Hæstiréttur íslands
Mál nr. 258/2002
Lykilorð
- Aðild
|
|
Fimmtudaginn 31. október 2002. |
|
Nr. 258/2002. |
Eskimóa fyrirsætur ehf. (Gísli Baldur Garðarsson hrl.) gegn Ferðaskrifstofu Íslands hf. (Sveinn Sveinsson hrl.) |
Aðild.
F hf. krafði E ehf. um greiðslu reikninga vegna þjónustu í tengslum við tískusýningu sem haldin var hér á landi í samvinnu við R en E ehf. hafði fengið styrk úr borgarsjóði vegna þessa. Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu E ehf. við reikningana fyrr en rúmlega hálfu ári síðar þegar F hf. barst tilkynning frá E ehf. þess efnis að reikningarnir hefðu átt að greiðast af Í ehf. þar sem E ehf. hefði aðeins verið verktaki á tískusýningunni. Tekið var fram að gögn málsins bæru með sér að F hf. hefði aldrei verið tilkynnt um stofnun Í ehf. sem ætti að bera fjárhagslega ábyrgð á verkinu auk þess sem ekki lá fyrir að R hefði verið tilkynnt um breyttan styrkþega. Hefði það ekki verið fyrr en með bréfi E ehf. sem F hf. var tilkynnt að beina ætti kröfunni að Í ehf. Talið var að eins og öllum atvikum hefði verið háttað yrði að líta svo á, að F hf. hefði mátt treysta því, að E ehf. hefði verið samningsaðili félagsins, sem félagið ætti að beina kröfum sínum að. Var héraðsdómur því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 4. júní 2002. Hann krefst sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og fram kemur í héraðsdómi var í ágúst 2000 haldin hér á landi tískusýning, sem gekk undir nafninu Futurice, tísku- og hönnunarviðburður. Hugmyndina að sýningunni áttu Ásta Kristjánsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjórar áfrýjanda. Fengu þær til liðs við sig Dögg Baldursdóttur, sem rak fyrirtæki í London, sem sá um slíkar sýningar. Fram er komið, að í nóvember 1999 fól Dögg tveimur starfsmönnum stefnda að útvega gistingu og aðra þjónustu vegna fólks, sem von var á til landsins vegna sýningarinnar. Stefndi sendi áfrýjanda tvo reikninga, annan 31. júlí 2000 og hinn 18. ágúst sama ár. Engar athugasemdir voru gerðar við reikninga þessa. Innheimtubréf var sent áfrýjanda 16. febrúar 2001. Það var fyrst með bréfi Andreu Brabin, sem þá var orðin framkvæmdastjóri áfrýjanda, til stefnda 2. mars 2001 að fram kom, að reikningarnir hefðu átt að greiðast af Ís-Sýn ehf., kt. 470300-2480, en áfrýjandi hefði aðeins verið verktaki á tískusýningunni. Dögg Baldursdóttir, einn eigenda Ís-Sýnar ehf., hefði pantað verkið en ekki áfrýjandi.
Félagið Ís-Sýn ehf. var stofnað 22. febrúar 2000 og var tilgangur þess rekstur, uppsetning tískusýninga og annarra viðburða tengdum tísku, hönnun og sala á fatnaði, kaup og sala fasteigna og hvers kyns verð- og hlutabréfa og skyldur rekstur. Stjórn félagsins skipuðu Dögg Baldursdóttir, Ásta Kristjánsdóttir, Þórey Vilhjálmsdóttir og Auðun Sæmundsson.
Framangreind tískusýning var haldin í samvinnu við Reykjavík, menningarborg Evrópu árið 2000 (M2000), og hlaut áfrýjandi styrk úr borgarsjóði vegna verkefnisins. Samningur þess efnis var gerður 28. desember 1999 milli M2000 og áfrýjanda og skrifaði Ásta Kristjánsdóttir undir samninginn fyrir hönd áfrýjanda. Styrkur M2000 nam 3.600.000 krónum, en auk þess fékk verkefnið styrk frá Norræna menningarsjóðnum að fjárhæð 378.000 danskar krónur. Voru styrkirnir greiddir út í fernu lagi, 29. desember 2000, 12. apríl 2000, 12. júlí 2000 og 25. október 2000, og kvittuðu Ásta Kristjánsdóttir eða Þórey Vilhjálmsdóttir sem forsvarsmenn áfrýjanda fyrir móttöku fjárins.
II.
Ágreiningur máls þessa snýst eingöngu um aðild áfrýjanda, en ágreiningslaust er, að stefndi innti af hendi þá vinnu, sem óskað var eftir og ekki eru athugasemdir við fjárhæð reikninganna.
