Hæstiréttur íslands
Mál nr. 337/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 17. ágúst 2006. |
|
Nr. 337/2006. |
MT Højgaard Íslandi ehf. (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Arnarfelli ehf. (Erla S. Árnadóttir hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að vísa bæri frá einum kröfulið M ehf. gegn A ehf. enda ekki fallist á að umræddur kröfuliður væri óumdeildur milli aðila eins og fyrrnefnda félagið bar fyrir sig.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kært er ákvæði í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. júní 2006, þar sem vísað var frá dómi kröfulið að fjárhæð 1.301.293 krónur í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila, sem efnisdómur var að öðru leyti felldur á. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst að þetta ákvæði dómsins verði fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfuliðinn til efnismeðferðar og dómsálagningar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að ákvörðun héraðsdóms um frávísun verði staðfest og hafnað kröfu sóknaraðila um kærumálskostnað.
Samkvæmt gögnum málsins gerðu aðilarnir samning 20. september 2002, þar sem sóknaraðili gerðist undirverktaki varnaraðila við verk, sem hann hafði tekið að sér fyrir Vegagerðina við gerð þjóðvegar um Bröttubrekku. Í samningnum var ekki tiltekið hvaða þáttum verksins sóknaraðili ætti að sinna, en mælt var fyrir um að varnaraðila bæri að greiða fyrir það „í reiknisvinnu á kostnaði plús 15% álag þar ofan á.“ Kveðið var á um tímagjald vegna tiltekinna starfsmanna og tækja sóknaraðila og skyldi hann gera varnaraðila mánaðarlega reikninga vegna verksins. Samkvæmt málatilbúnaði varnaraðila fólst verkið, sem sóknaraðili tók að sér, í smíð undirstaðna og stokks við gerð þjóðvegarins og hafi því lokið í desember 2002. Kveðst varnaraðili hafa greitt reikninga, sem sóknaraðili gerði honum vegna þessa, að fjárhæð samtals 11.137.315 krónur. Sóknaraðili telur sig á hinn bóginn eiga ógreidda fimm reikninga á hendur varnaraðila vegna verksins, sem gerðir hafi verið á tímabilinu frá 31. október 2002 til 31. mars 2003, samtals að fjárhæð 14.435.692 krónur, en að teknu tilliti til innborgunar varnaraðila 10. desember 2002 á 13.139 krónum nemi eftirstöðvar verklauna 14.422.553 krónum. Sóknaraðili höfðaði mál þetta gegn varnaraðila 20. maí 2005 til heimtu þeirrar fjárhæðar. Meðal reikninganna, sem sóknaraðili telur ógreidda með öllu, er reikningur frá 31. mars 2003, sem var auðkenndur nr. SR00493 og að fjárhæð 1.301.239 krónur. Sagði í texta reikningsins að verkið, sem hann var gerður fyrir, væri „Brúarhluti (aukaverk)“, en með honum fylgdi samantekt í sex liðum, þar sem þessum verkþáttum var stuttlega lýst. Í áðurnefndum dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra í málinu var kröfulið sóknaraðila, sem varðaði þennan reikning, vísað frá dómi með svofelldum rökstuðningi: „Varðandi kröfugerð stefnanda bendir stefndi á að í stefnu séu ekki reifuð atvik og málsástæður varðandi reikning nr. SR00493 ... og bendir á að málatilbúnaðurinn kunni að brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91, 1991. Á þetta sjónarmið stefnda fellst dómurinn og með vísan til stafliðar e. í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91, 1991 er kröfu þessari vísað frá dómi ex officio.“ Kæra sóknaraðila lýtur að þessari niðurstöðu dómsins.
Í héraðsdómsstefnu var kröfulið sóknaraðila, sem kærumál þetta varðar, aðeins getið í sundurliðun kröfugerðar hans, en að öðru leyti var engu lýst um tilefni reikningsins, sem um ræðir, eða heimild hans til að krefjast greiðslu fyrir aukaverk við verk, sem greiða átti fyrir samkvæmt reikningi. Í greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi var ekki vikið sérstaklega að reikningi þessum, heldur sagt að hann „mótmælir reikningum vegna Bröttubrekku í heild sinni.“ Voru varnir þar í meginatriðum reistar á því að umkrafin verklaun sóknaraðila væru af nánar tilgreindum ástæðum of há, en að öðru leyti ætti varnaraðili gagnkröfu til skuldajafnaðar vegna þessara og annarra lögskipta aðilanna. Er samkvæmt þessu ekki unnt að líta svo á, sem sóknaraðili ber fyrir sig í kæru til Hæstaréttar, að kröfuliðurinn, sem hér um ræðir, hafi verið óumdeildur milli aðilanna. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, hefur ekki talið þennan þátt málsins nægilega reifaðan af hendi sóknaraðila til þess að efnisdómur yrði felldur á hann. Ekki eru forsendur til að hnekkja því mati. Verður ákvæði dómsins um frávísun því látið standa óraskað.
Varnaraðili hefur ekki krafist kærumálskostnaðar og verður hann því ekki dæmdur.
Dómsorð:
Ákvæði í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. júní 2006 um frávísun liðar í kröfu sóknaraðila, MT Højgaard Íslandi ehf., á hendur varnaraðila, Arnarfelli ehf., að fjárhæð 1.301.239 krónur skal vera óraskað.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. júní 2006.
Mál þetta, sem upphaflega var dómtekið 24. febrúar s.l. og endurflutt 9. maí 2006, vegna veikindaforfalla dómsformanns, hefur Ragnar Halldór Hall hrl. höfðað með stefndu birtri 20. maí 2005 og þingfestri 26. s.m. fyrir hönd M.T. Höjgaard Íslandi ehf., kt. 570300-3930, Borgartúni 29, Reykjavík á hendur Arnarfelli ehf., kt. 441286-1399, Sjafnarnesi 2-4, Akureyri.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 14.422.553 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001, sem hér segir: Af kr. 6.830.450 frá 14. desember 2002 til 14. janúar 2003, af kr. 13.109.280 frá þeim degi til 13. febrúar 2003 af kr. 13.121.314 frá þeim degi til 30. apríl 2003 og af kr. 14.422.553 frá þeim degi til greiðsludags.
Einnig krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Kröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.
I.
Stefnandi rekur málavexti svo að hann sé dótturfélag dansks verktakafyrirtækis M.T. Höjgaard AS sem rak um nokkurra ára skeið sjálfstæða verktakastarfsemi hér á landi. Þann 20. september 2002 gerði stefnandi samning við stefnda þar sem stefnandi tók að sér að vinna fyrir stefnda sem undirverktaki verk sem stefndi hafði tekið að sér fyrir Vegagerð ríkisins við Bröttubrekku. Samningur aðilja um þetta verkefni sé einfaldur í sniðum en efnislega hafi hann verið á þá leið að verkefni stefnanda var unnið í tímavinnu fyrir umsamið gjald og skyldi stefnandi annast alla verkstjórn sinna manna á verkstaðnum. Samið hafi verið um ákveðinn taxta fyrir þessa tímavinnu, svo og tækjaleigutaxta. Stefndi hafi fengið senda reikninga frá stefnanda fyrir þetta verkefni en hafi ekki fengist til að greiða þá og beri við alls kyns mótbárum sem stefnandi telur hreina firru. Sé því stefnanda nauðsynlegt að afla dóms um kröfur sínar.
