Hæstiréttur íslands
Mál nr. 215/1999
Lykilorð
- Verksamningur
- Uppsögn
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 4. nóvember 1999. |
|
Nr. 215/1999. |
Baugur hf. (Ásgeir Þór Árnason hrl.) gegn Guðmundi P. Pálssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Verksamningur. Uppsögn. Skaðabætur.
Verslunin H sagði upp tímabundnum verksamningi sínum við G um þrif og áfyllingu í hillur. Ágreiningur var um bótafjárhæð sem ætti að greiða vegna þessa en með fyrri dómi Hæstaréttar hafði bótaskyldu verið slegið fastri. Við ákvörðun bótanna var byggt á því endurgjaldi sem ógreitt var samkvæmt samningnum og rekstrarreikningi G, sem fylgt hafði skattframtali hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. júní 1999. Hann krefst þess aðallega að sér verði aðeins gert að greiða stefnda 264.603 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 79.101 krónu frá 7. nóvember 1994 til 5. desember sama árs, af 171.852 krónum frá þeim degi til 5. janúar 1995, en af 264.603 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að vera dæmdur til að greiða stefnda 290.848 krónur með sömu vöxtum af 80.000 krónum frá 5. september 1994 til 5. október sama árs, af 160.000 krónum frá þeim degi til 7. nóvember sama árs, af 200.848 krónum frá þeim degi til 1. maí 1998, en af 290.848 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara krefst áfrýjandi þess að sér verði gert að greiða stefnda 650.848 krónur með sömu vöxtum af 80.000 krónum frá 5. september 1994 til 5. október sama árs, af 160.000 krónum frá þeim degi til 7. nóvember sama árs, af 200.848 krónum frá þeim degi til 1. maí 1998, en af 650.848 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.
Fyrir héraðsdómi var máli þessu beint að Hagkaupum hf. Undir rekstri málsins var því félagi skipt og hluti þess sameinaður Baugi hf., sem óumdeilt er að hafi tekið við þeim skyldum, sem krafa áfrýjanda lýtur að. Hefur aðild að málinu verið breytt því til samræmis.
I.
Málið á rætur að rekja til uppsagnar Hagkaupa hf. á verksamningi við stefnda sumarið 1994. Stefndi höfðaði mál fyrir héraðsdómi 22. nóvember 1995 til heimtu bóta vegna uppsagnarinnar. Því máli lauk með dómi Hæstaréttar, sem birtur er í dómasafni 1997 bls. 2510. Þar var því slegið föstu að Hagkaupum hf. hafi verið óheimilt að segja upp verksamningnum við stefnda og hafi félagið með því bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart honum. Málinu var á hinn bóginn vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar á kröfu stefnda. Aðilarnir reyndu í framhaldi af þessum málalokum að ná samningi um skaðabætur, en tókst það ekki. Höfðaði því stefndi mál þetta 10. júní 1998 til heimtu bóta vegna uppsagnar verksamningsins og stendur ágreiningur aðilanna eingöngu um fjárhæð þeirra.
II.
Við ákvörðun bóta handa stefnda verður að miða að því að gera hann eins settan og ef fyrrnefndur verksamningur hefði verið réttilega efndur. Óumdeilt er að vegna uppsagnarinnar lét stefndi af föstu verki við þjónustu í þágu Hagkaupa hf. fimm mánuðum fyrr en annars hefði orðið. Umsamin verklaun fyrir hvern mánuð voru 180.000 krónur og fór því stefndi á mis við alls 900.000 krónur. Ekki verður fallist á með stefnda að við ákvörðun bóta eigi að miða við að virðisaukaskattur leggist á þá fjárhæð, eins og skýrlega var tekið fram í dómi Hæstaréttar í fyrra máli aðilanna.
