Hæstiréttur íslands

Mál nr. 380/2016

Sigurður Júlíus Leifsson og Sigríður H. Kristjánsdóttir (Sigurður G. Guðjónsson hrl.)
gegn
Landsbankanum hf. (Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

Lykilorð

  • Skuldamál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Gengistrygging
  • Ógilding samnings
  • Brostnar forsendur

Reifun

Aðilar deildu um hvort að nefndur myntveltureikningur með yfirdráttarheimild hefði verið lán í erlendri mynt eða lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Með vísan til þess meðal annars að SL hefði athugasemdalaust undirritað handveðsyfirlýsingu þar sem hann setti að veði bankareikning sinn hjá L hf. til tryggingar fyrrgreindri skuld sem tilgreind var í yfirlýsingunni í erlendri mynt var talið að lánið hefði verið löglega tekið í þeirri mynt með samþykki og vilja beggja aðila. Þá kom fram að sá aðstöðumunur sem var á L hf. og SL gæti ekki einn og sér leitt til þess að skuldbindingu SL gagnvart L hf. yrði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. og 36. gr. a-d laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Var L hf. sýknað af kröfu SL og SK.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Davíð Þór Björgvinsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 19. maí 2016. Þau krefjast sýknu af kröfum stefnda gegn greiðslu áfrýjandans Sigurðar að fjárhæð 10.000.000 krónur. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem nánar er rakið í héraðsdómi deila aðilar um það hvort svonefndur myntveltureikningur með yfirdráttarheimild, sem stofnaður var í svissneskum frönkum á nafni áfrýjandans Sigurðar hjá Landsbanka Íslands hf. 15. janúar 2008, hafi verið skuldbinding í þeirri mynt eða hvort að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum, bundið með ólögmætum hætti gengi erlends gjaldmiðils. Óumdeilt er að engin gögn hafa verið lögð fram sem stafa frá áfrýjandanum Sigurði um stofnun umrædds reiknings og hefur hann borið því við að hann hafi á sínum tíma ekki vitað af því að fyrirgreiðsla bankans væri í erlendri mynt. Þá kannast hann ekki við að hafa fengið send yfirlit  um stöðu umrædds reiknings á hverjum tíma. Aftur á móti liggur fyrir að 28. maí 2009 undirritaði áfrýjandinn Sigurður athugasemdalaust handveðsyfirlýsingu þar sem að hann setti að handveði bankareikning sinn hjá stefnda til tryggingar eftirfarandi skuld: „Myntveltureikningur CHF3 0130-29-310 stofnaður 15.01.2008 eigandi Sigurður Júlíus Leifsson ... yfirdráttarheimild CHF 755.000,00.“ Ef áfrýjandinn Sigurður taldi að til umræddrar lánafyrirgreiðslu hefði verið stofnað í hinni erlendu mynt að óvilja hans bar honum í síðasta lagi að gera athugasemdir við þetta tilefni. Sú varð þó ekki raunin og andmælum í þessa veru fyrst hreyft í bréfi lögmanns áfrýjenda til stefnda 4. desember 2009. Að því gættu verður fallist á með stefnda að þessi tilhögun lánafyrirgreiðslu hafi verið ákveðin með samþykki og vilja beggja aðila.

Með því að nýta sér heimild til yfirdráttar á gjaldeyrisreikningnum stofnaði áfrýjandinn Sigurður til skuldar í mynt viðkomandi reiknings og fær það ekki breytt þeirri niðurstöðu þótt útborganir af honum í svissneskum frönkum hafi síðan verið greiddar í íslenskum krónum inn á annan reikning áfrýjandans Sigurðar hjá Landsbanka Íslands hf. Var því um að ræða gilt lán í erlendum gjaldmiðli, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 11. október 2012 í máli nr. 467/2011.

