Hæstiréttur íslands

Mál nr. 650/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárslit
  • Óvígð sambúð


         

Föstudaginn 18. janúar 2008.

Nr. 650/2007.

K

(Ingólfur Hjartarson hrl.)

gegn

M

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

 

Kærumál. Fjárslit. Óvígð Sambúð.

Hafnað var kröfu K um að viðurkenndur yrði nánar tilgreindur eignarhlutur hennar í fasteign við opinber skipti milli hennar og M vegna slita á óvígðri sambúð. Þá var frávísunarkröfu M hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Garðar Gíslason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. desember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. nóvember 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að viðurkenndur yrði eignarhlutur hennar í fasteigninni [...]. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við opinber skipti til fjárslita vegna loka óvígðrar sambúðar aðila skuli við það miðað að hún sé eigandi að 25% hlut í nefndri fasteign en varnaraðili að 75% hlut og varnaraðili beri einn ábyrgð á áhvílandi skuldum. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Með kæru 14. desember 2007 kærði varnaraðili tvo úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í máli þessu. Hann krefst þess aðallega að úrskurði 31. maí 2007, þar sem hafnað var kröfu hans um að málinu yrði vísað frá héraðsdómi, verði hrundið og orðið verði við þeirri kröfu. Þá verði sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Til vara krefst hann þess að fyrrgreindur úrskurður 23. nóvember 2007 verði staðfestur að öðru leyti en því að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað í héraði. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar í þessu tilviki.

Aðalkröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi styður varnaraðili við 104. gr. laga nr. 20/1991. Fasteignin að [...] sé séreign hans og hafi verið í átta ár áður en sambúð aðila hófst. Fasteignin eigi því ekki undir skipti á búi aðila og sé krafa sóknaraðila þess vegna andstæð 104. gr. nefndra laga. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ágreiningur aðila lyti að því hvort sóknaraðili hafi lagt eitthvað af mörkum til eignarmyndunar búsins. Því verði að líta til framlags hvors um sig til eignarmyndunarinnar. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að hafna frávísunarkröfu varnaraðila.

Aðilar hófu sambúð vorið 1993 en voru skráð formlega í sambúð árið 1994. Þau slitu sambúðinni 1. nóvember 2001. Þau eiga saman tvö börn, A, sem er fæddur 1996 og B, fæddur 1999. Sóknaraðili fer með forræði þeirra. Þegar aðilar hófu sambúð átti varnaraðili fasteign þá sem um er deilt og er hann einn þinglýstur eigandi hennar. Hann bjó þar og sóknaraðili flutti inn til hans.

Svo sem nánar er rakið í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðili lagt fram ýmsa útreikninga til stuðnings þeirri staðhæfingu sinni að varnaraðili hafi ekki haft fé aflögu til annars en fjármögnunar á hlutafélögum sínum og greiðslu lána, sem á þeim hvíldu. Þar eru og málsástæður aðila ítarlega raktar. Ekki er annað komið fram en að báðir aðilar hafi lagt sitt til heimilisins og af gögnum málsins má ljóst vera að fjárframlög beggja hafi verið nauðsynleg til að sjá um rekstur þess. Hins vegar hvílir á sóknaraðila sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi tekið þátt í að greiða afborganir af lánum sem tekin hafi verið vegna kaupa á húsinu og að eignaaukning sú sem orðið hafi á sambúðartímanum hafi verið þess eðlis að hún hafi eignast hlut í húseign varnaraðila. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður að fallast á að sú sönnun hafi ekki tekist og verður úrskurðurinn því staðfestur.

Eftir atvikum verður hvor aðila látinn bera sinn kærumálskostnað.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. nóvember 2007.

Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjaness 13. október 2006 frá skiptastjóra samkvæmt 112. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 122. gr. sömu laga. Málið var þingfest 21. nóvember 2006 og tekið til úrskurðar 1. nóvember 2007.

Sóknaraðili er K, [...] en varnaraðili er M, [...].

Kröfur sóknaraðila eru að úrskurðað verði að við yfirstandandi opinber skipti til fjárslita vegna loka óvígðrar sambúðar sóknaraðila og varnaraðila, skuli við það miðað að sóknaraðili sé eigandi að 25% hlut í fasteigninni F en varnaraðili að 75% hlut. Varnaraðili beri einn ábyrgð á áhvílandi skuldum. Þá er þess krafist að varnaraðili verði úrskurðaður til að greiða sóknaraðila málskostnað.

