Hæstiréttur íslands

Mál nr. 297/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns


                                                                                                                          

Mánudaginn 6. maí 2013.

Nr. 297/2013.

Ákæruvaldið

(Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

X

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

Kærumál. Framsal sakamanns.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráðherra um framsal X til Póllands var staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. apríl 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2013 þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðherra 20. desember 2012 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara „að hinn kærði úrskurður verði bundinn því skilyrði að tryggður sé að réttur varnaraðila skv. 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sé virtur“. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði óskuðu pólsk dómsmálayfirvöld eftir því að varnaraðili yrði framseldur til Póllands, annars vegar til fullnustu fangelsisrefsingar samkvæmt dómi pólsks dómstóls 6. júlí 2011 og hins vegar vegna gruns um refsiverða háttsemi sem varnaraðili hefur verið ákærður fyrir. Um er að ræða brot sem varðað geta við nánar tilgreind ákvæði pólskra hegningarlaga, sambærileg 2. mgr. 218. gr., 175. gr. a., 4. mgr. 220. gr., 252. gr., sbr. 20. gr., og 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er framsal á manni því aðeins heimilt að verknaður eða sambærilegur verknaður geti varðað fangelsi í meira en eitt ár samkvæmt íslenskum lögum. Þessu skilyrði framsals er fullnægt varðandi öll ofangreind brot nema brot gegn 234. gr. almennra hegningarlaga, þar sem refsing samkvæmt því ákvæði varðar allt að eins árs fangelsi og getur því ekki orðið lengri en sú refsivist sem vísað er til í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Þá er í 9. gr. sömu laga kveðið svo á um að framsal sé óheimilt ef sök eða dæmd refsing er fyrnd eða að öðru leyti fallin niður samkvæmt íslenskum lögum. Ætlað brot varnaraðila gegn 175. gr. a. almennra hegningarlaga er sagt hafa verið framið á tímabilinu frá 1998 til 14. nóvember 2000 og ætlað brot hans gegn 4. mgr. 220 gr. laganna hinn 7. september 2000, en brot þessi geta varðað allt að fjögurra ára fangelsi. Samkvæmt gögnum málsins virðist málsmeðferð vegna þessara brota hafa byrjað á árinu 2010, en þá voru brotin þegar fyrnd, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er sú niðurstaða hans staðfest að mat innanríkisráðherra á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984 verði ekki endurskoðað, enda engar líkur að því leiddar að það mat hafi ekki farið fram með réttum og málefnalegum hætti.

Samkvæmt framangreindu er skilyrðum laga nr. 13/1984 til framsals fullnægt varðandi ætlað brot varnaraðila gegn 2. mgr. 218. gr. og 252. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga. Þá eru einnig uppfyllt skilyrði 1. töluliðs 3. mgr. 3. gr. laga 13/1984 um framsal til fullnustu á fyrrgreindum dómi hins pólska dómstóls 6. júlí 2006. Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 12. febrúar 2013 í máli nr. 68/2013 ber íslenskum stjórnvöldum að setja dómsmálayfirvöldum í því erlenda ríki sem krafist hefur framsals þau skilyrði sem greinir í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1984.

Að ofangreindu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti sem ákveðin verður eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

          Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Björns Þorra Viktorssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2013.

I

Málið barst dóminum 12. febrúar síðastliðinn og var þingfest 20. sama mánaðar.  Það var tekið til úrskurðar 22. apríl síðastliðinn.

Sóknaraðili er ríkissaksóknari.

Varnaraðili er X, kennitala [...]-[...],[...],[...].

 Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 20. desember síðastliðinn um að framselja varnaraðila til Póllands.

Varnaraðili krefst þess að því verði hafnað að framselja hann til Póllands og að þóknun réttargæslumanns síns verði greidd úr ríkissjóði.

II

Í greinargerð ríkissaksóknara er gerð svofelld grein fyrir málavöxtum og lagarökum: „Ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 20. desember 2012 varðar beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, sem er pólskur ríkisborgari, til Póllands hvort tveggja til fullnustu fangelsisrefsingar og til meðferðar sakamáls. Samkvæmt framsalsbeiðninni, dags. 27. júní 2012, og meðfylgjandi gögnum er um að ræða eftirfarandi dóm og sakamál:

