Hæstiréttur íslands
Mál nr. 338/1999
Lykilorð
- Verksamningur
- Vanefnd
- Skaðabótamál
|
|
Fimmtudaginn 3. febrúar 2000. |
|
Nr. 338/1999. |
Mál og menning hf. (Sigurmar K. Albertsson hrl.) gegn Fjallkonunni ehf. (Ólafur Garðarsson hrl.) og gagnsök |
Verksamningur. Vanefndir. Skaðabótamál.
Samhliða kaupum M á bókaútgáfu F var gert samkomulag um að F tæki að sér prentun á bókum, sem M hyggðist gefa út á fyrri hluta næstkomandi árs. Sagði í samkomulaginu, að aðilar stefndu á að prenthluti þessara viðskipta næmi 6.000.000 krónum eða meira. F taldi M hafa vanefnt samkomulagið með því að ekki hefði átt að telja með greiðslur til hans fyrir setningu, umbrot, filmuvinnu, plötugerð, pappír, bókband eða frágang bóka og krafði M um bætur vegna tapaðrar framlegðar af þessum sökum. Ekki var á það fallist með M, að samkomulagið hefði aðeins verið viljayfirlýsing eða M gæti nú borið það fyrir sig, að það væri óbundið af samningnum vegna vanefnda F. Lagt var til grundvallar, að með orðinu prenthluti í samkomulagi aðilanna hefði verið átt við alla þætti í fullvinnslu bóka að frátöldu bókbandi. Samkvæmt þessu var M talið hafa vanefnt samkomulagið með þvi að láta hjá líða að fela F verk, sem hefðu að frátöldum kostnaði af bókbandi kostað mismun á 6.000.000 króna og 1.666.484 krónum, en það var sú fjárhæð, sem M hafði greitt F að frádregnum kostnaði af bókbandi. Talið var, að verulegur munur væri á hlutfallstölum við kostnaðarskiptingu, sem lagðar voru til grundvallar í matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem F reisti kröfur sínar á, og því sem fyrir lá um kostnað af verkum F. Þótti matsgerðin ekki reist á staðreyndum, sem F hefði verið í lófa lagið að leggja fyrir hina dómkvöddu menn, heldur á reikningslegum forsendum, sem stæðu í engum beinum tengslum við atvik málsins. Varð ekki við matsgerðina stuðst við úrlausn málsins, hvorki að því er varðaði hugsanlegt tjón F í heild né einstaka þætti þess. Talið var, að F hefði mátt vera ljóst að með því krefjast efnisdóms eingöngu á grundvelli matsgerðarinnar og án annarra viðhlítandi sönnunargagna um tjón sitt hætti hann á að M yrði sýknaður af kröfu hans, en máli F um sama sakarefni hafði einu sinni áður verið vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar vegna vanreifunar, sem meðal annars gætti á kröfugerð F. Eins og F hafði gert málið úr garði varð ekkert ráðið um hvort þau verk, sem hann vann fyrir M, hefðu í reynd skilað honum neinni framlegð. Enn síður varð séð hvort þau verk, sem M vanrækti að fela F, hefðu orðið F til ábata. Var tjón F því talið ósannað og M sýknað af skaðabótakröfu hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. ágúst 1999. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 23. september 1999. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 4.360.877 krónur, en til vara aðra lægri fjárhæð, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. nóvember 1994 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Síðari hluta árs 1993 leituðu aðaláfrýjandi, sem hét þá Mál og menning, bókmenntafélag, og gagnáfrýjandi, sem þá nefndist Ísafoldarprentsmiðja hf., samninga um kaup þess fyrrnefnda á bókaútgáfu þess síðarnefnda. Áttu meðal annars að fylgja í kaupunum útgáfuréttindi og höfundaréttindi gagnáfrýjanda, svo og birgðir af prentuðum bókum, filmur og tölvutækt efni í tengslum við útgáfuna. Undanskilið átti hins vegar að vera allt, sem sneri að rekstri gagnáfrýjanda á prentsmiðju. Kaupsamningur milli málsaðilanna um framangreint var undirritaður 30. desember 1993. Átti aðaláfrýjandi að greiða alls 40.000.000 krónur fyrir hið selda.
Í málinu liggur fyrir skjal, undirritað af aðilunum, sem þeir nefndu samkomulag. Það var ódagsett, en ætla verður að það hafi verið gert samhliða kaupsamningnum. Meginmál þess var svohljóðandi:
„Ísafoldarprentsmiðja tekur að sér prentun á eftirtöldum bókum (sbr. yfirlit sem samið verður í byrjun janúar) sem Mál og menning hyggst frumútgefa eða endurprenta á fyrri hluta næsta árs.
Ísafoldarprentsmiðja skilar bókum af sömu gæðum og sambærilegar bækur hafa fengist frá öðrum prentsmiðjum, þ.e. pappírsgæði, prentgæði, bókband og stærð bóka.
Ávallt skal liggja fyrir samþykkt nákvæm verklýsing fyrir efni sem notað verður við framleiðslu bókanna s.s. pappír og bókbandsefni, upplag, brot og a.þ.h.
Endanleg verð skulu liggja fyrir áður en hvert verkefni fer af stað. Verðin skulu vera sambærileg og MM getur fengið annarsstaðar í íslenskum prentsmiðjum. Þá skal og liggja fyrir hvaða verkþætti Ísafoldarprentsmiðja annast sjálf, hvaða verkþætti undirverktakar á vegum Ísafoldar annast og hvort MM fái reikninga beint frá undirverktökum eða hvort reikningur komi frá Ísafold fyrir allt verkið. Ef MM á að annast einhverja verkþætti eftir prentun skal það vera ljóst fyrirfram.
Greiðslur skulu vera með 3 mánaða víxli, nema bækur sem sannanlega hefði ekki þurft að prenta fyrr en síðsumars - þær skulu gerðar upp með víxli eða skuldabréfi með gjalddaga 25. september 1994.
Aðilar stefna á að prenthluti þessara viðskipta verði á tímabilinu 1.1.94 fram til 1.3.94 að upphæð samtals 6.000.000 eða meira.“
Gagnáfrýjandi telur aðaláfrýjanda hafa vanefnt þetta samkomulag. Með samkomulaginu hafi verið ætlast til að gagnáfrýjandi fengi verkefni frá aðaláfrýjanda í þeim mæli að fyrir prentun eina og sér yrðu greiddar að minnsta kosti 6.000.000 krónur. Hafi þá ekki átt að telja með greiðslur til hans fyrir setningu, umbrot, filmuvinnu, plötugerð, pappír, bókband eða frágang bóka. Gagnáfrýjandi staðhæfir að í þessum skilningi hafi „prenthluti“, sem um ræddi í samkomulaginu, ekki orðið meiri í viðskiptum aðilanna en svo, að fyrir hann hafi aðaláfrýjandi greitt alls 1.110.250 krónur. Hafi aðaláfrýjandi þannig vanefnt að fela sér verkefni, þar sem greiddar hefðu verið 4.889.750 krónur eingöngu fyrir prentun. Slík verkefni hefðu fært gagnáfrýjanda tekjur umfram breytilegan kostnað af prentuninni, svokallaða framlegð, að fjárhæð 2.475.202 krónur. Að auki hefði gagnáfrýjandi notið framlegðar af öðrum áðurnefndum verkþáttum, sem hefðu um leið komið í hans hlut, að fjárhæð 1.885.675 krónur. Þessar fjárhæðir eru studdar við mat dómkvaddra manna frá 10. september 1997. Samtala þeirra er sú sama og fyrrnefnd dómkrafa gagnáfrýjanda.
II.
Í samkomulagi aðilanna um prentun, sem greinir hér áður, var mælt fyrir á ákveðinn hátt um ýmsar skyldur, sem hvor þeirra tók að sér varðandi meðal annars undirbúning einstakra verka, gæði þeirra, heimildir gagnáfrýjanda til að leggja þau í hendur annarra og greiðslur til hans og undirverktaka. Í lokaorðum samkomulagsins fólst jafnframt að viðskipti aðilanna ættu að ná þargreindu lágmarki, en með því voru lagðar skyldur á herðar þeirra beggja. Í kjölfar þessa samkomulags vann gagnáfrýjandi ýmis verk fyrir aðaláfrýjanda. Því hefur ekki verið haldið fram að sérstakur samningur hafi verið gerður um hvert þessara verka hvað varðar þau atriði, sem mælt var fyrir um í samkomulaginu. Verður því ekki annað séð en að aðilarnir hafi báðir hagað gerðum sínum eins og þar hafi verið um að ræða samning á milli þeirra. Af þessum sökum eru ekki efni til að fallast á með aðaláfrýjanda að samkomulagið hafi aðeins verið viljayfirlýsing, sem lagði engar skuldbindingar á aðilana, þótt að sönnu hafi gætt þar óvissu bæði um hvaða bækur yrðu prentaðar hjá gagnáfrýjanda og hvort eða hversu viðskiptin gætu orðið meiri en sem svaraði áðurnefndu lágmarki.