Að því gættu að á fyrri stigum málsins, sbr. áðurnefnt bréf lögmanns áfrýjenda 4. desember 2012, svo og bréf 14. mars 2011 og 7. febrúar 2013, voru boð áfrýjandans Sigurðar um uppgjör skuldarinnar ávallt bundin fyrirvara af hans hálfu, verður með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, fallist á þá niðurstöðu að ætlað sinnuleysi af hálfu stefnda vegna þeirra erinda geti ekki haft áhrif á greiðsluskyldu áfrýjandans Sigurðar eða rétt stefnda til vaxta.

 Enn fremur er því hafnað að meginreglur samninga- og kröfuréttar um brostnar forsendur leiði til þess að áfrýjandinn Sigurður sé ekki bundinn af skuldbindingu sinni gagnvart áfrýjanda. Þá kemur ekki til álita að skuldbindingu hans gagnvart áfrýjanda verði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. og 36. gr. a-d laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Sá aðstöðumunur sem var á Landsbanka Íslands hf. og áfrýjanda getur ekki einn og sér leitt til slíkrar niðurstöðu án þess að frekari atriði séu leidd í ljós sem varða efni samnings, atvik við samningsgerðina ellegar síðar tilkomin atvik. Af hálfu áfrýjenda hafa sönnur ekki verið færðar á slíkt.

Að framangreindu virtu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms, þar á meðal um upphafsdag dráttarvaxta sem og um málskostnað.

Áfrýjendur verða dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Sigurður Júlíus Leifsson og Sigríður H. Kristjánsdóttir, greiði óskipt stefnda, Landsbankanum hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 4. maí 2016

Mál þetta var þingfest 3. desember 2014 og tekið til dóms 7. apríl 2016. Stefnandi er Landsbankinn, Austurstræti 11, Reykjavík, en stefndu eru Sigurður Júlíus Leifsson og Sigríður H. Kristjánsdóttir, bæði til heimilis að Dimmuhvarfi 5, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi Sigurður Júlíus Leifsson verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð  74.793.004 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 3. desember 2014 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 41.030.940 krónur sem greidd var 4. september 2014.

Einnig gerir stefnandi þær dómkröfur að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sem stefnandi á í eignarhlutum stefndu, Sigurðar Júlíusar Leifssonar og Sigríðar H Kristjánsdóttur, í fasteigninni að Dimmuhvarfi 5, Kópavogi, fnr. 230-6437, ásamt tilheyrandi hlutdeild í eignarlóðum og öllu því, sem eigninni fylgir og fylgja ber, á grundvelli tryggingarbréfs nr. 0130-63-120316, útg. þann 5. júní 2007, að fjárhæð 24.000.000 króna, sem sett var til tryggingar á skuldum og fjárskuldbindingum stefnda Sigurðar Júlíusar Leifssonar við stefnanda, m.a. samkvæmt yfirdrætti á myntveltureikningi nr. 0130-26-699015 að fjárhæð 74.793.004 krónur.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Stefndi, Sigurður Júlíus Leifsson, krefst þess að hann verði dæmdur til greiðslu  10.000.000 króna til stefnanda til uppgjörs á þeirri skuld sem ágreiningur aðila er um.

Stefndu krefjast sýknu af kröfu stefnanda um að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sinn á grundvelli tryggingarbréfs að fjárhæð 24.000.000 króna.

                Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.   

                                                                              I

Aðilar deila um svokallaðan myntveltureikning sem stefndi Sigurður Júlíus stofnaði hjá stefnanda 15. janúar 2008 með yfirdráttarheimild. Stefndu halda því m.a. fram að lán stefnanda til stefnda hafi falið í sér gengistryggingu í andstöðu við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Forsaga málins er sú að stefndi Sigurður Júlíus gerði nokkra samninga sem lántaki við stefnanda á árunum 2007 og 2008. Lánin voru fengin til að fjármagna kaup á lóðinni Dimmuhvarfi 5, Kópavogi, og vegna byggingar húss á lóðinni.

Þann 5. júní 2007 gekk stefndi frá tryggingarbréfi að fjárhæð 24.000.000 króna með 1. veðrétti í Dimmuhvarfi 5, Kópavogi og 5. veðrétti í Fannafold 157, Reykjavík, til tryggingar öllum skuldum sínum við stefnanda.

