ehf. þegar D hætti störfum þar 1997. Hann taldi að afköst hennar í starfi hafi minnkað undir lok starfstíma hennar, en hann hafi ekki orðið var við dómgreindarleysi hjá henni.
Q var samstarfsmaður D hjá X ehf. í mörg ár. Bar hún að rétt áður en sú síðarnefnda lét af starfi hafi vitnið talið sig merkja að skrift hennar hafi breyst. Í heimsóknum D á vinnustaðinn eftir það taldi vitnið sig merkja að hún væri ekki fyllilega með á nótunum og nefndi dæmi því til stuðnings. L gaf skýrslu fyrir dómi þar sem lýst var verulegum elliglöpum í háttsemi D, en skýrsla hennar er rakin í hinum kærða úrskurði. Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð gögn sem sóknaraðili telur sýna að vitnið hafi ekki haft það hlutverk í starfi sínu að aðstoða D á heimili hennar heldur aðeins E. Þá séu vitnið og varnaraðilinn A skólasystur og vináttutengsl þeirra á milli. Varnaraðilar mótmæla því síðastnefnda.
V.
Við úrlausn um andlegt hæfi D til að gera erfðaskrá 17. desember 2001 verður litið heildstætt til þess, sem fram er komið og rakið er í III. og IV. kafla að framan. Af því skiptir framburður R öldrunarlæknis mestu máli, en hann mat ástand D þrisvar á árinu 2001 áður en hún undirritaði erfðaskrána. Gefur framburður hans nokkuð glögga mynd af andlegu ástandi hennar þá og bendir einn og sér frekar til þess að hún hafi gert sér grein fyrir því sem hún var að gera heldur en hins gagnstæða. Framburður flestra vitna, sem rakinn er í IV. kafla að framan, rennir stoðum undir sömu niðurstöðu. Aðeins eitt vitni, L, bar afdráttarlaust á annan veg. Þótt ekki sé í ljós leitt að þau tengsl séu á milli vitnisins og varnaraðilans A að áhrif geti haft á mat á framburði vitnisins verður ekki litið framhjá því að lýsing L á andlegri færni D er verulega öndverð því, sem flest önnur vitni báru. Framburður S öldrunarlæknis skiptir ekki máli, en hann skoðaði D fyrst um 14 mánuðum eftir að hún undirritaði erfðaskrána og ályktanir vitnisins um andlegt ástand hennar 2001 sýnast í reynd ekki reistar á öðru en læknisvottorðum R frá sama tíma.
Vilji arfleifenda vegur þungt við mat á því hvort ógilda eigi erfðaskrá á grundvelli 2. mgr. 34. gr. erfðalaga. Mörg vitni hafa borið um náin tengsl sóknaraðila og arfleifenda og um vilja þeirra síðarnefndu til að arfleiða hann að eigum þeirra, sbr. III. kafla að framan. Meðal þeirra eru H og I, systkin allra málsaðila. Verður þá einnig litið til þess að framburður þeirra er þeim sjálfum síst í hag, enda hefðu þau sömu hagsmuni og varnaraðilar af því að erfðaskráin yrði metin ógild. Rennir framburður þessara vitna og annarra eindregið stoðum undir að erfðagerningurinn 17. desember 2001 hafi verið í samræmi við vilja, sem systurnar lýstu meðan þær voru báðar enn heilar heilsu.
Samkvæmt öllu framanröktu verður krafa sóknaraðila tekin til greina og erfðaskráin 17. desember 2001 metin gild. Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, A og B, um að erfðaskrá E og D 17. desember 2001 verði metin ógild.
Varnaraðilar greiði óskipt sóknaraðila, C, samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2007.
I
Málið barst dóminum 6. júní 2006 var þingfest 13. október sama ár. Það var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi 30. ágúst sl.
Sóknaraðilar eru A, [...], Garðabæ og B, búsett í Englandi.
Varnaraðili er C, [...], Akureyri.
Sóknaraðilar krefjast þess að erfðaskrá D og E frá [dags.] 2001 verði metin ógild. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og sér úrskurðaður málskostnaður.
II
Málavextir eru þeir að með úrskurði [dags.] 2005 var bú F, er látist hafði [dags.] sama ár, tekið til opinberra skipta og skiptastjóri skipaður. F átti 6 börn og eru aðilar málsins þrjú þeirra. Þá átti hún tvær systur og einn hálfbróður, en hann kemur ekki frekar við sögu þessa máls. Systur F voru þær D og E sem báðar voru ógiftar og barnlausar. E lést [dags.] 2003 og D [dags.] 2005. Þær höfðu gert sameiginlega erfðaskrá [dags.] 1977 og samkvæmt henni skyldi sú þeirra, er lengur lifði, erfa hina. Aftur gerðu þær systur sameiginlega erfðaskrá [dags.] 2001 og er meginmál hennar svohljóðandi: “Að okkur báðum látnum skulu allar eigur okkar ganga að öllu leyti til systursonar okkar, C, kt. [...], [heimilisfang] á Akureyri. Að öðru leyti gildir erfðaskrá okkar dagsett [dags.] 1977.” Erfðaskrá þessi var vottuð af lögbókanda er kom á heimili systranna. Samkvæmt fyrri erfðaskránni tók D allan arf eftir E og að D látinni tók varnaraðili allan arf eftir hana.
Að D látinni höfðu sóknaraðilar samband við sýslumanninn í Reykjavík og kváðust þá hafa fengið vitneskju um síðari erfðaskrána. Á skiptafundi í búi F [dags.] 2006 voru lögð fram læknisvottorð um heilsufar D og vegna þess er þar kom fram vefengdu sóknaraðilar erfðaskrána frá [dags.] 2001. Aðrir erfingjar F studdu hins vegar kröfu varnaraðila um að hann einn væri erfingi samkvæmt erfðaskránni, en hafa ekki að öðru leyti látið málið til sín taka.
Málið barst dómnum eins og að framan segir, en langan tíma tók að afla gagna um heilsufar D og þess vegna dróst meðferð þess. Ágreiningur aðila er um það hvort D hafi verið hæf til að gera erfðaskrána [...] 2001, en ekki er til umfjöllunar hvort E hafi verið hæf til þess og er það ágreiningslaust.
Meðal gagna málsins eru vottorð tveggja lækna um heilsufar D. Annar þeirra, Jón Snædal yfirlæknir á Landakoti, sá D fyrst í febrúar 2003 og var læknir hennar þar til hún útskrifaðist og flutti á Skjól til framhaldsdvalar í byrjun janúar 2004. Upplýsingar, sem læknirinn byggði vottorð sitt á, voru fengnar úr sjúkraskrá D, en hún kom fyrst á minnismóttöku öldrunarlækningadeildar í mars 2001 og var læknir hennar þá Björn Einarsson. Niðurstaða Jóns um D er svohljóðandi: “Af gögnum er ljóst að við fyrstu skoðun í mars 2001 var D komin með glögg einkenni Alzheimers sjúkdóms. Þessi sjúkdómur hafði verið að þróast í nokkur ár og var rætt um að fyrstu einkenni sem aðstandendur tóku eftir hefðu byrjað u.þ.b. 5 árum áður eða á árinu 1996. Einkenni sjúkdómsins voru fyrst og fremst skerðing á minni og skerðing á dómgreind og innsæi. Í því felst að D áttaði sig ekki á þýðingu þeirrar skerðingar sem hún bjó við og taldi að hún gæti séð um sig sjálf og systur sína jafn vel og áður og án nokkurrar aðstoðar. Af því leiddi sömuleiðis að það eftirlit sem hún þurfti á að halda olli hjá henni tortryggni því hún skyldi ekki af hverju hún þyrfti á því að halda. Ljóst er að á þessum tíma (í mars 2001) gat hún ekki séð um fjárskuldbindingar né gert sér grein fyrir þýðingu þeirra. Líklega hafði svo verið um nokkurt skeið en hversu lengi verður ekki fullyrt af fyrirliggjandi gögnum.”
Hinn læknirinn, Haraldur Dungal heimilislæknir, sá D fyrst er hún kom til dvalar á Skjóli í byrjun janúar 2004. Hann byggði vottorð sitt á eigin skoðun og gögnum sem fylgdu henni frá Landakoti. Þá er í vottorðinu gerð grein fyrir heilsufari hennar allt þar til hún lést. Ekki er þörf á að gera frekari grein fyrir þessu vottorði.
Þá er meðal gagna málsins sjúkraskrá D frá öldrunarlækningadeildinni á Landakoti, skráð af Birni Einarssyni öldrunarlækni. Verða meginatriði hennar nú rakin.