Gögn málsins bera með sér, að stefndi hefur allan tímann talið sig vera að vinna fyrir áfrýjanda. Í ljós er leitt, að stefnda var aldrei tilkynnt um stofnun Ís-Sýnar ehf., sem ætti að bera fjárhagslega ábyrgð á verkinu. Þá liggur ekki heldur fyrir, að Reykjavíkurborg hafi verið tilkynnt um breyttan styrkþega samkvæmt samningnum 28. desember 1999, en tekið var tekið á móti styrkjunum fyrir hönd áfrýjanda eins og að framan greinir. Það var ekki fyrr en með bréfi áfrýjanda 2. mars 2001, sem stefnda var tilkynnt að beina ætti kröfunni að Ís-sýn ehf. Eins og öllum atvikum hefur verið háttað verður að líta svo á, að stefndi hafi mátt treysta því, að áfrýjandi væri samningsaðili hans, sem hann ætti að beina kröfum sínum að.
Samkvæmt framansögðu ber að staðfesta héraðsdóm.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Eskimóa fyrirsætur ehf., greiði stefnda, Ferðaskrifstofu Íslands hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. mars s.l., er höfðað með stefnu birtri 6. júní s.l.
Stefnandi er Ferðaskrifstofa Íslands hf., kt. 590670-0149, Lágmúla 4, Reykjavík.
Stefndi er Eskimóa fyrirsætur ehf., kt. 580297-2189, Ingólfsstræti 1A, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 1.333.870 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga af kr. 750.000 frá 31. ágúst 2000 til 18. september sama ár, en af kr. 1.333.870 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði algjörlega sýknaður af kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að dagana 11.-14. ágúst árið 2000 var haldin hér á landi tískusýning sem gekk undir nafninu Futurice, tísku og hönnunarviðburður. Var sýningin haldin í samvinnu við Reykjavík, menningarborg Evrópu árið 2000 (M2000) og hlaut stefndi styrk úr borgarsjóði vegna verkefnisins. Var gerður samningur um verkefnið og fjárstuðninginn milli stefnda og M2000 og er Ásta Kristjánsdóttir, fyrirsvarsmaður stefnda í máli þessu, sögð í fyrirsvari fyrir viðsemjanda M2000, en samningurinn er dagsettur 28. desember 1999. Í blaðagrein, sem birtist í Morgunblaðinu 22. júlí 2000, er því lýst að Þórey Vilhjálmsdóttir og Ásta Kristjánsdóttir, framkvæmdastjórar stefnda, séu forsprakkar verkefnisins og til þess að gera sýninguna sem best úr garði hafi þær leitað til Daggar Baldursdóttur, en hún rekur fyrirtæki í London sem sér um framkvæmd tískusýninga af þessu tagi. Dögg mun hafa komið að máli við starfsmenn stefnanda í nóvember 1999 og falið þeim að hefjast handa við að útvega gistingu og aðra þjónustu, en von var á fjölda fólks til landsins vegna þessarar sýningar.
Stefnandi hefur gert stefnda tvo reikninga vegna þessarar vinnu sinnar, annan útgefinn 31. júlí 2000 með gjalddaga 31. ágúst sama ár að fjárhæð kr. 750.000, en hinn útgefinn 18. ágúst sama ár með gjalddaga 18. september sama ár að fjárhæð kr. 583.870. Stefndi telur þessa reikninga sér óviðkomandi. Hafi verið stofnað einkahlutafélagið Ís-sýn í febrúar árið 2000 og hafi það fyrirtæki verið rekstraraðili sýningarinnar og því borið alla ábyrgð á gjöldum vegna hennar. Upplýst hefur verið að stofnendur félagsins voru áðurgreindar Ásta, Þórey og Dögg. Hafi tilgangur félagsins meðal annars verið rekstur og uppsetning tískusýninga og annarra viðburða tengdum tísku. Mun Dögg Baldursdóttir hafa verið stjórnarformaður þessa félags. Í umræddri blaðagrein er ekki vikið að þætti þessa fyrirtækis í skipulagningu sýningarinnar.
Málsástæður og lagarök.
Stefnandi byggir kröfu sína á umræddum tveimur reikningum en stefndi hafi pantað gistingu og tengda þjónustu hjá stefnanda. Hafi stefnandi allan tímann talið sig vera að semja við stefnda og beri gögn málsins það með sér. Stefnandi mótmælir því að stefndi hafi verið verktaki fyrir einhvern ótilgreindan aðila og að reikningi hafi átt að beina annað. Stefnandi bendir á að stefndi hafi þegið styrk úr borgarsjóði vegna verkefnisins. Þá hafi stefndi engar athugsemdir gert við reikningana fyrr en með símbréfi 2. mars 2001, en þar hafi því verið haldið fram að fyritækið Ís-sýn Futurice hafi pantað umrædda þjónustu.