Áfrýjandi hefur mótmælt því að lagt verði til grundvallar við ákvörðun efndabóta að stefndi þurfi að greiða Bjarna Þórðarsyni verklaun sem undirverktaka samkvæmt samningi þeirra á milli. Verði ekki fallist á þau mótmæli telur áfrýjandi að með réttu verði í mesta lagi reiknað með greiðslu verklauna til Bjarna fyrir einn mánuð, enda hefði stefnda verið rétt að ráða sér aðstoðarmann með vinnusamningi og þá með eins mánaðar uppsagnarfresti. Um þetta verður að líta til þess að fyrir liggur í málinu að stefndi greiddi Bjarna verklaun samkvæmt reikningum hans allt frá aprílmánuði 1994 og þar til Hagkaup hf. sögðu upp samningnum við stefnda. Gegn mótmælum stefnda er ekki unnt að byggja á því að honum sé óskylt að standa Bjarna skil á verklaunum frá þeim tíma. Þá verða efndabætur heldur ekki miðaðar við að stefnda hafi borið að haga réttarsambandi sínu við Bjarna með einhverjum þeim hætti að takmarka mætti tjón ef til uppsagnar verksamningsins kæmi af hálfu áfrýjanda, enda stóð orðalag samnings stefnda við Hagkaup hf. því ekki í vegi að honum væri hvort sem er heimilt að ráða starfsmann sér til aðstoðar við framkvæmd verksins eða fela undirverktaka hluta þess. Getur stefndi því ekki talist hafa sparað sér útgjöld til undirverktaka eða starfsmanna þótt hann hafi losnað frá skyldu til að leysa af hendi umsamið verk fyrir Hagkaup hf. með uppsögn félagsins.
Fyrir Hæstarétti hefur stefndi ekki krafist endurskoðunar á þeirri niðurstöðu héraðsdómara að 50.000 krónur eigi að dragast frá bótum vegna ýmiss kostnaðar, sem stefndi hefði þurft að bera ef ekki hefði komið til uppsagnar samningsins. Í málinu hefur verið lagður fram rekstrarreikningur stefnda vegna ársins 1994, sem fylgdi skattframtali hans 1995. Af þeim rekstrarreikningi verður ekki ályktað að efni séu til að fleiri kostnaðarliðir komi til frádráttar kröfu stefnda um efndabætur.
Stefndi starfaði sem verktaki hjá áfrýjanda. Þarf hann ekki að sæta lækkun á bótakröfu sinni vegna ólögmætrar uppsagnar verksamningsins á þeim grundvelli að hann hafi aflað sér annarra tekna á þeim tíma, sem hér skiptir máli.
Að öllu þessu virtu verður áfrýjanda gert að greiða stefnda bætur að fjárhæð 850.000 krónur. Skaðabótakrafa stefnda féll í gjalddaga í einu lagi og getur borið vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá þeim degi, sem áfrýjandi braut á honum rétt með uppsögn samningsins. Í kröfugerð stefnda er hins vegar við það miðað að hann eigi rétt á vöxtum af allri fjárhæðinni frá 5. janúar 1995. Verður upphafstími vaxta því miðaður við þann dag. Ekki er í ljós leitt að stefndi hafi lagt fyrir áfrýjanda þær upplýsingar, sem þörf var á til að meta fjárhæð bóta, fyrr en 24. febrúar 1998. Því til samræmis verða stefnda dæmdir dráttarvextir frá 24. mars sama árs, sbr. 15. gr. vaxtalaga.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Baugur hf., greiði stefnda, Guðmundi P. Pálssyni, 850.000 krónur með ársvöxtum sem hér segir: 0,5% frá 5. janúar 1995 til 1. júní sama árs, 0,6% frá þeim degi til 1. mars 1996, 0,9% frá þeim degi til 1. maí sama árs, 0,8% frá þeim degi til 1. júní sama árs, 0,7% frá þeim degi til 1. nóvember sama árs, 0,8% frá þeim degi til 1. febrúar 1997, 0,9% frá þeim degi til 1. júní sama árs, 1% frá þeim degi til 1. ágúst sama árs, 0,9% frá þeim degi til 1. september sama árs, 0,8% frá þeim degi til 1. janúar 1998, 0,9% frá þeim degi til 1. mars sama árs, en 0,8% frá þeim degi til 24. mars sama árs. Frá þeim degi greiðist dráttarvextir samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 11. febrúar s.l., er höfðað af Guðmundi P. Pálssyni, kt. 130273-3199, Ægisíðu 98, Reykjavík, á hendur Hagkaupi hf., kt. 691280-0169, Skeifunni 15, Reykjavík, með stefnu birtri 10. júní 1998.