Hæstiréttur íslands
Mál nr. 383/2008
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 4. desember 2008. |
|
Nr. 383/2008. |
Ákæruvaldið(Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari) gegn Robert Dariusz Sobiecki (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Skaðabætur. Sératkvæði.
R var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa þröngvað A til samræðis og annarra kynferðismaka á salerni hótelsins S. Í málinu lá fyrir að R og A þekktust ekki og höfðu aldrei hist áður fyrr en A spurði R og félaga hans skömmu fyrir atburðinn hvar salerni væri að finna á hótelinu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af ljósmyndum sem teknar voru úr eftirlitsmyndavélum á hótelinu mætti ráða að ekki hefði getað liðið nema innan við ein mínúta frá því að R og A fóru af 1. hæð hótelsins og þar til A var komin ein inn á salernið í kjallaranum. Yrði því að telja með ólíkindum að á þessum örsakamma tíma hefðu þau samskipti farið fram milli þeirra, sem ákærði hélt fram. Var hafnað staðhæfingu hans um að tengsl hafi myndast þeirra á milli á þessari stuttu stund, sem leitt hafi til þess að A hafi samþykkt að R kæmi með henni inn á kvennasalernið og að í viðmóti hennar hefði falist samþykki við því að eiga við hann kynferðismök. Þá var talið að R hefði verið það fulljóst að A var drukkin og að hann hefði ekki haft réttmæta ástæðu til að ætla að A hefði verið samþykk kynmökum við hann af þeim sökum einum að hún hefði ekki veitt honum líkamlega mótspyrnu á salerninu eða hrópað á hjálp meðan á kynmökunum stóð, en A lýsti því að það hefði stafað af því að hún hefði orðið fyrir miklu áfalli, þegar R ýtti henni inn í salernisklefann, að hún hefði ekki getað brugðist við. Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýja dóms, var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu R staðfest og hann dæmdur í þriggja ára fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 3. júlí 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þyngingar á refsingu og að ákærða verði gert að greiða A 2.000.000 krónur með vöxtum eins og í ákæru greinir.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.
I
Í málinu er ákærða gefin að sök nauðgun aðfaranótt 17. mars 2007, eins og nánar greinir í ákæru, og að hafa þannig brotið gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Svo sem greinir í héraðsdómi var áður felldur dómur á kröfur ákæruvaldsins í máli þessu í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. júlí 2007 og ákærði þá sýknaður. Sá dómur var ómerktur með dómi Hæstaréttar 14. febrúar 2008 í máli nr. 464/2007 og málinu heimvísað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný. Dómur gekk í málinu öðru sinni í héraði 13. júní sl. og var ákærði þá sakfelldur samkvæmt ákæru og gert að sæta fangelsi og greiða A bætur eins og nánar greinir í dóminum.
II
Í forsendum hins áfrýjaða dóms er rakið hvernig fundum ákærða og A bar saman áðurgreinda nótt á Hótel Sögu í Reykjavík, en þau höfðu þá aldrei hist áður og þekktust ekki. Þeim ber saman um að þetta hafi gerst þegar A hafi spurt ákærða og félaga hans hvar salerni væri að finna og ákærði orðið fyrir svörum. Í skýrslu fyrir héraðsdómi skýrði ákærði nánar frá þessu á þann veg að þeir hafi staðið á ganginum við stiga á 2. hæð hússins þegar A bar þessa spurningu fram og hann svarað að salernið væri niðri, hún hafi spurt hvar og hann þá sagt henni að fara til hægri þegar hún kæmi niður á 1. hæð. Hann hafi síðan séð að A hafi farið í ranga átt þegar hún var komin niður stigann og hann þá farið á eftir henni til að beina henni rétta leið. Samkvæmt frásögn ákærða höfðu ekki orðið frekari orðaskipti milli þeirra þegar hér var komið sögu. Þau hafi síðan orðið samferða niður stigann frá 1. hæð til kjallara og rætt saman á þeirri leið. Hann hafi þá fengið sopa af drykk, sem hún hafi verið með, þau talað mikið saman og hún meðal annars spurt hversu gamall hann væri og hvar hann byggi og hann spurt hana sömu spurninga. Þegar þau hafi verið komin að salerninu hafi hann spurt hvort hann mætti fara inn með henni og hún samþykkt það. Fyrir dómi kvaðst A á hinn bóginn hafa fyrst hitt ákærða og félaga hans á 1. hæð hússins, þar sem hann hafi sagt henni að salerni væri í kjallara. Hann hafi boðist til að fylgja henni þangað, en hún afþakkað það og farið á salernið. Um þessi atvik hafa að nokkru borið tvö vitni. Annað þeirra er kunningi ákærða, E, sem horfði á eftir þeim fara niður stigann, en hitt er G, sem var stödd á salerninu þegar A kom þar inn.
Í málinu liggja fyrir ljósmyndir sem teknar voru á eftirlitsmyndavél á hótelinu á þeim tíma, sem um ræðir. Sýna þær vettvang á 1. hæð, við og umhverfis þann stað þar sem stiginn liggur niður í kjallara, en vélin var þannig stillt að mynd var tekin á tveggja sekúndna fresti. Sést meðal annars þar sem ákærði og A héldu af stað áleiðis niður stigann og tímasetningin 0:30:15 þegar það var. Einnig liggur fyrir mynd þegar vitnið G var komin upp sama stiga, en þá var klukkan 0:31:59. Tíminn sem leið þarna á milli mun því hafa verið ein mínúta og 44 sekúndur. Orðaskipti, sem ákærði kveðst samkvæmt áðursögðu hafa átt við A á leið niður stigann af 1. hæð að salerninu í kjallara, áttu sér þannig stað á því tímaskeiði samkvæmt framburði hans sjálfs, en þó aðeins á fyrri hluta þess. Hversu langt það tímaskeið var má ráða með nokkurri nákvæmni af framburði G er var stödd á salerninu og sá þegar A kom þar inn. Í skýrslu, sem G gaf hjá lögreglu fjórum dögum eftir atburðinn, kvaðst hún hafa staðið við handlaug og stúlka þá komið þar inn þegar hún var taka saman snyrtiáhöld sín. G kvaðst ekki átta sig á því hvort stúlkan hafi farið beint inn í salernisklefa, en sjálf hafi hún farið fljótlega þaðan út. Hún hafi opnað dyrnar fram á gang og hafi þar verið staddur strákur, sem henni hafi fundist ætla að fara inn á salernið. Hún hafi gefið honum til kynna að hann ætti ekki að fara inn á kvennasalerni, gengið síðan í átt að stiganum og séð þá að strákurinn hafi enn staðið fyrir utan það þegar hún hélt upp á 1. hæð. Fyrir dómi bar G á sama veg, en þó þannig að þar lýsti hún því að stúlkan hefði farið rakleitt inn í salernisklefa þegar hún var komin inn á snyrtinguna. Af þessu má slá því föstu að þau samskipti, sem ákærði ber að hann hafi átt við A þar til hún fór inn á salernið, hafi einungis getað staðið yfir innan við eina mínútu.
Við aðalmeðferð málsins sagði ákærði að hann og A hafi haldið utan um hvort annað þegar þau gengu niður stigann og ítrekaði að þau hafi hlegið, talað mikið saman alla leiðina að salerninu og hún boðið honum að drekka af glasi sínu, sem hann hafi þegið. Við fyrri aðalmeðferð málsins kvaðst hann hafa tekið utan um hana vegna þess að hún hafi misstigið sig við fyrsta stigaþrepið. Hann hafi þurft að hjálpa henni svo hún dytti ekki niður stigann og tekið þá eftir að hún væri ölvuð. Við síðari aðalmeðferð kvaðst hann ekki hafa tekið eftir verulegri ölvun hennar fyrr en að loknum samförum inni á salerninu. Vitnið E kvað þau hafa gengið niður stigann samhliða „eins og par“. Þau hafi rætt saman, en hann ekki séð þau snertast. Fyrir dómi taldi A að ákærði hafi ekki gengið niður stigann við hlið sér, heldur á eftir. Þau hafi ekkert ræðst við á leiðinni og hún hvorki leyft honum að koma með henni inn á salernið né gefið á nokkurn hátt til kynna áhuga á að eiga við hann kynferðislegt samneyti. Þá bar vitnið G að A hafi komið ein inn á salernið og ekkert bent til að hún og ákærði væru saman á ferð eða að hún væri að bíða eftir honum. Í skýrslu ákærða felst engu að síður staðhæfing um að á þeirri stuttu stund, sem leið meðan hann og A voru í nálægð hvort við annað á göngu niður af 1. hæð að salerninu, hafi myndast tengsl þeirra á milli, sem leitt hafi til þess að hún hafi samþykkt að hann kæmi með henni inn á kvennasalernið og að í viðmóti hennar hafi falist samþykki við því að eiga þar við hann kynferðismök.
Í málinu hafa ákærði og A borið á einn veg um að þau hafi aldrei hist fyrr en leiðir þeirra lágu saman þegar hún var að leita að salerni. Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að framburður hennar um málsatvik hafi verið einkar trúverðugur, en skýrsla ákærða hins vegar ótrúverðug. Af því sem áður segir má ráða að ekki geti hafa liðið nema innan við ein mínúta frá því að A og ákærði fóru af 1. hæð hótelsins og þar til hún var komin ein inn á salernið í kjallaranum. Er engin ástæða til að ætla annað en að ákærða hafi verið fullljóst að A var drukkin. Á þessari örstuttu stund er með ólíkindum að þau samskipti geti hafa átt sér stað milli þeirra, sem ákærði heldur samkvæmt áðursögðu fram. Hann getur heldur ekki hafa haft réttmæta ástæðu til að ætla að hún væri samþykk kynmökum við hann af þeim sökum einum að hún hafi ekki veitt honum líkamlega mótspyrnu á salerninu eða hrópað á hjálp meðan á kynmökunum stóð, en hún hefur lýst því að þetta hafi stafað af því að hún hafi orðið fyrir slíku áfalli þegar ákærði ýtti henni inn í salernisklefann að hún hafi ekki getað brugðist við. Er því óhjákvæmilegt að líta svo á að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi haft ásetning til þess brots, sem honum er gefið að sök. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Robert Dariusz Sobiecki, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 470.857 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
I
Í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar segir að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Sama regla kemur fram í 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lögleiddur var hér á landi með lögum nr. 62/1994. Í 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er kveðið svo á að sanna þurfi „hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti“. Sú efnislega krafa til sönnunarfærslu kemur fram í sama lagaákvæði að sönnun þurfi að vera sterkari en svo að hún „verði vefengd með skynsamlegum rökum“.
Það er skilyrði sakfellingar fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að sannaður sé ásetningur sakbornings, sbr. 18. gr. sömu laga. Ásetningur verður að ná til þeirrar nauðungar sem verknaðarlýsing ákvæðisins kveður á um. Í því felst án nokkurs vafa að sakborningi þarf að hafa verið ljóst að samræði eða önnur kynferðismök hafi verið að óvilja hins aðilans, því ekki verður refsað fyrir kynmök sem eiga sér stað að vilja beggja. Samkvæmt 45. gr. laga nr. 19/1991 hvílir sönnunarbyrði um sekt sakbornings og atvik, sem telja megi honum í óhag, á ákæruvaldinu.
II
Fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði ákærða 5. júlí 2007 af sakargiftum þeirrar ákæru, sem hér er til meðferðar. Í forsendum dómsins segir meðal annars að frásögn kæranda hafi verið alveg ótvíræð um að ákærði hafi farið öllu sínu fram við hana án þess að hún veitti athæfi hans viðnám eða mótmælti því. Áleit dómurinn að ákærða hafi ekki hlotið að vera það ljóst að samræðið eða kynferðismökin hafi verið að óvilja kæranda. Því bæri að sýkna ákærða.
Þessum dómi var áfrýjað til Hæstaréttar sem kvað upp dóm sinn 14. febrúar 2008 í máli nr. 464/2007. Var héraðsdómurinn ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný. Í forsendum Hæstaréttar kom fram að rétturinn teldi vera annmarka á mati héraðsdóms á hugrænni afstöðu ákærða. Er því til stuðnings nefnt, að ákærði og kærandi hafi aldrei hist fyrr, kærandi hafi verið mjög drukkin, þau hafi skipst á fáum orðum og loks að ekki hafi það gefið ákærða tilefni til ályktana um að kærandi vildi eiga kynferðisleg samskipti við hann, þó að hann kunni að hafa haldið utan um mitti hennar á hinni stuttu vegalengd sem þau gengu. Mat á því hvort ákærða hafi átt að vera ljóst að kærandi vildi ekki eiga kynmök við hann verði þannig ekki að réttu lagi reist á þeim grunni að hún hafi ekki verið honum andhverf áður en hún fór inn á salernið. Við það mat verði heldur ekki horft fram hjá því að ákærði hafi farið inn á salerni, sem hafi verið sérstaklega ætlað konum, og beðið þar framan við lokaðan klefa, en af frásögn hans verði ekki séð að hann hafi talið kæranda hafa hvatt sig til þess eða látið að því liggja að hún óskaði eftir að hann kæmi þangað. Væri óhjákvæmilegt að tekið væri tillit til þess við mat á hugrænni afstöðu ákærða. Leiddi þetta til ályktunar um að héraðsdómurinn væri ekki reistur á viðhlítandi grunni og var hann því ómerktur.
Af þessum forsendum Hæstaréttar verður ráðið, að rétturinn hafi ekki talið það ráða úrslitum við mat á hugrænni afstöðu ákærða, hvort kærandi hafi látið ætlaða afstöðu sína til kynmaka koma fram eftir að samskipti ákærða og hennar inni á salerninu hófust. Virðist felast í forsendunum að samskipti aðila og kringumstæður, áður en inn á salernið kom, geti ráðið úrslitum við mat á því hvort ákærði teljist hafa beitt ofbeldi af ásetningi eftir að þangað kom. Fyrir liggur í málinu að engin bein tjáskipti áttu sér stað milli ákærða og kæranda um vilja þeirra til kynmaka, hvorki á leiðinni niður né eftir að inn á salernið var komið. Verður ekki betur séð en Hæstiréttur hafi talið það geta haft úrslitaþýðingu við mat á ásetningi ákærða til ofbeldis að hann hafi ekki getað sannað beint eða óbeint að samþykki kæranda við kynmökunum hafi legið fyrir áður en hann fór inn á kvennasalernið. Skipti þá ekki máli þó að fyrir liggi, og sé að því er virðist óumdeilt, að kærandi hafi ekki látið afstöðu sína koma fram eftir að samskipti aðilanna hófust inni á salerninu. Þetta fær að mínu mati ekki staðist. Þegar tekin er afstaða til þess hvort sakborningur hafi framið brot af ásetningi verður að meta ásetning á verknaðarstund, það er að segja því tímamarki þegar brot er framið. Vilji eða óvilji kæranda og ákærða til kynmaka áður en til samskipta kom inni á salerninu getur að mínu áliti ekki ráðið mati á hugrænni afstöðu ákærða til hins ætlaða brots. Þannig myndi það til dæmis ekki duga ákærða til sýknu, þó að hann sýndi fram á að vilji beggja hefði staðið til kynmaka á leiðinni niður stigann, ef fyrir lægi að kæranda hefði snúist hugur áður en til þeirra kom en ákærði allt að einu farið sínu fram með ofbeldi.