Þann 20. júní 2007 gerði stefndi lánssamning við stefnanda þar sem segir  efnislega að bankinn hafi samþykkt að veita lántaka rekstararfjármögnun í formi reikningslánalínu að fjárhæð 22.000.000 króna í íslenskum krónum eða þeim erlendu myntum sem bankinn ætti viðskipti með. Þann 21. júní 2007 greiddi bankinn inn á reikning stefnda 21.990.000 krónur á grundvelli lánssamningsins.

                Þann 15. janúar 2008 var gengið frá öðru tryggingarbréfi að fjárhæð 64.000.000 króna með 2. veðrétti í Dimmuhvarfi 5 og 6. veðrétti í Fannafold 157. Sama dag var opnaður reikningur í nafni stefnda sem nefndist myntvelta. Reikningurinn var sagður í svissneskum frönkum (CHF) og var stefndi sagður hafa yfirdráttarheimild í þeirri mynt að fjárhæð 755.000. Engin lánaskjöl önnur en framangreint tryggingarbréf voru útbúin og undirrituð af hálfu stefnanda og stefnda vegna hins svokallaða myntveltureiknings. Allar úttektir af reikningnum voru í íslenskum krónum og fénu varið í byggingu húss að Dimmuhvarfi að sögn stefndu.

                Meðal þess sem greitt var með fé af myntveltureikningnum voru 24.682.900 krónur til uppgreiðslu á lánssamningnum frá 20. júní 2007. Fór sú greiðsla fram 19. mars 2008.  Aðrar greiðslur út af myntveltureikningnum voru þrjár, sú fyrsta þann 28. janúar 2008, önnur 16. júní 2008 og sú þriðja og síðasta 8. september 2008. Millifærslurnar námu 10.000.000 króna í hvert skipti. 

Stefnandi segir að stefndi Sigurður Júlíus hafi fengið yfirdráttarheimild á myntveltureikninginn að fjárhæð CHF 755.000,00. Stefnandi segir að yfirdráttarheimildin hafi runnið út án þess að uppsöfnuð skuld á reikninginum hafi verið greidd og reikningnum því lokað 4. júlí  2012. Uppsöfnuð skuld hafi þá numið CHF 786.758,15. Þann 17. apríl 2012 hafi eiganda reikningsins verið sent bréf þar sem fram kom að myntveltureikningurinn hafi verið endurútreiknaður í samræmi við lög nr. 151/2010 um breytingar á lögum nr. 38/2001 sem kveða á um endurútreikning lána með ólögmætri gengistryggingu. Miðist endurútreikningurinn við lægstu óverðtryggðu vexti sem Seðlabanki Íslands birtir, sbr. 10. gr. sömu laga. Staða myntveltureikningsins fyrir endurútreikning var neikvæð um  109.139.091 krónu en eftir endurútreikning var staða reikningsins neikvæð um 74.793.004 krónur, sem er stefnufjárhæðin, en endurútreikningur miðaðist við 16. apríl 2012. Við endurútreikning fékk reikningurinn nr. 310 nýtt númer, nú samkvæmt yfirdrætti á veltureikningi nr. 699015 í útibúi Landsbankans.

Stefnandi segir að þann 11. október 2012 í máli nr. 467/2011 hafi Hæstiréttur kveðið upp dóm þess efnis að yfirdráttarlán á gjaldeyrisreikningum væru gild lán í erlendum gjaldmiðli. Samkvæmt dómnum sé ljóst að endurútreikningur myntveltureikningsins hafi verið umfram skyldu bankans. Yfirdráttarskuldin verði því ekki endurreiknuð frekar, enda um hreina ívilnum bankans að ræða.

Inn á skuldina hafi verið greitt þann 4. september 2014,  41.030.940 krónur, sem dragist frá skuldinni miðað við stöðu hennar á þeim degi. Innborgunin sé tilkomin vegna innlausnar handveðs samkvæmt handveðsyfirlýsingu nr. 0130-63-301985 þar sem sett hafi verið að veði innstæða bankareiknings nr. 0130-15-630329 til tryggingar skaðlausri greiðslu á skuld stefnda samkvæmt framangreindum myntveltureikningi.