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda 1.110.500 kr. með dráttarvöxtum af 224.100 kr. frá 5. september 1994 til 4. október s.á., af 448.200 kr. frá 5. október s.á. til 4. nóvember s.á., af 672.300 kr. frá 5. nóvember s.á. til 4. desember s.á., af 896.400 kr. frá 5. desember s.á. til 4. janúar 1995, og af 1.120.500 kr. frá 5. janúar 1995 til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar, þannig að stefnda verði gert að greiða honum:
1) aðallega, 264.603 kr. með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, af 79.101 kr. frá 7. nóvember 1994 til 5. desember 1994, en af 171.852 kr. frá þeim degi til 5. janúar 1995, en af 264.603 kr. frá þeim degi til greiðsludags en,
2) til vara, 290.48 kr. með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, af 80.000 kr. frá 5. september 1994 til 5. október 1994, en af 160.000 kr. frá þeim degi til 7. nóvember 1994, en af 200.848 kr. frá þeim degi til 1. maí 1998, en af 290.848 kr. fá þeim degi til greiðsludags.
3) til þrautavara 650.848 kr. með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 80.000 kr. frá 5. september 1994 til 5. október 1994, en af 160.000 kr. frá þeim degi til 7. nóvember 1994, en af 200.848 kr. frá þeim degi til 1. maí 1998, en af 650.848 kr. frá þeim degi til greiðsludags.
Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda eftir mati dómsins.
I.
Málavextir
Málavextir eru þeir, að með samningi milli stefnanda og stefnda frá 20. janúar 1994, tók stefnandi að sér sem verktaki að sjá um pantanir og áfyllingu á tilteknum vörum í verslun stefnda, auk þess sem hann tók að sér að skúra lagergólf daglega. Samtals átti stefnandi að fá greiddar fyrir verkið 180.000 kr. auk virðisaukaskatts á mánuði. Í samningnum var ákvæði sem heimilaði verktaka að ráða til sín starfsmenn eftir þörfum. Gildistími samningsins var til 1. janúar 1995.
Með bréfi dags. 30. júní 1994 sagði stefndi upp samningi aðila með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Engar skýringar voru gefnar í bréfinu á uppsögninni. Með bréfi dagsettu 22. júlí 1994 sagði stefndi samningnum síðan upp fyrirvaralaust frá og með 30. júlí 1994.
Stefnandi höfðaði mál á hendur stefnda, sem þingfest var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 30. nóvember 1995. Byggði stefnandi á því að fyrirvaralaus uppsögn af hálfu stefnda hafi verið með öllu óréttmæt og krafist greiðslu efndabóta. Kröfur stefnanda voru teknar til greina að mestu með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 10. október 1996. Stefndi áfrýjaði dóminum. Með dómi Hæstaréttar, sem upp var kveðinn 2. október 1997, var því slegið föstu, að stefnda í þessu máli hefði ekki tekist nægjanlega að sanna að stefnandi þessa máls hafi gerst sekur um verulegar vanefndir á samningi málsaðila og stefnda hafi því verið óheimilt að segja verksamningnum upp og að hann hafi með því bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda. Vegna annmarka á kröfugerð stefnanda var málinu vísað frá héraðsdómi.
