Hæstiréttur íslands

Mál nr. 313/2010


Lykilorð

  • Tryggingarbréf
  • Veðréttindi
  • Aðfararheimild


Fimmtudaginn 27. janúar 2011.

Nr. 313/2010.

Kerfi fyrirtækjaþjónusta ehf.

(Ólafur Thóroddsen hrl.)

gegn

Lýsingu hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

Tryggingarbréf. Veðréttindi. Aðfararheimild.

K ehf. gaf út tryggingarbréf í desember 2003 þar sem vatnshreinsivél félagsins var veðsett L hf. til tryggingar skilvísum greiðslum á fjárskuldbindingum K ehf. við L hf. Kf ehf. festi kaup á hinni veðsettu vatnshreinsivél í október 2008 en K ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í janúar 2009. L hf. höfðaði mál þetta gegn Kf ehf. til viðurkenningar á því að  allar kröfur L hf. á hendur K ehf. nytu veðréttar í vatnshreinsivélinni á grundvelli tryggingabréfsins og að L hf. yrði heimilað að gera fjárnám í vélinni fyrir kröfum sínum. Deila aðila laut að því hvort tilgreindar kröfur L hf., sem stofnað var til á árunum 2006 og 2007 á hendur K ehf., nytu veðréttar samkvæmt tryggingarbréfinu. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að samkvæmt texta tryggingabréfsins veitti það L hf. meðal annars veðrétt fyrir „tilvonandi skuldum“. Það væri ekki skilyrði fyrir gildi tryggingarinnar að tekið væri fram við stofnun slíkra skuldbindinga að bréfið tæki til þeirra. Var því fallist á kröfur L hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 26. mars 2010, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 12. maí 2010. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 18. maí 2010. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi gaf Kerfi ehf. út tryggingarbréf 3. desember 2003, þar sem „sjálfvirk tölvustýrð vatnshreinsivél ásamt þvottavél og sjálfvirkri áfyllingarvél frá QIDI ELECTRIC GROUP“ var veðsett stefnda „til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum á öllum núverandi og tilvonandi skuldum og fjárskuldbindingum“ veðsala við stefnda. Var hið veðsetta sett „að veði fyrir allt að 7.000.000 krónum“ bundið við vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 229,3 stig. Áfrýjandi festi kaup á hinum veðsettu vélum 24. október 2008, en fyrri eigandi þeirra, veðsalinn Kerfi ehf., var tekinn til gjaldþrotaskipta 16. janúar 2009.  Í málinu er deilt um hvort tilgreindar kröfur stefnda, sem stofnað var til á árunum 2006 og 2007 á hendur veðsalanum, njóti veðtryggingar samkvæmt bréfinu. Stefndi lýsti meðal annars sjö kröfum í þrotabú Kerfis ehf. samtals að fjárhæð 14.891.263 krónur, sem hann krefst staðfestingar á að njóti tryggingar samkvæmt bréfinu. Staðfesti skiptastjóri búsins kröfurnar með þessari fjárhæð 12. júní 2009.

Áfrýjandi byggir kröfu sína um sýknu á því að fjárkrafa, sem stofnað hafi verið til á sama tíma og bréfið var gefið út, sé að fullu greidd og hafi veðtryggingin samkvæmt bréfinu þá fallið niður. Þá er þess getið í hinum áfrýjaða dómi að hann hafi einnig byggt á því að bréfið tryggi ekki skuldir samkvæmt yngri samningum, þar sem ekki sé til þess vísað í þeim. Þessu til viðbótar hefur hann nefnt fyrir Hæstarétti að kröfurnar sem stefndi krefst fullnusturéttar fyrir séu ólögmætar, þar sem þær hafi verið bundnar við gengi erlendra gjaldmiðla. Þessi síðastnefnda málsástæða er of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kemur hún því ekki til úrlausnar í málinu.

