Hæstiréttur íslands

Mál nr. 457/2010


Lykilorð

  • Hlutafélag
  • Ábyrgð
  • Skipti
  • Aflahlutdeild
  • Tómlæti
  • Dráttarvextir


Fimmtudaginn 3. mars 2011.

Nr. 457/2010.

Sólberg ehf.

(Björn Jóhannesson hrl.)

gegn

Bergi-Huginn ehf.

(Þórarinn V. Þórarinsson hrl.)

Hlutafélag. Ábyrgð. Skipting. Aflahlutdeild. Tómlæti. Dráttarvextir.

S ehf. seldi VG ehf. bátinn B í janúar 2004, en við söluna voru undanskildar veiðiheimildir, aflahlutdeildir og aflamark sem bátnum kynni að verða úthlutað. Síðar var bátnum í tvígang úthlutað aflamarki auk varanlegrar aflahlutdeildar. Eftir söluna var VG ehf. breytt í hlutafélag, því skipt upp í tvö félög á árinu 2006, sbr. 133. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, og annað tveggja viðtökufélaga loks yfirtekið af B ehf. á árinu 2007. Skuldbindingar VG ehf. gagnvart S ehf. komust þannig í hendur B ehf. Í málinu krafði S ehf. B ehf. um greiðslu á andvirði aflamarks og varanlegrar aflahlutdeildar sem B ehf. hefði haft af sér eftir sölu bátsins, en aðilar deildu einkum um það  hvort krafa S ehf. væri niður fallinn vegna tómlætis. Í dómi Hæstaréttar er vísað til þess að 133. gr. laga nr. 2/1995 veiti heimild til skiptingar félags með nánar tilgreindum aðferðum, en kröfuhöfum sé jafnframt veitt vernd gegn tjóni af völdum skiptingar með óskiptri ábyrgð þátttökufélaganna á þeim skuldbindingum sem til staðar voru. Þá var meðal annars rakið hvernig S ehf. hefði hlutast til um dómkvaðningu matsmanns í desember 2008, til að meta tjón sitt, og sent B ehf. innheimtubréf í júní 2009, sem reist var á niðurstöðum matsins. Með vísan til þessa og málavaxta að öðru leyti hafnaði Hæstiréttur því að krafa S ehf. væri fallin niður vegna tómlætis og tók hana til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júlí 2010. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 17.723.214 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 983.500 krónum frá 1. september 2004 til 1. september 2005, af 1.924.164 krónum frá þeim degi til 3. desember 2007, en af 17.723.214 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svavari Þorsteinssyni og Ólafi Thóroddsen var stefnt til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Í XIV. kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög er að finna ákvæði um samruna, breytingu hlutafélags í einkahlutafélag og skiptingu. Við skiptingu hlutafélags taka fleiri en eitt hlutafélag eða einkahlutafélag við öllum eignum og skuldum hlutafélags gegn endurgjaldi til hluthafa félagsins sem skipt er, eða að skipting verður þannig að eitt eða fleiri félög taki við hluta af eignum og skuldum þess, sbr. 1. mgr. 133. gr. laganna. Þar segir einnig að viðtaka eigna og skulda geti farið fram án samþykkis lánardrottna. Í 2. mgr. greinarinnar eru nánari ákvæði um framkvæmd við skiptingu félags auk þess sem vísað er til annarra ákvæða laganna eftir því sem talið er eiga við. Í 3. mgr. er síðan að finna sérstaka ábyrgðarreglu en þar segir: Ef kröfuhafi í félaginu, sem tekið hefur þátt í skiptingunni, fær ekki fullnustu kröfu sinnar í því félagi sem kröfuna skal greiða ber hvert hinna þátttökufélaganna óskipta ábyrgð á skuldbindingum sem stofnast höfðu þegar upplýsingar um skiptingaráætlunina voru birtar. Ábyrgð hinna viðtökufélaganna takmarkast þó við nettóverðmæti þess sem við bættist í hverju einstöku viðtökufélagi þegar áætlunin var birt en ábyrgð félagsins, sem skipt er og heldur áfram starfsemi, takmarkast við nettóverðmæti þess sem var eftir í félaginu á sama tíma.

Í héraðsdómi segir ranglega að einkahlutafélagið Valdimar Geirsson hafi sætt skiptingu.  Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti kom fram að félaginu hafi verið breytt í hlutafélag fyrir skiptingu í því skyni að því yrði skipt eftir framangreindum ákvæðum laga nr. 2/1995. Málavöxtum, málsástæðum og lagarökum er að öðru leyti nægilega lýst í héraðsdómi.

Samkvæmt framansögðu veitir 133. gr. laga nr. 2/1995 heimild til skiptingar félags með nánar tilgreindum aðferðum en kröfuhöfum er jafnframt veitt vernd gegn tjóni af völdum skiptingar með óskiptri ábyrgð þátttökufélaganna á þeim skuldbindingum sem til staðar voru. Eins og fram kemur í héraðsdómi var Útgerðarfélagið Kalmannsvík ehf. stofnað vegna skiptingar Valdimars Geirssonar hf. Síðar varð samruni stefnda, með réttindum og skyldum, við það félag og annað félag, Eyrar ehf. Áfrýjandi vefengir ekki þá fullyrðingu í málsvörn stefnda að eigendur hlutafjár í stefnda hafi verið grandlausir um rétt áfrýjanda við þann samruna. Það atriði hefur á hinn bóginn ekki þýðingu við úrlausn málsins þar sem stefndi tók við skuldbindingum Valdimars Geirssonar hf. við samrunann hvað sem vitneskju hluthafa leið um einstakar kröfur samkvæmt 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995.

Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, er fallist á með áfrýjanda að skuldbinding Valdimars Geirssonar ehf. gagnvart áfrýjanda varðandi aflahlutdeild hafi stofnast þegar upplýsingar um skiptingaráætlunina voru birtar í Lögbirtingarblaðinu 3. nóvember 2006. Skiptir þá ekki máli hvenær aflaheimildum eða aflahlutdeild var úthlutað til hins selda báts. Því er fallist á að krafa áfrýjanda eigi undir reglu 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 og getur áfrýjandi því beint kröfu sinni að stefnda.

Með hinum áfrýjaða dómi var á hinn bóginn komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hafi glatað rétti sínum fyrir tómlæti við að halda kröfu sinni fram. Í héraðsdómi er nægilega rakið til hvaða aðgerða áfrýjandi greip til verndar kröfu sinni eftir framangreinda birtingu í Lögbirtingarblaðinu. Eins og þar kemur fram óskaði áfrýjandi meðal annars dómkvaðningar matsmanns 5. desember 2008 til að meta hvert hafi verið nettóverðmæti þess sem við bættist hjá Útgerðarfélaginu Kalmannsvík ehf. við birtingu skiptingaráætlunar Valdimars Geirssonar hf. á árinu 2006. Var matsmaður kvaddur til verksins 20. janúar 2009. Stefndi var einn af matsþolum og hefur hann ekki andmælt niðurstöðum matsins, sem er grundvöllur höfuðstóls fjárkröfu áfrýjanda. Þá sendi áfrýjandi stefnda innheimtubréf 23. júní 2009. Að þessu virtu og málavöxtum að öðru leyti telst áfrýjandi ekki hafa sýnt af sér tómlæti sem valdi því að krafa hans sé niður fallin. Verður stefndi því dæmdur til að greiða áfrýjanda höfuðstól kröfu hans. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 er rétt að upphafstími dráttarvaxta miðist við 23. júlí 2009 er liðinn var mánuður frá því að áfrýjandi sendi stefnda innheimtubréf sitt.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði. Við ákvörðun hans verður litið til kostnaðar sem áfrýjandi hafði af öflun framangreindrar matsgerðar.

Dómsorð:

 Stefndi, Bergur-Huginn ehf., greiði áfrýjanda, Sólbergi ehf., 17.723.214 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júlí 2009 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 26. apríl 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 1. mars sl., er höfðað með stefnu birtri 19. ágúst    sl. 

Stefnandi er Sólberg ehf., kt. 480497-2369, Góuholti 8, Ísafirði.

Stefndi er Bergur-Huginn ehf., kt. 560384-0179, Geirseyri, Vestmannaeyjum.

Réttargæslustefndu eru Svavar Þorsteinsson, kt. 061065-3189, Móbergi 8,  Hafnarfirði  og  Ólafur Thóroddsen, hrl., kt. 141045-4319, Síðumúla 33, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða 17.723.214 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6.. gr. laga nr. 38/2001 af 983.500 krónum frá 1. september 2004 til 1. september 2005, en af 1.924.164 krónum frá 1. september 2005 til 3. desember 2007, en af stefnufjárhæð frá 3. desember 2007 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara að þær verði lækkaðar verulega.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu, að mati dómsins.

Réttargæslustefndu skiluðu greinargerðum í málinu en gera ekki sjálfstæðar kröfur og engar kröfur eru gerðar á hendur þeim. 

Málavextir.

Málavextir eru þeir að stefnandi seldi Valdimar Geirssyni ehf. bátinn Báru ÍS-66, skipaskrárnúmer 1148, í janúar 2004.  Kom fram í kaupsamningi að báturinn væri mikið skemmdur eftir tjón sem orðið hafi á honum tæpum tveimur árum áður.  Kaupverðið var 1.500.000 krónur og fylgdi honum búnaður svo og leyfi til veiða í atvinnuskyni samkvæmt lögum nr. 38/1990.  Í kaupsamningi kom fram að engar veiðiheimildir, aflahlutdeildir eða aflamark fylgdi með í kaupunum, auk þess voru undanskildar kaupunum þær veiðiheimildir, aflahlutdeildir og aflamark sem bátnum kynni að verða úthlutað og byggðust á veiðum hans fyrir afhendingu eða á grundvelli þeirra heimilda sem verið hefðu á bátnum.  Sambærilegt ákvæði var í afsali sem gefið var út 30. apríl sama ár og eftir sölu bátsins var  nafni hans breytt í Sigursæl AK-18. Við sölu bátsins munu hafa verið á honum svokölluð bótaréttindi samkvæmt 9. gr. a laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, en þar er kveðið á um réttindi til sérstakrar úthlutunar aflamarks innan viðkomandi fiskveiðiárs.  Eftir sölu bátsins til Valdimars Geirssonar ehf. mun tvívegis hafa verið úthlutað aflamarki til bátsins á grundvelli þessa ákvæðis og tiltekinna reglugerða, til eins fiskveiðiárs í senn, þ.e. 7868 kg af þorski fyrir fiskveiðiárið 2004/2005 og 7856 kg af þorski fyrir fiskveiðiárið 2005/2006.  Stefnandi segist ítrekað hafa farið fram á það við forsvarsmann Valdimars Geirssonar ehf. að þessu aflamarki yrði skilað eða verðmæti þess greidd stefnanda en ekki mun hafa orðið við þessari kröfu stefnanda.

Með bréfi Fiskistofu í júní 2006 var Valdimar Geirssyni ehf. tilkynnt að úthlutað yrði á bátinn 5857 kg aflamarki í þorski og þá kom fram að um varanlega úthlutun var að ræða með vísan til bráðabirgðaákvæðis III við lög nr. 1/1999 um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.  Kom fram í bréfinu að þessi úthlutun hafi byggst á rétti sem bundinn hafi verið við Báru ÍS-66 þann 1. desember 1998.  Stefnandi ítrekaði beiðni sína um að aflamarki fyrrgreindra fiskveiðiára og varanlegu aflahlutdeildinni yrði skilað til stefnanda eða andvirði aflaheimildanna yrði greitt stefnanda.  Ekki var orðið við þessari kröfu stefnanda.