  1. Fullnusta fangelsisrefsingar samkvæmt dómi dómstólsins þann 6. júlí 2011 í máli II K 14/11, þar sem refsing samkvæmt tveimur fyrri dómum var dæmd, samanlagt sex ára og þriggja mánaða fangelsi. Óafplánaðar eftirstöðvar eru tvö ár, átta mánuðir og 29 dagar. Fram kemur að varnaraðili hafi annars vegar verið sakfelldur þann 11. júlí 2006 fyrir þátttöku í stórfelldri líkamsárás, sem hafi átt sér stað þann 7. nóvember 2000, þar sem skotvopn voru notuð og tveir menn skotnir, með þeim afleiðingum að annar þeirra lést en hinn hlaut lífshættulega áverka. Hins vegar hafi hann verið sakfelldur þann 18. janúar 2010 fyrir þátttöku í skipulögðum brotasamtökum og viðskiptum með a.m.k. 4 kg af amfetamíni á árinu 2000. Var háttsemi hans heimfærð undir 1. og 3. mgr. 158. gr., sbr. 2. mgr. 11. gr. pólsku hegningarlaganna og 3. mgr. sbr. 1. mgr. 56. gr. pólsku fíkniefnalaganna, sbr. 12 og 1. mgr. 65. gr. pólsku hegningarlaganna.
  2. Grunur um refsiverða háttsemi, sbr. máls dómstólsins nr. II K 39/10. Fram kemur að varnaraðili hafi verið ákærður fyrir:

1)       Þátttöku í skipulögðum brotasamtökum, á tímabili frá 1998 til 14. nóvember 2000, og hafi markmið samtakanna verið að fremja brot gegn lífi, heilsu og eignum, þ.e. brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 258. gr. pólsku hegningarlaganna.

2)       Þátttöku í skotbardaga, þann 7. september 2000, í félagi við aðra og í skipulagðri brotastarfsemi, og þannig stofnað lífi og heilsu annarra manna í hættu, þ.e. brot gegn 159. gr., sbr. 1. mgr. 65. gr. pólsku hegningarlaganna.

3)       Líkamsárás, þann 18. október 2000, í félagi við aðra og í skipulagðri brotastarfsemi, með því að hafa veist með ofbeldi, með hættulegum áhöldum og skotvopnum að sex nafngreindum mönnum, með þeim afleiðingum að brotaþolar hlutu alvarlega áverka, sem nánar er lýst, þ.e. brot gegn 159. gr., sbr. 1. mgr. 65 gr. pólsku hegningarlaganna.

4)       Líkamsárás, þann 28. október 2000, í félagi við aðra og í skipulagðri brotastarfsemi, með því að hafa veist að nafngreindum manni með ofbeldi og var hnífur notaður í árásinni, með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut fjölda stungusára og var hann hætt komin, þ.e. brot gegn 159. gr., sbr. 2. mgr. 158. gr. og 2. tölulið 1. mgr. 156. gr., sbr. 2. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 65. gr. pólsku hegningarlaganna.

5)       Tilraun til ráns, þann 23. júní 2000 í félagi við aðra, í skipulagðri brotastarfsemi, reynt að hafa af brotaþola 3 PLN og var vinstra eyra skorið af brotaþola í árásinni, með varanlegum afleiðingum, en brotaþoli komst undan, þ.e. brot gegn 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 280. gr. og 2. tl. 1. mgr. 156. gr., sbr. 2. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 65. gr. pólsku hegningarlaganna,

6)       Ærumeiðingar í garð opinbers starfsmanns, þann 26. janúar 2006, með ærumeiðandi ummælum í garð fangavarðar sem var við skyldustörf, þ.e. brot gegn 1. mgr. 226 gr. pólsku hegningarlaganna.

7)       Ærumeiðingar í garð opinbers starfsmanns, þann 27. janúar 2006, með ærumeiðandi ummælum í garð sjö fangavarða, sem voru við skyldustörf, þ.e. brot gegn 1. mgr. 226. gr. pólsku hegningarlaganna.

Varnaraðila var kynnt framsalsbeiðnin hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 16. júlí 2012. Aðspurður kvað hann beiðnina eiga við sig en mótmælti framsali.

Ríkissaksóknari sendi innanríkisráðuneytinu gögn málsins ásamt álitsgerð varðandi lagaskilyrði framsals, dags. 4. október 2012. Voru skilyrði laga nr. 13/1984 talin uppfyllt, bæði að því er varðaði fullnustu á fangelsisrefsingunni samkvæmt dómi í máli nr. II K 14/11, og til meðferðar sakamálsins nr. II K 39/10, sbr. einkum 1., 2. og 3. mgr. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 13/1984.

Sem fyrr greinir tók innanríkisráðuneytið ákvörðun í máli þessu með bréfi dags. 20. desember 2012. Að mati ráðuneytisins þóttu ekki nægjanlegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli mannúðarákvæðis 7. gr. framsalslaganna nr. 13/1984. Þá varð ekki séð að varnaraðili myndi hljóta ósanngjarna málsmeðferð og óviðunandi fangelsisrefsingu, yrði hann framseldur til Póllands, og gátu málsástæður hans er að þessu lutu ekki leitt til synjunar framsals á grundvelli nefndrar 7. gr. laganna. Féllst ráðuneytið á beiðni pólskra yfirvalda um framsal.

Ákvörðun ráðuneytisins var kynnt varnaraðila þann 11. janúar sl. hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Sama dag barst ríkissaksóknara bréf varnaraðila um kröfu hans um úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.

