Hæstiréttur íslands

Mál nr. 712/2016

M (Tómas Hrafn Sveinsson hrl.)
gegn
K (Björn Þorri Viktorsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Innborgun
  • Fyrning

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem staðfest var aðfarargerð sýslumanns í tilteknum eignum M til tryggingar greiðslu skuldar hans við K. Bú M hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta og lauk skiptum í febrúar 2008 en K lýsti ekki kröfu í búið. Í desember 2015 krafðist K fjárnáms í eignum M á grundvelli stefnu sem árituð var um aðfararhæfi í nóvember 2008 og var við útreikning á heildarfjárhæð kröfu hennar tekið tillit til fjögra innborgana sem M hafði innt úr hendi frá desember 2011 til apríl 2012. M hafnaði því að fjárnámið yrði gert og hélt því fram að krafan hefði fyrnst tveimur árum eftir að skiptum lauk á búi hans, sbr. 2. mgr. 165. gr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eins og þeirri grein var breytt með 1. gr. laga nr. 142/2010 sbr. og 2. gr. þeirra laga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að reglur 165. gr. laga nr. 21/1991, eftir þær breytingar sem gerðar hefðu verið á greininni með lögum nr. 142/2010, kvæðu ekki á um hvernig með skyldi fara þegar skuldari viðurkenndi tilvist kröfu á hendur sér með fyrirvaralausum innborgunum á hana. Um það giltu ákvæði 6. gr. laga nr. 14/1905, sem fælu í sér að innborganir M rufu fyrningarfrest kröfunnar. Hefði þá hafist nýr fyrningarfrestur samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905. Krafa K hefði því verið ófyrnd þegar krafist hefði verið fjárnáms til tryggingar greiðslu hennar í desember 2015. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. október 2016, en kærumálsgögn bárust Hæstarétti 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. október 2016 þar sem staðfest var aðfarargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 4. mars sama ár í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni [...] í [...] og í hlutafé sóknaraðila í einkahlutafélaginu [...] til tryggingar kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fyrrnefnd aðfarargerð verði felld úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila á rót sína að rekja til samnings þeirra um fjárskipti sem gerður var 6. maí 2005 vegna hjúskaparslita. Samkvæmt samningnum skyldi sóknaraðili meðal annars fá í sinn hlut fasteign þeirra í húsinu númer [...] við [...] í [...] og yfirtaka tilgreindar skuldir, en greiða varnaraðila 5.000.000 krónur í tveimur jöfnum hlutum, þeim fyrri 1. desember 2005 en hinum síðari 1. mars 2006. Sóknaraðili mun hafa áformað að selja fasteignina og nota hluta söluandvirðisins til þess að greiða skuldina við varnaraðila. Sala fasteignarinnar mun hafa dregist og fyrst orðið af henni í apríl 2006. Varnaraðili mun hafa fengið greiddar af söluverði fasteignarinnar 3.000.000 krónur, en telur eftirstöðvarnar 2.000.000 krónur vangoldnar. Þær hefðu samkvæmt endurskoðuðu samkomulagi þeirra átt að greiðast í síðasta lagi í september 2006 og sé það gjalddagi kröfunnar. Hún höfðaði mál til heimtu hennar með stefnu 20. október 2008 og var stefnan árituð um aðfararhæfi 11. nóvember sama ár.

Bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta 15. nóvember 2007 og lauk skiptum 22. febrúar 2008. Varnaraðili lýsti ekki kröfu sinni við gjaldþrotaskiptin.

Varnaraðili krafðist fjárnáms 23. desember 2015 í eignum sóknaraðila til tryggingar greiðslu skuldarinnar. Í fjárnámsbeiðni var heildarfjárhæð kröfunnar, að teknu tilliti til fjögurra innborgana sóknaraðila, 8.564.203 krónur. Innborganir sóknaraðila sem tilgreindar voru námu samtals 150.000 krónum og var sú fyrsta sögð innt af hendi 10. desember 2011 en sú síðasta 2. apríl 2012. Sóknaraðili hefur andmælt því að hafa greitt inn á skuldina, en af gögnum málsins, meðal annars um samskipti aðila, er sannað að þær hafi farið fram.

