Hæstiréttur íslands

Mál nr. 507/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


                                                         

Fimmtudaginn 26. ágúst 2010.

Nr. 507/2010.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

A

B

C og

D

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

Kærumál. Hæfi dómara.

Ekki var fallist á kröfu X o.fl. um að dómari í sakamáli viki sæti á grundvelli g. liðar 1. mgr.  6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 20. ágúst 2010, sem barst réttinum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. ágúst 2010 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að Pétur Guðgeirsson héraðsdómari viki sæti í máli, sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðilum og fimm öðrum mönnum. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að dómarinn víki sæti í málinu. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. ágúst 2010.

Verjandi A, B, C og D hefur í þinghaldi 17. ágúst sl. krafist þess að dómarinn í málinu víki sæti í því með vísan til g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008.  Krafan er rökstudd með því að dómarinn í málinu hafi með því að hafa lögreglu í dómhúsinu þegar þingað hefur verið í því verið „nánast fyrirfram að lýsa yfir sekt á hendur“ ákærðu og komið með því í veg fyrir að þeir njóti „réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, eins og þeim er áskilinn í stjórnarskrá“.  Verjendur annarra ákærðu hafa ekki tekið afstöðu til kröfunnar en henni hefur ákæruvaldið mótmælt svo og réttargæslumaður bótakrefjandans. 

Miðvikudaginn 14. apríl sl. fór fram málflutningur um frávísunarkröfu verjanda tveggja ákærðu í sal 101, stærsta dómsal Dómhússins við Lækjartorg.  Allir stólar í salnum voru setnir og jafnframt stóð þétt þvaga fólks frá dyrum og inn að véböndum og víðar um salinn.  Þá sátu sumir á gólfinu.  Úr þessari þvögu sást að steyttur var hnefi að dómaranum, eins og einnig mátti sjá á ljósmynd í einu blaðanna daginn eftir.  Margir viðstaddra létu í sér heyra undir málflutningnum, aðallega til þess að fagna orðum verjandans en einnig til þess að láta í ljósi andúð á málflutningi saksóknarans, sem mátti láta sér lynda að hafa þvöguna þétt að baki sér þegar hann flutti mál sitt.  Skoraði dómarinn á fólkið að hafa hljótt um sig en því var lítt sinnt.  Gengið er um þrennar dyr á þessum sal, sem allar opnast inn.  Þar af eru tvennar dyrnar læstar með rafsegullás.  Lítur dómarinn svo á að hann hafi ekki haft fulla stjórn þinghaldinu við þessar aðstæður og að mönnum hafi jafnvel ekki verið óhætt í salnum.  Þá er ljóst að við þær átti sækjandinn undir högg að sækja.  Eftir þetta hefur dómarinn ákveðið, með heimild í 3. mgr. 10. gr. laga um meðferð sakamála, að takmarka aðgang að dómsal 101, þar sem þingað hefur verið í málinu, við þann fjölda manna sem þar rúmast með góðu móti eða jafnmarga og sætin eru.  Þá hefur hann með heimild í 10. gr. laga um meðferð sakamála og 1. gr. lögreglulaga nr. 90, 1996 óskað eftir nærveru lögreglu í húsinu þegar þingað hefur verið í málinu til þess að tryggja þingfrið og öryggi manna.  Hefur enda komið í ljós að full þörf hefur verið á nærveru og aðstoð lögreglunnar vegna manna sem ekki hafa farið að settum reglum og fyrirmælum dómarans.  Dómarinn hefur haft samráð við dómstjóra héraðsdóms Reykjavíkur um þessa ráðstöfun, að svo miklu leyti sem hún er til þess fallin að hafa áhrif á aðra starfsemi dómstólsins. 

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um meðferð sakamála stýrir dómari þinghaldi og gætir þess að það sé háð eftir réttum reglum.  Þá eru í 10. gr. sömu laga ákvæði um þingfrið og til hverra ráða dómara sé rétt að grípa til þess að tryggja hann, þar á meðal til lögregluvalds.  Samkvæmt 1. gr. lögreglulaga er það m.a. hlutverk lögreglu að gæta almannaöryggis, halda uppi lögum og reglu og leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna.  Þá segir þar ennfremur að það sé hlutverk lögreglunnar að starfa í samvinnu við stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu. 

Ákvörðun dómarans um að hafa lögreglu tiltæka í dómhúsinu er ekki beint gegn ákærðu í málinu heldur miðar hún að því að tryggja frið og reglu í þinghöldunum og þar með að því að gæta réttar og hagsmuna allra málsaðila.  Verður ekki séð að dómarinn hafi með þessari ákvörðun sinni fyrirfram lýst yfir sekt á hendur ákærðu eða komið með henni í veg fyrir það að þeir njóti réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.  Ber að synja kröfu ákærðu um það að dómarinn í málinu víki sæti í því.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Synjað er kröfu ákærðu A, B, C og D um það að dómarinn í málinu, Pétur Guðgeirsson héraðsdómari, víki sæti í því.