III
Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 13. júní 2008 að lokinni nýrri aðalmeðferð. Héraðsdómur var fjölskipaður eins og í fyrra skiptið en aðrir dómarar skipuðu nú dóminn. Ákærði var í þetta sinn sakfelldur fyrir brotið. Í forsendum dómsins er tekið fram að kærandi hafi „staðhæft að hún hafi frosið í upphafi atburðarásarinnar inni á salerninu og fundist eins og hlutirnir væru ekki að gerast og hún verið dofin. Síðar hafi hún rankað við sér og reynt að komast frá ákærða. Hafi ákærði varnað henni för út af salernisbásnum. Loks hafi henni tekist að komast fram á ganginn.“ Verði háttsemi ákærða metin sem ofbeldi í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt því sem í þessum forsendum segir um viðbrögð kæranda við athöfnum ákærða kom óvilji hennar til kynmaka við hann fyrst fram eftir að hún rankaði við sér, eins og hún orðaði það, og reyndi að komast frá honum. Engin þvingun til kynmaka átti sér stað eftir það miðað við frásögn kæranda. Önnur gögn málsins benda heldur ekki til þess að svo hafi verið. Með þessum tilgreindu forsendum hins áfrýjaða dóms er þess vegna ekki leyst úr því hvernig kröfu laga um ásetning til þvingunar til kynmaka teljist vera fullnægt í málinu, en skortur á sönnun um þann ásetning réði einmitt úrslitum í hinum fyrra héraðsdómi, eins og áður var greint. Af þessu sést að í forsendum hins áfrýjaða dóms er ekki leyst úr því álitaefni sem einkum er umdeilt í málinu, það er að segja hvort ákærða hafi mátt vera ljóst þegar hann leitaði kynmaka við kæranda að hún væri þeim andvíg. Ef héraðsdómurinn hugðist beita þeim rökstuðningi um þetta sem virðist felast í heimvísunardómi Hæstaréttar sem fyrr var rakinn, að samskipti aðila áður en inn á salernið kom dugi til sönnunar á ásetningi ákærða, hefur farist fyrir hjá dóminum að segja það fullum fetum.
Í viðbót við þessar athugasemdir við hinn áfrýjaða dóm verður að bæta sérstökum aðfinnslum við niðurstöðukafla hans. Þar er á nokkrum stöðum að finna dæmi um að hlutur kæranda sé gerður betri og ákærða verri en efni standa til samkvæmt málsgögnum auk þess sem þar er að finna óþörf áhersluorð sem lúta að sama markmiði. Dæmi skulu nefnd um þetta. Vikið er að mismunandi framburði kæranda og ákærða um hvar þau hafi fyrst hist áður en leiðir þeirra lágu niður í kjallara hótelsins, þar sem salernið var. Einungis er sagt að þessi munur hafi ekki þýðingu um niðurstöðu málsins. Hér hefði átt að geta þess að frásögn ákærða um þetta fær staðfestingu á myndum úr öryggismyndavél í anddyri hótelsins, sem þá jafnframt sýnir að frásögn kæranda er ekki rétt. Þá er sagt að kærandi hafi ekki kannast við frásögn ákærða um að hann hafi haldið utan um mitti kæranda á leið niður stigann frá 1. hæð. Þar er því sleppt að segja frá framburði kæranda við fyrri aðalmeðferð málsins, þar sem hún svaraði spurningu verjanda um þetta svo að þetta „gæti alveg vel verið“. Við síðari aðalmeðferðina var hún líka spurð um samskiptin við ákærða á leið niður stigann og svaraði því þá meðal annars til að hún myndi ekki eftir að hafa verið „að kyssa hann eitthvað“. Kærandi hafði fullyrt fyrir dómi að hún hefði farið ein niður stigann en ákærði komið á eftir henni. Þegar nefnt var við yfirheyrsluna að öryggismyndavél sýndi að þau hefðu gengið niður stigann hlið við hlið svaraði hún að „það gæti vel verið“. Þar sem í forsendum dómsins er fjallað um áverka á kæranda við endaþarm er talin „fjarstæðukennd“ sú skýring ákærða að þessi áverki kunni að hafa komið við að kærandi hafi setið ofan á honum og limur hans ekki ratað á réttan stað. Læknirinn sem gefið hafði réttarlæknisfræðilega skýrslu, meðal annars um þennan áverka, kom fyrir dóm. Þar spurði dómari lækninn sérstaklega hvort þess áverki hefði getað myndast á þann hátt sem ákærði hafði getið sér til um. Þá svaraði læknirinn: „Mér finnst í rauninni ómögulegt að fullyrða um það.“ Ennfremur er sagt í forsendum dómsins að framburður kæranda hafi verið einkar trúverðugur og hún hafi verið staðföst í framburðinum, án þess að gerð sé grein fyrir því hvernig þessar ályktanir samrýmist þeim atriðum sem hér hefur verið vikið að og snerta breytingar á framburði hennar. Framburður ákærða er á hinn bóginn sagður ótrúverðugur að mati dómsins án þess að fyrir þeirri ályktun séu færð haldbær rök. Við athugun á því sem bókað hefur verið eftir ákærða við skýrslutökur verður ekki betur séð en hann hafi lýst atvikum um öll meginatriði á sama hátt frá upphafi og að framburður hans hafi fengið staðfestingu í þeim öðrum sönnunargögnum sem aflað hefur verið svo sem myndum úr öryggismyndavélum hótelsins, sbr. það sem fyrr sagði um það. Að þessu öllu hefði verið rétt að víkja í dóminum þegar mat var lagt á trúverðugleika kæranda og ákærða. Loks skal nefnt að héraðsdómur sá ekki ástæðu til að láta þess getið í niðurstöðukaflanum að kærandi kvaðst sjálf hafa orðið vör við að einhver kom inn á salernið undir lok samskipta hennar við ákærða inni á salernisbásnum án þess að hún hefði látið í sér heyra.
Af sérstökum áhersluorðum sem finna má í forsendum héraðsdóms skulu nefnd dæmi. Sagt er að framburður kæranda um það sem gerðist inni á salerninu fái „mikla“ stoð í gögnum málsins. Skýring ákærða á tilteknum áverka kæranda er sögð „ákaflega“ ósennileg. Áverki við endaþarm er talinn renna „styrkum“ stoðum undir framburð kæranda. Fleiri dæmi mætti nefna um þetta. Að mínu mati er þessi notkun áhersluorða í dómnum í öllum tilvikum án tilefnis og aðeins til þess fallin að draga úr trúverðugleika úrlausnar dómsins.
IV
Ekki verður hjá því komist, með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt um hinn áfrýjaða dóm, að taka til athugunar hvort meðferð máls ákærða geti talist hafa uppfyllt kröfu upphafsákvæðis 70. gr. stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, en regla með sama meginefni kemur einnig fram í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ekki verður betur séð en héraðsdómur hafi lagt þann skilning í heimvísunardóm Hæstaréttar að í honum fælist óbein afstaða til sektar ákærða. Leiðir þetta þá til þess að ákærði er sakfelldur í héraðsdóminum án þess að fullnægjandi rök séu færð fram fyrir úrlausn á því meginálitaefni málsins, hvort ákærði hafi haft ásetning til ofbeldisbrots gegn kæranda, á því augnabliki er verknaður var framinn. Má þá segja að athugasemdir Hæstaréttar um atriði, sem eigi að hafa þýðingu við mat á hinni huglægu afstöðu ákærða, og Hæstiréttur taldi sig ekki geta dæmt um í hið fyrra sinn, hafi kallað fram áfellisdóm yfir ákærða án þess að héraðsdómur hafi sjálfur tekið með frambærilegum rökum afstöðu til hinnar huglægu afstöðu ákærða. Verður því ekki séð að héraðsdómur hafi tekið nægilega sjálfstæða afstöðu til sektar ákærða í ljósi 70. gr. stjórnarskrár, heldur nánast lagt til grundvallar þann skilning sem dómurinn taldi felast í nefndum forsendum Hæstaréttar. Þessi málsmeðferð fær að mínum dómi ekki staðist. Ég tel samt ekki að þetta eigi að leiða til ómerkingar héraðsdómsins, þar sem málið liggur að mínum dómi nægilega skýrt fyrir Hæstarétti til að komast megi að þeirri niðurstöðu um sök ákærða sem greinir í VI. kafla hér á eftir.
V
Niðurstaða meirihluta Hæstaréttar um ásetning ákærða til þess brots sem hann er ákærður fyrir er einkum byggð á hugleiðingu um að samskipti kæranda og ákærða hafi aðeins staðið í stuttan tíma áður en inn á salernið kom. Það sé með ólíkindum að þau samskipti hafi átt sér stað milli þeirra á þessari „örstuttu stund“ sem ákærði haldi fram og ekki sé ástæða til að ætla annað en honum hafi verið „fullljóst“ að kærandi væri drukkin. Ályktun um að samskipti aðila hafi einungis getað staðið yfir í eina mínútu verður að mínum dómi ekki dregin á óyggjandi hátt af tímasetningum úr öryggismyndavél og framburði ákærða svo sem gert er í atkvæði meirihlutans. Stafar þetta af því að leiðir kæranda og ákærða lágu fyrst saman einhvern tíma á rúmlega þriggja mínútna tímabili þar á undan en þá voru þau stödd utan sviðs myndavélarinnar. Svör ákærða fyrir dómi um samskipti þeirra útiloka engan veginn að þau hafi byrjað á þessu tímabili, þó að hann hafi komist svo að orði, að þau hafi rætt saman á leiðinni niður stigann. Þá skal nefnt að lýsing kæranda sjálfrar á ölvun sinni í lögregluskýrslu er hún lagði fram kæru 17. mars 2007 var á þann veg að hún hafi verið talsvert ölvuð en alls ekki ofurölvi. Í skýrslu hjá lögreglu 27. mars 2007 kvaðst hún hafa verið búin að „drekka svolítið“ áður en „þetta gerðist“. Hún gerði því sjálf ekki mikið úr ölvun sinni. Í atkvæði meirihlutans er sagt að ákærði geti ekki hafa haft réttmæta ástæðu til að ætla að kærandi hafi verið samþykk kynmökum við hann af þeim sökum einum að hún hafi ekki veitt honum líkamlega mótspyrnu á salerninu eða hrópað á hjálp meðan á kynmökunum stóð. Sé því óhjákvæmilegt að líta svo á að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi haft ásetning til þess brots, sem honum sé gefið að sök.
Ég get ekki fallist á þennan rökstuðning fyrir sakfellingu ákærða. Ákæruvaldið ber sönnunarbyrði um að ákærði hafi haft ásetning til valdbeitingar á verknaðarstundu, það er að segja á því augnabliki sem verknaður er framinn, sbr. það sem um þetta sagði í II. kafla að framan. Það getur ekki talist fullnægjandi til slíkrar sönnunarfærslu að byggja hana á ályktunum af því tagi sem hér birtast og lúta að friðsamlegum samskiptum aðila áður en til ætlaðrar valdbeitingar kemur. Þar að auki verður ekki betur séð en lagt sé á ákærða að færa fram sérstaka sönnun fyrir því að kærandi hafi verið samþykk kynmökum við hann. Sú aðferð fær að mínum dómi ekki staðist.
VI
Svo sem fyrr sagði er gerð sú krafa í 46. gr. laga nr. 19/1991 að komin sé fram í máli nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, um hvert það atriði sem varðar sekt sakbornings. Samkvæmt þessu ber að meta skynsamlegan vafa um sök sakbornings honum í hag. Í því máli sem hér er til úrlausnar liggur fyrir að þrír embættisdómarar í héraði hafa komist að þeirri niðurstöðu að sök ákærða sé ósönnuð. Niðurstaða þeirra styðst án nokkurs vafa við skynsamleg rök, þó að aðrir þrír héraðsdómarar hafi komist að annarri niðurstöðu. Ætti þetta, án þess að nokkuð fleira komi til, að nægja til þess að telja sök ákærða ekki hafna yfir skynsamlegan vafa.
Eins og málið liggur fyrir má telja líklegt að ákærði hafi fylgt kæranda niður stigann og síðan farið inn á salernið á eftir henni í því skyni að leita eftir kynmökum við hana. Eins og gengur og gerist við slíkar aðstæður má gera ráð fyrir að vilji hans til kynmaka hafi komið fram með snertingu og atlotum fremur en formlegu tilboði í orðum. Miðað við framburð kæranda sjálfrar lét hún ekki í ljós við hann með látbragði eða í orðum að hún væri andvíg kynmökum við hann. Þar með er ósannað að honum hafi verið slík andstaða hennar ljós. Þetta þýðir að ekki hefur verið sannaður ásetningur ákærða til að þvinga kæranda til kynmaka. Að mínum dómi hefur ákæruvaldið því ekki fært fram sönnun um ásetning ákærða til nauðungar eins og nauðsynlegt er til að háttsemi hans verði talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Leiðir þetta til þess að ég tel að sýkna beri ákærða af sakargiftum ákærunnar.
Tekið skal fram að bæði í fyrri héraðsdóminum og hinum áfrýjaða dómi eru höfð uppi orð um að kærandi hafi verið trúverðug í framburði sínum um málsatvik. Er frásögn hennar að mestu lögð til grundvallar í bæði skiptin við úrlausn málsins. Það sem hér að framan hefur verið rakið og leiðir að mínum dómi þegar til sýknu ákærða er byggt á afgreiðslu hins áfrýjaða dóms á þessu. Í þessu felst að við úrlausn mína er alfarið byggt á framburði kærandans um þau atvik málsins sem máli skipta þegar úr því er leyst. Er því ekki nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hér, hvort áfellisdómur í refsimáli verði yfirleitt eingöngu byggður á mati á trúverðugleika vitnisburðar kæranda, ef sakborningur gefur annan framburð og ekki er öðrum marktækum sönnunargögnum til að dreifa um sekt sakbornings.
