Hæstiréttur íslands
Mál nr. 214/2008
Lykilorð
- Frelsissvipting
- Líkamsárás
- Kynferðisbrot
- Dómur
- Ómerking héraðsdóms
- Aðfinnslur
|
Nr. 214/2008. |
Fimmtudaginn 13. nóvember 2008. |
|
|
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) (Óskar Sigurðsson hrl. réttargæslumaður) |
Frelsissvipting. Líkamsárás. Kynferðisbrot. Dómar. Ómerking héraðsdóms. Aðfinnslur.
X var ákærður fyrir frelsissviptingu, líkamsárás og nauðgun gegn Y, þáverandi unnustu sinni. Þeir ágallar voru á málinu að X hafði ekki verið inntur eftir því fyrir héraðsdómi hver afstaða hans hefði verið til nánar tiltekinna þátta sakarefnisins. Að öllu virtu var talið að slíkir annmarkar væru á meðferð málsins í héraði og hinum áfrýjaða dómi að óhjákvæmilegt væri að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til frekari skýrslutöku af ákærða, munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2008 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða Y 2.041.818 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. maí 2007 til greiðsludags.
Eftir að héraðsdómi var áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins en innan þess frests, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum, lýsti ákærði yfir áfrýjun fyrir sitt leyti 8. maí 2008. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, til vara að hann verði sýknaður af „öllum ákæruliðum öðrum en þeim sem hann játaði“, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Til ítrustu vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Þá krefst hann þess aðallega að kröfu Y verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að henni verði dæmd lægri fjárhæð en í héraði.
Með ákæru ríkissaksóknara 12. október 2007 var ákærða gefin að sök frelsissvipting, líkamsárás og nauðgun með því að hafa aðfaranótt 26. maí sama ár farið inn í íbúð að [...] við [...], þar sem unnusta hans, Y, hafi verið gestkomandi, togað hana þaðan út í bifreið, sem hann hafi ekið að [...], dregið Y þar út úr bifreiðinni og slegið hana í andlit eða líkama. Síðan hafi hann sett Y aftur inn í bifreiðina, ekið að heimili hennar að [...] við [...], dregið hana meðal annars á hárinu út úr bifreiðinni eftir möl og gangstétt og upp stiga inn í íbúð hennar á 2. hæð hússins, farið með hana inn á salerni og lokað hurðinni. Þar hafi ákærði veist að Y með ofbeldi, afklætt hana, sett fingur upp í kynfæri hennar og við það að nokkru notfært sér að hún gæti ekki spornað við verknaðinum vegna ölvunar, og slegið hana ítrekað í andlit og líkama, meðal annars hnefahöggi í andlitið, sem hafi valdið því að höfuð hennar hafi skollið utan í vegg. Hafi hún hlotið af þessu öllu glóðarauga og mar, rispur og bólgur í andlit, mar á enni og höfði, eymsli í hársverði og skrámur og mar víða um líkamann. Þótti þetta varða við 217. gr., 225. gr. og 1. mgr. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.
Við þingfestingu málsins í héraði 8. nóvember 2007 var eftirfarandi fært til bókar um afstöðu ákærða til sakargifta: „Ákærði viðurkennir að hafa farið í íbúð að [...], [...], umrætt sinn og leitt Y út úr íbúðinni og inn í bifreið og ekið henni að [...]. Ákærði viðurkennir að hafa dregið hana þar út úr bifreiðinni og slegið hana í andlit eða líkama. Þá viðurkennir hann að hafa ekið henni í framhaldi að [...], en neitar að hafa dregið hana á hárinu út úr bifreiðinni, eins og lýst er í ákæru. Ákærði viðurkennir að hafa farið með Y inn á salerni, afklætt hana og sett fingur upp í kynfæri hennar. Ákærði kveðst ekki muna eftir að hafa slegið hana í andlit og líkama eftir það, eins og greinir í ákæru.“ Við aðalmeðferð málsins tjáði ákærði sig að nokkru leyti nánar um einstök atriði í ákæru, auk þess sem hann bar til baka að hann hefði sett fingur inn í kynfæri Y.
Af ákæru er ljóst að ákærði var þar meðal annars borinn sökum um að hafa svipt Y frelsi með því að hafa beitt valdi til að færa hana úr íbúð að [...] og út í bifreið, aka síðan Y í bifreiðinni að [...], taka hana þar út úr bifreiðinni, færa hana á ný í bifreiðina, aka henni að [...], færa hana þar inn á salerni í íbúðinni og loka þar að þeim. Að undanskildum fyrstnefnda þættinum í þessum sakargiftum verður ekki séð að ákærði hafi verið inntur eftir því fyrir dómi hvort Y hafi verið viljug til þeirrar farar, sem að framan greinir, eða hver afstaða hans til þessa sakarefnis væri að öðru leyti. Í hinum áfrýjaða dómi var að því er varðar þessar sakir heldur ekki tekin afstaða til annars en þess hvort ákærði hefði fært Y með valdi út úr íbúðinni að [...] og brotið með því gegn 225. gr. almennra hegningarlaga. Að því er varðar sakargiftir um líkamsárás var háttsemi ákærða lýst efnislega á þann hátt í ákæru að hann hafi í fyrsta lagi slegið Y í andlit eða líkama utan við bifreiðina hjá [...], í öðru lagi dregið hana meðal annars á hárinu eftir möl og gangstétt, upp stiga og inn á salerni í íbúð hennar og í þriðja lagi slegið hana þar ítrekað í andlit og líkama, meðal annars með hnefahöggi. Í framangreindri bókun við þingfestingu málsins í héraði gekkst ákærði við því að hafa veist að Y við [...], hann neitaði að hafa dregið hana á hárinu úr bifreiðinni og inn á salerni í íbúð hennar, en hann virðist á hinn bóginn ekki hafa verið inntur eftir því hvort hann hafi dregið hana þessa leið á annan hátt. Loks kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa slegið hana inni á salerninu. Í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms er í engu vikið að árás ákærða á Y við [...]. Þar er að vísu greint frá læknisfræðilegum gögnum og ljósmyndum af áverkum Y, en án þess að skýrlega komi fram hvað sannast hafi um að ákærði hafi dregið hana, á hárinu eða á annan hátt, frá bifreiðinni og inn á salernið. Loks verður að líta til þess að ákærði er borinn sökum um að hafa sett fingur inn í kynfæri Y og að nokkru notfært sér við það að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar. Ekki verður séð að leitað hafi verið svara ákærða fyrir dómi við síðastgreindum þætti þessa ákæruefnis.
Að virtu framangreindu eru slíkir annmarkar á meðferð málsins í héraði og hinum áfrýjaða dómi að óhjákvæmilegt er að ómerkja hann og vísa því heim í hérað til frekari skýrslutöku af ákærða, munnlegs málflutnings og dómsálagningar á ný.
Rétt er að ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíði nýs dóms í málinu, en allur áfrýjunarkostnaður verður að greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns Y, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Það athugast að í hinum áfrýjaða dómi er að þarflausu rakið í löngu máli efni skýrslna, sem ákærði og vitni gáfu fyrir lögreglu við rannsókn málsins.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns Y, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 13. mars 2008.
