Hæstiréttur íslands

Mál nr. 49/2014


Lykilorð

  • Vátrygging
  • Slysatrygging
  • Fyrning


                                       

Fimmtudaginn 18. september 2014.

Nr. 49/2014.

Árni Benedikt Árnason

(sjálfur)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Heiðar Örn Stefánsson hrl.)

Vátrygging. Slysatrygging. Fyrning.

Á krafði V hf. um skaðabætur úr sjúkra- og slysatryggingarlið forsjármannstryggingar sem vinnuveitandi Á hafði keypt og hann var rétthafi að, vegna líkamstjóns sem Á varð fyrir í árekstri í mars 2003. Talið var að Á hefði eigi síðar en í júlí 2007 mátt vera ljóst að hann hefði hlotið varanlegt heilsutjón við slysið, þegar hann fékk vottorð læknis þar um. Á því tímamarki var Á talinn hafa haft tilefni til að hefjast handa við fullnustu kröfu sinnar, en lagt var til grundvallar að það hefði verið unnt að gera fyrir árslok 2007. Tók fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 29. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, sem talin voru eiga við um atvik málsins, því að líða 1. janúar 2008 og var hann liðinn er Á höfðaði mál sitt á hendur V hf. í nóvember 2012. Var V hf. því sýknaður af kröfu Á.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. janúar 2014. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 998.620 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. febrúar 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í niðurstöðum matsgerðar læknanna Guðmundar Björnssonar og Ragnars Jónssonar 15. desember 2008, sem rakin er í hinum áfrýjaða dómi, sagði að tímabært væri að leggja mat á varanlegt heilsutjón áfrýjanda vegna þess slyss sem hann varð fyrir 30. apríl 2003. Þá sagði að heilsufar áfrýjanda hafi orðið stöðugt 30. júlí 2003. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að áfrýjanda hafi eigi síðar en í júlí 2007 mátt vera ljóst að hann hefði hlotið varanlegt heilsutjón við slysið samkvæmt vottorði heimilislæknis. Í vottorðinu kom fram að hann hefði þá, fjórum árum eftir slys, enn veruleg óþægindi bæði í hálsi, höfði og mjóhrygg. Þá sagði einnig í vottorðinu: „Ekki er séð fram á að veruleg breyting verði á þessum einkennum hans úr þessu.“ Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

 Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Árni Benedikt Árnason, greiði stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. september sl., höfðaði Árni Benedikt Árnason, Barðaströnd 14, Seltjarnarnesi, á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu birtri 29. nóvember 2012.

Gerir stefnandi þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 998.620 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. febrúar 2009 til greiðsludags. Jafnframt krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Málavextir

Hinn 30. mars 2003 varð árekstur á gatnamótum Óseyrarbrautar, Nesbrautar og Hafnarskeiðs í Þorlákshöfn er bifreiðinni VK-308 var ekið í veg fyrir bifreið stefnanda, VG-477. Samkvæmd skýrslu lögreglu, sem kvödd var á staðinn, kenndi stefnandi til í hálsi, mjóhrygg og báðum hnjám. Liggur fyrir að stefnandi leitaði til læknis í Þorlákshöfn eftir slysið og var greindur með mar á hægra hné og talinn hafa tognað í hálsi og mjóbaki. Hann hafði áfram óþægindi vegna þessa. Vegna þess leitaði hann til heimilislæknis á Seltjarnarnesi hinn 11. júní 2003 og fékk þá tilvísun til sjúkraþjálfara. Kvartaði hann þá um verki, aðallega vinstra megin í hálsi en einnig óþægindi í mjóbaki, sem var staðfest við skoðun. Var stefnandi af og til í meðferð sjúkraþjálfara í kjölfarið auk þess sem reynd var deyfisprautumeðferð. Fyrir liggur og samkvæmt læknsivottorðum að röntgenmyndir voru teknar af hryggjarsvæði stefnanda 27. júlí 2006. Þá er fyrirliggjandi læknisvottorð frá Guðbjörgu Sigurgeirsdóttur, heimilislækni á heilsugæslunni á Seltjarnarnesi, dags. 3. júlí 2007, þar sem fram kemur að stefnandi hafi þá enn veruleg óþægindi í hálsi, höfði og mjóhrygg. Sé ekki séð fram á að veruleg breyting verði á þessum einkennum hans úr þessu. Loks segir í læknisvottorði sama læknis, dags. 24. apríl 2009, að stefnandi sé enn með einkenni eftir slysið, viðvarandi verki í hálsi og mjóhrygg, sem séu afleiðing tognunaráverka.