Samkvæmt framansögðu tel ég að leggja eigi allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti á ríkissjóð.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. júní sl., er höfðað með ákæru útgefinni af Ríkissaksóknara, 31. maí 2007 á hendur, Robert Dariusz Sobiecki, kt. 161288-3739, [...], fyrir nauðgun með því að hafa aðfaranótt 17. mars 2007, á salerni í kjallara Hótels Sögu við Hagatorg í Reykjavík, með ofbeldi þröngvað stúlkunni A, kt. [...], til samræðis og annarra kynferðismaka með því að ýta henni inn á salernisbás og halda henni þar meðan hann kom fram vilja sínum, en ákærði hafði munnmök við stúlkuna, sleikti kynfæri hennar, hafði samræði við hana og reyndi að setja getnaðarlim sinn í endaþarm hennar.
Er þetta talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, sbr. áður 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 2.000.000 auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 17. mars 2007 til greiðsludags.
Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2007 var ákærði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds í málinu. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 14. febrúar sl. í málinu nr. 464/2007 var dómur héraðsdóms í máli þessu ómerktur og málinu vísað heim til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný. Með úrskurði dómsins frá 3. apríl sl. viku dómendur málsins í héraði sæti í málinu. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 22. apríl sl. í máli nr. 198/2008 var úrskurður héraðsdóms um að dómendur vikju sæti felldur úr gildi. Með bréfi til dómstjóra 29. apríl sl. fór sá héraðsdómari er þá fór með málið þess á leit að málinu yrði úthlutað á nýjan leik. Með bréfi dómstjóra héraðsdóms frá 30 apríl sl. féllst dómstjóri á rök héraðsdómarans um að rétt væri að úthluta málinu á nýjan leik. Dómstjóri fól þeim héraðsdómara er nú fer með málið sem dómsformaður það með úthlutun 29. apríl sl.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá laugardeginum 17. mars 2007 barst lögreglu þann dag kl. 00.54 tilkynning um að nauðgun hefði átt sér stað á Hótel Sögu við Hagatorg í Reykjavík. Samkvæmt tilkynningunni átti árásarmaðurinn að vera á flótta frá staðnum. Er lögreglumenn bar að Hótel Sögu var þeim vísað á A brotaþola í máli þessu, en hún var þá stödd í bakherbergi við afgreiðslu í hótelinu. Tjáði hún lögreglumönnum frá atburðinum. A hafi skýrt frá því að hún hafi spurt árásarmanninn að því hvar snyrtingin væri og hafi hann ætlað að sýna henni það. Hafi hann fylgt henni niður og farið með henni inn á snyrtinguna þar sem kona hafi verið til staðar og sagt honum að fara út þar sem um væri að ræða snyrtingu fyrir kvenfólk. Hafi árásarmaðurinn komið aftur og ruðst inn á klósettið þar sem A hafi verið að pissa. Hafi maðurinn neytt hana til samræðis. Hafi hún verið ráðalaus og ekki vitað hvað gera skyldi. Hafi hún ýtt honum frá sér og reynt að fara út um hurðina á snyrtingunni en maðurinn hindrað för hennar. Hafi hann læst hurðinni og sagt ,,no I am not finished“. Hafi hún að lokum komist út um hurðina og þá mætt þjóni af hótelinu. Hafi árásarmaðurinn komið út af snyrtingunni og reynt að ná henni inn aftur en þjónninn náð að fyrirbyggja það. Fram kemur í skýrslunni að A hafi verið blóðug á vinstri upphandlegg og með blóð á læri. Hún hafi sýnilega verið undir áhrifum áfengis. Rætt hafi verið við starfsmann á bar hótelsins og hafi hann lýst árásarmanninum þannig að hann væri lágvaxinn, um 160 til 165 cm á hæð, snoðaður og sennilega með eyrnalokk í eyra. Hann hafi verið í grænum jakka, víðum gallabuxum, í brúnum hermannaklossum og ,,dópistalegur“ í útiliti. Var lögreglu tjáð að árásarmaðurinn hefði hlaupið frá vettvangi til suðurs á milli Hagaskóla og Háskólabíós. Í frumskýrslu kemur fram að salerninu hafi verið læst til að tryggja vettvang. Hafi A verið flutt á neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi. Þá hafi tæknideild lögreglu verið boðuð á vettvang. Á hótelinu hafi verið maður að nafni B, Pólverji, sem setið hafi við drykkju á bar hótelsins og hafi hann verið verulega ölvaður. Í máli barþjóns hafi komið fram að B hafi verið að ræða við árásaraðilann um kvöldið. Í viðræðum við B hafi komið fram að hann þekkti viðkomandi einstakling ekki en hann hafi kynnt sig sem Robert.
Samkvæmt skýrslu lögreglu fór rannsóknarlögreglumaður á neyðarmóttöku kl. 01.34 um nóttina og ræddi hann við A í aðstandendaherbergi á slysadeild. Fram kemur að hún hafi borið þess merki að hafa orðið fyrir áfalli, en þó hafi hún verið róleg og gefið greinargóða lýsingu. Lýsti hún þar atvikum á nýjan leik. Í framhaldi af viðræðum við A hafi rannsóknarlögreglumaðurinn farið á Hótel Sögu og rætt þar við C og D, starfsmenn í móttöku hótelsins. Hafi þeir greint frá því að þeir hafi fregnað af málinu í gengum spænskan þjón sem hafi verið við vinnu á hótelinu umrætt sinn og aðstoðað A í framhaldi af atburðum. Hafi þeir séð þar sem árásarmaðurinn, ásamt félaga sínum, hafi farið út um aðalinngang hótelsins við Hagatorg. Hafi C og hinn spænski þjónn reynt að tryggja návist árásarmannsins þar til lögregla kæmi á vettvang en þeir hafi séð á eftir mönnunum hlaupa frá hótelinu í átt að Birkimel. Lögregla hafi komið skömmu síðar. Í skýrslunni kemur fram að lögregla hafi að morgni sama dags farið aftur á Hótel Sögu til að fara yfir myndskeið úr eftirlitsmyndavélakerfi hótelsins. Á myndavél nr. 5 sem taki mynd af aðalinngangi hótelsins við Hagatorg sjáist tveir menn yfirgefa hótelið kl. 00.54 og C hlaupa út á eftir þeim. Sömu menn sjáist á bar úr myndavél nr. 9 við neðri hæðina kl. 00.52.
Sunnudaginn 18. mars 2007 kl. 21.50 fór lögregla að heimili Robert Dariusz Sobiecki, ákærða í máli þessu, að Mjósundi 13 í Hafnarfirði. Hafði lögregla þá rökstuddan grun um að ákærði hefði átt aðild að málinu. Hafi lögreglumenn handtekið ákærða í kjallara hússins og í framhaldi fært hann á lögreglustöð. Á lögreglustöð framkvæmdi héraðslæknir líkamsskoðun á ákærða. Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald mánudaginn 19. mars 2007. Var hann vistaður í gæsluvarðhaldi allt til uppsögu fyrri héraðsdóms í málinu 5. júlí 2007.
Ósk Ingvarsdóttir læknir hefur 17. mars 2007 kl. 03.00 framkvæmt réttarlæknisfræðilega skoðun á A. Í skýrsluna er færð frásögn sjúklings af atburðum. Er merkt við kynmök um leggöng og að getnaðarlimur hafi verið settur í munn. Ekki sé vitað um kynmök í endaþarm. Um ástand við skoðun er ritað að A hafi verið aðeins sljó í byrjun vegna syfju en segi síðan frá atburðinum. Virðist hún ekki hafa teljandi minnisgloppur. Hún sé trúverðug og einlæg. Hún sé í uppnámi og hafi talað mikið í byrjun. Síðan hafi hún róast. Hafi hún lýst dofa og hræðslu um heilsu sína og ótta við geranda. Finni hún fyrir mikilli vöðvaspennu og eigi erfitt með að slaka á. Þá hafi henni verið illt í maganum. Hún hafi verið með roða á hægra hné. Á bakhluta séu 2 svæði með roða og eymsl ofarlega á herðum. Einnig neðarlega við spjaldhrygg. Þá sé hún með sprungu við anus. Hafi sprungan verið ,,ca kl. 11“ og náð inn að slímhúðarkanti við anus. Sprungan sé ca 1 cm að dýpt. Í kafla um niðurstöður læknis er þess getið að blóð hafi verið á innanverðum lærum og kynfærum. Blætt hafi úr sprungunni við endaþarmsopið, en jafnframt hafi verið blóðlitaður vökvi í leggöngum sem geti verið úr sárinu. Skoðun komi vel heim og saman við lýsingu á atburðinum. Þá er þess getið að 27. mars 2007 hafi A komið í eftirlit. Hafi hún lýst því að hún myndi vel eftir því sjokki sem hún hafi verið í við komu. Myndi hún nú vel að árásarmaðurinn hafi verið að reyna að koma fram vilja sínum þar sem hún hafi legið klemmd í hnipri upp við klósettið og þá fundið skerandi sársauka. Hafi árásarmaðurinn þá verið búinn að komast inn í leggöng en reynt ítrekað við endaþarm en sennilega ekki komist inn. Blætt hafi úr sárinu þar til skömmu fyrir endurkomuna. Við skoðun hafi sést að sprunga við anus hafi verið gróin og sést móta fyrir hvítu öri. Ætla megi í ljósi sögunnar að sprungan hafi komið við tilraunir árásarmannsins við að komast inn í anus og átt þátt sá kraftur sem beitt hafi verið og afstaða legu brotaþola. Staðsetning sprungunnar sé á stað sem sé þekktur fyrir að hafa áverka við tilraunir eða innþrengingu í endaþarm án samþykkis, ef áverki sé á annað borð.
Ákærði var tekinn til réttarlæknisfræðilegrar skoðunar 18. mars 2007. Í lýsingu um ástand við komu er þess getið að ákærði hafi verið rólegur og samvinnuþýður. Þá hafi hann verið í eðlilegum holdum og krúnurakaður. Ákærði er tilgreindur 169,5 cm á hæð. Smá rispur hafi verið á enni og ofarlega á vinstri kinn. Hann hafi verið með mar neðan við hársvörð, en borið því við að það væri eftir rakstur. Smá roðablettir hafi verið á höku sem hafi getað verið eftir rakstur. Sárrispa á ská framan á hægri úlnlið og sár á ,,dig IV volart“. Smá mar lófastórt innanfótar á miðju hægra læri. Hafi ákærði lýst því að hann hafi verið barinn í höfuðið og rispast á hægri hendi við að hlaupa í gegnum trjágróður á flótta frá staðnum. Engin áverkamerki hafi verið á kynfærum.
Laugardaginn 17. mars 2007 kl. 13.18 mætti A á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir nauðgun. Skýrði hún þannig frá atvikum að hún hafi umrætt sinn verið á árshátíð hjá veitingahúsakeðjunni Subway. Skömmu fyrir atburðinn hafi A verið í Súlnasalnum þar sem skemmtunin hafi verið en hún hafi þá þurft að fara á snyrtinguna. Ekki hafi hún fundið neitt salerni á hæðinni. Hafi vinkona hennar verið á dansgólfinu að dansa og A farið ein niður á næstu hæð til að leita að salerni. Hafi A verið talsvert ölvuð en þó ekki ofurölvi. Hún hafi gengið niður á næstu hæð fyrir neðan en þar hafi verið bar þar sem hún og vinkona hennar hafi fengið sér drykk fyrr um kvöldið. Hafi A gengið niður stiga niður í kjallara en þar hafi staðið þrír menn. Hafi hún spurt þá hvort snyrting væri niðri í kjallara. Hafi hún heyrt þá tala saman framandi tungumál sem hún hafi talið vera pólsku. Hafi hún þá spurt þá á ensku um hið sama og þeir svarað spurningunni játandi. Einn þeirra, maður í grænni jakkapeysu, hafi spurt A að því hvort hann ætti að fylgja henni niður en hún svarað því neitandi. Hafi hún gengið niður stigann. Þegar hún hafi komið inn á snyrtinguna hafi hún séð að maðurinn í grænu peysunni hafi fylgt henni niður og ætlað inn á snyrtinguna með henni. Kona á snyrtingunni hafi hins vegar lokað hurðinni á manninn. Inni á snyrtingunni hafi verið tveir salernisbásar og hafi hún farið inn á einn þeirra. Hafi hún lokað og læst og því næst pissað. Hafi hún farið að velta því fyrir sér hvort maðurinn kæmi nokkuð inn á snyrtinguna á eftir henni. Hafi hún því beðið aðeins lengur inni á básnum. Er hún hafi opnað hurðina hafi maðurinn komið inn á snyrtinguna. Hafi A brugðið við það en hann eiginlega ýtt henni strax inn á þann salernisbás sem hafi verið fjær hurð inn á salernið. Hafi hann ekki lokað hurðinni að básnum strax en ýtt A upp að vegg og byrjað að kyssa hana og káfa á henni. Hafi hún fengið hálfgert sjokk og ekki viljað trúa því að þetta væri að gerast. Hafi hann síðan byrjað að tosa niður um hana sokkabuxurnar en hún hafi þá verið standandi og snúið að honum. Síðan hafi hann girt niður um sig buxurnar og þá lokað hurðinni og læst. Hafi hún veitt því athygli að hann hafi verið með reistan liminn. Hafi hann reynt að ýta henni niður á klósettið og síðan troðið lim sínum upp í munn hennar. Ekki hafi hún veitt því athygli hvort hann hafi verið með smokk. Á einhverjum tímapunkti hafi hún tekið eftir því að hann hafi verið með blóð á getnaðarlimnum. Síðan hafi hann ýtt henni niður á gólfið og hún þá legið á bakinu. Hafi hann troðið getnaðarlim sínum inn í leggöng hennar. Hafi hún reynt að ýta honum af sér og fundið fyrir skerandi sársauka. Hafi hún verið alveg kramin í horninu og hann ofan á henni. Hafi hann síðan reynt að setja lim sinn í endaþarm hennar. Hafi hún náð að grípa í hurðina og einhvern veginn toga sig upp og hafi hurðin einhvern veginn farið á hann. Hafi hún reynt að komast fram og sagt ,,I want to go home“. Hafi hann þá reynt að ýta henni aftur inn á klósettið og sagt ,,No I am not finished“. Hafi hún síðan náð að ýta honum frá sér og ýtt hurðinni á hann og náð að komast fram á ganginn. Hafi hún verið með sokkabuxurnar niður um sig og hann reynt að toga hana aftur inn en hún haldið áfram. Hafi hún séð konu hlaupa og maðurinn þá farið fram og upp stigann. Skömmu síðar hafi þjónn komið að henni og hún tjáð honum hvað hefði gerst. Stuttu síðar hafi árásarmaðurinn komið aftur og hafi A þá sagt við þjóninn ,,he used me“ og þjónninn spurt árásarmanninn hvort það væri rétt. Hafi árásarmaðurinn þá sagt að hann hafi einungis sýnt A hvar snyrtingin hafi verið. Hafi hann ætlað að taka A aftur inn á snyrtinguna en þjónninn þá sagt honum að láta A í friði. Hafi hún í framhaldinu farið upp með þjóninum en þar hafi verið rætt við starfsfólk hótelsins. Þá hafi lögregla verið kölluð til. Starfsmenn hótelsins hafi farið að leita að árásarmanninum en hann hafi þá verið stunginn af. Eftir það hafi A farið upp á neyðarmóttöku.