Stefnda Sigurði hafi verið send innheimtuviðvörun þann 25. apríl 2012,  innheimtubréf þann 28. janúar 2013 og áminningarbréf þann 30. október 2014. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd að fullu þrátt fyrir innheimtutilraunir og er því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

II

Stefnandi byggir á því að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra skulda og fjárskuldbindinga sinna við stefnanda hafi stefndi Sigurður Júlíus Leifsson gefið út tryggingarbréf nr. 0130-63-120316, dags. 05.06.2007, að höfuðstólsfjárhæð 24.000.000 króna. Skjalið hafi verið móttekið til þinglýsingar hjá sýslumanninum í Kópavogi hinn 25. janúar 2008. Samkvæmt tryggingarbréfinu sé sett að veði fasteignin Dimmuhvarf 5, Kópavogi, fnr. 230-6437, en þinglýstir eigendur fasteignarinnar séu stefndu Sigurður Júlíus Leifsson og Sigríður H. Kristjánsdóttir. Staða tryggingarbréfsins þann 20. nóvember 2014 sé 24.000.000 króna. 

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að kröfur hans á hendur Sigurði Júlíusi Leifssyni njóti veðréttar í áðurgreindri fasteign stefndu á grundvelli fyrrgreinds tryggingarbréfs. Sigurður Júlíus Leifsson skuldi stefnanda meira en sem nemi hámarki tryggingarbréfsins og því beri að heimila stefnanda að gera fjárnám inn í veðrétt sem stefnandi eigi í eignarhlutum stefndu í umræddri fasteign fyrir kröfum sínum.

Skuld samkvæmt framangreindum myntveltureikningi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé stefnanda nauðsynlegt að fá dóm til þess að geta fullnustað kröfu sína gagnvart stefndu. Sé stefnanda því nauðsynlegt að fá dóm um að honum sé heimilað fjárnám í umræddri fasteign stefndu að því marki sem veðtryggingin tekur til dómkröfunnar samkvæmt ákvæðum tryggingarbréfs þess sem hvílir á eignarhluta stefndu að Dimmuhvarfi 5, Kópavogi, fnr. 230-6437, en það sé allsherjarveð og því ekki unnt að fara beint í aðför samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/1989 eða beiðast nauðungarsölu samkvæmt 6. gr. laga nr. 90/1991 á grundvelli þeirra.

Stefnandi byggir kröfur sínar á veltureikningi nr. 699015 og tryggingarbréfi nr. 0130-63-120316 og skilmálum þeirra, eins og áður segir en jafnframt byggir stefnandi á dómafordæmum Hæstaréttar. 

Hvað aðild Landsbankans hf. varði hafi Fjármálaeftirlitið (FME), með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tekið þá ákvörðun að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Ákvörðun FME um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, til Nýja Landsbanka Íslands hf., kt. 471008-0280, (nú Landsbankinn hf., kt. 471008-0280) sé dagsett þann 09.10.2008.

Byggt er á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og fullnustu á veðrétti kröfueiganda. Vísað er til samningsveðlaga nr. 75/1997, einkum 3. mgr. 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 9. gr. og 15. til 20. gr. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, einkum 4. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Um varnarþing er vísað til 32. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Hvað varðar samaðild stefndu er vísað til 18. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og um aðild stefnanda vísast til 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins.

III

Stefndi byggir á því að greiðslur fyrirrennara stefnanda til stefnda hafi falið í sér lán í íslenskum krónum sem óheimilt sé að binda gengi erlendra gjaldmiðla eins og staðfest hafi verið með fjölda dóma Hæstaréttar á síðustu árum. Stafi það af því að  bankinn hafi ekki haft aðgengi að erlendu lánsfé til að endurlána hér á landi á árinu 2008.