Krafa varnaraðila er að framangreindum kröfum sóknaraðila verði hafnað og sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað.

I.

Aðilar hófu sambúð vorið 1993 en voru skráð formlega í sambúð árið 1994. Þau slitu sambúð 1. nóvember 2001. Þau eiga saman tvö börn, A sem er fæddur 1996 og B sem er fæddur 1999. Sóknaraðili fer með forræði þeirra. Auk þess á sóknaraðili dóttur sem er fædd 1990 og bjó hún á heimili aðila. Varnaraðili á tvö börn frá fyrri sambúð sem eru fædd 1983 og 1987. Móðir þeirra fer með forræðið og greiðir varnaraðili meðlag með þeim. Samningar tókust ekki með aðilum um eignaskipti eftir sambúðarslit og óskaði sóknaraðili eftir opinberum skiptum. Var kveðinn upp úrskurður þar að lútandi í Héraðsdómi Reykjaness 26. mars 2003 og skiptastjóri skipaður.

Þegar aðilar hófu sambúð átti varnaraðili raðhús að F þar sem hann bjó. Varnaraðili telur að hún hafi greitt áhvílandi skuldir á húsinu og við það hafi orðið eignamyndun hjá henni. Þá hafi á sambúðartíma staðið yfir framkvæmdir við eignina og hafi hún tekið þátt í þeim og greitt fyrir að hluta. Ekki tókst að leysa þennan ágreining á skiptafundum og ákvað skiptastjóri þann 11. október 2006 að krefjast úrlausnar héraðsdóms um ágreining aðila.

II.

Sóknaraðili kveður að samkvæmt skattframtölum aðila fyrir 1994 hafi eigna- og skuldastaða þeirra í árslok 1993 verið þannig að varnaraðili hafi átt eignina F, bifreið, eign samkvæmt efnahagsreikningi og hlut í C, samtals að fjárhæð 11.134.901 króna en skuldir hans hafi verið 7.015.469 krónur. Eignir sóknaraðila hafi aftur á móti verið bifreið og verðbréf, samtals að verðmæti 365.142 krónur en skuldir hennar að fjárhæð 340.000 krónur.

Samkvæmt samantekt hafi tekjur aðila að frádregnum sköttum og lífeyrissjóðsiðgjöldum numið á sambúðartímabilinu 5.870.136 krónur hjá sóknaraðila en 7.483.556 krónur hjá varnaraðila.

Sóknaraðili kveður að vextir á almennum lánum aðila hafi numið 1.464.407 krónum á sambúðartíma. Á sama tíma hafi vextir og verðbætur á íbúðalánum samtals numið 2.969.921 krónu en afborganir af íbúðalánum hafi verið 724.027 krónur. Þá hafi varnaraðili greitt meðlag með tveimur börnum sem ætla megi að hafi numið samtals 2.820.000 krónum.

Samkvæmt skattframtölum hafi varnaraðili einnig lagt fram hlutafé í D fyrir samtals 13.350.000 krónur og í E 500.000 krónur

Samkvæmt skattframtölum hafi eignir varnaraðila þann 31. desember 2001 verið F, hlutur í D og E, samtals að fjárhæð 31.520.000 krónur Á sama tíma hafi skuldir hans verið samtals að fjárhæð 21.301.113 krónur. Eignir sóknaraðila hafi verið á þessum tíma bifreið og bankareikningur, samtals að verðmæti 1.718.8013 krónur en skuldir hennar á sama tímamarki 2.295.858 krónur.

Hreyfing fjármagns hjá aðilum frá 31. desember 1993 til 31. desember 2001 sé samkvæmt skattframtölum sem hér segir:

,,M:

 

             Tekjur að frádregnum sköttum og lífeyrisiðgj.

