Hæstiréttur íslands

Mál nr. 677/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 20

 

Þriðjudaginn 20. janúar 2009.

Nr. 677/2008.

Rauðará ehf.

(Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.)

gegn

Ingvari Helgasyni ehf.

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Máli R gegn I var vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að slíkir annmarkar væru á reifun þess að ekki væri unnt að leggja efnisdóm á kröfur R.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.  

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Fallast verður á með héraðsdómara að reifun málsins af hendi sóknaraðila sé svo áfátt að vísa verði málinu frá dómi. Niðurstaða hins kærða úrskurðar verður því staðfest.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Rauðará ehf., greiði varnaraðila, Ingvari Helgasyni ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.