Samkvæmt gögnum, sem aðaláfrýjandi hefur lagt fram í málinu, fól hann gagnáfrýjanda að prenta alls ellefu bækur í kjölfar samkomulags þeirra. Í einu tilviki mun aðaláfrýjandi hafa afhent gagnáfrýjanda gögn til að hefja prentun um miðbik janúar 1994 og gerði sá síðarnefndi reikning fyrir það verk 9. næsta mánaðar. Í níu tilvikum kveðst aðaláfrýjandi hafa 13. febrúar 1994 komið til gagnáfrýjanda filmum til að nýta við prentunina, en í einu enn 1. mars sama árs. Lauk gagnáfrýjandi við prentun sex þessara síðastnefndu bóka og beindi til aðaláfrýjanda reikningum vegna þeirra 2. maí 1994. Þá prentaði gagnáfrýjandi tæpan helming einnar bókar til viðbótar og gaf út reikning til aðaláfrýjanda vegna þess verks 13. júlí 1994. Að öðru leyti færðust áðurnefnd verk til annarra, enda hafði gagnáfrýjandi selt prentsmiðju sína og afhent hana nýjum eiganda 25. mars 1994.
Aðaláfrýjandi fól ekki gagnáfrýjanda önnur verk í skjóli samkomulags þeirra en að framan var getið. Í málinu liggur fyrir að á árinu 1994 fann gagnáfrýjandi margsinnis að þessu bréflega við aðaláfrýjanda, fyrst í stað með óskum um að hann beindi til sín frekari verkefnum í þeim mæli, sem um var samið, en síðan með kröfu um skaðabætur. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki séð að aðaláfrýjandi hafi svarað þessu fyrr en með bréfi 2. janúar 1995, þar sem hann gerði verulegar athugasemdir um gæði verka gagnáfrýjanda og tafir á þeim. Hann hélt því þar fram að hann hafi af þessum sökum ekki talið sér fært að eiga meiri viðskipti við gagnáfrýjanda en raun varð á. Fram að þessu hafði aðaláfrýjandi ekki aðeins látið hjá líða að svara ítrekuðum tilmælum gagnáfrýjanda, heldur greiddi aðaláfrýjandi að auki verklaun samkvæmt reikningum gagnáfrýjanda án þess að bera við vanefndum af hans hálfu. Þegar af þessum ástæðum er aðaláfrýjanda með öllu haldlaust að bera nú fyrir sig að hann hafi mátt telja sig óbundinn af samningi aðilanna vegna vanefnda gagnáfrýjanda.
III.
Aðilarnir deila um hvað átt hafi verið við með orðinu prenthluti í niðurlagi samkomulags þeirra, sem áður greinir. Aðaláfrýjandi heldur því fram að skilja eigi orðið svo að með því hafi verið átt við fullvinnslu bóka. Hafi þannig í heild átt að fela gagnáfrýjanda verk fyrir það verð, sem greindi í samkomulaginu, að öllum verkþáttum meðtöldum. Sem fyrr segir telur gagnáfrýjandi á hinn bóginn að í þessu ákvæði samkomulagsins hafi aðeins verið fjallað um kostnað af prentun, þannig að til viðbótar hafi átt að koma greiðslur eftir atvikum fyrir setningu, umbrot, filmuvinnu, plötugerð, pappír, bókband og frágang bóka.
Í málinu hafa aðilarnir hvor fyrir sitt leyti lagt fram vottorð ýmissa manna, sem starfa á vettvangi bókagerðar, um hvaða skilning þeir leggi í orðið prenthluti. Að efni til skiptast vottorðin að mestu í tvö horn, enda er í þeim flestum tekið undir skilning málsaðilans, sem eftir þeim leitaði. Verður að álykta af þessu að ekki sé til viðtekinn og almennur skilningur á merkingu þessa orðs í umræddri atvinnugrein.
Að virtu samkomulagi aðilanna í heild er ljóst að orðið prenthluti getur þar ekki átt við alla þætti í fullvinnslu bóka, enda hefði þá ekki þurft að grípa til þessa orðs, heldur mátt vísa til þess að heildarviðskipti aðilanna ættu að nema þargreindri fjárhæð að lágmarki. Á þessum grunni verður að hafna þeim skilningi á orðinu, sem aðaláfrýjandi heldur fram.
Meðal gagna málsins er bréf gagnáfrýjanda 20. janúar 1994, þar sem hann staðfesti við aðaláfrýjanda að hann gæti tekið að sér prentun nánar tiltekinna bóka fyrir ákveðið verð. Var þar meðal annars getið um bókina Flóru Íslands, sem gagnáfrýjandi bauðst til að gera í 3.000 eintökum fyrir 1.500.000 krónur. Þess var þó einnig getið að gagnáfrýjandi gæti tekið að sér „prentþátt“ sömu bókar fyrir 969.500 krónur. Í málflutningi fyrir Hæstarétti var því lýst að gagnáfrýjandi liti svo á að tilvitnað orð væri sömu merkingar og orðið prenthluti. Í málinu liggur fyrir tilboð, sem gagnáfrýjandi gerði aðaláfrýjanda 17. janúar 1994 um fullvinnslu sömu bókar í 3.000 eintökum fyrir 1.710.625 krónur. Í tilboði þessu voru kostnaðarþættir sundurliðaðir og meðal annars greint að ráðgert væri að prentun bókarinnar myndi kosta 680.000 krónur. Óhjákvæmilegt er að álykta af þessu að við gerð tilboðsins 20. janúar 1994 hafi gagnáfrýjandi ekki lagt þann skilning í orðið prenthluti, sem hann nú heldur fram. Hlýtur þá að hafa gegnt sama máli við gerð samkomulagsins.
Við skýringu á samkomulagi aðilanna verður að gæta að því að aðaláfrýjandi skuldbatt sig þar til að fela gagnáfrýjanda verk að ákveðnu lágmarki. Ósennilegt er að aðaláfrýjandi hefði gengist undir þá skuldbindingu án þess að tryggt væri að hann gæti staðreynt sjálfur hversu sér miðaði að efna hana. Í málinu liggur fyrir að gagnáfrýjandi gat og hugðist annast innan prentsmiðju sinnar aðra þætti við fullvinnslu bóka fyrir aðaláfrýjanda en bókband, sem varð því að leita til annarra um. Aðaláfrýjandi hefði samkvæmt því hæglega getað fengið í hendur viðhlítandi gögn til að staðreyna þann þátt í heildarkostnaði af hverju verki. Á hinn bóginn virðist sem öðru máli hefði gegnt um aðra verkþætti, en um sundurliðun kostnaðar af þeim hefði aðaláfrýjandi væntanlega við fátt annað getað stuðst en orð gagnáfrýjanda ein. Getur vart staðist að aðaláfrýjandi hefði haft í hyggju að leggja nánast í hendur gagnáfrýjanda ákvörðun um hversu mörg verk þyrfti til að efna samkomulag þeirra. Gögn málsins gefa engar nánari vísbendingar um hvernig skilja eigi orðið prenthluti í samkomulaginu. Í ljósi þessa verður að leggja til grundvallar að með orðinu hafi verið átt við alla þætti í fullvinnslu bóka að frátöldu bókbandi.
Samkvæmt gögnum, sem aðaláfrýjandi hefur lagt fram, greiddi hann alls 2.747.974 krónur vegna framleiðslu bókanna, sem gagnáfrýjandi annaðist prentun á. Af þeirri fjárhæð virðist 1.081.490 krónum hafa verið varið til greiðslu kostnaðar af bókbandi. Gagnáfrýjandi hefur ekki fært fram rökstudd mótmæli gegn réttmæti þessara gagna. Eftir framangreindum skilningi fól þannig aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda verk, sem kostuðu hvað prenthluta varðar mismun þessara fjárhæða, eða 1.666.484 krónur. Samkvæmt þessu vanefndi aðaláfrýjandi samkomulag aðilanna með því að láta hjá líða að fela gagnáfrýjanda frekari verk, sem hefðu að frátöldum kostnaði af bókbandi kostað mismun á 6.000.000 krónum og umræddum 1.666.484 krónum, eða 4.333.516 krónur.