1994-2001                                                                    7.483.556

   Hlutafé í D                                                                                               13.350.000

   Hlutafé í E                                                                                                     500.000

   Aukning skulda 21.301.113

   - 7.015.469                                                                      14.285.644

   Vextir af almennum lánum                                                                       1.464.407

   Söluandvirði bifreiðar                                                                  1.200.000

   Kaupverð bifreiðar                                                                                      300.000

                                                               Samtals                         22.969.200      15.614.407

             Áætlaðar meðlagsgreiðslur í 94 mán.                                                                 2.820.000

             Lán tekið í lok árs 2001                                                 - 3.200.000

                                                               Samtals                        19.769.200       18.434.407

Jákvæður mismunur                                                                                          1.334.793

 

K:

Tekjur að frádregnum sköttum og

Lífeyrisiðgjöldum 1994-2001                                                     5.870.136

Aukning skulda 2.295.850

- 340.000                                                                          1.955.850

Söluandvirði bifreiða                                                                 1.550.000

Kaupverð bifreiða                                                                               2.550.000

Samtals                        9.375.986     2.550.000

Jákvæður mismunur                                                                                        6.825.986”

 

Í ofangreindum tölum sé ekki reiknað með kostnaði vegna hússins sem samkvæmt skattframtölum sé greiðsla á afborgunum, vöxtum og verðbótum, samtals árið 1994 til 2001 að fjárhæð 3.693.948 krónur. Þá hafi eignin verið endurbætt og kveðst sóknaraðili áætla þann kostnað a.m.k. 2.000.000 krónur.

Sóknaraðili kveður fjárhagslega samstöðu hafa verið með aðilum varðandi rekstur heimilis og fasteignar. Skattframtöl hafi verið sameiginleg frá og með framtali fyrir tekjuárið 1996. Varnaraðili hafi hins vegar einn komið að stofnun einkahlutafélagsins D í ársbyrjun 1997 sem hafi verið stofnað um hugverk hans og hann verið meirihlutaeigandi. Sóknaraðili hafi aldrei blandað sér í þau mál og aukin hlutafjárframlög varnaraðila í félaginu sé honum einum viðkomandi. Útgjöld varnaraðila á sambúðartímanum vegna hlutafjárframlagsins í D, 13.350.000 krónur, og E, 500.000 krónur, hafi hins vegar leitt til þess að sóknaraðili hafi þurft að annast greiðslu alls kostnaðar vegna fasteignarinnar þ.m.t. greiðslu afborgana, verðbóta og vaxta á áhvílandi veðskuldum. Telur sóknaraðili ljóst að samkvæmt skattframtölum hafi varnaraðili ekki haft fjármuni aflögu til annars en fjármögnunar á hlutafélögum sínum og til að viðhalda lánum sem tengdust þeim. Þá heldur sóknaraðili því fram að framkvæmdir hafi staðið yfir við eignina á sambúðartíma og hafi hún og hennar skyldmenni unnið við eignina. Hún hafi ennfremur greitt að hluta fyrir þessar framkvæmdir á sama hátt og hún hafi greitt afborganir af lánum.

Krefst sóknaraðili viðurkenningar á framlagi sínu til eignamyndunar á sambúðartíma aðila að því er varðar fasteignina F.

III.

Varnaraðili kveður fasteignina F hafa verið fullbúna eign þegar samband aðila hafi hafist. Varnaraðili hafi sjálfur keypt eignina 1986 og verið þinglýstur eigandi hennar frá upphafi.

Varnaraðili mótmælir þeim forsendum sem sóknaraðili notar til að reikna út eigna- og skuldastöðu varnaraðila árið 2001 en þær forsendur gefi ranga mynd af raunverulegum fjárhag varnaraðila. Sóknaraðili taki ekki tillit til ýmissa skulda sem hafi hvílt á varnaraðila enda þótt þeirra hafi ekki verið getið í skattframtali fyrir árið 2001. Miða verði við raunverulegan fjárhag aðila byggðan á öllum fyrirliggjandi gögnum og því sé ekki eingöngu hægt að styðjast við skattframtöl aðila enda ýmis atriði sem þar komi ekki fram. Þá taki sóknaraðili ekki tillit til yfirfærslu á verðmæti hluta sem varnaraðili eigi í D í samræmi við mat dómkvaddra matsmanna. Þetta geri sóknaraðili viljandi til að láta eignastöðu varnaraðila líta betur út en hún í raun sé.