Mál þetta, sem þingfest var þann 8. nóvember sl. og dómtekið 17. febrúar sl., var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 12. október 2007, á hendur X, kt. og heimilisfang [...],
„fyrir frelsissviptingu, líkamsárás og nauðgun, aðfaranótt laugardagsins 28. maí 2007, með því að hafa farið inn í íbúð við [...], [...], þar sem unnusta hans, Y, var gestkomandi, togað hana út úr íbúðinni og inní bifreið sem hann ók að [...], dregið hana út úr bifreiðinni og slegið hana í andlit eða líkama. Síðan að hafa sett Y aftur inn í bifreiðina, ekið að [...], [...], dregið hana, m.a. á hárinu, út úr bifreiðinni, eftir möl og gangstétt og upp stiga, inní íbúð hennar á 2. hæð hússins, inn á salerni, lokað hurðinni og veist að henni þar með ofbeldi, afklætt hana og sett fingur upp í kynfæri hennar, og við það sumpart notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar, slegið hana ítrekað í andlit og líkama, m.a. hnefahöggi í andlit sem varð til þess að hún skall utan í vegg með höfuðið. Hlaut Y glóðarauga og mar, rispur og bólgur í andlit, mar á enni og á höfði, eymsl í hársvörð og skrámur og mar víðs vegar um líkamann.
Telst þetta varða við 217. gr. og 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 og 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu Y, kt. [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 2.135.193 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 26. maí 2007.“
Ákærði mætti við þingfestingu málsins ásamt skipuðum verjanda sínum og viðurkenndi að hafa farið í íbúð að [...], [...] , umrætt sinn og leitt kæranda út úr íbúðinni og inn í bifreið og ekið henni að [...]. Ákærði viðurkenndi að hafa dregið hana þar út úr bifreiðinni og slegið hana í andlit eða líkama. Þá viðurkenndi hann að hafa ekið henni í framhaldi að [...], en neitar að hafa dregið hana á hárinu út úr bifreiðinni, eins og lýst er í ákæru. Ákærði viðurkenndi að hafa farið með kæranda inn á salerni, afklætt hana og sett fingur upp í kynfæri hennar. Ákærði kvaðst ekki muna eftir að hafa slegið hana í andlit og líkama eftir það, eins og greinir í ákæru. Þá hafnaði ákærði framkominni bótakröfu. Að beiðni verjanda ákærða var málinu frestað til fyrirtöku til 17. desember sl. og fór aðalmeðferð fram þann 19. febrúar sl. Krafðist ákærði sýknu af þeirri háttsemi sem hann hafði ekki játað og að hann yrði dæmdur til vægustu refsingar að öðru leyti. Ákærði krafðist þess að bótakröfunni yrði vísað frá dómi, til vara að hann yrði sýknaður af henni og til þrautavara að hún yrði verulega lækkuð. Þá var málsvarnarlauna krafist og að þau yrðu greidd úr ríkissjóði.
Málavextir.
Í frumskýrslu lögreglu segir að lögregla hafi verið kölluð til á Sjúkrahúsið á Selfossi vegna líkamsárásar á kæranda. Ræddi lögreglan þar við konuna og tók af henni myndir. Frásögn hennar var á þá leið að hún hefði verið í samkvæmi aðfaranótt laugardagsins 26. maí 2007 þegar ákærði kom þar inn, og hefði hann tekið hana með valdi út úr íbúðinni og hent henni inn í bíl. Ákærði hafi ekið heim til hennar og þar dregið hana á hárinu úr bifreiðinni og inn í herbergi þar sem hann skildi hana eftir. Kvaðst kærandi þar hafa sofnað, en verið vakin af ákærða og hann dregið hana inn á salerni íbúðarinnar þar sem hann hefði gengið í skrokk á henni. Þá kvaðst hún ekki muna eftir árásinni þar sem hún myndi ekkert af því sem gerðist eftir að hann hafði fleygt henni á gólfið á salerninu. Hún hefði síðan rankað við sér og fengið dóttur sína til að opna fyrir sig salernið og hleypa sér út. Dóttirin hafi verið treg til að opna þar sem ákærði hefði bannað henni að opna dyrnar. Ákærði hafði í framhaldi samband við systur kæranda og sagði henni frá verknaðinum.
Í málinu liggur fyrir vottorð Víðis Óskarssonar læknis, dagsett 30. maí 2007, en þar segir um ástand kæranda: „Mjög illa farin í öllu andlitinu og með miklar bólgur mjög víða þar. Mikið mar og bólga undir hæ. auga og niður á kinnina. Vi. megin í andliti er hún með glóðarauga og talsvert bólgin. Hún er lang mest bólgin yfir hæ. kinnbeini. Talsverð bólga neðarlega á vi. kinn. Talsverðar rispur og skrámur hæ. megin á andliti. Bólgnar varir og sprungnar og storkið blóð í þeim. Tennur virðast í fljótu bragði vera eðlil. Er aum yfir öllu þessu svæði. Hematom og mar á enni og á höfði, mest á hnakka, mikil eymsli í öllum hársverði. Allt bakið er alsett skrámum og mari, alveg frá báðum herðum og niður allt bakið. Klórmerki á vi. brjósti og upp á bringu hæ. megin. Minni skrámur og mar vi. megin á kvið. Hún er mjög aum yfir öllu bakinu. Minna aum yfir vi. brjósti, hæ. megin á bringu og kvið, vi. megin. Bólgin, alsett skrámum og mari á báðum rasskinnum og mikið eymsli þar. Mikið af skrámum á báðum handleggjum og mari, mest er það á framhandleggjum báðum. Talsvert af skrámum, sárum á hnjám og fótleggjum, meira á hæ. fótlegg. Líka mikið af mari. Talsvert af skrámum og sárum á ristum og tám. Er í sjokki og við ræðum lengi saman, fær ráðl. varðandi eftirfylgni vegna höfuðhöggs “ Þá liggur fyrir vottorð Gylfa Haraldssonar heilsugæslulæknis, dagsett 24. nóvember 2007, þar sem komu hennar á HSU á Suðurlandi er lýst, áverkum og komum eftir það.