Samkvæmt texta sínum veitir tryggingarbréf stefnda meðal annars veðrétt fyrir tilvonandi skuldum, eins og komist er að orði. Það er ekki skilyrði fyrir gildi tryggingarinnar að tekið sé fram við stofnun slíkra skuldbindinga að bréfið taki til þeirra. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir og áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti með þeirri fjárhæð sem ákveðin verður í dómsorði.

Dómsorð:

Staðfest er að tryggingarbréf í eigu stefnda, Lýsingar hf., að fjárhæð 7.000.000 krónur miðað við grunnvísitölu 229,3 stig, sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs, útgefið 3. desember 2003, hvílir með 1. veðrétti á sjálfvirkri tölvustýrðri vatnshreinsivél ásamt þvottavél og sjálfvirkri áfyllingarvél frá Qidi Electric Group, sem nú er í eigu áfrýjanda, Kerfis fyrirtækjaþjónustu ehf., til tryggingar skuldum Kerfis ehf. samkvæmt fjármögnunar- og rekstrarleigusamningum nr. 132123, 139146, 139604, 139816, 539932, 540702 og 540754, sem viðurkenndar voru í þrotabú Kerfis ehf. 12. júní 2009 með 14.891.263 krónum.

Stefnda er heimilt að gera fjárnám inn í veðrétt sinn samkvæmt bréfinu fyrir framangreindum kröfum sínum.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 2. mars 2010

I.

                Mál þetta, sem dómtekið var 3. febrúar 2010, er höfðað með stefnu birtri 19. júní 2009 af Lýsingu hf., Suðurlandsbraut 22, Reykjavík, á hendur Kerfi fyrirtækjaþjónustu ehf., Birkiási 27, Garðabæ.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að staðfest verði með dómi að tryggingarbréf í eigu stefnanda að fjárhæð 7.000.000 krónur, miðað við grunnvísitölu 229,3 stig, sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs, útgefið 3. desember 2003, er hvílir á 1. veðrétti sjálfvirkrar tölvustýrðrar vatnshreinsivélar ásamt þvottavél og sjálfvirkri áfyllingarvél frá Qidi Electric Group, sem er nú í eigu stefnda, Kerfis fyrirtækjaþjónustu ehf., standi til tryggingar skuldum Kerfis ehf., kt. 440402-3050, samkvæmt fjármögnunar- og rekstrarleigusamningum nr. 132123, 139146, 139604, 139816, 539932, 540702 og 540754, að fjárhæð 14.891.263 krónur við stefnanda.

Þá er þess krafist að viðurkennt sé að tryggingabréfið standi til tryggingar framangreindum kröfum að því leyti sem það nær og að stefnandi eigi rétt á að gera fjárnám í hinni veðsettu vél fyrir kröfum að fjárhæð 14.891.263 krónur til lúkningar kröfum sínum á hendur Kerfi ehf.

Þá gerir stefnandi þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

                Stefndi krefst sýknu að kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.

II.

Málavextir eru þeir helstir að þann 3. desember 2003 gaf Kerfi ehf. út tryggingarbréf til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum á öllum þáverandi og tilvonandi skuldum og fjárskuldbindingum félagsins við stefnanda, allt að fjárhæð 7.000.000 króna miðað við vísitölu neysluverðs 229.3 stig. Veðandlagið var sjálfvirk tölvustýrð vatnshreinsivél ásamt þvottavél og sjálfvirkri áfyllingarvél frá Qidi Electric Group. Tryggingarbréfinu var þinglýst 9. desember 2003 hjá sýslumanninum í Hafnarfirði. Þann 24. október 2008 gerðu stefndi og Kerfi ehf. með sér kaupsamning um sölu reksturs Kerfis ehf. ásamt öllu tilheyrandi lausafé til stefnda. Í grein 1.2. í kaupsamningnum kemur fram að kaupanda sé kunnugt um að seljandi hafi veðsett Lýsingu hf. sjálfvirka tölvustýrða vatnshreinsivél ásamt þvottavél og sjálfvirkri áfyllingarvél frá Qidi Electric Group, sem sé hluti hins selda lausafjár. Þá kemur þar fram að kaupverðið lækki um 2.500.000 krónur ef Lýsing hf. gangi að veðinu samkvæmt heimild í tryggingarbréfinu.