Í september 2006 höfðaði stefnandi mál á hendur Valdimar Geirssyni ehf. fyrir Héraðsdómi Vestfjarða og gerði þá kröfu að félaginu yrði gert að þola flutning á þeirri varanlegu aflahlutdeild sem úthlutað hafi verið til Sigursæls AK-18 og þá var gerð krafa um greiðslu vegna þess aflamarks sem úthlutað hafði verið til bátsins á fyrrgreindum fiskveiðiárum á grundvelli þess réttar sem bundinn hafi verið bátnum Báru ÍS-66.  Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu 6. júní 2007 að Valdimar Geirssyni ehf. væri skylt að þola flutning á fyrrgreindri aflahlutdeild og þá var honum gert að greiða stefnanda 1.924.164 krónur auk dráttarvaxta vegna aflamarksins sem úthlutað hafði verið til bátsins.

Við fyrirtöku fjárnáms í september 2007 hjá Valdimar Geirssyni ehf. var því lýst yfir af hálfu félagsins að aflahlutdeildin sem félaginu bæri að afhenda samkvæmt dómi væri ekki lengur fyrir hendi en fjárnám var gert fyrir hinni dæmdu fjárhæð.  Var þess því farið á leit við Héraðsdóm Vestfjarða með vísan til 1. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1989 að ákveðin yrði peningagreiðsla úr hendi Valdimars Geirssonar ehf. í stað aflahlutdeildarinnar.  Að fenginni matsgerð ákvað dómurinn að félagið skyldi greiða stefnanda 15.799.050 krónur og var árangurslaust fjárnám gert hjá félaginu vegna kröfunnar 7. febrúar 2008.  Bú félagsins mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta 18. mars sama ár.

Í Lögbirtingablaðinu var tilkynnt 3. nóvember 2006 að hlutafélagaskrá hefði borist skiptingaráætlun um að skipta Valdimar Geirssyni ehf. upp í tvö félög samkvæmt skiptingaráætlun dags. 22. september 2006.  Yrði stofnað nýtt félag, Kalmansvík ehf., sem tæki við hluta af eignum og skuldum Valdimars Geirssonar ehf. og samkvæmt greinargerð matsmanns ætti skipting félagsins í tvö félög ekki að rýra möguleika lánardrottna félagsins á fullnustu krafna sinna á hendur því.  Skiptingin var samþykkt á  hluthafafundi 15. desember sama ár og samkvæmt skiptingaráætlun fóru allar aflaheimildir félagsins, þ.m.t. sú aflahlutdeild sem félagið var gert að afhenda stefnanda og báturinn Sigursæll AK-18, yfir í nýja félagið.  Hið nýja félag var skráð í upphafi árs 2007 hjá hlutafélagaskrá sem Útgerðarfélagið Kalmansvík ehf.

Eigendur Valdimars Geirssonar ehf. munu hafa selt alla hluti sína í Kalmansvík ehf. í september 2006 en þá hafi félagið verið óstofnað og í skiptingarferli.  Kaupandi mun hafa verið Stóriðjan ehf. og mun söluverð hlutanna hafa verið 64.046.682 krónur.  Nokkru síðar mun það félag hafa selt alla hluti félagsins til Þorsteins Svavarssonar sem síðan hafi selt hlutina til sonar síns, réttargæslustefnda  Svavars.  Hann mun hafa selt alla hlutina til Útgerðarfélagsins Kalmansvíkur ehf. til stefnda í janúar 2007 á 84.578.445 krónur.

Í Lögbirtingablaðinu 22. júní 2007 var tilkynnt að hlutafélagaskrá hefði borist samrunaáætlun þriggja félaga, hefði stefndi yfirtekið félögin Eyrar ehf., og Útgerðarfélagið Kalmansvík ehf.  Er uppgjörsdagur samrunans sagður 1. janúar 2007 og tók stefndi frá og með þeim degi við öllum eignum og skuldum, réttindum og skyldum félaganna.

Við skýrslutöku hjá skiptastjóra þrotabús Valdimars Geirssonar ehf. kom fram hjá forsvarsmanni félagsins að þrotabúið væri eignalaust ef undan væri skilinn yfirveðsettur bátur.  Þá hafi hann talið að félagið skuldaði einungis Landsbanka Íslands, svo og stefnanda og mun það vera í samræmi við lýstar kröfur í þrotabúið.

Stefnandi leitaði atbeina skiptastjóra þrotabúsins í júní 2008 við að fá frekari upplýsingar vegna skiptingar félagsins.  Kom fram hjá Konráð Konráðssyni endurskoðanda sem annaðist skiptinguna að öll aflahlutdeild Valdimars Geirssonar ehf. hafi við skiptingu félagsins verið færð yfir í nýja félagið á bókfærðu verði og sú aflahlutdeild sem úthlutað hafi verið til Sigursæls AK-18 í júní 2006 og tilheyrt hafi stefnanda samkvæmt framangreindum dómi hafi ekki verið metin til verðs við skiptinguna.  Telur stefnandi ljóst að markaðsverðmæti þeirra aflaheimilda sem færðar hafi verið til Útgerðarfélagsins Kalmansvíkur ehf. við skiptinguna hafi verið miklu meira en bókfært verð aflaheimildanna.  Hafi nettóverðmæti þess sem bæst hafi við hjá Útgerðarfélaginu Kalmansvík ehf. við skiptinguna verið miklu meira en bókfært verð í skiptingarreikningi gefi til kynna.  Stefnandi taldi nauðsynlegt í ljósi ákvæðis 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög að fá dómkvaddan matsmann til að meta nettóverðmæti þess sem bæst hefði við hjá félaginu.  Var Þórir Ólafsson, löggiltur endurskoðandi, dómkvaddur til starfans og komst hann að þeirri niðurstöðu 15. júní sl. að nettóverðmæti þess sem við bættist hjá Útgerðarfélaginu Kalmansvík ehf. hafi verið 64.000.000 króna eftir að tekið hefði verið tillit til skulda félagsins.  