Skýrslur fyrir lögreglu og dómi.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu þann 27. maí 2007. Kvaðst ákærði hafa átt í föstu ástarsambandi við kæranda síðan í október 2005 og hefðu samskipti þeirra verið mjög náin. Í bígerð hafi verið hjá þeim að ákærði, sem bjó á [...], flytti að [...], í íbúð við hlið íbúðar kæranda en ekki inn til hennar vegna vinnuaðstöðu sem var honum nauðsynleg. Kvaðst ákærði hafa komið á heimili kæranda að undanförnu á föstudögum eftir vinnu og dvalið þar alla helgina. Kærandi hefði hins vegar beðið ákærða að koma ekki þennan föstudag heldur daginn eftir þar sem kærandi ætlaði að horfa á sjónvarpsþátt með dóttur sinni. Kvað ákærði kæranda ekki hafa haft símasamband við sig þetta föstudagskvöld og hann undrast það þar sem þau gerðu það iðulega þegar þau væru fjarri hvort öðru. Ákærði kvaðst hafa vaknað um þrjúleytið þessa nótt og ákveðið að aka austur að [...] til kæranda. Hann hefði sent henni smáskilaboð en hún ekki svarað þeim. Ákærði kvaðst hafa verið kominn á [...] um fimmleytið um morguninn og farið þá inn í íbúð kæranda, sem var ólæst. Þar hefði hann hitt dóttur kæranda, A, sem kvað móður sína hafa farið til systur sinnar. Þá kvaðst ákærði hafa séð tómar léttvínsflöskur heima hjá kæranda en hann kvað hana drekka mikið og taldi að hún hefði farið ofurölvi á bifreiðinni. Þá hefði ákærði séð farsíma kæranda á borðinu og flett upp í honum og séð nafnið „B“ í símanum og hringt í það númer. Hefði karlmaður svarað og kynnt sig sem C. Sá hefði síðan ekki svarað við ítrekaðar hringingar ákærða. Í framhaldi fór ákærði út og leitaði að bifreið kæranda sem hann fann fyrir utan [...]. Ákærði kvaðst þá hafa farið inn í íbúðarhúsið við hliðina á [...] en útidyrnar hefðu staðið opnar. Í stofunni hefði hann séð kæranda og C í faðmlögum. Ákærði kvaðst hafa tekið í hönd kæranda og dregið konuna út úr húsinu en hún hefði verið mjög drukkin og völt á fótum. Kvaðst hann hafa sett hana í aftursæti bifreiðar sinnar og ekið af stað en hún reynt að klöngrast fram í en ákærði varnað henni þess. Kvaðst hann hafa ekið að afleggjaranum sem lægi upp að [...] og stöðvað bifreiðina þar þar sem hann vildi ræða við kæranda. Hefði hann farið út úr bifreiðinni, opnað dyrnar þar sem kærandi sat og dregið hana út úr bifreiðinni til að reyna að ræða við hana. Hefði hann viljað gera það í einrúmi og ekki láta A, dóttur kæranda, verða vitni að rifrildi ef til þess kæmi, en ákærði kvaðst hafa grunað kæranda um að vera í tygjum við annan karlmann. Kvaðst ákærði hafa slegið kæranda þarna við bifreiðina og rifið af henni bol sem hún klæddist. Kvað ákærði að sér hefði ekki verið sjálfrátt á þessu augnabliki en hann hefði ætlað að flytja til kæranda eftir eina viku. Kvaðst hann ekki geta sagt hvort hann hefði dregið hana út á hárinu eða ekki eða hvernig hann sló hana. Ákærði kvaðst hafa sett kæranda aftur inn í bifreiðina og ekið að blokkinni þar sem hún bjó og dregið hana út úr bifreiðinni. Kvaðst hann ekki muna hvernig hann gerði það, hann hafi hugsanlega rifið í hár hennar. Síðan hefði hann á einhvern hátt dregið hana með sér upp í íbúð hennar og farið með hana inn á salerni. Kvaðst hann hafa viljað aðstoða hana við að þrífa sig en honum hafi verið mikið í mun að A dóttir hennar sæi hana ekki svona á sig komna. Þá kvaðst ákærði hafa grunað kæranda um að hafa átt kynmök við C og hefði viljað fá sönnun fyrir því og því afklætt hana og þreifað á kynfærum hennar til að finna út úr því hvort hún hefði átt kynmök. Hefði hann fundið að kynfæri hennar hafi verið mjög vot og leggöng hennar víð en hann hefði gætt að þessu með hönd sinni. Að þessu loknu hefði hann skrúfað frá sturtunni og þrifið kæranda. Ákærði kvaðst hafa misst algjörlega stjórn á sér inni á salerninu við að fá þessa vissu og hann hafi því slegið kæranda ítrekað án þess að muna nákvæmlega hvernig hann gerði það. Þá kvaðst ákærði hafa farið fram af salerninu einhverju sinni og rætt við A og útskýrt fyrir henni á hverju gengi og hvers vegna hann væri móður hennar reiður. Hefði A verið mjög miður sín. Þá kvaðst ákærði hafa skipað kæranda að bíða inni á salerninu en hún hefði verið kófdrukkin. Í framhaldi hefði kærandi farið inn í sitt herbergi og læst. Ákærði kvaðst þá hafa ákveðið að fjarlægja af heimilinu þá muni sem hann hafði þá þegar flutt heim til kæranda. Ákærði ók síðan heim til sín á [...] og tæmdi bifreiðina en ók síðan aftur að [...] og skildi bifreiðina eftir þar, þar sem hún var skráð á nafn kæranda. Þá kvaðst ákærði hafa kvatt móður kæranda, systur og börn kæranda og sagt þeim ástæðuna fyrir sambandsslitum þeirra.
Ákærði mætti aftur hjá lögreglu þann 25. júní 2007 og kvaðst þá ekkert hafa við fyrri framburð sinn að bæta. Var honum þá kynnt bótakrafa kæranda sem hann hafnaði að öllu leyti.