Matsgerðar tveggja lækna, þeirra Guðmundar Björnssonar og Ragnars Jónssonar, var aflað sameiginlega af hálfu stefnanda og stefnda og var varanlegur miski vegna afleiðinga slyssins metinn 7 stig og varanleg örorka 5%. Stöðugleikapunktur var talinn vera 30. júlí 2003. Á grundvelli matsgerðarinnar, dags. 15. desember 2008, greiddi stefndi stefnanda fullnaðarbætur úr slysatryggingu ökumanns hinn 7. október 2009.

Með tölvupósti 6. maí 2009 tilkynnti stefnandi stefnda að hann hygðist hafa uppi kröfu til bóta úr sjúkra- og slysatryggingarlið forsjármannstryggingar sem vinnuveitandi hans, Jarðefnaiðnaður ehf., hafði keypt og stefnandi var rétthafi að. Stefndi hafnaði bótaskyldu úr tryggingunni með bréfi, dags. 4. júní 2009, á þeim grundvelli að sú krafa væri fyrnd. Vísaði stefndi í því sambandi til 12. og 13. gr. sameiginlegra skilmála YY94, sbr. 3. og 29. gr. laga nr. 20/1954. Í bréfinu var stefnanda jafnframt bent á að skjóta mætti ákvörðun félagsins til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum. Einnig var þar tiltekið að yrði ekki innan árs frá móttöku bréfsins krafist meðferðar hjá þeirri nefnd eða málinu stefnt fyrir dómstóla myndi réttur til bóta glatast, sbr. 2. mgr. 51. gr. laga nr. 30/2004. Stefnandi fór í kjölfarið fram á það við stefnda, bæði í bréfum og tölvupóstum, að félagið endurskoðaði afstöðu sína til kröfunnar, en án árangurs.

Með bréfi, dags. 6. júní 2012, sendi stefnandi kvörtun til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum, sem komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum 2. ágúst 2012 að bótaskylda stefnda úr umræddri tryggingu væri fyrir hendi, enda væri krafa stefnanda ekki fyrnd. Vísaði nefndin til þess að fjögurra ára fyrningarfrestur 29. gr. laga nr. 20/1954 hefði ekki byrjað að líða fyrr en á árinu 2009. Þá leiddi af 1. mgr. 30. gr. þeirra laga að ekki hefði verið heimilt að semja um skemmri fyrningarfresti og gæti því sex mánaða almennur fyrningarfrestur í skilmálum stefnda ekki komið til álita í málinu.

Með bréfi stefnda til stefnanda, dags. 22. ágúst 2012, tilkynnti félagið að það ætlaði ekki að una úrskurði úrskurðarnefndarinnar og höfðaði stefnandi því mál þetta til heimtu bótanna.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að tilkynning um tjónið hafi borist stefnda í tæka tíð enda hafi umboðsmaður stefnda verið fyrstur á staðinn er slysið varð. Á þeim grundvelli hafi stefndi gert upp bætur vegna tjóns á bifreiðinni VK-308 og vegna líkamstjóns stefnanda. Geti stefndi ekki byggt á umræddri tilkynningu við uppgjör bóta úr einni tryggingu en hafnað því að sú tilkynning hafi átt sér stað þegar kemur að annarri tryggingu.

Í öðru lagi gildi fjögurra ára fyrningarfrestur um kröfuna, sbr. lög nr. 20/1954, frá lokum þess almanaksárs er kröfuhafinn hafi fengið vitneskju um kröfu sína og átt þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, sbr. 29. gr. laganna. Tjónþoli geti ekki samið um lakari kjör en lögin bjóði.

