Hæstiréttur íslands

Mál nr. 689/2014


Lykilorð

  • Áfrýjun
  • Kröfugerð
  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 17. september 2015.

Nr. 689/2014.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Birgi Haukssyni

(Skúli Bjarnason hrl.)

Áfrýjun. Kröfugerð. Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda.

B var sakfelldur fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum og almennum hegningarlögum með því að hafa, sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri R ehf., látið hjá líða að skila skýrslum vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda á tilteknum tímabilum og standa skil á slíkum gjöldum. Var refsing B ákveðin fangelsi í fimm mánuði, en fullnustu hennar frestað og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum héldi hann almennt skilorð. Þá var B dæmdur til að greiða 26.700.000 króna sekt í ríkissjóð og skyldi níu mánaða fangelsi koma í stað sektarinnar yrði hún ekki greidd.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. október 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara sýknu, en að því frágengnu að refsing verði milduð.

Í tilkynningu ákærða 9. október 2014 til ríkissaksóknara um áfrýjun málsins kom fram að ákærði krefðist endurskoðunar á úrskurði héraðsdóms 12. júní 2014 þar sem hafnað var kröfu hans um frávísun málsins. Telja verður að í tilkynningunni hafi falist krafa um að málinu yrði vísað frá héraðsdómi. Kemur hún því til úrlausnar hér fyrir dómi þótt hennar hafi ekki verið gerið í áfrýjunarstefnu, svo sem bar að gera, sbr. c. lið 2. mgr. 201 gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Á það verður ekki fallist með ákærða að sérstakur saksóknari hafi ekki verið bær til að taka ákvörðun um saksókn málsins, enda fer embættið með rannsókn og saksókn í málum vegna ætlaðra brota á 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara. Þá verður hvorki talið að atvikalýsingu í ákæru sé áfátt né að aðrir annmarkar séu á rannsókn og meðferð málsins sem varðað geta frávísun þess. Þeirri kröfu verður því hafnað.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Birgir Hauksson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 525.550 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Skúla Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2014.

                Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 1. september 2014, er höfðað með ákæru, útgefinni af sérstökum saksóknara 17. desember 2013, á hendur Birgi Haukssyni, kt. [...], Hábæ 28, Reykjavík, fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins RR36, kt. 701208-1960, með því að hafa:           

1.             Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu einkahlutafélagsins fyrir tímabilið janúar – febrúar 2012 á lögmæltum tíma og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins, vegna uppgjörstímabilanna janúar – febrúar, mars – apríl, september – október og nóvember – desember rekstrarárið 2011 og janúar – febrúar og
mars – apríl rekstrarárið 2012, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 8.550.243, sem sundurliðast sem hér greinir:

               

Árið 2011

janúar – febrúar                                                   kr.      423.150

mars – apríl                                                           kr.      534.540

september – október                                           kr.    3.010.201

nóvember – desember                                        kr.    2.169.586

                                                                                kr.    6.137.477

Árið 2012                                                            

janúar – febrúar                  

mars – apríl                                                           kr.    1.225.746

                                                                                kr.    1.187.020

                                                                                kr.    2.412.766

Samtals:                                                                kr.   8.550.243

2.             Eigi staðið skil á staðgreiðsluskilagreinum einkahlutafélagsins fyrir tímabilin júní og ágúst rekstrarárið 2011 á lögmæltum tíma og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna nóvember rekstrarárið 2009, janúar, febrúar, mars, apríl og júní rekstrarárið 2010, janúar, febrúar, mars, apríl, maí, júní, júlí, ágúst, október og desember rekstrarárið 2011 og janúar, febrúar, mars og apríl rekstrarárið 2012, samtals að fjárhæð kr. 7.351.565, sem sundurliðast sem hér greinir.

2009

 

nóvember

kr.

         407.852    

 

         407.852    

 

 

2010

 

janúar

kr.

         224.826    

 

febrúar

kr.

         187.175    

 

mars

kr.

         129.244    

 

apríl

kr.

         142.392    

 

júní

kr.

         128.365    

 

         812.002    

 

 

2011

 

janúar

kr.

         362.705    

 

febrúar

kr.

         260.296    

 

mars

kr.

         243.998    

 

apríl

kr.

         269.510    

 

maí

kr.

         498.882    

 

júní

kr.

         359.072    

 

júlí

kr.

         355.618    

 

ágúst

kr.

         580.875    

 

október

kr.

         663.713    

 

desember

kr.

         427.019    

 

      4.021.688    

 

 

2012

 

janúar

kr.

         483.888    

 

febrúar

kr.

         489.577    

 

mars

kr.

         479.690    

 

apríl

kr.

         656.868    

 

      2.110.023    

 

 

Samtals:                    7.351.565

Framangreind brot ákærða teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig

a)       1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið ákæru.

b)       2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 2. tölulið ákæru. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Verjandi krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.

                Með úrskurði dómsins 12. júní sl. var hafnað kröfu ákærða um að ákæru í málinu yrði vísað frá dómi.

Málsatvik

                Ákærði var fyrirsvarsmaður einkahlutafélagsins RR36, áður Gluggagerðarinnar ehf., sem rak trésmíðaverkstæði, en ákærði er lærður trésmiður. Félagið var úrskurðað gjaldþrota 14. september 2012. Með bréfi, dagsettu 11. júlí 2013, vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins máli félagsins til sérstaks saksóknara til sakamálarannsóknar, í kjölfar rannsóknar á skilum félagsins á afdreginni staðgreiðslu og innheimtum virðisaukaskatti. Í kæru skattrannsóknarstjóra kemur fram að frá því að vanskil félagsins hafi byrjað að myndast 16. desember 2009 til og með 2. janúar 2013 hafi verið greiddar samtals 15.700.974 krónur inn á skattskuld þess, sem innheimtumaður ríkissjóðs hafi ráðstafað eins og nánar er rakið.