Mál þetta hefur stefnandi höfðað til ákvörðunar á efndabótum honum til handa. Með aðilum er ágreiningur um fjárhæð bóta.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveður stefnufjárhæðina vera þannig fundna, að krafist sé greiðslu á 224.000 kr. fyrir hvern þann mánuð, sem eftir lifði af samningi stefnanda og stefnda, eða 180.000 kr., auk 24,5% virðisaukaskatts. Fimm mánuðir hafi verið ógreiddir af samningi stefnanda og stefnda, ágúst, september, október, nóvember og desember 1994. Umrædd fjárhæð, 224.100 kr., hafi fallið í gjalddaga samkvæmt samningi aðila 5 mánuðum á eftir og geri í heildina 1.120.500 kr. Frá þessari fjárhæð séu dregnar 10.000 kr. sem er áætlaður útlagður kostnaður vegna hreinsiefna. Sé stefnukrafan í samræmi við dómsorð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. október 1996.
Stefnandi byggir á því, að fyrirvaralaus uppsögn stefnda á samningi við stefnanda hafi verið með öllu óréttmæt. Ásakanir um vanefndir af hálfu stefnanda eigi ekki við rök að styðjast, og ef um einhverjar slíkar sé að ræða, séu þær ekki þess eðlis að valdi fyrirvaralausri uppsögn. Engum skriflegum kvörtunum hafi verið beint til stefnanda, og hann hafi á engan hátt verið áminntur eða varaður við. Stefnda hafi, samkvæmt samningi aðila, verið heimilt að segja samningnum upp fyrirvaralaust á grundvelli vanefnda. Það sé því stefnda að sýna fram á, með óyggjandi hætti, að um vanrækslu hafi verið að ræða og að hún hafi verið slík, að hún teljist veruleg. Stefndi hafi ekki sannað það.
Á samningstímanum, frá 20. janúar 1994 til 30. júní s.á., virðist ekki hafa verið um slíkar vanefndir að ræða af hálfu stefnanda að mati stefnda, að valdið gæti fyrirvaralausri uppsögn samnings. Alltént hafi því ákvæði ekki verið beitt, heldur hafi stefnanda verið sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara, þó að engin heimild væri til slíks í samningi aðila.
Því sé haldið fram í bréfi verslunarstjóra stefnda, að ekki hafi verið hægt að reka verslunina með þjónustu stefnanda. Stefnandi hafi verið látinn vinna áfram í viku eftir hina fyrirvaralausu uppsögn, þrátt fyrir þennan ómöguleika. Enn fremur megi benda á, að verslunin hafi fengið sérstök gæðaverðlaun, Gullpálmann, fyrir síðasta hluta starfstíma stefnanda, og sé við það gæðaeftirlit engum athugasemdum hreyft við störfum hans.
Að mati stefnanda sé ljóst, að aðrar ástæður hafi legið að baki uppsögninni en vanefndir stefnanda, hvort sem það hafi verið hagstæðara tilboð og/eða endurskipulagning áfyllingar. Stefndi hafi síðan viljað freista þess að losna við stefnanda án greiðslu nokkurra bóta með því að búa til tylliástæður fyrir uppsögninni. Slík vinnubrögð gangi einfaldlega ekki upp.
Í ljósi þess, að hin fyrirvaralausa uppsögn á samningnum sé ólögmæt, sé gerð krafa um greiðslu efndabóta, þ.e. að stefnandi verði jafnsettur og ef samningi hefði ekki verið sagt upp. Stefnandi hafi viljað efna samninginn að sínu leyti, en afstaða stefnda hafi komið í veg fyrir það; stefnandi hafi ekki getað efnt samninginn fyrir sitt leyti samkvæmt aðalefni. Það eigi ekki að koma í veg fyrir að krafa stefnanda nái fram að ganga.
Til að varpa skýrara ljósi á tjón stefnanda séu lagðir fram reikningar Bjarna J. Þórðarsonar, sem sýni kostnað stefnanda af undirverktaka sínum í apríl, maí, júní og júlí 1994, sem og reikningur vegna samningsbundinnar þóknunar hans fyrir það tímabil sem stefnandi hafi átt eftir af samningi sínum við stefnda. Sá reikningur hafi þegar verið greiddur.
Stefnandi kveður bótakröfu sína styðjast við almennar reglur kröfuréttarins um skaðabætur innan samninga, en málatilbúnaður að öðru leyti við almennar reglur samninga- og kröfuréttar.
