Hæstiréttur íslands

Mál nr. 430/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. október 2005.

Nr. 430/2005.

K

(Hjördís E. Harðardóttir hdl.)

gegn

M

(Lárentsínus Kristjánsson hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaður.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að K yrði gert að greiða hluta málskostnaðar M í héraði vegna forsjármáls sem K höfðaði á hendur M og lauk að öðru leyti með dómsátt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. september 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. október 2005. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. september 2005, þar sem kveðið var á um málskostnað í máli sóknaraðila gegn varnaraðila, sem var að öðru leyti lokið með dómsátt. Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði, án tillits til gjafsóknar sem henni hafi verið veitt fyrir héraðsdómi. Til vara krefst hún þess að málskostnaður í héraði verði látinn niður falla, en að því frágengnu að málskostnaður sem sóknaraðila var gert að greiða varnaraðila í héraði verði lækkaður. Í öllum tilvikum krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Fallist er á niðurstöðu hins kærða úrskurðar með þeim rökum sem þar greinir, þó þannig að ekki er fallist á þau ummæli að barnið „hafi farið með sigur af hólmi í forsjár- og umgengnisdeilu foreldra sinna.“ Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 80.000 krónur í kærumálskostnað.

 

         

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­­ness 13. september 2005

Málið höfðaði K, [heimilisfang], á hendur M, [heimilisfang], með stefnu birtri 8. september 2004, en málið var þing­fest 22. sama mánaðar. Stefnandi krafðist þess að henni yrði dæmd forsjá A, [kt], dóttur sinnar og stefnda. Jafnframt yrði með dómi kveðið á um inntak umgengnisréttar stefnda við stúlkuna. Stefndi lagði fram greinar­gerð 10. nóvember og krafðist sýknu af kröfum stefnanda. Í þágu með­ferðar málsins var Oddi Erlingsson sálfræðingur dóm­kvaddur 9. desember til að meta forsjár­hæfi aðila og tengsl þeirra við stúlkuna. Matsgerð var skilað 29. mars 2005. Á dómþingi 18. maí beiddist stefnandi viðbótarmats. Þeirri matsgerð var skilað 29. júlí og málið tekið til sátta­með­­ferðar í dómi 8. september. Tókst þá dómsátt um að stefndi færi áfram einn með forsjá A, en stefnandi fengi reglulega umgengni við dóttur sína, sem hún gæti sætt sig við.

Ágreiningur um málskostnað var lagður í úrskurð héraðsdómara, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í þeim þætti málsins krefjast aðilar hvor um sig máls­kostnaðar úr hendi hins; stefnandi eins og málið væri ekki gjaf­sóknar­mál, en hún fékk gjafsókn 21. október 2004.

I.

Aðilar voru í sambúð og eignuðust á þeim tíma dæturnar B, fædda [...] 1989 og A, fædda [...]1993. Við sambúðarslit í [...] 1998 sömdu aðilar um að forsjá dætranna yrði sameiginleg og að þær myndu eiga lög­heimili hjá stefnanda, en stefndi hefði reglulega umgengni við stúlkurnar aðra hvora helgi, um stórhátíðar og í sumar­leyfum, allt eftir nánara samkomulagi aðila.