Ákærði kom fyrir dóminn og kvaðst hafa kynnst kæranda í október árið 2005. Þau hafi verið samfellt saman síðan þá utan að hafa tekið sér tvö stutt hlé. Kvað hann þau hafa hist tvisvar til þrisvar í viku að jafnaði, ýmist hún komið til hans eða hann til hennar, en þegar líða tók á sambandið þá hefði hann meira farið heim til hennar að [...] . Hann kvað samband þeirra A hafa verið nokkuð gott, hann hefði gefið henni kött og ýmislegt fleira. Hann kvað þó nokkra drykkju hafa verið á þeim kæranda þegar þau voru samvistum og þá hafi stundum komið til rifrilda en yfirleitt hafi verið unnið vel úr því án ofbeldis. Ákærði kvað það hafa staðið til umrædda helgi að hann færi austur til kæranda. Þau hafi verið farin að ræða möguleika á sambúð og þá þannig að ákærði leigði sér íbúð við hliðina á íbúð kæranda þar sem hann gat ekki haft næga vinnuaðstöðu í íbúð hennar. Ákærði kvað það ekki óalgengt að hann væri að koma seint um kvöld eða um nótt austur í helgarfrí. Þessa tilteknu helgi hefði A beðið móður sína um að fresta komu ákærða þetta kvöld þar til daginn eftir þar sem hún vildi eiga kvöldið ein með móður sinni. Hefði kærandi beðið ákærða um þetta og hefði verið ákveðið að hann kæmi daginn eftir. Ákærði kvaðst hafa vaknað upp um miðja nótt á heimili sínu og ákveðið að fara austur þá strax. Hann hefði ítrekað sent kæranda smáskilaboð til að láta hana vita að hann væri á leiðinni en hún ekki svarað þeim. Þá ákvað hann að hringja í hana en hún ekki svarað. Ákærði kvaðst hafa farið inn á heimili kæranda og séð þar ummerki um drykkju. A hefði verið sofandi en bifreið kæranda ekki heima en báðir símarnir sem kærandi hafði til umráða voru heima. Kvaðst ákærði hafa fyllst tortryggni þarna og því skoðað í síma kæranda og séð þar símanúmer sem hann kannaðist ekki við. Hann hefði vakið A og spurt hana hvort hún þekkti einhvern B eða móðir hennar en hún hefði neitað því. Ákærði kvaðst hafa hringt í þetta símanúmer, sem hefði verið skráð í Kópavogi, en þarna hefði ákærði verið kominn í mikið uppnám. Karlmaður hefði svarað og kvartað yfir að vera vakinn en síðan skellt á. Ákærði kvaðst því hafa hringt aftur og kynnt sig og sagst vera að leita að kæranda. Hefði hann hringt í þriðja sinn og karlmaður svarað en farið undan í flæmingi. Ákærði kvaðst á þessum tímapunkti hafa verið orðinn tortrygginn og afbrýðisamur en vildi þó gera gott úr öllu. Kvaðst ákærði áður hafa haft ástæðu til að vantreysta kæranda en hún hefði verið búin að vinna traust hans þegar þarna var komið. Í framhaldi hefði hann tekið rúntinn um [...] og séð bifreið kæranda fyrir utan [...] við hlið bifreiðar C en hann kvaðst hafa ástæðu til að ætla að þau væru að draga sig saman. Kvaðst ákærði hafa gengið að íbúðarhúsinu en þar hefðu útidyrnar verið opnar og hann því gengið beint inn. Þegar hann kom inn í stofuna hefðu kærandi og C verið þar og kærandi setið svo gott sem í fanginu á C. Hann hefði því tekið í hönd kæranda og ætlað að leiða hana út í bifreiðina en kærandi hefði verið mjög drukkin og hún hrasað á leiðinni út. Kærandi hefði ekki streist á móti en ákærði hefði ætlað með kæranda heim og ræða við hana. Á leiðinni heim hefði ákærða verið hugsað til A og viljað hlífa henni við að verða vitni að rifrildi ef til þess kæmi. Því hefði hann ekið að [...] en á leiðinni þangað hefðu hann og kærandi átt orðaskipti sem komu honum í enn meira uppnám og í kjölfarið kvaðst hann hafa tekið ákvörðun um að kanna hvort hún hefði átt kynmök við C eða ekki en kærandi hefði þverneitað því. Ákærði kvaðst hafa tekið kæranda út úr bifreiðinni og hann hefði kannað hvort kærandi væri blaut á milli læranna og á kynfærum. Kvaðst ákærði hafa verið kominn í mikla geðshræringu þegar þarna var komið þar sem framtíð hans stóð og féll með því. Ákærði kvaðst hafa afklætt kæranda þarna á fjallinu og fengið vissu sína fyrir því að hann hefði ekkert meira með þessa konu að gera í framtíðinni. Aðspurður um það misræmi sem gætti í framburði ákærða fyrir dómi og lögreglu um þetta atvik kvaðst ákærði ekki geta skýrt það, hann væri að reyna að upplýsa málið eins og hann myndi það best. Kvað hann líkur á því að það sem hann hefði borið fyrir lögreglu um þetta atvik væri örugglega nær sannleikanum þar sem það væri nær í tíma. Ákærði sagðist hafa slegið kæranda í fáein skipti á [...]. Hann mundi eftir að hafa dregið hana úr gallabuxunum en ekki hvort hann hefði klætt hana í þær aftur þar. Þegar svo bráði af ákærða hefði hann farið með hana heim. Á bifreiðastæðinu heima hjá kæranda hefði hún margdottið vegna ölvunarástands síns. Ákærði sagði það ekki geta verið að hann hefði dregið kæranda á hárinu. Þegar inn í íbúðina var komið hefði ákærði farið með kæranda inn á baðherbergi í þeim tilgangi að þrífa hana. Aðspurður nánar um atvik inni á baðherbergi kvaðst ákærði ekki muna það nákvæmlega, hann hafi vafalaust slegið kæranda en hún hafi verið mjög drukkin og óstyrk á þessum tímapunkti. Hann kvaðst ekki muna atburðarásina nákvæmlega en hann muni að hann hafi slegið hana aftur á salerninu. Aðspurður nánar um að hafa farið með fingurinn upp í leggöng kæranda telur hann að svo hafi ekki verið en hann hefði þreifað á sköpum konunnar í þeim tilgangi að finna sæði eða útferð. Ákærði mundi ekki hvernig kærandi var klædd á baðherberginu en hann mundi að hún hefði farið í sturtu og hann aðstoðað hana við það. Þá kvaðst ákærði hafa rætt við A og útskýrt ástand móður hennar en hann hefði ekki viljað láta A sjá móður sína. Hann hefði hrópað og viðhaft ljót orð við kæranda auk þess sem hann hefði sagt A að hann vildi ekki að hún sæi móður sína. Hann hefði sagt A að hann væri að yfirgefa móður hennar og A hefði hjálpað sér við að koma eigum hans út í bíl. Í framhaldi hefði hann ekið til Reykjavíkur og losað dótið úr bifreiðinni. Hefði hann fengið vin sinn til að aka aftur með sér að [...] í þeim tilgangi að skilja bifreiðina eftir hjá kæranda en bifreiðin hefði verið skráð á hennar nafn. Hefði hann farið inn á heimili kæranda í þeirri ferð til að kanna ástand hennar og þá hefði hann farið til D, systur kæranda, og móður þeirra. Aðspurður um þá áverka á kæranda sem lýst er í ákæru og þá hvort ákærði drægi í efa að þeir væru af hans völdum, kvað ákærði hana hafa hrasað á leið út úr íbúð C auk þess sem hún hefði dottið uppi á fjalli á [...] en hann hefði verið viti sínu fjær og gæti ekki svarið fyrir að þeir væru af hans völdum.
Kærandi gaf skýrslu hjá lögreglu þann 26. maí 2007. Kvað hún sig og ákærða hafa verið nána vini síðastliðin ár en ekki verið í sambúð. Kvaðst kærandi búa í íbúð sinni ásamt fjórtán ára dóttur sinni, A. Kvað kærandi að hún og ákærði hafi verið saman flestar helgar auk þess að hittast líka í miðri viku og hafi þá ákærði oftast dvalið á hennar heimili. Kvaðst hún hafa átt von á ákærða þá um morguninn en hún hafi verið gestkomandi kvöldinu áður í húsi á [...]. Ákærði hefði komið í það hús, líklega eftir klukkan fjögur um morguninn. Hann hefði ætt inn í húsið, sótt kæranda og leitt hana hálfnauðuga út í bifreið sem hann var á. Ákærði hefði síðan ekið að heimili kæranda og dregið hana út úr bifreiðinni á hárinu og dröslað henni eftir heimreiðinni að blokkinni og upp í íbúð hennar, meira og minna á þann hátt að draga hana á hárinu og við það hefði hún ekki náð að koma fótunum undir sig. Eftir að þau komu inn í íbúðina hefði kærandi farið inn í herbergi sitt og lagst til svefns. Ákærði hefði yfirgefið íbúðina fljótlega að því er kærandi taldi. Um klukkan níu um morguninn hefði ákærði ruðst inn í herbergi hennar, rifið hana á fætur og neytt hana til að fara með sér inn á salerni. Það hefði hann gert með því að taka undir hendur hennar og neyða hana þangað. Þegar þangað var komið hefði ákærði ráðist á kæranda með hnefahöggum og hefði höfuð hennar meðal annars slegist í vegg af miklu afli. Við það hefði henni sortnað fyrir augum. Kvaðst hún ekki vita hversu lengi hún hafi verið án meðvitundar á salerninu en næst mundi hún eftir sér þegar hún var komin upp í rúmið sitt og A, dóttir hennar, kallaði til hennar kveðju því A hefði verið að fara til vinnu sem hún mætti í klukkan tíu. Um hádegisbilið hefði systir hennar hringt í sig og kærandi sagt henni þá hvað hefði gerst. E hefði síðan ekið henni á Selfoss til læknis.