Krafa um dráttarvexti er studd við III. kafla laga nr. 25/1987. Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991. Málið er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með vísan til 33. gr. laga nr. 91/1991.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi telur sig hafa boðið stefnanda fullar efndabætur og meira til hinn 4. nóvember 1997, en því boði hafi verið hafnað algerlega án þess að stefnandi hafi sýnt fram á að honum beri hærri fjárhæð en boðin var. Þá fær stefndi heldur ekki séð að í málatilbúnaði stefnanda hér fyrir dómi felist nokkur rökstuðningur fyrir því að honum beri hærri bætur en beinlínis megi reikna út frá rekstrarreikningi hans. Stefndi vísar algerlega á bug að stefnanda hafi borið að standa aðstoðarmanni sínum, Bjarna Þórðarsyni, skil á umtalsverðum fjármunum eins og málatilbúnaður hans lýtur að og telur augljóst að síðari tíma yfirlýsing Bjarna og greiðslukvittaður reikningur sé hvort tveggja útbúið til málamynda og sett fram eingöngu í því augnamiði að halla réttu máli og renna stoðum undir kröfur á hendur stefnda sem stefnandi eigi ekki að réttu lagi heimtingu á. Varðandi framlagðan reikning er skorað á stefnanda að leggja fram frekari gögn til stuðnings raunverulegri greiðslu hans og sérstaklega vakin athygli á að útgefandi reikningsins, Bjarni Þórðarson, hafi ekki stundað virðisaukaskattskylda starfsemi síðan hann lokaði virðisaukaskattsnúmeri sínu, nr. 42147, um áramót 1994-95. Sé honum því óheimilt að krefjast greiðslu virðisaukaskatts, svo sem hann geri með reikningnum, og hvað þá að innheimta hann en stefndi fullyrðir að þeir fjármunir hafi ekki runnið til ríkissjóðs.
Það sé grundvallarregla kröfuréttar við ákvörðun efndabóta að kröfuhafi skuli verða eins settur og samningur hefði verið efndur eftir efni sínu. Verði þar af leiðandi enn fremur að taka tillit til þess sparnaðar, sem kröfuhafi njóti vegna þess að hann þurfi ekki að uppfylla samningaskyldur að sínu leyti og enn fremur sé lögð sú skylda á herðar kröfuhafa að takmarka tjón sitt sem mest megi verða. Til skýrleika hafi stefndi kosið að sundurgreina dómkröfur sínar í aðal-, vara-, og þrautavarakröfur, allt eftir því hvaða sjónarmið um ákvörðun efndabótanna verði lögð til grundvallar. Sameiginlegt öllum kröfunum séu enn fremur, auk framangreindra sjónarmiða um ákvörðun efndabóta, málsástæður er lúta að virðisaukaskatti, vöxtum og málskostnaði. Sé fyrst að þeim vikið en síðan fjallað nánar um hverja kröfu fyrir sig. Stefnandi telur ranglega, sbr. ummæli í áður tilvitnuðum Hæstaréttardómi, að leggja beri virðisaukaskatt á skaðabótakröfu sína. Skaðabætur séu ekki tilgreindar að vera virðisaukaskattskyldar í 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Mál það sem hér sé til úrlausnar skýri þetta vel. Krafist sé skaðabóta vegna þess að stefnandi hafi ekki fengið að sinna því verki sem hann hafði samið um. Ef hann hefði sinnt verkinu hefði lagst virðisaukaskattur á endurgjald fyrir vinnuframlag hans. Framlag hans hefði þá leitt af sér virðisauka á þá vöru sem stefndi endanlega selur viðskiptamönnum sínum. Þar sem stefnandi hafi ekki sinnt þessari vinnu verði vegna vinnu hans enginn virðisauki. Þetta skýrist enn fremur með því að benda á að Birgir Örn Guðjónsson, sem tekið hafi við áfyllingarverki stefnanda, hafi gert stefnda reikning fyrir sitt verk ásamt virðisaukaskatti. Verði stefndi í þessu máli dæmdur til greiðslu virðisaukaskatts til stefnanda þá leiði það til þess að sama vinnan beri tvívegis virðisaukaskatt.