Eftir sambúðarslitin kynntist stefnandi C og hóf sam­­­búð með honum, sem varað hefur með hléum til þessa dags. Í kjölfar þeirra kynna vaknaði í apríl 2000 grunur um að C hefði misnotað B kynferðis­lega. Í framhaldi neituðu báðar stúlkurnar að snúa aftur til stefnanda eftir umgengni hjá stefnda, en fóru þó heim í maí­lok, eftir að stefnandi hafði undirritað yfir­lýsingu um að hún myndi ekki búa áfram með C, aldrei taka upp sambúð með honum að nýju og ávallt vernda dæturnar fyrir öllum hugsan­legum samskiptum við manninn. Að lokinni lögreglurannsókn var C í október 2000 ákærður fyrir kyn­ferðis­brot gagnvart B. Var stefnandi þá aftur tekin saman við C og bjó hann inni á heimili hennar með stúlkunum tveimur eða var þar að minnsta kosti tíður gestur. Fór því svo að stefndi neitaði að skila stúlkunum aftur til stefnanda að lokinni umgengni í nóvember og höfðaði mál til heimtu forsjár þeirra beggja. Jafnframt krafðist hann bráðabirgða­forsjár stúlknanna og var úrskurðað honum í hag 21. desember 2000. Með dómi héraðs­dóms 21. mars 2001 var C sakfelldur fyrir kynferðisbrot gagnvart B og dæmdur í fimm mánaða fangelsi, þar af fjóra mánuði skilorðsbundið þrjú ár. Í framhaldi var gerð dómsátt í forsjármálinu 30. apríl 2001, á þá leið að stefndi færi einn með forsjá B og A. Jafnframt var gengið frá samkomulagi um reglu­lega umgengni stefnanda við dæturnar, sem færi ýmist fram utan heimilis hennar og C eða á heimilinu, að því gefnu að tryggt væri að C myndi ekki koma þar nærri. Gekkst stefnandi undir þá skilmála og sam­þykkti að umgengni félli niður ef hún bryti gegn samkomulaginu og að hún lægi niðri þar til sýslu­maður hefði úrskurðað um umgengnisrétt. Málskostnaður var felldur niður með úrskurði og gjafsóknarkostnaður stefnanda greiddur úr ríkissjóði. Með dómi Hæstaréttar 27. september 2001 var héraðsdómur í ákærumálinu ómerktur og málinu vísað heim í hérað til dóms­álagningar að nýju. Féll sá dómur 7. desember 2001. Svo fór að C var sýknaður af meiri­hluta dómsins, tveimur atkvæðum, en einn dómandi taldi C sannan að sök um kyn­ferðis­brot. Dóminum var ekki áfrýjað. 

II.

Af gögnum málsins má ráða að umgengni stefnanda við B og A hafi gengið þokkalega fyrir sig á árinu 2002, en að skugga hafi borið á þegar hún var í sambandi við C. Virðist sem þau hafi ýmist búið saman eða sundur á þessum tíma. Síðla árs óskaði stefnandi eftir ákvörðun sýslumanns um inntak reglulegrar umgengni. Gengu tillögur á milli aðila í þessu sambandi fram eftir ári 2003 og einnig sumarið 2004, án þess að séð verði að úrskurður hafi verið felldur í málinu.

Stefnandi telur umgengnina hafa verið stopula allt frá ára­mótum 2000/2001 og höfðaði því forsjármál það, sem nú hefur verið til úrslausnar. Eru megin rök stefnanda fyrir þeirri máls­höfðun að stefndi hafi tálmað umgengni hennar við A og að stúlkan vilji búa hjá stefnanda, en fái það ekki vegna neikvæðrar afstöðu stefnda. Stefndi mót­mælir því að hann hafi tálmað umgengni A við stefnanda, framar því sem hann hefur talið nauðsynlegt til verndar stúlkunni þegar stefnandi hefur verið samvistum við eða búið með C.

Um forsjá B er ekki deilt, enda hefur stúlkan ekki ljáð máls á því að fara til móður sinnar undanfarin misseri vegna sambands hennar og C. Mæðgurnar munu hins vegar hafa hist reglulega í [...] þegar stefnandi hefur sótt A í umgengni og eins hafa þær verið í símasambandi.

III.

Af stefnu í málinu má ráða að stefndi hafi meinað stefnanda umgengni við A helgina 20.-22. ágúst 2004 og að það hafi verið kornið sem fyllti mælinn varðandi ákvörðun hennar um málshöfðun. Segir í stefnu að sú afstaða stefnda verði ekki skýrð með vísan til sam­­búðar stefnanda og C, en þau hafi endanlega slitið samvistum í febrúar 2004.