Í skattframtali varnaraðila fyrir árið 2001 komi ekki fram skuldir sem hafi verið stofnað til á sambúðartíma. Varnaraðili hafi verið ábyrgðarmaður á skuld sem hafði farið í vanskil og hafi varnaraðili þurft að taka nýtt lán og hafi staða þess láns 1. nóvember 2001 verið 2.662.830 krónur. Þá hafi varnaraðili jafnframt verið ábekingur á víxli sem hann hafi þurft að greiða með 1.888.172 krónum þann 13. mars 2003. Þá hafi varnaraðili tekið lán á árunum 1998-2001 hjá D, samtals að fjárhæð 3.314.203 krónur sem hafi m.a. farið í samneyslu fjölskyldunnar. Þetta lán komi ekki fram í skattframtölum varnaraðila en skuld varnaraðila sé hins vegar í efnahagsreikningi D og ársskýrslu árið 2001. Skuldastaða varnaraðila 1. nóvember 2001 sé því vantalin af hálfu sóknaraðila um 7.272.033 krónur.

Í skattframtölum varnaraðila sé að finna bókfært verð hluta hans í D og E en það sé langt frá því að endurspegla raunverulegt virði eignahlutarins, sbr. framlagða matsgerð. Engin starfsemi hafi nokkurn tíma verið í E og félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota 9. febrúar 2006. Sé miðað við framangreint megi sjá hvað raunverulega eignastaða varnaraðila hafi versnað til muna frá árinu 1993 til 2001.

Varnaraðili mótmælir útreikningum sóknaraðila á hreyfingu fjármagns sem röngum, villandi og án viðhlítandi gagna. Útreikningar sóknaraðila taki ekki tillit til mikilvægra þátta, t.d. raunverulegrar skuldaraukningar varnaraðila og því sé sérstaklega mótmælt að reikna áætlaðar meðlagsgreiðslur varnaraðila til tveggja barna sinna sem greiðslur úr sameiginlegu búi. Telja verði að framfærsla varnaraðila með öllum börnum sínum hafi verið hluti af sameiginlegum fjárhag varnar- og sóknaraðila en ekki eingöngu þeim börnum hans sem búsett hafi verið á heimili hans. Beri einnig að líta til þess að dóttir sóknaraðila hafi búið allan sambúðartímann á heimili aðila og framfærsla hennar hluti af sameiginlegum fjárhag þeirra.

Varnaraðili kveður ástand fasteignarinnar í upphafi sambúðar hafa verið þannig að búið hafi verið að leggja torf á lóð, steypa vegg um lóðina, klára niðurfallslagnir fyrir heitan pott, undirstöður og dekk fyrir sólpall. Húseignin hafi verið full tilbúin að innan. Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila um að hún hafi þurft að annast greiðslu alls kostnaðar vegna fasteignarinnar F. Sóknaraðili hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þessum fullyrðingum sínum. Hið rétta sé að varnaraðili hafi einn verið skráður fyrir fasteigninni og einn séð um greiðslu afborgana, vaxta og annarra gjalda er henni tengdust. Hann hafi m.a. notað lánsfé frá fyrirtæki sínu D til að greiða þessar skuldir. Á tímabilinu júlí 1994 til nóvember 1995 hafi aðilar dvalið í [...] og fasteignin verið leigð út allan þann tíma. Mánaðarleiga hafi verið rúmlega 51.000 krónur á mánuði. Hafi þessar leigutekjur runnið til greiðslu afborgana af lánum og öðrum gjöldum vegna fasteignarinnar.

Varnaraðili telur að eignastaða hans hafi rýrnað á sambúðartíma úr 4.763.432 krónum árið 1993 í -8.233.756 krónur árið 2001. Nettóverðmæti varnaraðila í fasteigninni hafi ekki aukist á meðan á sambúðartíma hafi staðið þrátt fyrir 58,1% meðaltalshækkun á fasteignaverði á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 1. janúar 1996 til 1. nóvember 2001. Á sama tíma og gríðarlegar hækkanir hafi verið á fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu þá hafi nettóverðmæti varnaraðila í fasteigninni lækkað um 0,23%. Af þessu megi sjá að skuldastaða varnaraðila hafi aukist hratt og umfram hina miklu fasteignaverðshækkun.

IV.