Þriðjudaginn 27. mars 2007 var á ný tekin skýrsla af A hjá lögreglu. Var framburður hennar við skýrslutökuna á sama veg og í fyrri skýrslugjöf hjá lögreglu. Kvaðst A hafa fengið sjokk þegar árásarmaðurinn hafi ýtt henni inn á bás snyrtingarinnar og farið að kyssa hana og káfa á henni. Hafi henni fundist sem hlutirnir væru ekki að gerast í alvörunni. Hún hafi verið drukkin og orðið svona skrýtin í höfðinu. Hafi henni fundist sem hana væri að dreyma hlutina. Hafi maðurinn ýtt henni inn á salernisbásinn, lokað hurðinni og læst henni. Síðan hafi hann farið að káfa á henni og tekið niður um hana sokkabuxurnar. Hann hafi einnig tekið niður sínar buxur. Hann hafi ýtt henni niður á klósettið þannig að hún hafi setið á því. Hann hafi troðið getnaðarlim sínum upp í munn hennar. Hafi hún verið í losti og ekki verið búin að ranka við sér með hvað væri að gerast. Í framhaldinu hafi hann ýtt henni af klósettinu og niður í horn á salernisbásnum. Hann hafi sennilega eitthvað sleikt hana niðri. Hann hafi ýtt henni út í horn þannig að hún hafi verið í ,,kremju“ og þá hafi hann stungið lim sínum inn í leggöng hennar. Þá hafi hún verið alveg upp við vegg á básnum og varla getað andað. Hafi hún fengið áverka á bakið við þessar aðfarir og verið með verki í baki lengi á eftir. Skyndilega hafi hún fundið mikinn sársauka er hann hafi reynt að setja lim sinn í endaþarm hennar. Sennilega hafi honum ekki tekist það en hún fengið sár við endaþarm við þetta. Þá hafi hún rankað aðeins við sér þannig að hún hafi áttað sig á að hlutirnir væru í alvöru að gerast. Hafi hún ýtt honum frá sér og náð að standa á fætur, en hann hafi ætlað að halda áfram og ýtt henni á klósettið. Hafi hún náð í hurð á básnum en þá hafi hún heyrt eins og einhver væri að koma inn á snyrtinguna. Viðkomandi hafi farið strax út aftur. Hafi hana langað að öskra en ekki getað það. Hafi henni tekist að teygja sig í hurðina og taka úr lás. Hafi hún sagt eitthvað eins og ,,I want to go“ en hann sagt ,,I am not finished“. Hafi hún náð að opna hurðina og náð að komast fram á gang. Hafi árásarmaðurinn ætlað að ná henni inn aftur og sagt ,,I am not finished“. Hafi hún verið með sokkabuxurnar á hælunum. Maðurinn hafi síðan forðað sér í burtu. A hafi enn verið í losti. Hafi hún síðan farið aftur inn á snyrtinguna og inn á þann salernisbás sem hafi verið nær hurðinni til að laga sokkabuxurnar. Þá hafi hún tekið eftir að hún hafi verið með blóð á hendi og á læri. Hún hafi farið að gráta. Hún hafi gengið fram grátandi og þá séð þjón koma niður. Um hafi verið að ræða sama barþjón og fyrr um kvöldið hafi afgreitt A og vinkonu hennar á barnum. Hafi þjónninn talað við A á ensku og spurt hvað væri að. Hún hafi farið að gráta og árásarmaðurinn þá komið aftur niður. Hafi hún bent á árásarmanninn og sagt honum að láta sig í friði. Hann hafi spurt hvað væri að en barþjónninn þá spurt árásarmanninn hvað hann hafi gert. Hafi árásarmaðurinn þá sagt að hann hafi einungis fylgt henni á snyrtinguna. Hún hafi bent á hann og sagt ,,he used me“ en í raun ekki vitað hvernig hún ætti að orða það sem hafi gerst. Þjónninn hafi farið með hana upp og þau hitt fleira fólk er unnið hafi á hótelinu. Síðan hafi lögregla verið kölluð til. Í framhaldi hafi verið farið með hana á neyðarmóttöku.
Tekin var fyrst skýrsla af ákærða hjá lögreglu 18. mars 2007. Ákærði kvaðst hafa hitt E, sem hann þekkti ekki vel, á Hótel Sögu á milli kl. 21.00 og 22.00 að kvöldi 16. mars 2007. E hafi viljað fara á staðinn þar sem honum hafi litist vel á hann, auk þess sem hann hafi þekkt einn af barþjónum hótelsins. Hafi þeir drukkið nokkra bjóra og rætt saman. Einhvern tímann um kvöldið hafi þeir farið á næstu hæð fyrir ofan en þar hafi verið samkvæmi. Hafi þeir fengið sér sæti. Þar hafi þeir hitt m.a. tvær íslenskar stelpur. Einhverju síðar hafi ákærði og E farið út á ganginn niðri og þeir staðið við stiga sem legið hafi niður í kjallara. Þar hafi þeir staðið nokkra stund. Stúlka hafi komið til þeirra og spurt hvar snyrtingin væri. Hafi ákærði sagt henni að hún væri niðri. Stúlkan hafi verið talsvert drukkin og haldið á drykk í hendinni. Hafi hún ekki alveg náð því sem ákærði hafi sagt og spurt aftur hvar snyrtingin væri. Hafi ákærði þá fært sig neðar í stigann og séð að stúlkan hafi ekki farið réttu megin. Hafi hún þá spurt hvar snyrtingin væri nákvæmlega og hafi ákærði þá spurt hana að því hvort hann ætti að sýna henni það. Því hafi hún svarað játandi. Á leiðinni inn á snyrtinguna hafi þau byrjað að ræða saman og hún boðið ákærða að smakka á drykk sem hún hafi verið með. Á meðan þau hafi gengið niður stigann hafi ákærði tekið utan um mittið á henni til að koma í veg fyrir að hún myndi detta niður stigann. Á leiðinni niður hafi hún aftur boðið honum sopa og ákærði þá spurt hana hvort hann mætti ganga með henni inn á snyrtinguna. Hafi hún svarað á ensku ,,sure“. Þegar ákærði hafi ætlað inn á snyrtinguna hafi kona sem stödd var á snyrtingunni stöðvað för hans. Hafi hún bent ákærða á merki þar sem staðið hafi að um væri að ræða kvennasnyrtingu. Hafi ákærði beðið stutta stund þar til konan hafi farið. Þá hafi ákærði farið inn á snyrtinguna og beðið þar uns stúlkan hafi komið út af salernisbás á snyrtingunni. Hafi hún gengið til ákærða og spurt hann hvort hann vildi meira að drekka og hafi ákærði fengið sér sopa hjá henni. Að því búnu hafi hann sett hendur um mjaðmir stúlkunnar og hafi þau kysst hvort annað á munninn. Hafi þau verið að kyssast svolítið lengi. Síðan hafi þau bakkað saman inn á salernisbásinn sem hafi verið fjær hurðinni inn á salernið. Hafi ákærði lokað að þeim með olnboganum en ekki læst hurðinni. Þar hafi þau haldið áfram að kyssast og síðan byrjað að klæða sig úr fötum. Hafi ákærði vitað að stúlkan vildi þetta því þegar ákærði hafi byrjað að klæða hana úr hafi hún látið sem hún vildi það, auk þess sem hún hafi byrjað að hneppa frá skyrtu ákærða. Hafi hún reynt að lyfta skyrtu ákærða upp yfir höfuð en ekki tekist það. Hafi ákærði lyft kjól hennar upp og dregið sokkabuxur og nærbuxur hennar niður. Hafi þau staðið í fyrstu en það ekki verið þægilegt. Hafi þau því breytt um samfarastellingu með þeim hætti að ákærði hafi sest á klósettið og hún sest ofan á ákærða. Þannig hafi þau haft samfarir. Eftir einhvern tíma hafi einhver komið inn á salernið og hún þá hætt. Hafi hún athugað hvort hurðin væri læst og í framhaldinu læst hurðinni. Eftir það hafi þau hlegið stutta stund og byrjað að tala saman. Hafi ákærði spurt hana hvort hún væri reiðubúin að gefa ákærða upp símanúmer sitt og hún verið til í það. Hafi ákærði hringt úr farsíma sínum í farsíma hennar svo hún hefði númer ákærða sem ,,dialled number“. Hafi hún því næst spurt ákærða hve gamall hann væri og hvað hann héti. Hafi hún sagt ákærða eitthvað um sig og að hún hafi verið á hótelinu í samkvæmi. Síðan hafi E hringt í ákærða og spurt hann hvar hann væri. Hafi ákærði sagt honum að hann væri alveg að koma. Ákærði og stúlkan hafi gengið út á ganginn og að stiganum. Ekki hafi ákærði séð að hún hafi verið með sokkabuxur og nærbuxur niður um sig. Þegar E hafi séð það hafi hann farið að hlæja og ákærði farið að hlæja aðeins líka. Hafi ákærði sagt henni að fara inn á snyrtinguna og laga sig til. Hafi ákærði farið upp stigann til E. Er ákærði hafi gengið upp hafi stúlkan staðið fyrir framan snyrtinguna og verið að laga sig til. Ákærði hafi reykt hálfa sígarettu á hæðinni fyrir ofan en þá hafi ákærði farið að athuga með stúlkuna. Hafi hann beðið eftir henni fyrir framan kvennasnyrtinguna. Hún hafi komið skömmu síðar fram og verið grátandi. Hafi ákærði farið inn á snyrtinguna en hún sagt honum að láta sig í friði. Hafi ákærði rétt henni þurrkubréf til að þurrka tárin. Hún hafi tekið við bréfinu og byrjað að þurrka tárin en sagt um leið að hún vildi ekki sjá ákærða. Hafi ákærði spurt hana hvort hann hafi gert henni eitthvað slæmt en hún svarað ,,nothing“. Hafi ákærði spurt hana hvort hann mætti hringja í hana næsta dag en hún ekki svarað því. Síðan hafi barþjónn komið gangandi niður og spurt hana hvort eitthvað hafi komið fyrir. Hún hafi svarað ,,nothing“. Hafi hún sagt við ákærða ,,leave me alone“. Barþjónninn hafi litið á ákærða og spurt hann hvort hann hafi gert henni eitthvað og hafi ákærði sagt honum að hann hafi ekki gert henni neitt illt. Hafi ákærði spurt stúlkuna aftur hvort hann mætti hringja í hana næsta dag en hún sagt honum að láta sig í friði. Hafi ákærði spurt stúlkuna hvað væri að en hún sagt við barþjóninn að ákærði ætti að láta sig í friði og að ákærði hefði misnotað hana. Hafi ákærði sagt að þetta væri ekki satt en hún sett hendurnar um háls barþjónsins. Barþjónninn hafi sagt ákærða að fara í burtu og að hann myndi hringja á lögregluna. Stúlkan hafi beðið barþjóninn um að gera það ekki. Ákærði hafi farið upp og sótt jakka sinn. Hafi hann verið stutta stund með vinum sínum og beðið við barinn. Hafi hann síðan ákveðið að ganga út af hótelinu því hann hafi ekki viljað að lögregla myndi handtaka hann þar inni. E hafi gengið með út ákærða. Á gangstéttinni fyrir utan hótelið hafi sami barþjónn og áður komið að og einhverjir Kínverjar. Barþjónninn hafi bent á ákærða og haldið á farsíma og sagt að hann væri að hringja á lögreglu. Þeir hafi síðan komið upp að ákærða og blótað honum. Ákærði hafi snúið sér við og gengið á brott. Hafi hann fundið fyrir lausu höggi á hnakkann. Hafi hann snúið sér við en þá fengið högg á nef og við það fengið blóðnasir. Einhver hafi komið aftan að honum og gripið utan um hann og hent honum í jörðina. Þeir hafi byrjað að lemja á ákærða, sem borið hafi fyrir sig hendurnar. Tveir menn hafi ýmist reynt að kýla eða sparka í ákærða. E hafi farið heim til sín og sagt að hann vildi ekki taka þátt í þessu. Ákærði hafi staðið upp og ýtt öðrum mannanna frá sér og hafi sá dottið í snjóinn. Ákærði hafi togast á við hinn. Hafi ákærði síðan náð að hlaupa í burtu frá þeim. Hafi hann tekið eftir því að mennirnir hafi hlaupið á eftir ákærða. Ákærði hafi síðan gengið upp að Perlunni í Öskjuhlíð og þar hringt á móður sína, sem hafi í framhaldi komið og náð í ákærða. Þau hafi síðan farið heim. Aðspurður bar ákærði að stúlkan hafi á kvennasnyrtingunni haft munnmök við ákærða og hafi hann sleikt stúlkuna að neðan. Þá kvaðst ákærði hafa tekið eftir því að stúlkunni hafi blætt á snyrtingunni. Ekki hefði ákærði skýringar á því, en ef til vill hafi það verið vegna þess að þau hafi haft samfarir of hratt. Er ákærða voru sýndar myndir úr eftirlitsmyndavélakerfi Hótel Sögu kvaðst ákærði þekkja sig á myndskeiðum sem þann einstakling er hafi verið með derhúfu á höfði. E hafi verið sá í ljósu úlpunni. Ákærði kvaðst telja að skýringin á því að stúlkan hafi lagt fram kæru á hendur honum fyrir nauðgun sennilega vera vegna þess að ákærði hafi skilið hana eftir á ganginum þegar hún hafi verið með sokkabuxurnar niður um sig, auk þess sem ákærði og E hafi hlegið aðeins að henni. Ákærði kvaðst hafa viljað gefa sig fram við lögreglu næsta dag, en hann hafi verið hræddur við að gefa sig fram þar sem hann væri útlendingur.