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi segir kröfu sína byggja á því annars vegar að hún sé vegna verðmætis aflamarks er úthlutað var til bátsins Sigursæls AK-18 í upphafi fiskveiðiáranna 2004/2005 og 2005/2006. Stefnandi telur að sú krafa svari til leiguverðs aflamarks fyrir hvort fiskveiðiár um sig þ.e.a.s. 983.500 krónur vegna fiskveiðiársins 2004/2005, og 940.664 krónur vegna fiskveiðiársins 2005/2006.  Hins vegar grundvallist krafan á þeirri aflahlutdeild sem bátnum Sigursæli AK-18 hafi verið úthlutað í júní 2006 með vísan til bráðabirgðaákvæðis III við lög nr. 1/1999 um breytingar á lögum nr. 38/1990.  Stefnandi kveður að krafa hans á hendur Valdimar Geirssyni ehf. hafi verið staðfest með framangreindum dómi Héraðsdóms Vestfjarða. Stefnandi byggir á því krafa um afhendingu aflahlutdeildar skv. ofangreindum dómi  hafi verið breytt í fjárkröfu með vísan til 1. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1989 með úrskurði dómsins frá 3. desember 2007.  Jafnframt telur stefnandi að krafa hans á hendur Valdimar Geirssyni ehf. sé óumdeild og staðfest með framangreindum dómi og síðari úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða.

Stefnandi telur með vísan til 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 að stefndi beri ábyrgð á greiðslu kröfunnar gagnvart stefnanda. Þá vísar stefnandi til þess að ljóst sé að samkvæmt þessum ákvæðum þurfi þrenn skilyrði að vera fyrir hendi til þess að viðtökufélagið eða viðtökufélögin beri ábyrgð á greiðslu þeirrar kröfu sem upphaflega var á hendur því félagi sem skipt  er, í fyrsta lagi að krafan fáist ekki greidd frá því félagi sem upphaflega bar að greiða hana; í öðru lagi að skuldbindingin hafi stofnast áður en upplýsingar um skiptingaráætlunina voru birtar og í þriðja lagi takmarkist ábyrgð viðtökufélagsins eða viðtökufélaganna við nettóverðmæti þess sem bættist við í hverju einstöku viðtökufélagi þegar áætlunin var birt.

Stefnandi telur að Kalmansvík ehf., er skipt var út úr Valdimar Geirssyni ehf., sé viðtökufélag skv. 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 og enn fremur að öllum þremur fyrrgreindum skilyrðum 3. mgr. 133 gr. laganna teljist fullnægt þannig að viðtökufélagið beri ábyrgð á greiðslu kröfunnar gagnvart stefnanda. Þá telur stefnandi að fyrir liggi að krafan muni ekki fást greidd úr þrotabúi Valdimars Geirssonar ehf. þar sem eina eign búsins teljist yfirveðsett og jafnframt hafi könnun skiptastjóra ekki leitt í ljós frekari eignir í búinu. Þá telur stefnandi að krafa stefnanda á hendur Valdimari Geirsyni ehf., hafi stofnast fyrir birtingu á birtingaáætlun félagsins því  hluti kröfu stefnanda hafi stofnast 1. september 2004, annar hluti 1. september 2005 og síðasti hluti kröfu stefnanda hafi stofnast við úthlutun varanlegrar aflahlutdeildar í júní 2006. Þá byggir stefnandi á niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns og telur að viðtökufélagið, Útgerðarfélagið Kalmansvík ehf., beri ótvíræða ábyrgð á greiðslu kröfunnar gagnvart stefnanda.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi yfirtekið Útgerðarfélagið Kalmansvík ehf., samkvæmt samrunaáætlun er miðaði uppgjörsdag yfirtöku við 1. janúar 2007 og það að samruninn farið fram með vísan til XIV. kafla laga nr. 138/1994 og telur stefnandi að meðal þeirra skuldbindinga sem stefndi hafi yfirtekið hafi verið skuldbinding er hvíldi á Útgerðarfélaginu Kalmansvík ehf., gagnvart stefnanda er grundvallaðist á 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 við skiptingu á Valdimar Geirssyni ehf. í tvö félög sem stefnandi telur að rekja megi til upphaflegrar kröfu stefnanda á Valdimar Geirsson ehf. vegna sölu stefnanda á Báru ÍS-66 í janúar 2004.