                Stefndi mótmælir því að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 467/2011 hafi fordæmisgildi að því er varðar þann CHF- myntveltureikning sem deilt sé um í þessu máli. Þær aðstæður, sem hafi verið í því máli, hafi að ýmsu leyti verið ólíkar þeim sem þetta mál fjalli um.

                Eini lánssamningurinn, sem stefnandi gerði við stefnda vegna kaupa á lóðinni að Dimmuhvarfi 5, Kópavogi og byggingar húss þar, hafi verið áðurnefndur viðskiptasamningur um reikningslánalínu að fjárhæð 22.000.000 króna. Svo sem áður segir hafi stefndi aldrei fyllt út neina umsókn um stofnun myntveltureiknings og engin skjöl sýni að hann hafi óskað eftir stofnun slíks reiknings. Stefndi hafi enga þörf haft fyrir svissneska franka og ekki átti  von á tekjum eða öðrum greiðslum sér til handa í svissneskum frönkum. Stefndi hafi ekki fengið í hendurnar svissneska franka, enda hafi stefnandi, eins og áður sagði, ekki haft gjaldeyri til að lána viðskiptavinum sínum á þessum tíma. Stefndi byggir á því að fullkomlega sé ljóst að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlends gjaldmiðils.  Slík lán séu í andstöðu við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

                Stefndi hafi allt frá árinu2009 óskað eftir því að gengið yrði til uppgjörs á þeim grundvelli að stefndi skuldi ekki bankanum 755.000 svissneska franka vegna fyrirgreiðslna á árunum 2007 og 2008 í tengslum við kaup á lóðinni við Dimmuhvarf og byggingu húss þar, heldur hafi skuldin verið um 55.000.000 króna sem sé sú fjárhæð sem stefnandi hafi lánað stefnda. Lögmaður stefnda hafi  sent bréf til stefnanda og forvera stefnanda, NBI hf., dags. 4. desember 2009, 14. mars 2011 og 7. febrúar 2013. Af hálfu stefnanda hafi  bréfunum aldrei verið svarað efnislega. Stefndi hafi þannig allt frá árinu 2009 sýnt vilja til að gera upp við stefnanda en umleitan hans aldrei verið svarað með öðrum hætti en innheimtubréfum.

Stefnandi sé fjármálastofnun og beri sem slíkri að haga störfum sínum í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.  Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna sé kveðið á um að fjármálafyrirtæki skuli starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Samkvæmt ákvæðinu á þeim tíma hafi Fjármálaeftirlitinu verið veitt heimild til að setja leiðbeinandi reglur í þeim tilgangi að skýra hvað fælist í ákvæðinu. Breyting hafi verið gerð á ákvæðinu með 12. gr. laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 með síðari breytingum. Í nýju ákvæði hafi  m.a. verið kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skyldi setja reglur um það hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir. Með reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja nr. 670/2013, sem birtust í B-deild Stjórnartíðinda þann 15. júlí 2013, skilgreindi Fjármálaeftirlitið frekar hvað fælist í eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum. Meðal þess sem komi fram í reglum Fjármálaeftirlitsins sé að fjármálafyrirtæki beri í samskiptum við viðskiptamenn að starfa á heiðarlegan og réttlátan hátt og annast viðskipti sín af fagmennsku og kostgæfni með hagsmuni viðskiptamanna og trúverðugleika fjármálamarkaðarins að leiðarljósi. Þá sé gert ráð fyrir því að fjármálafyrirtæki skuli í samskiptum við viðskiptamenn sína tryggja að fyrirspurnir, kvartanir og önnur sambærileg erindi fái skjóta, skilvirka og sanngjarna afgreiðslu. Framangreind samskipti stefnda og lögmanns hans við stefnanda beri það ekki með sér að stefnandi hafi leitast við að leysa málið með skjótum og sanngjörnum hætti með hagsmuni viðskiptamannsins að leiðarljósi.