Þann 13. júní 2005 voru Bragi Björnsson hdl. og Gunnar Þór Ásgeirsson löggiltur endurskoðandi tilnefndir af sýslumanni í Hafnarfirði til að meta fasteignina F og einkahlutafélagið D. Matsgerð þeirra er dagsett 15. maí 2006 og segir m.a. í henni varðandi D að miðað við ársreikning félagsins  sé hagnaður fyrir vexti, skatta og afskriftir neikvæð stærð, bæði fyrir árið 2004 og 2003. Þessi stærð sé oft notuð sem grunnur fyrir mat á getu félaga til myndunar fjárstreymis sem notað sé til virðismats. Þá hafi verið reynt að áætla sambærilega rekstrarniðurstöðu fyrir árið 2005 miðað við virðisaukaskattsskýrslu þar sem rekstrarniðurstaða fyrir árin 2003 til 2005 sé neikvæð megi ætla að rekstrarvirði félagsins sé ekkert. Að þessu gefnu sé eðlilegt að meta félagið miðað við upplausnarvirði. Miðað við 1. nóvember 2001 telja matsmenn að verðmat félagsins miðað við áframhaldandi rekstur sé 1.771.752 krónur. Fasteignina F meta matsmenn á 31.500.000 krónur miðað við hefðbundin kjör á fasteignamarkaði.

Sóknaraðili sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að utanhúss hafi verið búið að tyrfa lóðina og komnar undirstöður undir sólpall en eftir að klæða sólpallinn. Húsið hafi verið ómálað að utan. Að innan hafi engin gólfefni verið á stofu, holi og eldhúsi og bað ófrágengið. Hún kveðst hafa málað húsið að utan ásamt bróður sínum, G. G kom fyrir dóm og staðfesti þetta. Sóknaraðili kvað varnaraðila hafa séð um að greiða reikninga en að öðru leyti hafi þau verið með sameiginlegan fjárhag. Varnaraðili hafi verið með einhverja reikninga í greiðsluþjónustu.

Varnaraðili kvaðst hafa stofnað fyrirtækið D 1997 sem sé með framleiðslu í [...]. Hann kvaðst hafa keypt húsið 1986. Húsið hafi verið fullbúið er sóknaraðili hafi flutt til hans. Gólfefni hafi verið í húsinu, dúkur á eldhúsi en mottur í stofu. Er þau hafi flutt til [...] hafi filtteppi verið sett á stofuna. Það hafi verið árið 1999 sem að þau hafi ákveðið að endurnýja gólfefni og þá hafi parket verið lagt. Faðir sóknaraðila hafi aðstoðað hann við að leggja parketið en hann hafi jafnframt  aðstoðað föður sóknaraðila í hans húsi. Húsið hafi verið ómálað að utan en búið að setja undirstöður fyrir heitan pott og tengingar. Sólpallur hafi verið kominn en eftir að klæða hann. Varnaraðili kvað þau hafa haft aðskilinn fjárhag og hafi hann greitt öll áhvílandi lán á húsinu og verið með föst lán og reikninga í greiðsluþjónustu. Hins vegar hafi þau verið með sameiginlegan rekstur á heimilishaldi að öðru leyti eins og matarinnkaup, tómstundir barna o.fl.

H, faðir sóknaraðila, sagði að húsið hafi verið ómálað að utan er aðilar hafi tekið upp sambúð. Þá hafi vantað gólfefni á eldhús, hol og stofu. Innihurðir hafi vantað að hluta svo og sólbekki. Sólpallur hafi verið kominn og stoðir fyrir skjólveggi en eftir að klæða pallinn. Hann kvaðst hafa aðstoðað við að leggja parket á stofu, hol og eldhús og hafi komið að smíði skjólveggs. Hann staðfesti að varnaraðili hafi einu sinni hjálpað honum við að klæða sólpall.

Móðir varnaraðila, I, sagði að að hennar mati hafi húsið verið fullbúið með öllum þægindum og tækjum eins og tíðkast, þ.e. eldavél, ísskáp, uppþvottavél og þvottavél. Hún kvaðst hafa séð um að innheimta leigugreiðslur fyrir húsið er aðilar hafi dvalið í [...] 1994-1995. Hafi leigan verið notuð til að greiða afborganir af húsinu.

V.

Aðilar hófu sambúð 1993 og áttu saman tvö börn, fædd 1996 og 1999. Fyrir átti sóknaraðili eitt barn sem bjó á heimili þeirra. Þau slitu sambúð 1. nóvember 2001. Varnaraðili keypti fasteignina F árið 1986 sem er parhús á einni hæð, samtals 154 fm að stærð. Bjó hann í því er hann kynntist sóknaraðila haustið 1992. Húsið er þinglesin eign varnaraðila.

