Hæstiréttur íslands
Mál nr. 169/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Frestur
- Gagnaöflun
- Aðalmeðferð
|
|
Mánudaginn 3. maí 1999. |
|
Nr. 169/1999. |
Ákæruvaldið (Egill Stephensen saksóknari) gegn Júlíusi Hjaltasyni (Guðni Á. Haraldsson hrl.) |
Kærumál. Frestun. Gagnaöflun. Aðalmeðferð.
Talið var að ekki hefði verið sýnt fram á viðhlítandi rök fyrir því að fresta hefði átt áður ákveðinni aðalmeðferð opinbers máls. Var úrskurður héraðsdómara um að fresta aðalmeðferð málsins felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka það til aðalmeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. apríl 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 1999, þar sem aðalmeðferð máls sóknaraðila á hendur varnaraðila var frestað til 21. maí 1999. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til aðalmeðferðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Ákæra í máli þessu var gefin út 29. september 1998 og málið þingfest 12. október sama ár. Í því þinghaldi var málinu frestað að ósk ákærða, án þess að endurrit úr þingbók beri með sér að ákveðið hafi verið nýtt þinghald til fyrirtöku málsins. Málið var tekið fyrir að nýju 5. nóvember sama árs og þá frestað ótiltekið, þar sem farist hafði fyrir að boða varnaraðila til þinghaldsins. Málið var tekið fyrir 11. sama mánaðar og gaf þá norskur sérfræðingur skýrslu fyrir dómi um tæki það, sem notað var við mælingu á vínandamagni í útöndunarlofti. Að því búnu var málinu frestað ótiltekið eftir að verjandi hafði óskað frekari frests til að afla gagna. Málið var næst tekið fyrir 31. mars 1999. Var þá ákveðin aðalmeðferð 19. apríl sama ár. Í þinghaldi þann dag var kveðinn upp hinn kærði úrskurður um að aðalmeðferð málsins skyldi frestað vegna gagnaöflunar af hálfu sóknaraðila.
Gagnaöflun varnaraðila í málinu hefur lotið að vafa hans um áreiðanleika þess tækis, sem notað var til þess að mæla vínandamagn í lofti, sem ökumaður andar frá sér, vegna áhrifa rafsegulbylgna á tækið frá öðrum tækjum. Sóknaraðili heldur því þó ekki fram að þau gögn, sem lögð voru fram af hálfu varnaraðila í þinghaldinu 31. mars 1999, hafi gefið tilefni til frekari gagnaöflunar, enda liggur ekki annað fyrir en að hann hafi í því þinghaldi lýst henni lokið. Hins vegar telur hann að dómur Hæstaréttar 18. mars 1999 í máli nr. 482/1998, þar sem til álita komu áhrif leysiefna í útöndunarlofti ökumanns á vínandamælingar með umræddu tæki, hafi verið slíkt tilefni til gagnaöflunar í þessu máli að dómara hafi verið rétt að fresta aðalmeðferð af þeim sökum. Að virtum þeim gögnum, sem varnaraðili hefur lagt fram, og hann hyggst reisa varnir sínar á, hefur ekki verið skýrt hvernig nefndur dómur Hæstaréttar geti skipt slíku máli fyrir þau atvik, sem hér um ræðir, að réttlætt hafi frestun aðalmeðferðar, er þá hafði verið ákveðin án athugasemda af hálfu sóknaraðila.
Samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 skal hraða meðferð máls eftir föngum. Að virtum gangi málsins í héraði er ljóst að meðferð þess dróst umfram það, sem telja verður að aðilum hafi verið nauðsynlegt til þess að taka afstöðu til málatilbúnaðar hvors annars og frekari gagnaöflunar. Þá hefur sóknaraðili ekki fært fram viðhlítandi rök fyrir beiðni sinni um að fresta aðalmeðferð málsins. Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til aðalmeðferðar.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til aðalmeðferðar.