Stefnandi vísar til meginreglna samningaréttarins og meginreglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, sbr. 5., 6. og 28. gr. laga nr. 39/1922. Vaxtakröfur eru reistar á III. kafla vaxtalaga og krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi byggir á því að hann hafi unnið að framkvæmd sýningarinnar og verið einn af fjölmörgum aðilum sem hafi lagt vinnu í skipulagningu hennar. Einkahlutafélagið Ís-sýn hafi verið stofnað í febrúar árið 2000 og hafi það verið rekstraraðili sýningarinnar og því borið alla ábyrgð á gjöldum vegna hennar. Megi af gögnum málsins ráða að Dögg Baldursdóttir, stjórnarformaður þess fyrirtækis, hafi verið í samskiptum við stefnanda og pantað umrædda þjónustu. Dögg hafi engin tök haft á því að skuldbinda stefnda með neinum hætti. Þá mótmælir stefndi því að samningssamband hafi stofnast milli stefnanda og stefnda og hafi Dögg með engu móti getað komið slíku samningssambandi á.
Stefndi krefst því sýknu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Málskostnaðarkrafa stefnda er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.
Helga Lára Guðmundsdóttir, kt. 301051-6039, deildarstjóri hjá stefnanda, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi allan tímann hafa talið sig vera að vinna fyrir stefnda og þá kvaðst hún aldrei hafa heyrt getið um fyrirtækið Ís-sýn. Í sama streng tóku starfsmenn stefnanda, þær Sigrún Hulda Sigmundsdóttir, kt. 040363-3199, Telma Sigurðardóttir, kt. 261065-5099 og Jóna Bára Jónsdóttir, kt. 161068-3579.
Ásta Sigríður Kristjánsdóttir, kt. 270472-3629, fyrirsvarsmaður stefnda og Ís-sýnar ehf., skýrði svo frá fyrir dómi að sótt hafi verið um styrk til M2000 í nafni stefnda, en síðar, eða í febrúar árið 2000 hafi fyrirtækið Ís-sýn verið stofnað í þeim tilgangi að halda utan um verkefnið Futurice. Sagði Ásta að hún, og þær Þórey og Dögg hafi verið stofnendur félagsins en Dögg hafi engin tengsl haft við stefnda. Ásta kannaðist við að stofnun Ís-sýnar hafi ekki verið sérstaklega tilkynnt stefnanda og þá kannaðist hún við að vinna stefnanda í þágu verkefnisins hafi hafist árið 1999. Hún kvað stefnanda hafa innt þá þjónustu af hendi er mál þetta snýst um.
Dögg Baldursdóttir, kt. 121172-3999, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi tekið að sér verkefni í þágu Futurice og hafi hún haft yfirumsjón með pöntun á gistingu og flugferðum fyrir erlenda gesti.. Hún kvaðst aldrei hafa unnið fyrir stefnda og hafi alltaf verið um sérstakt verkefni Ís-sýnar að ræða. Dögg vissi ekki hvort hún nefndi það fyrirtæki einhvern tíma við viðsemjendur sína. Hún staðfesti að stofnun félagsins hefði ekki verið sérstaklega tilkynnt til stefnanda.
Niðurstaða.
Ágreiningur aðila í máli þessu snýst einvörðungu um aðild stefnda. Engar athugasemdir hafa komið fram um þá vinnu sem stefnandi innti af höndum eða fjárhæð reikninga. Stefnandi heldur því fram að hann hafi allan tímann talið sig vera að vinna í þágu stefnda og hafi hann enga hugmynd haft um stofnun fyrirtækis sem bera ætti ábyrgð á reikningum fyrir störf hans. Stefndi byggir á aðildarskorti og segir að beina eigi reikningum til fyrirtækis sem stofnað hafi verið í febrúarmánuði árið 2000 í þeim tilgangi að bera ábyrgð á verkefninu, þ. m. t. öllum fjárskuldbindingum.
Óumdeilt er í máli þessu að vinna stefnanda í þágu umrædds verkefnis hófst í nóvembermánuði árið 1999. Þá er ljóst að stefndi hlýtur styrk úr borgarsjóði vegna verkefnisins í lok þess árs. Fyrirtækið Ís-sýn er hins vegar ekki stofnað fyrr en í febrúarmánuði árið 2000. Samkvæmt gögnum málsins hafði stefnandi á þeim tíma lagt töluverða vinnu í verkefnið og upplýst hefur verið að stefnanda var ekki gert kunnugt um stofnun sérstaks fyrirtækis sem bera ætti fjárhagslega ábyrgð á verkefninu. Telja verður nægilega sannað að í nóvember árið 1999 hafi komist á samningur milli aðila um þátt stefnanda í verkefninu og þar sem engin gögn hafa verið lögð fram um aðilaskipti að þeim samningi verður að telja að stefnandi beini kröfum sínum réttilega að stefnda. Verður sýknukröfu stefnda á grundvelli aðildarskorts því hafnað og þar sem engar athugasemdir hafa komið fram um reikninga stefnanda verða kröfur hans teknar til greina.
Eftir þessum úrslitum málsins ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda kr. 300.000 í málskostnað.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Eskimóa fyrirsætur ehf., greiði stefnanda, Ferðaskrifstofu Íslands hf., kr. 1.333.870 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga af kr. 750.000 frá 31. ágúst 2000 til 18. september sama ár, en af kr. 1.333.870 frá þeim degi til greiðsludags og kr. 300.000 í málskostnað.