                Krafa stefnda sé á því byggð að rétt uppgjör hefði átt að fara fram strax þegar stefndi gerði kröfu um það árið 2009. Staða þess reiknings, sem stefnandi hafði handveðsettan, hafi þá verið um 45.000.000 króna en greiðslur stefnanda til stefnda hafi numið 54.683.620 krónum. Krafan geri ráð fyrir því að hvorugur aðili eigi tilkall til vaxta úr hendi hins, enda núlli áhrif inn- og útvaxta mögulegar vaxtakröfur út. Þá er á því byggt að stefnandi geti ekki átt kröfu á dráttarvöxtum þar sem hann hafi ekki orðið við ítrekuðum áskorunum stefnda um uppgjör samningsins.

                Verði ekki fallist á það með stefnda að lán stefnanda til stefnda hafi falið í sér gengistryggingu í andstöðu við lög nr. 38/2001 byggir stefndi engu að síður á því að víkja eigi þeim samningi, sem stofnast hafi á milli aðilanna, til hliðar á grundvelli 36. gr. og 36. gr. a.-d. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með síðari breytingum. Í 2. mgr. 36. gr. laganna komi fram að við mat á því hvort ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig samning skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Efni þess samnings, sem deilt sé um í þessu máli, sé verulega óljóst, enda liggi ekki fyrir gögn um samninginn. Verulegur aðstöðumunur hafi verið á samningsaðilum þar sem annar aðilinn sé einstaklingur en hinn ein þriggja umsvifamestu fjármálastofnana landsins. Atvik við samningsgerðina hafi verið  nokkuð óljós um annað en það að stefndi skyldi fá ákveðna heimild til að óska eftir fjármunum frá bankanum til að fjármagna byggingu á húsi við Dimmuhvarf 5. Þessu til tryggingar hafi bankinn óskað eftir því að stefndi undirritaði tryggingarbréf að fjárhæð  64.000.000 króna. Eina skjalið sem hafi veið undirritað vegna samningsgerðarinnar hafi innihaldið upphæð í íslenskum krónum. Þau atvik sem síðar komu til séu öllum kunnug. Fjármálakerfi landsins hafi hrunið, eignir bankanna framseldar á útsöluverði til nýrra bankastofnana og skuldir heimila í landinu aukist fram úr öllu hófi. Ósanngjarnt væri og andstætt góðri viðskiptavenju fyrir stefnanda að bera samninginn fyrir sig, enda sé hann að auðgast mjög með óréttmætum hætti beri hann samninginn fyrir sig.

Framangreindu til viðbótar byggir stefndi á því að meginregla samninga- og kröfuréttar um brostnar forsendur eigi við um samning aðila máls þessa og því geti stefnandi ekki borið samninginn fyrir sig. Verði fallist á að samið hafi verið svo um að stefndi hafi fengið yfirdráttarheimild í svissneskum frönkum byggir stefndi á því að forsenda fyrir þeirri lántöku hafi verið sú að búast mætti við eðlilegum sveiflum á gengi gjaldmiðilsins, þ.e. hóflegum hækkunum og lækkunum á genginu. Sú forsenda hafi brugðist við hrun fjármálakerfisins þegar gengisfall íslensku krónunnar leiddi til þess að skuld stefnda við stefnanda stökkbreyttist. Stefnandi sem fjármálastofnun hafi haft fulla vitneskju um það að forsenda viðsemjanda fyrir lántöku sem þessari væri sú að gengi íslensku krónunnar gagnvart hinum erlenda gjaldmiðli héldist nokkuð stöðugt, eða í það minnsta að sveiflur væru innan eðlilegra marka.

                Í ljósi alls framangreinds byggja stefndu, Sigurður Júlíus Leifsson og Sigríður H. Kristjánsdóttir, á því að engin skilyrði séu til þess að stefnanda sé með dómi heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sinn samkvæmt tryggingarbréfinu. Að því er varðar þennan hluta kröfu stefnanda, sem beint sé að stefndu sem samaðilum, benda stefndu á að kröfugerð stefnanda sé mjög óljós og athugunarefni hvort hún sé í samræmi við d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og meginreglu einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð. Telji dómari kröfugerðina ekki uppfylla framangreind skilyrði geti það varðað frávísun frá dómi án kröfu.