Samkomulag sem er grundvöllur þessarar lögskipta aðilja er undirritað í Reykjavík 20. september 2002 og hljóðar svo:
„Félögin gera með sér eftirfarandi samkomulag. M.T. Höjgaard Íslandi ehf. mun vinna fyrir Arnarfell við verk þeirra fyrir Vegagerð ríkisins við Bröttubrekku í reikningsvinnu á kostnaði plús 15% álag þar ofan á. Reikningur fyrir þessa vinna sendist mánaðarlega til Arnarfells. M.T. Höjgaard Íslandi ehf. sér alfarið um verkstjórn sinna manna á verkstað. Smíðataxtar smiða/verkamanna: Smiðir 2.600 kr./tíma. Verkstjórar 2.800 kr./tíma. Verkamann 2.000 kr./tíma. Ofangreindir taxtar eru með staðaruppbót og án vsk. 15% álag leggst hér ofan á. Mánaðargjald fyrir Lodall er 170.000 kr. án vsk. plús 15% álag. Mótaefni sem M.T. Höjgaard Íslandi ehf. leggur til skoðast eftir verklok með tilliti til greiðslu.“ Er dskj. þetta nr. 4.
Málsástæður og lagarök stefnanda fyrir kröfu sinni.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hafa unnið fyrir stefnda samkvæmt þessum samningi en ekki fengið endurgjaldið greitt. Kröfur stefnanda eru settar fram í reikningum sem hér segir:
Dagsetning og nr. reiknings:
31. október 2002 nr. SR446, vinna v/Bröttubrekku kr. 6.830.450.
30. nóvember 2002 nr. SR453, vinna v/Bröttubrekku kr. 394.304.
30. nóvember 2002 nr. SR454, vinna v/Bröttubrekku kr. 5.897.665.
30. desember 2002 nr. SR466, efni kr. 12.034.
31. mars 2003 nr. SR493, reikningur fyrir aukaverk kr. 1.301.239.
Eða samtals kr. 14.435.692.
Stefndi greiddi 10. desember 2002 kr. 13.139 inná reikning SR453. Að þeirri fjárhæð frádreginni kemur út stefnufjárhæðin. Stefnandi telur fjárhæðir reikninga sinna ekki hafa verið mótmælt útaf fyrir sig, hins vegar hafi stefndi færst undan að greiða þá með alls kyns gagnkröfum og mótbárum sem stefnandi telur hvorki hafa stoð í samningi aðilja eða öðrum haldbærum gögnum. Hann telur þær tilhæfulausar með öllu og einungis settar fram til að reyna að komast hjá réttum efndum skuldbindinga sinna.
Stefnandi telur ekki ástæðu til að setja sjálfur fram þau gagnrök sem stefndi hefur haldið fram í orðsendingum til hans en mun svara þeim ef þeim verður haldið til streitu í máli þessu. Þó leggur hann fram á dskj. nr. 32 bréf stefnda til stefnanda, dagsett 27. febrúar 2004, þar sem að svokallaðar gagnkröfur eru útlistaðar en reikningar hafi ekki verið gerðir á hendur stefnanda fyrir þeim kröfum.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar í málinu á þeirri meginreglu íslensks verktakaréttar og samningsréttar að gerða samninga ber að halda. Reikningum hans hafi ekki verið mótmælt sem röngum og stefndi hafi enga tilraun gert til að sýna fram á að þeir séu ekki í samræmi við samning þeirra, þó svo hann hafi ekki viljað ganga til uppgjörs við stefnanda.
Varðandi vaxtakröfu sína vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 og gerð er krafa um dráttarvexti frá þeim tíma er einn mánuður er liðinn frá gjalddaga hvers reiknings. Varðandi málskostnaðarkröfuna vísast til 130. gr. laga nr. 91, 1991.
II.
Stefndi rekur málsatvik, rök og heimildir svo:
Þann 17. ágúst 2001 hafi verið gerður samningur milli aðilja þar sem stefnandi tók að sér smíði brúar yfir Tungnaá. Stefndi hafði tekið verkið að sér með verksamningi við Landsvirkjun ásamt öðrum verkum vegna Búðarhálsvirkjunar. Skyldi stefnandi afhenda verkið við brúarsmíðina 1. apríl 2002. Verkefnisstjóri stefnanda við brúarsmíðina hafi verið Karl Andreasen. Staðarstjóri af hálfu stefnda var Sigurbergur Konráðsson. Stefndi hafði ekki sérstakan eftirlitsmann af sinni hálfu með framkvæmd verksins. Framkvæmd verksins sem stefnandi tók að sér tafðist og voru strax snemma á verktíma gerðar athugasemdir við framvindu af hálfu staðarverkfræðings.
Helsta ástæða lélegrar framvindu verksins var afhendingadráttur stálbita í brúna sem stefnandi hafði fengið pólskan verktaka til að smíða og fullmála. Vegna suðugalla er upp komu í verksmiðjunni í Póllandi dróst afhending á smíði bitanna um mánuð. Þegar að uppsetningu á verkstað kom hafi komið í ljós galli í yfirborðsmeðferð bitanna. Hafi þurft að endurvinna málningarverkið, sandblása gölluðu málninguna af, zinkhúða að nýju og mála aftur á verkstað við erfiðar aðstæður. Erfiðleikar við framkvæmd verksins hafi leitt til þess að stefnandi hafi farið þess á leit við stefnda að hann innti af hendi sjálfur nokkra þætti verksins.
Veigamestu verkþættir er þannig háttaði til um voru þessir: Vinna við að gera brúarstæðið tilbúið, gerð plana fyrir krana, flutningur á krönum á verkstað, flutningur á stálbitum á verkstað fyrir og eftir samsetningu, aðstoð við lagfæringar á yfirborðsmeðhöndlun stáls, vinna við að halda aðkomuleiðum opnum yfir vetrartímann, auk lokafrágangs er stefndi vann eftir að stefnandi hafði skilið við verkið áður en því var að fullu lokið.
Um samanburð á fjárhagslegu uppgjöri á verktíma við það sem umsamið var með verksamningi er vísað til dskj. nr. 52.
Með orðsendingu 21. mars 2002, sbr. dskj. nr. 98, hafi stefndi óskað framlengingar verktíma gagnvart Landsvirkjun. Var orðið við þeirri framlengingu með bréfi staðarverkfræðings dagsetts 11. apríl 2002, sbr. dskj. nr. 41, gegn tilteknum skilyrðum. Hafi stefndi þannig fengið verktímann framlengdan til 15. júní hvað varðaði afhengingu brúarinnar af sinni hálfu til Landsvirkjunar. Hins vegar hafi stefndi ekki samið um neina framlengingu verktíma við stefnanda, enda var honum nauðsynlegt að hafa afnot af brúnni vegna aðkomu að öðrum verkstöðum á svæði Búðarhálsvirkjunar og hafi hann orðið fyrir tjóni vegna afhendingadráttarins.
Vegna atvika er vörðuðu stefnanda fór lokaúttekt brúarinnar ekki fram fyrr en 26. júlí 2002. Í lokaskýrslu eru tilgreind fjölmörg atriði sem ólokið er, sbr. dskj. nr. 43.
Verkefnisstjóri stefnanda Karls Andreasen hafði flutt til Danmerkur í júlímánuði 2002 og samkvæmt eftirstöðulista frá 19. september 2002, sbr. dskj. nr. 44, var flestum verkum þeirra enn ólokið á þessum tíma. Gasfylling brúarbitanna hafi ekki orðið fyrr en í ágúst 2003. Vegna tafanna hafi stefndi eignast kröfu um tafabætur á hendur stefnanda, sem síðar verður rakið.
