Hæstiréttur íslands
Mál nr. 804/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
- Fasteign
- Sameign
|
|
Miðvikudaginn 7. janúar 2015 |
|
Nr. 804/2014 |
Anna Norland Helga Norland og Margrét Þ. Norland (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn Hanný Norland Heiler (Ásbjörn Jónsson hrl.) |
Kærumál. Innsetningargerð. Fasteign. Sameign.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa H um að henni yrði heimilað að fá með beinni aðfarargerð aðgang að tiltekinni fasteign sem var í óskiptri sameign hennar og A, HN og M. Var vísað til þess að hvorki lægi fyrir skriflegur samningur um nýtingu fasteignarinnar né hefði verið sýnt fram á að hefð hefði skapast um nýtingu hennar. Það leiddi af réttarreglum um óskipta sameign að allir eigendur fasteignarinnar ættu jafnan rétt til nýtingar hennar og væri þörf á samþykki allra eigenda væri ætlunin að takmarka þann rétt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 3. desember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2014, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að henni yrði heimilað að fá með beinni aðfarargerð aðgang að fasteigninni Klettshúsi í landi jarðarinnar Hindisvíkur í Húnaþingi vestra. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðilar krefjast þess að fyrrgreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefjast þær málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Anna Norland, Helga Norland og Margrét Þ. Norland, greiði óskipt varnaraðila, Hanný Norland Heiler, 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2014.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 28. október sl., barst Héraðsdómi Reykjavíkur með aðfararbeiðni, sem móttekin var 6. desember 2013.
Sóknaraðili er Hanný Norland Heiler, Sæbóli, Hvammstanga.
Varnaraðilar eru Anna Norland, Av. Trembley 9, CH-1209 Genf, Sviss, Helga Norland, Valhúsabraut 10, Seltjarnarnesi og Margrét Þ. Norland, Sunnuvegi 5, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst dómsúrskurðar um að henni verði veittur aðgangur, sem sameigandi, að fasteigninni Klettshúsi, Húnaþingi vestra, fastanúmer 224-0335, sem er staðsett á jörðinni Hindisvík á Vatnsnesi, landnúmer 144537, með beinni aðfarargerð. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila, auk þess sem fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Varnaraðilar krefjast þess að synjað verði um gerðina og að sóknaraðili verði dæmd til að greiða hverjum varnaraðila um sig málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
II
Málavextir
Málsaðilar eru eigendur jarðarinnar Hindisvíkur í Húnaþingi vestra, landnúmer 144537. Jörðin er í óskiptri sameign málsaðila, en sóknaraðili á 33,3% jarðarinnar og varnaraðilar eiga til samans 67,7%. Sóknaraðili eignaðist hlut sinn í jörðinni með afsali 6. júlí 2013, en áður hafði sá hlutur verið í eigu eiginmanns hennar, Ástmundar A. Norland. Á jörðinni stendur húsið Klettshús, fastanúmer 224-0335, og eru málsaðilar eigendur hússins í sömu hlutföllum. Málsaðilar munu einnig eiga jörðina Flatnefsstaði í óskiptri sameign í sömu hlutföllum.
Sóknaraðili lýsti því yfir með tölvubréfi 11. september 2013 til varnaraðilans Helgu Norland að hún hygðist nota Klettshús öðru hverju. Lögmaður varnaraðila svaraði skeytinu samdægurs og lýsti því yfir að eignarhald sóknaraðila að jörðinni veitti henni engan rétt til afnota af jörðinni eða húsum sem á henni stæðu, en þau hús og allt viðhald á jörðinni hefði verið unnið og kostað af varnaraðilum. Sóknaraðili kveðst skömmu síðar hafa ætlað að fara inn í Klettshús, en komist að því að búið hafi verið að skipta um læsingu á hurð hússins. Varnaraðilar hafa hafnað kröfu sóknaraðila um að fá afhenta lykla að húsinu.