IV.
Gagnáfrýjandi reisir kröfu sína um skaðabætur sem fyrr segir á matsgerð dómkvaddra manna. Til samræmis við þær spurningar, sem gagnáfrýjandi lagði fyrir hina dómkvöddu menn, var í matsgerðinni látið uppi álit um framlegð, sem hann gæti talist hafa farið á mis við vegna vanefnda aðaláfrýjanda, annars vegar af vinnslu í prentvél og hins vegar af öðrum verkþáttum.
Í matsgerðinni var lagt til grundvallar að með réttu hafi átt að skilja orðið prenthluti í samkomulagi málsaðila á þann hátt, sem gagnáfrýjandi hefur haldið fram. Þegar af þeirri ástæðu getur matsgerðin ekki komið að haldi við ákvörðun skaðabóta handa gagnáfrýjanda fyrir missi framlegðar af prentun, eins og samkomulagið hefur verið skýrt hér að framan, en að þessu leyti er niðurstaða hins áfrýjaða dóms reist á röngum forsendum.
Í mati á framlegð af öðrum verkþáttum en prentun, sem gagnáfrýjandi gæti hafa orðið af, byggðu hinir dómkvöddu menn á því, sem þeir nefndu algenga kostnaðarskiptingu í prentvinnslu „samkvæmt upplýsingum úr greininni að meðaltali“, en þá skiptingu kváðu þeir vera á þann veg að 18% heildarkostnaðar stafi af filmu- og plötuvinnu, 23,5% af prentun, 38,5% af bókbandi og 20% af pappír. Þá gáfu matsmenn sér að algengt væri að skilvís fyrirtæki í prentiðnaði gætu náð álagningu eða umboðslaunum af helstu aðföngum. Við útreikning á tjóni gagnáfrýjanda lögðu þeir til grundvallar að hann hafi farið á mis við álagningu eða umboðslaun sem svaraði 12,5% af verði af filmu- og plötuvinnu, 12,5% af verði bókbands og 10% af verði pappírs. Að því takmarkaða leyti, sem gagnáfrýjandi hefur lagt fram gögn í málinu um sundurliðun kostnaðar af verkum fyrir aðaláfrýjanda í einstaka þætti, er að sjá verulegan mun á hlutfallstölunum, sem matsmenn lögðu til grundvallar, og því, sem raun ber vitni um kostnað af verkum gagnáfrýjanda. Þá hefur aðaláfrýjandi lagt fram yfirlýsingar frá flestum þeim, sem gögn málsins bera með sér að gagnáfrýjandi hafi leitað til um afmarkaða þætti í verkum fyrir aðaláfrýjanda, um að engin umboðslaun hafi verið greidd gagnáfrýjanda í þeim viðskiptum. Matsgerðin er því að þessu leyti ekki reist á staðreyndum, sem gagnáfrýjanda var þó í lófa lagið að leggja fyrir hina dómkvöddu menn, heldur á reikningslegum forsendum, sem standa í engum beinum tengslum við atvik málsins. Kemur matsgerðin þannig ekki að haldi til sönnunar á tjóni gagnáfrýjanda af þessum rótum.
Af þeim ástæðum, sem að framan greinir, gætir þess svo mjög að umrædd matsgerð sé reist á ótækum forsendum að ekki verður við hana stuðst við úrlausn málsins, hvorki að því er varðar hugsanlegt tjón gagnáfrýjanda í heild né einstaka þætti þess.
V.
Gagnáfrýjandi höfðaði upphaflega mál um þetta sakarefni á hendur aðaláfrýjanda 5. september 1995. Því lauk með dómi Hæstaréttar 18. september 1997, sem er birtur á bls. 2368 í dómasafni þess árs. Með honum var málinu vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi vegna vanreifunar, sem gætti meðal annars á kröfugerð gagnáfrýjanda, en hún var þar byggð á eigin útreikningum hans á tjóni sínu. Við flutning þess máls fyrir Hæstarétti lá fyrir sú matsgerð dómkvaddra manna, sem fjallað var um hér að framan, en á henni byggði gagnáfrýjandi að eigin sögn aðeins til frekari stuðnings dómkröfu sinni. Í nefndum dómi Hæstaréttar var sérstaklega á það bent að niðurstaða matsgerðarinnar um missi gagnáfrýjanda á framlegð af öðrum verkþáttum en prentun styddist við forsendur, sem væru ekki í neinu samræmi við fyrirliggjandi gögn um verk gagnáfrýjanda í þágu aðaláfrýjanda.
Þrátt fyrir framangreint kaus gagnáfrýjandi við höfðun þessa máls að reisa kröfu sína eingöngu á niðurstöðum matsgerðarinnar. Í greinargerð fyrir héraðsdómi krafðist aðaláfrýjandi þess að málinu yrði vísað frá dómi og varð héraðsdómari við þeirri kröfu með úrskurði 23. október 1998. Sá úrskurður var felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar 25. nóvember 1998, sem er birtur í dómasafni þess árs á bls. 3821. Var þar tekið fram að með því að miða dómkröfu sína við matsgerð dómkvaddra manna hafi gagnáfrýjandi bætt úr þeirri vanreifun hennar, sem hafi leitt til frávísunar fyrra máls hans. Úr aðfinnslum aðaláfrýjanda við matsgerðina yrði hins vegar að leysa með tilliti til þess hvort hún nægði gagnáfrýjanda til sönnunar kröfum hans. Vegna þessa mátti gagnáfrýjanda vera ljóst að með því að krefjast efnisdóms eingöngu á grundvelli matsgerðarinnar og án annarra viðhlítandi sönnunargagna um tjón sitt hætti hann á að aðaláfrýjandi yrði sýknaður af kröfu hans ef ekki yrði fært að reisa niðurstöðu málsins á matsgerðinni, en um frávísun þess gæti ekki aftur orðið að ræða.
Eins og áður greinir greiddi aðaláfrýjandi á árinu 1994 samtals 2.747.974 krónur fyrir gerð bóka, þar sem gagnáfrýjandi annaðist prentun og eftir atvikum fleiri verkþætti. Samkvæmt gögnum, sem aðaláfrýjandi hefur lagt fram og gagnáfrýjandi hefur ekki mótmælt, nam kostnaður af bókbandi í þessum tilvikum alls 1.081.490 krónum, en af pappír 862.128 krónum. Stóðu þannig eftir af verklaunum 804.356 krónur til að mæta öðrum kostnaði, sem gagnáfrýjandi hlýtur að hafa borið. Gagnáfrýjandi hefur ekki lagt fram gögn um afrakstur sinn af þessum verkum nema hvað varðar tvær af þeim rúmlega sjö bókum, sem hér um ræðir. Með samanburði á þeim gögnum og upplýsingum, sem fundnar verða í fyrrnefndum gögnum frá aðaláfrýjanda um sömu bækur, virðist sem verklaun til gagnáfrýjanda fyrir aðra bókina hafi aðeins verið 1.989 krónum hærri en sem nam útlögðum kostnaði hans vegna pappírs og bókbands, en í hinu tilvikinu 3.603 krónum lægri en sömu kostnaðarliðir. Til samans virðist gagnáfrýjandi því ekkert hafa borið úr býtum til að standa straum af kostnaði vegna eigin framlags síns til þessara tveggja verka. Af hinum verkunum fimm fékk gagnáfrýjandi sýnilega verklaun umfram beinan útlagðan kostnað, en ekkert liggur hins vegar fyrir um hvort þau hafi hrokkið fyrir kostnaði hans sjálfs. Eins og gagnáfrýjandi hefur gert málið úr garði verður því ekkert ráðið um hvort þau verk, sem hann vann fyrir aðaláfrýjanda, hafi í reynd skilað honum neinni framlegð. Enn síður verður þá séð hvort þau verk, sem aðaláfrýjandi vanrækti að fela gagnáfrýjanda, hefðu orðið honum til ábata. Er tjón gagnáfrýjanda af vanefndum aðaláfrýjanda því alls ósannað.
Samkvæmt framansögðu skortir skilyrði til að dæma gagnáfrýjanda skaðabætur úr hendi aðaláfrýjanda, sem verður því að sýkna af kröfu hans.