Í öllum tilvikum gerir stefndi kröfu til þess að tildæmdar efndabætur beri vexti skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 en ekki dráttarvexti skv. III. kafla þeirra laga. Rök fyrir þeirri kröfu séu fyrst og fremst þau að stefnandi hafi ávalt þverskallast við að leggja fram í málinu þau gögn og þær upplýsingar, sem þörf hafi verið á til þess að meta fjárhæð bóta, sbr. að sínu leyti 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 og rökstuðning Hæstaréttar fyrir frávísun fyrrgreinds máls nr. 465/1996. Það hafi ekki verið fyrr en 24. október 1997 sem stefnda barst í fyrsta sinn rekstursreikningur stefnanda og í framhaldi af því voru stefnanda boðnar ríflegar efndabætur. Rekstursreikningurinn hafi síðan ekki borist staðfestur af skattyfirvöldum fyrr en 25. febrúar 1998. Augljóst sé í máli þessu að krafa stefnanda geti því ekki borið dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi mánuði eftir að skattframtal staðfest af skattyfirvöldum hafi verið lagt fram. En þá eingöngu í því tilviki að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að bætur þær sem boðnar voru 4. nóvember 1997 reynist hafa verið of lágar.
Stefndi telur að þegar fram boðnar bætur eru hafðar í huga hafi engin þörf verið á málsókn þessari. Beri því stefnanda að greiða stefnda málskostnað skv. a) lið 1. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá ber og að hafa í huga að stefndi telur að stefnandi hafi uppi kröfur er lúta að greiðslu hans á reikningi Bjarna Jóhanns Þórðarsonar og yfirlýsingu hans, sem hvort tveggja sé, að áliti stefnda, tilraun stefnanda til þess að fá stefnda dæmdan til þess að greiða sér hærri fjárhæð en honum beri. Að þessu leyti er vísað til c) liðs 1. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Gerir stefndi kröfu til þess að beitt verði ákvæði 2. mgr. sömu greinar og álag lagt við málskostnaðinn.
Aðalkrafa
Það er meginkrafa stefnda að efndabætur til stefnanda verði ákvarðaðar á grundvelli þeirra upplýsinga sem hann hafi lagt fram með skattframtali sínu vegna tekna ársins 1994. Er á því byggt að stefnanda beri 92.751 kr. fyrir hvern hinna fimm mánuði sem eftir voru samningstímans eða samtals 463.755 kr. Frá þeirri fjárhæð beri síðan að draga aðrar tekjur sem stefnandi hafði á tímabilinu og tilgreindar séu á skattframtali hans þ.e. frá Guðmundi Runólfssyni 54.221 kr. frá Hraðfr. Grundsf. 117.660 kr. og atvinnuleysisbætur 27.271 kr. Reiknist þá efndabætur samtals kr. 264.603 kr. Grunnfjárhæð efndabótanna sé rökstudd í bréfi lögmanns stefnda dags. 4. nóvember 1997 og sé reiknuð út frá rekstrarreikningi stefnda sem nái yfir rekstur hans fyrstu sjö mánuði ársins. Ekkert sé fram komið í málinu sem renni stoðum undir það að stefnandi hefði notið hærri tekna síðustu fimm mánuði ársins 1994 en hann hafði fyrstu sjö mánuðina ef stefndi hefði ekki rift verksamningnum.
Í þessari aðalkröfu stefnda er á því byggt að algerlega sé litið framhjá þætti Bjarna Jóhanns Þórðarsonar í málinu. Verði það hins vegar álit dómsins að taka beri tillit til hans þáttar, og þá talið að stefnandi beri að standa honum skil á einhverjum fjármunum frá stefnda, gerir stefndi þá kröfu að litið verði til varakröfu hans við úrlausn málsins og þau sjónarmið sem hér á eftir verða reifuð í umfjöllun um varakröfu varðandi uppgjör milli stefnanda og Bjarna verði lögð til grundvallar.