Ákærði var yfirheyrður af sérstökum saksóknara 19. ágúst 2013. Þá gaf Kristín Jóhannesdóttir, sem starfaði sem bókari og gjaldkeri félagsins, skýrslu við rannsókn málsins.

Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa falið bókara félagsins að standa skil á skattgreiðslum og skýrslugjöf í því sambandi. Hann kvaðst hafa talið að virðisaukaskattur félagsins væri í skilum. Þá hefði honum ekki verið kunnugt um að tveimur skilagreinum vegna staðgreiðslu og einni virðisaukaskattskýrslu hefði verið skilað of seint á tímabilinu sem um ræðir, en tók fram að skilin hefðu aðeins dregist í nokkra daga. Ákærði tók jafnframt fram að ekkert fé hefði verið til að halda eftir til staðgreiðslu opinberra gjalda félagsins. Fjárhagsstaðan hefði verið erfið og hefðu launagreiðslur starfsmanna verið látnar ganga fyrir. 

                Vitnið Kristín Jóhannesdóttir kvaðst hafa annast skattgreiðslur og skil á skilagreinum og virðisaukaskattskýrslum vegna félagsins að höfðu samráði við ákærða. Hefði ákærði gefið henni fyrirmæli um að láta virðisaukaskattinn hafa forgang þegar kom að skattgreiðslum. Hún hefði hins vegar ekki tekið það sérstaklega fram þegar hún innti greiðslur af hendi. Vitnið kvað það þrívegis hafa gerst að skýrslum hefði verið skilað nokkrum dögum of seint, en það hefði verið yfirsjón af hennar hálfu.

Niðurstaða

                Ákærði neitar sök. Hann reisir sýknukröfu sína einkum á því að innheimtumanni ríkissjóðs hefði verið rétt að ráðstafa greiðslum inn á skattskuld félagsins með þeim hætti að virðisaukaskattskuld yrði greidd upp, í stað þess að verja þeim inn á skuld vegna vangreiddrar staðgreiðslu. Ákærði hafnar því jafnframt að hafa sýnt af sér ásetning eða stórkostlegt hirðuleysi við skattskil félagsins og skýrslugjöf í því sambandi, svo að varði hann refsiábyrgð samkvæmt þeim lagaákvæðum sem í ákæru greinir.

       Ákærði var skráður framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félagsins sem um ræðir á þeim tíma sem ákæra tekur til og bar með því ábyrgð á að skipulag þess og starfsemi væri í réttu og góðu horfi, sbr. 1. og 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Í því fólst m.a. að hann bar ábyrgð á skilum á virðisaukaskattskýrslum og staðgreiðsluskilagreinum á lögmæltum tíma og skilum á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda. Fyrir liggur að greiðslum sem bárust innheimtumanni ríkissjóðs vegna félagsins var ráðstafað inn á elstu skattskuldir þess, s.s. venjubundið er, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 22. júní 2000 í máli nr. 49/2000. Ákærði hefur ekki borið brigður á að ekki hafi verið staðið skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu vegna þeirra tímabila sem í ákæru greinir, auk þess sem lítils háttar dráttur hafi orðið á skýrsluskilum, eins og þar kemur fram, en stöðu sinnar vegna bar hann ábyrgð á hvoru tveggja. Samkvæmt framansögðu hefur ákærði gerst brotlegur við þau lagaákvæði sem í ákæru greinir. Breytir ekki þeirri niðurstöðu að vanskil á skattgreiðslum hafi orðið vegna fjárskorts félagsins, eins og ákærði hefur jafnframt borið fyrir sig. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru.

                Ákærði er fæddur árið 1972. Hann hefur ekki áður sætt refsingu. Hann er í máli þessu sakfelldur fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa látið undir höfuð leggjast að standa ríkissjóði skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda við rekstur einkahlutafélagsins RR36, auk þess að hafa ekki staðið skil á einni virðisaukaskattskýrslu og tveimur staðgreiðsluskilagreinum á lögmæltum tíma. Til þess er þó að líta að ekki var um verulegan drátt á skýrsluskilum að ræða. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði, sem bundin skal skilorði sem í dómsorði greinir.

                Samkvæmt gögnum málsins var innborgunum á skattskuld félagsins m.a. varið til greiðslu tryggingargjalds, auk vaxta, álags og kostnaðar vegna þeirra gjalda, samtals að fjárhæð 2.345.059 krónur. Kemur sú greiðsla til frádráttar við ákvörðun sektarrefsingar ákærða, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 19. janúar 2012 í máli nr. 413/2011. Þá voru 195.152 krónur greiddar inn á staðgreiðsluskuld félagsins vegna tímabilsins nóvember 2009. Telst ákærði hafa staðið skil á verulegum hluta vanskilafjárhæðar vegna þess tímabils og verður sektarfjárhæð færð niður úr lágmarki samkvæmt heimild í 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Að öðru leyti verður sektarrefsing ákveðin með hliðsjón af lögbundnu refsilágmarki svo að nemi tvöfaldri vanskilafjárhæð, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Verður ákærði dæmdur til að greiða 26.700.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 9 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

                Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Skúla Bjarnasonar hrl., vegna vinnu á rannsóknarstigi málsins og við meðferð þess fyrir dómi, 690.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kristín Ingileifsdóttir saksóknarfulltrúi.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

                Ákærði, Birgir Hauksson, sæti fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

                Ákærði greiði 26.700.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 9 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

       Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Skúla Bjarnasonar hrl., 690.250 krónur.