Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-163
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Útboð
- Verksamningur
- Verðbætur
- Túlkun samnings
- Brostnar forsendur
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 5. desember 2024 leitar Ístak hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 14. nóvember sama ár í máli nr. 584/2023: Ístak hf. gegn Vegagerðinni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort og þá hvaða áhrif lækkun byggingarvísitölu í maí 2020 eigi að hafa á endurgjald samkvæmt verksamningi aðila sem undirritaður var 3. maí 2019. Leyfisbeiðandi var verktaki samkvæmt samningnum en gagnaðili verkkaupi.
4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í útboðslýsingu var að finna sérstök verðlagsákvæði, meðal annars um almennar verðbætur þar sem sagði að reikningar yrðu verðbættir miðað við gildandi byggingarvísitölu í upphafi þess tímabils sem innheimt væri fyrir. Leyfisbeiðandi byggði á því að samkvæmt grein 5.1.13 í ÍST 30:2012, sem var hluti útboðslýsingar og fjallar um breytingar á samningsfjárhæð ef breytingar verða á lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða aðrar breytingar sem hafa áhrif á kostnað, ætti að breyta samningsfjárhæð aðila til hækkunar. Vísaði hann til þess að breyting á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt sem gerð var með lögum nr. 25/2020, þar sem endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu við byggingarframkvæmdir íbúðarhúsnæðis var hækkuð tímabundið, hefði leitt til þess að byggingarvísitala lækkaði um 2,8% í maí 2020 í stað þess hækka um 0,3%. Í dómi Landsréttar kom fram að samkvæmt umræddu ákvæði í ÍST 30:2012 ætti að meta sérstaklega hvaða áhrif lagabreytingar hefðu á „kostnað“ aðila til hækkunar eða lækkunar. Ekki yrði þó ráðið af gögnum málsins hvort eða þá hvernig kostnaður væri skilgreindur í samningi aðila. Í ljósi þessa og að teknu tilliti til þess að verksamningar sem gerðir væru á grundvelli ákvæða laga nr. 120/2016 um opinber innkaup bæri að túlka samkvæmt orðanna hljóðan var hafnað þeirri málsástæðu leyfisbeiðanda að endurgjald hans skyldi hækkað á þessum grundvelli. Ekki var heldur á það fallist að réttarreglur um brostnar forsendur gætu leitt til þeirrar niðurstöðu. Loks var ekki talið að efni væru til að víkja ákvæði samnings aðila um endurgjald til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi og hafi áhrif á nokkurn fjölda annarra verksamninga. Í málinu reyni á hvort niðurstaðan verði sú sama og í fyrri málum sem dæmd hafi verið í Hæstarétti þótt grein 5.1.13 í ÍST 30:2012 mæli nú fyrir um að kostnaður taki til hvort tveggja kostnaðar verktaka eða verkkaupa. Málið varði jafnframt túlkun á fyrrnefndri grein ÍST 30:2012 og þá meðal annars hvað skuli fella undir kostnað verkkaupa í skilningi hennar og hvernig skilja skuli síðasta málslið greinarinnar „sem reglur um verðbreytingar í samningi endurspegla ekki“ þegar samið hefur verið um að verðmælir á borð við byggingarvísitölu ráði fjárhæð verklauna. Þá hafi málið þýðingu fyrir beitingu reglu samningaréttar um brostnar forsendur og einnig 36. gr. laga nr. 7/1936. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Loks sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til.
6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að dómur í því kunni að hafa verulegt almennt gildi. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.