Það sé skylda kröfuhafa sem sækir efndabætur að gera það sem í hans valdi standi til þess að takmarka tjón sitt. Í fyrirliggjandi skattframtali stefnanda komi fram að hann hafi notið tekna frá þriðja manni á því tímabili sem hann krefur nú stefnda um efndabætur fyrir. Samkvæmt þeirri meginreglu ber því að draga tekjur þessar frá efndabótum til stefnanda.
Varakrafa
Verði litið svo á að ekki sé unnt að ákvarða stefnanda efndabætur á grundvelli rekstursreiknings hans vegna þess að honum beri að standa Bjarna Jóhanni Þórðarsyni skil á fjármunum, svo sem stefnandi heldur fram, þá krefst stefndi þess að einungis verði miðað við greiðslu til Bjarna í einn mánuð, samtals 90.000 kr. Er byggt á því að réttarsamband milli stefnanda og Bjarna hafi verið vinnuréttarlegs eðlis og að stefndi þurfi ekki að sætta sig við að hann beri ábyrgð á frekari launagreiðslum en sem nemi launum í eins mánaðar uppsagnarfresti Bjarna. Fyrir liggi að Bjarni hafi verið ráðinn til starfa hjá stefnanda í aprílmánuði 1994. Uppsagnarfrestur samkvæmt 1. mgr. í gr. 12.1. kjarasamnings Verslunarmannafélags Reykjavíkur sé í þessu tilviki einn mánuður og beri stefnanda að takmarka tjón sitt og segja Bjarna upp störfum. Þá sé rétt að hafa í huga að enginn skriflegur samningur hafi verið lagður fram á milli stefnanda og Bjarna Jóhanns og beinlínis sé gert ráð fyrir því í verksamningi stefnanda og stefnda að stefnandi ráði til sín starfsmenn en ekki undirverktaka svo sem stefnandi heldur fram að hann hafi gert með Bjarna.
Í varakröfu er eingöngu við það miðað að stefnandi eigi sjálfur rétt á 90.000 kr. fyrir hvern mánuð enda hefur hann sjálfur gert ráð fyrir að helmingur samningsbundinnar þóknunar hefði ekki komið honum til tekna. Þá er krafist frádráttar vegna annarra tekna samkvæmt skattframtali svo sem í aðalkröfu og auk þess krafist að annar kostnaður, svo sem hreingerningaefni, föt, ferðir á vinnustað o.s.frv., verði að álitum metið stefnanda til kostnaðar að fjárhæð 10.000 kr. fyrir hvern mánuð. Þá sé augljóst hvað vaxtaútreikning áhræri að stefnandi hafi ekki lagt fram þau gögn sem sýni að hann hafi staðið Bjarna Jóhanni skil á vöxtum af þeirri greiðslu, sem þeir félagarnir vilja láta líta út fyrir að hafi átt sér stað 23. mars 1998.
Krafa stefnda í varakröfu sundurliðast því þannig:
Áætlaðar tekjur stefnanda í fimm mánuði sem eftir voru samningstímans séu 5 x 90.000 eða samtals 450.000 kr. Við það bætist 90.000 kr. sem honum beri að standa Bjarna Jóhanni skil á í uppsagnarfresti. Frá dragist annar kostnaður sem óhjákvæmilega hefði til fallið á þeim fimm mánuðum sem eftir voru sem ákveðist að álitum 5x 10.000 eða samtals 50.000 kr. Enn fremur dragist frá tekjur stefnanda frá þriðja manni samtals 199.152 kr. Sé þá fundinn höfuðstóll varakröfu: 450.000 + 90.000 50.000 199.152 = 290.848 kr.
Þrautavarakrafa
Í þrautavarakröfu er á því byggt að hvorki verði fallist á röksemdir stefnda í aðal- né varakröfu varðandi kröfur stefnanda sem sprottnar eru af þátttöku Bjarna Jóhanns Þórðarsonar. Sé þá einungis gert ráð fyrir lækkun stefnukrafna um hinn umkrafða virðisaukaskatt, um tekjur stefnanda frá þriðja manni og að tilkostnaður verði ákveðinn að álitum 10.000 kr. fyrir hvern mánuð. Enn fremur sé í þrautavarakröfunni gert ráð fyrir að vextir falli ekki á þann hluta sem stefnandi telur sig hafa greitt Bjarna Jóhanni fyrr en 1. þar næsta mánaðar eftir að sú greiðsla sé sögð hafa verið innt af hendi.