Með bréfi lögmanns varnaraðila, dags. 12. desember 2013, var boðað til fundar 13. janúar 2014 um málefni jarðanna Hindisvíkur og Flatnefsstaðar. Sóknaraðili mætti ekki til fundarins. Fram kemur í fundargerð að engin hrossarækt og hrossabeit mætti eiga sér stað af hálfu eigenda en nýting jarðanna til hrossabeitar af hálfu þriðja aðila færi eftir ákvörðun meirihluta eigenda hverju sinni. Hver þriðjungseigandi hefði rétt til að dveljast á jörðunum og nýta þær þriðju hverja viku með ofangreindum takmörkunum. Nýting Klettshúss skyldi vera með sama hætti og gilti um jarðirnar, þó þannig að nýting sóknaraðila hæfist ekki fyrr en kostnaður við endurbyggingu hússins og kaup á lausafé sem þar er hefði verið gerður upp. Klettshús yrði ekki afhent sóknaraðila til nýtingar nema að virtum samþykktum fundarins um nýtingu jarðanna.
Við munnlegan flutning málsins gaf sóknaraðili skýrslu.
III
Málsástæður sóknaraðila
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að hún eigi rétt til aðgangs að Klettshúsinu á grundvelli eignarréttar síns og eigi rétt til þess að nýta það með sama hætti og varnaraðilar sem sameigandi þeirra að húsinu. Engar takmarkanir sé að finna á eignarheimild sóknaraðila eða þeim eignarheimildum sem hún leiði rétt sinn af. Varnaraðilar útiloki þannig með ólögmætum hætti réttmæta nýtingu sóknaraðila.
Sóknaraðili bendir á að ágreiningur sóknaraðila og varnaraðila varðandi hrossabeit sóknaraðila eða nýtingu á rekaviði sé ekki til umfjöllunar í þessu máli. Þó sé mótmælt fullyrðingum varnaraðila um að hún hafi gengið of langt við nýtingu á gæðum jarðarinnar. Jafnframt hafi sóknaraðili ekki staðið að framkvæmdum á jörðinni, fyrir utan smávægilegt viðhald.
Sóknaraðili mótmælir því að fyrri eigandi skuldi varnaraðilum kostnað vegna endurbóta, auk þess sem meint skuld hafi ekki áhrif á rétt hennar til aðgangs að húsinu. Engin gögn styðji fullyrðingar varnaraðila um að sóknaraðili skuldi þeim vegna endurbóta á Klettshúsinu og séu þær fullyrðingar með öllu ósannaðar.
Sóknaraðili telur að meirihluti sameigenda geti ekki tekið þá ákvörðun að útiloka einn sameigenda frá því að nota sameign, jafnvel þó að sameigandi hafi verið boðaður til fundar við aðra sameigendur. Með aðfararbeiðni sinni sé sóknaraðili ekki að fara fram á nýtingu sem fari í bága við rétt annarra sameigenda.
Um lagarök vísar sóknaraðili til reglna eignarréttar um jafn heimila nýtingu hvers og eins sameiganda að sameign. Um sönnun fyrir ótvíræðum eigna- og afnotarétti sóknaraðila er vísað til almennra reglna eignarréttar þar um. Um heimild til aðfarar er vísað til 11. og 12. kafla laga nr. 90/1989 um aðför, sérstaklega 72. gr. en ekki 73. gr. líkt og ranglega komi fram í aðfararbeiðni, sbr. 78. gr. þeirra laga. Um varnarþing er vísað til 1. mgr. 32. gr. og 43. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/1989. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989.