Fyrst er skráð 7. mars 2001 að hún komi á minnismóttöku að beiðni heimahjúkrunarkonu. “D er eitthvað farin að gleyma og það byrjaði við 73 ára aldur. Hún hefur farið hægt og sígandi af stað og einnig versnað hægt og sígandi. Hún er með mikla skammtíma minnisskerðingu en langtímaminnið er ágætt. Hún er líka með nefnimálstol og orðgleymsku og spurningu um eitthvað verkstol. Hún er með mikið skert innsæi á eigið ástand. Eitthvað ber á tortryggnishugmyndum. Engin lyf.” Líkamleg heilsa hennar er hins vegar góð og hvorki ber á þunglyndi né kvíða. Síðan segir: “Skoðun: Vitrænt: MMSE 22, hún er ekki fulláttuð á stað og stund og nýminni 1 af 3. Hún getur ekki teiknað en útskýrir málshætti ágætlega. Orðaflæði eru 5 dýr á 60/sek og 6 S-orð.” Loks segir: “Hún er með klára minnisskerðingu og innsæisskerðingu og dálitlar tortryggnis hugmyndir. Hún funkerar ekki nema með aðstoð systur sinnar en hún keyrir bíl og eldar og kaupir inn. Líklegast er hér um byrjandi Alzheimers sjúkdóm að ræða og fer í tölvusneiðmynd og SPECT og kemur aftur og fer líklega á Aricept.” 10. maí sama ár er bókað að myndgreining sýni Alzheimers sjúkdóm með smá æðakölkun periventriculert. Henni er ávísað lyfið Aricept og gert ráð fyrir að hún komi aftur eftir 3 mánuði. D kom aftur til Björns 13. ágúst 2001 er þá skráð að hún hafi tekið lyfið allan tímann og er haft eftir E, systur hennar, að hún sé betri. Síðan er skráð: “Það sést einnig að það er betra á MMSE eða 26/30 en minnishlutinn hefur ekki batnað.” Gert var ráð fyrir áframhaldandi töku lyfja og endurkomu í desember. Ekki varð af endurkomu og er næst skráð um heilsufar D í byrjun október 2002, en þá hafði hún ekki tekið lyfið um nokkurn tíma og vildi í fyrstu ekki koma á móttökuna. Síðar í mánuðinum kemur hún og hefur henni þá greinilega versnað, en ekki er þörf á að gera nánari grein fyrir heilsufari hennar, enda þá komið fram yfir þann tíma er erfðaskráin var gerð.
III
Sóknaraðilar byggja á því að D hafi skort andlegt hæfi til að gera erfðaskrána [dags.] 2001, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Hún hafi ekki verið svo heil heilsu andlega að hún hafi verið fær um að gera hana á skynsamlegan hátt. Vegna þessa annmarka D sé erfðaskráin ógild hvernig svo sem heilsufari E hafi verið háttað. Þá er á því byggt að erfðaskráin endurspegli ekki vilja systranna, enda ekkert sem bendi til þess að þær hafi viljað að varnaraðili yrði einkaerfingi þeirra.
Varnaraðili byggir á því að erfðaskráin sé vottuð af lögbókanda sem hafi staðfest með vottorði sínu að hún sé formlega gild og þar með að systurnar hafi verið hæfar til að gera erfðaskrá. Þessu vottorði lögbókandans hafi ekki verið hnekkt. Einnig er á því byggt að samkvæmt gögnum málsins sé ljóst að efni erfðaskrárinnar sé í samræmi við vilja systranna.
IV
Nú verður rakinn framburður aðila og vitna eftir því sem þurfa þykir.
Sóknaraðili, A hjúkrunarfræðingur, bar að hún hefði fyrst fengið vitneskju um erfðaskrána skömmu eftir andlát D. Hún kvað E hafa hringt í sig í desember 2001 og verið mikið niðri fyrir og hafi hún farið og heimsótt þær systur. Þegar hún kom á heimili þeirra hafi E verið kjökrandi, en D meira í sínum heimi, farandi með vísur. E hafi spurt sig kjökrandi hvernig allt myndi fara og sagt síðan “að hann Eddi lofaði að skipta jafnt”. Hún kvaðst hafa sagt þeim að þær ættu frænda, G lögfræðing, sem liti til þeirra og hún myndi biðja hann að koma við hjá þeim. G hafi heimsótt þær og sagt sér síðan að þær hafi ekki rætt neitt um erfðamál við hann. Þetta hafi síðan rifjast upp fyrir sér þegar hún sá erfðaskrána og hvenær hún var dagsett. Sóknaraðili kvaðst hafa vitað af fyrri erfðaskránni og að þær hefðu arfleitt hvor aðra, en ekki heyrt talað um að varnaraðili myndi erfa þær. Hún kvað varnaraðila hafa farið í fóstur til ömmu þeirra, en systurnar hafi þá búið þar hjá móður sinni. Þarna hafi varnaraðili verið í fóstri til 14 ára aldurs. Varðandi andlega heilsu D kvað hún henni hafa verið farið að hraka fyrir sjötugt.
