Hæstiréttur íslands
Mál nr. 34/2014
Lykilorð
- Líkamstjón
- Kjarasamningur
- Slysatrygging
- Tómlæti
Líkamstjón. Kjarasamningur. Slysatrygging. Tómlæti.
A höfðaði mál gegn V hf. og krafðist viðurkenningar á rétti sínum til greiðslu bóta úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu launþega hjá V hf. vegna vinnuslyss sem hún varð fyrir sem starfsmaður skóla. Talið var ósannað að V hf. hefði verið kunnugt um slysið fyrr en liðinn var ársfrestur samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. V hf. var því sýknað af kröfum A.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2014. Hún krefst þess að viðurkenndur verði réttur sinn til greiðslu bóta úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu launþega hjá stefnda vegna vinnuslyss sem hún varð fyrir 20. janúar 2009 sem starfsmaður […] í Kópavogi. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í 1. mgr. 124. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 er kveðið á um að sá sem rétt eigi til bóta samkvæmt slysatryggingu, sjúkratryggingu eða heilsutryggingu með eða án uppsagnarréttar glati þeim rétti ef krafa er ekki gerð um bætur til félagsins innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á.
Áfrýjandi gekkst á slysdegi, 20. janúar 2009, undir skoðun á slysadeild og greindist þá með brot á hægri ökkla með nokkurri „valgus“ stöðu, en tiltölulega lítil aðlögun var í brotinu að öðru leyti. Áfrýjandi var sett í göngugips, en við endurkomu fjórum og hálfri viku síðar fann hún til töluverðra eymsla og þá var bólga í ökklanum sem og óbreytt lega í brotinu. Var talið rétt að áfrýjandi yrði í gipsi tvær vikur í viðbót og að hún færi í sjúkraþjálfun eftir það. Hún leitaði 4. nóvember 2009 til B, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, og samkvæmt vottorði hans 11. desember sama ár um skoðunina var hún erfið þar sem ökklinn var mjög þrútinn. Voru þá liðnir rúmlega níu mánuðir frá því slysið átti sér stað. Að framansögðu virtu verður að telja að áfrýjandi hafi fengið vitneskju um þau atvik, sem krafa hennar er reist á, þegar hún leitaði til fyrrgreinds sérfræðings.
Samkvæmt almennum sönnunarreglum hvílir á áfrýjanda að sýna fram á hvenær tilkynning um slys það, sem mál þetta er sprottið af, barst stefnda. Gegn andmælum stefnda er ósannað að honum hafi verið kunnugt um slysið fyrr en 27. júní 2011, er lögmaður áfrýjanda spurðist fyrir um hjá stefnda hvort það hefði verið tilkynnt honum. Var þá liðinn sá ársfrestur sem kveðið er á um í 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 11. september sl., er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 17. desember 2012 og þingfestri 8. janúar 2013.
Stefnandi er A, […], en stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að hún eigi rétt til greiðslu bóta úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu launþega frá stefnda vegna vinnuslyss sem hún varð fyrir hinn 20. janúar 2009 sem starfsmaður […] í Kópavogi. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
I.
Helstu málsatvik eru þau að stefnandi starfaði sem skólaliði hjá […] í Kópavogi og slasaðist við störf sín hinn 20. janúar 2009. Tildrög slyssins voru þau að nemandi skólans renndi sér á snjóþotu og lenti á fæti stefnanda með þeim afleiðingum að hún féll en stefnandi sinnti þá útigæslu í frímínútum. Vinnuveitanda stefnanda var strax kunnugt um slysið en stefnandi leitaði m.a. til skólahjúkrunarfræðings. Stefnandi fór strax í kjölfarið á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss og við skoðun kom í ljós að hún hafði ökklabrotnað á hægri ökkla. Var stefnandi með ökklann í gipsi fram í byrjun mars 2009 og var síðan send í sjúkraþjálfun.
Í málinu liggur frammi tilkynning til Vinnueftirlitsins um vinnuslys, dagsett 21. janúar 2009. Þar kemur fram að umrætt atvik hafi átt sér stað kl. 11:30 hinn 20. sama mánaðar. Er tildrögum slyssins lýst þannig að starfsmaðurinn hafi staðið „við á“ gangstíg við norðurhorn skólans og fylgst með nemendum þegar einn nemandi hafi komið niður brekku á snjóþotu og lent á starfsmanninum. Við það hafi starfsmaðurinn fallið og við skoðun og eftir myndatöku hafi komið í ljós að starfsmaðurinn hafði brotnað á hægri ökkla.