Þann 16. janúar 2009 var bú Kerfis ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Stefnandi gerði kröfulýsingu að fjárhæð 61.033.811 krónur vegna ýmissa fjármögnunarleigusamninga, sem í gildi voru milli Kerfis ehf. og stefnanda. Krafa stefnanda í þrotabúið var samþykkt af hálfu skiptastjóra.

Stefnandi krefst í máli þessu viðurkenningar á því að honum sé heimilt að gera fjárnám í umræddri vatnshreinsivél á grundvelli tryggingarbréfsins vegna krafna sem risið hafi út af eftirfarandi samningum stefnanda og Kerfis ehf.:

1.                   Fjármögnunarleigusamningur nr. 132123, dagsettur 6. mars 2006, vegna bifreiðar með fastanúmer ZP102. Höfuðstóll skuldar er 1.629.599 krónur.

2.                   Fjármögnunarleigusamningur nr. 139146, dagsettur 2. febrúar 2007, vegna bifreiðar með fastanúmer RF572. Höfuðstóll skuldar er 1.834.682 krónur .

3.                   Fjármögnunarleigusamningur nr. 139604, dagsettur 28. febrúar 2007, vegna bifreiðar með fastanúmer HU064. Höfuðstóll skuldarinnar er 3.478.100 krónur.

4.                   Fjármögnunarleigusamningur nr. 139816, dagsettur 14. mars 2007, vegna bifreiðar með fastanúmer LP664. Höfuðstóll skuldarinnar er 1.876.915 krónur.

5.                   Rekstrarleigusamningur nr. 539932, dagsettur 12. apríl 2007, vegna bifreiðar með fastanúmer AF498. Höfuðstóll skuldarinnar er 1.262.506 krónur.

6.                   Rekstrarleigusamningur nr. 540702, dagsettur 8. ágúst 2007, vegna bifreiðar með fastanúmer VJT99. Höfuðstóll skuldarinnar er 605026 krónur.   

7.                   Rekstrarleigusamningur nr. 540754, dagsettur 17. ágúst 2007, vegna bifreiðar með fastanúmer PH491. Höfuðstóll skuldarinnar er 4.204.435 krónur.

Stefnandi kveður skuld Kerfis ehf. við stefnanda vegna ofangreindra samninga standa í 14.891.263 krónum auk dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Skipastjóri í þrotabúi Kerfis ehf. hefur staðfest fjárhæð skuldar samkvæmt samningunum. Af hálfu stefnda er á því byggt að lán samkvæmt framangreindu tryggingarbréfi hafi verið greitt upp að fullu á árinu 2005. 

III.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að allar kröfur stefnanda á hendur Kerfi ehf. njóti veðréttar í umræddri vatnshreinsivél á grundvelli tryggingarbréfsins. Kerfi ehf. skuldi stefnanda meira en sem nemur hámarki tryggingarbréfsins og því eigi að staðfesta veðréttinn og heimila stefnanda að gera fjárnám í vélinni fyrir kröfum sínum.

Stefndi hafi þegar viðurkennt veðrétt stefnanda en sérstaklega sé tekið fram í kaupsamningi stefnda og Kerfis ehf. að stefnandi eigi þennan veðrétt í vélinni og geti gengið að henni til fullnustu á kröfum sínum á hendur Kerfi ehf. Kerfi ehf., sem sé skuldari samkvæmt tryggingarbréfinu, sé gjaldþrota en dómsmál verði almennt ekki höfðað í héraði gegn þrotabúi, sbr. 116. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., heldur skuli lýsa kröfunni fyrir skiptastjóra, sbr. 117. gr. sömu laga. Skiptastjóri þrotabús Kerfis ehf. hafi nú þegar viðurkennt að Kerfi ehf. skuldi stefnanda 14.891.263 krónur vegna umræddra samninga. Ekki hafi tekist að leysa úr ágreiningi aðila vegna þessa máls og sé því málshöfðun nauðsynleg svo stefnandi geti fengið fullnustu kröfu sinnar í umræddri vatnshreinsivél.