Varnaraðili, sem er læknir með kvensjúkdóma sem sérgrein, bar að hann hafi frá ágúst 1954 og fram yfir fermingu verið á heimili ömmu sinnar og þeirra D og E og litið á það sem sitt heimili. Eftir að hann flutti til foreldra sinna eftir fermingu hafi hann mikið verið á heimili ömmu sinnar og þeirra systra og hafi það varað alveg þar til hann kvæntist. Hann kvaðst ekki hafa vitað af erfðaskránni er hún var gerð en hann hafi fengið að sjá hana þegar hann heimsótti þær næst eftir að hún var gerð. Hann hafi hins vegar vitað um það allt frá 1987 að hann myndi erfa þær. Þær hafi rætt það við hann, en hann kvaðst lítið hafa viljað ræða þessi efni við þær. Hann kvað D hafa verið heilsuhrausta líkamlega en hún hafi verið farin að verða gleymin, en henni hafi ekki farið að hraka andlega fyrr en E fór á sjúkrahús um mitt ár 2002. Varnaraðili var skipaður ráðsmaður þeirra systra [dags.] 2003.
Jón Snædal öldrunarlæknir staðfesti framangreint vottorð sitt og þar með að hann hefði ekki séð D fyrr en í febrúar 2003. Upplýsingar varðandi heilsufar hennar fyrir þann tíma hefði hann fengið úr sjúkraskrá D. Ekki er ástæða til að rekja framburð Jóns frekar.
Haraldur Dungal læknir staðfesti framangreint vottorð sitt, en ekki er ástæða til að rekja framburð hans frekar.
Björn Einarsson öldrunarlæknir tók á móti D á minnismóttöku í mars 2001 og skráði framangreinda sjúkraskrá sem hann staðfesti að hafa ritað. Hann hafi greint hana með byrjandi Alzheimers sjúkdóm sem hafi aðallega verið minnistap og hún hafi ekki verið fyllilega áttuð á stað og stund og enn fremur með skert innsæi í eigið ástand. Hún hafi verið vör um sig og með tortryggnishugmyndir. Þrátt fyrir þetta hafi ástand hennar ekki verið verra en það að hún hafi ekið bifreið og verslað til heimilisins. Eftir að systir hennar fór á sjúkrahús gat hún búið ein með aðstoð heimahjúkrunar. Björn kvað hana klárlega hafa verið með vitræna skerðingu og klárlega með Alzheimers sjúkdóm á þessum tíma. Hann hafi sett hana á lyf við sjúkdómnum og hafi hún svarað þeim vel, minnið hafi batnað og hún verið betur áttuð. Hann kvaðst hafa séð hana í maí 2001 og aftur í ágúst sama ár og hafi henni þá batnað. Hann hafi síðan ekki séð hana fyrr en í október 2002. Björn lýsti sjúkdómi D sem hæggengum og hafi henni farið hægt aftur. Aðspurður hvort D hefði verið fær um að gera sér grein fyrir fjárskuldbindingum í [...] 2001 kvað Björn ekki vera hægt að svara því af eða á, en að einhverju leyti hefði hún alveg getað gert það. D hafi verið vör um sig og með tortryggnishugmyndir sem fylgi Alzheimers sjúkdómnum en þrátt fyrir það hafi ekki verið hægt að fá hana til að gera hluti sem hafi verið á móti siðferðis- og réttlætiskennd hennar. Hún hafi því getað tekið ákvarðanir sem hafi verið henni að skapi og í samræmi við það er hugur hennar stóð til. Hann kvaðst hins vegar ekki geta borið um það af eða á hvort hún hefði getað gert sér grein fyrir erfðaskránni. Björn kvað D hafa batnað af lyfjunum sem hann ávísaði henni og hafi það sést er hún kom til hans í ágúst 2001. Hann kvað D hafa verið greinilega skerta og með byrjandi Alzheimers sjúkdóm en þrátt fyrir það taldi Björn hana ekki hafa verið það mikið skerta að hún hefði gert eitthvað sem hún hefði ekki gert ef hún hefði verið með fullu viti.