Eins og atvikum málsins er háttað er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri þess í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Mál og menning hf., er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Fjallkonunnar ehf.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 1999.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað
fyrir dómþinginu af Fjallkonunni ehf., kt. 660169-0329, Óðinsgötu 4, Reykjavík á hendur Máli og menningu hf., kt. 450570-0289, Laugavegi 18, Reykjavík, með stefnu þingfestri hinn 19. mars 1998.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða 4.360.877 krónur ásamt dráttarvöxtum, þ.m.t. vaxtavöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, frá 30. nóvember 1994 til greiðsludags. Til vara gerir stefnandi þær kröfur, að stefndi verði dæmdur til greiðslu annarrar fjárhæðar, lægri, ásamt sömu dráttarvöxtum til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður, en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar sér til handa, eftir mati dómsins.
Málinu var vísað frá dómi hinn 23. október 1998, en með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 25. nóvember sl. var úrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar.
Málið var flutt munnlega hinn 19. mars sl., en endurupptekið og flutt að nýju hinn 19. maí sl. Málið var dómtekið þann dag.
II.
Málavextir eru þeir, að með samningi milli stefnanda, sem þá var Ísafoldarprentsmiðja hf., og stefnda í árslok 1993, keypti stefndi bókaútgáfu stefnanda að meðtöldum nánar tilgreindum réttindum í tengslum við starfsemina. Umsamið kaupverð var 40.000.000 króna. Aðilar gerðu jafnframt með sér samkomulag samhliða þessum samningi, þar sem sagði eftirfarandi:
„Ísafoldarprentsmiðja tekur að sér prentun á eftirtöldum bókum ( sbr. yfirlit sem samið verður í byrjun janúar) sem Mál og menning hyggst frumútgefa eða endurprenta á fyrri hluta næsta árs.
Ísafoldarprentsmiðja skilar bókum af sömu gæðum og sambærilegar bækur hafa fengist frá öðrum prentsmiðjum, þ.e. pappírsgæði, bókband og stærð bóka.
Ávallt skal liggja fyrir samþykkt nákvæm verklýsing fyrir efni sem notað verður við framleiðslu bókanna s.s. pappír og bókbandsefni, upplag, brot og a.þ.h.
Endanleg verð skulu liggja fyrir áður en hvert verkefni fer af stað. Verðin skulu vera sambærileg og MM getur fengið annars staðar í íslenskum prentsmiðjum. Þá skal og liggja fyrir hvaða verkþætti Ísafoldarprentsmiðja annast sjálf, hvaða verkþætti undirverktakar á vegum Ísafoldar annast og hvort MM fái reikninga beint frá undirverktökum eða hvort reikningur komi frá Ísafold fyrir allt verkið. Ef MM á að annast einhverja verkþætti eftir prentun skal það vera ljóst fyrirfram.
Greiðslur skulu vera með 3 mánaða víxli, nema bækur sem sannanlega hefði ekki þurft að prenta fyrr en síðsumars þær skulu gerðar upp með víxli eða skuldabréfi með gjalddaga 25. september 1994.
Aðilar stefna á að prenthluti þessara viðskipta verði á tímabilinu 1.1.94 fram til 1.3.94 að upphæð samtals 6.000.000 eða meira.”
Stefnandi kveður, að á árinu 1993 hafi þáverandi framkvæmdastjóri stefnda og stjórnarformaður stefnanda rætt lauslega saman um kaup stefnda á bókaútgáfu stefnanda, en mikið hafi borið í milli varðandi verðhugmyndir. Síðla hausts hafi framkvæmdastjóri stefnda haft samband við stjórnarformann stefnanda og lýst áhuga sínum á að ganga frá kaupunum fyrir áramót, vegna skattalegra forsendna. Hafi niðurstaða þeirra viðræðna verið sú, að kaupverðið skyldi vera 50.000.000 króna. Í kjölfar þess hafi stefnandi útbúið uppkast af kaupsamningi milli aðila, sem endurskoðaður hafi verið nokkrum sinnum af hálfu beggja aðila.
Stefnandi kveðst hafa samþykkt það munnlega, en beðið hafi verið með undirskrift samningsins, þar til ljóst hafi verið hvernig fara ætti með fyrir fram greidd höfundarlaun í samningnum. Síðar hafi framkvæmdastjóri stefnda lýst því yfir, að stefndi teldi sig ekki bundinn af samningnum, þar sem hann væri ekki undirritaður og viljað lækka kaupverðið í 40.000.000 krónur.
Stjórnarformaður stefnanda hafi þá haft samband við stjórnarformann stefnda, sem í framhaldi af því hafi boðað til fundar með forsvarsmönnum aðila. Stjórnarformaður stefnda hafi á þeim fundi sett fram þá tillögu að lausn málsins, að stefnandi tæki að sér hluta þeirra prentverka, sem stefndi þyrfti að láta prenta fyrir sig. Á þeim tíma hafi stefnandi verið búinn að selja prentsmiðju sína Frjálsri fjölmiðlun og hafi afhending átt að fara fram 1. mars 1994. Þar sem ekki hafi verið búið að selja tæki og búnað prentsmiðjunnar hafi stefnendur ekki þurft að reikna með afskriftum eða vélaafnotum inn í rekstrarkostnað og því hafi allt bent til að framlegð yrði mjög góð vegna fyrirhugaðs verkefnis.
Samningurinn um prentunina hafi verið forsenda þess að aðilar náðu saman.
Stefnandi kveður, að á þeim fundi er samningar náðust hafi verið rætt nánar um framkvæmd fyrirhugaðrar prentunar. Hafi framkvæmdastjóri stefnda ætlað að útbúa lista yfir þau verk, sem ætti að prenta og einnig verkefni, sem raunverulega þyrfti ekki að prenta fyrr en síðar á árinu.
Stjórnarformaður stefnanda hafi með ýmsum hætti undirbúið fyrirhugaða prentun. Hann kveðst hafa haft samband við prentsmiðjustjóra stefnanda. Prentsmiðjustjórinn hafi haft samband við tvo prentara, sem ekki hafi verið í vinnu, og beðið þá að vera viðbúna mikilli vinnu auk þess sem bæði prentsmiðjustjórinn og aðrir prentarar hjá stefnanda hafi lýst sig reiðubúna til aukinnar vinnu.
Fyrrgreindur listi yfir bækur, sem prenta þurfti fyrir stefnda, hafi ekki borist stefnanda fyrr en 11. janúar 1994, eða þegar 1/6 hluti fyrirhugaðs vinnslutíma hafi verið liðinn. Stefnandi hafi í framhaldi af því, eða 13. janúar 1994 gert stefnda tilboð um að prenta bókina Keith Richards, sem hafi í kjölfarið verið prentuð hjá stefnanda.
Í bréfi sínu, dagsettu 20. janúar, 1994 tilgreinir stefnandi hvaða bækur af lista stefnda hann geti prentað og á hvaða verði.
Eftir prentun bókarinnar Keith Richards hafi komið í ljós galli, en hluta texta hafi vantað á eina síðu bókarinnar. Galli þessi hafi ekki orðið tilefni til sérstakrar umkvörtunar, enda hafi verið um að kenna tæknilegum mistökum.
Stefnandi kveður að dregist hafi að önnur verkefni kæmu til stefnanda þrátt fyrir að stjórnarformaður og prentsmiðjustjóri stefnanda hafi ítrekað haft símsamband við framkvæmdastjóra stefnda. Þá hafi forsvarsmenn aðila hist á fundi 3. febrúar 1994, þar sem m.a. hafi verið rætt um efndir samningsins.
Í bréfi stefnanda til stefnda dagsettu, 9. febrúar 1994, sé athygli framkvæmdastjóra stefnda vakin á, að einungis 19 dagar séu eftir af þeim tíma, sem aðilar hafi gefið sér til prentunar og illa hafi gengið að fá á hreint hjá stefnda hvaða verkefni ætti að prenta.
Hinn 25. febrúar 1994, hafi stefnandi sent stefnda bréf, þar sem stefndi sé minntur á, að prentsamningurinn sé stutt á veg kominn.
Hinn 3. mars 1994 hafi stjórnarformaður stefnanda farið á fund stjórnarformanns stefnda og haft með sér ljósrit af fyrrgreindu bréfi.
Aðilar hafi síðan átt fund saman hinn 25. apríl 1994, þar sem rætt hafi verið um framhald prentunar í prentsmiðjunni, sem þá hafi verið flutt og komin í notkun hjá nýjum eiganda. Á þeim fundi hafi framkvæmdastjóri stefnda verið afhent yfirlit yfir verkefni, sem stefnandi hafi unnið fyrir stefnda, samtals að fjárhæð 1.110.250 krónur. Fjárhæðin sé samtala þess kostnaðar, sem stefnda hafi verið gefinn upp við tilboðsgerð og stefnandi kveður falla undir skilgreininguna „prentþáttur”. Stefnandi kveður raunverulegan prenttíma hafa verið styttri og kostnað stefnanda vegna prentunarinnar því minni, en þar sem stefnda hafi verið gefin upp tiltekin fjárhæð hafi stefnandi haldið sig við hana.