Málsástæður varnaraðila
Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að Klettshús sé í óskiptri sameign málsaðila. Varnaraðilar hafi gert húsið upp með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn, og hafi nýtt það til skiptist. Í húsinu séu margs konar persónulegir munir sem varnaraðilar hafi keypt, sem varnaraðili eigi ekkert tilkall til að fá aðgang að eða nota, enda hafi hvorki hann né viðsemjandi hans tekið nokkurn þátt í kostnaði við kaup þeirra. Sumir lausafjármunir í Klettshúsinu séu auk þess séreign einstakra varnaraðila. Varnaraðilar hafi auk þess séð um allt viðhald girðinga á jörðinni. Full samstaða hafi verið um nýtingu Klettshúss meðal eigenda og aldrei komið til neinna árekstra fyrr en eftir að sóknaraðili eignaðist hlut Ástmundar A. Norland. Ekkert sé því í vegi að sóknaraðili fái nýtt húsið samkvæmt því skipulagi sem gildi og gilt hafi og sameigendur hafi ákveðið á fundum sínum um nýtingu hússins og Hindisvíkur.
Varnaraðilar vísa til þess að á fundinum 13. janúar 2014 hafi verið samþykkt að nýting Hindisvíkur skyldi vera óbreytt frá því sem verið hefði hvað varðaði hrossarækt og hrossabeit, þ.e. að eigendur væru hvorki með hrossarækt né hrossabeit í Hindisvík. Sóknaraðili hafi verið boðaður til fundarins en hvorki hirt um að mæta til hans né lagt til annan fundartíma. Þá hafi verið samþykkt á fundinum að hver þriðjungseigandi Hindisvíkur hefði rétt til að dvelja á jörðinni þriðju hverja viku og nýta hana með fyrrnefndum takmörkunum. Þá hafi eigendur samþykkt að nýting Klettshúss skyldi vera með sama hætti og gilti um Hindisvík. Það skilyrði hafi verið sett um rétt sóknaraðila til að nýta Klettshús að sóknaraðili gerði upp kostnað við endurbyggingu hússins og kaup lausafjármuna sem í því væru áður en hún fengi að nýta húsið, og virti samþykktir um nýtingu Hindisvíkur. Sóknaraðila hafi verið tilkynnt um samþykkt eigendafundarins. Varnaraðilar standi því ekki í vegi að sóknaraðili fái aðgang að Klettshúsinu heldur vilji sóknaraðili komast þar inn og fá afnot þess og alls sem í húsinu er án þess að lúta þeim reglum sem gildi um nýtingu Hindisvíkur og mannvirkja á jörðinni.
Varnaraðilar telja að sóknaraðili hafi í andstöðu við sameigendur sína að Hindisvík hafið nýtingu jarðarinnar, annars vegar til beitar fyrir hross þeirra hjóna og hins vegar gengið á reka hennar. Þetta athæfi sóknaraðila, sem í raun sé ekki annað en sjálftaka, takmarki möguleika varnaraðila til að halda áfram þeim afnotum sem þeir hafi haft af jörðinni í áraraðir. Þá hafi sóknaraðili staðið fyrir ýmsum framkvæmdum á jörðinni og mannvirkjum þar til þess að geta nýtt sér jörðina í þágu búrekstrar síns á jörðinni Sæbóli nærri Hvammstanga. Sóknaraðili virði því í engu eignarréttindi sameigenda sinna og þau mörk sem eignarréttindi varnaraðila setji nýtingu sóknaraðila á gögnum og gæðum jarðarinnar.
Varnaraðilar benda á að þeir hindri hvorki afnot sóknaraðila af jörðinni Hindisvík né Klettshúsi. Sóknaraðili vilji hins vegar ekki haga afnotum sínum af eignum þessum í samræmi við það sem ákveðið hafi verið af eigendum löngu áður en sóknaraðili eignaðist þriðjungshlut sinn, og hafi síðast verið staðfest á fyrrnefndum fundi. Telji sóknaraðili að reglur um nýtingu Hindisvíkur og Klettshúss fari í bága við eignarréttindi sín og hagsmuni að einhverju leyti verði sóknaraðili að bera þann ágreining undir dómstóla í almennu einkamáli. Skilyrði aðfarar séu þau að réttur gerðarbeiðanda sé svo ótvíræður að sanna megi hann með skjallegum sönnunargögnum. Eign sóknaraðila á þriðjungshlut í Hindisvík og Klettshúsi veiti henni ekki rétt til afnota sem fari í bága við hagsmuni sameigenda hennar.