Krafa sóknaraðila í málinu er reist á því að hún hafi á sambúðartíma greitt afborganir af áhvílandi veðskuldum til jafns við varnaraðila og með því móti eignast hlut í fasteigninni. Rökstyður hún þessa málsástæðu sína með vísan til skattframtala aðila en af þeim megi sjá að varnaraðili hafi einn ekki haft nægilegar tekjur til að standa straum af afborgunum af áhvílandi lánum og jafnframt eignast hlutabréf í fyrirtækinu D. Því megi álykta að sóknaraðili hafi tekið þátt í greiðslu á lánum enda hafi fjárhagur aðila verið sameiginlegur. Þá er það einnig málsástæða af hálfu sóknaraðila að hún hafi átt þátt í eignaaukningu á sambúðartímanum því framkvæmdir hafi staðið yfir við fasteignina sem hún hafi komið að með vinnu sinni og skyldmenna svo og með greiðslum á sama hátt og með greiðslum af lánum.

Engar lögfestar reglur eru um skipti eigna og skulda við sambúðarslit. Litið hefur verið á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga í þessu tilliti. Það hefur verið talin meginregla um fjárhagslegt uppgjör við slit á óvígðri sambúð að hvor aðili um sig teljist eiga þau verðmæti sem hann kemur með inn í búið. Við mat á þessu hefur almennt verið talið að opinber skráning og þinglýsing eignarheimildar á fasteign gefi sterka vísbendingu um raunveruleg eignarráð. Sá sem heldur því fram að hann eigi hlutdeild í séreign hins ber sönnunarbyrðina fyrir því.

Varnaraðili heldur því fram að hann hafi í öllum tilvikum greitt afborganir af áhvílandi lánum og önnur gjöld er tengst hafi fasteigninni. Hafi hann verið með þessi útgjöld í greiðsluþjónustu hjá viðskiptabanka sínum og greiðslur verið millifærðar af reikningi hans. Sóknaraðili kvaðst muna að þessi háttur hafi verið hafður á, að minnsta kosti á einhverju tímabili. Eins sagði hún að varnaraðili hafi séð um að greiða reikninga, það er framkvæmdina sjálfa, þó hún hafi litið svo á að tekjur hennar rynnu einnig til greiðslu afborgana af lánum þar sem fjárhagur þeirra hafi verið sameiginlegur. Sannað er í málinu að meðan aðilar dvöldu í [...] um 15 mánaða skeið runnu leigutekjur af húsinu til afborgana af lánum.

Sem áður sagði hefur sóknaraðili sönnunarbyrðina fyrir því að hún hafi tekið þátt í að greiða afborganir af húsinu. Sóknaraðili hefur hins vegar ekki lagt fram kvittanir eða önnur slík sönnunargögn um að svo hafi verið. Að mati dómsins telst ekki nægilegt, eins og hér stendur á, að sýna fram á að sóknaraðili hafi haft getu til að greiða af áhvílandi lánum heldur verður jafnframt að sýna fram á að hún hafi í raun gert það. Verður að leggja til grundvallar að varnaraðili átti eignina þegar aðilar tóku upp sambúð og hún var þinglýst eign hans. Gegn andmælum varnaraðila þykir því ekki sannað að sóknaraðili hafi tekið þátt í greiðslu afborgana af áhvílandi veðskuldum eða öðrum gjöldum er tengdust fasteigninni og rekstri hennar.

Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að eignaaukning hafi orðið á sambúðartíma þar sem framkvæmdir hafi staðið yfir við eignina og þeim lokið meðan aðilar voru í sambúð. Af framburðum aðila og vitna þykir nægilega komið fram að um óverulegar framkvæmdir var að ræða. Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á útlagaðan kostnað í þessu sambandi og ekki þykir unnt að fallast á kröfu hennar vegna vinnu hennar og skyldmenna sem ekki ætluðust til að endurgjalds eða gerðu kröfur um endurgjald fyrir vinnu sína.

Samkvæmt framansögðu þykir sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á með fullnægjandi gögnum og gegn andmælum varnaraðila að hún hafi staðið að sameiginlegri eignamyndun á sambúðartíma. Með vísan til áður rakinnar meginreglu við slit á óvígðri sambúð, verður að fallast á kröfu varnaraðila um að hafna beri kröfum sóknaraðila í málinu.

Rétt þykir eftir atvikum að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

             Hafnað er kröfu sóknaraðila, K,  um að viðurkenndur verði eignarhlutur hennar í fasteigninni F.

Málskostnaður fellur niður.