Kærandi gaf aftur skýrslu hjá lögreglu þann 9. ágúst 2007. Kvaðst hún hafa verið í miklu sjokki þegar hún gaf fyrri skýrslu hjá lögreglu og ekki hafa munað árásina glöggt. Kvað hún ákærða hafa komið inn á heimili C án þess að banka eða gera vart við sig á nokkurn hátt. Hann hefði verið eldrauður af bræði og tekið undir annan handlegg hennar og leitt hana nauðuga út úr húsinu en hún hefði ekki getað streist á móti þar sem hún hafi verið stjörf af hræðslu. Kærandi kvaðst ekki muna til þess að ákærði hefði ekið með hana að vegamótunum við [...] þar sem hann stöðvaði bifreiðina og gekk í skrokk á henni. Hún kvaðst muna næst, eftir að ákærði hafði sett hana inn í bifreiðina, að hann ók henni heim og hefði hann dregið hana út á hárinu og síðan dregið hana þannig að blokkinni sem hún búi í. Þá hefði hann dregið hana inn á baðherbergi þar sem hann barði hana. Hún hefði fengið hnefahögg í andlitið og muni síðan ekkert meira fyrr en hún rankaði við sér á gólfinu á salerninu. Þá kvaðst hún hafa reynt af veikum mætti að kalla á dóttur sína þar sem hún hefði heyrt þrusk frammi en ekki áttað sig á því hvað fór þar fram. Þá mundi hún eftir því að hafa farið úr fötunum og í náttföt sem voru inni á salerni. Þaðan hefði hún síðan farið yfir í svefnherbergi sitt. Ákærði hefði ruðst inn í herbergi hennar, eftir að A var farin til vinnu eftir klukkan tíu um morguninn. Hann hefði ekki lagt á hana hendur í það skiptið.
Kærandi kom fyrir dóminn. Kvað hún sig og ákærða hafa kynnst á Hótel Örk í september 2005 og fljótlega hefðu þau farið að hittast. Kvað hún ákveðna takta hafa verið í fari ákærða sem bentu til þess að hann væri ofbeldishneigður. Hann æsti sig út af smámunum, væri fýlugjarn og öfgafullur í samskiptum. Þá hefði hún tekið eftir því að ef hundurinn, sem ákærði átti, hlýddi ekki hefði ákærði sparkað í hann. Kærandi kvaðst alls ekki hafa verið tilbúin til að fara í sambúð en ákærði sótt það fast. Því hefði hann fest sér íbúð nálægt henni. Á þeim tíma þegar árásin átti sér stað, kvað kærandi að hún hefði viljað losna úr sambandinu. Fannst henni að tilgangur ákærða með því að flytja til sín væri frekar sá að fylgjast með sér en að treysta sambandið. Hann hafi verið tortrygginn og verið með fyrirspurnir um hegðun hennar sem henni hafi þótt óþægilegar. Þetta kvöld hefði ekki staðið til að ákærði kæmi til hennar því dóttir hennar hefði óskað eftir því sérstaklega að ákærði kæmi ekki austur til þeirra. Ákærði hefði tekið það óstinnt upp en ákveðið hefði verið að hann kæmi til hennar daginn eftir. Þetta kvöld hefðu þær mæðgur horft á sjónvarpið og þegar líða tók á kvöldið hefði henni farið að leiðast en henni hefði ekki dottið í hug að hringja í ákærða því þá þegar hafi hún verið í þeim hugleiðingum að slíta sambandi þeirra. Um kvöldið hefði C í [...] hringt í sig og boðið sér heim og hún þegið það en þau væru kunningjar. Sími kæranda hefði verið rafmagnslaus svo hún hefði skilið hann eftir heima í hleðslu. Þetta hafi sennilega verið um miðnætti. Þau hefðu setið í stofunni og fengið sér öl og rætt meðal annars um ljóðagerð, músík og fleira. Þá hefði hún verið búin að fá sér rauðvín áður en hún fór til C en hann hefði veitt sér bjór. Hún kvað ákærða hafa skyndilega verið kominn inn í húsið, hún hefði stokkið upp úr stólnum og séð í hvaða ham ákærði var. Hún hafi verið mjög hrædd en ákærði hefði dregið sig út úr húsinu skólausa og á hlýrabol og gallabuxum. Ákærði hefði ýtt sér inn í aftursæti bifreiðarinnar. Kvað hún ákærða hafa verið virkilega sturlaðan og hún mjög hrædd. Kvað hún leiðina frá [...] og heim til hennar vera í hálfgerðri þoku en muna þó að ákærði hefði öskrað á sig og vænt sig um að halda fram hjá sér. Kærandi kvaðst ekki muna eftir því að hafa farið upp á [...] og farið út úr bifreiðinni þar en hún kvaðst muna greinilega þegar þau komu á bifreiðaplanið heima hjá henni en þar hefði hún ekki þorað út úr bifreiðinni. Ákærði hefði þá rifið í hárið á henni, sem var sítt, og dregið hana eftir mölinni inn í íbúð. Kvaðst hún ekki hafa komið fótunum undir sig þegar hann dró hana inn. Þegar þau komu inn í íbúðina ætlaði kærandi að reyna að forða sér en jafnframt að forðast að vekja dóttur sína. Ákærði hefði þá hent henni inn á salerni og lokað hurðinni og byrjað að berja hana í andlitið og svo hefði hún fengið rothögg og eftir það hafi allt orðið svart. Kvaðst hún þó vita að höfuðið á henni hafi skollið í vegginn. Kvaðst hún hafa verið í gallabuxum en bolurinn sem hún var í verið í tætlum eftir að hún hafði verið dregin eftir mölinni. Þá hefði hún verið berfætt. Kvaðst hún muna óljóst eftir því að ákærði var að draga hana úr buxunum og hún reynt að mótmæla því. Þá kvaðst hún muna að hann hafi kallað á sig, „helvítis hóran þín, ég veit þú hefur riðið honum, ég er með sönnunargögnin á fingrunum.