Hæstiréttur íslands
Mál nr. 239/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Aðför
- Innsetningargerð
|
|
Miðvikudaginn 16. júní 2004. |
|
Nr. 239/2004. |
Britannia Shipping International(Einar Baldvin Axelsson hrl.) gegn Skinney-Þinganesi hf. (Garðar Garðarsson hrl.) |
Kærumál. Aðför. Innsetningargerð.
B krafðist að því yrði með beinni aðfarargerð afhent tiltekið fiskiskip ásamt fylgifé. Í Hæstarétti var tekið fram að S hf. hefði samþykkt kauptilboð B í skipið og B lagt kaupverð þess inn á reikning í banka. S hf. hefði hins vegar ekki fengið umráð fjárins eða tryggingu fyrir greiðslu þess við afhendingu skipsins. Með vísan til þess að B hafði ekki sýnt fram á að það hefði fullnægt greiðsluskyldu sinni auk þess sem ágreiningur aðila um fylgifé skipsins var óútkljáður var talið að ekki væri fullnægt skilyrðum 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför til að veita B umráð yfir skipinu með beinni aðfarargerð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 19. maí 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði með beinni aðfarargerð afhent fiskiskipið Húnaröst SF 550, ásamt fylgifé. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á framangreinda kröfu hans í samræmi við kaupsamning aðila þar um. Til vara krefst hann að umrætt skip verði með beinni aðfarargerð tekið úr vörslum varnaraðila „án hins umdeilda fylgifjár, ASDIC, FURUNO CSH 22, sónar, árg. 1997.“ Þá krefst sóknaraðili málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði gerði sóknaraðili kauptilboð 11. febrúar 2004 í fiskiskipið Húnaröst SF 550. Hinn 17. sama mánaðar samþykkti varnaraðili tilboðið með tölvubréfi. Deila aðilar um hvaða fylgifé skipsins skyldi vera með í kaupunum. Sóknaraðili mun hafa stofnað reikning í Landsbanka Íslands hf. og lagt inn á hann kaupverð skipsins, 5.000.000 krónur. Hins vegar hefur varnaraðili ekki fengið umráð fjárins eða tryggingu fyrir greiðslu þess við afhendingu skipsins. Samkvæmt því hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hann hafi fullnægt greiðsluskyldu sinni samkvæmt samningi aðila. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Britannia Shipping International, greiði varnaraðila, Skinney-Þinganesi hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 19. maí 2004.
I
Mál þetta, sem barst dóminum 17. mars 2004, var tekið til úrskurðar 29. apríl sl.
Gerðarbeiðandi er Britannia Shipping International, Vigo, Spáni.
Gerðarþoli er Skinney-Þinganes hf., kt. 480169-2989, Krossey, Höfn í Hornafirði.
Gerðarbeiðandi krefst dómsúrskurðar um að skipið Húnaröst SF-550, skipaskrárnúmer 1070, ásamt fylgifé verði tekið úr vörslum gerðarþola með beinni aðfarargerð. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Gerðarþoli gerir þá dómkröfu að beiðni gerðarbeiðanda um að honum verði fengin umráð vélskipsins Húnarastar SF-550, skipaskrárnúmer 1070, sem er þinglýst eign gerðarþola, verði hafnað með úrskurði. Þá krefst gerðarþoli málskostnaðar.
II
OConnor fyrirsvarsmaður gerðarbeiðanda, sem er alþjóðlegur skipamiðlari, kom til landsins hinn 28. febrúar 2004 og skoðaði skip gerðarþola, Húnaröst SF-550, skipaskrárnúmer 1070, að viðstöddum fulltrúa gerðarþola, með kaup í huga.
Heldur gerðarþoli því fram að OConnor hafi verið tjáð við það tækifæri að í skipinu væru ýmis tæki og búnaður sem fylgdi því ekki við sölu. Af því tilefni hafi OConnor verið afhentur listi frá Fjárhæðanefnd þar sem strikað er yfir tæki og búnað sem ekki eigi að fylgja skipinu við sölu.
Þann 11. febrúar 2004 gerði gerðarbeiðandi tilboð í skipið og bauðst til að kaupa það á 5.000.000 króna “AS IS/WHERE IS”. Skilmála þennan, sem gerðarbeiðandi útleggur á íslensku sem “í því ástandi sem skoðað var”, kveður gerðarbeiðandi eðlilega byggjast á ástandi skipsins og fylgihlutum sem í því voru við skoðun þann 28. janúar 2004. Í tilboðinu segir: “The offer is subject to the vessel being delivered with all the equipment on board as per inspected by me on the 28 th of January 2004 and as per the list of items given to me...”. Kveðst gerðarbeiðandi vísa þar sérstaklega til þess að hann kaupi skipið með þeim tækjum sem í því voru við skoðun og einnig til tækjalista sem honum hafi verið afhentur yfir þau tæki sem áttu að vera um borð í skipinu. Heldur gerðarbeiðandi því fram að listinn hafi einungis verið til hliðsjónar við skoðun hans á skipinu.
Gerðarþoli kveður lögmann sinn, eftir að tilboðið barst, hafa beðið OConnor að senda sér afrit af listanum til staðfestingar áður en afstaða yrði tekin til þess. Hafi OConnor orðið við því en á listanum komi skýrt fram hvaða tæki séu strikuð út og því til áherslu sé handritað á listann að umrædd tæki fylgi ekki. Þegar búið hafi verið að bera listann saman við það sem var í skipinu og fyrirhugað var að taka úr því hafi OConnor verið send staðfesting með tölvubréfi hinn 17. febrúar 2004 á því að tilboði hans væri tekið. Samþykkið hafi að sjálfsögðu miðast við það að sá búnaður sem strikaður var út af listanum myndi ekki fylgja.
Í tölvubréfinu frá 17. febrúar segir: “We would also like to make further comments to the list you refer to, that the Astic Elac LAZ 3370, was removed some years ago”. Þá er vakin athygli á atriðum sem þarf að athuga. Þá segir þar “... nothing has been removed from the vessel since the day you inspected it.”
OConnor kom til landsins 19. febrúar 2004 til þess að fá skipið afhent og til að greiða kaupverð þess. Þegar hann kom um borð í skipið næsta dag voru fulltrúar gerðarþola í óða önn að fjarlægja tæki úr skipinu. Kveður gerðarbeiðandi OConnor hafa krafist þess að verkið yrði stöðvað en honum hafi þá verið tjáð að skipið væri selt án þess búnaðar sem strikað væri yfir á lista Fjárhæðanefndar.
Gerðarbeiðandi kveður það alrangt að OConnor hafi verið tjáð að þeir hlutir sem strikað er yfir á umræddum lista Fjárhæðanefndar fylgdu ekki við sölu. OConnor hafi tekið við listanum en með þeim orðum að þeir hlutir sem þar væru yfirstrikaðir væru ekki um borð í skipinu eftir að það hefði verið metið til húftryggingar árið 2002. Gerðarbeiðandi hafi ekki haft miklar áhyggjur af þessu þar sem OConnor hafði grandskoðað skipið og því vitað fullvel hvaða tæki voru um borð.
Gerðarbeiðandi kveður listann, sem er að langmestu leyti á íslensku, ekki bera með sér á nokkurn hátt að hann gefi nokkra vísbendingu um þau tæki sem raunverulega voru um borð við skoðun skipsins. Einungis sé nær óskiljanlegt pár neðst á listanum þar sem standi “yfirstrikað ekki í skipi”.
Þann 23. febrúar 2004 leitaði gerðarbeiðandi lögmannsaðstoðar til þess að ná fram rétti sínum varðandi kaupin á skipinu og var þegar í kjölfarið haft samband við lögmann gerðarþola og honum kynnt krafa gerðarbeiðanda um að fá skipið afhent gegn greiðslu kaupverðs en þeirri kröfu var hafnað. Með tölvupósti 26. sama mánaðar var krafan ítrekuð og óskað greiðslufyrirmæla vegna greiðslu kaupverðs. Með svarbréfi lögmanns gerðarþola dagsettu 27. sama mánaðar var kröfum gerðarbeiðanda um afhendingu skipsins hafnað. Var krafan um afhendingu enn ítrekuð með bréfi dags 1. mars s.á. en hafnað með bréfi lögmanns gerðarþola dagsettu 4. sama mánaðar.