Hvað varðar málskostnaðarkröfu stefndu vísa þau til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr. laganna.

                                                                                              IV

                Stefndi Sigurður Júlíus fékk lánafyrirgreiðslu hjá stefnanda á árunum 2007 og 2008 vegna kaupa á lóðinni Dimmuhvarfi 5, Kópavogi, og vegna byggingar húss á lóðinni. Í málavaxtalýsingu hér að framan er það rakið að vegna fjármögnunar lóðar og húss fékk stefndi Sigurður Júlíus lánafyrirgreiðslu hjá stefnanda, annars vegar í formi viðskiptasamnings um reiknilánalínu að fjárhæð 22.000.000 króna og hins vegar í formi yfirdráttar á reikning sem stefnandi telur vera í erlendri mynt, svokallaðan myntveltureikning. Til tryggingar skuldum sínum við stefnanda gaf stefndi Sigurður Júlíus út tvö tryggingarbréf, annað að fjárhæð 24.000.000 króna, dags. 5. júní 2007, en hitt að fjárhæð 64.000.000 króna, dags. 15. janúar 2007.

                Í málinu er deilt um myntveltureikninginn og tryggingarbréfið að fjárhæð 24.000.000 króna sem dagsett er 5. júní 2007.

                Deilt er um hvort framangreindur myntveltureikningur með yfirdráttarheimild hafi verið skuldbinding í erlendri mynt eða hvort lánið hafi verið í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla, en slík skuldbinding fer í bága við ófrávíkjanlega reglu 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001, sbr. og dómaframkvæmd. Við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum er að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum verður að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar hinni umdeildu skuldbindingu.

                Í málinu liggja ekki frammi skjöl um að stefndi Sigurður Júlíus hafi fylgt út umsókn um stofnun myntveltureiknings. Hins vegar undirritaði hann handveðsyfirlýsingu 28. maí 2009 þar sem hann setti að handverði bankareikning sinn hjá stefnanda til tryggingar  myntveltureikningi CHF 3, sem stofnaður var 15. janúar 2008 af stefnda Sigurði Júlíusi, með yfirdráttarheimild að fjárhæð CHF 755.000. Hefur því ekki verið mótmælt af hálfu stefnda Sigurði Júlíusi að um sama reikning er að ræða sem stefnandi byggir mál sitt á.

                Þá fékk stefndi Sigurður Júlíus reglulega sent yfirlit yfir færslur á myntveltureikninginn þar sem fjárhæðir voru tilgreindar í CHF og jafnframt tekið fram í tilkynningum að óskað væri eftir athugasemdum innan 20 daga frá viðtöku yfirlits. Engar athugasemdir bárust frá stefnda Sigurði Júlíusi fyrr en 4. desember 2009.

                Framangreint bendir eindregið til þess að skuldbindingin hafi verið í erlendri mynt og það hafi verið vilji lánveitanda og lántakanda í upphafi að haga skuldbindingunni þannig að lánið yrði veitt í erlendum gjaldmiðlum.

                Stefndi Sigurður Júlíus byggir á því að hann hafi allt frá 4. desember 2009 óskað eftir uppgjöri sem hann hafi ítrekað í bréfum 14. mars 2011 og 7. febrúar 2013, án þess að stefnandi hafi svarað bréfunum. Sé það í andstöðu við 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr. reglugerð nr. 670/2013. Byggir stefndi Sigurður Júlíus á því að uppgjör hafi átt að fara fram strax þegar stefndi gerði kröfu um það 4. desember 2009 og eigi þá hvorugur aðili tilkall til vaxta úr hendi hins. Jafnframt eigi þá stefnandi ekki rétt á dráttarvöxtum í málinu þar sem hann hafi ekki orðið við ítrekuðum áskorunum stefnda Sigurðar Júlíusar um uppgjör samningsins.