Sóknaraðili andmælti því að umbeðið fjárnám yrði gert og reisti þau andmæli sín á því að krafa varnaraðila væri fyrnd auk þess sem hann hafði uppi rökstudd andmæli við dráttarvaxtakröfu hennar. Andmæli sín sem lúta að fyrningu kröfunnar styður sóknaraðili við þau rök að með setningu laga nr. 142/2010, sem breyttu 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., hafi verið lögfestar sérreglur um fyrningu, sem hér eigi við. Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, eins og henni var breytt með tilgreindum lögum, gildir sú regla að þótt kröfu hafi ekki verið lýst við gjaldþrotaskipti fyrnist krafan á hendur þrotamanni á tveimur árum frá því að skiptum á búi hans lauk. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 142/2010 skyldu lögin, sem tóku gildi 29. desember 2010,  taka til krafna við gjaldþrotaskipti sem þá væri ólokið. Hafi skiptum á hinn bóginn verið lokið fyrir gildistöku laganna fyrndust kröfur, sem þar fengjust ekki greiddar og ekki væru þegar fyrndar, á tveimur árum frá gildistöku laganna nema skemmri tími stæði eftir af fyrningarfresti. Fyrningu þessara krafna yrði aðeins slitið eftir reglum laganna, en þær koma fram í 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991.

Samkvæmt framansögðu átti varnaraðili kröfu á sóknaraðila sem reist var á stefnu áritaðri 11. nóvember 2008 um aðfararhæfi. Fyrningarfrestur þeirrar kröfu var tíu ár frá þeim tíma, sbr. 2. mgr. 4. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sem gilda um kröfuna, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Lög nr. 142/2010 tóku sem fyrr segir gildi 29. desember 2010. Hvað sem líður reglum 165. gr. laga nr. 21/1991, eftir þær breytingar sem gerðar voru á greininni með fyrrgreindu lögunum, er ljóst að þær reglur kveða ekki á um hvernig með skuli fara þegar skuldari viðurkennir tilvist kröfu á hendur sér með fyrirvaralausum innborgunum á hana. Um það gilda hér ákvæði 6. gr. laga nr. 14/1905, sem fela í sér að innborganir sóknaraðila rufu fyrningarfrest kröfunnar, sbr. og dóm Hæstaréttar 27. október 2016 í máli nr. 119/2016. Hófst þá nýr fyrningarfrestur samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905. Samkvæmt öllu framansögðu var krafa varnaraðila ófyrnd þegar krafist var fjárnáms til tryggingar greiðslu hennar í lok desember 2015. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað sem ákveðinn verður eins og í dómsorði greinir. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. október 2016.

Mál þetta, sem barst dóminum 25. apríl 2016, var tekið til úrskurðar 14. september 2016. Sóknaraðili er M. Varnaraðili er K.

                Dómkröfur sóknaraðila eru þær að felld verði úr gildi aðfarargerð nr. 2016-000609 sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði þann 4. mars 2016 í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni [...], [...], fnr. [...], og í hlutafé sóknaraðila í einkahlutafélaginu [...] ehf., kt. [...], til tryggingar kröfu varnaraðila, K. Einnig er gerð krafa um málskostnað.

                Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 4. mars 2016, um að fjárnám skuli gert í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni [...], [...], fnr. [...] og í hlutafé sóknaraðila í einkahlutafélaginu [...] ehf. kt. [...], verði staðfest.

I.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 15. nóvember 2007 var bú sóknaraðila tekið til gjaldþrotaskipta. Skiptum á búinu lauk 22. febrúar 2008.

Hinn 20. október 2008 höfðaði varnaraðili mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness á hendur sóknaraðila þar sem krafist var greiðslu skuldar að fjárhæð 2.000.000 króna auk dráttarvaxta frá 1. október 2006 og málskostnaðar.

Stefnan var árituð af héraðsdómi 11. nóvember 2008.