Í þriðja lagi hafi fyrningarfrestur ekki byrjað að líða fyrr en matsgerð hafi verið komin í hendur stefnanda, en hún hafi verið póstlögð hinn 20. janúar 2009. Samkvæmt 29. gr. þágildandi laga um vátryggingarsamninga hafi krafan því ekki getað fyrnst fyrr en í lok árs 2012. Hafi stefnandi ekki getað leitað fullnustu hennar fyrr en matsgerð hafi legið fyrir, enda hafði hann fyrir þann tíma aldrei fengið niðurstöðu sérfræðings á tjóni sínu eða heildstætt mat á afleiðingum þess.

Stefnandi hafni þeirri staðhæfingu stefnda að réttur stefnanda til bóta glatist hafi ekki verið krafist meðferðar hjá úrskurðarnefnd eða dómstóli innan árs frá því að tilkynning hafi verið móttekin, sbr. lög nr. 30/2004, enda eigi þau lög ekki við í máli þessu. Á slysdegi hafi verið í gildi lög nr. 20/1954 en í þeim sé engu sambærilegu ákvæði til að dreifa. Að vísu segi í 29. gr. þeirra laga [svo] að „samningi um að vátryggður glati kröfu sinni, ef hann krefur hennar eigi með lögsókn innan skemmra frests en segir í 29. gr., verður eigi beitt, nema því aðeins að félagið hafi, með eigi skemmri fresti en 6 mánaða, skýrt vátryggðum skriflega frá því, hversu langur fresturinn sé og hvaða afleiðingar það muni hafa, ef hann er látinn líða ónotaður“. Þessi grein eigi einfaldlega ekki við hér enda sé ekki um neinn samning að ræða milli aðila málsins.

Um lagarök vísar stefnandi til sameiginlegra vátryggingarskilmála stefnda nr. YY94 og vátryggingarskilmála forsjármannstryggingar stefnda nr. GS50. Einnig sé vísað til laga nr. 50/1954 um vátryggingarsamninga, einkum 29. og 30. gr. laganna. Gjalddagi kröfunnar sé 14 dögum eftir þann dag er matsgerð vegna líkamstjóns stefnanda hafi verið póstlögð, eða 20. janúar 2009, í samræmi við 8. gr. sameiginlegra vátryggingarskilmála stefnda nr. YY94. Krafa um dráttarvexti styðjist við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og krafa um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi kveðst byggja kröfu sína um sýknu aðallega á því að krafa stefnanda sé fyrnd skv. 29. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 og 13. gr. sameiginlegra vátryggingarskilmála stefnda nr. YY94. Stefnandi hafi ekki tilkynnt stefnda fyrr en með tölvupósti hinn 6. maí 2009 að hann hygðist hafa uppi kröfu á grundvelli forsjármannstryggingar sem skráð sé á vinnuveitanda hans, Jarðefnaiðnað ehf. Því sé hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að tilkynning í skilningi 12. og 13. gr. sameiginlegra skilmála og 30. gr. laga nr. 20/1954 hafi borist stefnda í tæka tíð þar sem umboðsmaður stefnda hafi verið fyrstur á staðinn þegar slysið varð og stefnda hafi gert upp bætur vegna tjóns á bifreiðinni og bætur vegna líkamstjóns stefnanda á grundvelli sömu tilkynningar. Fullnaðaruppgjör til stefnanda hafi verið gert á grundvelli ábyrgðartryggingar ökumanns þess ökutækis sem stefnandi hafi lent í árekstri við og hafni stefndi því alfarið að í framangreindu felist tilkynning er varði með nokkrum hætti þá tryggingu sem hann geri kröfu um bætur úr í máli þessu. Þá hafi ekki falist í framangreindu fullnaðaruppgjöri nein viðurkenning af hálfu stefnda á bótarétti úr forsjármannstryggingunni.