Stefnandi telur að þrátt fyrir að ekki hafi verið getið um kröfu stefnanda í árshlutauppgjöri Valdimars Geirssonar ehf. við skiptingu félagsins á árinu 2006 breyti það engu um ábyrgð Valdimars Geirssonar ehf. eða ábyrgð viðtökufélagsins, Útgerðarfélagsins Kalmansvík ehf.  á greiðslu kröfunnar.  Það sama eigi við um sölu á hlutum einkahlutafélagsins Kalmansvíkur ehf. þrátt fyrir að ekki hafi verið getið um þessa skuldbindingu gagnvart stefnanda, ábyrgð félagsins haldist óbreytt. Telur stefnandi að stefndi eigi endurkröfurétt á hendur réttargæslustefnda, Svavari, sem selt hafi stefnda félagið þar sem fram komi í kaupsamningi  að seljandi hlutanna ábyrgist persónulega að kaupandi þeirra verði skaðlaus komi fram einhverjar skuldir á hendur hinu selda félagi sem ekki sé getið um í reikningum félagsins. Telur stefnandi að réttargæslustefndi Svavar  kunni að eiga endurgreiðslukröfu á hendur  viðsemjanda sínum og síðan koll af kolli þar til að endurgreiðslukröfu kemur á hendur Valdimar Geirssyni og Sigríði Ellen Blumenstein sem verið hafi eigendur Valdimars Geirssonar ehf. og Útgerðarfélagsins Kalmansvíkur ehf., sem þau hafi selt í skiptingarferlinu og tekið á sig ábyrgð á þeim skuldum þar sem þau, Valdimar Geirsson og Sigríður Ellen Blumenstein,  seldu í skiptaferlinu  og tóku á sig ábyrgð á þeim skuldum sem síðar kynnu að koma fram og ekki var getið um í árshlutareikningi Valdimars Geirssonar ehf., þann 25. september 2006.  Þá telur stefnandi að hugsanlegt grandleysi stefnda breyti engu um ótvíræða ábyrgð hans á greiðslu kröfunnar.

Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig að 983.500 krónur séu vegna leigu þess aflamarks er tilheyrði Báru ÍS-66 vegna fiskveiðiársins 2004/2005, og  940.664 krónur vegna fiskveiðiársins 2005/2006.   Þá séu 15.799.050 krónur vegna þeirrar varanlegu aflahlutdeildar er úthlutað var til bátsins Sigursæls AK-18 í júní 2006 er Valdimar Geirssyni ehf., var gert að afhenda stefnanda og að þeirri kröfu um afhendingu var breytt í fjárkröfu með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða.   Þá reiknar stefnandi dráttarvexti frá gjalddaga er hann telur vera 1. september 2004 vegna aflamarksins fyrir fiskveiðiárið 2004/2005, og frá 1. september 2005 vegna aflamarks fiskveiðiársins 2005/2006 og frá 3. desember 2007 varðandi verðmæti þeirrar aflahlutdeildar sem Valdimar Geirssyni ehf. var gert að afhenda stefnanda., þ.e. frá uppkvaðningu úrskurðar Héraðsdóms Vestfjarða, er kröfunni var breytt í fjárkröfu.

Stefnandi telur með vísan til ofangreindra málsástæðna að stefndi beri ábyrgð á greiðslu þeirrar kröfu sem stefnandi átti á Valdimar Geirsson ehf. og byggir á lagaákvæðum er varða skiptingu hlutafélaga og ákvæðum um samruna einkahlutafélaga sem kveði á um skyldu og ábyrgð stefnda á greiðslu kröfunnar.

Stefnandi byggir á meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir loforða. Þá vísar stefnandi einnig til ákvæða XIV. kafla laga nr. 2/1995, einkum til 133. gr. laganna, svo og til ákvæða XIV. kafla laga nr. 138/1994, einkum til 102. gr. síðarnefndu laganna.

Dráttarvaxtakrafa er studd við ákvæði III. kafla laga nr. 38/2001 og krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr. laganna.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi hafnar greiðsluskyldu á kröfu stefnanda og byggir á því að stefnandi hafi með vangæslu réttinda sinna gagnvart Valdimari Geirssyni ehf., fyrirgert þeim úrræðum sem stefnandi kynni ella að hafa átt gagnvart þeim sem keyptu Útgerðarfélagið Kalmansvík ehf. eftir útskiptingu þess úr félaginu Valdimari Geirssyni ehf.

Stefndi telur að stefnandi hafi þannig árum saman látið hjá líða að beita tiltækum réttarúrræðum til að tryggja sér efndir á kaupsamningi stefnanda við Valdimar Geirsson ehf., með því að kyrrsetja eignir félagsins til tryggingar kröfu sinni eftir að vanefndir á kaupsamningi voru staðreyndar og hefði stefnandi eftir 27. júní 2006 þegar varanlegri aflahlutdeild var úthlutað á Sigursæl AK-18 getað kyrrsett bátinn skv. heimild í 5. gr. laga nr. 31/1990 til tryggingar á fjárkröfu stefnanda er byggði á II. kafla kaupsamningsins.  Telur stefndi að stefnandi hafi haft fulla þrjá mánuði til að tryggja hagsmuni sína með kyrrsetningu áður en Útgerðarfélagið Kalmansvík ehf., var selt þann 30. september 2006 ásamt aflaheimildum.  Þá hafi legið fyrir þegar varanlegri aflahlutdeild var úthlutað á bátinn að Valdimar Geirsson hafði hagnýtt sér þær tímabundnu heimildir sem úthlutað hafði verið ári áður og stefnandi taldi að bæru sér.  Hafi stefnandi því haft ærið tilefni til að bregðast við án tafa, sérstaklega þegar hann  hafi haft spurnir af því að slík úthlutun væri væntanleg eða a.m.k. frá 29. desember 2005 þar sem lögmaður stefnanda vísi til þess í bréfi sínu til Valdimars Geirssonar ehf. Telur stefndi að stefnandi hafi haft bæði tíma og tilefni til þess að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til tryggingar umræddum hagsmunum sínum og telur stefndi að stefnandi eigi einnig af þeim ástæðum ekki rétt gagnvart grandlausum þriðja manni um greiðslu krafna sem stefnandi hafi svo herfilega vanrækt að fylgja fram með tiltækum úrræðum.