III.
Með samningi aðila 20. september 2002 hafi stefnandi tekið að sér verk í undirverktöku fyrir stefnda. Hafi það falist í smíði undirstaðna og 105 m. langs stokks við vegagerð í Bröttubrekku, en stefndi hafði tekið að sér verkið með samningi við Vegagerð ríkisins. Skyldi stefnandi skila verkinu í lok september 2002, sbr. útboðsgögn Vegagerðarinnar á dskj. nr. 55 og rammaáætlun á dskj. nr. 56. Áætlað verð fyrir verkið hafi verið kr. 16.684.340, sbr. dskj. nr. 57. Er stefnandi hafði hafið vinnu við verkið í Bröttubrekku hafi fljótlega komið í ljós að verkstjórn verksins var verulega áfátt. Enginn verkstjóri starfaði við verkið fyrr en í ágúst 2002. Er reikningur barst fyrir septembermánuð kom í ljós að krafið var um greiðslur fyrir tvo starfsmenn á verkstjóralaunum, þá Ármann Halldórsson og Pétur Andersen.
Ekkert varð af því að stefnandi héldi áfram starfsemi sinni hér á landi eins og gefið hafði verið til kynna áður en samningurinn um verkið við Bröttubrekku var gerður. Miklar tafir hafi orðið á verkinu við Bröttubrekku og var megninu af vinnunni fyrir verkið ekki lokið fyrr enn í desember 2002, en fullnaðarviðgerðum lauk í janúar 2003. Vegna tafanna hafi stefndi eignast kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi stefnanda vegna tjóns sem hann varð fyrir vegna tafanna sem alfarið var á ábyrgð stefnanda, en ekki hafði verið samið um tafabætur.
Kröfurnar styðjast við óskráðar lagareglur, verktakaréttar, lög um lausafjárkaup nr. 50, 2002 og við gr. 25.6.10. í ÍST 30:1997, en stefndi byggir á því að þessi hluti staðalsins sé hluti af samningi aðilja, eða a.m.k. skuli líta til hans við skýringu á lagareglum.
Stefndi hafi kosið að meta afhendingadrátt stefnanda í hag og miða við að afhending verksins hafi dregist í einn mánuð.
Um samskipti aðilja eftir að vinnu stefnanda við verkið lauk þá hafi stefndi reynt ítrekað, fyrst að fá stefnanda til að ljúka að fullu umsömdu verki og síðan að ná fram lokauppgjöri við stefnanda.
Þann 25. og 27. febrúar 2004, sbr. dskj. nr. 53 og 60 sendi stefndi bréf til Karls Andreasen forsvarsmanns stefnanda og setti fram sjónarmið og kröfur um lokauppgjör, annars vegar vegna verksins við Búðarháls og hins vegar verksins við Bröttubrekku. Bréfunum hafi ekki verið svarað formlega en fyrirsvarsmenn stefnda hafa fundað með lögmanni stefnanda, sem hafi lokið með því að lögmaður stefnanda tilkynnti að hann teldi málshöfðun nauðsynlega.
IV.
Stefndi mótmælir reikningum vegna Bröttubrekku í heild sinni. Hann telur augljóst að vegna lélegrar verkstjórnar stefnanda sé reikningsgerð stefnanda langt úr hófi fram og kostnaðaraukning hans sjálfs alfarið á ábyrgð stefnanda. Stefndi vísar til yfirlits á dskj. nr. 61 til stuðnings þessari kröfu sinni. Verði ekki fallist á þessa málsástæðu mótmælir stefndi reikningum vegna Bröttubrekku að hluta til.
Áætlun stefnanda fyrir verkið hafi verið miðuð við einingarverð, sbr. dskj. nr. 57. Nokkur magnaukning varði vinnu við sökkla, samanburðar á raunmagni og áætluðu magni sýni að magnaukning hafi í mesta lagi átt að leiða til hækkunar úr kr. 16.684.304 í kr. 18.522.689. Mótmælir stefndi reikningsgerð stefnanda umfram þessa fjárhæð.
Í samningi aðilja hafi verið samið um tímataxta fyrir smiði kr. 2.600, fyrir verstjóra kr. 2.800, og fyrir verkamenn kr. 2.000. Stefndi hafi staðreynt að einstakir hstarfsmenn voru ekki seldir út á réttum töxtum. Annars vegar mótmælir hann því að jtefnandi krefji um greiðslu fyrir tvo verkstjóra við verk þar sem einn hópur starfsmanna er að vinna og hópurinn taldi að jafnaði u.þ.b. fimm manns og hins vegar sé um að ræða starfsmennina Róbert Pálsson, Sigmund og Ómar Gunnarsson sem ekki hafi iðnréttindi til smíða. Við endurreikning stefnda á töxtum m.v. þetta tvennt, sbr. dskj. nr. 58 komi í ljós að stefnandi hafi reikningsfært kr. 2.505.849 umfram það sem samningur aðilja heimili. Stefndi telur því að samanlögð fjárhæð reikninga stefnanda vegna Bröttubrekku hefði ekki átt að vera hærri en kr. 16.016.849. (kr.18.522.698-2.505.849)
Þar sem stefndi hefur þegar greitt stefnanda kr. 11.137.315 ættu eftirstöðvar reikninga í mesta lagi að nema kr. 4.879.534, en á móti þeirri fjárhæð hafi stefndi skuldajafnað gagnkröfum er hann á, á hendur stefnanda, svo sem síðar verður rakið. Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Reikningi stefnanda nr. SR00466 að fjárhæð kr. 12.034 er mótmælt sérstaklega sem órökstuddum og röngum. Engar skýringar eru í reikningi eða stefnu á því hvaða efni er krafið um greiðslu fyrir, en samkvæmt samningi aðila skyldi stefnandi útvega allt efni til verkanna, nema ef um annað væri samið sérstaklega. Stefndi geti á grundvelli framlagðra gagna ekki fært fram frekari mótmæli gegn reikningnum.
V.
Stefndi hefur í málinu uppi gagnkröfur til skuldajafnaðar, sbr. 28. gr. laga nr. 91, 1991 sem hér segir:
1. Krafa um tafabætur vegna afhendingadráttar á verkinu við Búðarháls og skaðabætur.
Samkvæmt 2. gr. verksamnings aðilja um verkið við Búðarhálsvirkjun voru tiltekin útboðsgögn BUD 10 um Búðarhálsvirkjun þ.á.m. gr. 1.15 um tafabætur hluti samnings. Afhendingadráttur af hálfu stefnda varðaði þar tafabótum að fjárhæð kr. 200.000 fyrir hvern almanaksdag. Hámarksfjárhæð tafabóta var 10% af samningsfjárhæð kr. 101.470.152, eða kr. 10.140.715.
Lokaúttekt fór fram 26. júlí 2002, sbr. dskj. nr. 43. Gaf framkvæmdaeftirlit þá fyrirmæli um að stefnandi skyldi lagfæra eða ljúka atriðum sem tiltekin eru í 17 liðum á eftirstöðva lista. Samkvæmt eftirstöðvalista 19. september 2002, sbr. dskj. nr. 44 var þá enn eftir að ljúka fjölmörgum þessara atriða. Samkvæmt eftirstöðvalista dagsettum 5. febrúar 2003 var ennþá ólokið gasáfyllingu stálbita. Ljóst sé því að verkið var ekki afhent í skilningi verktakaréttar fyrr en eftir 19. september, sbr. m.a. gr. 28.6. í ÍST 30:1997.