Ákærði var á ný yfirheyrður af lögreglu 23. mars 2007. Aðspurður um klæðnað í greint sinn kvaðst ákærði hafa verið í brúnum skóm og brúnum buxum. Hann hafi verið í grænni úlpu og með græna húfu. Ákærði kvaðst hafa tvö gsm símanúmer. Ekki þekkti ákærði þau númer. Væri ákærði með tvö símtæki, annað fyrir pólskt símanúmer sitt en hitt væri fyrir hið íslenska. Ákærði kvaðst ekki rengja þá ályktun lögreglu að annar síminn hafi verið með símanúmerið [...]. Þá bar ákærði að hann og félagar hans hafi verið við stiga á 2. hæð hótelsins þegar stúlka hafi komið að þeim og spurt um kvennasnyrtinguna. Stúlkan hafi farið niður á 1. hæð en ekki gengið í rétta átt miðað við hvar stiginn niður í kjallara hafi verið. Ákærði hafi gengið niður stigann og niður á 1. hæð ásamt E og Pólverja er hafi verið með þeim. Hafi ákærði sagt við stúlkuna að hún væri að ganga í ranga átt og hafi hann boðið henni að sýna henni hvar salernið væri að finna. Hafi stúlkan þegið það. E og hinn maðurinn hafi orðið eftir á 1. hæðinni. Hafi ákærði sagt eitthvað á þá leið ,,ég fer kannski með þér á salernið“ og hafi stúlkan þegið það. Þá hafi verið orðið ljóst um hvað málið snérist og stúlkan vitað að um kynferðislega athöfn yrði að ræða. Hafi það birst í því að við að ganga af 1. hæðinni niður í kjallara hafi ákærði tekið utan um stúlkuna og hún utan um hann. Hún hafi síðan gefið honum að drekka úr glasi sem hún hafi verið með. Að því er varðaði atvik inni á kvennasnyrtingunni hafi stúlkan komið út af bás snyrtingarinnar. Þá hafi ákærði verið inni á kvennasnyrtingunni. Hafi hann þá spurt stúlkuna eitthvað eins og ,,hvað gerist núna“. Hafi stúlkan þá spurt hann hvort hann vildi sopa af drykk hennar. Hafi ákærði þá fengið sér sopa. Í framhaldi hafi þau farið að kyssast. Að því er varðaði för inn á kvennasnyrtinguna þá hafi stúlkan gefið ákærða leyfi til að koma inn á snyrtinguna. Hafi það verið rétt áður en stúlkan hafi farið inn á snyrtinguna. Að því er varðaði kynlífsathafnir þeirra þá hafi stúlkan gefið ákærða leyfi fyrir þeim. Þau hafi eins og áður sagði farið að kyssast inni á bás salernisins. Hafi verið alveg ljóst um leið og þau hafi farið að snerta hvort annað að kynlíf hafi verið það sem hún hafi viljað. Hægar og næmar snertingar hafi verið þeirra á milli. Um atburði tengda samræðinu inni á snyrtingunni bar ákærði með sama hætti og áður hjá lögreglu. Er þau hafi verið búin að ræða saman stutta stund hafi hann spurt hana hvort hann mætti fá símanúmer hennar. Vegna tungumálaerfiðleika hafi orðið úr að hann hafi rétt henni símann sinn og hún ritað símanúmer sitt í síma ákærða. Stúlkan hafi hringt úr síma sínum í síma ákærða og þannig hafi símanúmerið vistast. Ekki hafi ákærði kannað hvort símanúmer hennar væri enn í síma sínum. E hafi hringt og spurt hvort þau væru búin, en hann hafi vitað hvað hafi verið í gangi á milli ákærða og stúlkunnar. Hafi ákærði sagt að hann væri að koma. Hann og stúlkan hafi gengið út af snyrtingunni og út ganginn að stiganum. E hafi staðið við stigann og horft út ganginn. Þá hafi þau veitt því athygli að stúlkan hafi enn verið með nærbuxur og sokkabuxur um ökkla. Ákærði og E hafi farið að hlæja en stúlkan ekki hlegið. Hafi hann sagt við stúlkuna að hann þyrfti að fara. Hafi stúlkan þá snúið við inn á salernið. Ákærði hafi farið upp og reykt hálfa sígarettu. Hafi hann sagt við E að hann yrði að fara niður í kjallara til að kanna með stúlkuna þar sem hún hafi ekki verið komin upp. Hafi hann farið niður og opnað hurð að salerninu. Stúlkan hafi verið hágrátandi inni á einum bás snyrtingarinnar. Er hann hafi spurt af hverju hún væri að gráta hafi hún svarað ,,nothing“. Aðspurð hafi hún ekki svarað því frekar. Hún hafi beðið hann um að láta sig í friði. Þau hafi gengið út af salerninu og fram á gang. Ekki hafi hún svarað er hann hafi spurt hvað væri að. Þau hafi gengið í átt að stiganum er þau hafi mætt barþjóni sem ekki hafi verið íslenskur. Barþjónninn hafi spurt stúlkuna hvað amaði að. Stúlkan hafi svarað á ensku að ekkert hafi komið fyrir. Hún hafi beðið barþjóninn um að biðja ákærða um að láta sig í friði. Barþjónninn hafi beðið ákærða um að fara. Stúlkan hafi sagt að ákærði hafi misnotað sig og um leið hent sér um háls barþjónsins. Ákærði hafi neitað þessu en barþjónninn sagt honum að koma sér í burtu. E hafi á þessum tímapunkti verið á 1. hæð. Barþjónninn hafi talað um að hringja á lögreglu. Stúlkan hafi hins vegar sagt að hann skyldi ekki gera það. Það hafi hún endurtekið. Stúlkan hafi farið frá þjóninum. Ákærði kvaðst hafa farið að hlæja, gengið upp stigann og farið að barnum á 1. hæð. Þar hafi hann drukkið hálfan bjór og rætt við E. E hafi haft á orði að lögregla myndi koma. Hafi ákærði sagt við E að hann myndi ætla að bíða eftir lögreglu enda óþarfi að hlaupa á brott. Ákærði hafi ákveðið að fara út og bíða þar eftir lögreglu. E hafi farið út með honum. Hafi þeir séð barþjóninn sem hringt hafi á lögreglu. E hafi gengið hratt frá og ákærði elt hann og spurt hann hvert E væri að fara. E hafi ætlað heim og ekki viljað blanda sér í málið. Eftir að E var farinn hafi ákærði gengið aftur að hótelinu. Barþjónninn hafi þá bent einhverjum Asíumönnum á ákærða, sem gengið hafi hratt að honum. Eftir það hafi hann lent í þeim átökum er hann hafi áður greint frá. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið eftir að stúlkunni hafi blætt. Hann hafi hins vegar tekið eftir blóði í fötum sínum eftir að heim var komið. Hafi hann talið þetta vera blóð úr sér. Hafi ákærði þvegið blóðið úr buxunum sínum. Er ákærða var kynntur framburður A kvað hann framburð hennar rangan. Varðandi það af hverju ákærði hafi ekki gefið sig fram við lögreglu kvaðst ákærði hafa talið að atburðarás yrði túlkuð á rangan hátt þar sem hann hafi hlaupið á brott. Hafi hann rætt við F vegna þessa og F ráðlagt honum að bíða með að hafa samband við lögreglu. Kvaðst ákærði hafa talið að útlendingar nytu ekki sannmælis hér á landi. Er ákærða var kynnt að A hafi borið áverka eftir atburðinn kvaðst ákærði ekki hafa beitt stúlkuna ofbeldi. Hefði hann ekki skýringu á áverkum hennar.
Ákærði var í þriðja sinn yfirheyrður af lögreglu 28. mars 2007. Voru borin undir hann einstök atriði í framburði A við lögregluyfirheyrslu. Kvaðst ákærði vísa í fyrri framburð sinn um atvik. Ákærði kvað A hafa verið inni á salernisbás snyrtingarinnar er hann hafi komið inn á snyrtinguna. Þá kvaðst ákærði hafa afhent stúlkunni síma sinn og vita til þess að hún hafi slegið símanúmer inn í símann. Ekki vissi ákærði hvort hún hafi verið með eigin síma. Vissi ákærði því ekki hvort hún hafi hringt. Ákærði kvaðst telja að hann hafi verið með tvo síma þegar atburðir hafi átt sér stað. Þó væri hann ekki viss um það. Varðandi áverka á anus A kvaðst ákærði hafa ætlað að setja lim sinn óvart í endaþarm A. A hafi ekki viljað það heldur fá lim sinn í kynfæri sín. Þau hafi fyrst reynt að hafa samfarir standandi en síðan hafi hann sest á klósettið og hún sest ofan á hann. Þannig hafi þau haft samfarir. Ákærði kvað framburð A um athafnirnar á gólfi salernisins rangan þar sem ákærði hefði ekki getað komist fyrir við hliðina á klósettinu.
Ákærði var loks yfirheyrður af lögreglu 7. maí 2007. Ákærði kvaðst ítreka fyrri framburð um að hann hafi hitt stúlkuna í stiga uppi á 2. hæð hótelsins. Undir ákærða boru borin myndskeið úr eftirlitsmyndavélakerfi og tímasetningar í því sambandi. Var ákærði inntur eftir því af hverju hann hafi klætt sig í yfirhöfn eftir að hann hafi komið upp frá kjallaranum. Kvaðst ákærði hafa ætlað að fara á diskótek ásamt E. Þá voru ákærða kynnt tiltekin atriði í framburði E.
Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins 23. maí sl. greindi ákærði þannig frá atvikum að hann hafi í umrætt sinn hringt í E og þeir félagar mælt sér mót á Hótel Sögu. E hafi þá verið staddur á Sögu og verið að drekka bjór. Ákærði hafi mætt á hótelið og þeir félagar drukkið saman einn eða tvo bjóra. Ekki myndi ákærði hve lengi þeir hafi setið saman. Til hafi staðið að fara á diskótek. Þeir hafi hins vegar heyrt að diskótek væri á efri hæð hótelsins og mikið af fólki þar. Hafi þeir ákveðið að fara upp. Þeir hafi m.a. spjallað við tvær stúlkur. Þeir hafi síðan farið af diskótekinu og ætlað niður. Þeir hafi staðið á ganginum. Þá hafi komið að þeim stúlka sem hafi spurt um snyrtinguna. Hafi henni verið tjáð að salernið væri niðri. Hafi hún spurt hvar og ákærði sagt að það væri hægra megin. Stúlkan hafi farið niður og gengið til vinstri. Hafi hann sagt henni að fara til hægri. Þá hafi hún spurt hvar nákvæmlega snyrtingin væri. Hafi ákærði þá sýnt henni hvar snyrtingin var. Hafi þau orðið samferða niður og rætt saman á leiðinni. Þau hafi haldið utan um hvort annað á leiðinni. Stúlkan hafi verið með grænleitan drykk í glasi og ákærði fengið sopa af drykknum hjá henni. Hafi þau farið að kvennasnyrtingunni og mikið rætt saman. Hafi stúlkan m.a. spurt ákærða um aldur og hvar hann byggi. Hafi hann spurt stúlkuna að hinu sama. Er þau hafi verið komin að snyrtingunni hafi ákærði spurt hvort hann mætti koma með henni inn. Hafi hún samþykkt það. Þau hafi opnað hurð að salerninu saman. Í því hafi kona, sem hafi verið inni á snyrtingunni, stöðvað ákærða og bent honum á að snyrtingin væri fyrir konur. Hafi ákærði beðið fyrir framan snyrtinguna á meðan konan hafi verið þar inni. Eftir það hafi ákærði farið inn á snyrtinguna. Hafi stúlkan þá verið inni á salernisbás. Eftir að hún kom fram hafi ákærði spurt hvað þau ættu að gera. Hún hafi spurt ákærða hvort hann vildi drykk og hann þegið sopa. Þau hafi rætt saman og byrjað að kyssast. Stúlkan hafi kysst ákærða á móti. Eftir stutta stund hafi þau gengið inn á salernisbás sem hafi verið fjarri hurðinni inn á salernið. Þar hafi þau haldið áfram að kyssast og lokað hurð að básnum. Í framhaldi hafi þau byrjað að klæða hvort annað úr. Hafi hún verið samþykk því að lyfta kjól hennar upp. Þau hafi klætt hvort annað úr. Hún hafi viljað að ákærði beygði sig niður til að hann gæti sleikt kynfæri hennar. Hafi hún ýtt höfði hans niður í þeim tilgangi. Hafi ákærði gert það standandi. Síðan hafi hún sest niður. Þá hafi hún klætt ákærða úr buxum og byrjað að hafa við hann munnmök. Hafi stúlkan sjálf sett lim ákærða í munn sér. Síðan hafi hún staðið upp og þau reynt samfarir standandi. Það hafi ekki tekist. Hafi ákærði þá sest á klósettið og hún sest ofan á ákærða. Þannig hafi þau haft mök í stutta stund. Þau hafi síðan reynt aftur standandi en það ekki tekist. Hún hafi þá sest aftur yfir ákærða. Einhver hafi þá komið inn á salernið og hún athugað hvort hurð að salernisbásnum væri lokuð. Þau hafi flissað og talað saman. Stúlkan hafi viljað gefa ákærða símanúmer sitt og stimplað það inn í síma ákærða. Það hafi hins vegar ekki vistast því síminn hafi endurræst sig. Þau hafi haldið áfram að hafa mök þar til hún hafi sagt að nóg væri komið. Hafi hún þá viljað fara út. Ákærði kvaðst hafa séð blóð þegar þau hafi verið að ljúka við samfarirnar. Hafi hann tekið eftir því þegar hann hafi verið að klæða sig í buxur eftir athafnirnar. Ekki hafi ákærði haft hugmynd um ástæðu þess að blóð hafi verið á honum. Þau hafi ekki reynt mök um endaþarm. Stúlkan hafi greinilega verið ölvuð. Hafi hún m.a. rekið sig utan í veggi. Stúlkan hafi aldrei gefið til kynna að hún hafi verið andsnúin samræðinu. Þau hafi farið fram á gang hótelsins þar sem ákærði hafi séð E. Stúlkan hafi ekki alveg verið búin að klæða sig og E flissað af því. Ákærði og E hafi talað saman á pólsku og hlegið. Hún hafi sennilega ekki vitað af hverju þeir hafi verið að hlæja og farið aftur inn á snyrtinguna til að klæða sig. Ákærði hafi farið upp á efri hæðina til að ljúka við bjór. Hafi hann drukkið hálfan bjór og síðan farið að leita að stúlkunni til að athuga hvort ekki væri allt í lagi með hana. Þá hafi hann komið að henni þar sem hún hafi verið grátandi. Ákærði hafi viljað rétta henni bréf til að þurrka tárin. Hafi hann séð að hún var ölvuð. Stúlkan hafi viljað að ákærði léti sig í friði. Ekki hafi hún viljað að ákærði hringdi í sig næsta dag. Ákærði hafi reynt að ræða við stúlkuna en hún sagt ákærða að fara. Ákærði hafi farið upp og rætt við E og lokið við bjórinn sinn. Ákærði hafi viljað ræða við stúlkuna aftur en þá hafi barþjónn verið kominn til hennar. Stúlkan hafi þá verið grátandi. Hafi stúlkan verið spurð að því hvað væri að en hún sagt að ekkert væri að. Hún hafi hins vegar sagt við barþjóninn að hann ætti að segja ákærða að fara. Barþjónninn hafi ekkert sagt. Stúlkan hafi ekki viljað ræða við ákærða og ítrekaði að ákærði yrði að fara. Hafi hún sagt að ákærði hafi notað sig. Hafi hún kastað sér í fang barþjónsins. Barþjónninn hafi þá sagt ákærða að fara. Ákærði hafi farið upp og drukkið hálfan bjór og rætt við E. Ákærði hafi farið í yfirhöfn og farið út. Barþjónninn hafi rætt við einhvern í síma og bent á ákærða. Hafi hann sagt ákærða hafa gert stelpunni eitthvað. Ákærði hafi hins vegar sagt að hann hafi ekkert gert henni. Ákærði hafi þá verið sleginn í höfuðið og fengið verk í höfuðið. Þá hafi hann fengið spark í bakið og dottið í jörðina. Hafi hann náð að standa á fætur og hlaupið í burtu. Ákærði hafi ekki ætlað að flýja en hann hafi við árásina hlaupið á brott. Hafi hann hringt í móður sína og hún komið og náð í hann. Um ástæður þess að stúlkan hafi verið með áverka við endaþarm bar ákærði að skýring á þeim áverka geti verið að er stúlkan hafi sest ofan á ákærða hafi hún ef til vill sest vitlaust niður og limur ákærða þar með ekki farið á réttan stað. Þá kvað ákærði áverka á baki stúlkunnar hafa getað komið þegar stúlkan hafi sest á klósettið og þrýst baki að klósettinu. Þá hafi hún verið að hafa munnmök við ákærða. Ákærði kvað þau aldrei hafa haft kynmök á gólfi salernisins. Þar hefðu þau ekki komist fyrir.
A gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins 23. maí sl. Var framburður hennar fyrir dómi nokkuð á sama veg og við skýrslugjöf hjá lögreglu. Kvaðst hún hafa verið á árshátíð hjá veitingahúsakeðjunni Subway á Hótel Sögu. Hafi hún drukkið áfengi með mat um kvöldið. Áður en það hafi gerst hafi hún fengið sér einn Breezer á staðnum. Hafi hún ekki drukkið mikið áfengi þetta kvöld. Hún hafi verið undir áhrifum áfengis en ekki mjög ölvuð. Hún hafi ætlað á snyrtinguna. Hafi hún farið ein niður en hún hafi vitað af salerni í kjallara. Hafi hún komið að stiga þar sem þrír karlmenn hafi staðið. Hafi þeir talað saman á pólsku. Hafi hún spurt þá á ensku um snyrtinguna. Þeir hafi bent henni á að fara niður. Einn þeirra hafi spurt hvort hann ætti að fylgja henni niður. Hafi hún sagt að hann þyrfti þess ekki. Hún hafi spurt þá hvort þeir væru frá Póllandi. Hún hafi síðan farið niður. Einn mannanna hafi komið á eftir henni. Kona sem verið hafi á salerninu hafi ýtt manninum út. A hafi pissað á salerninu en orðið hrædd um að maðurinn kæmi inn á salernið. Hafi hún því beðið stutta stund. Er hún hafi komið fram af salernisbásnum hafi maðurinn verið kominn inn á salernið. Konan hafi þá verið farin af salerninu. Maðurinn hafi ýtt henni inn á þann salernisbás sem verið hafi lengst frá hurðinni inn á salernið. Hafi hann byrjað að kyssa hana og þukla á henni. Hafi henni brugðið mjög og ekki vitað hvað hún ætti að gera. Hafi hún fengið áfall. Það næsta er hún myndi hafi verið þar sem maðurinn hafi verið að taka sokkabuxur hennar niður og síðan ýtt henni niður á klósettið. Þá hafi hann tekið niður buxur sínar. Í framhaldinu hafi hann neytt hana til að opna munninn og sett liminn upp í hana. Síðan hafi hann ýtt henni niður af klósettinu og upp í horn á gólfinu. Maðurinn hafi farið ofan á hana og sett getnaðarlim sinn í leggöng hennar. Hún hafi verið í ,,kremju“ í horni bássins. Hún hafi fundið fyrir sársauka í baki við þetta. Maðurinn hafi ætlað að reyna að setja lim sinn í endaþarm hennar en hún þá fundið mikinn sársauka. Hafi hún náð að ýta manninum af sér og standa á fætur. Hafi hún verið í miklu áfalli. Hafi verið eins og hún hafi verið að ranka við sér af vondum draumi. Hafi hún sagt að hún vildi fara heim en hann sagt að hann væri ekki búinn og lokað hurðinni að básnum. Hafi hún heyrt eins og einhver hafi komið inn á salernið. Viðkomandi hafi farið strax út aftur. Hún hafi ekki getað öskrað. Hún hafi síðan náð að toga í hurð að básnum og taka úr lás. Eftir að hún hafi náð að taka úr lás hafi henni tekist að komast út úr básnum. Maðurinn hafi komið á eftir henni út úr básnum og að vöskunum á salerninu. Hafi hún ætlað út af salerninu en hann farið á undan henni út. Fyrir utan salernið hafi hún heyrt manninn hlæja en þá hafi hann verið með tveimur vinum sínum. Hafi A verið litið niður og hún séð að hún hafi verið með sokkabuxurnar á hælunum og blóð á læri. Hafi hún farið aftur inn á salernið til að lagfæra sokkabuxurnar. Er hún hafi farið aftur út af salerninu hafi þjónn af hótelinu verið kominn niður. Hafi hún farið til hans og þá verið grátandi. Hafi hún bent á ákærða og hann þá flúið af staðnum. Hún hafi farið upp á efri hæð og beðið þar til lögregla hafi komið á staðinn. Eftir það hafi hún farið á neyðarmóttöku. A kvaðst hafa verið mjög slæm vegna áverkanna í bakinu í um 2 mánuði eftir atburðinn. Hún hafi við aðfarirnar fengið sár við endaþarminn sem gert hafi það að verkum að hún hafi í um einn og hálfan mánuð átt mjög erfitt með að sitja. A kvaðst hafa fengið áverka á bakið er henni hafi verið ýtt upp í horn salernisbássins. Ekki væri hún viss um hvernig hún hafi fengið áverka á hnéð. Öll atburðarásin hafi sennilega tekið um 20 til 30 mínútur. Allt hafi gerst mjög hratt. A kvaðst telja að áfengi hafi haft einhver áhrif á hana þetta kvöld. Þó hafi það sjokk sem hún hafi fengið haft mest áhrif. Hafi hún einfaldlega ekki vitað hvað væri að gerast. Maðurinn hafi aldrei spurt hana að því hvort hún vildi hafa við hann samfarir. Ekki kvaðst A muna hvort maðurinn hafi gengið samferða henni niður að salerninu þessa nótt. Þá kvaðst hún nú ekki muna hvort hún hafi verið með glas í hendi á þeim tíma. Hún kvaðst muna að hún hafi aldrei gefið manninum leyfi til að fara inn á kvennasnyrtinguna. A kvaðst vera 158 cm á hæð. A kvaðst muna aðalatriði atburðanna nokkuð vel. Hún kvaðst ekki hafa rætt við ákærða frammi á gangi fyrir framan salernið. A kvaðst viss um að ákærði hafi notað báðar hendur er hann hafi ýtt henni inn á salernisbásinn. Hafi hún við það farið aftur á bak inn á básinn. Allt hafi gerst mjög hratt og áður en hún hafi vitað af hafi hlutirnir gerst. Hún hafi frosið til að byrja með og fundist eins og hana væri að dreyma. Er hún hafi fundið sársaukann hafi hún rankað aðeins við sér og hugsað að hún þyrfti að komast í burtu. Hafi hún reynt að ýta manninum af sér en hann hafi ekki hætt. Undir A var borið að hún hafi við fyrri aðalmeðferð málsins borið að ákærði hafi sleikt kynfæri hennar. Kvað A það geta staðist en hún hafi sennilega munað hluti betur þá. Atburðirnir hafi haft mjög slæmar afleiðingar fyrir A Gæti hún enn ekki farið ein út að ganga. Hafi hún ekki getað sofið á nóttinni og alltaf þurft að hafa einhvern hjá sér. Ætti hún erfitt með að treysta fólki. Væri hún enn ekki búin að jafna sig. Væri hún taugaveikluð og með skapsveiflur.
G gaf skýrslu hjá lögreglu 21. mars 2007 og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins 23. maí. G kvaðst hjá lögreglu hafa verið með hópi fólks þetta kvöld og hafa verið stödd á Mímisbar. Hafi þau pantað sér drykk og hún ákveðið að bregða sér á salernið á meðan beðið hafi verið eftir drykkjum. Hafi hún gengið ein niður stiga og þar inn á kvennasnyrtinguna. Hafi hún pissað og snyrt sig eftir á við vaskinn. Á meðan hún hafi verið að ganga frá snyrtidóti sínu hafi stúlka komið inn á snyrtinguna. Fljótlega eftir að stúlkan hafi komið inn á salernið hafi G farið út af salerninu. Er hún hafi opnað hurð fram á ganginn hafi verið staddur þar strákur sem G hafi fundist sem ætlaði inn á kvennasalernið. Hafi G litið á strákinn og gefið honum til kynna með augunum að hann ætti ekki að fara inn á þessa snyrtingu. Hafi G gengið ganginn að stiganum en litið við rétt áður en hún hafi komið að stiganum. Hafi hún ákveðið með sjálfri sér að athuga hvort strákurinn færi inn á snyrtinguna eða hvað hann væri að gera. Það hafi verið greinilegt að hann hafi ekki verið að ruglast á snyrtingum. Ekkert hafi bent til að þessi stúlka og strákurinn væru saman. Hafi það verið einhver tilfinning sem G hafi fengið. Fyrir dómi bar G að mestu á sama veg. Kvaðst hún hafa gefið sig fram við lögreglu eftir að lýst hafi verið eftir konu sem hafi verið á snyrtingunni þessa nótt. Stúlkan hafi farið rakleitt á salernisbásinn. Hafi G verið að opna dyrnar að salerninu um leið og strákurinn hafi ætlað inn á salernið. Hafi hann staðið áfram við hurðina eftir að G hafi farið út. Hafi henni fundist sem strákurinn væri að bíða eftir því að G færi á brott. Hún hafi ekki séð manninn og stúlkuna koma saman að salerninu.
E gaf skýrslu hjá lögreglu í þrígang. Var það í fyrstu 18. mars 2007 og síðan næsta dag á eftir. Loks var E yfirheyrður 25. apríl 2007. Kvaðst E hafa komið á Hótel Sögu í umrætt sinn til að hitta vinkonu sína. Hafi E komið um kl. 18.00 og farið rétt um kl. 23.00. Hafi hann hitt þessa vinkonu sína og rætt við hana. Þá hafi E rætt við pólskan barþjón sem unnið hafi á staðnum. Hafi hann setið við barinn og drukkið bjór. Einnig hafi hann hitt Pólverja, sem sennilega hafi heitið Norbert eða Robert. Þann mann hafi E aldrei hitt áður og vissi ekki nein frekari deili á honum. Hafi hann fengið símanúmer mannsins þar sem þeir hafi ef til vill ætlað að hittast síðar. Símanúmer mannsins hafi verið [...] Hafi maðurinn lýst því hvað hann væri búinn að vera lengi á Íslandi og hvað hann ætlaði að dvelja lengi hér á landi. Er þar var komið sögu í yfirheyrslunni kvaðst E vilja breyta fyrri framburði sínum. Kvaðst hann hafa séð þennan mann fara með stelpu á snyrtinguna. Hafi E fengið sér sígarettu á meðan. Strákurinn hafi komið aftur og stúlkan þá verið grátandi. Hafi E sagt drengnum frá því og drengurinn þá farið og rætt aftur við stúlkuna. Þá hafi stúlkan verið að ræða við Spánverja sem hafi verið að vinna á bar hótelsins. Í framhaldinu hafi drengurinn komið aftur og sagt að best væri að þeir færu. Hafi drengurinn sagt að stúlkan hafi sagt að hann hafi misnotað hana. Því væri best að þeir færu. Drengurinn hafi hlaupið út og E farið á eftir. Ekki vissi E hvert drengurinn hafi hlaupið en E hafi farið heim til sín að [...]. Á leiðinni hafi hann séð lögreglubifreiðar aka um svæðið. Eftir að hann hafi séð drenginn hlaupa frá hótelinu hafi hann ekki séð hann. Drengurinn hafi hins vegar hringt í E nokkrum sinnum og þeir rætt um að lögregla hafi komið á hótelið. Hafi E sagt við drenginn að best væri að hann gæfi sig fram við lögreglu. Hafi drengurinn sagt að hann hafi ekki nauðgað stelpunni. E kvaðst hafa yfirgefið hótelið þar sem hann hafi áður lent í svipuðum aðstæðum og verið handtekinn vegna stúlku sem hafi átt að vera nauðgað. Hafi hann ekki viljað lenda í frekari vandræðum. E kvaðst fyrst hafa hitt drenginn á bar í miðbæ Reykjavíkur þar sem þeir hafi drukkið saman bjór. Hafi drengurinn einu sinni komið heim til E og þá gist hjá E. Á þessum tíma í yfirheyrslunni var E tilkynnt að hann væri handtekinn, grunaður um að reyna að hylma yfir með óþekktum aðila sem væri grunaður um nauðgun. Var honum kynnt réttarstaða sín. Er E var spurður að því hvort hann vildi tjá sig eitthvað frekar kvaðst E ásamt drengnum hafa staðið við bar á hótelinu. Hafi þeir eftir það farið að stiga þar sem gengið væri niður að snyrtingu. Hafi þeir farið þangað niður og staðið þar þegar stúlka hafi komið og drengurinn stöðvað hana. Hafi hann byrjað að tala við hana en síðan hafi þau bæði farið niður. Á meðan hafi E farið á barinn. Síðan hafi E sjálfur farið niður á snyrtinguna og litið inn á kvennasnyrtinguna. Hafi hann séð að einn básinn var læstur. Hafi E farið á karlasnyrtinguna og í framhaldi aftur upp á barinn. Eftir um 10 til 15 mínútur hafi drengurinn komið upp aftur. Hafi hann tjáð E að hann hafi verið með þessari íslensku stelpu niðri á salerninu og að þau hefðu haft samfarir. E hafi séð stelpuna grátandi og Spánverji staðið hjá henni á móts við kvennasnyrtinguna. Hafi E tjáð drengnum að eitthvað væri að og hafi drengurinn þá farið niður til að tala við stúlkuna. Hafi hann komið upp aftur og þá sagt að stúlkan hafi sagt að drengurinn hafi misnotað sig. Hafi drengurinn síðan gengið út og E ákveðið að fara á eftir honum. Síðan hafi drengurinn hlaupið burt. Hafi E heyrst sem starfsmaður hótelsins hafi öskrað á eftir drengnum. E hafi gengið heim til sín.