Varnaraðilar benda á að sóknaraðili byggi málsókn sína í aðfararbeiðni á 73. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Samkvæmt ákvæðinu geti sóknaraðili fengið umráð annars en fasteigna með beinni aðfarargerð. Krafa sóknaraðila lúti að því að fá aðgang að fasteign. Krafa hennar og lagarök fari því ekki saman. Af málsástæðum og málsatvikalýsingu í aðfararbeiðni megi helst ráða að sóknaraðili vilji fá innsetningu í lykla að Klettshúsi.
IV
Niðurstaða
Í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er manni, sem með ólögmætum hætti er aftrað að neyta réttinda sinna, heimilað að beina til héraðsdómara beiðni um að skyldu þess efnis sem getur í 72. eða 73. gr. laganna verði fullnægt með aðfarargerð þótt aðfararheimild samkvæmt 1. gr. laganna liggi ekki fyrir. Ákvæði 72. gr. fjallar um skyldu gerðarþola til að víkja af fasteign eða til að láta gerðarbeiðanda af hendi umráð hennar að einhverju leyti eða öllu, eða til að fjarlægja hluti af henni. Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laganna skal að jafnaði hafna aðfararbeiðni, ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna, sem heimilt er að afla samkvæmt 1. mgr. sömu greinar. Í þessu máli verður þar af leiðandi einungis leyst úr því hvort réttur sóknaraðila til umráða yfir hinni umþrættu eign, Klettshúsi, sé nægilega skýr til þess að krafa hennar verði tekin til greina, en ekki verður tekin afstaða til ágreinings aðila að öðru leyti.
Fasteignin Klettshús er í óskiptri sameign allra málsaðila. Enginn skriflegur samningur liggur fyrir milli aðila um nýtingu eignarinnar né hefur verið sýnt fram á að sú hefð hafi skapast að hver eigandi nýtti hana í samræmi við sinn eignarhluta, þ.e. í þessu tilfelli þriðju hverja viku. Það leiðir af réttarreglum um óskipta sameign að allir eigendur eignarinnar eiga jafnan rétt til nýtingar hennar. Sé ætlunin að takmarka nýtingu eiganda að sameign, líkt og gert var á fundi sem varnaraðilar boðuðu til 13. janúar 2014, er þörf á samþykki allra eigenda. Þá geta varnaraðilar ekki gert það að skilyrði nýtingar sóknaraðila á eigninni að hún geri upp ætlaða skuld sína eða fyrri eiganda eignarhluta hennar vegna viðhalds o.fl. Tekið skal fram að engin gögn hafa verið lögð fram kröfunni til stuðnings. Því síður getur það skipt máli fyrir niðurstöðu málsins að varnaraðilar eigi muni í sinni eigu í Klettshúsi. Verður því fallist á það með sóknaraðila að varnaraðilar hafi með ólögmætum hætti hamlað aðgangi hennar að eigninni.
Samkvæmt öllu framangreindu verður talið að skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför séu uppfyllt, enda verður ekki talið varhugavert að gerðin nái fram að ganga. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina.
Með vísan til þessara málsúrslita verður varnaraðilum gert að greiða sóknaraðila málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur. Ekki eru efni til þess að mæla sérstaklega fyrir um heimild til fjárnáms fyrir kostnaði af væntanlegri gerð, sbr. ákvæði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Fallist er á kröfu sóknaraðila, Hannýjar Norland Heiler, um að henni verði veittur aðgangur að fasteigninni Klettshúsi Húnaþingi vestra, fastanúmer 224-0335, sem er staðsett á jörðinni Hindisvík á Vatnsnesi, landnúmer 144537, með beinni aðfarargerð.
Varnaraðilar Anna Norland, Helga Norland og Margrét Þ. Norland, greiði sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað.