Hæstiréttur íslands

Mál nr. 130/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 23

Þriðjudaginn 23. mars 1999.

Nr. 130/1999.

Ríkislögreglustjóri

(Helgi Magnús Gunnarson fulltrúi)

gegn

X

(Hilmar Magnússon hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. og B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X, erlendur ríkisborgari búsettur á Íslandi, var grunaður um stórfelld brot gegn 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa innleyst falsaða tékka og ráðstafað andvirði þeirra. Fallist var á þá niðurstöðu héraðsdóms að skilyrðum samkvæmt a. og b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 væri fullnægt til að verða við kröfu um að X sætti áframhaldandi gæsluvarðhaldi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. mars 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 1. apríl nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdómara verður fallist á að enn séu skilyrði til að beita gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila á grundvelli a. og b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Er gæsluvarðhaldinu markaður hæfilegur tími með hinum kærða úrskurði. Verður hann því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 1999.

Ár 1999, fimmtudaginn 18. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Sigríði Ingvarsdóttur héraðs­dómara kveðinn upp úrskurður þessi:

Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess með vísan til a. og b. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að X verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 1. apríl nk. kl. 16.00.

[...]

Ríkislögreglustjóri kveður kærða vera gefin að sök brot gegn 155. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en við þeim brotum geti legið allt að 8 ára fangelsi. Séu því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Niðurstaða.

Með fyrri úrskurðum dómsins frá 23. febrúar sl., sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 1. mars sl., og frá 5. mars sl., en sá úrskurður var staðfestur með dómi Hæstaréttar 11. mars sl., hefur kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi frá 23. febrúar til kl. 16 í dag samkvæmt a. og b. liðum 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Með vísan til þess sem fram hefur komið í fyrirliggjandi gögnum um meint brot kærða, er ljóst að rannsókn málsins er ekki lokið. Þá verður að telja að fyrir liggi að kærði muni torvelda rannsókn málsins verði honum ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi á þessu stigi rannsóknarinnar.

Kærði var á leið úr landi þegar hann var handtekinn vegna gruns um þau brot, sem sæta rannsókn af hálfu ríkislögreglustjóra eins og að framan er lýst, en brot þessi geta varðað allt að 8 ára fangelsisrefsingu.

Með vísan til þessa þykja uppfyllt skilyrði a. og b. liða 103. gr. laga um meðferð opinberra mála fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi eins og krafist er og ber því að taka kröfu ríkislögreglustjóra til greina. Ekki þykir við eiga að beita farbanni eða að kærði haldi frelsi gegn því að hann setji tryggingu.

Úrskurðarorð:

Kærði X sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 1. apríl nk. kl. 16.00.