Þar sem gerðarþoli varð ekki við ítrekuðum óskum gerðarbeiðanda um greiðslufyrirmæli greiddi gerðarbeiðandi kaupverðið 5.000.000 krónur til LOGOS lögmannsþjónustu sem varðveitir féð á kjörbók á nafni gerðarbeiðanda. Greiðslukvittun var send gerðarþola ásamt áskorun um afhendingu skipsins en gerðarþoli hefur neitað að afhenda það.
III
Gerðarbeiðandi byggir í fyrsta lagi einkum á að óumdeilt sé að fyrir liggi samþykkt kauptilboð sem gerðarþoli hafi ítrekað neitað að efna in natura. Meginregla kauparéttar um efndir in natura að kröfu kaupanda sé m.a. staðfest með því ákvæði aðfararlaga sem kveði á um að sé manni með ólögmætum hætti aftrað frá að neita réttinda sinna sem séu svo ljós að þau verði sönnuð með gögnum skv. 83. gr. laganna, þá geti hann knúið fram efndir þeirrar kröfu með atbeina dómstóla og eftir atvikum stjórnvalda.
Í öðru lagi telur gerðarbeiðandi sig uppfylla skilyrði laga til þess að fá efndir skv. 78. gr. sbr. 73. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Gerðarþoli neiti að afhenda skipið, þrátt fyrir að hann viðurkenni skuldbindingargildi kauptilboðsins, enda hafi gerðarþoli ekki rift kaupunum. Gerðarbeiðandi hafi á hinn bóginn framvísað greiðslukvittun fyrir millifærslu kaupverðsins inn á sérgreindan bankareikning og með því bæði sýnt vilja og getu til að efna samninginn. Þá hafi gerðarbeiðandi mátt líta svo á að með samþykki gerðarþola á tilboðinu hafi gerðarbeiðandi endanlega orðið bundinn af því og gerðarþoli að sama skapi bundinn til þess að efna loforð það sem í samþykkinu fólst.
Loks byggir gerðarbeiðandi á að þó að aðilar séu sammála um að vera ósammála um fylgifé skipsins þá standi sú deila ekki í vegi fyrir því að aðilar standi við kaupin skv. aðalefni sínu, þ.e. að gefa út afsal til gerðarbeiðanda og afhenda honum skipið gegn greiðslu kaupverðs.
Réttur gerðarbeiðanda sé bæði skýr og ótvíræður og eigi hann því lögvarða hagsmuni af því að fá umráð skipsins og fá gefið út afsal fyrir því gegn greiðslu kaupverðs. Krefst gerðarbeiðandi umráða yfir skipinu með vísan til 78.gr., sbr. 73. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Gerðarþoli byggir á að 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 eigi ekki við í máli þessu. Aðilar deili um inntak og gildi kauptilboðs gerðarbeiðanda, ekki hafi verið gerður kaupsamningur um eignina, hún hafi ekki verið greidd og auk þess krefjist sóknaraðili afhendingar einhvers óskilgreinds fylgifjár. Það fari því víðs fjarri að réttur gerðarbeiðanda til meints innsetningarandlags sé svo ljós að sönnur verði færðar fyrir honum með þeim gögnum, sem afla má fyrir dómi samkvæmt reglum 83. gr. laganna eins og sé skilyrði innsetningargerðar samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laganna.
Þá byggir gerðarþoli á að gerðarbeiðandi hafi frá upphafi vitað nákvæmlega hvert fylgifé skipsins var sem og búnaður og geti ekki borið fyrir sig að hafa ekki skilið listann. Gerðarbeiðandi hafi sjálfur gert tilboð með þeim hætti að gerðarþola hafi ekki getað dulist að gerðarbeiðandi var að gera tilboð í skipið og að tiltekið fylgifé þess væri undanþegið í samræmi við lista sem hann vísar til í tilboði sínu. Gerðarbeiðandi hafi ekki viljað standa við þetta tilboð sitt og krefjist þess nú að fá afhent annað og miklu meira en það sem tilboð hans laut að.