                Í þessu sambandi verður að leggja til grundvallar að krafa stefnda Sigurðar Júlíusar í bréfi sínu til stefnanda 4. desember 2009 um að gengið yrði til uppgjörs byggðist á því að stefndi skuldaði stefnanda ekki CHF 755.000, heldur 55.000.000 króna. Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að skuldbinding stefnda við stefnanda hafi verið í erlendri mynt. Verður því að líta svo á að með því að svara ekki bréfi stefnda hafi stefnandi ekki fallist á sjónarmið stefnda um að lánið væri í íslenskum krónum. Er ekki tilefni til að fallast á með stefnda að með því að svara ekki framangreindum bréfum stefnda hafi stefnandi  fyrirgert rétti sínum til vaxta af skuldbindingunni. Getur stefndi því ekki átt kröfu á stefnanda á þessum grunni. Hins vegar lækkaði stefnandi myntveltulán stefnda um 34.346.087 krónur 17. apríl 2012 umfram skyldu en í samræmi við lög nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2001 sem kveða á um endurútreikninga lána með ólögmætri gengistryggingu.

                Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda. Stefnandi krefur stefnda Sigurð Júlíus ekki um dráttarvexti fyrr en frá þingfestingu málsins 3. desember 2014. Er honum það heimilt samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna.

                Stefndi Sigurður Júlíus byggir málsvörn sína ennfremur á 36. gr. og 36. gr. a-d laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Byggir hann á þeim grunni að verulegur aðstöðumunur hafi verið með samningsaðilum. Í málinu er nægilega komið fram að stefndi Sigurður Júlíus er vanur viðskiptum og verður því ekki fallist á þessa málsástæðu hans. Með vísan til dómaframkvæmdar í sambærilegum málum verður heldur ekki fallist á að það sé andstætt góðri viðskiptavenju og ósanngjarnt fyrir stefnda að stefnandi beri samning aðila fyrir sig eða að reglur samninga og kröfuréttar um brostnar forsendur eigi við um samning aðila.

                Samkvæmt framansögðu verður alfarið fallist á kröfu stefnanda á hendur stefnda Sigurði Júlíusi í málinu.

                Stefnandi gerir kröfu um að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sem hann á í fasteigninni að Dimmuhvarfi 5, Kópavogi, á grundvelli tryggingarbréfs að fjárhæð 24.000.000 króna sem útgefið var 5. júní 2007 af stefnda Sigurði Júlíusi sem eiginkona stefnda Sigurðar, Sigríður H. Kristjánsdóttir, samþykkti með undirritun sinni sem þinglesinn eigandi. Tryggingarbréfið er svokallað allsherjarveð til tryggingar öllum skuldum og fjárskuldbindingum stefnda Sigurðar Júlíusar við stefnanda. Tryggingarbréfið fullnægir hvorki skilyrðum 1. gr. laga nr. 90/1999 um aðfararheimildir né skilyrðum 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsöluheimildir.

                Skilja verður kröfugerð stefnanda þannig að honum sé nauðsyn á að fá viðurkennt að tryggingarbréfið standi til tryggingar framangreindri kröfu og að stefnanda sé heimilt að gera fjárnám fyrir kröfu sinni samkvæmt framangreindu tryggingarbréfi. Verður því fallist á kröfu stefnanda til að gera fjárnám inn í veðrétt sinn samkvæmt bréfinu fyrir framangreindum kröfum sínum.

                Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

                Stefndi, Sigurður Júlíus Leifsson, greiði stefnanda, Landsbankanum hf., 74.793.004 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. desember 2014 til greiðsludags, allt að frádregnum 41.030.940 krónum sem greiddar voru inn á skuldina 4. september 2014.

                Viðurkennt er að tryggingarbréf, útgefið 5. júní 2007 af stefnda Sigurði Júlíusi Leifssyni og samþykkt af stefndu Sigríði H. Kristjánsdóttur, að fjárhæð 24.000.000 króna, áhvílandi á fasteigninni Dimmuhvarfi 5, Kópavogi, standi til tryggingar dæmdum fjárhæðum og að stefnanda sé heimilt að gera fjárnám inn í veðrétt sinn samkvæmt tryggingarbréfinu fyrir framangreindum kröfum sínum.

                Málskostnaður fellur niður.