Stefnandi kveður aðila hafa hist a.m.k. tvisvar í maímánuði 1994 til þess að ræða prentun einstakra verka og möguleika á framhaldi prentunar, en án niðurstöðu.
Hinn 7. júlí 1994 hafi stefnandi enn ritað stefnda bréf, þar sem óskað hafi verið eftir viðræðum um lok málsins, en stefnandi hafi þá verið búinn að gera samkomulag við nýjan eiganda prentsmiðjunnar um áframhaldandi vinnu fyrir stefnda með von um hlutdeild í framlegð.
Forsvarsmaður stefnanda hafi ritað stjórnarformanni stefnda bréf hinn 30. nóvember 1994, þar sem vakin sé athygli á að prentsamningurinn hafi verið ákvörðunarástæða þess, að útgáfan var seld. Í bréfi þessu víki stefnandi og að væntanlegri framlegð af fyrirhugðari prentun og láti í ljós, að framlegð hafi numið a.m.k. 2/3 hluta þess fjár, sem fyrir prentunina hefði verið greitt.
Engin svör hafi borist frá stefnda við þessum erindum stefnanda og hafi því lögmaður stefnanda ritað stefnda bréf, dagsett 29. desember 1994, þar sem krafist hafi verið bóta vegna vanefnda á samningi aðila. Því bréfi svaraði stefndi 2. janúar 1995, þar sem m.a. hafi verið látið að því liggja að verkstjórn í prentsmiðju stefnanda hefði verið ábótavant.
Hinn 24. janúar 1995 ritaði lögmaður stefnanda stefnda bréf, þar sem m.a. séu rakin prentverk, sem unnin hafi verið og fullyrt að bækur hafi ekki komið til prentunar fyrr en eftir ítrekanir prentsmiðjustjóra stefnanda. Öll verk hafi verið unnin samkvæmt beiðni á umsömdum tíma og aldrei verið kvartað af hálfu stefnda yfir verkhraða.
Stefndi kveður aðila hafa hafið viðræður um kaup stefnda á bókaútgáfu stefnanda árið 1991. Í samningaviðræðum aðila hafi mörg samningsuppköst gengið á milli aðila og reynt að hnýta alla lausa enda í samningsákvæðunum áður en verð hafi verið rætt. Verðhugmyndir hafi komið frá forsvarsmanni stefnanda. Í fyrrgreindum samningsdrögum sé kaupverðið yfirleitt nefnt 50.000.000 króna, en á síðari stigum hafi verið ritað 45.000.000 króna og síðast 40.000.000 króna. Slitnað hafi upp úr samningaviðræðum, en að frumkvæði forsvarsmanns stefnanda hafi viðræður verið teknar upp aftur eftir nokkurra vikna hlé. Niðurstaða þeirra hafi orðið samningur um endanlegt verð, 40.000.000 króna, með tilheyrandi skilmálum og uppgjörsaðferðum.
Stefnandi mótmælir því, að samningurinn um prentverk hafi orðið til sem liður í kaupum stefnda á bókaútgáfu stefnanda. Um hafi verið að ræða tvö óskyld mál, ella hefði kaupsamningurinn átt að geyma ákvæði um sérstakan verksamning milli aðila, en svo hafi ekki verið.
Þá mótmælir stefndi því, að þáttur stjórnarformanns stefnda í fyrrgreindum samningi hafi verið með þeim hætti, sem stefnandi lýsi.
Stefndi kveður niðurstöðu viðræðna aðila um prentun hafa verið skilyrta viljayfirlýsingu.
III.
Stefnandi byggir kröfur sínar á ódagsettu samkomulagi aðila, sem gert hafi verið samhliða kaupsamningi þann 30. desember 1993, og matsgerð dagsettri 10. september 1997. Tveir samningar hafi verið gerðir samtímis vegna viðskipta aðila, annars vegar kaupsamningur og hins vegar samningur um prentun. Aðeins kaupsamningurinn beri dagsetninguna 30. desember 1993. Þar sem sá samningur hafi verið lengi í smíðum og verið tilbúinn í tölvu stefnda hafi prentsamningurinn ekki verið felldur inn í kaupsamninginn.
Samkomulagið kveði á um, að stefnandi taki að sér prentun bóka, þar sem prenthlutinn nemi tiltekinni lágmarksfjárhæð og skili af sér bókum af sömu gæðum og sambærilegar bækur, sem stefnandi hafi áður fengið frá öðrum prentsmiðjum, þ.e. hvað varði pappírsgæði, prentgæði, bókband og stærð bóka.
Prentsamningurinn hafi verið forsenda þess, að forsvarsmenn stefnanda hafi samþykkt tilboð stefnda í bókaútgáfu stefnanda, enda hafi tilboðið lækkað úr 50 milljónum í 40 milljónir. Prentsamningnum hafi verið ætlað að bæta stefnanda upp þann mun, a.m.k að hluta. Í lok samningsins sé tekið fram að :„prenthluti þessara viðskipta”, sem tryggja hafi átt stefnanda, nemi samtals sex milljónum eða meira. Samkvæmt þessu skýra orðalagi hafi prenthlutinn einungis verið hluti viðskipta aðila enda sé í samningnum talað um fleiri þætti, sem komi við sögu við vinnslu bóka, sbr. 4.mgr. þar sem segi, að ávallt skuli liggja fyrir verklýsing fyrir efni, sem notað verði við framleiðslu bókanna, s.s. pappír og bókbandsefni, upplag og annað þess háttar. Þá sé í 5. mgr. samningsins kveðið á um það, að liggja skuli fyrir hvaða verkþætti stefnandi annist sjálfur og hvaða verkþætti undirverktakar annist. Greinilegt sé því, að samningurinn feli í sér meira en prentþáttinn einan. Sá þáttur hafi hins vegar verið sérstaklega tekinn út og verðlagður. Þeir þættir sem óhjákvæmilega fylgi prentuninni séu t.d. kostnaður við setningar- umbrot- og filmuvinnu, plötugerð, pappír og bókband. Stefnandi telur því að báðir aðilar hafi gert sér, eða mátt gera sér grein fyrir því, að samningi um beina prentun fylgi að jafnaði aðrir þættir, eins og þeir sem raktir hafi verið. Forsvarsmenn stefnanda hafi ekki eingöngu horft á samninginn um prentþáttinn því báðum aðilum hafi verið ljóst, að ná mætti verulegri framlegð út úr öðrum þáttum en beinum prentkostnaði.
Lögmaður stefnanda óskaði eftir því við Þórarinn Gunnarsson, skrifstofustjóra Samtaka iðnaðarins, Sæmund Árnason og Kristján Inga Einarsson, framkvæmdastjóra prentsmiðjunnar Leturprents, að þeir upplýstu um skilning sinn á orðinu „prenthluti” í síðustu málsgrein samningsins. Telur stefnandi skýringar þeirra vera fyrrgreindu til stuðnings, en í bréfi Þórarins Gunnarssonar, skrifstofustjóra Samtaka iðnaðarins, dagsettu 21. október 1997, telji hann eðlilegt að draga þá ályktun af samningnum, að orðið prenthluti vísi einungis til prentunar bókanna og að samið sé um verð fyrir prentunina. Sæmundur Árnason telji að átt sé við prentunina sjálfa, þ.e. að renna pappírnum í gegnum prentvél. Þá telji framkvæmdastjóri prentsmiðjunnar Leturprents orðið „prenthluti” vísa til þess, sem fram fari í prentvél, þ.e.a.s. innsetningar í prentvélina og stilling ásamt rennsli í gegnum hana, stundum kallað „rönn”, en eigi ekki við t.d. setningu, filmuvinnu, pappír eða bókband.
Þegar samið hafi verið um það milli aðila, að stefnandi prentaði fyrir stefnda þannig að prentþáttur viðskiptanna næmi a.m.k. 6.000.000 króna, hafi aðeins verið um að ræða beinan prentkostnað, en ekki annan kostnað svo sem setningar-, umbrots- og filmuvinna, plötugerð, pappír og bókband.