Samkvæmt þessu átti stefndi rétt til tafabóta vegna afhendingadráttar. Vegna ákvæðis í verksamningi um hámarksfjárhæð tafabóta á stefndi ekki rétt til tafabóta umfram það er nemur 50 daga töf. Þar sem afhending dróst umfram 50 daga eigi stefndi rétt til hámarksfjárhæðar tafabóta úr hendi stefnanda eða kr. 10.140.715. Vegna þessa var stefnda rétt að halda greiðslu samkvæmt reikningi stefnanda vegna aukaverks skv. reikningi nr. SR493, sbr. almennar reglur verktakaréttar og ÍST 1997: 30, gr. 24.5.4. Verði ekki fallist á rétt stefnda til tafabóta vegna afhendingadráttar verksins við Búðarháls, setur stefndi fram gagnkröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi stefnanda er nemi þeirri fjárhæð sem tjón hans nemi óumdeilanlega vegna afhendingardráttar, en þannig var krafan sett fram með bréfi stefnda til stefnanda 25. febrúar 2004, dskj. nr. 53.
Þá er krafan byggð á almennum reglum verktakaréttar um skaðabætur vegna afhendingardráttar, sbr. m.a. ÍST 30: 1997 gr. 25.7.4. og 27. gr. laga nr. 50, 2000 um lausafjárkaup. Er þar um að ræða kostnað við rekstur rafstöðvar eftir umsaminn afhendingartíma 1. apríl að fjárhæð kr. 2.118.960, vinnutap og aukakostnað við flutninga vegna samgöngutruflana að fjárhæð kr. 1.117.140 og kostnað vegna ráðstafana í farvegi Köldukvíslar vegna vatnavaxta að fjárhæð kr. 500.000, en vatnavextir hefðu ekki valdið erfiðleikum hefði brúin verið afhent áður en leysingar hófust eins og umsamið var. Samtals nema gagnkröfur til skuldajafnaðar skv. þessum lið kr. 3.736.100. Verði krafan dæmd á grundvelli þessum mun stefndi gefa út reikninga fyrir þessum fjárhæðum.
2. Krafa um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna öryggisráðstafana.
Samkvæmt samningi aðilja skyldi stefnandi bera ábyrgð á stjórn öryggis- og heilbrigðismála á vinnustað í samræmi við gildandi lög og reglugerðar, sbr. kafla 1.9. í samningi við Landsvirkjun og tilvísun í hann í verksamningi aðilja á dskj. nr. 34 og 35. Í þessu hafi falist að stefnanda bar að sjá til þess að gerð yrði öryggisáætlun fyrir vinnusvæðið og einnig að hann skyldi koma upp og viðhalda fjarskiptasambandi á svæðinu, sbr. m.a. reglur um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingavinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547, 1997, gr. 3 og 5 og IV. viðauka gr. 16.4., einnig reglur nr. 612, 1989 um tilkynningu vinnuslysa gr. 1.1.
Stefnandi hafi ekki sinnt skyldu sinni varðandi stjórn öryggismála, sbr. t.d. dskj. nr. 40 og 42, þar sem fram komi á verkfundum að öryggisáætlun sé ekki tilbúin þrátt fyrir að líði að lokum fyrirhugaðs verktíma, en stefnandi hafi aldrei lagt fram öryggisáætlun.
Á verkfundi 15. 9. maí 1002 óskaði fulltrúi stefnanda eftir því að fá afhent eintak af endurskoðaðri öryggishandbók verkkaupa fyrir Búðarhálsvirkjun og Vatnsfellsvirkjun, sbr. dskj. nr. 40. Stefndi hafði gert athugasemd við það þegar á 1. verkfundi að 11. september 2001 GSM samband væri ekki á norðurbakka Tungnár frá brú að stíflustæði, sbr. dskj. nr. 37.
Þar sem stefnandi sinnti ekki þeirri skyldu sinni að koma upp og viðhalda fjarskiptasambandi var stefnd nauðsynlegt að sjá til þess þetta yrði gert. Hafi hann látið flytja útbúnað fyrir örbylgjusamband á svæðið frá Hrauneyjafossstöð og setja upp búnað fyrir þráðlaust netsamband í vinnubúðum stefnda, á vinnustað við Tungnaárbrú. Samanlagður kostnaður við þetta án virðisaukaskatts nam kr. 1.310.961, sem þannig er tilkominn kr. 993.151 samkvæmt reikningi Fjarska og kr. 317.810 samkvæmt reikningi Nýherja. Sé stefnandi bótaskyldur við stefnda sem þessu nemur á grundvelli almennra reglna verktakaréttar um skaðabætur vegna vanefnda, sbr. ÍST 30: 1997 gr. 25.7.4.
3. Krafa samkvæmt samningi aðilja vegna sölu á þjónustu til stefnanda vegna verksins í Bröttubrekku.
Samkvæmt samningi um verkið við Búðarháls skyldi stefndi selja stefnanda fæði og gistingu ef óskað væri fyrir kr. 2.200 á dag og var vsk. innifalinn í þeirri fjárhæð. Munnlegur samningur hafi verið á milli aðilja um að hið sama skyldi gilda um verkið við Bröttubrekku. Fæðiskostnaðurinn sé óuppgerður og standi stefnandi í skuld við stefnda að fjárhæð kr. 1.249.692 vegna þessa, sbr. reikning á dskj. nr. 62 og sundurliðun á dskj. nr. 61. Sé stefnandi skyldugur að greiða stefnda þessa fjárhæð á grundvelli reglna samningaréttar um skuldbindingagildi samninga.
4. Krafa um skaðabætur vegna tjóns er leiddi af afhendingadrætti verksins í Bröttubrekku.
Í samræmi við samninga aðilja útvegaði stefndi stefnanda rafstöð til afnota við framkvæmd verksins við Bröttubrekku. Dráttur á afhendingu verksins leiddi til þess að stefnandi þurfti að bera kostnað vegna leigu og rekstrar á rafstöð lengur en um var samið. Í samræmi við það er að framan greinir hefur stefndi reikningsfært umframnotkun á rafstöðinni í 30 daga á kr. 15.000 fyrir hvern dag eða samtals kr. 450.000 ásamt olíunotkun 3000 lítrar á kr. 31 lítrinn eða kr. 334.800, sbr. reikning á dskj. nr. 63 og 64, sbr. yfirlit á dskj. nr. 61.
Í samræmi við samning aðilja útvegaði stefndi stefnanda olíu fyrir Loadall vél. Vegna afhendingardráttar þurfti stefndi að bera kostnað vegna eldsneytis á vélina í a.m.k. 30 daga umfram það sem um var samið. Vélin eyðir 100 lítrum á dag, heildarnotkun er því 3000 lítrar á kr. 31 lítrinn, en reikningur stefnda vegna þessa kr. 93.000, sbr. dskj. nr. 65, sbr. yfirlit á dskj. nr. 61. Samtals nemur tjón stefnda vegna afhendingardráttar kr. 877.800 og sé stefnandi bótaskyldur við stefnda á grundvelli almennra reglna verktakaréttar um skaðabætur vegna afhendingardráttar, sbr. m.a. ÍST 30: 1997 gr. 25.7.4. og 27. gr. laga nr. 50, 2000 um lausafjárkaup.