“ Aðspurð kvaðst hún ekki hafa verið ofurölvi, hún hafi hins vegar orðið mjög hrædd strax þegar hún sá í hvaða ham ákærði var þegar hann kom í húsið til C. Kvaðst hún muna að ákærði var að ræða eitthvað við dóttur hennar og hún þá reynt að ná sambandi við hana en ákærði komið í veg fyrir það. Þegar hún sá í spegli hvernig hún leit út í andliti ákvað hún að láta dóttur sína ekki sjá sig svo hún beið þess að heyra ekki í henni til að sæta lagi við að komast inn í svefnherbergi, sem og hún gerði. Hún hefði þó heyrt í dóttur sinni eftir það en kærandi séð til þess að dóttirin sæi ekki andlit hennar. Stelpan hefði síðan farið í vinnu um klukkan tíu. Ákærði hefði komið eftir það í íbúðina, snarbrjálaður og borið framhjáhaldið upp á hana. Kvaðst kærandi hafa þá verið mjög óttaslegin og rekið ákærða út úr húsinu. Ákærða kvaðst hafa verið hálf vönkuð þennan morgun en A hefði komið heim í hádeginu. Seinna sama dag hefði A komið aftur með frænku sinni og í framhaldi hefði hún farið til læknis. Kærandi kvaðst hafa verið mjög hrædd dagana eftir árásina og hefði hún ekki treyst sér til að vera í íbúðinni næstu þrjá daga en þá búið hjá frænku sinni. Ákærði hefði seinna sent sér skilaboð um að hann væri í sumarhúsi við Apavatn og sent sér mynd tekna af honum fyrir utan íbúð kæranda og þá hefði hún fyllst skelfingu. Árásin hefði haft mikil áhrif á líðan hennar og A dóttur hennar. Aðspurð neitaði kærandi að hafa verið drukkin um kvöldið en hún hefði verið búin að fá sér kannski hálft rauðvínsglas áður en hún fór C. Kærandi sagði skýringuna á því að símanúmer C væri vistað í farsíma hennar undir nafninu „B“ vera þá að ákærði hafi verið afbrýðisamur og talið C stíga í vænginn við hana og í eitt skipti orðið reiður þegar hann sá símanúmer C í símanum hennar og heimtað að hún eyddi því númeri. Því hefði hún breytt nafninu á honum. Þá kvað kærandi dóttur sína hafa átt mjög erfitt eftir atburðinn, hún hafi fengið martraðir og gengið illa í skóla. Því hefðu þær báðar verið í samtölum hjá Nönnu Mjöll Atladóttur félagsráðgjafa en hún hefði ekki komist til geðlæknis ennþá því hún viti ekkert hvert hún eigi að leita.
A, kt. og heimilisfang, [...], dóttir kæranda, ræddi við lögregluna að kvöldi laugardagsins 26. maí 2007. Kvaðst hún hafa verið að horfa á sjónvarpið um kvöldið með móður sinni en móðir hennar farið eftir sjónvarpsþáttinn til systur sinnar. Kvaðst A hafa farið að sofa um klukkan hálfeitt. Hún hefði síðan vaknað við að ákærði bankaði á svefnherbergisdyrnar hjá henni og ræddi við hana. Taldi hún að það hafi verið um fimmleytið um morguninn. Ákærði hefði verið búinn að skoða farsíma móður hennar því hann hefði spurt sig um B sem A vissi ekki hver var. Þá kvaðst A hafa sofnað aftur en vaknað nokkru seinna við það að ákærði og móðir hennar rifust inni á baðherbergi. Hún hefði heyrt einhverja dynki og heyrt sjampóbrúsa falla en ekki áttað sig á því hvað var að gerast. Taldi hún að klukkan hefði verið um sjö eða hálfátta um morguninn. Kvaðst A þá hafa farið fram í stofu og hefði ákærði komið fram af baðherberginu og rætt við sig en hann hefði lokað baðherbergisdyrunum á meðan og hindrað kæranda í að komast fram. Ákærði hefði síðan farið aftur inn á baðið og hefði eitthvað mikið gengið á þar inni í framhaldi. Hefði hún heyrt ákærða segja mjög ljóta hluti við kæranda, meðal annars „ég ætla að kýla þig“ og „ég ætla að drepa þig“. A kvaðst hafa farið aftur inn í herbergið sitt en farið fram nokkru síðar og hefði móðir hennar þá verið komin inn í svefnherbergi sitt en ákærði verið að taka saman dót sem hann átti, meðal annars sjónvarp. Kvaðst A hafa borið einn poka fyrir hann út í bifreið hans. A fór síðan til vinnu klukkan tíu um morguninn en fór aftur heim í hádegismat og þá hefði hún séð útlitið á móður sinni. Kvað hún ákærða vera flestar helgar hjá móður sinni og hafa þá oft vín um hönd.
Skýrsla var tekin af A í Barnahúsi við aðalmeðferð málsins vegna æsku hennar. Var sú skýrsla hljóðrituð. Sagðist A hafa vaknað um nóttina við bank í vegginn. Hún hefði sofnað aftur en vaknað fljótlega og farið fram og þá heyrt ákærða öskra á móður sína og heyrt einhvern kýla í vegginn. Hún kvaðst hafa orðið hrædd og spurt ákærða hvað væri að gerast. Hann hefði sagst hafa kýlt móður hennar því hún hefði verið að halda framhjá sér og ætti skilið að vera barin. Hún hefði heyrt ákærða kalla móður sína hóru og að hún væri heppin að dóttir hennar væri heima því annars hefði hann drepið hana. Kvaðst A hafa verið mjög hrædd og haldið að ákærði myndi drepa kæranda. Ákærði hefði komið fram úr baðherberginu og rætt við sig og þá hefði kærandi reynt að komast út líka en ákærði hrint henni aftur inn á salerni. A kvað ákærða hafa bannað sér að sjá móður sína og hún hefði ekki séð hana fyrr en hún kom heim úr vinnu seinna um daginn ásamt frænku sinni.
C, kt. og heimilisfang [...] , gaf skýrslu hjá lögreglu þann 23. ágúst 2007. Kvaðst hann tengjast kæranda á þann hátt að hún hefði meðal annars falast eftir vinnu hjá honum en C kvaðst reka [...] á [...]. Kvaðst C hafa átt afmæli þennan dag og því hefðu verið gestir á heimili hans um kvöldið. Rétt eftir að gestirnir voru farnir um miðnætti hefði kærandi hringt heim til hans og komið í heimsókn í kjölfarið. Þau hefðu setið í stofunni við spjall þegar ákærði hefði komið óvænt inn í húsið og gengið inn í stofuna og sótt kæranda sem sat þar í sófa. Kvaðst C ekki muna hvort ákærði hefði togað í handlegg hennar þegar hann fór með hana út eða hvort hann hefði bara beðið hana í orðum að fara með sér. Ákærði hefði ekkert sagt við C en ákærði hefði verið ör í skapi. C kvaðst ekki gera neinar kröfur vegna þessarar innkomu ákærða.
