Hæstiréttur íslands

Mál nr. 177/2016

Lögreglustjórinn á Suðurlandi (Grímur Hergeirsson saksóknarfulltrúi)
gegn
X (Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Farbann

Reifun

Hafnað var kröfu L um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þess í stað var hann látinn sæta farbanni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. mars 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. mars 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. apríl 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Til þess að fallist verði á kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 þarf að liggja fyrir sterkur grunur um afbrot sem varðað getur 10 ára fangelsi og brotið vera þess eðlis að gæsluvarðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Þótt fyrir liggi rökstuddur grunur um brot gegn 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er varhugavert á þessu stigi málsins að slá því föstu að sterkur grunur sé til staðar um slíkt brot. Verður því ekki fallist á að framlengt verði gæsluvarðhald yfir varnaraðila með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Í ljósi málsatvika og þar sem varnaraðili er erlendur ríkisborgari verður þess í stað beitt heimild í 1. mgr. 100. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr., laga nr. 88/2008 og ákveðið að varnaraðila skuli bönnuð för frá Íslandi þann tíma sem gæsluvarðhaldi var ætlað að gilda samkvæmt hinum kærða úrskurði.

Dómsorð:

Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi allt til föstudagsins 1. apríl 2016 klukkan 16.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. mars 2016.

Ár 2016, föstudaginn 4. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er í dómsal embættisins að Austurvegi 4, Selfossi af Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.      

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur krafist þess að X, kt. [...], til lögheimilis að [...], [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 1. apríl n.k.

Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað, en krefst þess til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími .

Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að lögreglan á Suðurlandi hafi nú til rannsóknar meint brot X gegn 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ýmsum ákvæðum laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Þann 18. febrúar 2016, hafi lögregla farið til [...] og gert húsleit á þrem stöðum vegna gruns um svo kallað vinnumansal á vegum fyrirtækisins [...] ehf., kt. [...], en kærði sé framkvæmdastjóri fyrirtækisins og jafnframt eini eigandi þess. Kærði hafi verið handtekinn þann sama dag og í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá föstudeginum 19. febrúar til kl. 16:00 í dag.

Að mati lögreglu teljist sterkur rökstuddur grunur kominn fram um að X hafi gerst sekur um að stunda vinnumansal á heimili sínu að [...] í [...], í skjóli framangreinds fyrirtækis [...] ehf. Fyrir liggi að tvær konur frá [...] hafi um nokkurt skeið dvalið og starfað inn á heimili kærða. 

Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að kærði hafi nær daglega flutt ófullunnar framleiðsluvörur frá starfsstöð fyrirtækisins inn á heimili sitt í þeim tilgangi að láta konunar tvær vinna þar ákveðna verkþætti í framleiðslunni auk heimilisstarfa. Leynd virðist hafa hvílt yfir þessari starfsemi fyrirtækisins sem fram hafi farið á heimili kærða. Konurnar tvær hafi ekki fengið neinar launagreiðslur í hefðbundnum skilningi fyrir þá vinnu sem þær hafi innt af hendi, en kærði hafi greint frá því að hann hafi í tvígang sent peninga til móður kvennanna tveggja og fjölskyldu þeirra á [...].  Ljóst sé samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu að staða kvennanna beggja hérlendis hafi verið mjög bág og þær alfarið háðar kærða um alla hluti hér á landi, þar með talið ferðina hingað til lands.

Kærði hafi við yfirheyrslur neitað sök og sagt konurnar tvær gestkomandi hér á landi, en hafi af og til hjálpað til. Sá framburður kærða sé í engu samræmi við aðra framburði og rannsóknargögn í málinu. Lögregla telur ljóst að kærði hafi með háttsemi sinni gagnvart konunum tveimur hagnýtt sér bága stöðu þeirra og misnotað þær til nauðungarvinnu í þágu fyrirtækis síns með fjárhagslega hagsmuni að leiðarljósi. Rannsóknargögn lögreglu bendi jafnframt til að brot kærða hafi staðið yfir í nokkurn tíma og að þessi háttur hafi verið hafður á framleiðslu fyrirtækisins um nokkurt skeið. Brotin séu þaulskipulögð og varði umtalsverða fjárhagslega hagsmuni. Þá sé jafnframt ljóst að mati lögreglu að kærði hafi í rekstri fyrirtækisins í fjölmörg skipti brotið gegn ákvæðum laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 sem og önnur ákvæði íslenskrar löggjafar um réttindi á vinnumarkaði og standi þau brot í nánum tengslum við meint brot ákærða gagnvart 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Að mati lögreglu liggi kærði undir sterkum rökstuddum grun um mjög alvarleg brot sem beinist gegn mikilvægum hagsmunum jafnt hérlendis og erlendis, enda hafur löggjafinn ákveðið að við brotum á 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skuli liggja allt að tólf ára fangelsi. 

Með hliðsjón af þeim mikilvægu hagsmunum sem ákvæði 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. ákvæði mansalsbókunar Palermó-samningsins, sé ætlað að vernda og þeirri miklu ógn sem alþjóðasamfélaginu standi af mansalsbrotum telur lögreglustjóri það ganga gegn almennri réttarvitund að kærði gangi laus og gæsluvarðhald teljist því nauðsynlegt vegna almannahagsmuna í skilningi 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Með vísan til alls framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 8872008 um meðferð sakamála, sé þess farið á leit að framangreind krafa um gæsluvarðhald nái fram að ganga. Nái krafa þessi fram að ganga sé þess ekki óskað að kærða verði með úrskurði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Forsendur og niðurstaða

Með vísan til ofangreinds og þeirra gagna sem lögð hafa verið fram í málinu er það mat dómsins að kærði sé undir sterkum rökstuddum grun um brot 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þar er meðal annars fjallað um svokallaða nauðungarvinnu, en brot gegn þeirri lagagrein geta varðað fangelsi allt að tólf árum. Rannsókn málsins er vel á veg komin og að sögn fulltrúa lögreglustjóra standa vonir til að málið verði komið til ákærumeðferðar við lok þess tíma sem krafist er að kærði sæti gæsluvarðhaldi.

Að virtu eðli þeirra meintu brota sem kærði sætir rannsókn vegna þykir mega ætla að nauðsynlegt sé með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi en tímalengd kröfu lögreglustjóra þykir í hóf stillt og verður fallist á hana eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. apríl 2016 kl. 16:00.