5. Krafa um skaðabætur vegna vanefnda stefnanda er lutu að vinnu við sökkla við verk í Bröttubrekku.
Þegar fyrsta færa í þrifalagi í neðri enda stokksins var steypt var töluvert vatn í ánni þannig að erfiðlega gekk að koma vatnsborðinu það neðarlega að ekki flyti yfir það. Um var að ræða 1-2 m. hægra megin horft niður eftir ánni og 2-3 m. vinstra megin. Gert var ráð fyrir að steypa það með sökklunum. Stefnandi lauk aldrei við steypu sökkla þar og þurfti stefndi að fara niður á gröfu eftir að lokið var við stokkinn með ærnum tilkostnaði og erfiðleikum. Sé stefnandi bótaskyldur á grundvelli almennra reglna verktakaréttar um skaðabætur vegna vanefnda, sbr. ÍST 30: 1997 gr. 25.7.4. Kostnaður við að gera slóð niður með gröfu, ferja járn, timbur, steypu, koma rafmagni niður að endanum og ganga frá á eftir nemur samkvæmt reikningi stefnda kr. 256.880 án vsk., sjá dskj. nr. 67, sbr. yfirlit á dskj. nr. 61.
6. Krafa um skaðabætur vegna viðgerðarkostnaðar á dælu.
Við framkvæmd verksins í Bröttubrekku gerðist það í lok júlí þegar starfsmenn stefnanda fóru í helgarfrí að þeir skyldu við dælur í eigu stefnda í árfarvegi Bjarnadalsár í stað þess að skilja við þær á athafnasvæði sínu, en þaðan lá slóði niður í gilið. Voru þetta óforsvaranlega vinnubrögð af hálfu stefnanda. Um helgina óx í ánni og flæddi yfir vinnusvæðið. Sumar dælurnar grófust í framburðinn sem fylgdi flóðinu og skemmdist ein þeirra. Stefnanda var nauðsynlegt að láta gera við hana og kostaði viðgerðin kr. 288.000. Stefndi innti af hendi vinnu vegna þessa og nemur reikningur hans kr. 91.360, sbr. dskj. nr. 66 og yfirlit á dskj. nr. 61.
Stefnandi ber skaðabótaábyrgð á tjóni er stefndi varð fyrir vegna þessa samkvæmt almennum skaðabótareglunni og samkvæmt óskráðum reglum verktakaréttar.
Samtals nemur skaðabótakrafa stefnda vegna þessa kr. 379.360.
Samanlögð fjárhæð gagnkrafna vegna Bröttubrekku er því kr. 4.074.693 og samanlögð fjárhæð gagnkrafna er stefndi hefur uppi til skuldajafnaðar er kr. 14.215.408.
Stefndi hefur skuldajafnað öllum ofangreindum gagnkröfum sínum við kröfur stefnanda samkvæmt reikningum, sbr. bréf hans til stefnanda dagsett 25. og 27. febrúar 2004 á dskj. nr. 32 og 53.
Sýknukrafa stefnda felur í sér sjónarmið um heimild til skuldajafnaðar hafi verið fyrir hendi. Þar sem sú fjárhæð reikninga stefnanda sem viðurkennd er af stefnda er lægri en gagnkröfur ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Stefndi bendir á að í stefnu séu ekki reifuð atvik og málsástæður varðandi verkið við Búðarháls skv. reikningi 31. mars 2003 nr. S-R00493 að fjárhæð kr. 1.301.239. Stefnandi setji ekki fram sjálfstæður dómkrófur vegna þess, en bendir á að málatilbúnaðurinn kunni að brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91, 1991.
Kröfu stefnanda um dráttarvexti er mótmælt þar sem réttur stofnaðist aldrei til dráttarvaxta sökum þess að beitt var skuldajöfnuði og kröfum mótmælt.
Krafan um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91, 1991.
VI.
Stefnandi mótmælir því að samningur stefnda við Vegagerðina varðandi Bröttubrekkuverkefnið komi þessu máli nokkuð við. Hér hafi eingöngu verið um tímavinnu að ræða, sbr. samning aðila 20. september 2002, sem gerður hafi verið er verkið var vel á veg komið. Stefnandi hafi ekki treyst sér til að gera tilboð í verkið, en tilboð hafi borist í það, annars vegar að fjárhæð kr. 30.000.000 og hins vegar kr. 27.000.000, sem stefndi hafi hafnað. Engin tímamörk hafi verið á verktímanum og forsvarsmenn stefndu hafi fylgst með framkvæmd verksins, enda verið við vinnu á sama stað. Varðandi reikningsgerð stefnanda þá hafi gilt ákvæði IST 30 1997 um greiðskyldu stefnda, þ.e.a.s. grein 31.1 þar sem segi að reikningar eigi að greiðast innan 3 vikna, svo og 47. gr. kaupalaga nr. 50, 2000. Allar mótbárur stefnanda séu of seint fram komnar og beri þess vegna að hafna öllum kröfum hans. Varðandi verkið við Búðarháls hafi stefnandi verið undirverktaki stefnda svo sem að framan er rakið, skv. samningi þeirra 17. ágúst 2001, sbr. dskj. nr. 34, en stefndi aftur á móti verið undirverktaki Landsvirkjunar, sbr. dskj. nr. 35, sem er útboðsgögn Landsvirkjunar vegna verksins. Hafi grein 1.17 í þeim útboðsgögnum þar sem fjallað er um drög að verksamningi gilt um samning aðila frá 17. ágúst 2001. Brúin hafi verið ætluð fyrir aðalverkkaupann, þ.e.a.s. Landsvirkjun, og verið vígð 7. júní 2002 og þá verið tilbúin til notkunar og verkinu verið skilað. Með bréfi 21. mars 2002 hafi stefndi óskað framlengingar á verkskilum og hafi Landsvirkjun fallist á að veita frest við smíði brúarinnar fram til 15. júní 2002 og hafi stefnandi afhent brúna innan þeirra tímamarka. Stefndi hafi ekki verið krafinn um neinar tafabætur af Landsvirkjun vegna skila á verkum sínum og hafi töfin vegna afhendingar brúarinnar verið vegna ófyrirsjáanlegra atvika varðandi stálvirkið í brúnni eins og að framan er rakið. Fyrstu athugasemdir stefnda vegna Bröttubrekkuverkefnisins hafi komið fram í bréfi stefnda 27. febrúar 2004, sbr. dskj. nr. 32, og vegna verksins við Búðarháls í bréfi stefnda 25. febrúar 2004, sbr. dskj. nr. 53. Séu kröfur og athugasemdir stefnda allt of seint fram komnar. Að því er gagnkröfur stefnda varðar þá séu þær allt of seint fram komnar, en þær hafi fyrst komið fram í greinargerð hans í máli þessu15. september 2005.
Þá hefði stefndi strax átt að gera athugasemdir um verkstjórn en starfsmennirnir hafi verið vanir menn og fengið greitt sem slíkir. Varðandi tafabótakröfu stefnda þá hafi stefndi aldrei áskilið sér tafabætur á verkfundum svo og hafi stefndi ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna tafa og gera verði strangar kröfur til stefnda með tómlætisreglur í huga, en tafabótakrafan hafi fyrst komið fram í greinargerð stefnda. Varðandi fjarskiptasambandið á vinnusvæðinu þá beri verktaka að tryggja öryggiskröfur og í þessu tilfelli hafi stefndi verið verktakinn.
Stefndi mótmælir þessum kröfum og málsástæðum stefnanda. Varðandi tafabótakröfuna þá hafi stefndi átt að skila brúnni við Búðarháls 1. apríl 2002 og þó svo að stefndi hafi fengið framlengingu á verkskilum þá hafi það ekki gilt gagnvart stefnanda. Hafi töfin valdið stefnda auknum útgjöldum svo sem áður er rakið og séu tafabætur ætlaðar til þess að bæta verkkaupa það tjón sem hann verði fyrir.