C kom fyrir dóminn og kvaðst aðspurður ekki þekkja kæranda mikið en þau væru málkunnug. Kærandi hefði komið stundum í vinnu í sjoppuna hjá sér en engin vinátta hefði verið á þessum tíma. Kvað hann kæranda hafa komið við hjá sér milli ellefu og tólf um kvöldið og þau tekið tal saman. Skyndilega hefði maður birst inni á gólfi hjá sér til að taka kærustu sína með sér heim. Frekari samskipti hefðu ekki verið á milli þeirra. Aðspurður mundi C ekki til þess að ákærði hefði verið búinn að hringja til sín áður. Kvað hann húsið hafa verið ólæst þegar ákærði kom inn og ákærði sagt kærustu sinni að koma í skipunartóni. Ekki mundi C hvort ákærði hefði verið fruntalegur þegar hann fór með kæranda með sér út. Kvað hann kæranda ekki hafa verið mikið ölvaða þegar hún kom til hans en hann hefði boðið henni upp á bjór á meðan hún stansaði. Aðspurður kvaðst hann minna að kærandi hefði setið í sófa í stofunni en hann í stól þegar ákærði kom inn.
D, kt. og heimilisfang, systir kæranda, gaf skýrslu hjá lögreglu. Kvað hún ákærða hafa hringt í sig um klukkan hálfátta umræddan morgun og vera þá á leið til Reykjavíkur. Hefði ákærði sagt henni að hann hefði farið með höndina ofan í buxur kæranda og komist að því að hún hefði verið nærbuxnalaus. Ákærði hefði síðan komið í vinnuna til sín milli klukkan hálfellefu og ellefu um morguninn og sagst hafa slegið kæranda utan undir þar sem kærandi hefði farið illa með hann og hún hefði átt þetta skilið.
D kom fyrir dóminn og kvaðst hafa kynnst ákærða í gegnum kæranda. Kvaðst hún ekki hafa haft góða tilfinningu fyrir ákærða og meðal annars hafi ástæðan verið sú hvernig hann kom fram við hund sem hann var með. Kvað hún ákærða hafa hringt í sig milli klukkan hálfátta og átta um morguninn og sagt henni frá því sem gerðist og kvaðst ætla að kveðja hana. Ákærði hefði síðan komið seinna sama morgun til sín á vinnustaðinn og rætt við hana. Hafi ákærði hallmælt systur hennar við hana og hafi hún fengið á tilfinninguna að ákærði væri fórnarlamb eftir samskipti við kæranda. Þá hefði ákærði sagt við sig að hún skyldi ekki láta sér bregða þegar hún sæi kæranda en hann hefði slegið hana.
Víðir Óskarsson heimilislæknir kom fyrir dóminn og staðfesti vottorð sem hann gaf út 30. maí 2007. Kvað hann útilokað að þeir áverkar sem voru á kæranda gætu verið tilkomnir nema af völdum annars aðila. Varðandi eymslin í hársverði væri eina skýringin tog á hári en engir áverkar hafi verið í hársverði sem gætu skýrst af falli. Áverkar og skrámur á baki litu út fyrir að hafa orsakast af því að viðkomandi hafi verið dreginn eftir einhverju, möl eða slíku. Kærandi hefði verið í áfalli við komu, sem hafði áhrif á frásögn hennar.
Nanna Mjöll Atladóttir, kt. 191049-2259, félagsráðgjafi og félagsmálastjóri í uppsveitum Árnessýslu og Flóa, kom fyrir dóminn og kvaðst fyrst hafa haft kynni af kæranda og dóttur hennar í lok ágúst 2006. Síðan hafi verið stanslaus samskipti við heimilið, meðal annars vegna aðstæðna dóttur kæranda. Kvaðst hún hafa hitt þær mæðgur á þriðjudeginum eftir árásina og þá hafi þeim liðið illa. Kvað hún kæranda ekki hafa verið í neinum skipulögðum viðtölum eftir árásina en hún hafi hins vegar sótt um tíma hjá geðlækni hjá Hvíta bandinu en það hefði ekki gengið eftir. Kærandi hafi ekki fengið þá aðstoð sem hún þyrfti til að vinna úr afleiðingum árásarinnar, en afleiðingarnar hafi tvímælalaust orðið slæmar.
Niðurstöður:
Ákærði játaði að hafa veist að kæranda eins og í ákæru greinir í flestum atriðum en neitar að hafa dregið hana á hárinu út úr bifreiðinni við [...] eins og segir í ákærunni. Þá neitaði hann að hafa slegið kæranda ítrekað í andlit og líkama, meðal annars hnefahöggi í andlit sem varð til þess að hún skall utan í vegg með höfuðið. Við aðalmeðferð málsins breytti ákærði framburði sínum og kvaðst ekki hafa farið með fingur upp í leggöng brotaþola.
Ákærði neitaði við aðalmeðferð málsins að hafa dregið kæranda nauðuga út úr íbúðarhúsi við [...]. Vitnið C gat ekki svarað því hvort ákærði hefði dregið hana með valdi eða verið fruntalegur en kærandi kvaðst hafa orðið mjög hrædd þegar hún sá í hvaða ham ákærði var þegar hann birtist inni í íbúðinni og því ekki getað spornað við þegar ákærði dró hana með sér út en hún kvaðst hafa verið berfætt. Fær framburður hennar stoð í læknisvottorði þar sem kemur fram að áverkar hafi verið á ristum og tám. Telur dómurinn sannað að ákærði hafi tekið kæranda gegn vilja hennar út úr íbúðinni eins og greinir í ákæru. Er frásögn ákærða um að kærandi hafi hrasað vegna ölvunar ótrúverðug og ekki byggjandi á henni. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi og er hún réttilega heimfærð til refsiákvæðis.
Ákærði lýsti því svo hjá lögreglu að hann hefði farið með fingur upp í leggöng kæranda inni á baðherbergi auk þess að hann játaði þá háttsemi fyrir dóminum við þingfestingu málsins. Við aðalmeðferð málsins bar ákærði hins vegar að hann hefði gert það eftir að hafa dregið kæranda út úr bifreiðinni við [...]. Aðspurður frekar út í þá háttsemi og það misræmi sem gætti í framburði hans fyrir lögreglu og við þingfestingu málsins og svo aftur við aðalmeðferð málsins, kvaðst ákærði ekki hafa sett fingurinn upp í leggöng kæranda en hann hefði káfað á kynfærum hennar til að kanna hvort hún væri blaut en taldi rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu að hann hefði gert það inni á salerninu. Kærandi man ekki eftir þeirri árás og verður sakfelling varðandi þennan þátt eingöngu byggð á frásögn ákærða. Það misræmi sem gætir í framburði ákærða varðandi þennan þátt, breytir engu um það að talið er sannað að sú háttsemi sé í samræmi við framburð ákærða fyrir lögreglu strax eftir atburðinn svo og játningu hans fyrir dóminum við þingfestingu málsins en farið var ítarlega í ákæruatriðin með ákærða við þingfestingu málsins og kvað hann þá rétt að hann hefði farið með fingurinn upp í leggöng konunna. Þykir breyttur framburður ákærða við aðalmeðferð málsins ekki trúverðugur. Ekkert liggur fyrir um að sú háttsemi hafi verið með samþykki kæranda sem kvaðst ekki hafa verið með meðvitund á þeirri stundu vegna höfuðhöggs. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi eins og greinir í ákæru utan að ölvunarástand kæranda í umrætt sinn er ósannað en kærandi hefur neitað því að hafa verið ölvuð eins og ákærði ber og verður ákærði ekki sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot ákærða er réttilega heimfært til 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007.