E var yfirheyrður næsta dag. Var framburður hans að mestu leyti á sama veg og áður. Kvaðst E hafa hitt ákærða á bar á 1. hæð hótelsins. Þeir hafi farið að spjalla saman og í framhaldi gengið upp á hæðina fyrir ofan. Þar hafi þeir drukkið áfengi og gert sér dælt við stúlkur. Hafi þeir ákveðið að fara aftur niður á barinn á hæðinni fyrir neðan. Hafi þeir gengið tveir saman niður stigann. Verið geti að B hafi þá verið með þeim. Þar hafi þeir rekist á stúlku fyrir miðjum stiga á leið niður á barinn. Ákærði hafi gengið til hennar og tekið hana tali. E hafi hins vegar gengið áfram niður stigann og ekki viljað trufla þau tvö. E hafi farið á barinn en séð ákærða og stúlkuna ganga í átt að kvennasnyrtingunni. Hafi þau gengið eðlilega og rætt saman. Án þess að hafa séð það hafi E reiknað með að þau hafi farið inn á kvennasnyrtinguna. Hafi E farið á barinn og sagt við barþjóninn að pólskur maður hafi farið með stúlku inn á klósettið. Eftir um 5 til 7 mínútur hafi E ákveðið að forvitnast um ákærða. Hafi hann litið inn á kvennasnyrtinguna og séð að einn básinn hafi verið lokaður. Ekki hafi hann verið læstur, eins og E hafi greint frá í fyrri skýrslu sinni. Hafi hann heyrt andardrátt eins og um hafi verið að ræða kynmök milli tveggja aðila. Hafi E gengið strax út. Hafi hann farið á barinn og hitt þar B. Hafi þeir fengið sér bjór og rætt saman. Eftir um 5 til 10 mínútur hafi ákærði komið út af kvennasnyrtingunni. Ekki hafi E hafi yfirsýn yfir dyrnar en séð ákærða koma ganginn frá snyrtingunum. Ákærði hafi gengið til E og sagt að hann hafi verið með íslenskri stelpu á snyrtingunni og haft við hana samfarir. E hafi litið niður og séð að stelpan var þar grátandi á ganginum við snyrtinguna. Þar hafi hún verið að ræða við spænskan barþjón. Hafi E upplifað það þannig að eitthvað óeðlilegt hafi átt sér stað. Hafi E fundist stúlkan líta út eins og hún hafi verið misnotuð. Hafi E tjáð ákærða að stúlkan væri grátandi og ákærði farið til hennar og barþjónsins. Ákærði hafi komið til baka og sagt að stúlkan hafi sagt að hún hafi verið misnotuð af ákærða. Jafnframt hafi ákærði sagt að hann ætlaði að stinga af. Ákærði hafi gengið út af hótelinu og E farið á eftir honum. Fyrir utan hótelið hafi þeir gengið í sitthvora áttina. Einhver hafi hrópað eitthvað á íslensku. Hafi E verið orðinn mjög stressaður. Ákærði hafi hlaupið í burtu og horfið sjónum. E hafi gengið heim til sín. Næsta dag hafi E og ákærði verið í símasambandi. Hafi E sagt ákærða að gefa sig fram við lögreglu. Hafi ákærði sagt að hann ætlaði ekki að gefa sig fram við lögreglu. Ekki hafi verið um nauðgun að ræða.
E var farinn af landi brott við aðalmeðferð málsins 23. maí 2008. Fyrir milligöngu yfirvalda í Póllandi var tekin símaskýrsla af E við aðalmeðferðina. E kvaðst hafa verið á Hótel Sögu umrætt sinn. Hafi hann verið búinn að mæla sér mót við kunningja sem ekki hafi komið. Hafi E setið við bar og drukkið. Ákærði hafi hringt í E og í kjölfarið komið á staðinn. Hafi þeir setið við barinn, drukkið og spjallað saman. Tónlist hafi verið á efri hæð og þeir farið þangað. Þar hafi þeir einnig setið og drukkið bjór. Hafi þeir ætlað niður á bar á hæðinni fyrir neðan. Þá hafi komið að þeim íslensk stelpa og spurt um snyrtinguna. Ákærði hafi spjallað við stelpuna og sýnt henni hvar snyrtingin var. Þau hafi farið niður og E farið á barinn á 1. hæð. Ákærði hafi komið einhverju síðar og sagt að hann hafi verið með íslensku stelpunni. Hafi E séð stúlkuna grátandi að ræða við starfsmann hótelsins. Hafi E sagt við ákærða að eitthvað væri að. Ákærði hafi í framhaldi rætt við stúlkuna. Hafi hann komið aftur og sagt að stúlkan héldi því fram að ákærði hefði nauðgað sér. Hafi ákærði sagt að það væri ekki rétt og í framhaldi yfirgefið hótelið. Ákærði og E hafi farið á sama tíma út af hótelinu en ákærði farið í aðra átt en E. Ekki mundi E eftir því hvort einhverjir hafi verið fyrir utan hótelið. Aðspurður kvaðst E ekki muna eftir því hvort stúlkan hafi verið með glas í hendi er hún hafi verið á leið niður stigann. Hún og ákærði hafi gengið venjulega niður stigann og talað saman. E kvaðst ekki hafa séð ákærða fara inn á kvennasnyrtinguna, einungis ganga í áttina að henni. E kvaðst hafa farið inn á kvennasalernið einhverju síðar. Hafi einn básinn verið lokaður og E heyrt kynlífshljóð. Hafi hann farið inn á snyrtinguna þar sem hann hafi talið ákærða vera þar inni.
H kvaðst umrætt sinn hafa starfað á bar á Hótel Sögu. Vinur hans, E, hafi ætlað að hitta stúlku á hótelinu þetta kvöld vegna einhverrar íbúðar. Þau hafi hist og E komið aftur um kvöldið. Ákærði hafi komið á hótelið og hitt E. Ákærða hafi H hitt þarna í fyrsta sinn. E hafi hringt í ákærða og beðið hann um að hitta sig á hótelinu. E og ákærði hafi spjallað saman. Ekki hafi H orðið sérstaklega var við samskipti E og ákærða við barinn. Um miðnættið hefði samstarfsmaður, þjónn að nafni I, komið og sagt að vinur H hefði gert eitthvað. Er borið var undir H framburður hans í lögregluskýrslu um að E og ákærði hafi setið við barinn og ákærði farið að monta sig af því að hafa átt samfarir við íslenska stúlku á hótelinu kvaðst H ekki muna það lengur. Kvaðst H hins vegar muna það að ákærði og E hafi komið aftur á barinn eftir einhverja atburðarás á snyrtingunni. Ekki hafi H orðið var við það er ákærði yfirgaf hótelið. Ákærði hafi drukkið nokkra bjóra þetta kvöld en ekki gæti H sagt að ákærði hafi verið drukkinn.
I kvaðst hafa verið við störf á Hótel Sögu þetta kvöld. Hafi hann ákveðið að fara á salernið á neðri hæð hótelsins. Þar hafi hann komið að stúlku sem hafi verið grátandi. Hafi hann spurt hana hvað hafi komið fyrir. Hafi hún sagt að drengur hafi gert eitthvað við hana. Hafi I spurt hvar drengurinn væri. Í því hafi drengur komið frá kvennasnyrtingunni. Hafi I spurt hann hvort hann hafi verið að reyna eitthvað við stelpuna. Hafi drengurinn sagt að hann hafi reynt að fá símanúmer frá stúlkunni. Í kjölfarið hafi hann farið á brott. Með þessum dreng hafi verið annar maður. Stúlkan hafi verið grátandi. Hafi verið ákveðið að hringja á lögreglu. Er tekin var skýrsla af I hjá lögreglu greindi hann frá því að hann hafi ekki tekið eftir neinu öðru fólki í kjallara hótelsins en stúlkunni, drengnum og vini hans. Stúlkan hafi sagt I á ensku hvað hafi gerst og hafi honum skilist á henni að drengurinn hafi nauðgað henni eða reynt að nauðga henni. Hafi stúlkan sagt að atburðurinn hafi gerst inni á kvennasnyrtingunni. Er hann hafi áttað sig á hvað stúlkan væri að segja hafi hann sagt að þau ættu að fara upp og hringja á lögregluna. Er þau hafi komið upp hafi þau sagt starfsmanni í gestamóttöku frá þessu. Hafi I og viðkomandi starfsmaður í sameiningu ákveðið að leita að drengnum. Hafi þeir veitt því athygli að drengurinn og vinur hans hafi verið komnir út úr hótelinu. Hafi I farið á eftir drengnum og kallað á eftir þeim. Drengurinn og félagi hans hafi þá hlaupið á brott. Ekki hafi I komið við drenginn á flóttanum.
C kvaðst hafa verið við störf á Hótel Sögu þetta kvöld. Hafi C starfað í gestamóttöku hótelsins. Að móttökunni hafi komið stúlka og beðið um hjálp. Hafi C spurt hana hvað hafi gerst. Hafi hún tjáð honum að hún hafi orðið fyrir kynferðisbroti niðri í kjallara. Hafi hún ekki sagt að sér hafi verið nauðgað, heldur að á hana hafi verið ráðist. Hafi hún verið mjög hrædd og óttaslegin. Hafi C látið hana bíða við gestamóttökuna. Spænskur starfsmaður hótelsins hafi komið að og sagst þekkja manninn. Hafi þeir farið að útgangi hótelsins og séð tvo menn yfirgefa hótelið. Hafi hinn spænski samstarfsmaður sagt að um væri að ræða þann sem hafi verið í kjallaranum með stúlkunni. Hafi þeir reynt að hefta för mannanna. Hafi mennirnir hundsað beiðni C og farið burtu. Hafi C gengið á eftir mönnunum út af hótelinu og endurtekið beiðni um að fara ekki þar sem hann þyrfti að ræða við þá. Hafi C gengið alla leið að biðskýli fyrir strætisvagna við Hagatorg. Mennirnir hafi hlaupið í átt að Landsbankanum við Hagatorg. C hafi ekki snert mennina. Þeir hafi hlaupið saman frá hótelinu.
F kvaðst hafa tengst ákærða í tengslum við blaðburð. Hafi ákærði um hríð verið við blaðburð ásamt móður sinni. Ætti F heima skammt frá heimili ákærða í Hafnarfirði. Hafi ákærði komið nokkrum sinnum á heimili F. Laugardagskvöldið 17. mars 2007 hafi ákærði bankað á dyrnar hjá F og viljað ræða við hann einslega. Í viðræðum við ákærða hafi F skilist sem ákærði væri í einhvers konar vandræðum og um væri að ræða einhvers konar lögreglumál. Sökum tungumálaerfiðleika hafi F ekki skilið vel hvað ákærði ætti við. Hafi F sagt ákærða að ef um væri að ræða lögreglumál þá ráðlegði F ákærða að fara til lögreglu til að skýra mál sitt. Ekki hafi F ráðlagt ákærða að bíða með að hafa samband við lögreglu.
J, móðir ákærða, kvaðst hafa sótt son sinn til Reykjavíkur aðfaranótt 17. mars 2007. Hafi hann hringt í móður sína um kl. 12.00 þetta kvöld og hún sótt hann að Perlunni við Öskjuhlíð. Ekki hafi hún tekið eftir neinu óvenjulegu við son sinn þetta kvöld. Ekki hafi hún séð áverka á honum, en dimmt hafi verið úti og hún þreytt. Hafi hún því ekki tekið almennilega eftir hvernig hann hafi litið út. Hafi ákærði tjáð henni að hann hafi lent í áflogum og vildi koma heim. Ekki hafi hún séð að hann væri með blóðnasir. Þá hafi hann ekki rætt um neina íslenska stelpu.
Ósk Ingvarsdóttir sérfræðingur á neyðarmóttöku Landspítala staðfesti skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola. Gerði hún grein fyrir einstökum atriðum í skýrslunni. Nokkurn tíma hafi tekið að nálgast sjúkrasögu stúlkunnar en hún hafi grátið talsvert og verið í greinilegu uppnámi. Hún hafi verið hrædd, óttaslegin og umkomulaus. Áverkar hafi verið á baki, lærum og við kynfæri. Blóðlitaður vökvi hafi verið í leggöngum. Sá vökvi hafi komið frá djúpri sprungu fyrir framan endaþarm og borist þaðan í leggöngin. Hafi Ósk fundist stúlkan trúverðug en hún hafi lýst kynferðislegu ofbeldi sem hún hafi talið sig verða fyrir. Hafi áverkar komið heim og saman við þá sögu er stúlkan hafi greint frá. Stúlkan hafi komið í endurkomu. Þá hafi verið athugað með hvort sár gréru. Hún hafi þá verið slæm í herðum og hálsi. Áverki við kynfæri hafi þá verið gróinn. Áverka við endaþarm hafi verið lýst nánar við endurkomu þar sem lýsing hafi ekki verið eins nákvæm við fyrstu komu. Staðsetning á skurði við endaþarm hafi tengsl við tilvik þar sem reynt sé að fara þar inn. Við tilraunir til innþrengingar séu oftast áverkar ,,kl. 12 og kl. 6“. Staðsetning áverka hafi komið heim og saman við þrýsting ofanfrá. Ekki væri þó hægt að fullyrða um atburðarásina út frá áverkanum einum.
Geir Guðmundsson læknir staðfesti réttarlæknisfræðilega skoðun á ákærða. Gerði hann grein fyrir helstu niðurstöðum skoðunarinnar.
Gunnar Hrafn Birgisson sérfræðingur í klínískri sálfræði staðfesti sálfræðiskýrslu um A, sem dagsett er 26. apríl 2007. Gerði Gunnar grein fyrir helstu niðurstöðum skýrslunnar. Staðfesti Gunnar að A hafi greinst með einkenni áfallastreituröskunar. Hafi hún lent í einelti í 9. bekk grunnskóla. Unnt væri að rekja einkenni áfallastreituröskunar til þess tilviks sem væri til meðferðar eða eineltisins frá því í grunnskóla.
Sigurður Páll Pálsson geðlæknir staðfesti geðheilbrigðisrannsókn á ákærða frá 29. maí 2007. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar væri ákærði sakhæfur. Ákærða hafi liðið illa á meðan hann hafi verið í gæsluvarðhaldi. Hafi hann greinst með þunglyndi, kvíða og spennu. Málhömlunin hafi verið ákveðið vandamál þar sem hann hafi við álag átt erfitt með að tjá sig. Ákærði hafi verið í mikilli sorg í upphafi varðhaldsins.