Stefnandi vísar kröfum sínum til stuðnings til meginreglna samninga- og kröfuréttar auk meginreglna veðréttar um heimildir til veðsetningar. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991.    

IV.

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að lán samkvæmt framangreindu tryggingarbréfi hafi verið greitt upp að fullu á árinu 2005. Þegar lánið hafði verið greitt upp, hefði stefnanda borið að aflýsa láninu af átöppunarvélinni. Það hefði hann hins vegar ekki gert og eftir efnahagshrunið og í kjölfarið forsendubrest fyrir gildi allra gjaldeyrislánasamninga, hefði stefnandi reynt að nota þetta gamla uppgreidda bréf til þess að fá enn frekar upp í uppskrúfaðar og forsendulausar kröfur sem séu tilkomnar vegna bílasamninga. Því sé alfarið mótmælt að tryggingarbréfið standi fyrir bílasamningunum og bendir stefndi á að bréfið hafi verið uppgreitt áður en til þeirra var stofnað og ekki sé með neinum hætti vísað í bréfið í bílasamningunum.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna kröfuréttar. Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V.

                Samkvæmt framlögðu tryggingarbréfi dagsettu 3. desember 2003 setti Kerfi ehf. stefnanda að veði sjálfvirka tölvustýrða vatnshreinsivél ásamt þvottavél og sjálfvirkri áfyllingarvél frá Qidi Electronic Group til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum á öllum núverandi og tilvonandi skuldum og fjárskuldbindingum við stefnanda allt að 7.000.000 krónum. Jafnframt er tekið fram í tryggingarbréfinu að falli skuld, sem þetta veðbréf tryggi, í gjalddaga og eindaga að einhverjum þeim ástæðum, sem nánar eru tilgreindar í bréfinu, sé stefnanda sem kröfuhafa og veðhafa þessa tryggingarbréfs, heimilt að höfð mál á hendur skuldara og þinglýstum eiganda til staðfestingar á veðréttinum fyrir skuldinni. Tryggingarbréfinu var þinglýst 9. desember 2003.

                Með kaupsamningi dagsettum 24. október 2008 keypti stefndi, sem þá hét Mína ehf., af Kerfi ehf. allan rekstur félagsins ásamt öllu tilheyrandi lausafé. Tekið er fram í samningnum að stefnda sé kunnugt um að Kerfi ehf. hafi veðsett Lýsingu hf. sjálfvirka tölvustýrða vatnshreinsivél ásamt þvottavél og sjálfvirkri áfyllingarvél frá Qidi Electric Group, sem sé hluti hins selda lausafjár, með vísitölubundnu tryggingarbréfi að fjárhæð 7.000.000 króna. Er síðan tilgreint að kaupverð lækki ef Lýsing hf. gengur að veðinu með heimild í tryggingarbréfinu. Er því ljóst að stefnda hefur frá upphafi verið ljóst að framangreindir munir voru settir stefnanda að veði.               

Af hálfu stefnda hefur því ekki verið mótmælt að Kerfi ehf. skuldi stefnanda eins og stefnandi heldur fram. Þá liggur fyrir í málinu að skiptastjóri í þrotabúi Kerfis ehf. hefur viðurkennt kröfu stefnanda í búið að fjárhæð 14.891.263 vegna þeirra sjö fjármögnunar- og rekstrarleigusamninga sem stefnandi hefur tilgreint í kröfugerð sinni.

Með framangreindum kaupsamningi yfirtók stefndi skyldur Kerfis ehf. samkvæmt framangreindu tryggingarbréfi og er ekki um það deilt í málinu. Hins vegar byggir stefndi sýknukröfu sína á því að þær skuldir, sem bréfið tryggir, hafi allar verið greiddar upp að fullu á árinu 2005 og vísaði við munnlegan málflutning til dómskjala nr. 14 og 15 því til sönnunar. Á dómskjali nr. 14 kemur fram að þann 16. október 2007 hafi skuldir samkvæmt þar til greindum skjölum verið greiddar að fullu. Þegar litið er til orðalags tryggingarbréfsins verður hins vegar ekki fallist á með stefnda að tilgreint veðandlag hafi eingöngu verið sett til tryggingar þeim greiðslum enda segir þar að veðið standi til tryggingar öllum núverandi og tilvonandi skuldum og fjárskuldbindingum Kerfis ehf. við stefnanda þessa máls. Verður því ekki fallist á það með stefnda að skuld samkvæmt tryggingarbréfinu hafi verið uppgreidd á árinu 2005 en eins og áður er rakið liggur fyrir að Kerfi ehf. stendur enn í skuld við stefnanda. Er því fallist á það með stefnanda að framangreint tryggingarbréf standi til tryggingar skuldum Kerfis ehf. við stefnanda að fjárhæð 7.000.000 króna.

Þau sjónarmið stefnda um að stefnandi hafi við samningu tryggingarbréfsins notið yfirburðarstöðu gagnvart stefnda, hagga ekki þessari niðurstöðu. Þá eru ósannaðar fullyrðingar stefnda, sem fram komu við munnlegan flutning málsins, um að útreikningar stefnanda séu ólöglegir og að verðmat á bifreiðum þeim, sem framangreindir fjármögnunar- og rekstrarleigusamningar snúast um, hafi verið allt of lágt.

                Að öllu framanrituðu virtu verður fallist á kröfur stefnanda og staðfest að tryggingarbréf í eigu stefnanda að fjárhæð 7.000.000 krónur, útgefið 3. desember 2003, er hvílir á 1. veðrétti sjálfvirkrar tölvustýrðrar vatnshreinsivélar ásamt þvottavél og sjálfvirkri áfyllingarvél frá Qidi Electric Group, sem er nú í eigu stefnda, standi til tryggingar skuldum Kerfis ehf., kt. 440402-3050, samkvæmt fjármögnunar- og rekstrarleigusamningum nr. 132123, 139146, 139604, 139816, 539932, 540702 og 540754, að fjárhæð 14.891.263 krónur við stefnanda. Þá ber að viðurkenna að tryggingabréfið standi til tryggingar framangreindum kröfum að því leyti sem það nær og að stefnandi eigi rétt á að gera fjárnám í hinni veðsettu vél fyrir kröfum að fjárhæð 14.891.263 krónur til lúkningar kröfum sínum á hendur Kerfi ehf.

Í samræmi við meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 325.000 krónur.

Arnfríður Einarsdóttir kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Staðfest er að tryggingarbréf í eigu stefnanda, Lýsingar hf., að fjárhæð 7.000.000 krónur, miðað við grunnvísitölu 229,3 stig, sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs, útgefið 3. desember 2003, sem hvílir á 1. veðrétti sjálfvirkrar tölvustýrðrar vatnshreinsivélar ásamt þvottavél og sjálfvirkri áfyllingarvél frá Qidi Electric Group, sem er nú í eigu stefnda, Kerfis fyrirtækjaþjónustu ehf., stendur til tryggingar skuldum Kerfis ehf., kt. 440402-3050, samkvæmt fjármögnunar- og rekstrarleigusamningum nr. 132123, 139146, 139604, 139816, 539932, 540702 og 540754, að fjárhæð 14.891.263 krónur við stefnanda.

Viðurkennt er að tryggingabréfið stendur til tryggingar framangreindum kröfum að því leyti sem það nær og að stefnandi á rétt á að gera fjárnám í hinni veðsettu vél fyrir kröfum að fjárhæð 14.891.263 krónur til lúkningar kröfum sínum á hendur Kerfi ehf.

Stefndi greiði stefnanda 325.000 krónur í málskostnað.