Hæstiréttur íslands

Mál nr. 169/2015


Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni
  • Ítrekun
  • Skilorð


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 26. nóvember 2015.

Nr. 169/2015.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

Guðbjörgu Gróu Guðmundsdóttur

(sjálf)

Brot gegn valdstjórninni. Ítrekun. Skilorð.

G var sakfelld fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa sparkað í fót lögreglumannsins A, sem var við skyldustörf, og reynt að slá hana í andlitið. Með brotinu rauf G skilorð samkvæmt eldri dómi og var hann því tekinn upp og henni gerð refsing í einu lagi fyrir brotin. Þá var það virt G til refsiþyngingar að hún hafði áður verið sakfelld fyrir brot gegn valdstjórninni. Var refsing G ákveðin fangelsi í átta mánuði, en fullnustu fimm mánaða af refsingunni var frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Greta Baldursdóttir hæstaréttardómari, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. febrúar 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Ákærða krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, til vara að refsing hennar verði milduð, að þessu frágengnu að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en að því frágengnu að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

Í máli þessu er ákærðu gefið að sök brot gegn valdstjórninni með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 15. september 2013, utan við Bankastræti 5 í Reykjavík, sparkað í vinstri fót lögreglumannsins A, sem var við skyldustörf, og reynt að slá hana í andlit.

Ákærða styður kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms einkum við það að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá hafi rannsókn málsins verið ábótavant sem og meðferð málsins í héraði sem hafi dregist úr hófi auk þess sem saksóknari hafi við aðalmeðferð málsins spurt leiðandi spurninga. Af málatilbúnaði ákærðu má ennfremur ráða að hún byggi kröfu um ómerkingu á því að ríkissaksóknari hafi vísað frá máli þar sem ákærða kærði lögreglu fyrir að hafa beitt sig ofbeldi á vettvangi umrætt sinn auk þess sem handtaka hennar í kjölfar ætlaðs brots hafi verið tilefnislaus og hrottafengin.

Ákvæði 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skipi dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Eins og málið er vaxið var ekki við úrlausn þess ástæða til að víkja frá þeirri meginreglu 2. mgr. sömu lagagreinar að einn héraðsdómari skuli skipa dóm í hverju máli. Þær málsástæður sem ákærða hefur teflt fram að öðru leyti til stuðnings kröfu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms eru ekki studdar viðhlítandi rökum. Samkvæmt því verður kröfu hennar þar að lútandi hafnað.

Ekki verður af málatilbúnaði ákærðu ráðið á hverju hún byggir kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi. Er krafan með öllu órökstudd og verður henni hafnað.

Fallist er á með héraðsdómi að ákærða hafi gerst sek um brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 25/2007, með þeirri háttsemi sem í ákæru greinir. Markmið með þeirri breytingu sem gerð var með lögum nr. 25/2007 var meðal annars að auka refsivernd lögreglumanna. Verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ákærða verður dæmd til að greiða áfrýjunarkostnað málsins.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærða, Guðbjörg Gróa Guðmundsdóttir, greiði áfrýjunarkostnað málsins, 21.305 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 4. september 2014 „á hendur Guðbjörgu Gróu Guðmundsdóttur, kennitala [...], Lágholtsvegi 11, Reykjavík, fyrir valdstjórnarbrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 15. september 2013, utan við Bankastræti 5 í Reykjavík, sparkað í vinstri fót lögreglumannsins A, sem var við skyldustörf, og reynt að slá hana í andlit.“

Er þetta talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er þess krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærða neitar sök. Verjandi ákærðu krefst sýknu og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Til vara er krafist vægustu refsingar er lög leyfa.

                Samkvæmt skýrslu lögreglu frá aðfaranótt sunnudagsins 15. september 2013 voru lögreglumenn staddir í Bankastræti í Reykjavík kl. 04.09 um nóttina fyrir utan veitingastaðinn Prikið. Fram kemur að lögreglumenn hafi verið á staðnum vegna nýafstaðinnar líkamsárásar. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að lögreglumenn hafi þá orðið þess varir að slagsmál hafi brotist út neðar í götunni fyrir utan skemmtistaðinn B5. Fram kemur að lögreglumaðurinn B hafi farið þangað á lögreglubifreið, á meðan tveir aðrir lögreglumenn hafi farið á vettvang fótgangandi. Er B hafi komið á vettvang hafi einn lögreglumanna, C, verið með handtekinn mann fyrir utan Bankastræti 6. Á sama tíma hafi lögreglumaðurinn A verið að ræða við árásarþola vegna slagsmálanna. Í frumskýrslu kemur fram að Guðbjörg Gróa Guðmundsdóttir, ákærða í máli þessu, hafi verið stödd fyrir utan skemmtistaðinn B5. B hafi séð ákærðu tálma störf A, slá til hennar og sparka með hægri færi í vinstri fót lögreglumannsins. Hann hafi samstundis farið A til aðstoðar. Lögreglumennirnir hafi handtekið ákærðu, látið hana leggjast á magann og fært hana í handjárn. Ákærða hafi streist á móti við handtökuna og virkað í annarlegu ástandi; virst verulega ölvuð. Hún hafi verið mjög æst og ruglingsleg í framburði og óskað hafi verið aðstoðar við að flytja hana á lögreglustöð. Á lögreglustöð hafi ákærða verið óviðræðuhæf. Í niðurlagi frumskýrslu kemur fram að A hafi ekki hlotið áverka af árás ákærðu. Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 1. október 2013 var það athugað hvort eftirlitsmyndavélar í Bankastræti hefðu náð að mynda vettvang. Fram kemur að ekki hafi fundist neinar myndavélar sem tekið hafi mynd af vettvangi.