Lögreglumennirnir K, L og M staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins. Kvaðst K hafa rætt við brotaþola á Hótel Sögu umrædda nótt. Hafi stúlkan verið í miklu uppnámi og grátið mikið. Hún hafi verið eitthvað undir áhrifum áfengis. L kvaðst hafa ritað frumskýrslu lögreglu vegna málsins. Samstarfsfélagi L, K, hafi rætt við brotaþola. L hafi hins vegar séð um að tryggja vettvang og fleira. Frumskýrsla lögreglu endurspegli þau viðtöl er tekin hefðu verið við vitni á vettvangi. M kvaðst hafa farið á neyðarmóttöku og rætt þar við brotaþola. Hafi M punktað niður hjá sér þau atriði sem fram hafi komið sem hann hafi sett í eigin skýrslu. Stúlkan hafi verið í sjokki. Kæruskýrsla hafi verið tekin af stúlkunni næsta dag. Greinilegt hafi verið að stúlkan hafi orðið fyrir áfalli. Hafi hún skolfið og liðið illa. Hún hafi verið eitthvað undir áhrifum áfengis.
Niðurstaða:
Ákærða er gefið að sök kynferðisbrot, með því að hafa á salerni í kjallara Hótel Sögu aðfaranótt 17. mars 2007 þröngvað A til samræðis og annarra kynferðismaka. Er honum gefið að sök að hafa ýtt henni inn á salernisbás og haldið henni þar á meðan hann kom fram vilja sínum sem fólst í því að hafa munnmök við stúlkuna, sleikja á henni kynfærin, hafa við hana samræði og reyna að setja getnaðarlim í endaþarm hennar.
Fyrir liggur framburður ákærða, A og vitnisins E um aðdraganda þess er A og ákærðu hittust í fyrsta sinn. Var A þá á leið á salerni sem er í kjallara Hótel Sögu. Ekki er neinn grundvallarmunur á þessum framburðum. Er það þó einna helst um það hvort A hafi komið að ákærða og E í stiga á 2. hæð hótelsins, eða hvort það hafi verið í stiga upp á 1. hæð. Hefur það atriði ekki úrslita þýðingu um niðurstöðu málsins. Ber ákærða og A saman um að ákærði hafi bent A á að salernið væri í kjallara hótelsins. Ákærði kveðst hafa boðist til að fylgja henni á salernið. Ber A á sama veg um það atriði. Ákærði kveður A hins vegar hafa samþykkt að hann fylgdi henni á salernið, en fyrir það þvertekur hún. Þá hefur ákærði haldið því fram að hann hafi á leið niður stigann haldið utan um mitti A eða stutt hana til að hún myndi ekki hrasa í stiganum. Ekki kannast A við það atriði heldur. E hefur heldur ekkert fullyrt um þessi atriði. Verður þar af leiðandi engu slegið föstu í þessum efnum.
Um atvik inni á salerninu ber framburðum ákærða og A hins vegar engan veginn saman. Ákærði hefur lýst því að A hafi verið samþykk samræði. Hafi hún farið með ákærða inn á salernisbás. Þar hafi þau klætt hvort annað úr fötum. Hún hafi haft munnmök við ákærða og ákærði sleikt kynfæri hennar. Að því búnu hafi þau reynt að hafa samfarir standandi. Er það hafi ekki tekist hafi ákærði sest á klósettið og A sest ofan á ákærða. Þannig hafi þau haft samfarir. Þau hafi á engum tíma lagst á gólfið á salerninu. Aðspurður um áverka er A hlaut við aðfarirnar kvaðst ákærði þeirrar skoðunar að áverka á baki hafi A fengið við að reka sig í klósettkassa þegar hún hafi haft munnmök við ákærða. Áverka við endaþarm hafi hún sennilega fengið við það að setjast rangt ofan á ákærða sem hafi leitt til þess að limur ákærða hafi myndað skurðinn við endaþarminn. Á þessum áverka gaf ákærði reyndar aðra skýringu í skýrslu sinni hjá lögreglu. A hefur hins vegar borið á þann veg að ákærði hafi fyrirvaralaust ýtt henni inn á salernisbásinn, þar sem hann hafi byrjað að kyssa hana og káfa á henni. Hafi hún frosið við þetta og fundist sem þessir atburðir væru ekki að gerast. Ákærði hafi tekið niður um hana buxur og sokkabuxur og því næst þrýst henni niður á klósettið. Hann hafi með ofbeldi sett getnaðarlim sinn upp í munn hennar. Því næst hafi hann sleikt á henni kynfærin. Loks hafi hann ýtt henni niður á gólf salernisbássins og þar upp í horn. Þar hafi hann farið ofan á hana, sett getnaðarlim sinn í leggöng hennar og haft við hana samfarir. Hún hafi fundið fyrir skerandi sársauka þegar ákærði hafi reynt að setja lim sinn í endaþarm hennar. Hafi hún rankað við sér og tekist að komast undan ákærða og á fætur og út af salerninu. Hafi ákærði varnað henni för út af salernisbásnum, en henni að lokum tekist að komast á brott. Fyrir utan salernið hafi hún rekist á spænskan barþjón og greint honum frá því sem fyrir hafi komið.
Svo sem jafnan er í málum af þessum toga er í grundvallaratriðum munur á framburðum ákærða og brotaþola. Er engum vitnum til að dreifa um þá atburði sem mestu skipta máli fyrir niðurstöðu, sem eru atburðirnir inni á salerninu. Ræðst niðurstaða því að meginstefnu til af mati á trúverðugleika framburða ákærða annars vegar og A hins vegar. Við mat á niðurstöðu er í upphafi til þess að líta að ákærði og A þekktust ekkert fyrir þann tíma sem þau hittust í stiganum. Af framburðum þeirra og vitnisins E má ráða að þau hafi einungis rætt saman í stutta stund í stiganum og samtalið að mestu snúist um hvar salerni væri að finna á hótelinu.
Framburður A hefur að mati dómsins verðið einkar trúverðugur. Hefur hún verið staðföst í framburði sínum um öll þau meginatriði málsins er máli skipta fyrir niðurstöðu. Hafa nokkur vitni lýst því að hún hafi verið grátandi, verið í sjokki og í miklu uppnámi eftir að hún kom út af klósettinu. Bendir sú staðreynd til þess að eitthvað alvarlegt hafi gerst inni á salerninu. Þá fær framburður hennar um atvik inni á salerninu mikla stoð í gögnum málsins. Er það einkum í ljósi þeirra áverka sem hún hlaut þessa nótt. Var hún í fyrsta lagi með áverka á baki. Samrýmast þeir þeim framburði hennar að hún hafi legið á gólfi salernisins á meðan ákærði hafi haft við hana samfarir. Er ákaflega ósennileg sú skýring ákærða að áverka þessa hafi stúlkan fengið af klósettkassa þegar hún hafi setið á klósettinu og haft við hann munnmök. Í öðru lagi hefur hún lýst því að hún hafi legið kramin upp í horni salernisbássins á meðan ákærði hafi haft við hana samfarir. Fær sá framburður hennar stoð í því að við endurkomu á neyðarmóttöku 27. mars 2007 var hún greind með harðsperrur í herðum og hálsi. Ákærði hefur hins vegar með engu móti viljað kannast við að þau hafi haft samfarir á gólfinu. Í þriðja lagi þykir áverki við endaþarm renna styrkum stoðum undir þann framburð stúlkunnar að ákærði hafi reynt að setja getnaðarlim sinn í endaþarm hennar þar sem hún var liggjandi á gólfinu. Ósk Ingvadóttir læknir á neyðarmóttöku bar fyrir dóminum að út frá áverkanum einum saman væri ekki unnt að fullyrða um þær aðstæður sem hann hafi skapast við. Ósk hefur hins vegar staðhæft í réttarlæknisfræðilegri skýrslu sinni að meta megi í ljósi reynslu að áverkinn hafi komið við tilraun til innþrengingar í endaþarm. Ljóst má vera að töluvert afl hefur þurft til að skurður þessi myndaðist. Er fjarstæðukennd sú skýring ákærða að skurðurinn hafi komið við það að stúlkan hafi setið ofan á ákærða og að limur hans hafi ekki ratað á réttan stað. Við þær aðstæður ætti A að réttu lagi að hafa stjórnað hreyfingunni og fráleitt að hún myndi hafa valdið sjálfri sér slíkum skaða með þeim hætti. Í þessu efni þarf einnig að hafa í huga að samkvæmt rannsókn tæknideildar lögreglu ætti einstaklingur að svipaðri stærð og ákærði og brotaþoli að komast fyrir á salernisgólfinu með þeim hætti er A hefur lýst, þrátt fyrir staðhæfingar ákærða um hið gagnstæða.
Framburður ákærða um öll þau atriði sem hér hefur verið gerð grein fyrir þykir að mati dómsins ótrúverðugur. Þá þykir fleira draga úr trúverðugleika framburðar ákærða. Hefur hann staðhæft að hann hafi orðið fyrir árás fyrir utan Hótel Sögu eftir að hann yfirgaf hótelið. Engin vitni eru að slíkri árás. E, sem var ákærða samferða út af hótelinu, bar að hann og ákærði hafi farið út af hótelinu og í framhaldinu farið í sitt hvora áttina. Vitnin C og I, sem eltu ákærða og E út af hótelinu, hafa staðhæft að ákærði hafi ekki lent í átökum við neinn en flúið af vettvangi. Hafi þeir séð til ferða hans og E á brott frá hótelinu. Fram kom ítrekað í framburði E hjá lögreglu að ákærði hafi tjáð honum að ákærði ætlaði að stinga af frá hótelinu áður en lögregla kæmi þar sem hann ætlaði ekki að láta handtaka sig á hótelinu. Þá hefur ákærði lýst för sinni og A inn á salernið í kjallaranum með þeim hætti að hann og A hafi þá verið orðin náin og þá legið ljóst fyrir í hvað stefndi. Þessi framburður ákærða gengur gegn framburði G sem var inni á salerninu, en hún kveður ákærða hafa leitað inngöngu á salernið eftir að stúlkan hafði farið þangað inn og verið þar nokkra stund. Hafi ekkert bent til þess að þau væru saman. Allt þetta veikir framburð ákærða. Þá hafa framburðir ákærða og E tekið nokkrum breytingum undir rannsókn og meðferð málsins að því marki hve vel þeir hafi þekkst fyrir atburðinn. Eins hefur framburður ákærða ekki verið á einn veg um hvenær hann hafi fyrst orðið var við blóð það sem kom frá E. Hjá lögreglu greindi ákærði frá því að hann hafi fyrst tekið eftir því blóði eftir að heim var komið og hann tekið eftir því í nærbuxum sínum. Fyrir dómi bar hann að þegar hann og stúlkan hafi verið að ljúka samförum hafi hann tekið eftir blóðinu.
Þegar öll framangreind atriði eru virt er það niðurstaða dómsins að reisa niðurstöðu málsins á traustum framburði brotaþola, en ekkert er fram komið í málinu sem dregur úr trúverðugleika hennar. Verður talið sannað að ákærði hafi ýtt stúlkunni inn á salernisbás í kjallara Hótel Sögu og að hann hafi girt þar niður um hana sokkabuxur og nærbuxur. Því næst hafi hann með ofbeldi þröngvað getnaðarlim sínum inn í munn stúlkunnar. Hafi hann sleikt kynfæri stúlkunnar. Að því loknu hafi hann ýtt henni niður á gólf salernisins og haft þar við hana samræði um leggöng. Þá hafi ákærði reynt að setja getnaðarlim sinn í endaþarm stúlkunnar. Svo sem áður var lýst hefur A staðhæft að hún hafi frosið í upphafi atburðarásarinnar inni á salerninu og fundist eins og hlutirnir væru ekki að gerast og hún verið dofin. Síðar hafi hún rankað við sér og reynt að komast frá ákærða. Hafi ákærði varnað henni för út af salernisbásnum. Loks hafi henni tekist að komast fram á ganginn. Verður sú háttsemi ákærða sem hér hefur verið gerð grein fyrir og hann viðhafði inni á salerninu metin sem ofbeldi í skilningi 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940. Samkvæmt því verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur í desember 1988. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, svo kunnugt sé. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir alvarlegt kynferðisbrot gagnvart stúlku sem var 19 ára þegar brotið var framið. Var brotið framið á stað þar sem A átti sér einskis ills von. Brot ákærða var ófyrirleitið og til þess fallið að valda stúlkunni verulegum skaða. Á ákærði sér engar málsbætur. Dómurinn telur að Hæstiréttur Íslands hafi á liðnum misserum þyngt refsingar vegna kynferðisbrota almennt. Eigi það ekki síst við um brot gegn 194. gr. laga nr. 19/1940, en nýverið hafa verið gerðar breytingar á XXII. kafla laga nr. 19/1940 til að kveða á um að mál þessi verði tekin fastari tökum en áður. Með vísan til alls þessa, sbr. og 1., 2. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjú ár, en við ákvörðun refsingar þykir þó verða að taka tillit til þess dráttar sem orðið hefur á meðferð málsins og ákærða verður ekki um kennt. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald ákærða frá 19. mars 2007 til 5. júlí 2007.
Réttargæslumaður hefur fh. A krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Er krafist bóta að fjárhæð 2.000.000 krónur, auk vaxta. Er vísað til þess að verknaðurinn hafi leitt til verulegs tjóns fyrir A, sem lýsi sér í andlegri vanlíðan, öryggisleysi og hræðslutilfinningu. Líkamleg sár hafi gróið og A leitað sér stuðnings hjá sálfræðingi til að glíma við andlegar afleiðingar brotsins. Eigi hún erfitt með að vera í fjölmenni, sé uppburðarlítil og kvíðin fyrir framtíðinni. Um lagarök er vísað til 26. gr. laga nr. 50/1993. Með vísan til þess er hér að framan er rakið, vottorðs Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings, sem og þess er fram hefur komið fyrir dóminum er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið A miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins, og þá sér í lagi þeirra líkamlegu áverka er hún hlaut við verknaðinn og dómaframkvæmdar á þessu réttarsviði eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti eins og í dómsorði greinir.
Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorutveggja að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda Elsa Björgvinsdóttir fulltrúi ríkissaksóknara.
Símon Sigvaldason héraðsdómari, Greta Baldursdóttir héraðsdómari og Helgi I. Jónsson dómstjóri kváðu upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Robert Dariusz Sobiecki, sæti fangelsi í þrjú ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald ákærða frá 19. mars 2007 til 5. júlí 2007.
Ákærði greiði A, 1.500.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. mars 2007 til 7. júní 2007, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 2.782.151 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 732.060 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 226.590 krónur.