Samkvæmt framlögðu læknisvottorði vegna slyss, dagsettu 26. janúar 2010, var stefnandi óvinnufær frá slysdegi til 14. apríl 2009. Stefnandi leitaði til dr. B bæklunarskurðlæknis 4. nóvember 2009 vegna óþæginda frá hægri ökkla, sem hún rakti til umrædds slyss. Fram kemur í vottorði framangreinds bæklunarskurðlæknis, dagsettu 11. desember 2011, að skoðun hans á ökklum stefnanda hafi verið erfið þar sem þeir hafi verið mjög þrútnir. Hreyfigeta og stöðugleiki hafi þó verið innan eðlilegra marka. Stefnandi leitaði aftur til bæklunarskurðlæknis vegna ökklans í júní og september 2010 og í mars, júlí og september 2011. Samkvæmt framangreindu læknisvottorði bæklunarskurðlæknisins varð ekki teljandi bati, hvorki af sprautum né sjúkraþjálfun. Samkvæmt læknabréfi sama læknis var síðasta meðferð hjá honum 9. mars 2011 og er það mat læknisins að á þeim tímapunkti hafi stefnanda mátt vera ljóst að um varanlegar afleiðingar ökklaáverkans væri að ræða.
Í málinu liggur frammi afrit af svonefndri tilkynningu um slys innanlands, á eyðublaði frá stefnda, dagsettu 3. mars 2009. Tilkynningin er undirrituð af C, skólastjóra […] í Kópavogi og er óumdeilt að tilkynningin var send Sjúkratryggingum Íslands og móttekin þar í janúar 2010. Af hálfu stefnda er því haldið fram að framangreind tilkynning hafi aldrei borist honum. Þá liggur frammi svonefnd tilkynning um slys önnur en sjóslys, á eyðublaði frá Sjúkratryggingum Íslands, dagsett 22. janúar 2010 og undirrituð af framangreindum skólastjóra. Ber sú tilkynning með sér að hafa verið móttekin af Sjúkratryggingum Íslands 28. janúar 2010. Jafnframt var slysið tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins hinn 21. janúar 2009. Með bréfi, dagsettu 3. febrúar 2010, féllust Sjúkratryggingar Íslands á að umrætt slys væri bótaskyldur atburður.
Eftir að stefnandi leitaði til lögmanns í júnímánuði 2011 var aflað upplýsinga um tilkynningar um slysið til Sjúkratrygginga Íslands og tryggingarfélagsins. Kom þá í ljós að stefndi kannaðist ekki við að hafa fengið tilkynningu vegna slyssins og kveðst hann ekki hafa fengið þær upplýsingar fyrr en með tölvupósti frá lögmanni stefnanda 27. júní en afrit af tilkynningum, sem sendar voru Sjúkratryggingum Íslands í ársbyrjun 2010, hafi borist honum í tölvupósti 1. júlí sama ár. Ný tilkynning um slys innanlands á eyðublaði frá stefnda er undirrituð af stefnanda 23. nóvember 2011. Er óumdeilt að sú tilkynning ásamt fylgigögnum var móttekin af stefnda.
Í bréfi stefnda til lögmanns stefnanda, dagsettu 20. ágúst 2011, kemur fram sú niðurstaða stefnda að umrætt vinnuslys stefnanda sé ekki bótaskylt úr slysatryggingu Kópavogsbæjar hjá stefnda. Segir þar jafnframt að stefnanda hafi í síðasta lagi verið kunnugt um afleiðingar slyssins hinn 20. febrúar 2009 og því bæri að miða upphaf tilkynningarfrests samkvæmt 124. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, við það tímamark.
Stefnandi skaut ákvörðun stefnda til Úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum sem komst hinn 2. ágúst 2012 að sömu niðurstöðu og stefndi og taldi stefnanda ekki eiga rétt á bótum úr slysatryggingu Kópavogsbæjar hjá stefnda.
Ágreiningslaust er að vinnuveitandi stefnanda var, á þeim tíma sem slysið varð, með gilda slysatryggingu launþega hjá stefnda.