Hinn 23. desember 2015 krafðist varnaraðili þess að fjárnám yrði gert hjá sóknaraðila, að höfuðstól 2.000.000 króna auk dráttarvaxta og kostnaðar, samtals að fjárhæð 8.564.203 krónur. Fjárnám var gert 4. mars 2016 samkvæmt aðfarargerð nr. 2016-000609, í eignarhlutum sóknaraðila í [...] ehf. og í fasteigninni [...], [...]. Í kjölfarið krafðist sóknaraðili úrlausnar héraðsdóms um aðfarargerðina.

II.

Sóknaraðili byggir á því að krafa varnaraðila sé fyrnd. Í stefnu sem árituð var af héraðsdómi greini varnaraðili frá því að krafa hans á hendur sóknaraðila hafi stofnast „eigi síðar en í lok september 2006“ og því hafi varnaraðili miðað dráttarvaxtakröfu sína við 1. október 2006. Krafan sé þannig frá 1. október 2006 og hafi stefna vegna hennar verið árituð 11. nóvember 2008. Skiptum hafi lokið í þrotabúi sóknaraðila 22. febrúar 2008. Varnaraðili hafi ekki lýst kröfum í búið.

Sóknaraðili vísar til þess að með lögum nr. 142/2010 hafi ákvæðum laga nr. 21/1991 um fyrningu krafna á hendur gjaldþrota einstaklingum verið breytt í tvö ár. Jafnframt hafi verið lögfest að sami frestur gilti um kröfur sem ekki hafi verið lýst við gjaldþrotaskiptin, nema þær fyrndust á skemmri tíma eftir almennum reglum.

Í athugasemdum frumvarps sem hafi orðið að lögum nr. 142/2010 segi að með þessu móti væri þeim einstaklingum sem teknir hefðu verið til gjaldþrotaskipta en bæru áfram ábyrgð á skuldum, sem ekki hefðu fengist greiddar við gjaldþrotaskiptin, auðveldað að koma fjármálum sínum á réttan kjöl. 

Í 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 segi að hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau sé fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrji þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum sé lokið. Þá segi: „Þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin gildir þessi sami fyrningarfrestur um hana, enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma.“

Í 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 segi að fyrningu krafna sem um ræði í 2. mgr. verði aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skuli því aðeins veita með dómi að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma, en að gengnum slíkum dómi gildi almennar reglur um fyrningu hennar.

Loks segi í 2. gr. breytingalaganna nr. 142/2010: „Lög þessi öðlast þegar gildi og taka þau til krafna við gjaldþrotaskipti sem er ólokið. Hafi skiptum á þrotabúi lokið fyrir gildistöku laga þessara fyrnast kröfur, sem þar fengust ekki greiddar og ekki eru fyrndar, á tveimur árum frá gildistöku laganna nema skemmri tími standi eftir af fyrningarfresti. Fyrningu þessara krafna verður aðeins slitið eftir reglum þessara laga.“ Í þessu sambandi vísar sóknaraðili einnig til umfjöllunar í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar Alþingis.

Sóknaraðili telur ljóst að breytingin á lögum nr. 21/1991, með lögum nr. 142/2010, nái til krafna sem ekki hafi fengist greiddar við gjaldþrotaskipti sem lokið hafi verið fyrir gildistöku laganna.

 Ef kröfu hafi verið lýst við skiptin og hún ekki fengist greidd við þau sé fyrningu hennar slitið gagnvart þrotamanninum og þá byrji nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi, sem skiptunum hafi verið lokið. Þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin gildi þessi sami fyrningarfrestur um hana enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma.

Sóknaraðili telur ljóst að varnaraðili hafi sjálf talið að krafa hennar á hendur sóknaraðila hafi fallið í gjalddaga 1. október 2006, en í stefnunni, dags. 20. október 2008, segi að krafa hennar hafi „eigi síðar en í lok september 2006“ átt að fást greidd úr hendi sóknaraðila. Það hafi verið áður en bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta. 

Krafa varnaraðila, sem samkvæmt stefnu hennar sjálfrar hafi fallið í gjalddaga 1. október 2006, hafi ekki fengist greidd „við gjaldþrotaskipti fyrir gildistöku laganna“. Ljóst sé því að tveggja ára fyrningarfrestur á kröfu varnaraðila hafi hafist tveimur árum eftir gildistöku laganna nr. 142/2010, sbr. 2. gr. laganna. Varnaraðili hafi ekki höfðað mál innan fyrningarfrestsins til að fá dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum. Krafa hennar hafi því verið fyrnd þegar aðfararbeiðni hafi verið send til sýslumanns 23. desember 2015.