                Við aðalmeðferð málsins gaf ákærða skýrslu fyrir dómi. Þá komu fyrir dóminn lögreglumennirnir A, B og C. Einnig komu fyrir dóminn dyravörður af skemmtistaðnum B5 og samferðamaður ákærðu þessa nótt. Gerð verður grein fyrir framburðum ákærðu og vitna að því marki er máli skiptir fyrir niðurstöðu málsins.

                Ákærða kvaðst hafa verið á leið heim til sín umrætt sinn. Með í för hafi verið kunningi hennar. Þau hafi gengið tvö niður Bankastræti og framhjá skemmtistaðnum B5 og séð opið port við staðinn. Það hafi vakið athygli ákærðu, þar sem portið sé vanalega lokað. Inni í portinu hafi ákærða séð mann liggjandi á jörðinni og dyravörð að stumra yfir honum. Enga lögreglu hafi verið að sjá. Dyraverðir hafi bent ákærðu á brott. Hafi hún gengið áfram og leitað að samferðamanni sínum. Eftir það hafi allt gerst mjög hratt. Lögreglumaður hafi komið að ákærðu og ýtt við henni. Hafi ákærða dottið aftur fyrir sig og í jörðina. Í framhaldi hafi ákærða verið handtekin og færð í handjárn. Ákærða hafi verið lítillega ölvuð þetta kvöld og myndi hún atvik vel. Hún myndi ekki eftir því að lögregla hafi áður verið búin að segja henni að yfirgefa vettvang. Ákærða hafi ekki slegið til lögreglumannsins. Þá myndi ákærða ekki eftir því að hafa rekið hönd eða fót í lögreglumanninn. Ekkert tilefni hafi verið fyrir lögreglu að handtaka hana. Ákærða kvaðst hafa hlotið áverka í samskiptum við lögreglu þessa nótt.

                Lögreglumaðurinn A kvaðst hafa verið við skemmtistaðinn B5 vegna slagsmála. Hafi hún verið að ræða við árásarþola. Ákærða hafi komið að og truflað lögreglu við störf. Hún hafi verið beðin um að fara og halda för sinni áfram. Ákærða hafi verið ósátt og slegið til A og ýtt í hana. Í lögregluskýrslu er A ritaði kl. 6.00 að morgni 15. september 2013 kemur fram að ákærða hafi sparkað með hægri fæti í vinstri fót A, auk þess sem hún hafi reynt að slá A í andlitið með því að baða út báðum handleggjum. Er þetta var borið undir A við aðalmeðferð málsins kvað hún þessa lýsingu sína rétta. Fyrir dómi bar A að svo hafi virst sem ákærða væri ósátt við störf lögreglu. A kvaðst ekki hafa ýtt við ákærðu, að fyrra bragði, þannig að ákærða hafi fallið aftur fyrir sig. Ákærða hafi hins vegar verið handtekin og færð í handjárn. Í framhaldi hafi hún verið flutt á lögreglustöð. Ákærða hafi verið æst og óviðræðuhæf. 

                B lögreglumaður kvaðst hafa ritað frumskýrslu lögreglu vegna málsins. Lögregla hafi verið að sinna öðru máli er mál ákærðu hafi komið upp. B hafi ekið lögreglubifreið þetta kvöld og fært hana að skemmtistaðnum B5 vegna slagsmála þar. Úr lögreglubifreiðinni hafi B séð ákærðu veitast að A; ákærða hafi slegið til A og sparkað í hana. B hafi í framhaldi komið að og handtekið ákærðu. Ákærða hafi verið æst og ölvuð og truflað A við störf sín. Þegar þetta gerðist hafi B verið inni í lögreglubifreiðinni sem lagt hafi verið í stæði rétt hjá. B hafi séð atburði greinilega, þar sem ekkert hafi borið í milli.

                C lögreglumaður kvaðst hafa setið inni í lögreglubifreið er hann hafi heyrt köll fyrir utan skemmtistaðinn B5 og hafi hann litið út og séð ákærðu sækja að eða reyna að grípa til A. Annar lögreglumaður hafi komið að. C hafi ekki séð ákærðu falla í jörðina.