 Í 29. gr. laga nr. 20/1954 hafi verið kveðið á um að kröfuhafi glataði rétti sínum á hendur vátryggjanda í síðasta lagi að fjórum árum liðnum frá lokum þess almanaksárs er kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Í 13. gr. sameiginlegu vátryggingarskilmálanna segi að kröfur þær sem rísi af skírteininu fyrnist á 6 mánuðum frá þeim tíma er kröfuhafi hafi fengið vitneskju um kröfu sína og átt þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, hafi hann ekki tilkynnt tjónið. Í 3. gr. laga nr. 20/1954 komi fram að ákvæði laganna komi því aðeins til greina að eigi sé á annan veg áskilið berum orðum í samningi eða verði talið í honum fólgið. Þetta gildi þó ekki um þau ákvæði er lögin sjálf berum orðum lýsi ófrávíkjanleg eða séu ófrávíkjanleg samkvæmt öðrum réttarreglum. Ákvæði 29. gr. sé eitt þeirra ákvæða laganna sem sé frávíkjanlegt og sé framangreind 13. gr. skilmálanna því fyllilega í samræmi við lög nr. 20/1954. Sérstaklega sé á það bent í þessu sambandi að stefnandi hafi verið varaður við því að krafa hans myndi falla niður að liðnu ári frá 4. júní 2009. Séu skilyrði 30. gr. laga nr. 20/1954 því uppfyllt verði talið að þau eigi við. Stefnda telji hins vegar þá grein laganna eingöngu taka til tómlætisreglna en ekki fyrningarreglna.

Hafnað sé þeirri málsástæðu stefnanda að honum hafi fyrst orðið ljóst á því tímamarki þegar niðurstaða matsgerðar lá fyrir að hann hefði hlotið varanleg mein af slysinu. Ljóst sé af læknisvottorði heimilislæknis stefnanda, dags. 3. júlí 2007, og matsgerð, dags. 20. desember 2008, að einkenni þeirra áverka sem stefnandi hafi hlotið í slysinu hinn 30. apríl 2003 hafi verið viðvarandi frá slysdegi. Komi og fram í matsgerðinni að þremur mánuðum eftir slysið hafi ekki verið að vænta frekari bata og teljist stöðuleikapunktur vera 30. júlí 2003. Á þeim tímapunkti hafi einkenni stefnanda því verið komin fram, eða tæplega sex árum áður en hann tilkynnti stefnda að hann hygðist krefjast bóta úr forsjármannstryggingunni.

Telja verði að stefnanda hafi átt að vera ljóst, frá því tímamarki þegar framangreint læknisvottorð hafi verið gefið út hinn 3. júlí 2007, að hann hefði hlotið varanlegt mein í slysinu. Beri því við það að miða að hann hafi frá og með þeim tíma getað leitað fullnustu kröfu sinnar. Þar sem stefnandi hafi ekki á þessu tímamarki tilkynnt um kröfu sína úr forsjármannstryggingunni hafi sex mánaða frestur skv. 13. gr. sameiginlegra vátryggingarskilmála nr. YY94 byrjað að líða á þessum tíma. Ljóst sé að stefnandi hafi ekki brugðist við innan þess tímaramma sem mælt sé fyrir um í skilmálunum og byggi stefndi á því að krafa stefnanda hafi því verið fyrnd hinn 3. janúar 2008.

Einnig sé á því byggt að krafa stefnanda hafi í síðasta lagi verið fyrnd um áramótin 2011/2012 þar sem almennur fyrningarfrestur kröfunnar skv. 29. gr. laga nr. 20/1954 hafi byrjað að líða í lok árs 2007. Hafi krafa stefnanda því í síðasta lagi verið fyrnd 1. janúar 2012, enda hefði krafa hans um greiðslu úr forsjármannstryggingu hvorki verið viðurkennd né dómsmál höfðað vegna hennar fyrir þann tíma, sbr. 1. gr. laga nr. 14/2005, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Breyti engu í þessu sambandi þótt stefnda hafi borist tölvupóstur frá stefnanda hinn 6. maí 2009 um að hann hygðist hafi uppi slíka kröfu. Slík tilkynning rjúfi ekki umræddan fyrningarfrest.