Sóknaraðili telur að samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 sé skýrt að fyrningu verði aðeins slitið „með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum“. Ekki sé gert ráð fyrir að innborganir inn á kröfuna slíti fyrningarfresti slíkra krafna. Þrátt fyrir það þá mótmæli sóknaraðili því sem fram komi í aðfararbeiðni varnaraðila 23. desember 2015 um að sóknaraðili hafi greitt innborgun inn á kröfuna. Engin gögn hafi verið lögð fram um slíkar innborganir við meðferð málsins hjá sýslumanni, auk þess sem því sé hafnað að meintar innborganir hafi verið vegna kröfu varnaraðila.

III.

                Varnaraðili byggir á því að samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989 megi gera aðför til fullnustu kröfu samkvæmt stefnu sem gerð hefur verið aðfararhæf með áritun dómara. Varnaraðili sé rétthafi aðfararheimildarinnar og á sóknaraðila hvíli skylda samkvæmt hljóðan aðfararheimildarinnar. Aðfararheimildin sé árituð stefna og krafa varnaraðila sé óumdeild.

Varnaraðili segir að réttaráhrifum dóms héraðsdóms, sem hafi fallið með áritun stefnu um aðfararhæfi, verði ekki breytt með afturvirkum hætti af löggjafanum þannig að skerði eignarréttindi varnaraðila í andstöðu við ákvæði 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þá sé enn fremur ljóst að það hafi ekki verið tilgangur breytinga á gjaldþrotalögum að þeir sem þegar hafi rofið fyrningu með dómi eða áritaðri stefnu þyrftu að höfða mál að nýju til að rjúfa fyrningu aftur. Í ljósi þess álags sem hafi verið á dómstólum undanfarin ár verði að telja að það hafi ekki verið markmið löggjafans að auka á það álag með lagabreytingunni.

Þá byggir varnaraðili á því að hvað sem líði breytingum á lögum um gjaldþrotaskipti sé ljóst að slíkar breytingar geti ekki haft áhrif á kröfur sem hafi stofnast eða verið staðfestar af dómstólum eftir að gjaldþrotaskiptum lauk. Ef rök sóknaraðila ættu að standast sé ljóst að allar skuldbindingar sóknaraðila sem gerðar hafi verið eftir gjaldþrotaskipti hans ættu að fyrnast á tveimur árum. Megi þannig sem dæmi nefna að ef sóknaraðili hefði gert upp við varnaraðila eftir að gjaldþrotaskiptum lauk með útgáfu skuldabréfs krefðist hann þess væntanlega að það skuldabréf fyrndist á tveimur árum. Ef túlkun sóknaraðila á breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti ætti við rök að styðjast sé ljóst að staða þeirra, sem hafi lánað einstaklingum sem orðið höfðu gjaldþrota fé, eftir að skiptum lauk en áður en lögum um gjaldþrotaskipti var breytt, sé sú að þeir hafi þá tapað kröfum sínum ef fjármunum hafi verið varið til uppgjörs á skuldum sem stofnað hafi verið til fyrir gjaldþrot einstaklingsins. 

Varnaraðili byggir á því að samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 byrji nýr tíu ára fyrningarfrestur að líða þegar krafa sé dæmd. Verði þetta orðalag ákvæðisins ekki skilið á annan hátt en að með málshöun verði fyrningu slitið og eftir að krafan hefur verið dæmd byrji nýr tíu ára fyrningarfrestur að líða sem sé óháður upphaflegum fyrningarfresti kröfunnar, enda fyrnist dæmdir vextir samkvæmt ákvæðinu á tíu árum þrátt fyrir að almenna reglan sé sú að vextir fyrnist á fjórum árum.