Kærandi kvaðst muna eftir því að ákærði hafi dregið hana á hárinu út úr bifreiðinni á bifreiðastæði fyrir framan húsið sem hún býr í og dregið hana á hárinu upp í íbúðina. Ákærði neitaði þessu fyrir dómi. Í læknisvottorði Gylfa Haraldssonar kemur fram að blæðing og mar sé á enni og hnakka og eymsli í öllum hársverði. Þá kemur fram í læknisvottorði Víðis Óskarssonar, sem hann staðfesti fyrir dóminum, að mikil eymsli hafi verið í öllum hársverði. Fyrir dómi kvað Víðir þau eymsli ekki geta verið eftir annað en tog þar sem aðrir áverkar sáust ekki sem skýrðu eymslin. Þessi frásögn kæranda fær einnig stoð í öðrum áverkum á líkama hennar sem benda til þess að hún hafi verið dregin eftir möl eða grófum jarðvegi en í læknisvottorði Víðis kemur fram að allt bakið hafi verið alsett skrámum og mari, alveg frá báðum herðum og niður allt bakið. Klórmerki á vinstra brjósti og upp á bringu hægra megin. Minni skrámur og mar vinstra megin á kvið og hún sé mjög aum yfir öllu bakinu, bólgin og alsett skrámum og mari á báðum rasskinnum og mikil eymsli þar. Þá sé mikið af skrámum á báðum handleggjum og mari, talsvert af skrámum og sárum á hnjám og fótleggjum, meira á hægri fótlegg. Talsvert af skrámum og sárum á ristum og tám. Bæði af læknisvottorðinu og myndum af áverkum á kæranda má telja sannað að þessir áverkar hafi hlotist af því að vera dreginn eftir grófum jarðvegi en á myndum má sjá að gróf möl liggur meðfram gangstétt frá bifreiðaplani að íbúðarhúsi kæranda. Styðja gögn og áverkar þá frásögn kæranda og verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi eins og henni er lýst í ákæru. Þá styður framburður A þá frásögn kæranda að ákærði hafi slegið hana ítrekað í andlit og líkama inni á baðherbergi en A kvaðst hafa vaknað við það að heyra högg inni á baðherbergi, eins og kýlt væri í vegginn. Hversu mörg þau högg voru er ósannað en talið er sannað að þeir áverkar sem kærandi hlaut á höfði og andliti og lýst er í læknisvottorði og sjást vel á ljósmyndum, sem liggja fyrir í málinu, séu af völdum ákærða. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi eins og lýst er í ákæru. Er háttsemi þessi réttilega færð til refsiákvæðis.
Ákærði hefur lýst því yfir að kærandi hafi brugðist sér en hann hafi mjög slæma reynslu af framhjáhaldi frá barnæsku sem kærandi hafi haft vitneskju um. Dómurinn dregur ekki í efa þá frásögn ákærða en sú reynsla verður ekki metin ákærða til refsilækkunar. Við ákvörðun refsingar ber að líta þess að ákærði játaði brot sitt að mestu greiðlega en einnig til þess að árásin var hrottafengin og ófyrirleitin og að hluta framin inni á heimili kæranda þar sem fjórtán ára dóttir hennar var einnig stödd og varð vitni að fólskulegri árás á móður sína. Þá verður að líta til þess að um brotasamsteypu er að ræða og að ofbeldi ákærða stóð yfir í umtalsverðan tíma og var til þess fallið að niðurlægja unnustu hans og svipta hana mannlegri reisn. Ákærði kvað að sér vegið þar sem hann hefði grunað kæranda um að vera með öðrum manni en hann hefði ætlað að flytja á [...] til að vera nærri henni. Þó svo að ákærði hafi talið kæranda ótrúa sér, verður það ekki metið honum til refsilækkunar. Loks verður að líta til þess að árásin hafði líkamlegar og andlegar afleiðingar í för með sér fyrir konuna eins og ráða má af vottorði Nönnu Mjallar Atladóttur félagsráðgjafa, sem og fyrir dóttur hennar og verður horft til þessa við ákvörðun refsingar.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum verið gerð refsing fyrir ölvunarakstur og umferðarlagabrot. Þær refsingar hafa þó ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú.
Við mat á öllu framansögðu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í eitt ár. Fresta skal þó fullnustu refsingar á níu mánuðum og hún niður falla að liðnum þremur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Bótakrafan.
Í málinu gerir Y kröfu um skaðabætur að fjárhæð 2.135.193 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 26. maí 2007.
Bótakrafan sundurliðast þannig:
1. Miskabætur kr. 2.000.000
2. Sjúkrakostnaður skv. 1. gr. skaðab.laga kr. 7.618
3. Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðab.laga kr. 34.200
4. Lögmannskostnaður kr. 93.375
Samtals kr. 2.135.193
Við aðalmeðferð málsins breytti réttargæslumaður brotaþola kröfugerðinni þannig að krafist var 2.000.000 króna í miskabætur, 7.618 króna vegna sjúkrakostnaðar og 34.200 króna í þjáningabætur auk dráttarvaxta frá 26. maí 2007. Þá féll hann frá kröfulið 4 en gerði kröfu um greiðslu þóknunar vegna þessarar vinnu ásamt annarri vinnu með vísan til vinnuskýrslu. Ákærði hefur mótmælt þessum kröfuliðum sem ósönnuðum. Í gögnum málsins er ekki að finna önnur gögn til stuðnings kröfulið 2 en greiðsluseðil vegna komugjalds að fjárhæð 3.925 krónur. Verður krafan tekin til greina að því leyti. Engin læknisfræðileg gögn eru í málinu um hve lengi Y var óvinnufær vegna afleiðinga árásarinnar eða til stuðnings kröfulið 3. Verður því að vísa þessum kröfulið frá dómi. Brotaþoli á ótvíræðan rétt til miskabóta úr hendi ákærða samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Árás ákærða á brotaþola var ófyrirleitin og hrottaleg og framin inni á heimili brotaþola að hluta. Með hliðsjón af atvikum öllum, framburði brotaþola, líkamlegum og andlegum afleiðingum líkamsárásarinnar og vættis hennar fyrir dómi, þykja miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 600.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir en bótakrafan var fyrst kynnt ákærða 25. júní 2007.
Með vísan til 165. gr. laga um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað sem er samkvæmt yfirliti yfir sakarkostnað 52.590 krónur vegna læknisvottorðs og þóknun verjanda á rannsóknarstigi auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða, Torfa Ragnars Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, 225.594 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar, 8.880 krónur, og þóknun réttargæslumanns Y, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, sem er samkvæmt yfirliti, bæði á rannsóknarstigi og við meðferð málsins fyrir dómi, 464.187 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari flutti mál þetta af hálfu ákæruvaldsins.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans.
Dómsorð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í eitt ár. Fresta skal fullnustu níu mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, 751.251 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Torfa Ragnars Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, 225.594 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar, 8.880 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, á rannsóknarstigi og fyrir dómi, samtals 464.187 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar 8.880 krónur.
Ákærði greiði Y skaðabætur að fjárhæð 603.925 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. maí 2007 til 25. júlí 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.