II.
Stefnandi byggir viðurkenningarkröfu sína á því að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að slys stefnanda hafi ekki verið tilkynnt innan rétts tímamarks. Vísar stefnandi því til stuðnings til þess að ljóst sé að vinnuveitandi stefnanda hafi fyllt út tjónstilkynningu til stefnda 3. mars 2009, sem móttekin hafi verið hjá Sjúkratryggingum Íslands 14. og 28. janúar 2010, og þá sé á tilkynningunni einn annar stimpill en ekki er hægt að sjá hverjum hann sé merktur. Samkvæmt upplýsingum frá bæjarlögmanni Kópavogsbæjar mæli reglur bæjarins fyrir um að senda beri tilkynningar um slys strax til tryggingarfélags bæjarins. Séu þannig löglíkur fyrir því að stefndi hafi sjálfur misfarið með tilkynninguna og verði það ekki metið stefnanda til tjóns. Þá kveður stefnandi það ekki vera vinnureglu hjá stefnda að staðfesta móttöku slysatilkynninga með sannanlegum hætti. Sönnunarbyrðina fyrir því að slysið hafi ekki verið tilkynnt fyrr en með aðkomu lögmanns verði því, eins og hér standi á, að leggja á stefnda.
Stefnandi tekur fram að í bréfi sínu frá 20. ágúst 2011 miði stefndi árstímamarkið við 20. febrúar 2009 en á þeim tímapunkti hafi mánuður verið liðinn frá slysi stefnanda, auk þess sem stefnandi hafi þá enn verið í gipsi og því í algjörri óvissu um áhrif slyssins á heilsu sína.
Verði ekki fallist á framangreint byggir stefnandi á því að stefnanda hafi fyrst hinn 9. mars 2011 mátt vera það ljóst að umrætt slys hefði varanlegar afleiðingar. Beri því að miða upphaf tímamarks tilkynningarskyldu við þann dag. Vísar stefnandi að þessu leyti til þess, sem fram kemur í læknisvottorði B bæklunarskurðlæknis frá 7. maí 2012, að 9. mars 2011 sé sá tímapunktur sem stefnanda hafi mátt vera ljóst að um varanlegar afleiðingar væri að ræða og að honum finnist það vera „eðlilegur tímapunktur“. Þá hafi lögmaður stefnanda haft samband við stefnda vegna slyssins í júní 2011 og því sé ljóst að tilkynning um slysið hafi borist innan þeirra tímafresta sem 124. gr. laga nr. 30/2004 kveði á um. Þá liggi fyrir að samkvæmt mati meðferðarlæknis stefnanda hafi stefnandi ekki haft vitneskju um varanlegar afleiðingar slyssins fyrr en í marsmánuði 2011.
Stefnandi kveðst hafa verið félagsmaður í Eflingu-stéttarfélagi á því tímabili þegar krafa hennar stofnaðist. Vísar hún til meginreglu vinnu-, kröfu- og samningaréttar. Samkvæmt 7. kafla í kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags við launanefnd sveitarfélaga, sem verið hafi í gildi er slysið varð, skuli starfsmenn slysatryggðir fyrir dauða eða varanlegri örorku. Vísast um réttindi stefnanda að öðru leiti til ákvæða kjarasamningsins. Jafnframt vísar stefnandi til laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, og laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks o.fl., aðallega 1. gr.
Viðurkenningarkrafa stefnanda er byggð á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og málskostnaðarkrafa á XXI. kafla sömu laga, einkum 129. gr. og 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt er gerð á grundvelli laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum er gert að innheimta og skila virðisaukaskatti af tekjum. Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur aðili og beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum hluta kröfu sinnar úr hendi stefnda. Um varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991.
III.
Stefndi bendir á að ágreiningslaust sé að umrætt vinnuslys hafi verið bótaskylt úr slysatryggingu launþega, sem þá hafi verið í gildi. Eingöngu sé deilt um það, hvort stefnandi hafi tilkynnt slysið nægilega tímanlega til stefnda til að bætur úr þeirri tryggingu kæmu til álita.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að honum hafi fyrst með tölvupósti stefnanda frá 27. júní 2011 orðið kunnugt um að stefnandi hefði orðið fyrir slysi við vinnu og hinn 1. júlí 2011 hefði honum borist tilkynning þess efnis, þ.e. um tveimur og hálfu ári eftir slysið. Tilkynningarfrestur 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 hafi því verið liðinn þegar tilkynningin um vinnuslys var send, hvort sem miðað sé við tölvupóstinn eða formlega tilkynningu á eyðublaði stefnda, dagsetta 23. nóvember 2011.