Þótt fallist yrði á að breyting á lögum um gjaldþrotaskipti ætti að ná yfir kröfu varnaraðila sé ljóst að varnaraðili hafi stefnt sóknaraðila innan tveggja ára frá lokum gjaldþrotaskipta og hafi krafan því ekki verið fyrnd þegar málinu hafi verið stefnt enda hefði stefnan þá ekki verið árituð um aðfararhæfi. Hafi sóknaraðili talið að niðurstaða héraðsdóms um áritun stefnu hafi verið röng eða ekki í samræmi við lög hefði sóknaraðila verið í lófa lagið að taka til varna í málinu eða krefjast endurupptöku málsins. Ljóst sé að dómi héraðsdóms frá árinu 2008 verði ekki breytt í þessu máli.

Þá byggir varnaraðili á því að fyrir liggi gögn í málinu þar sem sóknaraðili lýsir því yfir að hann ætli að greiða 30 þúsund á mánuði til varnaraðila til að gera upp kröfuna.

Einnig byggir varnaraðili á því að hún hafi tryggingarréttindi fyrir skuld sinni og krafan fyrnist því ekki á tveimur árum, en varnaraðili sé ennþá afsalshafi fasteignarinnar [...] sem sóknaraðili hafi selt 19. apríl 2006. Samkvæmt skýru ákvæði lokamálsliðar 3. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti fyrnist krafa ekki hafi kröfuhafi fengið tryggingarréttindi fyrir kröfu sinni í eign þrotamanns áður en frestur samkvæmkt 2. mgr. var á enda. Varnaraðili sé ennþá afsalshafi eignarinnar [...] og hafi haldið eftir afsali eignarinnar til tryggingar kröfu sinni. Fallist dómurinn á það að krafa varnaraðila sé fyrnd fæli slíkur dómur í sér sviptingu eignarréttar varnaraðila yfir fasteigninni sem felist í afsali hennar. Slíkt færi gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Krafa varnaraðila um málskostnað byggist á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV.

                Í máli þessu byggir sóknaraðili á því að krafa varnaraðila sé fyrnd, þar sem í áritaðri stefnu frá 11. nóvember 2008 komi fram að krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila hafi stofnast eigi síðar en í lok september 2006 og að upphafstími dráttarvaxta hafi verið 1. október s.á. Sóknaraðili vísar máli sínu til stuðnings til 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sbr. lög nr. 142/2010, en ákvæðið felur í sér sérreglu um tveggja ára fyrningarfrest á þeim kröfum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti.

Í 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 142/2010, segir að þrotamaður beri ábyrgð á skuldum sínum sem fást ekki greiddar við gjaldþrotaskiptin. Hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau er fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið. Þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin gildir þessi sami fyrningarfrestur um hana, enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma. Í 3. mgr. 165. gr. segir að fyrningu krafna sem um ræðir í 2. mgr. verði aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum.

Bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta 15. nóvember 2007 og lauk skiptum 22. febrúar 2008. Hinn 20. október 2008 höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila til greiðslu skuldar. Stefna málsins var árituð af héraðsdómi 11. nóvember 2008 og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 2.000.000 kr. auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Á grundvelli hinnar árituðu stefnu krafðist varnaraðili þess svo hinn 23. desember 2015 að fjárnám yrði gert hjá sóknaraðila, sbr. 2. tl. 1. mgr. laga um aðför nr. 90/1989. Aðfararheimildin var því hin áritaða stefna. Þannig er ekki um að ræða lýsta kröfu sem fékkst ekki greidd við skiptin á búi sóknaraðila eða kröfu sem var ekki lýst við skiptin, heldur kröfu á grundvelli stefnu sem var árituð eftir að gjaldþrotaskiptum lauk. Sérregla um tveggja ára fyrningarfrest á því ekki við hér, heldur gildir tíu ára fyrningarfrestur, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Eftir þessum úrslitum ber sóknaraðila að greiða varnaraðila málskostnað sem er hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.

                Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Staðfest er aðfarargerð nr. 2016-000609 sem sýslumaðurinn á höfuðborgar­svæðinu gerði 4. mars 2016 í eignarhluta sóknaraðila, M, í fasteigninni [...], [...], fnr. [...], og í hlutafé sóknaraðila í einkahlutafélaginu [...] ehf., kt. [...], til tryggingar kröfu varnaraðila, K.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 450.000 krónur í málskostnað.