Þá telur stefndi að stefnanda hafi verið unnt að tryggja réttindi sín með þeim hætti að fá lagt lögbann skv. heimild í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 við allri nýtingu Valdimars Geirssonar ehf., á aflaheimildum, bæði þegar félagið fékk úthlutað tímabundnum aflaheimildum, svo og sérstaklega þegar varanlegri aflahlutdeild var úthlutað 27. júní 2006, þar sem þá hafi blasað við að félagið myndi nýta greindar aflaheimildir, hvað sem liði rétti stefnanda, með sama hætti og Valdimar Geirsson ehf., hafi nýtt tímabundnar aflaheimildir sem stefnandi taldi sig vera eiganda að.  Hafi því öll skilyrði lögbanns verið fyrir hendi.  Stefndi telur að stefnandi hafi haft af því spurnir með löngum fyrirvara að umrædd úthlutun varanlegra veiðiheimilda væri framundan og hafi því haft full tilefni til þess að bregðast við án tafar til að tryggja að þær heimildir sem stefnandi taldi sig eiganda að yrðu ekki nýttar í bága við réttindi hans. Stefnandi byggir á því að stefnandi eigi einn sök á þessari vangæslu réttinda og geti hann ekki krafið stefnda, sem greitt hafi í grandleysi fullt verð fyrir umræddar aflaheimildir, um efndir á samningi stefnanda við kaupnaut stefnanda um bátinn.

Þá telur stefndi að við birtingu auglýsingar um skiptingaráætlun Valdimars Geirssonar ehf., í Lögbirtingarblaðinu þann 3. nóvember 2006, hafi stefnandi fengið formlegt og ærið tilefni til að tryggja að þau réttindi er stefnandi taldi sig eiga á hendur félaginu færu ekki forgörðum eða yrðu seld grandlausum þriðja manni í formi hluta í nýju félagi svo sem upp var lagt með af hálfu eigenda Valdimars Geirssonar ehf.   Hafi stefnandi getað gripið til þeirra tryggingarráðstafana er stefndi reifar hér að framan, þar sem endanlegt samþykki á skiptingu Valdimars Geirssonar ehf. hafi ekki komið til fyrr en 15. desember 2006.  Stefnandi hafi þann 27. september sama ár  höfðað dómsmál á hendur Valdimar Geirssyni ehf., til að félagið fengi þolað flutning á nefndum veiðiheimildum til stefnanda.  Telur stefndi að þannig sé sýnt fram á það að stefnandi hafi haft margháttað og brýnt tilefni til þess að tryggja réttindi sín á hendur Valdimar Geirssyni ehf. samfara málsókninni og sé óskiljanlegt að hann hafi látið umrædda auglýsingu í Lögbirtingablaðinu sig engu varða.  Hafi auglýsingin þó verið honum brýnt tilefni til þess að leita allra leiða til að tryggja hagsmuni sína.  Stefnandi hafi hins vegar ekki gert neina tilraun til þess og verði stefnandi sjálfur að bera hallann af þeirri vangæslu og fái ekki sótt kröfur sínar hendur stefnda sem verið hafi fullkomlega grandlaus um kröfur stefnanda er tengdust bátnum og þeim aflaheimildum er honum fylgdu. Stefndi telur að lágmarks krafa á hendur stefnanda hafi verið að stefnandi upplýsti stjórnendur hins nýja félags um kröfur sínar, svo að stjórnendur gætu ekki borið fyrir sig grandleysi í skiptum við síðari viðsemjendur.

Stefndi telur óumdeilt í málinu að hann hafi verið grandlaus um eignarhaftið sem verið hafi á þeim réttindum sem hann hafi fengið til sín allt þar til honum var tilkynnt um dómkvaðningu matsmanns í desember 2008.  Hafi umrædd réttindi þá verið í fórum stefnda í tæp tvö ár og væri það stórkostleg röskun á hagsmunum stefnda ef hann ætti að greiða bætur til stefnanda fyrir aflahlutdeildina.  Hafi umrædd krafa ekki komið fram í árshlutauppgjöri Valdimars Geirssonar ehf. við skiptingu félagsins á árinu 2006 og hafi stefndi því enga möguleika haft á því að afla sér vitneskju um kröfuna þegar hann hafi keypt allt hlutafé í útgerðarfélaginu Kalmansvík ehf. í janúar 2007.  Hefði verið einfalt fyrir stefnanda að koma þessum upplýsingum á framfæri hefði hann gripið til þeirra úrræða sem nefnd eru hér að framan.  Í ljósi aðgerðarleysis stefnanda og grandleysis stefnda beri því að hafna greiðsluskyldu stefnda.

Þá byggir stefndi á því að lunginn af kröfum stefnanda fullnægi ekki skilyrðum 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995, fyrir því að henni verði haldið uppi gagnvart félagi sem skipt hefur verið út úr öðru. Stefnandi telur að hluti af fjárkröfu stefnanda sem rætur á í bótum fyrir varanlega aflahlutdeild teljist ekki stofnaður fyrir birtingu skiptingaáætlunar hjá Valdimar Geirssyni ehf., þar sem krafa sú er tekin var til greina með dómi Héraðsdóms Vestfjarða 6. júní 2007 hafi verið til afhendingar á varanlegri aflahlutdeild, en fjárkrafa sú er varðar varanlegu aflahlutdeildina í máli þessu hafi í raun fyrst orðið til með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða frá 3. desember 2007,  þegar dómurinn ákveður stefnanda peningagreiðslu skv. 1. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1989, á grundvelli matsgerðar.   Stefndi byggir á því að þessi atvik hafi gerst löngu eftir að skiptingaráætlun Valdimars Geirssonar ehf., var birt þann 3. nóvember 2006. Stefndi telur að ákvæði 3. mgr. 133. gr. laga nr.  2/1995 beri að skýra þröngri lögskýringu með þeim hætti að kröfur á hendur Valdimar Geirssyni ehf. verði því aðeins sóttar á hendur Kalmansvík ehf., og síðar stefnda, að þær hafi sannanlega stofnast fyrir birtingu skiptingaráætlunar. Stefndi telur að þótt færa megi að því rök að krafa um fégjald fyrir hagnýtingu tímabundinna aflaheimilda á árunum 2004 og 2005 hafi stofnast, eins og dómurinn leggi til grundvallar með ákvæðum sínum um vexti, þá eigi það ekki við um ákvörðun um afhendingu aflahlutdeildar, sem fyrst var ákveðin með fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Vestfjarða.  Stefndi byggir á því að stofndagur fébótakröfunnar sé enn seinni og því enn fjarlægara að telja hana hafa verið stofnaða við birtingu skiptaáætlana félaganna og verði krafan því ekki sótt á hendur stefnda á grundvelli tilvitnaðs ákvæðis laga nr. 2/1995.