                Dyravörður af skemmtistaðnum B5 kvað hópslagsmál hafa verið inni á skemmtistaðnum. Allir þeir sem tekið hafi þátt í átökunum hafi verið færðir út af staðnum. Fyrir utan hafi slagsmálin haldið áfram. Til að stöðva átökin hafi dyravörðurinn tekið tvo mannanna með sér og farið með þá inn í port við staðinn. Lögreglumann hafi borið að og hann rætt við mennina. Ákærða hafi síðan komið að og farið að setja út á störf lögreglunnar. Hafi henni verið bent á að fara en hún ekki látið sér segjast. Kvaðst dyravörðurinn m.a. muna að ákærða hafi hangið í fötum og í hári lögreglumanns. Lögreglumaðurinn hafi ekki ýtt við ákærðu þannig að hún hafi fallið í jörðina. Ákærða hafi síðan verið handtekin.

                Samferðamaður ákærðu þessa nótt kvaðst hafa gengið með ákærðu um Bankastræti. Eitthvert uppistand hafi verið og lögregla á staðnum. Hann hafi m.a. séð blóðugan mann í porti við skemmtistaðinn B5 og sagt við ákærðu að þau skyldu ekki skipta sér af þessu máli. Ákærða hafi hins vegar gengið að. Fleiri lögreglumenn hafi komið á staðinn. Skyndilega hafi ákærða legið í jörðinni og hún verið handtekin. Samferðamaðurinn hafi verið að ræða við mann og hann ekki veitt athygli hvað ákærða hafi nákvæmlega verið að gera. Einhverjar handahreyfingar ákærðu hafi hann þó séð.

                Niðurstaða:

                Ákærðu er gefin að sök líkamsárás, með því að hafa aðfararanótt föstudagsins 15. september 2013, utan við Bankastræti 5 í Reykjavík, sparkað í vinstri fót lögreglumannsins, A, sem þar var við skyldustörf, og reynt að slá í andlit hennar. Ákærða neitar sök. Kveðst hún ekki hafa veist að lögreglumanninum. Lögreglumaðurinn hafi ýtt við ákærðu þannig að hún féll aftur fyrir sig.

                Lögreglumennirnir, A og B, bera á einn veg um að ákærða hafi sparkað í vinstri fót lögreglumannsins A. Þá hafa þau borið á einn veg um að ákærða hafi reynt að slá A í andlit. Lögreglumaðurinn C hefur staðfest að ákærða hafi verið handtekin vegna þess að hún hafi hindrað lögreglu við störf. Hafi hún sótt að lögreglumanninum A. Þá hefur dyravörður staðfest að ákærða hafi veist að lögreglumanni umrædda nótt. Þegar til þessara atriða er litið er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun þess að ákærða hafi veist að lögreglumanninum A með þeim hætti er í ákæru greinir. Með hliðsjón af því verður ákærða sakfelld samkvæmt ákæru og er háttsemi hennar rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

                Ákærða er fædd í apríl 1955. Hún á að baki sakaferil allt frá árinu 2000. Hún hefur frá því ári þrisvar sinnum verið dæmd fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og umferðarlögum. Á sama tíma hefur hún fjórum sinnum gengist undir refsingu fyrir brot gegn umferðarlögum. Ákærða var með dómi héraðsdóms 10. júlí 2010 dæmd í 5 mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára, fyrir brot gegn 1. mgr. 257. gr. og 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940. Sá dómur var staðfestur í Hæstarétti 14. mars 2013 í máli nr. 540/2012. Ákærða hefur með broti sínu nú, rofið skilyrði framangreinds refsidóms og verður refsing samkvæmt þeim dómi nú dæmd upp. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærða er nú í annað sinn sakfelld fyrir brot gegn valdstjórninni. Hefur það áhrif til refisþyngingar. Með hliðsjón af þessu er refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Hluti refsingarinnar verður skilorðsbundinn svo sem í dómsorði greinir.   

                Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda, svo sem í dómsorði greinir. Þá greiði ákærða þóknun skipaðs verjanda á rannsóknarstigi, svo sem í dómsorði er mælt fyrir um. Hefur í báðum tilvikum verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Að auki greiði ákærða útlagðan kostnað verjanda vegna læknisvottorðs að fjárhæð 17.265 krónur.

                                                                                  D ó m s o r ð :

                Ákærða, Guðbjörg Gróa Guðmundsdóttir, sæti fangelsi í 8 mánuði. Fresta skal fullnustu 5 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helgu Völu Helgadóttur héraðsdómslögmanns, 451.360 krónur og 17.265 krónur vegna útlagðs kostnaðar verjanda. Þá greiði ákærða þóknun skipaðs verjanda á rannsóknarstigi, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 86.800 krónur.