IV
Niðurstaða
Með dómi Hæstaréttar uppkveðnum hinn 2. október 1997 í máli aðila var það staðfest að stefnda hafi verið óheimilt að segja verksamningnum upp og með því hafi stefndi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda. Ekki var þó tekin afstaða til þess hve mikið tjón stefnandi kynni að hafa beðið af völdum samningsslitanna vegna annmarka á kröfugerð stefnanda í málinu.
Stefndi sagði fyrirvaralaust upp verksamningi aðila frá og með 30. júlí 1994, en gildistími hans var til 1. janúar 1995. Ber stefnanda því greiðsla bóta úr hendi stefnda fyrir 5 mánaða tímabil frá 1. ágúst 1994 til 31. desember 1994. Umsamin samningsgreiðsla fyrir verktöku stefnanda var 180.000 kr. á mánuði auk virðisaukaskatts eða alls 224.100 kr. á mánuði. Heildarfjárhæð fyrir 5 mánaða tímabilið er því 1.120.500 kr. Þá fjárhæð hefur stefnandi lækkað um 10.000 kr. sem er áætlaður útlagður kostnaður vegna hreinsiefna. Sú fjárhæð sem stefnandi gerir kröfu til úr hendi stefnda er því að höfuðstól 1.110.500 kr. Krafa stefnanda er um efndabætur vegna verksamnings. Verður stefnandi að standa ríkissjóði skil á virðisaukaskatti af þeirri fjárhæð, þótt verkið hafi í sjálfu sér ekki verið unnið. Ber stefnda því, samkvæmt samningi aðila, að greiða stefnanda virðisaukaskatt á dæmd verklaun.
Samkvæmt verksamningi aðila var stefnanda heimilt að ráða til sín þá starfsmenn sem þörf var á til að skila umsömdu verki, en ágreiningslaust er að allur kostnaður stefnanda af því að efna samninginn að sínu leyti var innifalinn í umsömdum greiðslum. Samkvæmt gögnum máls liggur fyrir að Bjarni J. Þórðarson starfaði sem undirverktaki hjá stefnanda og fékk greidd laun frá stefnanda á tímabilinu apríl-júlí 1994. Telur hann sig eiga kröfu á stefnanda vegna undirverktöku út samningstímabilið samkvæmt framlögðum reikningi. Ber að taka fullt tillit til þess við ákvörðun bóta til handa stefnanda og er ekki fallist á sjónarmið stefnda um það að greiðsla til undirverktakans miðist við einn mánuð. Þá þykja engin efni vera til að lækka bótakröfu til stefnda vegna annarra tekna á tímabilinu, sem ekki liggur fyrir að komið hafi að öllu leyti í stað þeirra tekna, sem stefnandi varð af vegna samningsrofa stefnda. Hins vegar er eftir atvikum fallist á frádrátt vegna annars kostnaðar, sem til hefði fallið við öflun tekna á þeim tíma sem eftir var af samningstímabilinu og stefndi hefur áætlað 50.000 kr.
Samkvæmt framansögðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 1.060.500 kr. (1.110.500-50.000) og með þeim vöxtum sem greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn 240.000 kr.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Hagkaup hf., greiði stefnanda, Guðmundi P. Pálssyni, 1.060.500 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 af 224.100 kr. frá 5. september 1994 til 5. október s.á., af 448.200 kr. frá þeim degi til 5. nóvember s.á., af 672.300 kr. frá þeim degi til 5. desember s.á., af 896.400 kr. frá þeim degi til 5. janúar 1995 og af 1.060.500 kr. frá þeim degi til greiðsludags og 240.000 kr. í málskostnað.