Framlegð stefnanda út úr prentþætti samningsins og öðrum þáttum hafi verið ætlað að koma í stað 10 milljón króna lækkunar á tilboði stefnda úr 50.000.000 króna í 40.000.000 króna. Stefnandi hafi í fyrstu ekki viljað ganga að síðara tilboðinu og þess vegna hafi tillaga um lágmarksprentun, ásamt þeim þáttum sem prentuninni óhjákvæmilega fylgi, komið frá stefnda. Stefnandi hafi gert sér vonir um verulega framlegð vegna annarra þátta til viðbótar við framlegð af prentþættinum. Hafi stefnandi gert sér vonir um að hagnaður vegna beinnar prentunar annars vegar og vegna annarra þátta hins vegar myndi vega upp lækkun á kaupsamningnum. Forsvarsmönnum stefnda, sem sé með stærstu kaupendum prentverks hér á landi, hafi einnig átt að vera þetta ljóst og að með hagkvæmni hlyti stefnandi að fá framlegð úr öðrum þáttum vinnslunnar, en ekki aðeins prentuninni, t.d. með beinum innflutningi á pappír, góðum viðskiptasamningum við bókbandsstofur og birgja.
Stefnandi vísar til matsgerðar dómkvaddra matsmanna frá 10. september 1997 varðandi tölulegar forsendur kröfugerðar sinnar. Byggir hann bótakröfu sína á matsgerðinni. Matsgerðin, sem sé ítarlega rökstudd, meti líklega framlegð stefnanda af þeim hluta prentsamningsins, sem ólokið hafi verið, 2.497.684 krónur ef vinnslan hefði farið fram með Roland prentvél, en 2.451.720 krónur hefði Heidelberg prentvél verið notuð. Þar sem litlu muni á framlegð eftir því hvor vélin hefði verið notuð og þar sem hægt hefði verið að vinna prentunina á hvora vélina sem var, sé krafist meðaltals af ofangreindum tölum, eða 2.475.202 króna.
Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir mun meira tjóni eins og fram komi í dómkröfum hans, er mál þetta hóf fyrst göngu sína. Þá hafi verið varið mun lengri tíma til prentunar en matsmenn gangi út frá og því ekki þurft að vinna eins mikið á vöktum og byggt sé á í mati. Kostnaður hafi því ekki orðið eins mikill og matsmenn reikni með og hagnaður orðið meiri. Þá hafi matsmenn lýst því yfir að þeir hafi verið varkárir í útreikningum sínum og því hafi tekjuliðir verið í lægri kantinum og kostnaðarliðir í hærra lagi. Eins og fram komi hjá kaupanda búnaðarins, Sveini R. Eyjólfssyni, hefði verið unnt fyrir stefnanda að fá frestað flutningi búnaðar síns um nokkrar vikur til viðbótar, ef þörf hefði verið á. Tölur í matsgerð sýni samkvæmt þessu aðeins lágmarkstjón stefnanda vegna vanefnda stefnda á samningnum.
Stefnandi bendir og á að matsmenn miði við, að útseld klukkustund Roland vélar hafi verið 3.540 krónur, sem sé nokkuð lágt metið, en í samræmi við tilboð stefnanda í einstök verk fyrir stefnda. Stefnandi bendir og á að samkvæmt bréfi frá Leturprenti, dagsettu 13. mars 1998, hafi útseldur tími á hliðstæðri vél í þeirra eigu verið 4.000 krónur í ársbyrjun 1994. Í bréfi Sverris Davíðs Haukssonar prentsmiðjunni Grafík hf, komi og fram, að prentvél með álíka stóran prentflöt og Roland Prava, hafi verið seld á 3.500 4.500 krónur á klukkustund.
Stefnandi mótmælir því, að öll verk er stefnanda hafi verið falin hafi tafist eða verið stórlega ábótavant og það sé skýringin á því hvers vegna samningurinn um prentun hafi ekki verið efndur. Fyrir mistök við prentun bókarinnar Keith Richards, sem bætt hafi verið úr þegar í stað, hafi stefndu ekki kvartað á verktímanum. Hafi stefndu talið, að verk stefnanda hafi verið gallað hafi þeir sýnt af sér mikið tómlæti með því að kvarta ekki við stefnanda. Öll bréfasamskipti, frá því að samningurinn hafi verið gerður hinn 30. desember 1993 og þar til framkvæmdastjóri stefnda hafi svarað bréfi lögmanns stefnanda í janúar 1995, séu frá stefnanda til stefnda, þar sem stefnandi sé sífellt að inna stefnda eftir efndum samningsins og vekja athygli hans á að tíminn sé á þrotum.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna íslensks samningaréttar og laga nr. 97/1991, einkum IX. kafla.
Kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti byggir stefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að niðurstaða af þeim viðræðum, sem stefnandi kjósi að kalla samning, en sé í raun yfirlýsing, sé skilyrt í bak og fyrir. Í fyrsta lagi sé það skilyrði, að vinna stefnanda skuli vera jafngóð og annarra prentsmiðja hvað varðar pappír, bókbandsefni, bókband og stærð bóka. Í örðu lagi sé það krafa að við upphaf verks skuli liggja fyrir nákvæm verklýsing vegna efnis, þ.e. pappírs, bókbandsefnis o.fl. og skilyrði séu um fyrir fram vitneskju um upplag, brot o.fl. atriði. Í þriðja lagi sé það skilyrði að endanleg verð skuli ávallt liggja fyrir við upphaf verks og skilgreining á því hvaða verk stefnandi skuli annast og hvaða verkþættir skuli fela undirverktökum. Í lokamálsgrein segi síðan „Aðilar stefna á að prenthluti þessara viðskipta verði á tímabilinu 1.1.94 fram til 1.3.94 að upphæð samtals kr. 6.000.000 eða meira.” Það sé því ljóst að ekki sé um niðurnjörvaðan samning að ræða heldur aðeins viljayfirlýsingu sem bundin sé mörgum fyrirvörum og skilyrðum og ljóst að ef þeim yrði ekki fylgt féllu þessi viðskipti þar með niður. Því er sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda að yfirlýsing um prentverk hafi orðið til sem liður í kaupum stefnda á bókaútgáfu stefnanda. Um tvö óskyld mál sé að ræða.
Stefnandi hafi ekki í neinu farið að ákvæðum viljayfirlýsingarinnar. Án nokkurs fyrirvara og án samþykkis stefnda, eins og áskilið var, hafi tekið að berast reikningar frá m.a. pappírsheildsölum og bókbandsstofum, sem hafi talið sig vera í viðskiptum við stefnda en ekki stefnanda og hafi stefndi ekki séð sér annað fært en að taka við þeim reikningum og greiða án þess að fyrir fram samþykkis væri aflað.
Fyrsta prentverkið sem stefnandi hafi tekið að sér fyrir stefnda hafi verið bók um Keith Richards. Þegar stefnandi skilaði því verki hafi komið í ljós að alvarlegur galli hafi verið á prentuninni, þar sem á eina síðu hafi vantað stóran hluta textans, en hann hafi fallið niður í filmugerð prentsmiðjunnar þrátt fyrir að hafa verið í frágenginni próförk, en filmuvinnan hafi verið á ábyrgð prentsmiðjunnar. Bók þessi hafi verið auglýst sem bók febrúarmánaðar 1994 og hafi stefnda verið nauðugur einn kostur að senda hana frá sér þannig útbúna að sá texti sem vantaði hafi verið límdur inn á viðkomandi síðu. Frágangur þessi geti ekki talist sambærilegur ógallaðri bók og auðvitað hafi verið gerðar athugasemdir við þessa handvömm stefnanda.
Þrátt fyrir þetta hafi stefnanda verið falin fleiri verkefni en allt hafi borið að sama brunni, mistök hafi átt sér stað, pantað hafi verið efni og vinna hjá undirverktökum án samráðs við stefnda og verkum skilað seint og illa og raunar í sumum tilvikum alls ekki.
Á vormánuðum 1994 hafi stefnandi selt prentvélar sínar og þá hafi hann auðvitað verið ófær um að skila verkefnum. Samstarfi aðila hafi verið sjálfhætt vegna vanefnda og getuleysis stefnanda.
Í málinu sé byggt á fjárhæðum byggðum á matsgerð og séu þær ekki í samræmi við raunveruleikann í viðskiptum aðila, eins og hann komi fram í skjölum málsins. Fjárhæðir séu því ósannaðar og þær fjárhæðir, sem tengist „framlegð annarra þátta” í hróplegu ósamræmi við staðreyndir málsins. Þá sé hugtakanotkun stefnanda, og raunar matsmanna einnig, vafasöm og ljóst sé, að í viðskiptum þessum hafi stefndi haft annan skilning á því sem ætlunin hafi verið að gera. Skilningur stefnanda geti ekki ráðið niðurstöðum hér heldur verði að túlka samninginn eins og stefndi hafi leitt rök að, enda hafi stefndi ekki ætlað að binda þriðjung viðskipta sinna við stefnanda.
Krafa stefnanda um missi framlegðar vegna viljayfirlýsingar um „prenthluta” sé byggð á mati. Matsmenn komist að þeirri niðurstöðu eftir útreikninga og forsendur, sem stefnandi gefi þeim, sbr. beiðni.
Í upphafi beiðnarinnar sé beðið um mat á „líklega framlegð prentþáttarins eingöngu” og svo á „framlegð annarra þátta er gjarnan falli til við prentun”. Síðar í matsbeiðni sé svo að vísu beðið um „líklegar nettótekjur” og er væntanlega þá um annað hugtak að ræða. Í beiðninni sé haldið fram skilningi stefnanda á orðinu „prenthluti” og miðað við þrengsta skilning þess orðs og þann skilning sem henti stefnanda best.
Í annan stað sé staðhæft að í þessum skilningi hafi stefnandi prentað í þágu stefnda fyrir 1.110.250 krónur af alls 6.000.000 króna, en hvergi í gögnum málsins sé að finna gögn um hvernig þessi fjárhæð sé reiknuð. Þá séu lagðir fram með matsbeiðni verkseðlar, sem stefnandi hafi útbúið fyrir sjálfan sig, og útreikningar Árna Tómassonar löggilts endurskoðanda, sem sé gerður að fyrirmælum og forskrift forsvarsmanns stefnanda. Bæði þessi skjöl taki matsmenn góð og gild í niðurstöðum mats síns.
Matsmenn hafi ákveðið að vinna með þessum hætti þrátt fyrir að hafa fengið í hendur skjal, þar sem rakin séu í fimm liðum ýmis atriði, sem taka þurfi tillit til í væntanlegri matsgerð. Þá virðist matsmenn ekki hafa fengið í hendur öll skjöl frá stefnanda, sem taka hafi þurft tillit til við gerð matsins, en stefnandi hafi átt að koma öllum gögnum fyrra matsins til matsmanna hins síðara mats og kunni þetta að hafa ráðið miklu um niðurstöður þeirra. Ef skjöl málsins séu skoðuð komi í ljós, að stefnandi hafi prentað 9 tilgreindar bækur og bókahluta fyrir stefnda og geri stefnanda reikning fyrir samtals 2.747.974 krónum vegna þess. Séu tölur þessar sundurgreindar komi í ljós, að samanlagðar greiðslur til handa stefnanda séu 309.543 krónur af samtals 2.151.160 krónum, en mismunurinn hafi farið í pappírs og bókbandskostnað. Samkvæmt þessu hafi stefnandi haft fyrir vinnu sína tæp 15% af heildarfjárhæðinni. Stefndi kveður stefnanda hafa þurft að bera ýmsan aukakostnað vegna vinnu við bókina Íslensk flóra, en stefndi kveðst ekki hafa nákvæmar upplýsingar um hvernig þeim hlutum hafi reitt af.
Af þessu megi ljóst vera að matsmenn hafi ekki haft að leiðarljósi raunveruleg viðskipti aðila, heldur búið til einhvers konar „ídealt prentverk”, eins og stefndi kýs að kalla það, en svari ekki spurningum um raunverulegt tjón stefnanda, sem sé jafnósannað og áður.
Þá séu stefnukröfur miðaðar við þrengsta skilning á orðinu „prenthluti” og matsmenn taki mið af þeim skilningi í niðurstöðum sínum. Forsvarsmaður stefnda hafi annan skilning á hugtakinu „prenthluti”, þ.e. að með prentun bóka sé átt við allt verkið þar til bók er fullbúin, en þó hugsanlegt að undanskilja bókbandshluta prentunar.
Þá beri að líta til þess, að ef skilningur forsvarsmanna stefnanda sé látinn ráða þá þýði það, að stefndi hafi ætlað stefnanda allt að þriðjungi allrar bókaútgáfu sinnar það árið, en stefndi hafi látið fullgera bækur fyrir u.þ.b. 100.000.000 króna og 6.000.000 króna í þrengsta skilningi, sem í sundurgreiningu í verkhluta geri u.þ.b. 30.000.000 króna í fullbúnum bókum. Það sé auðvitað fjarri öllu lagi, að sú hafi verið ætlunin og sýni svo ekki verði um villst, að skilningur forsvarsmanna stefnda, sem fram komi í skjölum málsins, sé sá skilningur sem eigi að ráða í málinu.
Í skjölum málsins komi fram skilningur ýmissa á hugtakinu prentun. Framkvæmdastjóri stærstu prentsmiðju landsins lýsi þeim skilningi sínum á hugtakinu, að það nái yfir alla þætti bókagerðar. Fram komi hjá honum, að orðið „prenthluti” hafi ekki verið notað í þessum viðskiptum, en þó ætti pappírskostnaður að falla þarna undir. Í sama streng taki framkvæmdastjóri Prenthönnunar hf. og fyrrum framkvæmdastjóri prentsmiðjunnar Korpusar hf., en hann vilji þó nota orðið „prentvinnsla” sem samheiti um alla þætti bókagerðar. Prentsmiðjustjóri Litrófs hf., Svansprents hf. og Grafíkur hf., skilji orðið „prenthluti” þannig, að það eigi við alla þætti bókagerðar fram að bókbandi. Stefndi heldur því fram, að hvorki hafi verið í ljós leitt, það sem Hæstiréttur biðji um í dómi sínum, á hvaða skilningi orðalagsins hafi verið byggt af hálfu beggja aðila við gerð samkomulags þeirra, né hafi stefnandi aflað gagna um venju á þessu sviði viðskipta eða hliðstæðu í öðrum samningum til stuðnings staðhæfingu sinni um þetta efni.
Samkvæmt öllu framansögðu sé því meint tjón stefnanda ósannað og þær forsendur sem kröfugerð hans byggi á, þ.e.a.s. þær forsendur sem hann hafi gefið matsmönnum um tekjur sínar af prentun fyrir stefnda, miðaðar við hans eigin skilning á orðinu „prenthluti” standist ekki dóm Hæstaréttar Íslands frá 19. september 1997.
Í fyrrgeindum dómi Hæstaréttar segi svo m.a. um kröfu stefnanda um bætur vegna framlegðarmissis annarra þátta: „Gagnáfrýjandi hefur ekki leitast við að skýra frekar en hér segir hvernig fjárhæð þessa kröfuliðar er fundin, hvorki í héraðsdómsstefnu né öðrum gögnum. Skilja verður málflutning gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti svo að hann kjósi að miða ekki fjárhæð þessa liðar kröfugerðar sinnar við fyrrgreinda niðurstöðu um þetta efni í matsgerð 10. september 1997, en til þess er einnig að líta að sú niðurstaða er reist á forsendum um algenga skiptingu kostnaðar í einstaka þætti og um framlegð af tilboðsverkum, sem virðist ekki vera í neinu samræmi við fyrirliggjandi gögn um verk gagnáfrýjanda í þágu aðaláfrýjanda í skjóli umrædds samkomulags þeirra. Þegar að þessu gættu er ófært að leggja efnisdóm á þennan kröfulið gagnáfrýjanda.” Stefndi kveður Hæstarétt vera að vísa til skjala, er geymi yfirlýsingu allra þeirra fyrirtækja, sem stefnandi hafi ákveðið að eiga viðskipti við vegna svonefndra „annarra þátta”, sem fallið hafi til vegna viðskipta hans við stefnda. Af þessum skjölum verði ráðið að stefnandi hafi ekki getað vænst neinna umboðslauna hjá öðrum né þóknana í einhverri mynd. Þessi kröfuliður stefnanda sé út í hött og lítið stoði að vísa til matsgerðar, sem taki einungis á ímynduðum eða fræðilegum möguleika á slíkum þóknunum.
Varakröfu sína byggir stefndi á því, að viðskipti stefnda við stefnanda hafi numið 2.747.974 krónum. Viðskipti, að fjárhæð 840.500 krónur hafi verið flutt til nýrra eigenda véla stefnanda og prentað hafi verið hjá öðrum aðilum fyrir 675.000 krónur, sem stefnandi hafi sannanlega getað gert fyrir stefnda, en hafi aldrei komið í verk. Samtals séu þessar fjárhæðir 4.263.474 krónur og til að mæta sjónarmiðum um hugtakið „prenthluti” megi taka af þessari fjárhæð 1.081.490 krónur, þ.e. vegna bókbands og sé þá hægt að miða við fjárhæðina 3.181.984 krónur, í þeirri hugarleikfimi sem til þurfi til að finna út meint tjón stefnanda. Í málinu sé gengið út frá fjárhæðinni 1.110.250 krónur, en sú fjárhæð sé ekki studd gögnum og sé í raun í ósamræmi við önnur skjalleg gögn.