L hjúkrunarfræðingur sinnti þeim systrum í heimahjúkrun í nokkur ár frá árinu 1997 og kom á heimilið einu sinni í viku. Hún bar að D hafi verið alveg út úr heiminum, eingöngu talað um gamla tímann og ekki munað neitt. L tók svo til orða að það hafi ekki verið heil brú í því sem hún sagði, ekki hefði verið hægt að halda uppi samræðum við hana í 5 mínútur. L kvaðst hafa komið því til leiðar, í samráði við E, að D fór á minnismóttökuna á Landakoti. Þrátt fyrir þetta hafi D getað verslað, enda hafi allt verið skrifað niður sem átti að kaupa. Þá hafi hún getað ekið bifreið fyrst eftir að hún kynntist henni. L kvað þær systur aldrei hafa minnst á erfðaskrá við sig eða hver ætti að erfa þær.
H, systir málsaðila, og I, bróðir þeirra, báru bæði að það hafi alltaf verið um það rætt í fjölskyldunni að varnaraðili myndi erfa þær systur. Systurnar hefðu líka alla tíð talað þannig að hann myndi erfa þær.
M lögbókandi vottaði erfðaskrána á heimili systranna að ósk J lögfræðings. Þetta hafi verið í desember og vond færð og þess vegna hafi hún farið til þeirra, enda hafi önnur systranna átt erfitt með gang. M kvaðst hafa staðið við í um það bil hálfa klukkustund meðan beðið var eftir að J kæmi með erfðaskrána. Meðan hún beið hafi þær ræðst við um jólagjafir og smákökubakstur og hún drukkið með þeim kaffi og borðað smákökur. Hún lýsti þeim sem afskaplega venjulegum fullorðnum konum og ekki merkti hún að nokkuð væri að þeim andlega. Þær hafi vitað til hvers hún væri komin og höfðu skilríki tilbúin. Þegar J kom með erfðaskrána hafi systurnar undirritað hana og að því búnu fór M.
J, lögfræðingur og tengdadóttir varnaraðila, bar að hún hafi samið erfðaskrána að beiðni systranna, en ekki mundi hún hvor þeirra hafi beðið hana um það. Áður höfðu þær margoft nefnt við sig að varnaraðili ætti að erfa þær. Það hafi hins vegar verið mjög skömmu áður en erfðaskráin var gerð sem þær báðu hana um að semja hana. Hún bar að þær hafi haft nokkrar áhyggjur af gerð erfðaskrárinnar vegna þess að ekki myndu allir verða ánægðir með þessa gerð. J kvaðst hafa komið erfðaskránni til systranna áður en lögbókandi kom á heimilið, en ekki komið með hana sama daginn. Þegar hún kom á heimilið hafi þær verið búnar að undirrita erfðaskrána og lögbókandinn að votta hana.
K bjó í sama húsi og systurnar frá því í desember 1999 og þar til þær fóru á sjúkrahús. Eiginkona varnaraðila er hálfsystir barnsföður K. Hún kvaðst hafa haft allnokkur samskipti við þær og fannst henni þær vera hressar gamlar konur. Þær hafi rætt við sig um varnaraðila og vísað til hans sem uppeldissonar síns, en erfðaskrá hafi ekki borið á góma að öðru leyti en því að þær hafi sagt að varnaraðili ætti að fá allt eftir þeirra dag. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við elliglöp hjá systrunum fyrr en síðasta árið sem D lifði. Sérstaklega spurð um ástand D árið 2001 kvað hún hana ekki hafa borið nein merki um elliglöp þá.
G, lögfræðingur og frændi þeirra systra, bar að sóknaraðili, A, hafi haft samband við sig og beðið sig um að líta til systranna, en ekki mundi hann nákvæmlega af hvaða tilefni það átti að vera. Ekki mundi hann heldur hvenær það var. Hann kvaðst hafa farið til þeirra en þær ekki borið upp við sig erindi. Hann kvaðst hafa haft allnokkur samskipti við þær systur og hitt þær að jafnaði mánaðarlega, en aldrei rætt við þær um fjármál og þær ekki beðið hann um aðstoð við slíkt. Þær minntust aldrei á erfðaskrá eða erfðamál við hann. Spurður um andlegt heilsufar D á árinu 2001 kvað hann henni hafa verið farið að hraka en hvort það hafi verið heilabilun eða eitthvað annað gat hann ekki borið um. Hún hafi verið að endurtaka það sem hún hafi verið nýbúin að segja en hægt hafi verið að ræða við hana með því að nálgast hana á hennar forsendum og með því að vera upplífgandi í samræðum.