Aðiljar styðja þessar kröfur sínar með vísan til dóma Hæstaréttar.
VII.
Verða nú raktir framburðir vitna og aðilja, svo og önnur gögn málsins eftir því sem dómurinn telur ástæðu til, svo og nánar vikið að málsástæðum og lagarökum aðilja eftir því tilefni verður.
Vitnið Karl Andreasen byggingatæknifræðingur og húsasmíðameistari, kvaðst hafa verið staðarstjóri stefnanda bæði við Bröttubrekkuverkefnið, svo og Búðarháls. Varðandi verkefnið við Bröttubrekku hafi stefndi fyrst beðið um tilboð en verkið hafi verið of áhættusamt og lítið þannig að samið hafið verið um að það yrði unnið í tímavinnu með 15% álagi. Þegar samningurinn um Bröttubrekkuverkefnið var gerður 20. september 2002 þá hafi stefnandi lokið gerð brúar yfir Tungnaá án athugasemda stefnda.
Útboðslýsing Vegagerðarinnar á dskj. nr. 55 svo og verkáætlun Arnarfells á dskj. nr. 56 og samantekt magntalna er vitnið kvaðst hafa gert á dskj. nr. 57 hafi ekki verið hluti samningsins á dskj. nr. 4. Stefndi hafi engar athugasemdir gert við framvindu verksins við Bröttubrekku og fyrstu mótmæli hans hafi komið ári eftir verklok, en stefnandi hafi gert reikninga samkvæmt samkomulaginu.
Stefndi hafi engar athugasemdir gert vegna fagmenntunar þeirra er að verkinu unnu, erfitt hafi verið að fá mannskap á þessum tíma, en fengnir voru menn með mikla smíðareynslu og þeim borgað smiðskaup.
Ekkert hafi verið samið um afhendingartíma og hluti enda verið látinn bíða vegna vatnavaxta sem síðan hafi verið steypt af stefnda.
Varðandi fæðiskostnað starfsmanna þá hafi verið samið um það atriði við Búðarhálsverkefnið, en ekki Bröttubrekku. Stefndi hafi séð um svefnaðstöðu og fæði við Bröttubrekkuverkefnið, en hefði stefnandi gert það þá hefði komið 15% álag ofan á þann kostnað ef stefnda hefði verið gerður reikningur fyrir þeim kostnaði.
Varðandi vatnsdælur á verkstað þá hafi stefndi séð um að veita vatn frá vinnusvæðinu og starfsmenn stefnda hafi verið að vinna á þessum slóðum og getað fylgst með hverju fram fór.
Varðandi Brúarhálsverkefnið, þ.e.a.s. byggingu brúarinnar yfir Tungnaá þá hafi afhending á því verki verið framlengd til 15. júní 2002, en brúin hafi verið vígð og tekin í notkun 7. júní það ár. Hafi stefndi beðið um framlengingu á verkinu og hafi stefnandi verið í góðu samstarfi við stefnda á þessum tíma. Hafi stefndi gert athugasemdir vegna stálsins í brúnni og hafi aðiljar unnið að viðgerð á stálvirkinu og hafi stefnandi greitt stefnda að fullu fyrir vinnuframlag hans við það verk. Hafi stefndi aldrei haft uppi kröfur um tafabætur og verkinu verið skilað í góðri sátt, sbr. síðari skipti aðilja með samningnum 20. september 2002.
Varðandi símasamband og öryggismál á staðnum þá hafi verið NMT símasamband og Sigurbergur Konráðsson framkvæmdastjóri stefnda sagst geta bjargað GSM símasambandi á staðnum fyrir cirka kr. 300.000, sem að aðiljar myndu skipta jafnt á milli sín. Stefndi hafi verið að vinna á þessu svæði líka og hafi GSM sambandið því gagnast þeim báðum.
Varðandi Bröttubrekkuverkefnið þá hafi stefndi einnig verið að vinna á sömu slóðum og forsvarsmenn þeirra getað fylgst með verkinu, en engum athugasemdum hreyft. En verkefni þetta hafi verið síðasta verk stefnanda hér á landi. Vitnið kvaðst hafa flutt af landi brott 1. ágúst 2002, en hafa verið í daglegu sambandi við Ármann verkstjóra og komið mánaðarlega til landsins fyrstu 6 mánuðina eftir að hann flutti. Aldrei hafi verð gerður reikningur fyrir hans vinnu, þ.e.a.s. vitnisins, hann sagði að Bröttubrekkuverkinu hafi verið flýtt eins og kostur var en eins og áður greinir þá hafi engin tímaáætlun verið á því verki.
Varðandi Búðarhálsverkið þá taldi hann að öryggisáætlun hafi verið gerð, en kvaðst ekki geta úttalað sig nánar um þetta, þarna hafi verið NMT samband, en gert hafi verið ráð fyrir að fjarskiptasamband væri nægjanlegt.
Aðspurður um vanskil á öryggisáætlunum sem bent var á í verkfundargerðum á dskj. nr. 96 frá 21. febrúar 2002 og dskj. nr. 101. frá 22. maí sama ár, þá taldi vitnið að áætluninni hefði átt að skila til stefnda.
Fyrir dómi bar Sigurbergur Konráðsson framkvæmdastjóri stefnda að hann hafi verið staðarstjóri við Búðarhálsverkið. Vinna hafi hafist í september 2001, seinkun hafi verið afhendingu stáls í brúna frá Póllandi og gallar hafi komið í ljós eftir að efnið var komið til landsins, en allt stálið hafi reynst gallað. Allir hafi reynt að hraða verkinu sem kostur var, bæði stefnandi og stefndi. Síðan hafi stefndi fengið frest á öllum verkinu en seinkun á brúarsmíðinni hafi valdið stefnda auknum kostnaði.
Hann upplýsti að stefndi hafi ekki þurft að borga neinar dagsektir eða tafabætur vegna verksins við Búðarháls.
Á vinnusvæði brúarinnar hafi verið gloppótt NMT samband og forsenda fyrir því að byrjað hafi verið á verkinu hafi verið að öryggismálin væru í lagi og hafi stefndi því komið upp GSM sambandi sem stefnanda bæri að greiða fyrir.
Ráðist hafi verið í Bröttubrekkuverkið í framhaldi af Búðarhálsverkinu og hafi Jörgen Hrafnkelsson tæknifræðingur stefnda og Karl Andreasen séð um samningsgerðina. Samningurinn hafi byggt á verkáætlun Vegagerðarinnar og stefndi hafi talið sig vera að kaupa allt verkið, auk 15% vegna yfirstjórnar og hafi talið sig vera að fá vana menn til verksins.
Varðandi fæðismál starfsmanna þá hafi Jörgen gert þennan samning og þetta byggt stórt séð á sömu forsendum og verkið við Búðarháls.
Að því er varðar Bröttubrekkuverkefnið þá hafi stefndi ekki haft eftirlit með verkinu. Þó svo að stefndi hafi klárað verkið og þurft að steypa stoðvegg við neðri enda. Stefndi hafi veitt vatni frá verkstað með skurði en stefnandi stjórnað dælum stefnda á verkstað. Verkið hafi átt að vinna í júlí, ágúst og september og við samningsgerðina 20. september 2002 var mætta kunnugt um verkstöðuna.
Varðandi Búðarhálsverkið þá hafi stefndi verið aðalverktaki og stefnandi undirverktaki og hafi verk undirverktakans verið um ¼ af því verki.