Stefndi hafnar því að framlögð tilkynning á eyðublaði frá stefnda, sem útfyllt hafi verið af vinnuveitanda stefnanda hinn 3. mars 2009 og send Sjúkratryggingum Íslands eingöngu, geti skoðast sem tilkynning um slys til stefnda sem fáist bætt úr slysatryggingu launþega. Til að gera kröfu um bætur úr þeirri slysatryggingu, hefði þurft að skila inn þar til gerðu eyðublaði til stefnda, útfylltu af vinnuveitanda þar sem tilkynnt væri um vinnuslys. Það hafi hins vegar misfarist þar sem tilkynningin hafi ekki borist stefnda fyrr en um mitt ár 2011.
Tilkynning, sem send sé annað en til stefnda, geti ekki talist tilkynning til stefnda um slys sem fáist bætt úr slysatryggingu launþega, jafnvel þótt tilkynningin sé á eyðublaði stefnda. Hafi stefndi því hvorki haft vitneskju um slysið né að stefnandi kynni hugsanlega að eiga rétt á bótum úr þeirri tryggingu.
Stefndi bendir á, að það hafi verið lögmaður stefnanda sem óskað hafi eftir upplýsingum frá stefnda um það, hvort vinnuveitandi stefnda hefði tilkynnt um vinnuslys. Hafi stefnandi séð ástæðu til þess að senda sérstaka tilkynningu til stefnda og því sjálf ekki litið svo á að tilkynningin til Sjúkratrygginga þjónaði sem tilkynning til stefnda um vinnuslys, þótt hún væri á eyðublaði stefnda. Verði því að líta svo á að túlkun stefnanda að þessu leyti sé sambærileg túlkun stefnda.
Stefnandi vísi í stefnu sinni til þess að hjá stefnda hafi ekki verið í gildi vinnureglur um móttöku tilkynninga. Þá byggi stefnandi á því, að þar sem vinnureglur Kópavogsbæjar mæli fyrir um að strax eigi að senda tilkynningar um slys til tryggingarfélags bæjarins, beri stefndi sönnunarbyrðina fyrir því að slysið hafi ekki verið tilkynnt innan rétts tímamark. Byggi stefnandi jafnframt á því að löglíkur séu fyrir því að stefndi hafi sjálfur misfarið með tilkynninguna.
Stefndi hafnar þessari málsástæðu stefnanda sem rangri og ósannaðri, enda gildi hér almennar sönnunarreglur. Af þeim leiði að stefnanda beri að sanna að slysið hafi verið tilkynnt innan lögbundins frests, enda breyti vinnureglur Kópavogsbæjar ekki sönnunarreglum skaðabótaréttar.
Þar sem engar staðfestingar liggi fyrir um að stefndi hafi móttekið tilkynningu um umrætt slys, hvorki tölvupóstsamskipti né móttökustimpill á tilkynningu, sé ósannað að slysið hafi verið tilkynnt fyrr en sumarið 2011. Í afriti af skírteini slysatryggingu launþega, sem Kópavogsbær hafi fengið sent frá stefnda, sé skýrt kveðið á um að sá sem eigi rétt til bóta glati honum ef hann tilkynni ekki félaginu um kröfu innan árs frá því að hann vissi um þau atvik sem hún er reist á.
Ekki séu löglíkur fyrir því að slysið hafi verið tilkynnt vegna vinnureglna bæjarins. Þvert á móti bendi málsgögn til þess að tilkynningin hafi misfarist og að hún hafi verið send með öðrum gögnum til Sjúkratrygginga Íslands en ekki til stefnda. Á þeim mistökum verði stefnda aldrei gert að bera ábyrgð, heldur sé það vinnuveitandi stefnanda sem það geri, enda séu mistökin hans.