Stefndi mótmælir vaxtakröfu stefnanda og telur að skýra verði hugtakið „kröfu“ í 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 þannig að hún taki einungis til höfuðstóls kröfu en ekki til vaxta eða annars sem tengist kröfunni. Stefndi byggir á því að ákvæðið feli í sér verulegt frávik frá því sem almennt er í viðskiptum, þ.e. að skuldbindingar sem ekki séu færðar upp í efnahagsreikning félags við sölu, teljist allt að einu á ábyrgð nýrra eigenda, og því telur stefndi að tiltaka hefði þurft sérstaklega ef ábyrgð útskipts félags eigi ekki einasta að taka til höfuðstóls slíkra krafna heldur einnig vaxtagreiðslna og kostnaðar.

Stefndi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir loforða og vísar einnig til laga nr. 31/1990, einkum til II., IV., og VI. kafla laganna.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum  129., og 130. gr. laganna.

Athugasemdir réttargæslustefnda Svavars.

Réttargæslustefndi Svavar styður málatilbúnað stefnda í málinu  og tekur að mestu undir atvikalýsingu í greinargerð en vekur sérstaka athygli á því að hann hafi ekki komið að málinu að öðru leyti en með kaupum á hlutafé í Útgerðarfélaginu Kalmansvík ehf., sem skömmu síðar var selt stefnda í samræmi við kaupsamning frá því í janúar 2007. Réttargæslustefndi byggir á því að hafa selt eignarhluti í Útgerðarfélaginu Kalmansvík ehf. í góðri trú og grandlaus um annað en með sölunni væri tekið mið af raunverulegri eigna- og skuldastöðu félagsins, þ.m.t. réttindi og skyldur sem fylgdu bátnum Sigursæli AK-18 og telur réttargæslustefndi að honum hafi ekki verið kunnugt um kröfur stefnanda á hendur Valdimar Geirssyni ehf.

Réttargæslustefndi telur að ekki sé unnt að taka til greina kröfu stefnanda á grundvelli 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995.  Eigi það a.m.k ótvírætt við um þann hluta kröfugerðar stefnanda er reistur er á aflahlutdeild sem úthlutað var á Sigursæl AK-18 í júní 2006, og hefur nú verið metin til fjár skv. úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða. Byggir réttargæslustefndi á því að fjárkrafa stefnanda á hendur Valdimar Geirssyni ehf. hafði ekki stofnast þegar upplýsingar um skiptingaráætlanir voru birtar fyrst þann 3. nóvember 2006 og telur réttargæslustefndi að þegar af þeirri ástæðu sé ekki unnt að krefja þátttökufélag um greiðslu kröfunnar með tilvísun til 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995.

Réttargæslustefndi byggir á því að augljóst sé að eigendur eignarhluta í Útgerðarhlutafélaginu Kalmansvík ehf. hafi verið grandlausir um umþrætta kröfu stefnanda. Þá telur réttargæslustefndi að hann hafi verið grandlaus um það eignarhaft sem var á þeim réttindum sem hann fékk til sín með kaupum á hlutum í Útgerðarfélaginu Kalmansvík ehf., og telur að þegar af þeirri ástæðu teljist annað ótækt en að leggja til grundvallar grandleysi stefnda í þeim efnum. Réttargæslustefndi byggir á því sérstaklega að aflaheimildir bátsins Sigursæls AK-18 voru skráðar hjá Fiskistofu enda verði aflaheimildir alltaf að vera bundnar við fiskiskip og telur réttargæslustefndi að hann hafi lagt þá skráningu Fiskistofu til grundvallar við kaup hans á hlutum í Útgerðarfélaginu Kalmansvík ehf. Byggir réttargæslustefndi á þeirri meginreglu samningaréttar að löggerningsmóttakandi öðlist jafnan rétt samkvæmt löggerningi þegar hann er grandlaus og í góðri trú um að löggerningur sé gildur og reistur á réttum forsendum. Réttargæslustefndi telur að þegar kaupsamningar um eignarhluti í Útgerðarfélaginu Kalmansvík ehf., voru undirritaðir, þ.e., bæði þegar réttargæslustefndi keypti hlutina í nóvember 2006 og við sölu þeirra til stefnda í janúar 2007, hafi legið fyrir öll þýðingarmikil skjöl um eignarhlutina, þ.m.t. efnahagsreikningur félagsins.

Athugasemdir réttargæslustefnda Ólafs.