V
Það er meginmálsástæða sóknaraðila að D hafi ekki verið svo heil heilsu andlega [dags.] 2001 að hún hafi verið fær um að gera erfðaskrá á skynsamlegan hátt. Vísa þeir aðallega til þess sem fram kemur í læknisfræðilegum gögnum og rakið var hér að framan.
Í sjúkraskrá D kemur fram að hún kom til skoðunar 7. mars 2001 og er þá skráð að hún sé “með klára minnisskerðingu og innsæisskerðingu og dálitlar tortryggnis hugmyndir. Hún funkerar ekki nema með aðstoð systur sinnar en hún keyrir bíl og eldar og kaupir inn. Líklegast er hér um byrjandi Alzheimers sjúkdóm að ræða ...” 10. maí sama ár er bókað í skrána að niðurstaða myndgreiningar sýni byrjandi Alzheimer sjúkdóm með smá æðakölkun. Björn Einarsson öldrunarlæknir sem skoðaði D og ritar sjúkraskrána, bar að hann gæti ekki kveðið upp úr með það hvort hún hefði verið fær um að gera erfðaskrá í [...] þetta ár eða ekki, eins og rakið var hér að framan. Við mat á því hvort D hafi verið hæf til að gera erfðaskrána verður hins vegar ekki alfarið byggt á læknisfræðilegum gögnum og framburði lækna heldur lagt mat á framburð vitna, en skýrslur aðila koma ekki til álita við úrlausn málsins. Á sama hátt verður ekki byggt á framburði systkina aðila, tengdadóttur varnaraðila eða nágrannakonu D sem tengist varnaraðila eins og rakið var.
M lögbókandi bar að hún hefði ekki orðið vör við neitt athugavert við andlega heilsu systranna þegar hún vottaði erfðaskrána. L hjúkrunarkona sem var tengd heimili systranna í nokkur ár, eins og rakið var, bar hins vegar að D hefði verið “út úr heiminum” og minnislaus þótt hún hafi getað gert vissa hluti eftir fyrirmælum. Það var L sem kom því til leiðar að D fór á minnismóttöku Landakots í mars 2001. G, lögfræðingur og frændi þeirra systra, bar að D hafi verið farið að hraka andlega á árinu 2001, hún hafi verið að endurtaka það sem hún var nýbúin að segja og ekki hafi verið sama hvernig rætt var við hana. Þessu til viðbótar verður að líta til niðurstöðu í vottorði Jóns Snædal, sérfræðings í öldrunarlækningum, sem tekin var upp í II. kafla. Þótt Jón hafi ekki skoðað D fyrr en eftir að hún gerði erfðaskrána verður ekki hjá því komist að taka tillit til álits hans.
Þegar framangreind læknisfræðileg gögn eru virt er það niðurstaða dómsins að D hafi verið haldin ellihrörnunarsjúkdómi í [...] 2001. Ekkert bendir til þess að henni hafi batnað frá þeim tíma og fram í [...] á sama ári þegar hún gerði erfðaskrána. Framburður vitnanna, L og G, bendir og í þá átt að andlegri heilsu hennar hafi þá verið farið að hraka. Vitnið M þekkti hana ekki og mun aðeins hafa verið á heimili systranna í um hálfa klukkustund. Að því athuguðu, svo og því að alkunna er að fólki með Alzheimers sjúkdóm tekst oft að leyna honum, telur dómurinn framburð M ekki hnekkja framburði þeirra L og G.
Samkvæmt framanrituðu er það niðurstaða dómsins að D hafi, vegna ellihrörnunarsjúkdóms, ekki verið fær um að gera erfðaskrá á skynsamlegan hátt [dags.] 2001 og ber þegar af þeirri ástæðu að verða við kröfu sóknaraðila og fella erfðaskrána úr gildi. Ágreiningslaust er í málinu að E hafi verið andlega heilbrigð á þessum tíma, en það breytir ekki ógildi erfðaskrárinnar. Málskostnaður skal falla niður.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Erfðaskrá sem E og D gerðu [dags.] 2001 er ógild.
Málskostnaður fellur niður.