Í viðtali dóm­kvadds matsmanns við stefnanda í janúar og febrúar 2005 kom fram að stefnandi væri í ástarsambandi við C og að þau byggju nálægt hvort öðru. Segir meðal annars um þetta og ókosti þess að A flytji til stefnanda, í matsgerð 29. mars, að C búi flesta daga á heimili hennar og að A vilji ekki búa á sama heimili og hann. Stefnandi hafi engar áætlanir um það hvernig hún geti leyst þennan vanda og á meðan svo sé þá telji mats­maður óæskilegt að stúlkan flytji til hennar. Á móti komi, að mati sérfræðingsins, að A hafi lýst yfir einlægum tilfinningum og löngun til að búa frekar hjá móður sinni og að stúlkan haldi að hjá henni myndi sér líða betur vegna sterkari tilfinningatengsla við hana en föður.

Þegar matsgerðin var lögð fram á dómþingi 31. mars lýsti stefndi því yfir að hann hyggðist ekki leyfa A að fara heim til stefnanda á meðan hún væri í sambandi við C. Fyrir þann tíma verður ekki séð að umgengni hafi verið tálmað, að minnsta kosti ekki svo nokkru nemi, frá hausti 2004. Frá því yfirlýsingin var gefin fór hins vegar engin regluleg umgengni fram fyrr en henni var komið á með dómsáttinni 8. september.

Í þinghaldi 18. maí síðastliðinn fór stefnandi fram á viðbótarmat sál­fræðingsins, með ósk um að tengsl A við tiltekin skyldmenni og tengdafólk yrðu könnuð, sem og tengsl hennar við C. Hafði stefnandi þá hafið sambúð með honum að nýju. Þau munu hafa eignast sitt annað barn saman í júlí, en fyrir áttu þau þriggja ára gamlan son.

Í viðbótarmatsgerð 29. júlí segir meðal annars um tengsl A og C að þau hafi verið afar lítil frá því C flutti inn til stefnanda um síðustu áramót og því erfitt að spá fyrir um framtíðarsamskipti þeirra í milli. Stúlkan segist hins vegar, í sam­tali 14. júlí, vera afslöppuð og örugg í návist C og því sé hún ekki lengur mót­fallin búsetu hans á heimili móður, enda voni hún að hann sé breyttur og betri maður.

Vekur þessi breytta afstaða stúlkunnar nokkra athygli, ekki síst í ljósi þess að hún hefur ekki umgengist C frá því að fyrri skoðunar- og matsgerð fór fram. Telur dómurinn að með réttu megi draga þá ályktun af viðhorfsbreytingu A að hún vilji með þessu fyrst og fremst stuðla að því ná aftur reglulegu sambandi við móður sína.

Að síðustu má geta þess að 27. maí 2005 vísaði sýslumaðurinn í [...] frá kröfu stefnanda 24. sama mánaðar um ákvörðun umgengnisréttar til bráðabirgða við A, á þeim grunni að sama málefni væri þegar til meðferðar í dómi. Þeirri ákvörðun var hnekkt með úrskurði dómsmálaráðuneytisins 29. ágúst síðastliðinn og lagt fyrir sýslumann að taka kröfu stefnanda til efnislegrar meðferðar. Sem fyrr segir hefur nú tekist sátt um reglulega umgengni og inntak hennar og kemur málefnið því ekki til frekari skoðunar nú hjá stjórnvöldum.

IV.

