Hæstiréttur íslands
Mál nr. 316/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 13. júní 2007. |
|
Nr. 316/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur en gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 1. ágúst 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 2. mars 2007 vegna gruns um aðild að umfangsmiklum innflutningi fíkniefna. Hann var fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 7. mars 2007 í máli nr. 126/2007. Frá 16. mars sama ár hefur hann sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. nú síðast dóm Hæstaréttar 15. maí 2007 í máli nr. 269/2007. Ákæra var gefin út á hendur honum og öðrum manni 11. maí 2007 og var málið þingfest í héraði 18. sama mánaðar. Var þá ákveðið að aðalmeðferð færi fram 4. júní sama ár. Hinn 30. maí 2007 lagði meðákærði varnaraðila fram matsbeiðni og var af því tilefni ákveðið að fresta aðalmeðferð málsins til 4. júlí næstkomandi.
Heimild 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er eðli málsins samkvæmt háð því að ekki verði óhæfilegur dráttur á rannsókn máls og að það sé rekið með viðhlítandi hraða eftir að ákæra hefur verið gefin út. Er nú beðið niðurstöðu matsmanns, sem meðákærði varnaraðila óskaði eftir að yrði kvaddur til að meti þroska og heilbrigðisástand sitt. Dómara hefði verið rétt í ljósi ofangreindra atriða að hefja aðalmeðferð fyrr en ákveðið hefur verið og taka málið á ný til meðferðar, ef þörf verður á, er niðurstaða matsmannsins liggur fyrir, sbr. heimild í 131. gr. laga nr. 19/1991. Er ekkert því til fyrirstöðu að dómari hagi meðferð málsins nú í samræmi við þetta og ákveði að aðalmeðferð fari fram fyrr en ráðgert er. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi, sem verður markaður sá tími sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til 13. júlí 2007 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2007.
Ár 2007, mánudaginn 11. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Arngrími Ísberg héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að X, kt. [...], með lögheimili að [...], Reykjavík, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 1. ágúst nk. kl. 16.00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með ákæru útgefinni 11. maí sl. hafi ríkissaksóknari höfðað opinbert mál á hendur ákærða, X og A fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot framið í ágóðaskyni. Sé meðákærða gefið að sök að hafa seinni hluta árs 2006, ásamt óþekktum samverkamanni, flutt hingað til lands 3.778,50 g af kókaíni, ætlað til söludreifingar, falið í bifreið af gerðinni Mercedes Bens sem hafi komið til landsins með flutningaskipinu Helgafelli frá Cuxhaven í Þýskalandi 15. nóvember 2006. Meðákærði hafi annast tollafgreiðslu bifreiðarinnar og tekið hana síðan í sínar vörslur 7. febrúar 2007 í þeirri trú að í henni væru falin framangreind fíkniefni, en lögregla hafði þá lagt hald á efnið og komið fyrir gerviefni í þeirra stað. Ákærða X sé gefið að sök að hafa, 9. febrúar 2007, að [...], í félagi við meðákærða fjarlægt ætluð fíkniefni úr bifreiðinni og hafa síðan tekið við vörslum efnanna í því skyni að afhenda þau til söludreifingar. Sakargiftir á hendur ákærða styðjist við þau gögn sem lögð hafi verið fram í málinu.
Ákærði sé því undir sterkum grun um að hafa framið brot sem geti varðað hann allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974, sbr. lög nr. 32/2001, og telji ákæruvaldið því að skilyrði séu til áframhaldandi gæsluvarðhalds á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.
Fyrirhugað hafi verið að aðalmeðferð málsins færi fram 4. júní sl. en hafi verið frestað til 4. júlí nk. vegna beiðni meðákærða A um dómkvaðningu matsmanns til að meta geðheilbrigði hans sem hafi komið fram örfáum dögum fyrir fyrirhugaða aðalmeðferð.
Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi í þágu málsins frá 2. mars sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en síðan á grundvelli almannahagsmuna, sbr. a-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála. Hæstiréttur hafi tekið undir það álit ákæruvalds að fyrir liggi sterkur grunur um að ákærði hafi framið brot sem geti varðað hann allt að 12 ára fangelsi.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.
Með vísun til framangreinds er fallist á með ríkissaksóknara að fullnægt sé áskilnaði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður því fallist á kröfuna eins og í úrskurðarorði greinir.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 1. ágúst nk. kl. 16.00.