Þá jafngildi það að gerðarbeiðandi hafi komið 5.000.000 krónum í vörslur lögmanna sinna ekki greiðslu kaupverðs. Hafi gerðarbeiðanda verið einhver alvara með að greiða kaupverðið hafi honum borið að greiða það í banka eða sparisjóð í samræmi við 1. gr. laga nr. 9/1978 um geymslufé. Það hafi hann ekki gert og því ekki greitt kaupverð skipsins. Það eitt og sér sé sjálfstæð og nægileg ástæða fyrir því að hafna beri kröfum gerðarbeiðanda.
Loks sé gerðarþoli þinglýstur eigandi skipsins og beri á því eigendaábyrgð skv. siglingalögum, mengunarlöggjöf, hafnarlögum o.fl. Til þess að eignarhaldið og ábyrgðin geti færst frá gerðarþola til gerðarbeiðanda þurfi gerðarþoli að gefa út afsal til gerðarbeiðanda en einnig þurfi að útbúa útstrikunarvottorð fyrir skipið. Meðan þetta hafi ekki verið gert og gerðarbeiðandi hafi ekki gengið frá tryggingamálum skipsins með lögbundnum hætti sé ekki hægt að færa vörslur þess á hendur gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðandi sé því ekki í stakk búinn til að halda uppi eftirliti með skipinu meðan aðilar útkljái ágreining sinn fyrir dómstólum og hann hafi ekki sýnt fram á að hann hafi fjármuni til að standa straum af vörslukostnaði eða tryggingum. Þegar af þessum ástæðum beri að hafna kröfum gerðarbeiðanda.
Réttarágreiningur aðila sé óleystur og verði ekki leystur í máli þessu. Því beri að hafna því að gerðin nái fram að ganga með hliðsjón af 3. mgr. 83. gr. aðfararlaga.
Nái kröfur gerðarbeiðanda fram að ganga krefst gerðarþoli þess að dómari ákveði með úrskurði að málskot fresti áhrifum úrskurðar, sbr. 3. mgr. 84. gr. aðfararlaga.
IV
Í máli þessu krefst gerðarbeiðandi þess að skipið Húnaröst SF-550, skipaskrárnúmer 1070, verði með beinni aðfarargerð tekið úr vörslum gerðarþola og fengið gerðarbeiðanda ásamt öllu fylgifé þess.
Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 er það skilyrði fyrir beinni aðfarargerð að réttindi gerðarbeiðanda séu svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með þeim gögnum sem aflað verður fyrir dómi samkvæmt reglum 83. gr. laganna.
Fyrir liggur að gerðarþoli samþykkti tilboð gerðarbeiðanda í skipið með tölvubréfi dagsettu 17. febrúar 2004 og komst þar með á samkomulag á milli aðila um kaupin. Aðila greinir hins vegar á um hvaða fylgifé fylgi skipinu. Heldur gerðarbeiðandi því fram að það hafi verið selt með öllu því sem í því var við skoðun en gerðarþoli að tæki og búnaður sem yfirstrikaður hafi verið á svonefndum lista Fjárhæðanefndar hafi ekki fylgt. Til þess að fá skorðið úr því hvaða tæki fylgdu skipinu við sölu þarf að eiga sér umfangsmeiri sönnunarfærsla en heimil er í máli þessu. Því er óútkljáður ágreiningur aðila um fylgifé skipsins. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 til að veita gerðarbeiðanda umráð yfir Húnaröst SF 550, skipaskrárnúmer 1070, ásamt fylgifé með beinni aðfarargerð. Verður því kröfu gerðarbeiðanda um beina aðfarargerð á hendur gerðarþola hafnað.
Eftir niðurstöðu málsins verður gerðarbeiðandi dæmdur til að greiða gerðarþola 100.000 krónur í málskostnað.
Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfu gerðarbeiðanda, Britannia Shipping International, um að honum verði með beinni aðfarargerð afhent skipið Húnaröst SF-550, skipaskrárnúmer 1070, ásamt fylgifé, er hafnað.
Gerðarbeiðandi greiði gerðarþola 100.000 krónur í málskostnað.