Þá bendi ekkert til að stefnandi hafi reynt að draga úr meintu tjóni sínu, t.d. með því að afla sér annarra viðskipta, en slíkt hafi honum verið skylt samkvæmt reglum skaðabótaréttar. Sönnunarbyrðin sé hjá stefnanda vegna allra krafna hans og einnig til þess að sýna fram á að tilraunir hafi verið gerðar til að afstýra meintu tjóni. Ekkert slíkt hafi verið lagt fram í málinu. Þá telur stefndi, að öll skilyrði séu til að færa niður fjárhæðir að áliti dómsins og fella niður málskostnað, sbr. 3. tl. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi mótmælir sérstaklega vaxtakröfu og auknum málskostnaðarkröfum. Það hafi alfarið verið á valdi stefnanda hvernig og hve hratt mál þetta hafi verið rekið. Það sé á ábyrgð stefnanda, að málið hafi ekki verið réttilega lagt fyrir dóm þannig að nauðsynlegt hafi verið að vísa málinu frá vegna óljósrar kröfugerðar. Stefnandi hafi síðan beðið í heilt misseri með að stefna málinu aftur og því sé ekki rökrétt að ákveða vaxtaáfall fyrr en í fyrsta lagi við þingfestingu síðari stefnu, eða 19. mars 1998.
Stefndi telur sig ekki geta borið á því ábyrgð að brösulega hafi gengið að reka smiðshöggið á kröfugerð stefnanda, enda hafi hann ekki þurft að eiga þar hlut að. Stefnandi verði sjálfur að bera kostnað af misgóðum matsgerðum, sem hann hafi sjálfur beðið um, en gagnist þó ekki í málinu.
Stefndi kveður flestöll framlögð skjöl stefnanda stafa frá honum sjálfum og þar sé að finna einhliða túlkun forsvarsmanna stefnanda á atburðum og sjónarmiðum, sem hér skipti máli. Skjöl þessi, hvort sem um sé að ræða lauslega minnispunkta eða bréf til forsvarsmanna stefnda, sanni hvorki rök stefnanda né málsástæður hans.
Um lagarök vísar stefndi til reglna kauparéttar, sbr. lög nr. 39/1922 og laga nr. 7/1936 og þeirrar meginreglu að samninga beri að halda.
V.
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda á ætluðum vanefndum stefnda á ódagsettu samkomulagi, sem aðilar gerðu um prentun bóka, að ætla má í árslok 1993. Ber að líta svo á, að með samkomulagi þessu hafi stefndi skuldbundið sig til þess að láta stefnanda prenta fyrir sig bækur á tímabilinu frá 1. janúar1994 til 1. mars 1994, að fullnægðum vissum skilyrðum. Í málinu liggur frammi ódagsett skjal frá stefnda, sem ber yfirskriftina „Bækur til prentunar hjá Ísafold. Eru þar tilgreindar 16 bækur og fjöldi eintaka hvers bókartitils. Stefndi kveðst hafa fengið bréf þetta 11. janúar 1994. Hinn 13. janúar 1994 gerði stefnandi stefnda tilboð í eina af þessum bókum og hinn 20. janúar 1994 samþykkti stefnandi að prenta 7 aðrar bækur af fyrrgreindum lista, samkvæmt verði sem stefndi hefði gefið upp og gerði stefnandi stefnda jafnframt tilboð í „prentþátt” fimm bókartitla af listanum auk tilboða í þrjár aðrar bækur. Ekkert liggur fyrir um svör stefnda við þessu.
Fram er komið að mistök urðu við prentun fyrstu bókarinnar, sem stefnandi prentaði fyrir stefnda, samkvæmt fyrrgreindu og einnig liggur fyrir að ýmsir gallar urðu á öðrum verkum stefnanda. Hins vegar liggur ekkert fyrir um að stefndi hafi kvartað formlega yfir þessum ágöllum, eða að hann hafi sagt upp samkomulagi aðila
eða krafist riftunar á því.
Samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi skyldi „prenthluti” viðskipta aðila vera að fjárhæð a.m.k. 6.000.000 króna, en aðila greinir á um hvað felist í orðinu „prenthluti”. Af framlögðum gögnum eða yfirheyrslum fyrir dómi verður ekki séð hvaða skilning aðilar lögðu í þetta orðalag samkomulagsins. Í málinu liggja frammi yfirlýsingar frá ýmsum mönnum, sem fást við viðskipti sem þessi. Af þeim gögnum verður ráðið, að ekki stendur venja til að nota orðið „prenthluti” um ákveðna þætti prentunar. Ekki verður heldur fyllilega séð af gögnum þessum hvaða þættir heyri undir prentun bóka, þ.e.a.s. hvort þar sé átt við alla þætti prentunarinnar, eða hvort einhverjir þættir hennar séu þar undanskildir. Hins vegar má ráða, þegar litið er til orðalags samkomulags aðila, að með orðavalinu „prenthluti” sé verið að vísa til þess að einhverjir hlutar prentunarinnar séu þar undanskildir og ekki sé þar átt við allt sem tilheyrir bókagerð. Með hliðsjón af því og fyrrgreindum yfirlýsingum verður samkomulag aðila túlkað svo, að undanskilið hafi verið bókband, það er að segja sá kostnaður við gerð bókar, sem kemur til eftir að bók hefur verið prentuð í prentsmiðju. Samkvæmt þeirri túlkun og framlögðum gögnum prentaði stefnandi fyrir stefnda, fyrir 1.964.700 krónur, þar af pappírskostnaður 854.450 krónur, samkvæmt tölum úr bókhaldi stefnda. Stefnandi varð því af prentvinnu fyrir 4.035.300 krónur.
Samkvæmt framlögðum afritum af bréfum stefnanda til stefnda kemur fram, að stefnandi reyndi ítrekað að fá stefnda til að uppfylla samkomulag aðila um prentunina, en ekkert liggur fyrir um að erindum þessum hafi verið svarað af hálfu stefnda eða að stefndi hafi borið fyrir sig vanefnd stefnanda á samkomulagi þeirra.
Leggja verður til grundvallar, að þar sem stefndi stóð ekki við samninginn hafi stefnandi misst af framlegð vegna prentunarinnar. Stefnandi byggir kröfur sínar á framlagðri matsgerð dómkvaddra matsmanna. Samkvæmt framlagðri matsgerð er reiknaður út breytilegur kostnaður stefnanda við prentunina og þar miðað við að önnur prentvélin hafi verið af gerðinni Roland og hin af gerðinni Heidelberg. Samkvæmt útreikningi matsmanna er framlegð 50,14% af tímagjaldinu ef Roland vélin er notuð, en 51,08% ef Heidelberg vélin er notuð. Stefnandi miðar kröfugerð sína við meðaltal þessara % talna. Við ákvörðun bóta samkvæmt þessum kröfulið stefnanda ber að leggja til grundvallar framlagða matsgerð, enda hefur henni ekki verið hnekkt af stefnda. Samkvæmt matsgerðinni hefði framlegð stefnanda vegna vanefndrar prentunar samkvæmt samkomulagi aðila orðið 2.061.231 krónur, ef vinnslan hefði farið fram með Roland vél, en 2.023.299 krónur, ef vinnslan hefði farið fram með Heidelberg vél. Verður fallist á, að forsendur séu til að unnt sé að nota meðaltal þessara talna við ákvörðun missis framlegðar, eins og krafa stefnanda byggir á. Ber því að dæma stefnda til að greiða stefnanda 2.042.265 krónur.
Stefnandi hefur ekki sýnt fram á það með framlögðum gögnum, að með vanefnd stefnda á samkomulaginu hafi hann orðið af framlegð vegna annarra prentþátta. Verður því ekki byggt á framlagðri matsgerð um þetta efni, enda byggir matsgerðin um þennan þátt á algengri kostnaðarskiptingu og álagningu. Ber því að sýkna stefnda af þessum kröfulið stefnanda.
Með vísan til þess, sem að framan er rakið verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 2.042.265 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, mánuði eftir dagsetningu innnheimtubréfs stefnanda, eða 29. janúar 1995.
Samkvæmt þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Mál og menning hf., greiði stefnanda, Fjallkonunni ehf., 2.042.265 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. janúar 1995 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.