Vitnið Jörgen Rúnar Hrafnkelsson byggingatæknifræðingur starfsmaður stefnda kvaðst ekki hafa komið að samningsgerðinni 20. september 2002, heldur hafi Sigurbergur Konráðsson gengið frá þeim samningi.
Varðandi fæðiskostnað kvaðst vitnið ekkert vita hvað aðiljum hafi farið þar á milli. Leitað hafi verið eftir tilboðum í verkið frá þremur aðiljum og tveir skilað inn tilboðum, annað að fjárhæð um kr. 27.000.000 og hitt um kr. 30.000.000, en tilboð þessi hafi stefnda þótt of há. Magntölur hafi legið fyrir og kvaðst vitnið hafa tekið saman dskj. nr. 58 þar sem kostnaðurinn með Vsk. nemur um kr. 18.500.000 og hafi þetta verði sú verðhugmynd sem Karl Andreasen hafi líka gefið upp og sú verðhugmynd sem hann og Sigurbergur hafi gengið út frá, þ.e.a.s. Sigurbergur og Karl.
Stefndi hafi ekki haft eftirlit með verki stefnanda við Bröttubrekku heldur hafi Vegagerðin fylgst með sem verkkaupi, hins vegar hafi verkstjórar Arnarfells fylgst með verkinu, þar sem þeir unnu á staðnum.
Vitnið kvaðst hafa komið að þessu verki öðru hverju dag og dag. Hafi stefndi séð um að veita vatni frá vinnustaðnum með gerð skurðar og garðs á milli. Endanlegar teikningar hafi legið fyrir um miðjan júní og þá hægt að byrja á verkinu og áætlað hafi verið að vinna verkið í júní, júlí og ágúst.
Að því varðar verkið við Búðarháls þá kvaðst vitnið hafa verið aðstoðarstaðarstjóri stefnda við það verk. Björn Harðarson staðarstjóri eftirlits hafi beðið hann fyrir hönd stefnda að rita sér erindi vegna gangs verksins og hafi hann ritað bréfið á dskj. nr. 98 21. mars 2002. Hafi þetta verð beiðni um framlengingu á verktíma og hafi Björn beðið um þetta til þess að geta lagt fyrir Landsvirkjun. Hann kvaðst ekki muna eftir svari við þessu en vegna þessa bréfs hafi hann verið í sambandi við stefnanda.
Bréf vitnisins á dskj. nr. 98 er svohljóðandi:
„Málefni: Staða áfanga sem skila á 1. apríl 2002.
Ljóst er að ekki næst að skila þeim áföngum sem skila átti 1. apríl samkvæmt verksamningi nema að hluta. Í sumum tilfellum er magntöluskrá þó nokkurn veginn uppfyllt (Aðrennsli, vegagerð, stöðvarhús) en magnaukningar og breytt samsetning fast- og lausgraftrar breyta töluverðu um framgang verksins í heild. Staða helstu áfanga er eftirfarandi:
Aðrennslisskurður: Er útgrafinn en lokafrágangur eftir og því ekki úttekinn.
Vegagerð: Búið er að byggja fyllingar að mestu og hluti burðarlags er kominn víða. Rétt er að benda á að líkur eru á að magn aukist um einhverja tugi þúsunda rúmmetra í ljósi þess að mælt yfirborð lands er lægra en gert var ráð fyrir á hönnunarstigi en endanlegir magnreikningar liggja ekki fyrir. Umfang vegagerðar verður því að öllum líkindum meira en gert var ráð fyrir.
Stöðvarhússsvæði: Búið er að losa og aka út megninu úr stöðvarhússgrunni, búið að losa og verið að aka út efni úr fallpípuskurði og verið að losa efni úr þró. Laust efni á stöðvarhússsvæði er mun minna en gert var ráð fyrir í verksamningi sem leiðir til aukningar i föstum greftri. Þó ekki sé búlið að hreinsa endanlega niður á klöpp í allri þrónni er þegar ljóst að einhverjir tugir þúsunda rúmmetra færast úr lausu efni í fast sem hefur í för með sér aukið umfang verksins.
Brúargerð: Búið er að steypa alla sökkla, landstöpla utan toppa, súlur á steyptar undirstöður á landi, reisa boga og verið að járnabinda fyrir steypuþekju á hann en stefnt er að steypu fyrir páska. Verulegar tafir hafa orðið á brúarbyggingu sem aðallega má rekja til tafa og mistaka við stálsmíði. Samið var við pólska stálsmiðju um stálsmíðina og gert ráð fyrir afhendingu í lok október. Stálið kom síðan ekki fyrr en í byrjun desember og boginn soðinn saman strax og stefnt að uppsetningu hans fyrir jól. Um miðjan desember var farið að efast um gæði yfirborðsmeðhöndlunar stálsins og reyndist sá grunur á rökum reistur og ákveðið að endurvinna þann verkhluta. Tafir sem rekja má til galla stáls er því um 1,5-2 mánuðir. Einnig má benda á að sein ákvarðanataka verkkaupa varðandi útgröft á undirstöðum brúarinnar og þær magnaukningar sem orðið hafa í undirstöðunum hafa einnig valdið töfum á framgangi brúarsmíðinnar. Febrúarmánuður 2002 hefur mælst sem kaldasti febrúarmánuður síðan 1935 skv. mælingum Veðurstofu Íslands.
Aukaverk: Búið er að gera upp aukaverk að upphæð 6,4 milljónir og ljóst að sú tala á eftir að hækka eitthvað þar sem sum þeirra eru ekki uppgerð og e.t.v. einhver eftir að koma í ljós.
Í ljósi breytinga og óvæntra erfiðleika óskar verktaki eftir framlengingu verktíma og að sektarákvæðum samnings verði ekki beitt verði aðrennslisskurði og stöðvarhússsvæði skilað fyrir 1. júní, brúnni 15. júní og verkinu í heild fyrir 1. júlí. Að lokum vill verktaki benda á að óskynsamlegt sé að klára veginn fyrir 1. júlí þar sem mjög ólíklegt verði að teljast að frost verði farið úr jörð þegar kemur að afréttingu hans seini hluta júní. Reynslan hefur sýnt að verulegar líkur eru á aflögun yfirborðs þegar frost fer úr jörð. Óski verkkaupi viðræðna um þessi atriði er það auðsótt mál. Að lokum vonast verktaki til að verkkaupi skoði efni orðsendingarinnar með jákvæðu hugarfari og vonast til að tafirnar, sérstaklega við brúarbygginguna, valdi ekki skaða.“
Svar Björns Harðarsonar, staðarverkfræðings, og Jóns Smára Úlfarssonar, yfirverkfræðings jarðvinnu, til stefnda, dags. 11. apríl 2002, sbr. dskj. nr. 41, er svohljóðandi:
„Við höfum móttekið ofangreinda orðsendingu ykkar, dags. 24. mars 2002 (sic), þar sem tilgreind er staða verkþátta og óskað eftir framlengingu verktíma til 01. júní 2002 fyrir aðrennslisskurð og stöðvarhússsvæði, við smíði brúar fram til 15. júní 2002 og lok á verki í heild til 01. júlí 2002.
Varðandi lagningu efra burðarlags, lagningu slitlaga, endanlegan frágang vegláa og lokafrágang vísast til bréfs okkar nr. L007/AF006, dags. 13. nóvember 2001.
Varðandi tafir við brúargerð vísast til bréfs okkar nr. L008/AF007, dags. 10. janúar 2002.