Réttargæslustefndi Ólafur telur málsgögn bera með sér furðulegt tómlæti stefnanda um það að halda fram rétti sínum og vísar til bréfs lögmanns stefnanda, dags. 10. júlí 2006, til Valdimars Geirssonar ehf. og auglýsingar er birt var í Lögbirtingablaðinu, 3. nóvember 2006,  varðandi skiptingu Valdimars Geirssonar ehf. Telur réttargæslustefndi að stefnandi hafi haft fyllstu ástæðu til þess að kanna þá auglýsingu nánar og tryggja rétt sinn, að því er réttargæslustefndi telur, með bréfaskrifum stefnanda til Fiskistofu varðandi réttindi annars en formlegs úthlutunarhafa.  Telur réttargæslustefndi að stefnanda hefði verið innan handar að gera hvort tveggja og hefði þannig getað komið í veg fyrir þessi málaferli. Telur réttargæslustefndi að vera kunni að stefnandi gjaldi vanrækslu sinnar og vinni ekki rétt úr hendi grandlauss aðila, stefnda, enda telur réttargæslustefndi að réttarstaða stefnanda sé hvergi nærri ótvíræð. Megi einkum hugsa til þess hver rök liggi til grundvallar að tilkynna um skiptingu félagsins með birtingu í Lögbirtingablaði og hvort sá sem tilkynning beinist að geti látið hana fram hjá sér fara að ósekju og vísar réttargæslustefndi til ákvæða laga nr. 2/1995 um sex mánaða frest, þó að í nokkru öðru samhengi sé.

Niðurstaða.

Eins og rakið hefur verið hér að framan komst Héraðsdómur Vestfjarða að þeirri niðurstöðu 6. júní 2007 að Valdimar Geirssyni ehf. væri skylt að þola flutning á tiltekinni varanlegri aflahlutdeild sem bundin hefði verið bátnum Báru ÍS-66, síðar Sigursæli AK-18 og jafnframt var félaginu gert að greiða stefnanda 1.924.164 krónur vegna aflamarksins sem úthlutað hafði verið bátnum.  Aflahlutdeildin var metin til fjár að fenginni matsgerð og komst sami dómstóll að þeirri niðurstöðu 3. desember sama ár að félagið skyldi greiða stefnanda 15.799.050 krónur.   Gert var árangurslaust fjárnám hjá félaginu vegna kröfunnar 7. febrúar 2008 og mun bú þess hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta 18. mars sama ár. Óumdeilt er að stefnandi á kröfu á hendur þrotabúinu og hefur henni verið lýst í búið en ágreiningur aðila stendur um það hvort stofnast hafi krafa á hendur stefnda.  Stefnandi byggir kröfu sína á lagaákvæðum er varða skiptingu hlutafélaga og ákvæðum um samruna einkahlutafélaga sem kveði á um skyldu og ábyrgð stefnda á greiðslu kröfunnar.

Stefndi hafnar því að hann beri ábyrgð á greiðslu kröfunnar og byggir á því að stefnandi hafi með vangæslu réttinda sinna gagnvart Valdimari Geirssyni ehf., fyrirgert þeim úrræðum sem stefnandi kynni ella að hafa átt gagnvart þeim sem keyptu Útgerðarfélagið Kalmansvík ehf. eftir útskiptingu þess úr félaginu Valdimari Geirssyni ehf.  Þá telur stefndi að við birtingu auglýsingar um skiptingaráætlun Valdimars Geirssonar ehf., í Lögbirtingarblaðinu þann 3. nóvember 2006, hafi stefnandi fengið formlegt og ærið tilefni til að tryggja að þau réttindi er stefnandi taldi sig eiga á hendur félaginu færu ekki forgörðum eða yrðu seld grandlausum þriðja manni í formi hluta í nýju félagi.

Í 3. mgr. 133. gr. hlutafélagalaga segir að fái kröfuhafi í félagi, sem tekið hefur þátt í skiptingunni, ekki fullnustu beri hvert hinna þátttökufélaganna óskipta ábyrgð á skuldbindingum sem stofnast höfðu þegar upplýsingarnar um skiptaáætlunina voru birtar.  Aðila greinir á um það  hvenær krafa stefnanda stofnaðist og heldur stefnandi því fram að krafan hafi orðið til við sölu bátsins árið 2004 og úthlutun það ár en stefndi heldur því fram að krafan hafi fyrst orðið til við uppkvaðningu  umrædds dóms í júní 2007.  Samkvæmt skýrum ákvæðum kaupsamnings og afsals um bátinn fylgdu engar veiðiheimildir með í kaupunum og kæmi til þess að bátnum yrði úthlutað aflahlutdeild eða aflamarki var svo kveðið á að þær heimildir yrðu eign seljanda, stefnanda máls þessa.  Verður því fallist á með stefnanda að krafa hans hafi orðið til við sölu bátsins Báru ÍS-66 til Valdimars Geirssonar ehf. og naut hún því verndar 3. mgr. 133. gr. hlutafélagalaga.

Kemur þá til skoðunar hvort stefnandi hafi glatað rétti sínum sökum tómlætis.  Fallast ber á með stefnda að hann hafi verið grandlaus um eignarhaftið sem var á þeim réttindum sem hann fékk til sín allt þar til honum var tilkynnt um dómkvaðningu matsmanns í desember 2008.  Stefnandi höfðaði umrætt dómsmál fyrir Héraðsdómi Vestfjarða þann 27. september 2006 en 3. nóvember sama ár var tilkynnt í Lögbirtingablaði að hlutafélagaskrá hefði borist skiptingaráætlun Valdimars Geirssonar ehf. eins og að framan er rakið.  Telja verður að slík birting varði ekki aðeins hluthafa heldur einnig kröfuhafa og eigi að gefa þeim tilefni til þess að kanna réttarstöðu sína.  Var stefnanda í lófa lagið að tryggja réttindi sín með ýmsum hætti eins og stefndi hefur bent á en allt að einu hófst hann ekki handa með kröfugerð á hendur stefnda fyrr en um tveimur árum síðar eins og rakið hefur verið.   Verður því að telja að stefnandi hafi glatað rétti sínum á hendur stefnda fyrir tómlæti og ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda 800.000 krónur í málskostnað.

Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri kvað upp dóminn.  Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Bergur-Huginn ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Sólbergs ehf. í máli, þessu.

Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.