Þar að auki telur stefndi að stefnandi hafi sjálf mátt vita af umræddri tryggingu þar sem hún var hluti af umsömdum ráðningarkjörum hennar. Á stefnanda sjálfri hafi því hvílt sú skylda að kanna rétt sinn hjá vinnuveitanda sínum, þ.m.t. hvort slysið hefði verið tilkynnt, og verði hún að bera hallann af því að hafa ekki gert það.
Stefndi mótmælir þeim skilningi stefnanda að ársfrestur 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 hafi ekki byrjað að líða fyrr en 9. mars 2011 þar sem stefnandi hafi ekki fyrr en þá fengið vitneskju um þau atvik, sem krafa hennar um bætur úr slysatryggingu launþega sé reist á, og því hafi slysið verið tilkynnt innan ársfrestsins.
Stefndi vísar til þess að ákvæði 1. mgr. 124. gr. framangreindra laga hafi að geyma ófrávíkjanlega reglu um réttaráhrif tómlætis vátryggingartaka. Tjónþoli, þ.e. sá sem á rétt til bóta í skilningi 1. mgr. 124. gr., hljóti að teljast hafa vitneskju um þau atvik, sem leiða af sér rétt til bóta úr ákveðnum vátryggingum, þegar afleiðingar slyss séu kunnar. Í því sambandi sé ekki átt við tímamark þegar ljóst er að varanlegar afleiðingar séu að fullu komnar fram, líkt og ráða megi af málatilbúnaði stefnanda. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi fengið vitneskju um þau atvik, sem leiða af sér rétt til bóta úr tryggingunni, strax á slysdegi þegar stefnandi ökklabrotnaði. Hafi henni þá þegar verið kunnar afleiðingar slyssins. Stefndi byggir á því að stefnanda hafi í síðasta lagi mátt vera ljós atvik, sem hún byggi kröfu sína á, tveimur mánuðum eftir tjónsdag. Um það vísar stefndi til upplýsinga, sem fram komi í framlagðri beiðni um sjúkraþjálfun, dagsettri 20. febrúar 2009, um að stefnandi verði 1-2 mánuði að ná upp eðlilegu göngulagi. Af málsgögnum megi hins vegar ráða að hún hafi ekki náð upp eðlilegu göngulagi á þeim tíma og því hafi hún þá haft vitneskju um þau atvik sem gátu leitt til bóta úr slysatryggingunni.
Byggir stefndi á því að í ljósi áverkans og þess að stefnandi náði ekki upp eðlilegu göngulagi 1-2 mánuðum eftir slysið, hafi stefnandi fengið umrædda vitneskju um þau atvik sem leiði af sér rétt til bóta úr slysatryggingunni.
Verði ekki fallist á að miða beri við framangreint tímamark, byggir stefndi á því að stefnandi hafi a.m.k. haft vitneskju um atvik, sem bótakrafa hennar sé reist á, þegar hún leitaði til dr. B bæklunarskurðlæknis 4. nóvember 2009 vegna óþæginda frá hægri ökkla. Hafi ársfresturinn því byrjað að líða eigi síðar en á því tímamarki.
Stefndi kveður ósannað að stefnandi hafi ekki fyrr en 9. mars 2011 fengið vitneskju um þau atvik, sem leiða til bótaréttar úr slysatryggingunni, og hvíli sönnunarbyrðin á stefnanda. Stefndi mótmælir því að framlagt gagn frá B lækni, sem hafi verið aflað einhliða, hafi sönnunargildi í því sambandi. Í samræmi við skýrt orðalag 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004, hafi stefnanda borið að tilkynna stefnda innan árs frá því að henni var kunnugt um atvikin, hygðist hún krefjast bóta vegna tjónsins úr slysatryggingu launþega. Slík krafa hafi ekki verið tilkynnt stefnda fyrr en 1. júlí 2011 og þá fyrst hafi stefndi fengið vitneskju um hver væri vinnuveitandi stefnanda og að til staðar væri slysatrygging launþega, sem gerð væri krafa um bætur úr. Hafi ársfresturinn þá verið löngu liðinn, hvaða tímamark sem miðað sé við.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, og meginreglna vátryggingaréttar. Þá vísar stefndi jafnframt til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV.
Við aðalmeðferð málsins gáfu vitnaskýrslur C, skólastjóri […], og dr. B bæklunarskurðlæknir. Verða skýrslur þeirra raktar eins og þurfa þykir.