Aðila hefur greint á um umgengni stefnanda við A í tæp fimm ár, þótt mis­löng hlé hafi orðið á þeirri rimmu þegar stefnandi hefur ekki átt í ástar­sambandi eða búið með C. Frá því í apríl 2001 hefur stefndi farið einn með forsjá stúlkunnar og sinnt því hlutverki ágætlega. A hefur staðið sig einkar vel í skóla og verið búin prýðileg umgjörð um daglegar þarfir og umönnun. Er forsjárhæfi stefnda því ekki dregið í efa, hvorki af hálfu stefnanda né hins sérfróða matsmanns. Það sem helst má finna að við stefnda er hin einarða afstaða hans gegn öllum sam­skiptum dóttur sinnar við C, sem þó verður að skilja, að minnsta kosti að nokkru leyti, í ljósi áðurnefndrar forsögu málsins. Þótt C hafi verið sýknaður af ætluðu kyn­­ferðisbroti gagnvart B stendur henni enn svo verulegur stuggur af manninum að hún hefur verið ófáanleg til að dvelja á sameiginlegu heimili hans og móður sinnar. Afstaða A til C hefur verið lítt jákvæðari, eins og hún birtist meðal annars í mats­gerð 29. mars 2005. Þótt stúlkan hafi ekki hafnað því að dvelja á sama heimili og C, þá hefur hún ekki viljað búa á sama heimili og hann. Telur dómurinn engu breyta um þá afstöðu A þótt hún hafi greint matsmanni frá öðru í einu samtali 14. júlí síðastliðinn, enda engin sýnileg eða raunhæf forsenda fyrir slíkri viðhorfsbreytingu, önnur en sú að með henni tækist stúlkunni að ná aftur reglu­legum samskiptum við móður sína. Er ljóst af fyrri mats­gerðinni að þau tengsl eru mæðgunum báðum afar mikilvæg. Matsmaður álítur stefnanda einnig forsjárhæfa, en að áliti dómsins er þó töluverður munur gerður í matsgerð á aðstæðum og kostum foreldranna, stefnda í vil. Má þar einkum nefna þröngan húsnæðiskost stefnanda, sem að óbreyttu er ófullnægjandi fyrir A og samband hennar og sambúð með C, sem virðist nú vera til frambúðar.

Sem fyrr segir hafa aðilar nú enn á ný sæst á að stefndi fari einn með forsjá A. Sú sameiginlega ákvörðun þeirra hlýtur að byggja á því að það sé stúlkunni fyrir bestu, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Hefur stefnandi að þessu leyti því „tapað“ forsjármálinu í skilningi 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, en samkvæmt meginreglu laganna skal sá er tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum máls­kostnað.

Forsjármál eru því marki brennd að þau eru ólík flestum öðrum einkamálum vegna þeirra sérstöku og afar mikilvægu hagsmuna, sem um er deilt, þ.e. velferð og framtíðarhags­muni barna, sem engan hlut eiga að ágreiningi viðkomandi deiluaðila, en eru einatt bitbein slíkra deilna. A hefur ekki farið varhluta af þessu í þeirri hörðu forsjárdeilu, sem nú er loks á enda. Auk þess sem friður hefur náðst um forsjá hennar milli stríðandi foreldra, tókst einnig dómsátt um reglulega umgengni hennar við stefnanda, sem mæðgurnar eiga gagn­kvæman rétt til, en legið hefur niðri í rúma fimm mánuði. Í sáttinni er kveðið á um lágmarks­dvöl A á heimili stefnanda og C aðra hvora helgi, frá föstudegi til sunnu­dags og einn eftir­mið­dag í vikunni á eftir, auk sumarleyfis fjórar vikur á ári og jafnrar umgengni stefnanda á við stefnda um stór­hátíðar. Þá samþykktu foreldrar stúlkunnar að hún fari í viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi í maí á næsta ári, þar sem henni verður gefinn kostur á að tjá afstöðu sína og viðhorf til framtíðar­búsetu fyrir hlutlausum aðila, í samræmi við grunn­reglu 1. mgr. 43. gr. barnalaga. Verður stúlkan þá orðin 13 ára og reynsla vonandi komin af reglulegum samskiptum hennar og C. Hvort þau verði jákvæð byggist á framkomu mannsins annars vegar og afstöðu beggja málsaðila hins vegar, en þau hafa með dómsáttinni heitið hvort öðru að virða umgengnis­samkomu­lagið, hvetja stúlkuna til að dvelja hjá móður og stuðla að því að sú umgengni fari fram á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Með hliðsjón af framansögðu lítur dómurinn svo á að A hafi farið með ­sigur af hólmi í forsjár- og umgengnisdeilu foreldra sinna. Í þeim þætti málsins er lýtur að umgengni telur dómurinn að sama skapi að málsaðilar hafi, hvor um sig og saman, „unnið“ málið að nokkru í skilningi máls­kostnaðar­­ákvæðis 3. mgr. 130. gr. laga um með­ferð einka­­­mála. Þegar svo háttar til má dómari hvort heldur dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn aðila bera sinn kostnað af rekstri dómsmálsins. Eins og atvikum er háttað í þessu máli verður fyrri kosturinn valinn.