Að okkar áliti eru megin ástæður seinkana við verkframkvæmdina hæg framvinda og lítill kraftur í jarðvinnuverkþáttum á síðasta ári auk alvarlegra framleiðslugalla í brúarstáli.
Ljóst er ennfremur að áorðnar tafir á verkframkvæmdinni valda verkkaupa auknum kostnaði m.a. vegna aukinnar umsjónar-, eftirlits- og ráðgjafavinnu.
Þrátt fyrir ofangreint munum við mæla með því við verkkaupa að hann fallist á umbeðna tímaframlengingu með eftirfarandi skilyrðum:
- Engar hindranir verði á vinnu annarra verktaka sem hugsanlega hefja vinnu á svæðinu fyrir lok framkvæmda ykkar.
- Öll umferð út í Búðarháls um bráðabirgðabrú ykkar verði óhindruð þar til ný brú yfir Tungnaá kemst í notkun. Ennfremur verði umferð óhindruð um aðkomuveg og tengiveg meðan á framkvæmdum stendur.
- Fyrirvari er gerður um aukakostnað vegna lengri akstursvegalengda frá 01.04.2002 fram að opnun brúar yfir Tungnaá.
- Ekki verði gerðar kröfur af hálfu verktaka vegna hugsanlegra tafa eða óhagræðis af völdum magnaukninga, aukinnar vinnu við styrkingar á bergfláum eða annarra fyrirsjáanlegra aukaverka, enda skapist nægt svigrúm til þeirra verka með ofangreindri tímaframlengingu.“
Vitnið Þorvaldur Konráðsson byggingatæknifræðinemi kvaðst hafa verið verkstjóri stefnda við verkefnið í Bröttubrekku til loka ágúst 2002. Byrjað hafi verið á verkinu um miðjan maí. Framkvæmdir stefnanda hafi ekki gengið sem skyldi, hafi það stafað af því að ekki hafi verið unnið nógu mikið við verkið. Starfsmenn stefnanda og stefnda hafi verið í sömu vinnubúðum.
Vitnið Hans Petur Örsting Andersen, húsasmiður og byggingafræðingur, kvaðst hafa verið verkstjóri hjá stefnda og tekið m.a. út magntölur og hjálpar Karli Andreasen.
Vitnið Ómar Már Gunnarsson húsasmíðanemi kvaðst hafa starfað sem smiður frá árinu 2000 og unnið við smíðar við Bröttubrekku. Hann hafi ráðið sig sem smiðsvanan og hafi fengið laun sem smiður.
Vitnið Sigmundur Andrés Guðmundsson járnabindingamaður kvaðst mikið hafa unnið sem smiður og hafi hann fengið kaup sem hann sem samdi um.
Vitnið Róbert Pálsson húsasamíðsveinn kvaðst hafa tekið sveinspróf 2005. Hann kvaðst ekki hafa unnið lengi við verkið í Bröttubrekku, en verið á samningi sem lærlingur.
Þór Konráðsson, verkstjóri, stjórnarformaður stefnda, kvaðst hafa verið verkstjóri stefnda í Bröttubrekku. Óskipulag hafi verið á öllu hjá stefnanda og hafi verkið tafið fyrir framkvæmdum stefnda. Verkið hafi gengið illa hjá stefnanda, verklotur hafi ekki verið nógu langar og ekki nógu mikið unnið. Klukkan hafi virst skipta öllu máli og að komast í golf í Borgarnesi.
VIII.
Álit dómsins:
Að því er varðar kröfur stefnanda um verkefni við Bröttubrekku telur dómurinn sannað að verk þetta hafi verið hreint reikningsverk eins og samningur aðila frá 20. september 2002 ber með sér, og virðist raunkostnaður við verkið svipaður því og tilboð þau sem bárust í það samkvæmt framburði vitnisins Jörgens Rúnars Hrafnkelssonar. Varðandi kröfugerð stefnanda bendir stefndi á að í stefnu séu ekki reifuð atvik og málsástæður varðandi reikning nr. SR00493, útg. 31. mars 2003, samtals að fjárhæð kr. 1.301.293, sem varðar aukaverk vegna Búðarhálsverkefnisins BUD 10, brúarhluta, og bendir á að málatilbúnaðurinn kunni að brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91, 1991. Á þetta sjónarmið stefnda fellst dómurinn og með vísan til stafliðar e í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91, 1991 er kröfu þessari vísað frá dómi ex officio.
Að því er varðar kröfu stefnda um tafabætur vegna afhendingardráttar verksins við Búðarháls, sbr. 1. tl. V. kafla hér að framan þá fellst dómurinn á þá málsástæðu stefnanda að krafa þessi sé of seint fram komin vegna tómlætis stefnda. Þá ber einnig að líta til þeirrar meginreglu 47. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50, 2000, sem mælir svo fyrir að ef kaupandi hefur fengið reikning sé hann bundinn við það verð sem fram kemur ef hann segir ekki til um það innan sanngjarns tíma að hann samþykki ekki verðið.
Úttekt á brúnni fór fram 7. júní 2002 og krafa stefnda um tafabætur kemur fyrst fram í greinargerð hans á dómþingi 15. september 2005. Telur því dómurinn að með tómlæti sínu hafi stefndi fyrirgert rétti sínum til tafabóta fyrir verkið, auk heldur sér þess hvergi stað í gögnum málsins að á verkfundum hafi kröfu um tafabætur verið hreyft. Er því stefnandi sýknaður af þessari kröfu stefnda.
Að því er varðar kröfu stefnda um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar, samtals að fjárhæð kr. 1.310.961 vegna öryggisráðstafana við Búðarhálsverkefnið, sbr. lið 2 í V. kafla hér að framan, þá getur dómurinn fallist á þessa kröfu stefnda þar sem ítrekað kemur fram á verkfundum að stefnandi skilar ekki inn öryggisáætlun og tekur stefndi að sér að koma á öruggu fjarskiptasambandi við vinnustað.
Að því er varðar gagnkröfu stefnda í lið 3 í V. kafla varðandi fæðiskostnað að fjárhæð kr. 1.249.692 telur dómurinn alls ósannað að stefnandi hafi skuldbundið sig til að greiða þennan kostnað svo og er kröfu þessari hafnað með vísan til tómlætis stefnda og 47. gr. kaupalaga nr. 50, 2000.
Með sömu röksemdum er kröfum stefnanda í töluliðum 4, 5 og 6 í kafla V hafnað, svo og kröfum hans skv. IV. kafla hér að framan.
Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til málsástæðna stefnanda eru reikningskröfur hans teknar til greina þannig að stefndi greiði stefnanda kr. 11.810.353 (14.422.553 - 1.301.239 - 1.310.961 = kr. 11.810.353). Þá greiði stefndi stefnanda dráttarvexti af kröfu þessari, sem þykir eftir atvikum með vísan til allra málsatvika rétt skv. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu ákveðnir frá stefnubirtingu máls þessa 20. maí 2005 til greiðsludags. Þá greiði stefndi stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðin kr. 750.000.
Dóm þennan kveður upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari, ásamt meðdómsmönnunum, byggingaverkfræðingunum Eiríki Jónssyni og Herði Blöndal.
Svo sem áður greinir var mál þetta endurflutt 9. f.m. vegna veikindaforfalla dómsformanns.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Arnarfell ehf., greiði stefnanda, MT. Höjgaard Íslandi ehf., kr. 11.810.353 ásamt dráttarvöxtum frá 20. maí 2005 til greiðsludags ásamt kr. 750.000 í málskostnað.