Krafa stefnda um sýknu byggist auk fyrningar á tómlætisreglum. Sé þannig á það bent að félagið hafi hafnað bótaskyldu úr formannstryggingunni með bréfi, dags. 4. júní 2009, með vísan til þess að krafa stefnanda vegna hennar væri fyrnd. Hafi honum í sama bréfi verið gefinn ársfrestur til að leggja málið fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum eða höfða mál fyrir dómstólum, sbr. 2. mgr. 51. gr. og 2. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Hafi sérstaklega verið varað við því að ella glataðist réttur til bóta. Þegar krafa stefnanda hafi borist og er höfnunarbréf stefnda hafi verið sent hafi um vátryggingarsamninginn og samskipti aðila á grundvelli hans gilt lög nr. 30/2004, enda segi í 146. gr. að þau öðlist gildi 1. janúar 2006 og gildi þá um alla vátryggingarsamninga sem séu í gildi á þeim degi. Þegar stefnandi hafi leitað til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum með kvörtun, dags. 6. júní 2012, hafi krafa hans því fyrir löngu verið niður fallin á grundvelli 2. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004.

Þrátt fyrir staðhæfingu stefnanda í stefnu um hið gagnstæða megi ráða af athugasemdum við 51. gr. frumvarps til laga nr. 30/2004 að stefnandi hafi í raun notið betri réttar en hann hefði notið skv. 30. gr. eldri laga um vátryggingarsamninga. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að höfða málið innan þess árs frests sem tilgreindur hafi verið í bréfi stefnda og verði stefnandi að bera hallann af því að hafa ekki brugðist við.

Að lokum byggi stefndi á því að stefnandi hafi glatað kröfu sinni á grundvelli 1. mgr. 124. gr. laga nr. 20/2004, þeirra meginreglna vátryggingarréttar er ákvæðið byggi á og vegna ólögfestra tómlætisreglna. Lögbundinni og samningsbundinni tilkynningarskyldu hafi ekki verið sinnt, sbr. 12. gr. sameiginlegra vátryggingarskilmála slysatryggingar nr. YY94, sem í gildi hafi verið á slysdegi, þágildandi 21. gr. laga nr. 20/1954 og núgildandi 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004. Á grundvelli allra þessara reglna hafi stefnanda borið að skýra stefnda frá því mun fyrr en hann gerði að hann ætlaði að hafa uppi kröfur á hendur félaginu vegna forsjármannstryggingarinnar.

Um lagarök fyrir sýknukröfu sinni kveðst stefndi vísa til ákvæða laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, sérstaklega 30., 29. og 21. gr., auk 13. og 12. gr. sameiginlegra vátryggingarskilmála nr. YY94. Þá sé og vísað til 124., 125. og 146. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Jafnframt vísi stefndi til 1. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Kröfu um málskostnað byggi stefndi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Eins og áður er fram komið krefst stefnandi þess, á grundvelli forsjármannstryggingar er vinnuveitandi hans keypti vegna hans, að stefndi greiði honum bætur vegna afleiðinga umferðarslyss er hann varð fyrir hinn 30. mars 2003. Stefndi styður hins vegar sýknukröfu sína aðallega við það að krafa stefnanda sé niður fallin vegna fyrningar en að öðrum kosti vegna tómlætis stefnanda.

Á þeim tíma sem umræddur tjónsatburður varð voru í gildi lög nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Ný lög um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, tóku gildi 1. janúar 2006 og leystu hin eldri af hólmi. Þrátt fyrir að í 146. gr. þeirra laga sé kveðið á um að lögin skuli, auk nýrri samninga, gilda um alla vátryggingarsamninga sem séu endurnýjaðir eða framlengdir frá og með þeim degi, svo og um alla slíka samninga sem séu í gildi á þeim degi, verður að líta svo á að ekki verði nægilega skýrlega af því ákvæði ráðið að ákvæðum 124. gr. þeirra laga skuli beita vegna tjónsatvika er áttu sér stað fyrir gildistöku þeirra. Ber því að beita ákvæðum eldri laga nr. 20/1954 við úrlausn þess hvort stefnandi kunni að hafa glatað rétti sínum til að hafa kröfuna uppi vegna fyrningar eða tómlætis við að halda henni fram. 