Um skilyrði framsals samkvæmt I. og II. kafla laga nr. 13/1984 er vísað til áðurnefndar álitsgerðar ríkissaksóknara frá 4. október sl. og ákvörðunar innanríkisráðuneytisins frá 20. desember sl.“ 

III

Varnaraðili skýrir svo frá málavöxtum að hann hafi dvalist á Íslandi frá hausti 2010 og stundað vinnu. Hann hafi staðið sig vel og ekki komist í kast við lögin. Hann kveðst hafa stofnað hér heimili með unnustu sinni og ætli þau sér að setjast að hér á landi. 

Í greinargerð sinni ber varnaraðili ekki brigður á þau gögn sem ákæruvaldið hefur lagt fram og eru grundvöllur framsalsbeiðninnar. Hann heldur því hins vegar fram að hann hafi sætt miklu harðræði í afplánuninni í Póllandi og óttist hann að sæta svipaðri meðferð verði hann framseldur. Vísar hann til 9. gr. laga nr. 13/1984 og bendir á að innanríkisráðuneytið hafi ekki kannað þetta heldur byggt á mati pólskra yfirvalda. Þá byggir varnaraðili á því að ráðuneytinu hafi borið að binda framsalið skilyrðum um að mannréttindi hans yrðu virt eins og Ísland hafi skuldbundið sig til samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum og eins og boðið er í 11. gr. nefndra laga. Kveðst hann hafa vakið ítarlega athygli á þessu á fyrri stigum málsins án árangurs. Þetta hafi ekki verið gert og valdi það því að fella verði ákvörðunina úr gildi.

Varnaraðili byggir á því að hagsmunir hans og unnustu hans af því að hann verði ekki framseldur séu ríkari en pólska ríkisins af því að fá hann framseldan. Varðandi þetta vísar hann til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/ 1993.

IV

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimilt að framselja mann ef hann er í erlendu ríki grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Þær upplýsingar og gögn sem kveðið er á um í 12. gr. laganna að fylgja skuli framsalsbeiðni eru öll til staðar í máli þessu. 

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er framsal á manni því aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Brot varnaraðila, sem hér um ræðir, varða við 2. mgr. 218. gr., 173. gr. a, 4. mgr. 220. gr., 252. gr., sbr. 20. gr. og 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Refsing fyrir brot gegn þessum greinum geta varðað lengri fangelsisvist en í ákvæðinu greinir. Skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal varnaraðila eru því uppfyllt.  Hér ber þó að hafa í huga að sakir þær sem um getur í liðum 1, 2, 6 og 7 í 2. lið og gerð var grein fyrir í II. kafla hér að framan eru fyrndar að íslenskum lögum. Það stendur þó ekki í vegi fyrir framsali, enda ber innanríkisráðuneytinu að setja skilyrði í þá veru, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna. Þá liggur fyrir ákvörðun af hálfu dómstóls í Póllandi um að varnaraðili skuli afplána refsinguna sem um getur í 1. lið II. kafla og er því einnig uppfyllt skilyrði 2. mgr. 3. gr. laganna. Þá er ekkert það komið fram sem gefur ástæðu til að ætla að einhver þeirra atriða sem um getur í 5. mgr. 3. gr. laganna eigi við.

Varnaraðili byggir á því að það myndi raska stöðu hans verulega ef hann yrði framseldur, eins og rakið var. Þá kveðst hann eiga á hættu á njóta ekki þeirra mannréttinda sem honum ber af hálfu pólskra yfirvalda. Hér að framan var komist að því að skilyrði 3. gr. laga nr. 13/1984 væru uppfyllt og verður þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað. Þá er ekkert það komið fram í málinu sem gefur til kynna að ætla megi að varnaraðili njóti ekki réttlátrar málsmeðferðar í Póllandi. Í framangreindri ákvörðun innanríkisráðherra er tekin rökstudd afstaða til þess hvort mannúðarástæður eigi að leiða til þess að kröfu um framsal verði hafnað.  Í ákvörðuninni er fjallað um þær ástæður, sem varnaraðili telur að við eigi og hvernig þær horfa við samkvæmt skýringu á 7. gr.  Þetta mat ráðherra verður ekki endurskoðað, enda hafa ekki verið leiddar líkur að því að aðstæður varnaraðila hafi ekki verið metnar með réttum og málefnalegum hætti.

Samkvæmt framansögðu er kröfum varnaraðila hafnað og staðfest ákvörðun innanríkisráðherra frá 20. desember 2012 um að framselja hann til Póllands. 

Þóknun réttargæslumanna varnaraðila að meðtöldum virðisaukaskatti skal greidd úr ríkissjóði eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 Ákvörðun innanríkisráðherra frá 20. desember 2012 um að framselja varnaraðila, X, til Póllands, er staðfest.

Þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Björns Þorra Viktorssonar hrl., 251.000 krónur og þóknun réttargæslumanns hans á rannsóknarstigi, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 37.650 krónur, skal greidd úr ríkissjóði.