V.

Við ákvörðun málskostnaðar úr hendi stefnanda til stefnda verður litið til þess að stefnandi fékk í engu framgengt kröfu sinni um forsjá A, sem hlýtur að teljast megin krafa hennar í málinu. Þá verður ekki horft framhjá því, að frá apríl 2001 hefur verið í gildi, eða að minnsta kosti ekki verið formlega fellt úr gildi, skriflegt samkomulag aðila um reglu­lega umgengni stefnanda við stúlkuna. Samkomu­lagið var háð tilteknu skilyrði, sem stefnandi braut og átti ágreiningur um umgengni, sem þannig risi, að fara til úrskurðar hjá sýslumanni. Óháð því, átti að endurskoða samkomu­lagið að liðnu ári frá gerð þess. Stefnandi segir umgengnina hafa verið stopula allt frá gerð samningsins, en krafðist þó sjálf ekki ákvörðunar sýslu­­manns um umgengnisfyrirkomulag fyrr en í árslok 2002. Er óupplýst af hverju úrskurður hefur ekki fallið, en hafi stefndi tálmað umgengni á þann veg, sem stefnandi heldur fram, var henni rétt að ganga eftir slíkum úrskurði og eftir atvikum að krefjast dag­sekta, enda er það hin lög­form­lega leið til að taka á ágreiningi foreldra um umgengni, án höfðunar forsjár­máls. Umræddar leiðir voru einnig tækar haustið 2004 þegar stefnandi ákvað þeirra í stað að fara í nýtt forsjármál. Megin ávinningur þeirra málaferla er að dómsátt náðist um reglu­­lega umgengni, sem er í senn óskilyrt af hálfu stefnda og fer loks fram við eðlilegar kringumstæður á heimili stefnanda, þ.e. án þess að sambýlis­maður hennar þurfi að víkja burt af heimilinu. Þótt sömu eða svipaðri niðurstöðu hefði eflaust mátt ná með úrskurði sýslumanns þykir mega líta til sáttarinnar við ákvörðun máls­kostnaðar, en hið nýja umgengnissamkomulag samrýmist í öllum megin­­atriðum sér­fræði­­áliti, sem aflað var með matsgerðinni 29. mars 2005.

Forsjár- og umgengnisdeila aðila hefur verið hörð og að þessu sinni staðið yfir í hart­nær eitt ár fyrir dómi. Þinghöld hafa verið tíð, ellefu talsins, án þess að nokkuð hafi miðað í samkomulagsátt fyrr en nú í haust. Stefnda var synjað um gjafsókn vegna málsins, en hann hefur augljóslega haft mikinn kostnað af því að taka til varna. Miðað við málskostnaðaryfirlit lögmanns hans nemur skaðleysi stefnda af málssókninni eigi minna en 433.011 krónum, að með­­töldum virðisaukaskatti. Er að áliti dómsins rétt að stefnandi greiði hluta þess kostnaðar, eða 250.000 krónur, til samræmis við efnis­niður­stöður í málinu. 

Stefnandi hefur gjafsókn í málinu. Því greiðist allur gjafsóknar­kostnaður hennar úr ríkissjóði. Mun matskostnaður stefnanda, 766.400 krónur, þegar hafa verið greiddur af dómsmála­ráðu­neytinu. Annar útlagður kostnaður samkvæmt reikningum nemur samtals 13.869 krónum. Þóknun lögmanns stefnanda, Hjördísar Eddu Harðar­dóttur héraðsdómslögmanns, þykir hæfilega ákveðin 450.000 krónur að meðtöldum virðis­­­auka­­skatti. Miðast sú fjárhæð við unnar stundir í forsjármálinu samkvæmt máls­kostnaðar­yfirliti lögmannsins, en aðrar, sem tengjast rekstri umgengnismáls hjá stjórn­völdum, falla utan gjafsóknarleyfis stefnanda.      

Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Stefnandi, K, greiði stefnda, M, 250.000 krónur í málskostnað.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkis­sjóði, þar með talin 450.000 króna þóknun lögmanns hennar, Hjördísar Eddu Harðar­dóttur héraðsdóms­lög­manns.