Samkvæmt 29. gr. laga nr. 20/1954 fyrnast kröfur sem rísa af vátryggingarsamningi á 4 árum frá lokum þess almanaksárs er kröfuhafinn fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Þá segir í 30. gr. laganna að samningi um að vátryggður glati kröfu sinni ef hann krefur hennar eigi með lögsókn innan skemmri frests en segi 29. gr. verði ekki beitt nema því aðeins að félagið hafi með eigi skemmri fresti en 6 mánaða skýrt vátryggðum skriflega frá því hversu langur fresturinn sé og hvaða afleiðingar það muni hafa verði hann látinn ónotaður. Ekki sýnist um það deilt að sameiginlegir vátryggingarskilmálar stefnda nr. YY94 og vátryggingarskilmálar forsjármannstryggingar stefnda nr. GS50 gilda um réttarsamband aðila í þessu tilliti. Verður að líta svo á að efni þeirra teljist samningur í skilningi fyrrgreindrar 30. gr. laga nr. 50/1954. Samkvæmt 13. gr. fyrrgreindu skilmálanna fyrnast kröfur þær sem rísa af vátryggingarskírteininu á 6 mánuðum frá þeim tíma er kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, enda hafi hann ekki tilkynnt tjónið. Fyrir liggur að stefndi tilkynnti stefnanda með bréfi, dags. 4. júní 2009, að félagið teldi kröfu hans vegna forsjármannstryggingarinnar fyrnda og tók þar jafnframt fram að yrði ekki krafist meðferðar hjá úrskurðarnefnd vátryggingarmála eða málinu stefnt fyrir dómstóla innan árs frá móttöku bréfsins glataðist réttur til bóta, sbr. 2. mgr. 51. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Verður ekki talið að með þessari tilkynningu hafi stefndi fullnægt skilyrðum 30. gr. laga nr. 50/1954 fyrir því að ákvæði 13. gr. sameiginlegu skilmálanna um brottfall kröfu verði beitt um ágreining aðila í máli þessu, enda verður að gera strangar kröfur til þess að efni slíkra tilkynninga sé nákvæmt með tilliti til þeirra skilyrða er tilgreind eru í lagaákvæðinu. Þegar af þeirri ástæðu verður þeirri málstæðu stefnda því hafnað.

Samkvæmt tilvitnaðri 29. gr. laga nr. 20/1954 fyrnast kröfur sem rísa af vátryggingarsamningi á 4 árum frá lokum þess almanaksárs er kröfuhafinn fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Í fyrirliggjandi matsgerð, dags. 15. desember 2008, komast matsmenn að þeirri niðurstöðu að þremur mánuðum eftir slysið hafi ekki verið að vænta frekari bata hjá stefnda og að tímabært hafi verið hinn 30. apríl 2003 að leggja mat á afleiðingar slyssins.

Af læknisfræðilegum gögnum sem fyrir liggja í málinu verður ráðið að stefndi hafi í kjölfar slyssins og allt til ársins 2007 sótt sjúkraþjálfun samkvæmt tilvísun heimilislæknis vegna verkja í hálsi og óþæginda í mjóbaki, auk þess að kvarta undan höfuðverkjaköstum. Þá voru röntgenmyndir teknir af baki hans á árinu 2006. Samkvæmt læknisvottorði heimilislæknis, dags. 3. júlí 2007, sem unnið var að beiðni lögmanns stefnanda, kemur fram að ekki sé séð fram á að veruleg breyting verði á einkennum stefnanda vegna slyssins frá því tímamarki. Verður því við það að miða að stefnanda hafi mátt vera ljóst eigi síðar en í júlí 2007 að hann hafi hlotið varanlegt líkamstjón við slysið. Á því tímamarki hafði stefnandi tilefni til að hefjast handa við fullnustu kröfu sinna með því meðal annars að afla örorkumats. Verður að leggja til grundvallar að þetta hefði verið unnt að gera fyrir árslok 2007. Byrjaði fyrningarfrestur kröfunnar því að líða 1. janúar 2008 og var krafan því fyrnd er mál þetta var höfðað 29. nóvember 2012. Verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn hluta málskostnaðar.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Árna Benedikts Árnasonar.

Málskostnaður fellur niður.