Ágreiningslaust er að stefnandi slasaðist við störf sín hjá […] og ökklabrotnaði, svo sem lýst er í stefnu. Fyrir liggur að stefnandi fór samdægurs í kjölfar slyssins á slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss og leiddi skoðun í ljós að hún var ökklabrotin á hægra fæti. Þá er óumdeilt í málinu að umrætt slys er bótaskylt úr slysatryggingu launþega sem var í gildi þegar slysið varð. Hins vegar lýtur ágreiningur málsaðila að því, hvort stefnandi hafi tilkynnt framangreint slys innan þess ársfrests, sem áskilinn er í 2. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Þá er jafnframt um það deilt, við hvaða tímamark eigi að miða upphaf ársfrestsins.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að tilkynningarfrestur samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 hafi verið liðinn þegar stefnda varð fyrst kunnugt um framangreint slys stefnanda, þ.e. þegar stefnda barst tölvupóstur frá lögmanni stefnanda 27. júní 2011. Þá byggir stefndi jafnframt á því að líta verði svo á að stefnandi hafi strax á slysdegi fengið vitneskju um atvik, sem bótakrafa stefnanda er reist á.
Viðurkenningarkrafa stefnanda byggist í fyrsta lagi á því, að löglíkur séu fyrir því að framlögð tjónstilkynning til stefnda, dagsett 3. mars 2009, hafi borist stefnda en síðan misfarist af völdum stefnda sjálfs. Beri stefndi því sönnunarbyrðina fyrir því að tilkynningin hafi ekki borist honum og þar sem sú sönnun hafi ekki tekist, verði að líta svo á að tilkynning um slysið hafi borist stefnda innan ársfrests samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004. Í öðru lagi byggist sýknukrafan á því að miða eigi við 9. mars 2011, við ákvörðun upphafs ársfrests samkvæmt 124. gr. laga nr. 30/2004, enda sé það í samræmi við mat dr. B bæklunarskurðlæknis, sem fram komi í vottorði hans, dagsettu 1. maí 2010, á því hvenær stefnanda hafi mátt vera ljóst að um varanlegar afleiðingar slyssins væri að ræða.
Í 124. gr. laga nr. 30/2004 er mælt fyrir um að sá sem á rétt til bóta samkvæmt slysatryggingu glati þeim rétti ef bótakrafa er ekki gerð á hendur vátryggingarfélaginu „innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á“. Samkvæmt orðanna hljóðan ræðst upphaf frestsins af því tímamarki þegar tjónþoli fær vitneskju um atvik, sem bótakrafa hans er reist á. Er því ekki unnt að líta svo á að ávallt skuli miðað við þann dag, þegar tjónsatburður verður, enda hefði löggjafanum verið í lófa lagið að taka það fram berum orðum í ákvæðinu ef sú hefði verið ætlunin við lagasetninguna. Í athugasemdum með ákvæðinu er vísað um skýringar til athugasemda við 51. gr. frumvarpsins en þar segir að upphaf frestsins miðist við þann tíma þegar vátryggður fékk upplýsingar um þau atvik sem eru tilefni kröfu hans um vátryggingarbætur.
Af gögnum málsins er ljóst að stefnandi leitaði á slysadeild sama dag og hún varð fyrir umræddu slysi. Við skoðun kom í ljós að hún hafði ökklabrotnað á hægri fæti og mun hún hafa verið í gipsi í sex vikur. Þá var stefnandi óvinnufær að fullu frá slysdegi til 14. apríl 2009. Samkvæmt framlögðu læknisvottorði dr. B bæklunarskurðlæknis, dagsettu 11. desember 2011, leitaði stefnandi til hans 4. nóvember 2009 vegna óþæginda frá hægri ökkla sem hún rakti til umrædds slyss. Segir í vottorðinu að skoðun á ökklum stefnanda hafi verið erfið þar sem þeir hafi verið mjög þrútnir en hreyfigeta og stöðugleiki hafi þó verið innan eðlilegra marka. Síðan segir að stefnandi hafi leitað aftur til sama bæklunarlæknis 9. júní 2010 vegna verkja frá hægri ökkla og hafi skoðun verið svipuð og áður, góð hreyfigeta en eymsli verið um innanverðan ökklann. Hafi þá verið ákveðið að gera segulómrannsókn á ökklanum og loks hafi verið sprautað tvisvar í ökklann vegna verkja, þ.e. hinn 21. september 2010 og 9. mars 2011. Í skýrslu sinni hér fyrir dóminum kvað dr. B stefnanda hafa verið með óþægindi í hægri fæti frá því að hún varð fyrir umræddu slysi. Að þessu virtu, og þegar litið er til þess að óumdeilt er að tjón stefnanda verður rakið til þess að nemandi […] renndi sér á snjóþotu á fót stefnanda hinn 20. janúar 2009 með þeim afleiðingum að hún brotnaði á ökkla á hægri fæti, þykir ekki komið fram tilefni til að miða upphaf ársfrestsins samkvæmt 124. gr. laga nr. 30/2004 við annað tímamark en þá dagsetningu, þ.e. þegar tjónsatburður varð. Eins og málið liggur fyrir, þykir engu breyta um þá niðurstöðu þótt í læknisvottorði dr. B bæklunarlæknis, dagsettu 1. maí 2012, komi fram það mat læknisins að honum finnist eðlilegt að miða við að stefnanda hafi mátt vera ljóst að um varanlegar afleiðingar væri að ræða þegar hún kom í síðustu meðferð til læknisins hinn 9. mars 2011.
Samkvæmt gögnum málsins var Vinnueftirlitinu tilkynnt um slys stefnanda hinn 21. janúar 2009 og tilkynning um slysið til Sjúkratrygginga Íslands er dagsett 22. janúar 2010. Eins og áður er rakið liggur jafnframt frammi í málinu tilkynning um slysið á eyðublaði frá stefnda, dagsettu 3. mars 2009. Óumdeilt er að sú tilkynning barst Sjúkratryggingum Íslands og bera móttökustimplar með sér að hún hafi verið móttekin í sama mánuði og slysið varð. Af hálfu stefnda hefur því verið mótmælt að honum hafi borist þessi tilkynning og er af hans hálfu byggt á því að hann hafi fyrst verið upplýstur um að stefnandi hefði orðið fyrir vinnuslysi þegar honum barst fyrirspurn lögmanns stefnanda, dagsett 27. júní 2011, um það, hvort slysið hefði verið tilkynnt til félagsins.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að löglíkur séu fyrir því að umrædd tilkynning hafi verið send stefnda og móttekin af honum og beri stefndi því sönnunarbyrðina fyrir því að svo hafi ekki verið. Vísar stefnandi því til stuðnings m.a. til framlagðs tölvupósts frá Kópavogsbæ um að reglur bæjarins mæli fyrir um að senda eigi slíkar slysatilkynningar til tryggingafélagsins strax og slys verða. Í upphafi vitnaskýrslu sinnar við aðalmeðferð málsins kvaðst C, skólastjóri […], hins vegar ekki muna til þess að hafa haft samband við stefnda vegna slyssins og tók hún fram að verklagsreglum skólans vegna slysatilkynninga hafa verið breytt í kjölfar þessa atviks. Nánar aðspurð, taldi vitnið líklegt að hún hefði sent stefnda umrædda tilkynningu á eyðublaði frá stefnda en tók fram að hún gæti þó ekki fullyrt neitt um það. Að þessu virtu og jafnframt þegar litið er til yfirlýsingar stefnda um að honum hafi ekki borist tilkynningin og þess að óumdeilt er að umrædd tilkynning var send Sjúkratryggingum Íslands, verður ekki fallist á það með stefnanda að löglíkur séu fyrir því að tilkynningin hafi borist stefnda. Þegar litið er til framlagðra gagna þykir því verða að miða við að stefndi hafi fyrst verið upplýstur um að stefnandi hefði orðið fyrir umræddu vinnuslysi með framangreindri fyrirspurn lögmanns stefnanda 27. júní 2011. Var þá liðið meira en ár frá því tímamarki, sem hér að framan var talið rétt að miða við að þessu leyti, þ.e. frá því að slysið varð. Er það því niðurstaða dómsins að stefnandi eigi ekki rétt á bótum úr slysatryggingu launþega hjá stefnda. Verður því, þegar af framangreindum ástæðum, að sýkna stefnda af viðurkenningarkröfu stefnanda.
Eftir atvikum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af viðurkenningarkröfu stefnanda, A, í máli þessu.
Málkostnaður fellur niður.